Print

Mál nr. 452/2016

Ákæruvaldið (Einar Tryggvason saksóknari)
gegn
Hermanni Eyjólfssyni (Sigurður G. Guðjónsson hrl.)
Lykilorð
  • Umboðssvik
  • Skilorð
Reifun

H, sem var bæði framkvæmdastjóri og eigandi B Ltd. og eini eigandi Á ehf., sem átti A hf. að fullu, voru gefin að sök umboðssvik, með því að hafa fyrir hönd B Ltd. undirritað skjal sem fól í sér afsal á þyrlu til félagsins frá A hf. og sama dag undirritað fyrir hönd B Ltd., annars vegar lánssamning, þar sem A hf. lánaði B Ltd. fyrir kaupverðinu og hins vegar leigusamning, þar sem B Ltd. leigði A hf. þyrluna aftur. Þannig hefði skuld B Ltd. við A hf. vegna þyrlukaupanna verið skuldajafnað við umsamdar leigugreiðslur og B Ltd. orðið eigandi þyrlunnar án þess að nokkurt endurgjald kæmi fyrir. Framkvæmdastjóri A hf. og meðákærði H í héraði hafði skrifað undir samningana fyrir hönd A hf. en hann undi niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu fyrir sitt leyti. Í dómi Hæstaréttar var inntak umboðssvika rakið og fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að H hefði verið í raunverulegri aðstöðu til að taka ákvörðun um umrædd viðskipti þótt hann hefði ekki gegnt formlegri stöðu hjá A hf. Þá hefði enginn viðskiptalegur tilgangur búið að baki því að taka þyrluna á leigu, heldur hefði ráðstöfunin eingöngu verið gerð í því skyni að láta leigugreiðslur ganga upp í kaupverðið, en fyrir lá að þyrlan hefði ekki haft heimild til loftferða þann tíma sem hún var leigð A hf. og því hefði hún ekki nýst í rekstri félagsins. Með þessu hefði H misnotað aðstöðu sína hjá A hf. og breytti engu í því sambandi þótt hann hefði verið eini eigandi félagsins í gegnum annað félag. Þar sem engir peningar hefðu skipt um hendur við sölu þyrlunnar hefði A hf. tekið á sig alla áhættuna af viðskiptunum með því að leigja þyrluna þótt engin verkefni hefðu verið fyrir hana í starfsemi félagsins. Hefði félagið því orðið fyrir fjártjóni í bráð og verulegri fjártjónshættu til lengdar. Var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu H því staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingibjörg Benediktsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 13. júní 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.

I

Á árinu 2008 keypti einkahlutafélagið Á, sem var að öllu leyti í eigu ákærða, allt hlutafé í A hf. Framkvæmdastjóri síðargreinda félagsins frá árinu 2005 var meðákærði í héraði, X. Félaginu var breytt úr hlutafélagi í einkahlutafélag 4. september 2012 og frá sama tíma fékk það nafnið B ehf. Tilgangur félagsins var frá upphafi alhliða flugrekstur og tengd starfsemi, en það hafði um árabil sinnt þyrluþjónustu.

Tildrög málsins eru þau að með afsali 3. nóvember 2009 seldi A hf. þyrlu af gerðinni Bell N230 MG með skráningarnúmerinu [...] til B Ltd., en það félag var að öllu leyti í eigu ákærða. Afsalið var undirritað af meðákærða í héraði fyrir hönd seljanda en ákærða fyrir hönd kaupanda. Samkvæmt bókhaldi A hf. var söluverð þyrlunnar 762.919 bandaríkjadalir. Þyrluna hafði félagið keypt á árinu 2007 fyrir 2.050.000 bandaríkjadali. Til að fjármagna kaupin á þyrlunni og aðrar fjárfestingar félagsins hafði það gert lánssamning við Byr sparisjóð 22. október 2007, en með honum var félaginu veitt lán að fjárhæð 168.500.000 krónur. Samkvæmt samningnum átti að setja þyrluna að veði fyrir láninu þegar hún kæmi til til landsins og hefði verið skráð í loftfaraskrá Flugmálastjórnar Íslands og réttindaskrá loftfara hjá sýslumanninum í Reykjavík. Þessu veði var ekki þinglýst á þyrluna eftir að hún kom til Íslands í lok október 2007 og var skráð hér á landi.

Þegar þyrlan var seld til B Ltd. með afsalinu 3. nóvember 2009 var sama dag gerður víkjandi lánssamningur milli þess félags og A hf. fyrir öllu kaupverðinu. Samningurinn var undirritaður af ákærða fyrir hönd lántaka en meðákærða í héraði fyrir hönd lánveitanda. Samhliða þessu var samdægurs gerður leigusamningur þar sem A hf. tók þyrluna á leigu í eitt ár og nam leigan 30.000 bandaríkjadölum á mánuði. Þessi samningur var jafnframt undirritaður af ákærða fyrir hönd leigusala en meðákærða í héraði fyrir hönd leigutaka. Eftir að leigusamningurinn rann út mun hann hafa verið framlengdur allt til loka júní 2011. Samkvæmt bókhaldi A hf. var leigugreiðslum skuldajafnað gegn greiðslum samkvæmt fyrrgreindum lánssamningi 3. nóvember 2009 fyrir kaupverði þyrlunnar. Miðað við árslok 2011 nam skuld B Ltd. við A hf. samkvæmt lánssamningum 11.888.078 krónum.

Frá árslokum 2008 mun þyrlunni ekki hafa verið flogið meðan hún var í eigu A hf., en lofthæfisvottorð hennar rann út 30. september 2009 án þess að óskað væri eftir því við Flugmálastjórn að það yrði endurnýjað. Jafnframt var þyrlunni ekki flogið meðan félagið hafði hana á leigu á tímabilinu frá 3. nóvember 2009 til loka júní 2011. Á þessum tíma hafði C ehf. tekið að sér viðhald þyrlunnar, en heimild þess til að sinna viðhaldi á þeirri tegund þyrlu var afturkallað með ákvörðun Flugmálastjórnar 12. maí 2010. Sú ákvörðun var felld úr gildi með úrskurði innanríkisráðuneytisins 31. mars 2011. Þyrlan mun hafa verið afskráð hér á landi 1. þess mánaðar og flutt af landi brott 1. júlí sama ár.

Eftir að A hf. hafði verið breytt í einkahlutafélag og það fengið nafnið B ehf. krafðist Íslandsbanki hf. þess 13. september 2012 að bú félagsins yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Með úrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra 10. janúar 2013 var sú krafa tekin til greina. Með bréfi skiptastjóra 22. janúar 2014 var sérstökum saksóknara tilkynnt um ætlað auðgunarbrot í starfsemi félagsins með ráðstöfun þyrlunnar til B Ltd. Ákæra var síðan gefin út 26. október 2015. Með hinum áfrýjaða dómi voru ákærði og meðákærði í héraði sakfelldir fyrir umboðssvik samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga 19/1940 og unir sá síðarnefndi dómi.

II

Í 249. gr. almennra hegningarlaga er mælt fyrir um refsinæmi umboðssvika, en þar segir að það varði allt að 2 ára fangelsi ef maður, sem fengið hefur aðstöðu til þess að gera eitthvað er annar maður verður bundinn við, eða hefur fjárreiður fyrir aðra á hendi, misnotar þessa aðstöðu sína. Ef sakir eru mjög miklar má þyngja refsingu allt að 6 ára fangelsi. Í lögskýringargögnum kemur fram að ákvæðið um misnotkun aðstöðu, til að gera eitthvað er annar maður verður bundinn við, eigi ekki aðeins við um umboð, heldur og aðra raunverulega aðstöðu til þess að gera eitthvað er bindur annan mann. Þar segir einnig að ákvæðið sé sett til verndar því að menn er hafi á hendi fjárreiður fyrir aðra, svo sem fjárhaldsmenn, framkvæmdastjórar félaga eða stofnana, misnoti aðstöðu sína sér eða öðrum til hags en umbjóðanda sínum til tjóns.

Í samræmi við það sem hér hefur verið rakið fela umboðssvik í sér einhliða og ólögmæta misnotkun aðstöðu eða trúnaðar til þess að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert, sem annar maður eða lögaðili verður bundinn við, enda sé verkið unnið af ásetningi og í auðgunarskyni. Felur brotið í sér þrjú efnisatriði, en þau eru í fyrsta lagi að gerandi hafi verið í aðstöðu til að skuldbinda annan aðila, í öðru lagi að hann hafi misnotað aðstöðu sína og í þriðja lagi að ráðstöfun hafi valdið tjóni eða í öllu falli haft í för með sér verulega fjártjónshættu.

Svo sem áður er rakið var ákærði eigandi Á ehf., en það félag átti allt hlutafé í A hf. þegar þyrlunni var ráðstafað með afsalinu 3. nóvember 2009. Jafnframt var hann eigandi B Ltd. sem keypti þyrluna. Að þessu gættu verður fallist á það með héraðsdómi að ákærði hafi verið í raunverulegri aðstöðu til að taka ákvörðun um viðskiptin þótt hann gegndi engri formlegri stöðu hjá A hf.

Við sölu þyrlunnar var kaupverð hennar greitt með því að ráðstafa leigugreiðslum fyrir hana inn á lánssamning fyrir öllu kaupverðinu. Þegar leigusamningurinn var gerður samhliða sölunni 3. nóvember 2009 hafði þyrlan ekki nýst í starfsemi félagsins um langt skeið auk þess sem lofthæfisvottorð hennar hafði runnið út 30. september það ár. Þá var leigusamningurinn framlengdur eftir að hann rann út í nóvember 2010, en á þeim tíma hafði verið afturkölluð heimild C ehf., sem annaðist viðhald þyrlunnar, til að veita þá þjónustu. Fór svo að þyrlunni var ekkert flogið allan þann tíma sem hún var leigð A hf. Að þessu gættu má slá því föstu að enginn viðskiptalegur tilgangur hafi búið að baki því að taka þyrluna á leigu, heldur hafi ráðstöfunin eingöngu verið gerð í því skyni að láta leigugreiðslur ganga upp í kaupverðið. Með þessu móti misnotaði ákærði aðstöðu sína hjá A hf. Í því tilliti breytir engu þótt hann hafi verið eini eigandi félagsins í gegnum annað félag, enda eru hlutafélög sjálfstæðar lögpersónur og verða ekki samsamaðar hluthöfum þess, sbr. dóma Hæstaréttar 28. apríl 2016 í máli nr. 74/2015 og 6. apríl 2016 í máli nr. 770/2015.

Með því að engir peningar skiptu um hendur við sölu þyrlunnar tók A hf. sem seljandi á sig alla áhættuna af viðskiptunum með því að leigja þyrluna þótt engin verkefni væru fyrir hana í starfsemi félagsins. Þannig varð félagið fyrir fjártjóni í bráð og til lengdar var fjártjónshættan veruleg þar sem alls óvíst var hvort þyrlan gat nýst í rekstri þess.

Samkvæmt framansögðu verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sakfella ákærða fyrir umboðssvik sem varða við 249. gr. almennra hegningarlaga. Jafnframt verður staðfest niðurstaða dómsins um refsingu ákærða, skilorðsbindingu hennar og sakarkostnað.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Hermann Eyjólfsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 918.052 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Sigurðar G. Guðjónssonar hæstaréttarlögmanns, 868.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. maí 2016.

I

Mál þetta, sem dómtekið var 19. apríl síðastliðinn, var höfðað með ákæru sérstaks saksóknara, útgefinni 26. október 2015, á hendur Hermanni Eyjólfssyni, kt. [...], [...], Reykjavík og X, kt. [...],  [...], [...], „fyrir brot gegn almennum hegningarlögum:

I.

Á hendur ákærðu Hermanni, framkvæmdastjóra og eiganda breska einkahlutafélagsins B Ltd., breskt skráningarnúmer [...], og eiganda einkahlutafélagsins Á, kt. [...], sem átti hlutafélagið A, síðar einkahlutafélagið B ehf., kt. [...], að fullu og X, þáverandi framkvæmdastjóra, prókúruhafa og stjórnarmanni A hf./B ehf., aðallega fyrir umboðssvik með því að hafa í sameiningu á árinu 2009, misnotað aðstöðu sína með því að undirrita skjal, „aircraft bill of sale“, sem fól í sér afsal, dagsett 3. nóvember 2009, en við það varð einkahlutafélagið B Ltd. eigandi þyrlu að gerð Bell 230 N230 MG, skráningarnúmer [...] nr. [...], skráning [...] í loftferðaskrá, sem áður var í eigu A hf./B ehf. Ákærði X undirritaði afsalið fyrir hönd A hf./B ehf. og ákærði Hermann undirritaði afsalið fyrir hönd B Ltd. Við afsalið greiddi B Ltd. ekkert fyrir þyrluna en ákærðu sömdu um að A hf./B ehf. lánaði B Ltd. að fullu fyrir kaupverðinu.

Undirrituðu ákærðu X, fyrir hönd A hf./B ehf., og Hermann, fyrir hönd B Ltd., einnig samning, dagsettan 3. nóvember 2009, um að A hf./B ehf. myndi leigja þyrluna sem félagið hafði afsalað til B Ltd. þann sama dag. Leigutíminn var til 12 mánaða og voru leigugreiðslur 30.000 USD á mánuði. Þrátt fyrir að leigusamningurinn væri aðeins tímabundinn til 12 mánaða greiddi A hf./B ehf. leigugreiðslur vegna vélarinnar allt fram til ágúst 2011. Voru leigugreiðslurnar gjaldfærðar í rekstri A hf./B ehf. og færðar til lækkunar á skuld B Ltd. við A hf./B ehf.

Á þeim tíma sem ákærðu skuldbundu A hf./B ehf. til að leigja þyrluna til 12 mánaða hafði þyrlan ekki heimild til loftferða vegna ákvörðunar Flugmálastjórnar Íslands um afturköllun á samþykkis til C ehf. til að sinna viðhaldi á þyrlunni. Ákvörðun Flugmálastjórnar Íslands var felld úr gildi í maí 2011 en þyrlan var afskráð hér á landi í mars 2011. Nýttist þyrlan því ekki í rekstri A hf./B ehf. þá 22 mánuði sem félagið leigði þyrluna af B Ltd. og því enginn rekstrarlegur grundvöllur fyrir félagið að leigja þyrluna.

Með þessu var skuld B Ltd. við A hf./B ehf. vegna kaupa á þyrlunni skuldajafnað við leigugreiðslur sem ákærðu sömdu um að A hf./B ehf. skyldi inna af hendi, ef frá eru taldar 11.888.078 kr. sem eru eftirstöðvar skuldarinnar samkvæmt bókhaldi A hf./B ehf., ásamt áföllnum vöxtum. Af þessu leiddi að B Ltd. innti ekki af hendi neina greiðslu vegna kaupanna og greiddi ekkert af láninu sem félagið fékk til greiðslu kaupverðsins. Við þetta varð einkahlutafélagið B Ltd. eigandi þyrlunnar, sem áður var í eigu A hf./B ehf., án þess að nokkurt endurgjald kæmi fyrir.

Til vara á hendur ákærðu Hermanni og X fyrir skilasvik með því að skerða rétt lánardrottna til að öðlast fullnægju af eignum A hf./B ehf. með undanskoti eignar með framangreindum hætti.

II.

Teljast brot ákærðu Hermanns og X aðallega varða við 249. gr. en til vara við 4. tölul. 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

III.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Ákærðu neita sök og krefjast sýknu. Þeir krefjast þess að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

II

Fyrir dómi hafa ákærðu borið að í ákæru sé rétt lýst eignarhaldi og framkvæmdastjórn á þeim hlutafélögum sem þar er getið. Samkvæmt því var ákærði Hermann eigandi og framkvæmdastjóri B Ltd. og eigandi Á ehf. sem átti íslenska einkahlutafélagið A ehf. er síðar fékk nafnið B ehf. Ákærði X var framkvæmdastjóri þeirra, auk þess að vera stjórnarmaður og prókúruhafi. Þá hafa ákærðu og borið að í ákærunni sé rétt lýst samningi um sölu þyrlunnar, sem í ákæru greinir, til B Ltd. Eins og fram kemur í ákæru fékk B Ltd. kaupverðið að fullu að láni og leigði seljanda þyrluna eins og rakið er í ákæru. Undirrituðu ákærðu gögn varðandi sölu og leigu.

                Þá er og komið fram í málinu að í desember 2008 svipti Flugmálastjórn A hf. flugrekstrarleyfi fyrir þyrluna. Ákvörðun Flugmálastjórnar var felld úr gildi í maí 2011.

III

                Í ákærunni er lýst eignarhaldi á einkahlutafélögum og viðskiptum þeirra með þyrlu. Ákærði Hermann staðfesti við aðalmeðferð að þar væri rétt frá greint og eins kvaðst hann hafa undirritað leigusamning um þyrluna fyrir hönd B Ltd. Þá kvað hann einnig að í ákæru væri rétt greint frá efndum leigusamningsins og eins hömlum sem á rekstri þyrlunnar voru vegna ákvörðunar Flugmálastjórnar.

                Ákærði kvað gerninga þessa hafa verið eðlilega á þessum tíma og hefðu þeir miðað að því að koma rekstri A ehf. í lag. Hann kvað félagið hafa átt tvær þyrlur á þessum tíma og hefði B Ltd. verið stofnað til að kaupa þær. Önnur þyrlan hefði verið seld úr landi en B Ltd. hefði keypt hina eins og rakið var. Markmiðið hafi verið að endurskipuleggja rekstur A ehf. og gera upp við banka á eðlilegan hátt.

                Ákærði kvaðst hafa verið varamaður í stjórn A ehf. á árinu 2005 og komið aftur að félaginu á árunum 2008 til 2009 en þó ekki komið að rekstrinum, hann hafi aðeins komið að einstökum málum ásamt meðákærða X.

                Ákærði kvað tilgang sinn með B Ltd. hafa verið að eignast framangreindar þyrlur. Hann hafi þannig tekið ákvörðun fyrir hönd þess félags um að kaupa þyrluna, sem getur í ákæru, en meðákærði og stjórn A ehf. hafi tekið ákvörðunina um að selja hana. Hann kvaðst á þessum tíma hafa átt A ehf. í gegnum Á ehf. en hann hefði ekki komið að ákvörðun um sölu á þyrlunni. Ákærði kvað kaupverð þyrlunnar hafa verið ákveðið eftir að málin hefðu verið könnuð á mörkuðum. Þá kvað hann þyrluna hafa verið leigða A ehf. sama dag og hún var seld. Tilgangurinn með leigunni hafi verið sá að hægt væri að reka þyrluna á þeim leyfum sem A ehf. var með, það er  leyfi til að reka farþegavél. Upphaflega hefði þessi ráðstöfun verið hugsuð til bráðabirgða meðan verið væri að koma þyrlunni í verkefni. Niðurstaðan hefði hins vegar orðið sú að þyrlan hefði ekki nýst í rekstri A ehf. Ástæðan var sú að Flugmálstjórn hefði í raun kyrrsett þyrluna. Þess vegna hefði ekki verið hægt að nota hana, hvorki hér á landi né á Grænlandi þar sem hægt hefði verið að útvega verkefni. Þessar aðgerðir Flugmálastjórnar hefðu verið ólögmætar og hefðu félögin átt von á því að þeim yrði aflétt. Þá hefði verið hægt að nota þyrluna og þar með afla tekna. Ákærði kvað aðgerðir Flugmálastjórnar hafa verið einu ástæðu þess að þyrlan nýttist ekki eins og ætlað var. Hann kvaðst hafa borið aðgerðirnar undir evrópsku flugmálastjórnina og hefði hún ekki verið sammála þeim. Þá kvað hann það venju að leigja flugvélar í 12 mánuði í senn og tengdist það flugrekstrarskírteinunum og þeim leyfum sem rekstraraðili hefur. Hann kvað A ehf. ekki hafa verið í stakk búna til að fylgja rekstri þyrlunnar eftir hefði hún komist í rekstur og þess vegna hefði verið nauðsynlegt að selja hana. Ákærði kannaðist við að A ehf. hefði aldrei fengið greiðslu fyrir þyrluna. Hann kvað leigusamninginn hafa verið framlengdan um tólf mánuði eftir að fyrri samningur rann út.

                Ákærði X bar á sama hátt og meðákærði Hermann um staðhæfingar í ákæru um eignarhald að félögum og viðskipti sem þar er lýst. Ákærði kvaðst hafa verið framkvæmdastjóri A ehf. frá árinu 2006 til 2012. Hann kvaðst einnig hafa verið stjórnarmaður og prókúruhafi. Hann hefði annast daglegan rekstur félagsins og verið ábyrgðarmaður fyrir flugrekstrarleyfi þess. Ákærði kvað meðákærða hafa komið að rekstrinum sem eigandi og tekið ákvarðanir fyrir félagið sem slíkur. Hann kvaðst engin tengsl hafa haft við B Ltd. Ákærði kannaðist við að hafa, sem framkvæmdastjóri og prókúruhafi, undirritað skjöl varðandi sölu þyrlunnar en meðákærði hefði annast skjalagerðina.

                Ákærði kvað A ehf. hafa verið í vandræðum með flugrekstrarleyfið fyrir þyrluna sem um er fjallað i ákærunni. Þess vegna hefði reksturinn á henni ekki gengið og því hefði verið ákveðið að selja þyrluna til B Ltd. Það hefði verið meðákærði Hermann sem hefði tekið þá ákvörðun. Á árinu 2009 hefði verið talið betra að hafa þyrluna í bresku félagi til að selja hana eða reyna að koma henni í rekstur. Þetta hefði meðal annars stafað af bankahruninu 2008. Ákærði kvaðst hafa litið svo á að meðákærði gæti gefið sér fyrirmæli um að selja þyrluna enda hefði meðákærði verið eini hluthafinn í A ehf. Þá kvað hann A ehf. hafa leigt þyrluna af B Ltd. og hefði það verið hluti af þessum viðskiptum. Meðákærði hefði tekið ákvörðun um leiguna en ákærði hefði ekki gert það. Ákærði kvaðst hins vegar hafa undirritað skjöl varðandi leiguna. Hann kvað ætlunina hafa verið að önnur þyrla kæmi inn í A ehf. í stað þeirrar sem var seld og hefði átt að nota söluandvirðið til þess. Frá þessu hefði þó ekki verið gengið á formlegan hátt. Hann kvaðst ekki geta útskýrt þetta nánar en svona hefði þetta verið lagt upp við hann, eins og hann orðaði það.

                Nánar spurður um leigusamninginn um þyrluna kvað ákærði hann hafa verið gerðan samhliða sölusamningnum. Þetta hefði verið til þess að sýna fram á að kostnaður félli á A ehf. af aðgerðum Flugmálastjórnar og þess vegna getað verið rökstuðningur fyrir fjárkröfum á hendur henni. Hefði A ehf. haft leyfi til að fljúga þyrlunni hefðu tekjur af þeirri starfsemi verið miklu hærri heldur en leigutekjurnar. Ákærða var bent á að A ehf. hefði ekki getað notað þyrluna frá árslokum 2008 og kvað hann á þeim tíma ekki hafa verið vitað hversu lengi bannið myndi gilda og það hafi verið barist fyrir því að fá því aflétt. A ehf. hefði greitt rekstrarkostnað þyrlunnar eftir gerð leigusamningsins og hefði meðákærði ákveðið að svo skyldi vera, enda hefði B Ltd. ekki getað greitt þann kostnað. A ehf. vátryggði einnig þyrluna. Ákærði kvað A ehf. hafa haldið áfram að leigja þyrluna eftir að leigusamningurinn rann úr gildi og hefði það verið ákvörðun meðákærða að gera það. Hann kvaðst hafa litið svo á að hann sem framkvæmdastjóri hefði ekkert um það að segja. Ákærði kvað það ljóst að A ehf. hefði haldið þyrlunni uppi allan þennan tíma en benti á að forráðamenn félagsins hefðu ekki getað vitað hversu lengi stöðvunin myndi vara. Ákærða var bent á að A ehf. hefði haldið áfram að greiða leigu í fjóra mánuði eftir að þyrlan hafði verið afskráð hér á landi og kvað hann það hafa verið ákvörðun meðákærða sem hann hefði tekið með endurskoðanda félagsins. Loks kvað ákærði A ehf. hafa greitt fyrir flutning þyrlunnar til Kanada og hefði það verið að ósk meðákærða.

                Ákærði kvað ástæðu þess að flugrekstrarleyfið vegna þyrlunnar hefði verið fellt úr gildi, vera þá að Flugmálastjórn taldi flugvélaverkstæðið ekki hafa fullgildan flugvirkja í starfi, það er flugvirkja er búsettur hefði verið á Íslandi. Ákærði kvaðst alltaf hafa búist við að bannið yrði fellt úr gildi og þess vegna hefði leigusamningurinn við B Ltd. verið eðlilegur.

                Lögmaður, sem rak mál á hendur A ehf. fyrir banka, bar að stefnan hefði verið árituð enda um útivistarmál að ræða. Hann kvaðst hafa rætt við ákærða X um fjárhagslega endurskipulagningu félagsins. Einnig hefði komið að viðræðunum þáverandi lögmaður félagsins. Lögmaðurinn kvað hafa komið fram á þessum fundi að höfðað hefði verið mál á hendur Flugmálastjórn vegna þess að hún hefði svipt flugvélaverkstæði leyfi til að vinna að viðhaldi tiltekinnar þyrlu. Þeirri ákvörðun hefði verið hnekkt af ráðuneytinu og taldi A ehf. sig eiga umtalsverða bótakröfu á hendur ríkissjóði vegna þessa. Niðurstaðan hefði orðið sú að í stað þess að ganga að A ehf., sem væntanlega hefði þýtt gjaldþrot félagsins, hefði verið ákveðið að láta meta eignirnar, sem aðallega voru þyrlan, og færa skuldina niður í fjárhæð sem samsvaraði verðmæti eignanna. Markmiðið hefði verið að halda félaginu gangandi til að geta haldið bótakröfunni á hendur ríkissjóði gangandi og var það niðurstaða fundarins. Skuldin hefði því verið sett í biðstöðu. Lögmaðurinn kvað það hafa verið skilyrði af hálfu bankans að ákærði X myndi eignast A ehf. enda hefði bankinn ekki haft áhuga á að vinna með öðrum að þessum málum.

                Fyrrum eigandi A ehf., sem var í stjórn félagsins í september 2009, kvað sér hafa verið kunnugt um að þyrlan var seld B Ltd. í nóvember það ár. Hann kvaðst hafa rætt við ákærðu báða um þessa sölu en ekki skrifað undir sölusamninginn. Hann kvað tilganginn með sölunni hafa verið að reyna að bjarga A ehf. og hefðu allir lagst á eitt, aðallega þó ákærðu báðir. Lykilatriði hefði verið að félagið ætti þyrluna vegna þess að hún var á flugrekstrarleyfi þess. Ætlunin hefði verið að B Ltd. myndi koma henni í verkefni og þyrlan yrði gerð út á flugrekstrarleyfi A ehf.

                Fyrrum starfsmaður sparisjóðs bar að A ehf. hefði verið eitt af þeim félögum er hann hefði átt viðskipti við. Starfsmaðurinn kvaðst hafa rætt við ákærða X um málefni félagsins. Framangreindur lögmaður hefði einnig komið að málefnum félagsins. Starfsmaðurinn kvað mál á hendur Flugmálastjórn hafa borið á góma og hefði verið beðið um biðlund af hálfu sparisjóðsins þar til skorið hefði verið úr því máli. Þá kannaðist hann við að rætt hefði verið um að færa skuldir félagsins niður á móti eignum. Hann kvaðst ekki hafa rætt við ákærða Hermann um málefni félagsins.

IV

                Ákærðu eru aðallega gefin að sök umboðssvik með því að hafa í sameiningu misnotað aðstöðu sína með því að láta A ehf. selja B Ltd. umrædda þyrlu sem svo leigði félaginu hana aftur eins og rakið var. Þegar þetta gerðist hafði þyrlan ekki heimild til loftferða og hafði það ekki meðan þyrlan var í leigu. Þyrlan nýttist því ekki félaginu sem greiddi þó af henni leigu, eins og rakið var.

                Ákærði Hermann var eigandi beggja félaganna og ákærði X var framkvæmdastjóri A ehf. Ákærði X var því í formlegri aðstöðu til að skuldbinda félagið eins og hann gerði. Þótt ákærði Hermann gegndi engri formlegri stöðu hjá félaginu verður engu að síður að líta til aðstöðu hans sem eiganda félagsins og að hann var jafnframt eigandi viðsemjandans sem hagnaðist á viðskiptunum eins og rakið hefur verið. Hér að framan var gerð grein fyrir því að þyrlan hafði ekki gilda heimild til loftferða þegar hún var seld B Ltd. sem svo leigði hana til A ehf. Engu að síður greiddi síðarnefnda félagið leigu fyrir þyrluna eins og rakið var og það einnig eftir að hún hafði verið flutt úr landi. Það er því niðurstaða dómsins að fallast á með ákæruvaldinu að ákærðu hafi báðir misnotað aðstöðu sína er þeir skuldbundu A ehf. eins og þeim er gefið að sök. Þessi ráðstöfun þeirra olli A ehf. fjártjóni með því að félagið greiddi leigu af þyrlu er það gat ekki nýtt til tekjuöflunar.

                Samkvæmt framansögðu verður fallist á aðalkröfu ákæruvaldsins og ákærðu sakfelldir fyrir umboðssvik. Brot þeirra er rétt fært til refsiákvæðis í ákærunni.

                Ákærðu hefur ekki áður verið refsað og er refsing hvors þeirra hæfilega ákveðin 9 mánaða fangelsi en skilyrði þykja til að skilorðsbinda refsingarnar eins og í dómsorði greinir. Þá verða ákærðu dæmdir til að greiða málsvarnarlaun verjenda sinna sem eru ákvörðuð með virðisaukaskatti í dómsorði.

                Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð :

                Ákærðu, Hermann Eyjólfsson og X, sæti, hvor um sig, fangelsi í 9 mánuði en fresta skal fullnustu refsinganna og falli þær niður að liðnum 2 árum frá deginum í dag að telja, haldi ákærðu almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Ákærði Hermann greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar G. Guðjónssonar hrl., 961.620 krónur.                     

                Ákærði X greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Sigurjónssonar hrl., 961.620 krónur.