Print

Mál nr. 277/2011

Lykilorð
  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Réttindaröð
  • Forgangskrafa
  • Innstæða
  • Lánssamningur
  • Stjórnarskrá
  • Eignarréttur
  • Afturvirkni
  • Jafnræði
  • Meðalhóf
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Lagaskil
  • Samningsvextir
  • Dráttarvextir
  • Sératkvæði

Föstudaginn 28. október 2011.

Nr. 277/2011

Glitnir banki hf.

(Steinunn Guðbjartsdóttir hrl.)

gegn

Norfolk County Council

(Ólafur Eiríksson hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Réttindaröð. Forgangskrafa. Innstæða. Lánssamningur. Stjórnarskrá. Eignarréttur. Afturvirkni. Jafnræði. Meðalhóf. Mannréttindasáttmáli Evrópu. Lagaskil. Samningsvextir. Dráttarvextir. Sératkvæði.

Bankinn G hf. kærði úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem krafa breska sveitarfélagsins N var talin innstæða og viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slit G hf. Í dómi Hæstaréttar sagði að aðila málsins greindi ekki á um stjórnskipulegt gildi 6. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., en við flutning málsins í héraði hefði lögmaður sóknaraðila vakið máls á því að hann teldi  dómstólum skylt að fjalla um stjórnskipulegt gildi ákvæðisins, sbr. einnig lög nr. 44/2009 um breyting á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, til dæmis varðandi eignarrétt, jafnræði og meðalhóf. Í samræmi við þetta væri í hinum kærða úrskurði fjallað um stjórnskipulegt gildi laganna og þau ekki talin fara í bága við stjórnarskrána að þessu leyti. Þá sagði í dómi Hæstaréttar að í máli þessu og tíu öðrum að auki sem í september 2011 hefðu verið flutt fyrir Hæstarétti, ýmist munnlega eða skriflega, reyndi á stjórnskipulegt gildi 6. gr. laga nr. 125/2008. Í einu þeirra, hæstaréttarmálinu nr. 340/2011, væri haldið fram málsástæðum um annmarka á lögum nr. 125/2008, en dómur í því hefði verið kveðinn upp fyrr sama dag. Í kafla II í nefndum dómi væri gerð grein fyrir efni laga nr. 125/2008 og tilfærð orðrétt 6. gr. þeirra, sem ágreiningur málsaðila í því máli stæði einkum um, en með henni hefði réttindaröð krafna við skipti á búum fjármálafyrirtækja verið breytt þannig að innstæðukröfum væri skipað sem forgangskröfum samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Í sama kafla dómsins væri getið um yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á þremur stærstu viðskiptabönkum landsins í beinu framhaldi af setningu laganna og stofnun nýrra banka á grunni þeirra eldri. Loks væru í þessum kafla dómsins rakin sjónarmið sóknaraðila um stjórnskipulega annmarka á lögum nr. 125/2008, sem ættu að leiða til þess að þau yrðu virt að vettugi við úrlausn málsins og gagnstæð sjónarmið varnaraðila þess máls, sem teldu að lögin samræmdust bæði stjórnarskránni og fjölþjóðlegum samningum sem Ísland hefði undirgengist. Í kafla III í áðurnefndum dómi væri gerð grein fyrir lögskýringargögnum með frumvarpi, sem orðið hefði að lögum nr. 125/2008, að því marki sem máli skipti við úrlausn um ágreining aðilanna. Þar greindi ennfremur frá því að í lok árs 2008 hefðu verið sett lög nr. 142/2008 um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða og þeim niðurstöðum rannsóknarnefndar á vegum Alþingis sem skiptu máli hér. Í kafla IV í áðurnefndum dómi væri síðan leyst úr ágreiningi um stjórnskipulegt gildi laga nr. 125/2008 þar sem hafnað væri málsástæðum sem reistar væru á því að lögin færu í bága við stjórnarskrána og fjölþjóðlega samninga. Umfjöllun í köflum II og III í dómi Hæstaréttar í máli nr. 340/2011 ætti jafnt við í því máli, sem hér væri til úrlausnar, og jafnframt niðurstöður í kafla IV í dóminum. Ættu almenn sjónarmið sem þar væru rakin einnig við í þessu máli og samkvæmt því færu lögin ekki í bága við stjórnarskrá og fjölþjóðlega samninga.

Í dómi Hæstaréttar sagði að ágreiningur aðila sneri einkum að því hvort viðskipti þeirra gætu talist innstæður samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta og nytu þar með forgangs við slit G hf. Meðal þeirra málsástæðna sem G hf. hefði fært fram til stuðnings þeirri afstöðu sinni að viðskipti hans og CDC hefði verið lánssamningur eða verðbréf en ekki innstæða væri að G hf. hefði ekki bókfært umrædd viðskipti líkt og um innstæður væri að ræða. Þá hefði G hf. ekki innt af hendi þær greiðslur til Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta sem honum hefði borið ef um innstæður væri að ræða. Í dómi Hæstaréttar sagði að þess væri að gæta að afstaða fjármálafyrirtækis við bókfærslu einstakra viðskipta og ákvörðun þess um greiðslur í Tryggingasjóð innstæðueigenda og fjárfesta gæti ekki ráðið úrslitum um það hvort viðskipti þau sem deilt væri um teldust innstæður í skilningi íslensks réttar. Að þessu virtu, sbr. einnig dóm Hæstaréttar í máli nr. 311/2011, sem kveðinn hefði verið upp fyrr sama dag, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar yrði staðfest sú niðurstaða hans að kröfur N á hendur G hf. ættu rætur að rekja til innstæðna og njóti forgangs við slit G hf. samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 og að sá forgangur takmarkaðist ekki við 20.887 evrur, sbr. einnig til hliðsjónar fyrrnefndan dóm Hæstaréttar í máli nr. 340/2011.

Þá greindi málsaðila á um hvort kröfur sem N hefði lýst við slit sóknaraðila að skyldu bera 8% dráttarvexti frá gjalddaga til 22. apríl 2009. Um þetta sagði í dómi Hæstaréttar að með fyrrnefndum dómi réttarins í máli nr. 311/2011 hefði verið leyst úr sambærilegu ágreiningsefni, en þar hefði sams konar málsástæðum verið teflt fram varðandi þetta atriði. Með vísan til forsendna dóms Hæstaréttar í því máli, sem ættu að þessu leyti við um það mál sem hér væri til úrlausnar, yrði hafnað þeirri kröfu N að fyrrgreindar kröfur skyldu bera 8% dráttarvexti frá gjalddaga til 22. apríl sama ár. Samkvæmt þessu og þar sem N þætti ekki hafa sýnt fram á að hann ætti á öðrum lagagrundvelli rétt til vaxta frá og með gjalddaga umfram 5,34% samningsvexti í tilviki fyrri kröfunnar og 6,0% samningsvexti í tilviki þeirrar seinni, sem slitastjórn G hf. hefði þegar fallist á að ættu við á þessu tímabili, yrðu frekari vextir ekki dæmdir. Samkvæmt öllu framangreindu var niðurstaða málsins sú að viðurkenndar voru kröfur N samtals að fjárhæð 1.528.501.760 krónur og var þeim skipað í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Jón Steinar Gunnlaugsson og Þorgeir Örlygsson og Eggert Óskarsson héraðsdómari og Hjördís Hákonardóttir fyrrverandi hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. apríl 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. apríl 2011, þar sem tvær kröfur varnaraðila að fjárhæð 2.610.457,53 sterlingspund með 8% ársvöxtum frá 19. nóvember 2008 til 22. apríl 2009 og 5.300.000 sterling­s­pund með 8% ársvöxtum frá 20. mars 2009 til 22. apríl sama ár voru viðurkenndar sem forgangskröfur samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slit sóknaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess að áðurnefndum kröfum varnaraðila, sem lýst var með fjárhæðunum 2.892.929,14 sterlingspund og 5.422.024,56 sterlingspund, verði hafnað sem forgangskröfum samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 við slit sóknaraðila. Þess í stað verði staðfest sú afstaða sóknaraðila að viðurkenna sem almennar kröfur samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 fyrrnefndu kröfuna að fjárhæð 2.500.000 sterlingspund með 5,34% samningsvöxtum frá 22. janúar 2008 til 22. apríl 2009 og síðarnefndu kröfuna að fjárhæð 5.000.000 sterlingspund með 6% samningsvöxtum frá 22. mars 2008 til 22. apríl 2009. Til vara krefst sóknaraðili að verði niðurstaðan sú að hluti krafna varnaraðila njóti forgangs samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 þá skuli sú fjárhæð vera að hámarki 20.887 evrur. Sóknaraðili krefst einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

I

Samkvæmt heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., tók Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar í sóknaraðila, vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd. Bankanum var eftir það veitt heimild til greiðslustöðvunar með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember sama ár. Með lögum nr. 44/2009, þar sem breytt var nokkrum ákvæðum áðurnefndra laga, var bankinn síðan tekinn til slita og skyldi upphaf þeirra miðast við 22. apríl 2009 þegar lögin öðluðust gildi. Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði 12. maí sama ár slitastjórn sem annast meðal annars meðferð krafna á hendur bankanum. Hún gaf út innköllun til skuldheimtumanna félagsins 26. maí 2009 og lauk kröfulýsingarfresti 26. nóvember sama ár. Fjölmargir lýstu kröfu sinni af því tilefni, en meðal þeirra var varnaraðili þessa máls, sem er sveitarfélag í Bretlandi. Hann krafðist þess fyrir slitastjórn að höfuðstóll tveggja krafna hans yrði viðurkenndur sem forgangskröfur samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sem og vextir af þeim. Þær eru til komnar í fyrsta lagi með þeim hætti að 22. janúar 2008 sömdu málsaðilar um að varnaraðili skyldi leggja 2.500.000 sterlingspund inn til sóknaraðila og skyldi sá síðarnefndi endurgreiða þá fjárhæð 19. nóvember sama ár með 5,34% ársvöxtum. Í annan stað sömdu aðilarnir 26. febrúar 2008 um að varnaraðili skyldi 20. mars sama ár leggja 5.000.000 sterlingspund inn til sóknaraðila sem bar að endurgreiða þá fjárhæð 20. mars 2009 með 6,0% ársvöxtum. Varnaraðili krafðist jafnframt að frá gjalddaga krafnanna til 22. apríl 2009 skyldi sóknaraðili greiða dráttarvexti af þeim. Reisti hann þá kröfu aðallega á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, en til vara á reglum bresks réttar um dráttarvexti. Loks krafðist hann að fá greiddan áfallinn kostnað sinn til 22. apríl 2009 og að sá kostnaður yrði viðurkenndur sem forgangskrafa.

Að loknum kröfulýsingarfresti lýsti slitastjórn sóknaraðila afstöðu sinni til einstakra krafna. Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði samþykkti hún höfuðstól áðurnefndra krafna varnaraðila sem almennar kröfur samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, en hafnaði að þær nytu forgangs samkvæmt 112. gr. laganna. Kröfum um vexti og kostnað var hafnað vegna vanreifunar. Varnaraðili mótmælti þessari afstöðu slitastjórnar og krafðist viðurkenningar krafna sinna að fullu eins og þeim hafði verið lýst. Fyrir slitastjórn var eftir það reynt án árangurs að jafna ágreininginn. Við svo búið beindi hún málinu til Héraðsdóms Reykjavíkur með bréfi 22. mars 2010 með vísan til 2. mgr. 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991.

Ágreiningur málsaðila á rót sína að rekja til áðurnefndra laga nr. 125/2008 sem sett voru 6. október 2008, en öðluðust gildi daginn eftir. Með fyrrnefndum viðskiptum aðilanna lagði varnaraðili fé til sóknaraðila, sem ýmist hefur verið nefnt heildsölulán eða heildsöluinnlán. Ágreiningsefnið lýtur einkum að því hvort þessar kröfur varnaraðila teljist vera innstæður í merkingu 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta og njóti sem slíkar forgangs samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 6. gr. laga nr. 125/2008. Ef fallist yrði á stöðu krafnanna í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 deila aðilarnir um hvort forgangur fylgi kröfunum í heild eða takmarkist við 20.887 evrur. Í hinum kærða úrskurði var fallist á að kröfur varnaraðila hefðu í heild stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Þá deila aðilar um hvort varnaraðili eigi rétt til dráttarvaxta frá gjalddaga krafnanna til 22. apríl 2009. Í þeim þætti var í úrskurði héraðsdóms fallist á varakröfu varnaraðila um 8% dráttarvexti samkvæmt breskum rétti. Á hinn bóginn var hafnað kröfum hans vegna útlagðs kostnaðar og málskostnaðar. Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og koma því tvær síðastnefndu kröfur hans fyrir héraðsdómi ekki til frekari álita.

II

Aðila þessa máls greinir ekki á um stjórnskipulegt gildi 6. gr. laga nr. 125/2008, en við flutning málsins í héraði vakti lögmaður sóknaraðila máls á því að hann teldi  dómstólum skylt að fjalla um stjórnskipulegt gildi ákvæðisins, sbr. einnig lög nr. 44/2009 um breyting á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, til dæmis varðandi eignarrétt, jafnræði og meðalhóf. Í samræmi við þetta var í hinum kærða úrskurði fjallað um stjórnskipulegt gildi laganna og þau ekki talin fara í bága við stjórnarskrána að þessu leyti.

Í máli þessu og tíu öðrum að auki sem í september 2011 voru flutt fyrir Hæstarétti, ýmist munnlega eða skriflega, reynir á stjórnskipulegt gildi 6. gr. laga nr. 125/2008. Í einu þeirra, hæstaréttarmálinu nr. 340/2011, er haldið fram málsástæðum um annmarka á lögum nr. 125/2008, en dómur í því hefur verið kveðinn upp fyrr í dag. Í kafla II í nefndum dómi er gerð grein fyrir efni laga nr. 125/2008 og tilfærð orðrétt 6. gr. þeirra, sem ágreiningur málsaðila í því máli stendur einkum um, en með henni var réttindaröð krafna við skipti á búum fjármálafyrirtækja breytt þannig að innstæðukröfum var skipað sem forgangskröfum samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Í sama kafla dómsins var getið um yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á þremur stærstu viðskiptabönkum landsins í beinu framhaldi af setningu laganna og stofnun nýrra banka á grunni þeirra eldri. Loks eru í þessum kafla dómsins rakin sjónarmið sóknaraðila um stjórnskipulega annmarka á lögum nr. 125/2008, sem ættu að leiða til þess að þau yrðu virt að vettugi við úrlausn málsins og gagnstæð sjónarmið varnaraðila þess máls, sem telja að lögin samræmist bæði stjórnarskránni og fjölþjóðlegum samningum sem Ísland hefur undirgengist. Í kafla III í áðurnefndum dómi er gerð grein fyrir lögskýringargögnum með frumvarpi, sem varð að lögum nr. 125/2008, að því marki sem máli skiptir við úrlausn um ágreining aðilanna. Þar greinir ennfremur frá því að í lok árs 2008 voru sett lög nr. 142/2008 um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða og þeim niðurstöðum rannsóknarnefndar á vegum Alþingis sem skipta máli hér. Í kafla IV í áðurnefndum dómi er síðan leyst úr ágreiningi um stjórnskipulegt gildi laga nr. 125/2008 þar sem hafnað er málsástæðum sem reistar eru á því að lögin fari í bága við stjórnarskrána og fjölþjóðlega samninga. Umfjöllun í köflum II og III í dómi Hæstaréttar í máli nr. 340/2011 á jafnt við í því máli, sem hér er til úrlausnar, og jafnframt niðurstöður í kafla IV í dóminum. Eiga almenn sjónarmið sem þar eru rakin einnig við í þessu máli og samkvæmt því fara lögin ekki í bága við stjórnarskrá og fjölþjóðlega samninga.

III

Ágreiningur málsaðila snýr einkum að því hvort viðskipti þeirra geti talist innstæður samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 og njóti þar með forgangs við slit sóknaraðila samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 svo sem henni var breytt með 6. gr. laga nr. 125/2008 og 6. gr. laga nr. 44/2009. Meðal þeirra málsástæðna sem sóknaraðili hefur fært fram til stuðnings þeirri afstöðu sinni að viðskipti hans og varnaraðila hafi verið lánssamningur eða verðbréf en ekki innstæða er að sóknaraðili hafi ekki bókfært umrædd viðskipti líkt og um innstæður væri að ræða. Þá hafi sóknaraðili ekki innt af hendi þær greiðslur til Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta sem honum hefði borið ef um innstæður væri að ræða. Af þessu tilefni er þess að gæta að afstaða fjármálafyrirtækis við bókfærslu einstakra viðskipta og ákvörðun þess um greiðslur í Tryggingasjóð innstæðueigenda og fjárfesta getur ekki ráðið úrslitum um það hvort viðskipti þau sem deilt er um teljist innstæður í skilningi íslensks réttar. Að þessu virtu, sbr. einnig dóm Hæstaréttar í máli nr. 311/2011, sem kveðinn var upp fyrr í dag, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest sú niðurstaða hans að kröfur varnaraðila á hendur sóknaraðila eigi rætur að rekja til innstæðna og njóti forgangs við slit sóknaraðila samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 og að sá forgangur takmarkist ekki við 20.887 evrur, sbr. einnig til hliðsjónar fyrrnefndan dóm Hæstaréttar í máli nr. 340/2011.

IV

Eins og fram er komið greinir málsaðila á um hvort kröfur sem varnaraðili lýsti við slit sóknaraðila að höfuðstól 2.500.000 sterlingspund annars vegar og 5.000.000 sterlingspund hins vegar skuli bera 8% dráttarvexti frá gjalddaga til 22. apríl 2009. Með hinum kærða úrskurði var fallist á varakröfu varnaraðila að þessu leyti en aðalkröfu hans um dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 hafnað. Varnaraðili kærði ekki úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og er ágreiningslaust fyrir Hæstarétti að beita ber breskum lagareglum við úrlausn þessa atriðis. Hins vegar deila aðilar um það hvort efni þeirra lagareglna veiti varnaraðila rétt til 8% dráttarvaxta á fyrrgreindu tímabili. Með fyrrnefndum dómi Hæstaréttar í máli nr. 311/2011 var leyst úr sambærilegu ágreiningsefni, en þar hafði sams konar málsástæðum verið teflt fram varðandi þetta atriði. Með vísan til forsendna dóms Hæstaréttar í því máli, sem eiga að þessu leyti við um það mál sem hér er til úrlausnar, verður hafnað þeirri kröfu varnaraðila að kröfur hans skuli bera 8% dráttarvexti frá gjalddaga til 22. apríl 2009. Samkvæmt þessu og þar sem varnaraðili þykir ekki hafa sýnt fram á að hann eigi á öðrum lagagrundvelli rétt til vaxta frá og með gjalddaga umfram 5,34% samningsvexti í tilviki fyrri kröfunnar og 6,0% samningsvexti í tilviki þeirrar seinni, sem slitastjórn sóknaraðila hefur þegar fallist á að eigi við á þessu tímabili, verða frekari vextir ekki dæmdir.

V

Samkvæmt öllu sem að framan greinir verður staðfest sú niðurstaða hins kærða úrskurðar að viðurkenna sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 kröfu varnaraðila samkvæmt samningi 22. janúar 2008 að höfuðstól 2.500.000 sterlingspund með 5,34% samningsvöxtum til 22. apríl 2009, sem umreiknast í samtals 510.117.588 krónur miðað við gengi 22. apríl 2009, sbr. 3. mgr. 99. gr. laga nr. 21/1991. Hinu sama gegnir um aðra kröfu varnaraðila frá 20. mars 2008 að höfuðstól 5.000.000 sterlingspund en með 6,0% samningsvöxtum til 22. apríl 2009, sem umreiknast í samtals 1.018.384.172 krónur. Viðurkennd fjárhæð verður dæmd í einu lagi og tilgreind í íslenskum krónum eins og nánar segir í dómsorði.

Fyrir héraðsdómi var hvor málsaðili látinn bera sinn kostnað af málinu með skýringum, sem greinir í forsendum úrskurðar héraðsdóms. Sú niðurstaða verður staðfest með vísan til forsendna hans. Í meginatriðum eiga sömu sjónarmið einnig við að því er varðar málskostnað fyrir Hæstarétti. Að því virtu verður hvor málsaðili látinn bera sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Kröfur varnaraðila, Norfolk County Council, samtals að fjárhæð 1.528.501.760 krónur, eru viðurkenndar á hendur sóknaraðila, Glitni banka hf., við slit hans. Kröfunum er skipað í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað er staðfest.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Sératkvæði

Jóns Steinars Gunnlaugssonar

Svo sem fram kemur í II. kafla atkvæðis meirihlutans er þetta eitt af ellefu málum sem flutt voru í september 2011 og snerta ágreining um hvort 6. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. hafi verið gild heimild til að viðurkenndur yrði á grundvelli hennar forgangur krafna, sem taldar eru innstæður í skilningi ákvæðisins, við slit á Landsbanka Íslands hf. og Glitni banka hf.

Í því máli sem hér er til dóms stendur svo á að hvorugur málsaðila heldur því fram að framangreint lagaákvæði verði ekki vegna 72. gr. stjórnarskrár lagt til grundvallar við slit sóknaraðila Glitnis banka hf. Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði var kröfu varnaraðila Norfolk County Council ekki aðeins mótmælt af sóknaraðila, þegar ágreiningurinn kom fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur, heldur einnig af tveimur hópum kröfuhafa við slitin, sem annar var kenndur við Bayerishe Landesbank o.fl. en hinn við ACMO Sarl o.fl. Þessir aðilar höfðu einnig mótmælt kröfu varnaraðila og krafist staðfestingar á ákvörðun sóknaraðila um að hafna forgangsrétti hennar við slit bankans. Höfðu þeir skilað greinargerðum þar sem þeir byggðu þessi mótmæli sín meðal annars á því að 6. gr. laga nr. 125/2008, sbr. síðari breytingar á ákvæðinu, væri ekki að stjórnlögum gild heimild fyrir forgangsrétti kröfu varnaraðila við slit sóknaraðila. Vísuðu þeir þá til 72. gr. stjórnarskrár og höfðu uppi um þetta sams konar málflutning og hafður var uppi í máli nr. 340/2011 og átta öðrum málum vegna slita Landsbanka Íslands hf. sem dæmd eru í Hæstarétti samhliða þessu máli.

Á dómþingi í málinu 13. janúar 2011 vakti héraðsdómari athygli málsaðila á dómi Hæstaréttar 7. janúar 2011 í máli nr. 638/2010, þar sem því var hafnað að kröfuhafar, sem una vildu afstöðu slitastjórnar Landsbanka Íslands hf. í því máli og gerðu kröfu um staðfestingu á henni, gætu átt málsaðild. Við næstu fyrirtöku málsins 1. febrúar 2011 féllu síðan fyrrgreindir kröfuhafar frá aðild sinni að málinu, eins og þetta er bókað í þingbókina. Af þessu er ljóst að þeir felldu niður aðild sína á þeirri forsendu að hún væri andstæð lögum samkvæmt nefndum dómi Hæstaréttar 7. janúar 2011. Í dómum Hæstaréttar í dag felst að fallið er frá þeirri afstöðu um aðildina sem hafði ráðið niðurstöðunni í máli nr. 638/2010. Vísast til þess sem um þetta segir í sératkvæði mínu í málinu nr. 340/2011. Við þessar aðstæður, og með hliðsjón af því að þessir kröfuhafar hafa beina lögvarða hagsmuni af úrslitum málins, tel ég rétt að beita 3. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og líta til fyrrgreindra varna þessara tveggja hópa kröfuhafa við úrlausn málsins. Tel ég að á þessum grundvelli beri að leysa úr því í þessu máli, eins og gert er í máli nr. 340/2011 og átta öðrum málum sem varða slit Landsbanka Íslands hf. og dæmd eru í dag, hvort 72. gr. stjórnarskrár standi því í vegi að 6. gr. laga nr. 125/2008 verði beitt við skipti sóknaraðila, þrátt fyrir að hvorugur málsaðila haldi þessu fram.

Í dómum Hæstaréttar í dag í öllum framangreindum málum er komist að þeirri niðurstöðu að viðurkenna beri forgangsrétt innlána á grundvelli nefnds lagaákvæðis. Þessari niðurstöðu er ég ósammála og geri grein fyrir forsendum þeirrar afstöðu með sératkvæði í máli nr. 340/2011. Í þessu máli er ég einnig ósammála meirihluta réttarins og tel að taka eigi til greina kröfu sóknaraðila Glitnis banka hf. um að hafna viðurkenningu á forgangsrétti kröfu varnaraðilans Norfolk County Council við slit sóknaraðila. Vísast til sératkvæðis míns í málinu nr. 340/2011 um rökstuðning fyrir þeirri niðurstöðu.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. apríl 2011.

I

Mál þetta var þingfest 23. júní 2010 og tekið til úrskurðar 11. mars 2011.  Sóknar­aðili er Norfolk County Council, Bretlandi, en varnaraðili er Glitnir banki hf., Sóltúni 26, Reykjavík

Aðalkröfur sóknaraðila eru:

a)       Að krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila að fjárhæð 2.500.000 sterlingspund með 5,34% samningsvöxtum frá 22. janúar 2008 til og með 18. nóvember 2008, samtals að fjárhæð 2.610.457,53 sterlingspund verði samþykkt sem forgangs­krafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Að krafa sóknaraðila um dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 19. nóvember 2008 til og með 22. apríl 2009, samtals að fjárhæð 280.177,19 sterlingspund verði staðfest sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, en verði ekki fallist á það er þess til vara krafist hvað þennan lið varðar að krafa um 8% vanskila­vexti fyrir sama tímabil í samræmi við 17. kafla enskra réttarfarslaga (e. English Judgments Alt 1838), samtals að fjárhæð 88.684 sterlingspund, verði stað­fest sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, en verði ekki fallist á það er þess til þrautavara kraf­ist hvað þennan lið varðar að krafa um 5,34% samningsvexti fyrir sama tíma­bil, samtals að fjárhæð 59.197 sterlingspund, verði staðfest sem forgangs­krafa sam­kvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, en verði ekki fallist á það er þess til þrautaþrautavara krafist hvað þenn­an lið varð­ar að vextir að álitum verði staðfestir sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002.

Að krafa sóknaraðila um áfallinn kostnað til og með 22. apríl 2009, samtals að fjár­hæð 2.294,42 sterlingspund auk virðisaukaskatts, verði samþykkt sem for­gangs­­krafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002.

b)       Að krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila að fjárhæð 5.000.000 sterlingspunda með 6% samningsvöxtum frá 20. mars 2008 til og með 19. mars 2009, samtals að fjárhæð 5.300.000 sterlingspund, verði samþykkt sem forgangs­krafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002.

Að krafa sóknaraðila um dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 20. mars 2009 til og með 22. apríl 2009, samtals að fjárhæð 120.230,14 sterlingspund verði staðfest sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, en verði ekki fallist á það er þess til vara krafist hvað þennan lið varðar að krafa um 8% vanskilavexti fyrir sama tímabil í samræmi við 17. kafla enskra réttarfarslaga (e. English Judgments Act 1838), samtals að fjárhæð 39.496 sterlingspund verði staðfest sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, en verði ekki fallist á það er þess til þrautavara krafist hvað þennan lið varðar að krafa um 6% samningsvexti fyrir sama tímabil, samtals að fjárhæð 29.622 sterlingspund verði staðfest sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, en verði ekki fallist á það er þess til þrautaþrautavara krafist hvað þennan lið varðar að vextir að álitum verði staðfestir sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002.

Að krafa sóknaraðila um áfallinn kostnað til og með 22. apríl 2009, samtals að fjárhæð 1.794,42 sterlingspund auk virðisaukaskatts, verði samþykkt sem for­gangs­krafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002.

Varakröfur sóknaraðila eru:

a)       Að krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila að fjárhæð 2.500.000 sterlingspund með 5,34% samningsvöxtum frá 22. janúar 2008 til og með 18. nóvember 2008, samtals að fjárhæð 2.610.457,53 sterlingspund, verði samþykkt sem almenn krafa sam­kvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

Að krafa sóknaraðila um dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 19. nóvember 2008 til og með 22. apríl 2009 samtals að fjárhæð 280.177,19 sterlingspund, verði staðfest sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, en verði ekki fallist á það er þess til vara krafist hvað þennan lið varðar að krafa um 8% vanskilavexti fyrir sama tímabil í samræmi við 17. kafla enskra réttarfarslaga (e. English Judgments Act 1838), samtals að fjárhæð 88.684 sterlingspund, verði staðfest sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, en verði ekki fallist á það er þess til þrautavara krafist hvað þennan lið varðar að krafa um 5,34% samningsvexti fyrir sama tímabil, samtals að fjárhæð 59.197 sterlingspund, verði staðfest sem almenn krafa sam­kvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, en verði ekki fallist á það er þess til þrauta­þrauta­vara krafist hvað þennan lið varðar að vextir að álitum verði staðfestir sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

Að krafa varnaraðila um áfallinn kostnað til og með 22. apríl 2009, samtals að fjárhæð 2.294,42 sterlingspund auk virðisaukaskatts, verði samþykkt sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

b)       Að krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila að fjárhæð 5.000.000 sterlingspunda með 6% samningsvöxtum frá 20. mars 2008 til og með 19. mars 2009, samtals að fjárhæð 5.300.000 sterlingspund, verði samþykkt sem almenn krafa sam­kvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

Að krafa sóknaraðila um dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 20. mars 2009 til og með 22. apríl 2009, samtals að fjárhæð 120.230,14 sterlingspund verði staðfest sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, en verði ekki fallist á það er þess til vara krafist hvað þennan lið varðar að krafa um 8% vanskilavexti fyrir sama tímabil í samræmi við 17. kafla enskra réttarfarslaga (e. English Judgments Act 1838), samtals að fjárhæð 39.496 sterlingspund verði staðfest sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, en verði ekki fallist á það er þess til þrautavara krafist hvað þennan lið varðar að krafa um 6% samningsvexti fyrir sama tímabil, samtals að fjárhæð 29.622 sterlingspund verði staðfest sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, en verði ekki fallist á það er þess til þrautaþrautavara krafist hvað þennan lið varðar að vextir að álitum verði staðfestir sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

Að krafa varnaraðila um áfallinn kostnað til og með 22. apríl 2009, samtals að fjár­hæð 1.794,42 sterlingspund auk virðisaukaskatts, verði samþykkt sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

Sóknaraðili krefst þess að honum verði, bæði í aðal- og varakröfum, úrskurðaður máls­­kostn­aður úr hendi varnaraðila, auk virðisaukaskatts af málskostnaði.

Dómkröfur varnaraðila eru:

a)       Aðallega að kröfu sóknaraðila, nr. CL20091121-1866 í kröfuskrá að lýstri fjárhæð 2.892.929,14 sterlingspund sem umreiknast í kröfuskrá í 552.780.900 krónur verði hafnað sem forgangskröfu, samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slitameðferð varnaraðila og staðfest verði sú afstaða slitastjórnar varnaraðila að samþykkja höfuðstól kröfunnar að fjárhæð 2.500.000 sterlingspund sem umreiknast í kröfuskrá í 477.700.000 krónur sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 auk 5,34% vaxta frá 22. janúar 2008 til 22. apríl 2009 að fjárhæð 31.957.334 krónur.

Varnaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu sóknaraðila um áfallinn kostnað til og með 22. apríl 2009 að fjárhæð 1.794,42 sterlingspund sem umreiknast í 342.878 krónur vegna ofangreindrar kröfu.

b)       Aðallega að kröfu sóknaraðila, nr. CL20091121-1876 í kröfuskrá að lýstri fjárhæð 5.422.024,56 sterlingspund. sem umreiknast í kröfuskrá í 1.036.040.453 krónur. verði hafnað sem forgangskröfu, samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð varnaraðila og staðfest verði sú afstaða slitastjórnar varnaraðila að samþykkja höfuðstól kröfunnar að fjárhæð 5.000.000 sterlingspunda, sem umreiknast í kröfuskrá í 955.400.000 krónur, sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 verði staðfest auk 6% vaxta frá 22. mars 2008 til 22. apríl 2009 að fjárhæð 62.578.700 krónur.

Varnaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu sóknaraðila um áfallinn kostnað til og með 22. apríl 2009 að fjárhæð 2.294,42 sterlingspund sem umreiknast í 438.418 krónur vegna ofangreindrar kröfu auk virðisaukaskatts.

Varnaraðili gerir þær kröfur til vara að ef niðurstaðan verður sú að hluti krafna sóknaraðila njóti forgangs samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, skuli sú fjárhæð vera að hámarki 20.887 evrur sem umreiknast í 3.534.707 krónur, miðað við gengi gjaldmiðilsins 22. apríl 2009.

Í öllum tilvikum krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að viðbættum virðisaukaskatti.

II

Sóknaraðili er breskt sveitarfélag sem átti í viðskiptum við útibú varnaraðila í London.  Snerust viðskiptin um svokölluð heildsölulán eða heildsöluinnlán (e. wholesale deposit).  Samkvæmt gögnum málsins komust viðskipti aðila á fyrir milligöngu miðl­ara.  Aðilar málsins gerðu með sér tvo samninga.  Fyrri samningurinn var gerður 22. janúar 2008.  Þann dag lagði sóknaraðili 2.500.000 sterlingspund inn á reikning varnaraðila hjá National Westminster Bank PLC.  Þá fjárhæð ásamt 5,34% samnings­vöxt­um átti varnaraðili síðan að greiða inn á reikning sóknaraðila hjá The Co-Operative Bank á gjalddaga 19. nóvember 2008. 

Síðari samningurinn var gerður 26. febrúar 2008 og var hann að fjárhæð 5.000.000 sterlings­punda.  Hinn 20. mars 2008 lagði sóknar­aðili féð inn á reikning varnaraðila hjá National Westminster Bank PLC.  Þá fjárhæð ásamt 6% samningsvöxtum átti varnaraðili að greiða sóknaraðila inn á reikning hans í The Co-Operative Bank á gjalddaga 20. mars 2009.

Ekki kom til greiðslu samkvæmt framantöldum samningum á gjalddögum þeirra þar sem Fjármálaeftirlitið ákvað hinn 7. október 2008 með heimild samkvæmt 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjár­mála­markaði o.fl., að taka yfir vald hluthafafundar varnaraðila og skipa honum skilanefnd.  Varnaraðila var veitt heimild til greiðslu­stöðvun­ar 24. nóvember 2008 sem standa átti til 13. febrúar 2009.  Var greiðslustöðvunin framlengd hinn 19. febrúar 2009 til 13. nóvember 2009.  Áður en sá tími var á enda, hinn 12. maí 2009, var varnaraðila skipuð slitastjórn samkvæmt ákvæð­um 4. töluliðarákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009 um breyting á lögum nr. 161/2002 um fjármála­fyrirtæki.

Slitastjórn varnaraðila gaf út innköllun til skuldheimtu­manna sem birt­ist fyrra sinni í Lög­birtinga­blaði 26. maí 2009 og rann kröfulýsingar­frestur út sex mán­uð­um síðar eða 26. nóvember 2009.  Frestdagur við slitameðferðina er 15. nóvem­ber 2008 og upp­hafs­dagur slitameðferðar er 22. apríl 2009.

Á kröfulýsingarfresti lýsti sóknaraðili tveimur kröfum vegna áðurgreindra við­skipta aðila.  Krafa með númerið CL20091121-1866 er tilkomin vegna samningsins frá 22. janúar 2008 sem sóknaraðili greiddi sama dag og krafa með númer­ið CL20091121-1876 er tilkomin vegna samnings frá 26. febrúar 2008 sem sóknaraðili greiddi 20. mars 2008.  Hvað höfuðstól krafnanna varðar sem og kröfur um vexti og kostnað sem til féll fyrir 22. apríl 2009 krafðist sóknaraðili rétthæðar samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 en hvað vexti og kostnað sem til féll eftir 22. apríl 2009 varðar vísaði sóknaraðili til rétthæðar samkvæmt 114. gr. laganna.

Slitastjórn varnaraðila hafnaði forgangsrétti krafna sóknaraðila með þeim rökum að samningarnir hefðu öll einkenni lánasamninga en ekki innlána.  Var fallist á að höfuð­stóll krafnanna væri almenn krafa en kröfum um vexti og kostnað var hafnað sökum vanreifunar.

Með bréfi 14. desember 2009 mótmælti sóknaraðili afstöðu slitastjórnar varnaraðila til krafnanna.  Á skiptafundi sem slitastjórn varnaraðila hélt 17. desember 2009 var fjallað um ágreining vegna afstöðu slitastjórnar til krafna sóknaraðila og var boðað til sérstaks ágreinings­fundar 4. mars 2010.  Ekki tókst að jafna ágreining aðila og með bréfi slita­stjórn­ar varnar­aðila 22. mars 2010, sem barst dóminum 31. mars 2010, var krafist úrlausnar dóms­ins um ágreininginn með vísan til 171. gr., sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991.

Kröfum sóknaraðila var einnig mótmælt af öðrum kröfuhöfum. Þeir komu fram í tveim­ur hópum og var annar þeirra kenndur við Bayerische Landesbank o.fl. en hinn við ACMO Sarl o.fl.  Mótmæltu kröfuhafar þessir kröfum sóknaraðila og voru sam­mála afstöðu slitastjórnar varnaraðila til krafna sóknaraðila en með öðrum rökum.  Í fyrrgreindu bréfi slitastjórnar varnaraðila til dómsins var þess getið að aðilar þessir krefðust aðildar að málinu.  Með hliðsjón af ágreiningsefninu töldust kröfuhafar þessir vera varnaraðilar málsins ásamt Glitni banka hf. og skiluðu þeir greinargerðum í málinu 15. október 2010.  Í þinghaldi hinn 1. febrúar 2011 féllu allir þessir kröfuhafar frá aðild sinni að þessu máli og stendur því einungis Glitnir banki hf. eftir sem varnaraðili í málinu.

III

Sóknaraðili vísar um skilgreiningu á innstæðu til 6. gr. laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. og síðar til 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, og til laga nr. 98/1999 um inn­stæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta þar sem hugtakið sé skilgreint í 3. mgr. 9. gr.  Sóknaraðili mótmælir þeirri fullyrðingu varnaraðila að innlán sókn­ar­aðila séu ekki innstæður í þessum skilningi.  Hugtakið innstæða sé skilgreint með skýrum hætti í lögum um innstæðutryggingar og ákvæði um veitingu forgangsréttar innstæðna vísi til þeirrar skilgreiningar.  Í lagalegum skilningi sé ekkert til sem heiti smásöluinn­lán eða heildsöluinnlán.  Geri lög nr. 98/1999 engan greinarmun á tegundum innlána að þessu leyti.  Þá séu hugtökin ekki skilgreind eða skýrð í öðrum réttarheimildum og feli orðalagið heildsöluinnlán ekki í sér neina skírskotun til þess að um lán frekar en inn­lán sé að ræða en öll innlán séu í eðli sínu lán.  Innstæðueigandinn sé viðskipta­vin­ur bankans og sé bankanum frjálst að nýta fé sem viðskiptavinir leggi inn í formi inn­stæðna í almennum viðskiptatilgangi.  Banki geti fjármagnað sig á annan hátt til dæm­is í gegnum lánalínur, peningamarkaði eða skuldabréf en slík viðskipti séu við aðrar fjár­málastofnanir og lúti því öðrum lögmálum.

Sóknaraðili byggir á því að skilyrði þess að innstæða njóti forgangsstöðu samkvæmt lögum nr. 125/2008 sé að hún falli undir skilgreiningu laga nr. 98/1999.  Skilyrðin séu að um innlán eða millifærslu sé að ræða, að millifærslan heyri undir hefðbundna almenna bankastarfsemi og að viðskiptabanka eða sparisjóði beri samkvæmt skil­mál­um er gildi samkvæmt lögum eða samningum að endurgreiða innstæðueigandanum. Inn­lán sóknaraðila uppfylli öll þessi skilyrði.  Ekki sé unnt að fallast á tilvísun slita­stjórn­­ar varnaraðila til jafnræðis og þröngrar túlkunar.  Fullkomlega eðlilegt sé að lög­gjaf­inn veiti  ákveðnum hópum kröfuhafa forgang eins og 112. gr. laga nr. 21/1991 hafi gert til margra ára.  Einungis þurfi að ákvarða hvort kröfuhafi falli innan þess hóps kröfuhafa sem forgangs njóti.

Óumdeilt sé að sóknaraðili hafi lagt umrætt fé inn hjá varnaraðila og að varnaraðila hafi borið að endurgreiða sóknaraðila féð ásamt vöxtum.  Þá standi eftir skilyrðið um að viðskiptin heyri undir hefðbundna almenna bankastarfsemi.  Hugtakið „hefðbundin almenn bankastarfsemi“ sé ekki skilgreint í lögum.  Starfsemi samkvæmt starfsleyfi við­­skipta­banka gefi hins vegar sterka vísbendingu um hvað í því felist.  Meðal heim­illar starfsemi sé móttaka innlána.  Hugtakið feli hvort tveggja í sér, smásöluinn­lán og heild­söluinnlán, enda ekki gerður greinarmunur þar á.  Varnaraðili hafi tekið við mikl­um fjölda innlána.  Fyrir liggi að heildarinnlán hafi numið um 8 milljörðum evra árið 2007 og þar af hafi svokölluð heildsöluinnlán numið 5 milljörðum evra í september 2007.  Slíkt hafi því heyrt undir hefðbundna almenna bankastarfsemi.

Sóknaraðili hafi lagt fjármuni inn á reikning hjá varnaraðila, sem hafi gefið út stað­fest­­ingar um móttöku innstæðnanna.   Báðar staðfestingarnar innihaldi þá skil­mála er gilt hafi um hvora innstæðu sóknaraðila og sé í raun kvittun.  Báðar staðfestingarnar vísi berum orðum til þess að um innstæðu sé að ræða og tilgreini meðal ann­ars númerið á reikningnum sem innstæðan skyldi lögð inn á, fjárhæð hvorrar inn­stæðu, vaxtaprósentu og daginn sem innstæðan skyldi vera laus til útborgunar, líkt og venjan sé þegar um bundin innlán (e. term deposit) sé að ræða.  Innihaldi báðar staðfestingarnar þá skilmála er gilt hafi um hvora innstæðu sóknaraðila.  Hafi báðir aðilar litið svo á að um væri að ræða innstæður og beri öll samskipti þess ótvíræð merki.

Sóknaraðili kveður lög nr. 98/1999 innleiða ákvæði tilskipunar 94/19/EB í íslenskan rétt.  Því beri að túlka lögin með hliðsjón af tilskipuninni.  Fyrir gildistöku tilskipunar­inn­ar hafi framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, hinn 4. júní 1992, sett fram tillögu um að sett skyldi tilskipun um innstæðutryggingakerfi.  Í útskýringum með tillögunni komi fram að tillagan hafi tvíþætt markmið, þ.e. að vernda eigendur innstæðna í bönk­um og að stuðla að öryggi bankakerfisins í heild sinni.  Þá segi í útskýr­­ingum að hug­tak­ið innstæða sé hugsað út frá sjónarhóli innstæðueigandans.  Megináhersla hafi ver­ið lögð á að tilskipunin hefði eins víðtækt gildissvið og mögu­legt væri, því ef hug­tak­ið inn­stæða væri skilgreint of þröngt, myndi slíkt ganga gegn samræm­ingu á svið­inu og þeim stöðugleika sem stefnt hafi verið að.  Til að vega á móti hinni víðtæku skil­grein­ingu væru settar fram bæði skyldubundnar og valkvæðar undantekningar.

Þannig séu verðbréf ekki talin til innstæðna samkvæmt 1. gr. tilskipunarinnar og með því sé verið að þrengja inntak hugtaksins innstæða í skilningi tilskipunarinnar.  Þá séu eigin sjóðir fjármálafyrirtækis og innstæður í eigu annarra fjármálafyrirtækja undan­þegn­ar tryggingavernd samkvæmt 2. gr. tilskipunarinnar.  Hér sé ekki um að ræða þreng­ingu á hugtakinu innstæða heldur sé hér hópur þeirra innstæðueigenda sem notið fái tryggingaverndar þrengdur.  Þá heimili 2. mgr. 7. gr. aðildarríkjum að undanskilja ákveðn­ar tegundir innstæðna eða ákveðna hópa innstæðueigenda frá tryggingavernd.  Hér sé ekki um að ræða þrengingu á hugtakinu innstæða heldur snerti þetta þá flokka innstæðna og innstæðueigenda sem njóti tryggingaverndar. 

Sóknaraðili kveður að tilskipunin veiti aðildarríkjum töluvert svigrúm við innleiðingu tryggingakerfis og segi ekki til um efri mörk tryggingaverndar heldur aðeins lág­marksvernd.  Einn hópur innstæðueigenda eða innstæðna sem aðildarríkjum sé heimilt að undanskilja tryggingavernd séu innstæður í eigu stærri stofnana og sveitar­félaga á borð við sóknaraðila, sbr. 4. gr. 1. viðauka við tilskipunina.  Þannig sé aug­ljóst að slíkar innstæður falli innan hugtaksins innstæða í skilningi tilskipunarinnar.  Hafi íslenska ríkið ekki undanskilið slíkar innstæður.  Af þessu megi álykta að þessir aðilar njóti verndar sem innstæðueigendur og það hafi ávallt verið ætlunin að inn­stæð­ur sveitar­félaga og stærri stofnana myndu falla undir skilgreiningu á innstæðu og þar með njóta verndar.

Hefði það verið ætlunin að undanskilja stórar innstæður, eða innstæður sem féllu undir önn­­ur skilgreind viðmið, hefðu þær verið skilgreindar og taldar upp í fyrsta viðauka við tilskipunina, þar sem heimilar undanþágur séu taldar upp.  Augljós gagnályktun af því að þær séu ekki undanskildar sé að þær falli einnig innan skilgreiningar tilskipun­ar­innar.

Sóknaraðili vísar til þess að hann hafi ætlað að leggja inn peninga í formi innstæðu og hafi talið sig vera að gera einmitt það.  Auk þess hafi varnaraðili staðfest að hann væri að taka við innstæðum frá sóknaraðila.  Við þessar aðstæður beri varnaraðili sönn­un­ar­­byrði fyrir því að hann hafi ekki verið að taka við innstæðum.  Varnaraðili hafi einn aðgang að upplýsingum sem gætu sýnt fram á það.

Sóknaraðili kveður það rangt sem varnaraðili haldi fram að til þess að um innstæðu geti verið að ræða þurfi hún að vera á sérgreindum reikningi.  Sóknaraðili kveðst hins vegar standa í þeirri trú að innstæður hans hafi legið á sérgreindum reikningi, þrátt fyrir að hann hafi hvorki vitneskju um né beri ábyrgð á innri stjórnun varnaraðila að þessu leyti.  Í öllu falli eigi slitastjórn varnaraðila ekki í neinum vandræðum með að stað­­reyna upphæðir innstæðna sóknaraðila út frá bókum varnaraðilans.  Um innstæð­urn­ar hafi gilt ákveðnir skilmálar sem ekki hafi verið samið um í hverju tilviki fyrir sig í þeim skilningi að eiginlegar samningaviðræður hafi átt sér stað.  Jafnvel þó svo hefði verið hafi það ekki breytt eðli innstæðnanna.  Um ólíkar innstæður gildi ólíkir skil­málar sem taki mið af þeim kjörum sem standi til boða hverju sinni. 

Varnaraðili byggi á því að helstu einkenni heildsölu- og peningamarkaðslána séu að aðil­ar hafi samið í hverju tilviki um skilmála lánsins og hafi kjörin endurspeglað ráð­andi markaðsaðstæður og fjármögnunarþörf varnaraðila á samningstímanum.  Kveður sókn­­araðili að ávallt þegar viðskiptavinur leggi inn fé sem innstæðu sé til staðar ákveð­­inn samningur um skilmála innstæðunnar sem taki mið af því um hvers konar inn­­stæðu sé að ræða.  Allar innstæður séu „lán“ viðskiptavinarins til bankans.  Þau kjör sem viðkomandi banki bjóði, t.d. vaxtakjör, ráðist að sjálfsögðu af ráðandi mark­aðs­­aðstæðum og öðrum þáttum. 

Nálgast verði hugtakið „fjármögnun á peningamarkaði“ varfærnislega, enda megi segja um hvaða viðskiptabanka sem er að hann starfi á „peningamarkaði“ fyrir smá­sölu­­­­viðskiptavini. 

Varnaraðili hafi nýtt sér allar færar leiðir til fjármögnunar, þar á meðal með viðtöku inn­­lána frá viðskiptavinum og með þátttöku á fjármagnsmörkuðum.  Sóknaraðila, sem sé sveitarfélag, verði ekki líkt við fjármálastofnun.  Notkun sóknaraðila á þjónustu miðl­­­ara skipti engu máli.  Upphæð innstæðna sóknaraðila, og þær aðferðir sem notaðar hafi verið við að leggja þær inn, skipti engu máli um eðli þeirra sem inn­stæðna.  Um­rædd­­ar innstæðustaðfestingar stingi í stúf við þá gerninga sem notaðir séu á skulda­bréfa­­mörkuðum eða í millibankalánastarfsemi og hafi engin einkenni lána­samn­­ings eða verðbréfs.

Varðandi þá fullyrðingu varnaraðila að einungis geti verið um að ræða innstæðu ef um hana gildi staðlaðir skilmálar sem samdir séu einhliða af bankanum kveður sóknaraðili að hvergi sé á þetta minnst í réttarheimildum sem mál þetta varði.  Sé staðreyndin sú að lög um innstæðutryggingar geri beinlínis ráð fyrir því að samið sé um skilmála inn­stæðna.  Þannig segi í 3. mgr. 9. gr. laganna að með innstæðu sé átt við innstæðu sem til­kom­in sé vegna innláns eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi  sem viðskiptabanka eða sparisjóði beri að endurgreiða samkvæmt skilmálum er gildi sam­kvæmt lögum eða samningnum.

Engar eiginlegar samningaviðræður hafi farið fram þegar sóknaraðili lagði inn fjár­mun­­ina.  Varnaraðili hafi, eins og aðrir bankar sem taki við svokölluðum heildsölu­inn­lán­um, auglýst vaxtakjör sín daglega.  Hafi sóknaraðili, og eftir atvikum milligöngu­að­ilar, síðan metið út frá hinum auglýstu skilmálum hvaða innlán og banki uppfylltu við­mið sóknaraðila er hann hugðist leggja inn fé.  Hafi því í raun verið um að ræða ein­falt og fljótlegt ferli sem sé fjarri því að vera sambærilegt því sem eigi við þegar um lánveitingu sé að ræða þar sem samþykki sveitarstjórnar hefði verið krafist og um viðskiptin hefði verið gerður flókinn lánasamningur.

Innstæðustaðfestingar þær sem í þessu máli liggi fyrir eigi ekkert skylt með verð­bréfum.  Þetta séu einfaldlega kvittanir um millifærslu og móttöku fjármuna sem feli ekki í sér eignarheimildir vegna innstæðnanna.  Slík skjöl séu ekki framseljanlegir gern­ingar og geti ekki gengið kaupum og sölum á fjármagnsmarkaði enda felist engin réttindi til innstæðunnar í eignarhaldi kvittunarinnar sem slíkrar.  Þá sé orðalagið í um­rædd­­um staðfestingum í reynd afar hefðbundið fyrir innlánsviðskipti á borð við þau sem hér um ræði.

Sóknaraðili mótmælir því að forgangur innstæðna takmarkist við 20.887 evrur. Sé and­virði innstæðna að fullu tryggt sbr. 1. mgr. 9. gr. og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999.  Fullyrðing varnaraðila um takmörkun forgangs við framangreinda lágmarks­fjár­hæð sé því í mótsögn við ákvæði laganna og hvernig þau virki í fram­kvæmd.

Kveður sóknaraðili að ekkert í neyðarlögunum bendi til þess að ætlunin hafi verið að undanskilja heildsöluinnlán stærri fyrirtækja eða stofnana frá forgangi enda væri slíkt til þess fallið að grafa undan því trausti sem markmið laganna hafi skýrlega staðið til að endurheimta og verja.  Þá sé enginn greinarmunur gerður á því hvernig innstæður séu til komnar né hver eigi þær, hvorki í lögunum sjálfum né lögskýringargögnum. Laga­reglu um forgang innstæðna við slit fjármálafyrirtækis beri að skýra á sama hátt og aðrar lagareglur um forgang krafna við gjaldþrotaskipti, þ.e. samkvæmt orðanna hljóð­an.

Verði niðurstaða dómsins á þá leið að innstæður sóknaraðila séu ekki innlán í skiln­ingi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999, byggir sóknaraðili á því að í öllu falli sé um að ræða millifærslur í skilningi ákvæðisins.  Hugtakið millifærsla sé hvorki skilgreint í lög­unum né tilskipun 94/19/EB.  Til hliðsjónar megi hins vegar hafa skilgreiningu reglu­­gerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1781/2006, um upplýsingar greiðanda sem fylgja skuli við millifærslu, sem innleidd hafi verið á Íslandi með reglugerð nr. 386/2009.  Ekki sé deilt um að umræddir fjármunir hafi verið lagðir inn hjá varnar­aðila 22. janúar 2008 og 20. mars 2008 og að þeir hafi átt að standa sóknaraðila til reiðu á ákveðnum tíma.  Því sé ljóst að innstæður sóknaraðila séu í öllu falli tilkomnar vegna millifærslu og njóti sem slíkar forgangs við slit varnar­aðila.

Varnaraðili hafi nú viðurkennt að kröfur sóknaraðila beri vexti til gjalddaga þeirra.  Vegna kröfu um vexti eftir gjalddaga kveður sóknaraðili að nokkur fjöldi heildsölu­innlána, þar á meðal innstæður sóknaraðila, hafi verið á gjalddaga á tímabilinu eftir 7. október 2008 þegar varnaraðili hafi fallið og eftir 24. nóvember 2008 þegar greiðslustöðvunin hafi hafist en fyrir frestdag 22. apríl 2009.  Á Íslandi hafi kröfuhafar sem átt hafi kröfur er fallið hafi í gjalddaga fyrir frestdag ekki getað krafist efnda vegna greiðslustöðvunarinnar.  Þess vegna telji sóknaraðili að hon­um beri vextir á kröfuna á tímabilinu milli gjalddaga og frestdags.  Ekki virðist deilt um að íslensk lög mæli fyrir um að vexti skuli greiða til og með 22. apríl 2009.  Slitastjórn varnaraðila hafni hins vegar kröfu sóknaraðila um íslenska dráttarvexti af höfuðstól kröfunnar á tímabilinu.  Slitastjórn varnaraðila hafi einnig hafnað varakröfu sóknaraðila um enska vanefndavexti samkvæmt „Judgments Act 1838”, sem yrði beitt ef um enskt gjaldþrotamál væri að ræða í samræmi við Insolvency Rule 4.93.  Verði talið að um samningssamband málsaðila gildi ensk lög og að um vexti fari samkvæmt enskum lögum, einnig í slitameðferð, byggi sóknaraðili á því að ensk lög, þ.m.t. enskar lagaskilareglur, mæli fyrir um að þegar komi að ákvörðun vaxta og fjárhæðar þeirra í íslenskri slitameðferð þá fari um það samkvæmt íslenskum lögum.

Sóknaraðili byggir á því að hvorki lög nr. 21/1991 né önnur sett lög mæli fyrir um hvernig skuli leysa úr vaxtakröfum í aðstöðu sem þessari.  Því verði að líta til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.  Ekkert þeirra atriða sem talin séu upp í 2. gr. laganna eigi við.  Lög nr. 44/2009 kveði á um vexti sem reikna skuli til og með 22. apríl 2009 en taki þó ekki fram við hvaða vaxtakjör skuli miða.  Þess vegna verði að miða við vexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001.  Mælt sé fyrir um í 1. mgr. 5. gr. laganna að vexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. skuli reikna frá gjalddaga.  Innstæður sóknaraðila hafi verið á gjalddaga þann 19. nóvember 2008 og 20. mars 2009.  Lögin ákvarði ekki sérstaka dráttarvexti á erlenda mynt.  Þess vegna sé krafa sóknaraðila um dráttarvexti byggð á dráttarvöxtum sem Seðlabanki Íslands birti hverju sinni.

Telji dómurinn að ákvarða beri vextina út frá enskum lögum bendir sóknaraðili á að kvittanir vegna innstæðnanna kveði ekki á um hvað gera skuli ef innstæðurnar fáist ekki greiddar út á umsömdum tíma.  Samkvæmt enskum lögum geti dómstóll ákvarð­að vexti á kröfu sé hún greidd of seint.  Grein 35A í Supreme Court Act 1981 heimili dómstólum að ákveða vexti í dómsmáli.  Að auki kveði grein 17(1) í Judgments Act 1838 á um að krafa sem dómur sé fallinn um, skuli bera vexti þar til dómnum sé fullnægt og krafan efnd, en í dag séu slíkir vextir 8%.  Sóknaraðila hafi hins vegar verið gert ókleift að leita réttar síns í Bretlandi vegna greiðslustöðvunar varnaraðila. Þegar slitameðferð fari fram í Bretlandi eigi sett lög við.  Vaxtakrafa vegna ógreiddrar innstæðu sem hefði fallið í gjalddaga fyrir frestdag yrði samþykkt þó engin ákvæði væru í samningum aðila um vexti í slíku tilviki.  Í slíkri stöðu myndi innstæðueigandi krefjast lögbundinna vaxtakjara eins og þau yrðu ákveðin í málaferlum til innheimtu kröfunnar.  Við slitameðferð í Bretlandi sé ekki hægt að fara í dómsmál til innheimtu krafna á hendur búi.  Regla nr. 4.93 (Insolvency Rule) kveði á um að vaxta verði krafist án dóms í slíkum tilvikum.  Sömu vaxtakjör gildi og um vexti samkvæmt Judgments Act, þ.e. 8% í dag.  Einnig megi rökstyðja að vegna venju í viðskiptum, á borð við þau er liggi að baki innstæðu sóknaraðila, geti ensk lög heimilað að vaxtakjör séu færð inn í samning málsaðila, þannig að vextir að minnsta kosti jafn háir samn­ings­vöxtunum haldi áfram að reiknast eftir gjalddaga, eigi önnur vaxtakjör ekki við.

Sóknaraðili telur að það væri ósanngjarnt, og fæli í sér ólögmæta mismunun kröfu­hafa, ef kröfuhafar sem eigi kröfur sem hafi verið á gjalddaga fyrir 22. apríl 2009 fái ekki samþykkta vexti eftir gjalddaga og fram að frestdegi, 22. apríl 2009, á meðan kröfuhafar sem eigi kröfur með gjalddaga eftir frestdag fengju samþykkta vexti fram að frestdeginum.  Ef samræmis væri ekki gætt sé hætta á að brotið yrði í bága við megin­­reglu bæði bresks og íslensks gjaldþrotaréttar um jafnræði kröfuhafa.  Til að tryggja jafnræði kröfuhafa sé rökrétt að dómurinn ákvarði vexti á tímabilinu og eftir 22. apríl 2009 á sama grundvelli, en þannig myndi enskur dómstóll leysa úr málinu.  Ef vextir yrðu ákvarðaðir á kröfur hvers kröfuhafa samkvæmt lögum viðkomandi heima­lands myndi slíkt leiða til ójafnræðis milli kröfuhafa.  Fallist dómurinn ekki á að ákvarða íslenska dráttarvexti eða vexti samkvæmt vara- og þrautavarakröfu, byggir sóknaraðili á því að ákvarða beri að álitum viðeigandi vaxtakjör á sama hátt fyrir allar samskonar kröfur á tímabilinu.

Varðandi kröfu um kostnað byggir sóknaraðili á því að samþykkja beri kostnað fram að 22. apríl 2009 sem forgangskröfu skv. 112. gr. laga nr. 21/1991.  Sóknaraðili vísar einnig til þess að tilskipun nr. 2001/24/EB um endurskipulagningu og slit lánastofnana geri ráð fyrir að íslensk lög gildi um slíka kröfu.  Sóknaraðili telur að þótt dómurinn kæmist að þeirri niðurstöðu að ensk lög giltu um samningssamband málsaðila, þ. á m. enskar lagaskilareglur, myndi samkvæmt enskum lögum ákvörðun um viðurkenningu og eftir atvikum upphæð kostnaðar kröfuhafa í íslenskum gjaldþrotaskiptum verða byggð á íslenskum lögum.  Þetta leiði af því að umræddur kostnaður sé hluti af nauð­syn­legum aðgerðum sóknaraðila til að verja hagsmuni sína í íslensku gjaldþrotamáli og falli ákvörðun um kostnað því undir lög þau er gildi um slita­meðferðina, en ekki undir þau lög er gildi um innstæðusamningana.  Þá byggir sóknaraðili á því að álita­mál um gjaldþrotarétt séu undanskilin Rómarsáttmála um lagaskil á sviði samninga­rétt­ar og verði því að horfa til ensks fordæmisréttar (Common law.)  Sam­kvæmt for­dæmis­rétti skuli öll mál varðandi fyrirtæki leyst á grundvelli laga þess ríkis þar sem það sé stofnsett.  Verði það niðurstaða dómsins að um kröfu sóknaraðila um kostnað fari samkvæmt enskum lögum sé við hæfi að dómurinn ákveði upphæð að álitum, þar sem samkvæmt enskum lögum myndi dómurinn ákvarða þá upphæð.

Vegna kröfu um forgang vaxta og kostnaðar kveður sóknaraðili að samkvæmt gagnályktun frá 1. tölulið114. gr. laga nr. 21/1991 njóti kröfur um kostnað og vexti fram að úrskurðardegi um gjaldþrotaskipti sömu stöðu og krafan.  Þetta hafi Hæstiréttur Íslands ítrekað staðfest.

Verði komist að því að krafa sóknaraðila sé ekki forgangskrafa byggir sóknaraðili á því til vara að hún sé almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

Um lagarök vísa sóknaraðilar einkum til ákvæða laga nr. 21/1991, nr. 2/1993, nr. 62/1994, nr. 98/1999, nr. 38/2001, nr. 161/2002, nr. 62/1994 og nr. 125/2008, þá sérstaklega ákvæða fyrrgreindra laga sem vísað sé til í umfjöllun um málsástæður sóknaraðila að framan.  Þá vísar sóknaraðili til  17., 19., 67. og 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og varðandi málskostnað vísar hann til 1. mgr. 130. gr. laganna og laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.  Um erlend lagarök vísar sóknaraðili einkum til ákvæða ensku sveitarstjórnarlaganna frá 2003 og tengdra reglna, „Supreme Courts Act 1981“, „Judgments Act 1838“, „Insolvency Rule 4.93“, Rómar­samn­ings­ins um laga­skil á sviði samningaréttar og til almenns ensks venjuréttar.

IV

Varnaraðili byggir á því að viðskipti að baki heildsölulánum hafi öll einkenni láns­samnings eða verðbréfs en ekki innláns.  Við mat á því hvort þau viðskipti sem mál þetta taki til teljist lánssamningur eða innstæða sé nauðsynlegt að líta til aðila við­skipt­anna, einkenna, markmiðs og skilmála sem um þau giltu.  Ekki sé til formleg mark­­aðs­skilgreining á hugtakinu „innstæða“ og þótt samningur að baki viðskiptum sé kall­aður „innstæða“ eða „lán“, hafi það ekki sjálfkrafa í för með sér að gerningurinn teljist innstæða eða lán í skilningi laga.  Varnaraðili telur að sönnunarbyrði um stað­hæf­ingar sóknaraðila hvíli á sóknaraðila.

Innstæður séu fjármunir sem einstaklingar eða lögaðilar afhendi innlánsstofnun til varð­veislu og/eða til að nota greiðsluþjónustu og almenna bankaþjónustu gegn vöxt­um.  Féð sé geymt á sérstökum bankareikningi í nafni eigandans.  Innstæður séu almennt tækar til útborgunar þegar þess sé krafist og/eða séu bundnar til ákveðins tíma með þeim skilmálum að mögulegt sé að nálgast innstæðuna ef nauðsynlegt sé með til­tekn­­um skilyrðum.  Greiðslustaður innstæðu sé hjá viðkomandi banka.  Um inn­stæð­una gildi staðlaðir skilmálar sem samdir séu einhliða af bankanum og eigi við um inn­stæð­una.  Þessum skilmálum kunni bankinn að breyta með tilkynningu til innstæðu­eig­­enda án þess að slíkt feli sjálfkrafa í sér gjaldfellingu viðkomandi innstæðu, þrátt fyrir að innstæðan sé bundin til ákveðins tíma.  Innstæður hafi ekki fyrir fram ákveð­inn gjald­daga en vaxtagjalddagar séu almennt ákveðnir árlega eða mánaðarlega og legg­ist sú fjárhæð við höfuðstól. 

Heildsölulánsviðskiptin sem mál þetta snúist um hafi tiltekin einkenni, meðal annars hvað varði helstu skilmála, tegund og tilgang.  Þessi einkenni séu í aðalatriðum hin sömu óháð því hvort lánveitandinn sé sveitarstjórn eða annar fagfjárfestir.  Samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/39EB um markaði fyrir fjármagns­gern­inga flokk­ist sóknaraðili sem fagfjárfestir (e. professional client), sbr. 3. lið við­auka II og sé því ljóst að sem slíkur búi hann yfir reynslu, þekkingu og sérfræði­kunnáttu til að taka sjálfur ákvarðanir um fjárfestingar og meta áhættuna sem þeim fylgir.  Sé ljóst að í hverju tilviki sé samið um skilmála lánsins, þ.e. fjárhæð, lánstíma og vexti.  Vextir sem boðist hafi af þessum lánsviðskiptum hafi almennt verið hærri en þeir vextir sem boðist hafi almennum smásöluinnlánseigendum og hafi ekki staðið öðrum en fagfjár­fest­um til boða.  Heildsölulán varnaraðila hafi verið byggð á samn­ingi milli hans og viðkomandi lánveitanda og hafi kjörin endurspeglað ráðandi mark­aðs­­aðstæð­ur og fjár­mögnun­arþörf varnaraðila á samningstímanum.  Byggi afstaða slita­stjórnar varnar­aðila á því að fjármálagerningar þeir sem mál þetta snúist um hafi öll einkenni láns­samnings eða veðbréfs en ekki innláns.  Sé ljóst að enginn innláns­reikn­ingur hafi verið til staðar og enginn réttur til handa lánveitanda til úttektar á láns­tím­anum nema samið væri um slíkt eftir á.

Varnaraðili vísar til þess að lánveitendur í heildsölulánsviðskiptum hans hafi í miklum meirihluta verið opinberir aðilar.  Þá hafi sóknaraðila, í samræmi við lögbundnar leið­bein­ingarreglur um fjárfestingar sveitarstjórnar, borið að gera sitt eigið áhættumat á þeim gagnaðilum sem hann hygðist eiga í viðskiptum við.

Varnaraðili kveður að heildsölulánsviðskipti hafi verið ein þeirra leiða sem sóknar­aðila hafi staðið til boða til að festa fjármuni sem hafi verið umfram þörf og hámarka arð af því fé.  Hafi kröfuhafar á borð við sóknaraðila sem átt hafi í heildsölu­lána­við­skipt­um við varnaraðila almennt átt aðra fjármuni í formi innstæðna á sérgreindum reikn­ingum í öðrum bönkum eða sparisjóðum sem hafi verið ótengdir heildsöluláns­við­skiptunum.  Sé ljóst að viðskiptin hafi þjónað sem skammtíma­fjár­mögn­un varnar­aðila og sem fjárfestingarkostur fyrir sóknaraðila.  Lánveitingar af þessu tagi beri þann­ig hvorki með sér einkenni né þá þjónustu sem um sé að ræða í tilviki innstæðna á almennum innlánsreikningum, þ.e. öruggan og aðgengilegan geymslustað fyrir fjár­muni og greiðsluþjónustu í banka.

Það sem einkenni þau viðskipti sem hér sé fjallað um sé að lánsféð hafi verið óað­gengi­legt fram að gjalddaga, líkt og einkenni almennt lán.  Þessu grundvallaratriði í samn­ingi aðila hafi verið ætlað að mæta þörf varnaraðila á öruggri skammtíma­fjár­mögn­­un fremur en þörf sóknaraðila á að fá aðgang að fjármununum.  Ekki hafi verið hægt að breyta lánstímanum nema með samþykki beggja og virðist sem hægt hafi verið að semja um greiðslu fyrir gjalddaga en þá gegn greiðslu gjalds eða févítis.

Heildsölulánin hafi komið til að frumkvæði varnaraðila sem liður í þörf hans fyrir skamm­­tíma­fjármögnun.  Af þeim gögnum sem liggi til grundvallar viðskiptum aðila svo og því hvernig heildsölulánaviðskipti almennt hafi verið skilgreind í Bretlandi verði að telja að ekki hafi verið litið svo á að viðskiptin fælu í sér að til hefði orðið innstæða í venjulegum skilningi þess hugtaks.  Þrátt fyrir að í sumum þeirra skjala sem fyrir liggi um viðskiptin sé notað orðalagið „bundin innstæða“ (e. fixed deposit) þá sé orða­lag þeirra, hvað varði umsamda skilmála og skilgreiningar á stöðu aðila, að mestu leyti sam­bærilegt því sem almennt tíðkist í lánssamningum, verðbréfum eða öðrum sam­bæri­legum fjármálagerningum.  Breskar sveitarstjórnir, yfirvöld og sér­fræð­­ingar í fjár­fest­ingum breskra sveitarstjórna í tengslum við heildsölulánsviðskipti sveitarstjórna við önnur fjármálafyrirtæki, noti ítrekað hugtök á borð við lán (e. loan), lánveitingar (e. lending), lánalista (e. lending list) og fjárfestingar (e. investments), þegar rætt sé um fjárfestingarheimildir sveitarstjórna.

Það sé hið raunverulega efni samningsins sem komst á með aðilum sem skipti hér mestu máli enda í samræmi við þá meginreglu samningsréttarins að við túlkun samn­inga beri fyrst og fremst að líta til eðlis samningsins umfram heiti hans þegar ráða eigi í tilætlun og vilja aðila með samningsgerð.  Lánssamningur verði ekki talinn inn­stæða með því einu að kalla samninginn innstæðu.

Ljóst sé að sóknaraðili hafi haft heimild til fjárfestinga í samræmi við þær reglur sem gildi um breskar sveitarstjórnir, þ.m.t. lánveitingar og fjárfestingar í verðbréfum.  Í fjárfestingareglum sóknaraðila, gr. 4.8.3., komi fram að sveitarstjórn hans hafi veitt fjármálastjóra vald til að ákveða lántökur og fjárfestingar og einnig í hvaða bönkum, byggingarsjóðum og öðrum stofnunum, sem uppfylli fjárfestingakröfur sveitarstjórnar, megi fjárfesta í.  Í ársreikningi sóknaraðila sé fjáreignum skipt í tvo hluta, annars vegar lán og útistandandi kröfur og svo eignir til sölu.  Lánveitingar sóknaraðila séu útskýrðar í ársreikningum sem lán til annarra aðila og í efnahagsyfirliti sé fjárhæð þeirra sett fram sem ,,..outstanding principal receivable and interest credited to the Income and Expenditure Account is the amount receivable for the year in the loan agreement.”

Sóknaraðili hafi nýtt sér þjónustu þriðja aðila, miðlara (e. broker) til þess að koma á við­­skipt­unum við varnaraðila.  Miðlarar komi fram sem sérfræðingar í viðskiptum með heildsölulán.  Miðlararnir hafi stundum gert gagntilboð, þannig að ljóst sé að heild­­­sölulán hafi ekki fasta skilmála sem sérhver fagfjárfestir hafi getað gengið að.   Megi ljóst vera að miðlarar hafi gengið út frá því að lánveitandinn væri fagfjárfestir.

Hlutverk matsfyrirtækja sé mikilvægt í heildsölulánsviðskiptum sveitarstjórna við önn­­­ur fjármálafyrirtæki þar sem lögbundnar leiðbeiningarreglur um fjárfestingar sveita­­rstjórna tiltaki sérstaklega það skilyrði að þeir gagnaaðilar sem sveitarstjórnir ætli að stunda viðskipti við hafi verið metnir með hátt lánshæfi af matsfyrirtækum (e. credit rating agencies).  Þrátt fyrir þær leiðbeiningar hafi breskar sveitarstjórnir, þ.m.t. sóknaraðili, lánað íslensku bönkunum sem hafi verið með útibú í Bretlandi á níu mánaða tímabili eftir að mats­fyrirtækin hafi varað við fjárfestingum í þeim.  Að mati varn­araðila hefði ekki verið þörf á könnun á lánshæfi bankanna í tengslum við heild­sölu­lánsviðskipti ef um hefð­bundin innlán hefði verið að ræða.  Hafi samningar aðila því öll einkenni lánveit­inga frá fagfjárfesti þar sem mat á áhættu fari fram.

Varnaraðili vísar til þess að viðskipti málsaðila styðjist við staðfestingu, útgefna af varn­­ar­aðila, sem innihaldi meðal annars skilmála og þau vaxtakjör sem við eigi.  Þá liggi einnig fyrir staðfesting miðlara sem sé stíluð á sóknaraðila en nokkur munur sé á þeim eftir því hvaða miðlari eigi í hlut.  Tiltekin einkenni séu þó sameiginleg, t.d. yfir­lit yfir fjárhæð, tímabil, gjalddaga og vaxtastig.  Þá sé notað orðalag sem eindregið bendi til þess að um lánssamning sé að ræða, þ.e. orð á borð við lántaka (e. borrower), lán­veitanda (e. lender), viðskipti (e. trade), samningsdag (e. contract date), viðskipti (e. trans­action), samningur/samkomulag (e. settlement).  Staðfestingar varnaraðila og miðlar­anna innihaldi nánast enga þeirra skilmála sem almennt yrðu taldir eiga við um inn­­láns­reikninga.  Í staðfestingarskjali miðlara um lánveitingu sóknaraðila til varnar­aðila 20. mars 2008, sé viðskiptadagur 26. febrúar 2008.  Þessi aðferð geti engan veg­inn samræmst málatilbúnaði sóknaraðila.  Samning­ur hafi þannig falið í sér þrjár mis­mun­andi dagsetningar, viðskiptadag, gildisdag og gjald­daga, sem einmitt einkenni vel­flesta lánssamninga.  Þannig liggi fyrir að sérstak­ur samningur hafi verið gerður um við­skiptin áður en lánið var lagt inn á reikning þess banka sem samið hafi verið um að leggja lánið inn á áður en lánsfjárhæðin hafi verið færð inn á reikning varnaraðila.

Sé ljóst að engir staðlaðir samningsskilmálar hafi gilt um heildsölulánsviðskiptin varð­andi innstæður, s.s. varðandi stofnun reiknings, inn- og útborganir, vaxtatímabil, þókn­anir bankans, kjör og aðra skilmála.  Þvert á móti komi einu skilmálar samn­ing­anna fram með staðfestingu varnaraðila um að fjármunir hafi verið afhentir varnar­aðila í formi láns í tiltekinn tíma.  Hafi þeir skilmálar sem til staðar voru verið um­samd­­ir í hverju tilviki fyrir sig.

Enginn bankareikningur hafi verið stofnaður fyrir sóknaraðila í þessum viðskiptum. Sókn­­ar­aðili hafi engin gögn lagt fram til stuðnings þeirri fullyrðingu að hann hafi talið sig eiga sérstakan reikning á sínu nafni.  Hafi fjármunirnir runnið til varnaraðila í formi láns sem notað hafi verið til að mæta þörf fyrir fjármagn.

Sé orðalag 6. mgr. 9. gr. innstæðulaga borið saman við enskan frumtexta tilskipunar Evrópu­þingsins og ráðsins nr. 94/19/EB um innlánstryggingakerfi komi í ljós að mikil­vægum atriðum hafi verið sleppt við þýðingu tilskipunarinnar yfir á íslensku.   Í til­skipuninni segi að „deposit“ geti aðeins tengst ákveðnum reikningi viðkomandi aðila (e. account).  Rökrétt sé því að álykta að innstæða geti því einungis tekið til sér­greindra fjármuna viðkomandi aðila á reikningi í þeirra nafni.  Ekki sé hægt að fallast á þá fullyrðingu sóknaraðila að hann hafi skilið tilvísun í lánssamningnum sem byrji á stöf­unum FD sem reikningsnúmer eða jafngildi þess.  Umrædd tilvísun sé númerið á lánssamningnum.  Engu alþjóðabankareikningsnúmeri, svokölluðu IBAN (Internation­al Bank Account Number), sé til að dreifa í tilviki heildsölulána.

Hafi engir eiginlegir innlánsreikningar verið í útibúi varnaraðila í London.  Hafi heild­sölu­­lánin verið meðhöndluð í sérstöku lánakerfi varnaraðila og færð inn sem lán.  Varn­­araðili hafi skömmu fyrir hrun hafið umsóknarferli fyrir breskum yfirvöldum vegna stofnunar dótturfyrirtækis í Bretlandi, meðal annars með það fyrir augum að geta boðið upp á almenna innlánsreikninga þar í landi en það hafi hins vegar aldrei kom­­ið til framkvæmda

Varnaraðili bendir á að í tilkynningu Fjármálaeftirlitsins frá 21. nóvember 2008, komi fram að í vinnu við gerð stofnefnahags nýju bankanna hafi verið miðað við að öll inn­lán í kerfum bankanna flyttust yfir til nýju bankanna óháð því hvaða viðskipta­maður ætti í hlut.  Þegar um hafi verið að ræða peningamarkaðslán, sem hafi öll einkenni heild­­sölulána, hafi verið fylgt þeirri reglu að litið væri á slíkar millifærslur sem innlán nema þegar gagnaðili bankans hafi verið annað fjármálafyrirtæki, en Fjármálaeftirlitið skil­­greini sóknaraðila sem fjármálafyrirtæki.  Í þeim tilvikum hefði verið litið á slíka milli­­færslu sem lánveitingu frá fjármálafyrirtæki sem skilin hafi verið eftir í gömlu bönk­­unum.  Þessi aðferð hafi byggt á heildstæðu mati á öllum þáttum og skoðun á ýms­um gögnum sem aflað hafi verið um efni og eðli þessara fjármálagerninga.

Að mati varnaraðila hafi viðskipti að baki heildsölulánum öll ein­kenni verðbréfa en ekki innlána.  Varnaraðili telur að samkvæmt 6. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 teljist krafa sóknaraðila til krafna, sem útgefnar séu af viðskiptabanka í formi verð­bréfa í merkingu ákvæðisins, og geti því ekki notið forgangs samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991.  Lög nr. 13/1996 um verðbréfaviðskipti hafi verið í gildi þegar lög nr. 98/1999 hafi verið sett.  Í 3. tölulið 2. gr. laga nr. 13/1996 sé verðbréf skilgreint.  Lög nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti hafi leyst lög nr. 13/1996 af hólmi.  Núgildandi lög um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 hafi síðan leyst þau lög af hólmi.  Skilgreining þess­ara laga á hugtakinu verðbréf hafi ekki breyst.  Varnaraðili byggir á því að heild­sölu­láns­mark­aður teljist skipulegur markaður í skilningi a-liðar 2. tölulið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 108/2007.  Þá hafi bæði varnaraðili og þeir miðlarar sem milli­göngu hafi haft um við­skipt­in verið leyfisskyldir aðilar.

Kröfur sóknaraðila hafi að mati varnaraðila öll megineinkenni verðbréfs.  Þær séu fram­­seljanlegar, ekki sé gerð krafa um tiltekið form og feli þær í sér útgefið skjal sem sé ávísun á verðmæti og hafi peningalegt gildi.  Kröfur um greiðslu í reiðufé geti talist verð­bréf.  Tilgangur og efni viðskipta aðila geti talist sambærilegt öðrum tegundum gern­­inga sem falli undir undantekninguna í lögum nr. 98/1999.  Þá hafi verið samið um viðskiptin með milligöngu miðlara á fjármagnsmarkaði en gerningar á slíkum mörk­­uð­um séu framseljanlegir.

Verði ekki fallist á að heild­sölu­láns­viðskipti aðila séu ákveðin gerð lánssamnings eða fjárfestingar sem falli utan gildissviðs laga nr. 98/1999, telur varnaraðili að sérstök samningsbundin viðtaka á fé og endurgreiðsla þess með fyrir fram ákveðnum vöxtum falli utan hugtaksins innstæða í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/19/EB. Varn­ar­aðili byggir á því að heildsölu­láns­við­skipti aðila falli ekki innan skilgreiningar á ,,innstæðum“ samkvæmt almennri mál­venju og textaskýringu.  Jafnframt sé byggt á því að ætlun löggjafans hafi ekki verið sú að heildsölulánsviðskipti teldust ,,innstæð­ur“ samkvæmt innstæðulögum.

Fyrir liggi að íslensk lög hafi ekki að geyma nákvæma skilgreiningu á því hvað teljist til innstæðna og innlána.  Skilgreining á innstæðu hafi fyrst komið inn í lög um við­skipta­­banka og sparisjóði nr. 43/1993, sem síðar hafi verið breytt með lögum nr. 39/1996.  Hugtakið „innstæða“ sé skilgreint í tilskipun 94/19/EB.

Skilgreining á innstæðu í lögum nr. 98/1999 sé í samræmi við megineinkenni ,,inn­stæðu“ sem varnaraðili hafi áður lýst.  Skilgreiningin vísi til innstæðna í hefð­bundn­um skiln­ingi, þ.e. afhending fjármuna á sérgreindan reikning þar sem viðskiptamaðurinn hafi tækifæri til þess að taka út fé þegar hann óski.  Skilgreiningin byggi á tilskipun 94/19/EB, sem noti orðalagið ,,funds left in an account“ til skýringar á því hvað sé inn­stæða og vísi þannig til þess að til staðar sé sérstakur reikningur.

Skilgreiningarnar í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 og tilskipun 94/19/EB vísi til ,,hefð­bund­innar almennrar bankastarfsemi“.  Orðalagið nái ekki til sérhæfðra lána eða fjár­mögnunar sem sé framkvæmd með samningum við tiltekna tegund fjárfesta, þ.m.t. sókn­ar­aðila.  Í því tilviki sé oftast samið um sérstaka skilmála, sem ekki eigi sér stað þegar tekið sé við hefðbundnum innlánum.  Heildsölulánsviðskipti geti ekki talist ,,almenn bankastarfsemi“ í framangreindum skilningi og ,,hefðbundin“ innstæða sé háð fyrir fram ákveðnum skilmálum um vexti og stöðluðum skilmálum að öðru leyti sem ekki sé samið um í hverju tilviki fyrir sig.

Þá hafi ætlun löggjafans ekki verið sú að veita kröfuhöfum sem byggi kröfur sínar á heild­sölu­lánsviðskiptum forgang við slitameðferð.  Markmið löggjafans með setningu 6. gr. laga nr. 44/2009, sem breytt hafi 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki varð­andi rétthæð krafna við slit fjármálafyrirtækis, hafi fyrst og fremst verið að vernda smá­sölu­innlán og sparifé almennings.  Líta beri til þess að öll umræða við setningu laganna, laga nr. 125/2008, sem og við setningu laga nr. 98/1999, bendi skýrt til þess að tryggja hafi átt innstæður sparifjáreigenda en ekki heildsölulán fagfjárfesta.  Þessu til viðbótar væri verið að mismuna fagfjárfestum sem veitt hafi varnaraðila lán. Varn­ar­­aðili vísar einnig til frumvarps til nýrra laga um innstæðutryggingar en í frum­varpinu sjálfu og nefndaráliti meiri hluta viðskiptanefndar segi að tilgangur frum­varps­ins sé að vernda sparifé almennings en ekki stofnanafjárfesta. Varnaraðili vísar einnig til álits­gerð­ar þriggja prófessora við lagadeild Háskóla Íslands, dagsett 14. nóvember 2008, þar sem komist sé að þeirri niðurstöðu að rök séu til þess að líta fremur á þessi lán sem eina af leiðum fjármálafyrirtækja til þess að fjármagna rekstur sinn, en ekki innlán.

Þá byggir varnaraðili á því að undantekningar frá meginreglu laga nr. 21/1991 um jafnræði kröfuhafa beri að skýra þröngt.  Varnaraðili telur að forsaga laga nr. 98/1999 og almennar reglur um jafnræði kröfuhafa geri þá kröfu að dómurinn túlki ákvæði laga nr. 44/2009 um forgang innstæðna þröngt.  Skilgreiningin á innstæðu sé ekki skýr og styðji það þá niðurstöðu að hafna beri forgangi krafna sóknaraðila.  Þá sé ljóst að í samþykki felist mismunun gagnvart þeim sem lánað hafi varnaraðila fé í öðru formi en heildsölulánum.  Varnaraðili vísar um þetta meðal annars til fyrirliggj­andi frum­varps til nýrra laga um innstæðutryggingar og dregur af því þá ályktun að pen­inga­mark­aðs­lán, sem séu ákveðin tegund heildsölulánsviðskipta, falli ekki undir skil­grein­ingu á innstæðu.  Að sömu niðurstöðu hafi fyrrgreindir þrír lagaprófessorar kom­ist í álits­gerð frá 14. nóvember 2008.  Varnaraðili vísar einnig til viðbragða stjórn­valda við athuga­semdum aðila á fjármálamarkaði við að Trygg­ingar­sjóður inn­stæðu­eigenda og fjárfesta legði til grundvallar að innlán frá stærri fjárfestum, þar með talið heildsölu­lán, teldust tryggð innlán hér á landi.

Varnaraðili vísar til þess að við gjaldþrotaskipti gildi sú meginregla að jafnræði sé milli kröfuhafa.  Í því felist meðal annars að allar kröfur standi jafnt í hópi svonefndra almennra krafna, sbr. 113. gr. laga nr. 21/1991.  Frá þessu séu þó gerðar undantekn­ing­ar í 109. til 112. og 114. gr. laganna.  Í dómaframkvæmd hafi frávik af þessu tagi verið túlkuð þröngt.  Vegna óskýrleika skilgreiningar á innstæðu og þess vafa sem ríki um hvort heildsölulán teljist innstæða í skilningi laga nr. 98/1999 beri að hafna kröf­um sóknaraðila um forgang.

Hvíli sönnunarbyrðin um að krafa sóknaraðila teljist innstæða í skilningi innstæðulaga á sóknaraðila og vísist um það meðal annars til þeirrar meginreglu sem búi að baki ákvæði 117. gr. laga nr. 21/1991. 

Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að krafa sóknaraðila teljist innstæða og njóti af þeim sökum forgangs byggir varnaraðili á því til vara að forgangsréttur krafna sókn­ar­aðila nái aðeins til fjárhæðar að hámarki 20.887 evrur, sbr. 10. gr. laga nr. 98/1999.  Varnaraðili bendir á að innstæður samkvæmt lögum nr. 98/1999 séu einungis tryggðar upp að lögvörðu marki.  Hrökkvi eignir sjóðsins ekki til að greiða heildarfjárhæð tryggðra innstæðna skuli greiðslum úr sjóðnum skipt þannig milli kröfuhafa að krafa hvers þeirra allt að 1,7 milljónum króna sé bætt að fullu en fjárhæð þessi sé bundin við gengi evru miðað við kaupgengi hennar 5. janúar 1999.  Sjóðurinn virðist ekki geta greitt þær fjárhæðir sem innstæðueigendur eigi tilkall til og geti krafa sóknaraðila því aldrei orðið hærri en sú krafa sem hann að hámarki gæti fengið úr sjóðnum miðað við stöðu hans þegar sóknaraðili hafi lýst kröfu sinni fyrir honum.  Allt umfram þessa fjár­hæð skuli einungis bætt hlutfallslega eftir því sem eignir tryggingarsjóðs hrökkvi til.  Fjárhæðin 20.887 evrur eða 3.534.707 krónur sé því sú innstæða sem sé raun­veru­lega tryggð, sbr. einnig 1. gr. laga nr. 98/1999.  Fjárhæð umfram það ætti því að hafa stöðu almennrar kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

Hafi 6. gr. laga nr. 125/2008, sem lítillega hafi verið breytt með 3. mgr. 6. gr. laga nr. 44/2009, meðal annars verið sett til að tryggja að tryggingarsjóðurinn gæti uppfyllt skyldur sínar.  Viðfangsefni laga nr. 98/1999 sé meðferð þeirra greiðslna sem séu tryggð­­­­ar samkvæmt lögunum.  Tilvísun til laga nr. 98/1999 í lögum nr. 125/2008 verði því að skilja svo að tryggðar innstæður njóti forgangs samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991.  Þær innstæður sem undanskildar séu tryggingu, sbr. 6. mgr. 9. gr. laganna, njóti hins vegar ekki forgangs, sbr. einnig dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 184/2010.  Með ákvæði 112. gr. laga nr. 21/1991 sé vikið frá grundvallarreglu laganna um jafnræði kröfuhafa við gjaldþrotaskipti.  Af því leiði að ákvæði laga nr. 125/2008 verði ekki skýrt rúmt og hið sama hljóti að gilda um skýringu á inntaki 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002.

Með fjárfestingu sinni hafi sóknaraðili tekið áhættu sem sé allt önnur en fyrir hefð­bundn­ar innstæður í banka.  Sóknaraðili hafi samið um hærri vexti en gengur og gerist um hefðbundna innstæðueigendur og tekið áhættu af því að fjármunirnir gætu tapast að miklu leyti ef varnaraðili yrði gjaldþrota.  Þá sé tryggingarsjóðnum ekki ætlað að tryggja öllum innstæðueigendum og fjárfestum fulla vernd fyrir tjóni sem kunni að verða í áföllum sambærilegum þeim sem orðið hafi á Íslandi í október 2008.  Sú lág­marks­fjárhæð sem tilgreind sé í lögunum taki mið af því annars vegar að vera nægj­an­lega há til að tryggja lágmarksneytendavernd og stuðla að stöðugleika fjármála­kerfis­ins og hins vegar að vera ekki svo há að stjórnendur aðildarfyrirtækis freistist til að taka aukna áhættu í trausti þess að ganga megi að tryggingunni lendi fjármálafyrirtæki í greiðsluþroti.  Loks séu tryggðar innstæður samkvæmt lögum nr. 98/1999 fyrir hvern inn­stæðu­eiganda, ekki fyrir hvern innstæðureikning.

Varnaraðili byggir enn fremur á því að túlka beri innstæðulög á þá leið að höfuðstóls­verð­mæti einstakra krafna geti numið í mesta lagi lágmarkstryggingunni.  Leiði for­gang­ur innstæðna því ekki til þess að áfallnir vextir sem fallið hafi á kröfuna fram að 22. apríl 2009 falli þar undir.  Þá nái forgangur ekki til krafna um áfallinn kostnað til og með 22. apríl 2009.  Hafi sóknaraðili ekki sýnt fram á grundvöll kostnaðarkröf­unn­ar og sé hún ekki nægjanlega rökstudd.  Hafi varnaraðili fengið heimild til greiðslu­stöðv­unar í nóvember 2008 og hafi ekki verið sýnt fram á réttmæti og lögmæti þess að láta varnaraðila bera kostnað sem sóknaraðili hafi stofnað til, sbr. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 21/1991.

Um lagarök vísar varnaraðili til laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 44. gr. laga nr. 44/2009, laga nr. 43/1933 um viðskiptabanka og sparisjóði, laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti og til eldri laga um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003 og 13/1996, laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingarkerfi fyrir fjárfesta, tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 94/19/EB um innlánstryggingarkerfi, tilskipunar Evrópusambandsins 97/9/EB um bótakerfi fyrir fjárfesta, meginreglu gjaldþrota­skipta­réttar um jafnræði kröfuhafa og meginreglna samningaréttar um túlkun samninga.  Kröfu um málskostnað byggir varnaraðili á 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

V

Eins og fram er komið snýst meginágreiningur máls þessa um það hvort kröfur sóknar­aðila á hendur varnaraðila njóti forgangs við slitameðferð þess síðarnefnda á þeim grunni að þær séu innstæður í skilningi 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjár­mála­­fyrirtæki en þar segir að við slit fjármálafyrirtækis gildi sömu reglur og um rétt­hæð krafna á hendur þrotabúi, en þó skuli kröfur um innstæður samkvæmt lögum um inn­stæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta jafnframt teljast til krafna sem njóta rétthæðar samkvæmt 1. og 2. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.  Ákvæði 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 var upphaflega sett með 6. gr. laga nr. 125/2008 en lítillega breytt í núverandi horf með 3. mgr. 6. gr. laga nr. 44/2009. 

Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 njóta kröfur um innstæður sam­kvæmt lögum nr. 98/1999 þess forgangs við skipti sem hér er deilt um.  Tilvísun í framan­greindu ákvæði til laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta nr. 98/1999 verður ekki skilin á annan veg en að innstæðuhugtakið sé það sama í báð­um lögunum og verður að skilja ákvæði þetta svo að einungis tryggðar innstæður sam­kvæmt lögum nr. 98/1999 njóti forgangs.  Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 er hugtakið inn­­­stæða skilgreint með þeim hætti að átt sé við innstæðu sem sé tilkomin vegna inn­láns eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi og við­skipta­banka eða spari­sjóði beri að endurgreiða samkvæmt skilmálum er gildi samkvæmt lög­­um eða samn­­ingum.  Þá segir í síðari málslið ákvæðisins að trygging samkvæmt lög­­unum nái ekki til skuldabréfa, víxla eða annarra krafna sem útgefnar eru af við­skipta­banka eða sparisjóði í formi verðbréfa. 

Við úrlausn þess ágreinings sem hér er uppi reynir á skýringu hugtaksins innstæða sam­­kvæmt fyrrgreindum lögum nr. 98/1999.  Með lögum þessum var innleidd til­skipun Evrópusambandsins um tryggingakerfi fyrir fjárfesta nr. 97/9 EB.  Áður höfðu ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 94/19/EB um innlána­tryggingakerfi verið innleidd í íslenskan rétt, þar á meðal sú skilgreining á innstæðu sem nú er að finna í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999.  Í íslenskum texta tilskipunar 94/19 EB er hugtakið innstæða skilgreint í 1. gr. með þeim hætti að átt sé við inn­stæðu sem sé tilkomin vegna innláns eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi og lána­stofnun beri að endurgreiða með skilmálum sem gildi sam­kvæmt lögum eða samn­ingum, svo og kröfur útgefnar af lánastofnun í formi verð­bréfa.  Við setningu laga nr. 98/1999 var nýtt heimild tilskipunar 94/19EB til að und­an­­skilja trygginga­vernd, skuldabréf, víxla og aðrar kröfur sem útgefnar eru af við­skipta­­banka eða spari­sjóði í formi verðbréfa.  Þá voru einnig undanskilin trygg­inga­vernd, innstæður, verð­bréf og reiðufé í eigu aðildarfyrirtækja svo og móður- og dóttur­fyrir­­tækja þeirra, fyrir þeirra eigin reikning og innstæður, verðbréf og reiðufé sem tengist málum þar sem sak­fellt hefur verið fyrir peningaþvætti.

Samkvæmt hinum enska texta tilskipunar nr. 94/19EB er innstæðu­hugtakið skilgreint svo: „any credit balance which results from funds left in an account or from temporary situations deriving from normal banking transactions and which a credit institution must repay under the legal and contractual conditions applicable, and any dept evidenced bycertificate issued bycredit institution.“  Eins og að framan er rakið er íslenskur texti tilskipunarinnar nánast samhljóða hinum íslenska lagatexta tilvitn­aðr­ar 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999.  Verður ekki annað séð en að lagaákvæði þetta sé í fullu samræmi við tilskipunina og verður því við úrlausn um hugtakið innstæða stuðst við texta hinna íslensku laga.

Úrlausnarefni máls þessa er að leysa úr því hvort kröfur sóknaraðila skuli flokkaðar sem forgangskröfur samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 á þeim forsendum að við­skipti þau sem áttu sér stað milli aðila falli undir skilgreiningu laga nr. 98/1999 á inn­stæðu­­hugtakinu, þ.e. að vera innstæða sem tilkomin er vegna innláns eða millifærslu í hefð­bundinni almennri bankastarfsemi og viðskiptabanka eða sparisjóði beri að end­ur­greiða samkvæmt skilmálum er gildi samkvæmt lögum eða samningum.  Ekki er deilt um greiðsluskyldu varnaraðila á kröf­um sóknaraðila í samræmi við þá skilmála sem aðilar sömdu um.  Stendur því eftir að skera úr um það hvort greiðsl­­ur sóknar­aðila til varn­ar­aðila voru innlán eða milli­færslur í hefðbundinni al­mennri banka­starf­semi.  

Varnaraðili byggir á því fyrst og fremst að viðskipti aðila séu ákveðin gerð láns­samn­ings eða verðbréfs en ekki innláns og falli því utan gildissviðs laga nr. 98/1999.  Í mál­inu liggja fyrir skriflegar staðfestingar á því hvað aðilar sömdu um og verður ekki séð að ágreiningur sé um efni samninganna.  Fyrri samningur aðila er dagsettur 22. janúar 2008 og sam­kvæmt honum átti sóknaraðili að leggja inn til varnaraðila 2.500.000 sterlingspund þann sama dag og skyldi varnaraðili greiða varnaraðila þá fjárhæð til baka með 5,34% ársvöxtum hinn 19. nóvember 2008.  Síðari samningurinn er dagsett­ur 26. febrúar 2008 og samkvæmt honum átti sóknaraðili að leggja inn til varnaraðila hinn 20. mars 2008 5.000.000 sterlingspunda og skyldi varnaraðili endurgreiða sókn­ar­aðila þá fjárhæð með 6% ársvöxtum hinn 20. mars 2009.

Eins og fram er komið lagði sóknaraðili framangreindar fjárhæðir inn til varnaraðila á um­­sömd­­um tíma og vegna falls varnaraðila haustið 2008 kom aldrei til þess að hann endurgreiddi sóknaraðila fjárhæðir þessar í samræmi við samninga aðila.

Í skjölum málsins eru nöfn á umræddum viðskiptum á reiki.  Er ýmist talað um heild­sölu­innlán eða heildsölulán.  Þá bera sjálf skjölin vegna viðskiptanna ekki óyggj­andi með sér hvers eðlis viðskiptin voru en þau eru á ensku kölluð „FOREX DEPOSIT“.  Í íslenskri þýðingu löggilts skjalaþýðanda er þetta þýtt „gjaldeyris­inn­lán“ og í texta skjalanna þar sem talað er um „deposit type“ er það þýtt sem innláns­tegund.  Í staðfestingarskjölum frá miðlurum þeim sem höfðu milligöngu um viðskiptin er hins vegar talað um sóknaraðila sem lánveitanda en varnaraðila sem lántaka.  Þá er ýmist talað um fasta upphæð eða föst viðskipti.  Af þessu er ljóst að orðnotkun vegna við­skipt­anna á skjölum þess­um er misvísandi og því ekki óyggjandi vísbending um hvers eðlis þau voru. 

Varnaraðili telur að við mat á því hvort viðskipti þau sem mál þetta tekur til þurfi að líta til aðila viðskiptanna, einkenna, markmiðs og skilmála sem um þau giltu. 

Af gögnum málsins er ljóst að sóknaraðili er fjársterkur aðili sem tók ákvörðun um að leggja inn fjármuni hjá varnaraðila sem bauð upp á þennan fjárfestingarkost.  Þá liggur fyr­ir að sóknaraðili er fagfjárfestir samkvæmt skilgreiningu laga nr. 108/2007 um verð­­bréfaviðskipti en samkvæmt 9. tölulið 1. mgr. 2. gr. laganna segir að með fag­fjár­fest­um sé átt við viðskiptavini sem búi yfir reynslu, þekkingu og sérfræði­kunnáttu til að taka sjálfir ákvarðanir um fjárfestingar og meta áhættuna sem fylgi.  Meðal þeirra sem upp eru taldir í ákvæðinu um hverjir teljist fagfjárfestar eru sveitar­stjórnir, en sókn­­ar­aðili er breskt sveitarfélag.  Þá liggur fyrir að sóknaraðili nýtti sér þjón­ustu miðl­­­­ara í viðskiptum sínum við varnaraðila.   

Af fyrrgreindri skil­grein­ingu á hug­tak­­inu innstæða verður ekki ráðið að það skipti máli hver er eigandi um­ræddrar innstæðu, fyrir utan þá sem sérstaklega eru undan­þegnir tryggingavernd samkvæmt lögunum.  Í tilskipun 94/19EB er gert ráð fyrir að einstök aðildarríki geti ákveðið að viss innstæðuform eða tilgreindir innstæðu­eig­end­ur, svo sem sveitarfélög eða stærri fjárfestar, séu undanskildir tryggingavernd Trygg­ingar­sjóðs innstæðueigenda og fjárfesta en sú heimild var ekki nýtt í lög­um nr. 98/1999.  Verður ekki séð að sú staðreynd að sóknaraðili hafi verið fag­fjár­festir sem nýtt hafi sér þjónustu miðlara í umræddum viðskiptum eða að honum hafi í sam­ræmi við leið­beiningarreglur um fjár­festingar sveitastjórnar borið að gera sitt eigið láns­­hæfis­mat styðji það að umrædd viðskipti hafi verið lánssamningur en ekki innlán.   Þá verður ekki séð að verið sé að mismuna fagfjárfestum með því að gera innstæður að forgangskröfum.  Augljóst er að öll innlánsviðskipti eru liður í fjármögnun fjármála­stofnana.  Verður ekki séð að þau markmið sóknaraðila með þessum við­skiptum, þ.e. a festa fjármuni sem voru um­fram þörf og hámarka arð,  eða að við­skipt­in hafi þjónað skamm­tíma­fjármögn­un varn­ar­aðila, sýni fram á að umrædd viðskipti hafi verið láns­samn­ingur frekar en innlán.

Telja verður að það markmið hafi vegið þungt við stofnun Tryggingarsjóðs inn­stæðu­eig­enda og fjárfesta að vernda einstaklinga og minni fjárfesta vegna greiðslu­erfiðleika fjármálafyrirtækja.  Við stofnun sjóðsins hafa hagsmunir stærri fjár­festa, eins og sókn­ar­aðila, ef til vill verið fjarlægari.  Þó er ljóst að það hlutverk sjóðs­ins að stuðla að almenn­um fjármálastöðugleika og styrkingu fjármálakerfisins á breiðum grundvelli hefur án efa vegið þyngst.  Að þessu virtu og þar sem ekkert verð­ur ráðið af lög­skýr­­­ingar­gögnum um að tilgangur löggjafans hafi verið sá að viðskipti af því tagi sem hér um ræðir nytu ekki tryggingaverndar verður ekki séð að nein rök hnígi til annars en að skýra umrætt lagaákvæði í samræmi við hljóðan þess.

Í máli þessu liggur fyrir að viðskipti þessi voru ekki bókfærð sem innlán í bókhaldi varn­­­ar­­aðila en varnaraðili kveður þau hafa verið meðhöndluð sem lán.  Þeirri full­yrð­ingu varnaraðila, sem fær stuðning í gögnum málsins, um að hann hafi ekki greitt ið­gjöld af innborgunum sóknaraðila til Trygging­ar­sjóðs innlánseigenda og fjárfesta, hef­ur ekki verið hnekkt.  Það að varnaraðili kaus að haga bókhaldi sínu með þess­um hætti og að greiða ekki iðgjöld til tryggingasjóðsins er hins vegar ekki óyggjandi sönnun þess að umrædd­ar inn­borgan­ir hafi frekar verið lán en inn­stæð­ur í skiln­ingi framan­greinds ákvæðis.  Að sama skapi er það ekki óyggjandi sönnun fyrir því að um lán frekar en innstæður hafi verið að ræða að í efnahagsreikningi sóknar­aðila hafi við­skipti þessi verið flokkuð sem lán.

Þá hefur varnaraðili bent á að það sem einkenni þau viðskipti sem hér um ræðir hafi verið að umrædd fjárhæð sem afhent var varnaraðila hafi verið óaðgengileg fram að gjald­­daga líkt og einkenni lán.  Alkunna er að fjármálafyrirtæki bjóða upp á ýmsar ávöxt­unarleiðir í formi innlána, meðal annars bundna reikninga.  Sem dæmi um slíkan reikning má nefna svokallaðan fastvaxtareikning Íslandsbanka sem er bundinn óverð­tryggður innlánsreikningur.  Hægt er að velja lengd binditímans, þ.e. 1, 3, 6 eða 12 mánuði og eru fastir vextir frá stofndegi til loka binditímans, mismunandi eftir binditíma. Að binditíma loknum ráðstafast innstæða sjálfkrafa inn á tilgreindan ráð­stöf­unarreikning.  Er þannig fjárhæð bundinna reikninga á svipaðan hátt óaðgengileg í ákveðinn tíma eins og tilfellið var varðandi þau viðskipti sem hér um ræðir.  Verður því ekki fallist á að þótt samningar aðila hafi gert ráð fyrir að umrædd fjárhæð greiddist á ákveðnum gjalddaga geti ekki verið um innstæðu að ræða. 

Þá þykir það heldur ekki hafa þýðingu við mat á því hvort um innstæðu eða lán er að ræða að ekki var stofnaður sérstakur bankareikningur um viðskiptin á nafni sóknar­aðila.  Hér verður að styðj­ast við orðalag ákvæðisins en samkvæmt því er það ekki skilyrði til að um innstæðu geti verið að ræða að hún sé lögð inn á sérstakan reikning á nafni sóknaraðila.  Þá breytir í engu um skilgreiningu á innstæðu hvar greiðslustaður var enda alkunna að unnt er að taka út af tilteknum banka­reikn­ing­um og leggja inn á þá hvar sem er í heiminum meðal annars með millifærslum í gegnum svo­kall­að­an heimabanka.

Eins og fram er komið sömdu aðilar um þau kjör sem giltu um viðskipti þeirra og verður ekki séð að nokkru máli skipti hvor hafði frumkvæðið að þeim viðskiptum eða hvort miðlarar komu að því að koma viðskiptunum á.  Þá verður heldur ekki séð að það skipti máli varðandi viðskipti þessi að ekki hafi um þau gilt staðlaðir samnings­skil­málar eða að aðilar hafi samið í hverju tilfelli fyrir sig um skilmála innlánsins, þ.e. fjárhæð, lánstíma og vexti og þar með gjalddaga, en sérstaklega er tekið fram í ákvæði laganna að viðkomandi lánastofnun beri að endurgreiða innlánið samkvæmt skil­málum er gildi samkvæmt lögum eða samningum.  Breytir engu í þessu sambandi hvort aðeins fagfjárfestum hafi staðið til boða slíkir samningar sem hér um ræðir og vextir hafi verið háir.

Af þeim skjölum sem fyrir liggja um viðskipti þau sem hér er fjallað um þykir ljóst að aðilar sömdu um að sóknaraðili legði umræddar greiðslur inn á reikning varnaraðila á fyrir fram ákveðnum degi og átti varnaraðili að greiða fjármunina til baka á ákveðnum degi með ákveðnum vöxtum inn á reikning sóknar­aðila.  Enda þótt annar samning­ur­inn hafi verið gerður áður en greiðsla fór fram er það ekki óyggjandi vísbending um að um lánssamning hafi verið að ræða frekar en innstæðu. 

Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið þykir ljóst að viðskipti þau sem hér er fjallað falla innan þeirrar hugtaksskilgreiningar innstæðuhugtaksins að vera innlán eða millifærslur.

Eins og rakið hefur verið er það hugtaksskilgreining innstæðu að um sé að ræða innlán eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi.  Hvergi er í lögum að finna skilgreiningu á því hvað í slíkri starfsemi felst.  Hins vegar er ljóst að skilgreining á því hvað teljist hefðbundin almenn bankastarfsemi breytist í samræmi við þróun og breytingar sem verða á fjármálamarkaði og er því enga einhlíta skilgreiningu að finna á því hvað teljist til hefðbundinnar almennrar bankastarfsemi.  Varnaraðili telur að viðtaka bank­ans á fjármunum í formi heildsölulána hafi í eðli sínu ekki verið viðtaka á inn­lánum í hefðbundinni bankastarfsemi.  Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis er fjall­að í kafla 7.5 um innlán stóru bankanna þriggja.  Kemur þar fram að hjá varn­araðila hafi innlán verið nokkuð stöðugur hluti heildarfjármögnunar bankans eða um 25-30% allt frá árinu 2004 og fram að falli bankans.  Þá kemur þar fram að innlán sem hlutfall af útlánum hafi hækk­að nokkuð á árinu 2007 þegar bankinn hóf sókn á breskan heild­sölu­­inn­láns­mark­að.  Þar sem ekkert liggur fyrir um annað en að móttaka slíkra heild­sölu­innlána hafi fallið undir starfsheimildir viðskiptabanka er lúta að móttöku innlána, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 20. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, og teljist því hluti af hinni leyfisbundnu starfsemi varnaraðila, verður að líta svo á að hún teljist hefðbundin í skilningi greinds ákvæðis.

Varnaraðili byggir á því að við gjaldþrotaskipti gildi sú  meginregla að jafnræði sé milli kröfuhafa og verði að túlka öll frávik frá þeirri meginreglu þröngt. Af dómaframkvæmd verður ekki annað ráðið en að lagareglur um forgang innstæðna við slit fjármálafyrirtækja beri að skýra samkvæmt orðanna hljóðan á sama hátt og aðrar laga­reglur um forgang krafna við gjaldþrotaskipti. 

Að öllu framansögðu virtu eru innlán eða millifærslur sóknaraðila sem hér um ræðir innstæður í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1998 og skulu við slit varnaraðila flokkast sem forgangskröfur sam­kvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991.

Varnaraðili telur að forgangur krafna sóknaraðila takmarkist við 20.887 evrur.  Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 er tryggingarsjóðnum skylt að greiða viðskiptavini sem krefur aðildarfyrirtæki um endurgreiðslu andvirði innstæðu ef aðildarfyrirtæki er að áliti Fjármálaeftirlits ekki fært um að inna af hendi greiðslu á andvirði innstæðu.  Þá segir í 1. mgr. 10. gr. laganna að ef eignir viðkomandi deildar trygg­ingarsjóðsins hrökkvi ekki til að greiða heildarfjárhæð tryggðra innstæðna, verðbréfa og reiðufjár í hlutaðeigandi aðildarfyrirtækjum skuli greiðslu úr hvorri deild skipt milli kröfuhafa þannig að krafa hvers þeirra allt að 1,7 milljónum króna, bundin við kaupgengi evru 5. janúar 1999, skuli bætt að fullu en allt umfram það hlutfallslega jafnt eftir því sem eignir hvorrar deildar hrökkvi til.  Í frumvarpi til laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og trygg­ing­akerfi fyrir fjárfesta sagði að hlutverk tryggingar­sjóðs viðskiptabanka sam­kvæmt lögunum væri að tryggja innstæðueiganda skil á greiðslu innstæðu sem hann hafi krafist endurgreiðslu á og viðskiptabanki eða útibú geti ekki innt af hendi.  

Sam­kvæmt framasögðu verður tryggingarsjóðurinn ekki kraf­inn um greiðslu umfram 1,7 milljónir króna, bundnar við evru, hrökkvi eignir hans ekki til, en sjóðnum ber hins vegar að greiða innstæðu að fullu svo fremi eignir hans hrökkva til.  Greiðist krafa sóknaraðila að fullu við slitameðferð varnaraðila mun ekki koma til þess að hann eignist kröfu á sjóðinn.  Því breytir lágmarksfjárhæð sem innstæðueigendum er tryggð samkvæmt lögum nr. 98/1999 engu um að forgangur kröfu sóknaraðila tekur til allrar kröfu hans.  Verður því ekki fallist á það með varnaraðila að forgangur takmarkist við umrædda lágmarksfjárhæð.

Ekki er ágreiningur með aðilum að um slitameðferð varn­ar­aðila skuli gilda íslensk lög, sbr. 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002 um fjármála­fyrirtæki, þar með um það hvar skipa skuli kröfum sóknaraðila í réttindaröð.  Ekki verður af málatilbúnaði aðila ráðið að ágreiningur sé um fjárhæð krafna sóknaraðila að öðru leyti en snýr að vöxtum frá gjalddaga og fram til upphafsdags skipta og kostnaði sem sóknaraðili kveður hafa fallið á kröfuna fyrir upphafsdag skipta.  Varnaraðili hafði hafnað öllum vaxtakröfum sóknaraðila en hefur við meðferð málsins samþykkt að kröfur sóknaraðila beri samningsvexti.  Aðila greinir hins vegar á um hvaða lög eigi að gilda um kröfur sókn­ar­aðila að efni til en óumdeilt er að hér sé um að ræða einkaréttarlega samn­ings­­skuld­bindingu í skilningi laga nr. 43/2000 um lagaskil á sviði samningaréttar.

Báðar kröfur sóknaraðila eru með gjalddaga fyrir upphafsdag skipta, annars vegar hinn 19. nóvember 2008 og hins vegar hinn 20. mars 2009.  Sóknaraðili byggir á því aðallega að hann eigi rétt á dráttarvöxtum á kröfur sínar frá gjalddaga þeirra fram til upphafsdags skipta samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðbætur.  Varnaraðili hefur við meðferð málsins samþykkt að sóknaraðili eigi rétt á samn­ings­vöxtum á kröfurnar frá þeim degi sem fjárhæðir voru lagðar inn á reikning sóknaraðila til 22. apríl 2009.  Af mála­tilbúnaði varnaraðila verður ekki með vissu ráðið á hverju hann byggir þessa afstöðu sína en við aðalmeðferð málsins kom fram að hann teldi að bresk lög ættu að gilda um kostnaðar- og vaxtakröfur sóknaraðila. 

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 43/2000 um lagaskil á sviði samningaréttar segir að hafi samningur ekki að geyma ákvæði um það hvers lands lögum skuli beita skuli beita lögum þess lands sem samningur hefur sterkust tengsl við.  Samkvæmt 2. mgr. skal að jafnaði litið svo á að samningur hafi sterkust tengsl við það land þar sem aðili hefur aðalstöðvar sínar.  Ef samningur er gerður í tengslum við atvinnu eða atvinnu­rekstur viðkomandi skuli litið svo á að samningur hafi sterkust tengsl við það land þar sem sá sem aðalskylduna beri hafi aðalstarfsstöð sína.  Ef efna á samning samkvæmt ákvæðum hans á annarri starfsstöð en þar sem aðili hefur aðalstarfsstöð sína skal beita lögum þess lands þar sem starfsstöð er.  Í þeim skjölum sem fyrir liggja í málinu og varða umdeild viðskipti aðila kemur ekki fram hvaða lögum skuli beita.  Hins veg­ar liggur fyrir að viðskipti aðila áttu sér stað í gegnum útibú varnaraðila í London og greiðsl­ur áttu að fara í gegnum bankareikninga aðila í Bretlandi.  Samkvæmt því ber að beita breskum lögum um kröfur sóknaraðila, þar með um rétt hans til að krefjast vaxta og kostnaðar á kröfurnar.

Samkvæmt minnisblaði Morrison og Foerster, sem hefur að geyma yfirlit um ákvæði evrópskra laga um vexti og kostnað og lagt hefur verið fram í íslenskri þýðingu löggilts skjalaþýðanda, eru meðal annars rakin ákvæði um vexti samkvæmt breskri reglugerð um greiðsluþrot frá 1986.  Verður ekki séð að ágreiningur sé með aðilum um efni þessara reglna. 

Í 93. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um á hvaða grunni kröfuhafi við gjald­þrota­skipti geti krafist vaxta af skuld.  Þar segir í 1. tölulið ákvæðisins að þegar samþykkt krafa beri vexti verði þeir samþykktir sem hluti skuldarinnar að undan­skild­um þeim hluta vaxtanna sem falla í gjalddaga eftir upphafsdag skipta.  Í 2. tölulið segir að við eftirfarandi aðstæður geti kröfur tekið til vaxta á skuld vegna tímabils fyrir upphafsdag skipta enda þótt þeir hafi ekki verið áskildir eða fyrir fram umsamdir.  Í 3. tölulið segir að ef skuldin byggir á skriflegu skjali og er gjaldkræf á tilteknum tíma verði krafist vaxta fyrir tímabilið frá þeim degi til viðkomandi dags.  Þá segir í 6. tölu­lið að vextir sem krafist verði samkvæmt 3. tölulið, séu þeir vextir sem gildi sam­kvæmt 17. gr. breskra laga um dóma frá 1838 á upphafsdegi skipta en þeir eru sam­kvæmt gögnum málsins 8% ársvextir.  Samkvæmt þessu verður fallist á varavaxta­kröfu sóknaraðila um 8% vexti á kröfur hans frá gjalddaga þeirra til 22. apríl 2009.

Samkvæmt 1. tölulið 114. gr. gjaldþrotaskiptalaga eru kröfur um vexti, verðbætur, gengismun og kostnað af innheimtu kröfu samkvæmt 112. eða 113. gr. sem hafa fallið til eftir að úrskurður gekk um að búið sé tekið til gjaldþrotaskipta eftirstæðar kröfur.  Með gagnályktun frá þessu ákvæði verður vaxtakrafa sóknaraðila fram til 22. apríl 2009 viðurkennd með kröfunni sem forgangskrafa.

Sóknaraðili gerir kröfu um kostnað vegna beggja samninganna.  Kveðst hann hafa orðið fyrir tilgreindum kostnaði vegna nauð­syn­­­legra aðgerða hans til að verja hags­­muni sína í íslensku gjaldþrotamáli.  Samkvæmt fyrrgreindu yfirlitsblaði Morrison og Foerster kemur fram að almenna reglan samkvæmt reglugerðinni um greiðslu­þrot frá 1986 sé að sérhver kröfuhafi skuli bera kostnaðinn af því að sanna kröfur sínar en að dómstólar hafi heimild til að úrskurða um kostnað.  Samkvæmt kröfulýsingu sóknar­aðila er um að ræða lögfræðikostnað, þar með talinn kostnað vegna funda og bréfa­skipta við skilanefnd varnaraðila og ýmsa opinbera íslenska aðila.  Ekki verð­ur af gögn­um málsins ráðið með vissu hvernig fjárhæð umrædds kostnaðar er fengin eða  hvenær til hans var stofnað.  Þegar það er virt og með hliðsjón af því að kröfur sóknaraðila féllu ekki í gjalddaga fyrr en eftir frestdag og önnur þeirra ekki fyrr en eftir að varnaraðili var kominn í greiðslustöðvun verður ekki séð að nauðsyn hafi borið til að leggja út í umræddan kostnað nema að því leyti sem sóknaraðili þurfti að sanna kröfur sínar.  Þykir sóknaraðili því ekki hafa sýnt fram á það með haldbærum gögnum að hann eigi réttmæta kröfu að þessu leyti og verður henni því hafnað.

Við aðalmeðferð málsins vakti varnaraðili athygli dómsins á því að dómstólum bæri skylda til að fjalla um málsástæður tengdar stjórnskipulegu gildi almennra laga, óháð réttarfarsreglum og nefndi hann að 6. gr. laga nr. 125/2008, sbr. lög nr. 44/2009, sem gerðu innstæður að forgangskröfum kynnu að brjóta í bága við eignarréttarákvæði stjórn­ar­skrárinnar sem og jafnræðis- og meðalhófsreglu hennar.  Kom fram hjá varnar­aðila að ekki væri um að ræða nýjar málsástæður af hans hálfu heldur væri einungis um að ræða ábendingu til dómsins.  Sóknaraðili mótmælti því að slíkar máls­ástæð­ur kæm­­ust að þar sem þær væru of seint fram komnar.  Enda þótt varnaraðili hafi ekki byggt á þessum máls­ástæðum í málatilbúnaði sínum þykir engu að síður rétt að huga að þeim þar sem þær varða stöðu almennrar löggjafar gagnvart stjórnarskrá, en þó aðeins þeim ákvæðum laganna sem lúta að forgangi innstæðna.  

Hin svo­kölluðu neyðarlög nr. 125/2008, sbr. lög nr. 44/2009, voru sett þegar við íslensku efnahagslífi blasti algert hrun.  Voru lögin viðbrögð til þess að draga úr sam­félags­legu tjóni af völdum fjármálakreppunnar og endurreisa starfhæft bankakerfi.  Þegar litið er til þeirra aðstæðna sem ríktu í íslensku samfélagi, þegar lögin voru sett, verður ekki talið að lagasetning þessi hafi gengið lengra en efni stóðu til og þörf var á.  Þá verður ekki séð, í ljósi þeirra aðstæðna sem að ofan er lýst, að með setningu þeirra hafi verið brotið gegn eignar­réttarákvæði stjórnar­skrár eða jafnræðisreglu hennar.

Að öllu því virtu sem að framan er rakið er það niðurstaða þessa máls að kröfur sóknaraðila eru viðurkenndar sem forgangskröfur eins og þær eru fram settar með þeim breytingum sem að framan greinir varðandi kostnað og vexti fram til upphafs­dags skipta eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Með vísan til þess að veruleg vafaatriði þykja vera fyrir hendi í máli þessu þykir rétt með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að hvor aðili beri sinn hluta málskostnaðar.

Af hálfu sóknaraðila flutti málið Ólafur Eiríksson hrl. en af hálfu varnaraðila flutti málið Steinunn Guðbjartsdóttir hrl.

Úrskurð þennan kveða upp héraðsdómararnir Greta Baldursdóttir, sem dómsformaður, Ingveldur Einarsdóttir og Ásgeir Magnússon.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Eftirfarandi kröfur sóknaraðila, Norfolk County Council, eru viðurkenndar sem for­gangs­kröfur samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð varnaraðila Glitnis banka hf.:

a)       Krafa í kröfuskrá nr. CL20091121-1866 að fjárhæð 2.610.457,53 sterlingspund með 8% ársvöxtum frá 19. nóvember 2008 til 22. apríl 2009.

b)       Krafa í kröfuskrá nr. CL20091121-1876 að fjárhæð 5.300.000 sterling­s­pund með 8% ársvöxtum frá 20. mars 2009 til 22. apríl 2009.

Málskostnaður fellur niður.