Hæstiréttur íslands

Mál nr. 511/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Innsetningargerð
  • Frávísun frá Hæstarétti


                                                                                              

Mánudaginn 3. október 2011

Nr. 511/2011.

LP 2007 ehf.

(Björgvin Þorsteinsson hrl.)

gegn

SP Fjármögnun hf.

(Sigurmar K. Albertsson hrl.)

Kærumál. Innsetningargerð. Frávísun frá Hæstarétti.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem tekin var til greina krafa S hf. um að honum yrði heimilað að fá nánar tiltekna lausafjármuni tekna úr vörslum L ehf. og fengna sér með beinni aðfarargerð. Við meðferð málsins fyrir Hæstarétti lagði S hf. fram staðfestingu þess efnis að innsetningargerð á grundvelli hins kærða úrskurðar væri lokið. Taldi rétturinn að L ehf. hefði ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að úrskurðinn kæmi til endurskoðunar. Var málinu því vísað frá Hæstarétti. 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. september 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. ágúst 2011, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að honum yrði heimilað að fá nánar tiltekna lausafjármuni tekna úr vörslum sóknaraðila og fengna sér með beinni aðfarargerð. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um aðfarargerð og honum gert að greiða málskostnað í héraði ásamt kærumálskostnaði.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Fyrir Hæstarétt hefur varnaraðili lagt fram endurrit úr gerðabók sýslumannsins í Reykjavík, þar sem fram kemur að innsetningargerð á grundvelli hins kærða úrskurðar hafi byrjað 20. september 2011, svo og staðfestingu sýslumanns á því að gerðinni hafi síðan verið lokið. Samkvæmt þessu hefur sóknaraðili ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að úrskurðurinn komi til endurskoðunar. Málinu verður því vísað frá Hæstarétti.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. ágúst 2011.

Með aðfararbeiðni, sem barst héraðsdómi 23. mars 2010, hefur sóknaraðili, SP-fjármögnun, kt. 620295-2219, Sigtúni 42, Reykjavík, krafist dómsúrskurðar um að nánar tilgreind tæki verði tekin með beinni aðfarargerð úr vörslum varnaraðila LP 2007 ehf., kt. 610688-1449, Dugguvogi 12, Reykjavík, og fengin sóknaraðila.

Sóknaraðili krefst innsetningar í 26 tæki og eru þau tilgreind eftir þeim samningum þar sem varnaraðila eru veitt umráð þeirra:

tæki samkvæmt samningi nr. SFL-000195:

·                     HPI 3000 4C prentvél.

tæki samkvæmt samningi nr. SFL-000369:

·                     Heidelberg Quickmaster, DI-46 PRO prentvél.

tæki samkvæmt samningi nr. SFL-001521:

·                     Renault Kangoo bifreið, fastanr. VE-217, árg. 2006.

 tæki samkvæmt samningi nr. SFL-015081:

·                     Digimaster E125, bókaprentunarsamstæða.

 tæki samkvæmt samningi nr. SFL-016101:

·                     Konica Minolta litljósritunarvél ásamt fylgihlutum.

tæki samkvæmt samningi nr. SFL-025881:

·                     Neschen HotLam 1600, raðnr. NES-V6009920,

·                     Value Jet 1604 prentari,  raðnr. MUT-VJ1604,

·                     Techway Winder Drier TW1600,

·                     Graphtec FC7000-160cm, raðnr. GRA-FC7000-16,

·                     Photoprint DX-C+P,

·                     HP tölva xw8400.

tæki samkvæmt samningi nr. SFL-26702:

·                     KM Bizhub pro C6500 EP, raðnr. A03V020 000041,

·                     Creo controlller c6500 ásamt búnaði.

tæki samkvæmt samningi nr. SKL-020061:

·                     Heidelberg GTO 52, raðnr. 647907,

·                     Minolta Dialta, raðnr. N87,

·                     Heidelberg Cylinder, raðnr. 2950852,

·                     Heidelberg Truk, raðnr. 3850738,

·                     Polar MOHR hnífur, raðnr. 6051477,

·                     Nagel heftilína, raðnr. 885432,

·                     Nagel heftari, raðnr. 30500258,

·                     Nagel Citiborma borvél, raðnr. 4806,

·                     Foliant plöstunarvél, raðnr. 8031229400,

·                     Gbs lameringarvél, raðnr. MFM6031,

·                     Folimer fellingarvél, raðnr. 133,

·                     Mininak pöns vél, raðnr. 10150,

·                     Minolta Bizhub, C 250, raðnr. 611739979.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og synjað verði inn­setn­ingar, með beinni aðför, í ofangreinda muni. Jafnframt krefst varnaraðili máls­kostn­aðar úr hendi sóknaraðila.

Hann krefst þess enn fremur að frestað verði réttarverkunum úrskurðar í þessu máli þar til að gengnum dómi Hæstaréttar verði kröfur sóknaraðila á annað borð teknar til greina.

Málsatvik, málsástæður og lagarök sóknaraðila

Að sögn sóknaraðila gerðu málsaðilar með sér, á tímabilinu 13. mars 2003 til 19. ágúst 2009, sjö fjármögnunarleigusamninga og einn kaupleigu­samning um tæki til notkunar í prentsmiðju.

Hinn 13. mars 2003 hafi varnaraðili, sem þá hafi heitið Leturprent ehf. en borið sömu kennitölu og varnaraðili, ritað undir fjár­mögnunarleigusamning, nr. SFL-000195 (upprunalega nr. 1300366), við sóknaraðila um HPI 3000 4C prentvél. Sá samningur hafi verið til 7 ára og sé hann í vanskilum frá 10. desember 2008.

Hinn 8. júní 2004 hafi varnaraðili (þá Leturprent ehf.) ritað undir fjár­mögn­unar­leigusamning, nr. SFL-000369 (upprunalega nr. 1401476), við sóknaraðila um Heidelberg Quickmaster, DI-46 PRO, prentvél. Sá samningur hafi verið til 7 ára og sé í vanskilum frá 15. nóvember 2008.

Hinn 26. janúar 2006 hafi Offset Fjölritun, kt. 550377-0479, ritað undir fjár­mögn­unarleigusamning, nr. SFL-001521, við sóknaraðila um bifreiðina Renault Kangoo, fastanr. VE-217, árgerð 2006. Samninginn hafi átt að greiða upp á 60 mánuðum. Hinn 20. nóvember 2007 hafi varnaraðili yfirtekið allar skuldbindingar Offset Fjölritunar samkvæmt þessum samningi og sé hann í vanskilum frá 5. janúar 2009.

Hinn 29. desember 2005 hafi varnaraðili (þá Leturprent ehf.) ritað undir fjár­mögn­unar­leigusamning, nr. SFL-015081 (upprunalega nr. 1503168), við sóknaraðila um Digimaster E125, bókaprentunarsamstæðu. Samninginn hafi átt að greiða upp á 60 mánuðum en hann sé í vanskilum frá 20. september 2008.

Hinn 9. ágúst 2005 hafi Offset Fjölritun, kt. 550377-0479, ritað undir fjár­mögn­unarleigusamning, nr. SFL-016101, við sóknaraðila um Konica Minolta litljós­rit­unarvél ásamt fylgihlutum. Samningurinn hafi verið til 5 ára og 20. nóvember 2007 hafi varnaraðili yfirtekið allar skuldbindingar Offset Fjölritunar samkvæmt honum en hann sé í vanskilum frá 10. janúar 2009.

Hinn 13. nóvember 2007 hafi varnaraðili (þá Leturprent ehf.) ritað undir fjár­mögn­unarleigusamning, nr. SFL-25881, við sóknaraðila um Neschen HotLam 1600, raðnr. NES-V6009920, Value Jet 1604 prentara, raðnr. MUT-VJ1604, Techway Winder Drier TW1600, Graphtec FC7000-160cm, raðnr. GRA-FC7000-16, og Photo­print DX-C+P. Sá samningur hafi verið til 60 mánaða og sé í vanskilum frá 20. janúar 2009.

Hinn 20. desember 2007 hafi varnaraðili (þá Leturprent ehf.) ritað undir fjár­mögn­unarleigusamning, nr. SFL-26702, við sóknaraðila um KM Bizhub pro C6500 EP, raðnr. A03V020 000041, og Creo controller c6500 ásamt búnaði. Sá samningur hafi verið til 60 mánaða og sé í í vanskilum frá 20. janúar 2009.

Hinn 19. ágúst 2009 hafi varnaraðili (þá Leturprent ehf.) ritað undir kaupleigu­samning, nr. SKL-020061, við sóknaraðila um Heidelberg GTO 52, raðnr. 647907, Minolta Dialta, raðnr. N87, Heidelberg Cylinder, raðnr. 2950852, Heidelberg Truk, raðnr. 3850738, Polar MOHR hníf, raðnr. 6051477, Nagel heftilínu, raðnr. 885432, Nagel heftara, raðnr. 30500258, Nagel Citiborma borvél, raðnr. 4806, Foliant plöst­unar­vél, raðnr. 8031229400, Gbs lameringarvél, raðnr. MFM6031, Folimer fellingar­vél, raðnr. 133, Mininak pöns vél, raðnr. 10150, Minolta Bizhub, C 250, raðnr. 611739979. Samninginn hafi átt að greiða á 48 mánuðum og sé hann í vanskilum frá fyrsta gjalddaga 1. október 2009.

Öllum þessum samningum kveðst sóknaraðili hafa rift 1. desember 2009 með heimild í 6. tölulið 19. gr. samninganna sem heimili sóknaraðila að rifta samningi greiði leigutaki ekki gjaldfallin leigugjöld.

Sóknaraðili áréttar að hann eigi beinan eignarrétt að mununum, sbr. 9. gr. samn­ing­anna. Mikil vanhöld séu á greiðslu umsaminnar leigu vegna ofangreindra muna og tækja. Skorað hafi verið á varnaraðila að greiða upp vanskil og skila mun­unum en varnaraðili hafi ekki orðið við því. Þar sem samningum sóknaraðila og varnar­aðila hafi verið rift sé krafist umráða yfir munum samkvæmt heimild í samning­unum sjálfum og með tilvísun til 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.

Þetta mál sé höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með heimild í 24. gr. samninganna sem kveði á um að öllum ágreiningi sem rísa kunni af þeim eða í sambandi við þá skuli eða megi ráða til lykta eftir íslenskum lögum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Málsatvik, málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili tekur fram að hann hafi ítrekað reynt að fá sóknaraðila til að sýna útreikninga á kröfum sínum allt árið 2008 og fram í desember 2009 en án árangurs. Sóknaraðili hafði ætíð haft í hótunum við varnaraðila um að vörslusvipting færi fram á mununum en hafi aldrei afhent umbeðna útreikninga. Hafi sóknaraðili haldið því fram að skuldir varnaraðila næmu á annað hundrað milljónum króna.

Við þingfestingu þessa máls, 18. júní 2010, hafi sóknaraðili lagt fram samn­inga aðila, afhendingarseðla og innheimtubréf sem hafi átt að sýna hversu háar skuldir varn­ar­aðila væru. Ekki hafi verið lagðir fram neinir útreikningar á kröfunum. Varnaraðili hafi skorað á sóknaraðila að leggja fram útreikninga á kröfunum og hafi það loks verið gert í þinghaldi 5. nóvember 2010. Hafi það verið gert með því að leggja fram útreikn­inga á hverjum samningi og skjal sem nefnist „greiðslustaða miðað við grunngreiðslu“. Séu fjármögnunarleigusamningarnir skoðaðir ásamt þessum gögnum sjáist að útreikn­ingar sóknaraðila séu með hreinum ólíkindum.

Ágreiningslaust sé að sóknaraðili og varnaraðili hafi gert með sér þá átta samn­inga um kaupleigu [sic], sem sóknaraðili hafi lagt fram í málinu. Í sumum tilvikum sé þó Búnaðarbanki Íslands, Vesturgötu 54, talinn með varnaraðila sem notandi.

Þessir samningar séu á stöðluðum skjölum sem starfsmenn sóknaraðila hafi samið. Við skýringu þessara samninga verði að horfa til þess að sóknaraðili sé stórt fyrir­tæki með fjölda sérfræðinga í vinnu, meðal annars lögfræðinga, sem komið hafi að gerð samninganna.

Óumdeilt sé að sóknaraðili hafi kosið að hafa samninga sína við varnaraðila gengis­tryggða miðað við breytingar á gengi íslensku krónunnar gagnvart tilteknum erlendum gjaldmiðlum. Samningarnir séu flestir gengistryggðir miðað við einhverja mynt­körfu, sem sóknaraðili hafi sjálfur búið til, og reikni út gengi á. Slík myntkarfa sé gjald­miðill, sem sé skráður hjá Seðlabanka Íslands, og ekki miðuð við gengis­skráningu þess banka.

Við samningsgerðina hafi sóknaraðili gert greiðsluáætlun fyrir hvern hinna átta samninga. Hafi hún verið spá sóknaraðila um þróun hinna gengistryggðu samninga á leigutímanum og greiðslubyrði sóknaraðila af þeim. Varnaraðili skorar á sóknaraðila að leggja fram þessi gögn.

Óumdeilt sé einnig að sóknaraðili hafi á gjalddögum leigu sent varnaraðila greiðslu­seðla. Varnaraðili hafi lengi vel greitt alla greiðsluseðla sem honum bárust frá sóknaraðila. Sjáist það best á því að sóknaraðili telji varnaraðila hafi greitt af öllum samningum, að minnsta kosti út árið 2008. Leigugreiðslur hafi þá hækkað um og yfir 100%. Hafi það gert varnaraðila erfitt að standa við skuldbindingar sínar gagnvart sókn­araðila. Sóknaraðili hafi aldrei ljáð máls á því að axla hluta hækkunar leigu­greiðslna vegna varanlegs gengisfalls krónunnar. Hann hafi ekki heldur horft neitt til hnökralausrar viðskiptasögu málsaðila. Þessi í stað hafi sóknar­aðili sigað vörslu­svipt­ingar­mönnum á varnaraðila í því skyni að hirða af honum leigu­munina. Varnaraðili hafi neitað að láta þá af hendi, þar sem hann hafi þá talið, og telji enn, að hann hafi greitt sóknaraðila að fullu þær leigugreiðslur sem hann hafi verið skuld­bundinn til að greiða samkvæmt hverjum og einum kaupleigusamninganna átta.

Varnaraðili byggir sýknukröfu sína í þessu máli á því að sóknaraðili hvorki eigi né hafi nokkru sinni átt lögvarða kröfu til þess að varnaraðili greiddi þá hækkun leigu­greiðslna sem leiddu af gengistryggingu samninganna og sóknaraðili hafi krafið varnar­aðila um og varnaraðili greitt.

Gengistrygging sóknaraðila á fjármögnunarleigusamningunum hafi verið og sé óheimil samkvæmt 13. og 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Verð­trygg­ingar­ákvæði samninga sóknaraðila við varnaraðila séu því ólögmæt. Vegna hinna ólögmætu verðtryggingarákvæða hafi varnaraðili greitt sóknaraðila hærri fjár­hæð á gjalddaga hvers leigusamnings en honum hafi að lögum verið skylt.

Varnaraðili eigi því kröfu á sóknaraðila um endurgreiðslu oftekinnar leigu. Sóknaraðili hafi ekki ljáð máls á endurgreiðslu eða uppgjöri leigusamninga með hlið­sjón af því að gengistrygging þeirra sé ólögmæt. Varnaraðili skorar á sóknaraðila að leggja fram upplýsingar um fjárhæð móttekinna leigugreiðslna og útreikninga á leigu­skuld­bindingum hans samkvæmt hverjum og einum samningi án gengis­trygg­ingar höfuð­stóls þeirra.

Með aðfararbeiðni sinni hafi sóknaraðili ekki lagt fram nein gögn sem sanni að varnaraðili sé í vanskilum eða hafi verið í vanskilum með lögmætar leigugreiðslur. Sóknar­aðili tilgreini ekki neina skuld í aðfararbeiðni og hann hafi ekki lagt fram útreikninga á skuldum varnaraðila heldur einungis innheimtubréf en samkvæmt þeim hafi skuldir varnaraðila numið alls 128.453.631 krónu. Sóknaraðili hafi eftir þingfest­ingu aðfararbeiðni sinnar lagt fram mismunandi útreikninga á skuldum og vanskilum varnar­aðila. Þá séu samningar aðila mjög óljósir um marga hluti.

Útreikningur á leigugjaldi hvers samnings margfaldaður með lánstíma sam­rýmist ekki samningsverði hvers samnings. Undarlegt sé að samningarnir geri ráð fyrir að leigugjald geti breyst bæði vegna breytingar á myntkörfu og vegna breytingar á LIBOR-vöxtum. Útreikningar í yfirliti með hverjum samningi sem heiti „staða samn­inga“ stemmi ekki við útreikninga í öðru yfirliti sem einnig fylgi hverjum samningi og heiti „greiðslustaða miðað við grunngreiðslu“. Samkvæmt síðara skjalinu hafi varnar­aðili greitt fjárhæð sem samsvari fleiri afborgunum en sóknaraðili gangi út frá og hafi samningarnir því fallið í vanskil mun síðar. Í framlögðum skjölum sóknaraðila komi fram, í það minnsta, fjórar mismunandi útgáfur af meintum vanskilum varnaraðila.

Varnaraðili kveðst, á árunum 2008 og 2009, hafa ítrekað farið fram á það við SP-fjármögnun að fá skýringar á útreikningum þeirra en án árangurs. Alltaf hafi verið sagt að skuldirnar væru um 150 milljónir sem hafi ekki getað staðist.

Varnaraðili viðurkennir að sóknaraðili sé eigandi þeirra muna sem innsetn­ingar sé krafist í. Varnaraðili hafi hins vegar ekki vanefnt lögmætar skyldur sínar samkvæmt þeim samningum sem sóknaraðili byggi rétt sinn á. Varnaraðili hafi ítrekað óskað eftir upplýsingum um stöðu samninganna og hafi vefengt kröfur sóknaraðila, ekki að ástæðu­lausu. Varnaraðili hafi greitt sóknaraðila alls 13.171.904 krónur árið 2008 og 20.152.912 krónur á árinu 2009. Þrátt fyrir þessar greiðslur hafi sóknaraðili haldið því fram að ekkert hafi verið greitt. Sóknaraðili hafi ráðstafað þessum greiðslum eftir eigin höfði en ekki eftir því sem hagkvæmast væri fyrir varnaraðila. Skilyrði riftunar samkvæmt 28. gr. [sic] samninganna hafi því ekki verið uppfyllt þegar sóknaraðili hafi lýst yfir riftun. Á varnaraðila hvíli því ekki nein skylda til að skila einstökum leigumunum, þar sem skila­skylda samkvæmt 30. gr. kaupleigu­samn­ing­anna [sic]sé ekki orðin virk. 

Með vísan til þess sem að framan greini sé ljóst að varnaraðili aftri sóknaraðila ekki með ólögmætum hætti að neyta þess réttar sem hann eigi samkvæmt kaup­leigu­samningunum [sic]. Allt sé á huldu um hver sé réttur sóknaraðila á hendur varnaraðila.

Varnaraðili bendir á að dómstólum beri að hafna innsetningarbeiðnum þegar var­hugavert sé talið að gerðin nái fram að ganga á grundvelli þeirra sönnunargagna sem heimilt sé að afla í innsetningarmálum. Í þessu máli liggi fyrir að framlagðir samn­ingar séu ólögmætir að efni til og þeir hafi verið dæmdir svo af Hæstarétti Íslands. Vegna ólög­mætis verðtryggingarákvæðis eigi varnaraðili kröfu á hendur sóknaraðila um endur­greiðslu oftekinnar leigu. Þá kröfu vilji og megi varnaraðili nota til að efna allar greiðslur samkvæmt samningunum átta. Varnaraðili sé ekki í vanskilum með neinar leigugreiðslur og í raun eigi að fara fram uppgjör samkvæmt 30. gr. [sic] samn­ing­anna. Verði munirnir teknir af varnaraðila með innsetningargerð geti hann þurft að höfða mál til endurheimtu oftekinnar leigu.

Varnaraðili telur sóknaraðila ekki eiga að komast fram hjá samnings- og lög­bundnu uppgjöri við varnaraðila með því einu að nota sér réttarfarshagræði og krefjast innsetningar í leigumuni. Það sé skilyrði fyrir því að innsetningargerð nái fram að ganga að réttur sóknaraðila sé skýr. Sóknaraðili hafi síðast lagt fram gögn til skýringar kröfum sínum, 3. desember 2010, næstum hálfu ári eftir að þetta mál var þingfest. Þá liggi fyrir margir mismunandi útreikningar á kröfum hans. Þegar svo hátti til og deilt sé um útreikninga á kröfum þá verði að fá úr þeirri deilu skorið með málshöfðun þar sem málsmeðferð fer eftir almennum reglum um meðferð einkamála. Af framan­greindum ástæðum ber að hafna kröfum sóknaraðila.

Varnaraðili vísar til ákvæða 12. og 13. kafla laga um aðför nr. 90/1989 en málskostnaðarkrafa hans er reist á 130. gr. laga nr. 91/1991.

Niðurstaða

Sóknaraðili krefst afhendingar 26 véla og tækja sem eru í vörslum varnar­aðila. Krafa hans byggir á sjö gengistryggðum fjármögnunarleigusamningum og einum kaupleigusamningi í íslenskum krónum, sem málsaðilar gerðu með sér á árunum 2003 til 2009. Þessum leigusamningum hafi öllum verið rift vegna vanskila varnaraðila. Þar með hafi varnaraðili misst rétt til umráða yfir tækjunum.

Samkvæmt ákvæði 6. töluliðar 1. mgr. 19. gr. samninganna er heimilt að rifta þeim hafi vanskil staðið lengur en í 45 daga og leigutaki gerir ekki upp við leigusala eða semur um skuldina innan sjö daga frá því að skorað er á leigutaka að gera skil. Hinn 6. nóvember 2009 sendi sóknaraðili varnaraðila greiðsluáskorun og veitti frest til 12. nóvember til að ganga frá fullnaðargreiðslu. Þegar varnaraðili brást ekki við áskoruninni rifti sóknaraðili öllum samningum átta, 1. desember 2009, vegna veru­legra vanefnda. Á riftunardegi hafði varnaraðili ekki greitt af þremur samninganna frá því á árinu 2008, ekki greitt af fjórum frá janúar 2009, og einn samningur var í van­skilum frá 1. október 2009. Gengistryggðu samningarnir sjö höfðu því verið í vanskilum í 10-14 mánuði áður en þeim var rift en yngsti samningurinn, sem var í íslenskum krónum, hafði verið í vanskilum í tvo mánuði.

Að kröfu varnaraðila leitaðist sóknaraðili við að leggja fram útreikninga á vanskilum varnar­aðila á riftunar­degi samninganna á grundvelli mismunandi forsendna en ein meginmálsástæða varnaraðila er að gengis­binding samninganna sjö sé ólögmæt. Hann hafi, vegna þess hve mikið greiðslur af samningunum hækkuðu vegna gengis­breytinga, verið búinn að greiða sóknaraðila meira en honum bar. Af þeim sökum hafi hann ekki verið í vanskilum við sóknaraðila á riftun­ar­degi samning­anna.

Þeir útreikningar sóknaraðila sem hér skipta máli voru lagðir fram 4. mars 2011 en varnaraðili lagði greinargerð sína fram 17. desember 2010. Á dómþingi 18. mars 2011 lagði varnaraðili fram yfirlit yfir þær fjárhæðir sem hann hefur greitt sóknaraðila vegna þessara samninga. Útreikningarnir sýna að séu óbreyttar forsendur lagðar til grund­vallar, það er að greiðslur af fjármögnunar­leigu­samn­ingunum sjö hækki í samræmi við lækkun á gengi íslensku krónunnar gagnvart þeim gjaldmiðlum sem samningarnir taka mið af, námu vanskil þeirra samninga 47.056.967 krónum, 20. nóvember 2009, sem var síðasti gjalddagi fyrir riftun. Séu þessir samningar endur­reiknaðir eins og þeir væru í íslenskum krónum og bæru almenna óverðtryggða vexti ákveðna af Seðla­banka Íslands, námu vanskilin 33.968.823 krónum, 20. nóvember 2009, og hefðu staðið í 5 til 23 mánuði þegar samningunum var rift. Séu þessir samningar reiknaðir út frá þeirri forsendu að þeir beri samningsvexti en afborganir af þeim séu hvorki gengisbundnar né verð­tryggðar námu vanskil þeirra, 20. nóvember 2009, 17.316.411 krónum og hefðu vanskilin þá varað í 4-18 mánuði á riftunardegi.

Vegna þessarar útkomu í útreikningi sóknaraðila á vanskilum varnaraðila þykir ekki þurfa að taka afstöðu til þeirrar málsástæðu varnaraðila að sóknaraðili hvorki eigi né hafi nokkru sinni átt lögvarða kröfu til þess að varnaraðili greiddi þá hækkun leigu­greiðslna sem leiddi af gengistryggingu samninganna og sóknaraðili hafi krafið varnar­aðila um og varnaraðili greitt.

Yngsti samningurinn, kaupleigusamningur, dagsettur 19. ágúst 2009, var í íslenskum krónum. Til þess að rétta af skuldastöðu varnaraðila gagnvart sóknaraðila og greiða inn á vanskil sín seldi varnaraðili sóknaraðila þrjár iðnaðar­vélar og fleiri tæki en tók þau aftur á kaupleigu með þessum samningi. Af honum hefur varnaraðili aldrei greitt. Sá samningur hafði því einnig verið í vanskilum í 45 daga þegar honum var rift.

Eins og áður segir fellst varnaraðili í greinargerð sinni á að sóknaraðili sé eigandi þeirra véla og tækja sem sóknaraðili krefst afhendingar á en telur sig ekki hafa verið í vanskilum á riftunardegi samninganna. Telur hann það ágreiningsefni þurfa að fá meðferð almenns einkamáls þar sem koma megi að matsgerð dómkvaddra mats­manna um það hvernig eigi reikna út og ráðstafa inn á samningana greiðslum varnar­aðila til sóknaraðila en það sé ekki hægt í afhendingarmáli sem þessu. Að mati dómsins þarf ekki málsmeðferð samkvæmt lögum um meðferð einkamála til að leysa úr því ágrein­ings­efni hvort varnaraðili hafi verið í vanskilum við sóknaraðila á riftunardegi því hafi varnaraðili ekki talið sig skuld­bundinn til að greiða af fjár­mögn­unar­leigu­samn­ing­unum samkvæmt útreikningi sóknaraðila á þeim, átti hann þess kost að gera sóknar­aðila grein fyrir afstöðu sinni til þess hverjar afborg­an­ir­nar ættu að vera og bjóða fram greiðslu á þeim, sbr. dóma Hæsta­réttar í málum nr. 315/2010 og 347/2010. Með því móti hefði hann hugsalega getað varpað nægilegri rýrð á réttmæti kröfu sóknaraðila. Þetta gerði hann ekki.

Varnaraðili lagði fram yfirlit yfir þær fjár­hæðir sem hann hefur greitt sóknar­aðila vegna þessara samninga og samrýmast þær þeim fjárhæðum sem sóknaraðili byggir á í sínum útreikningum. Ekki þykir því nein ástæða til að draga útreikninga sóknaraðila í efa.

Samkvæmt þeim samningum sem réttarsamband málsaðila byggir á er sóknar­aðili eigandi þeirra véla og tækja sem hann krefst afhendingar á og ekki er ágreiningur um að þau eru í vörslum varnaraðila. Með þeim takmörk­uðu gögnum sem koma má að í innsetningarmáli sem þessu þykir sóknaraðili hafa sýnt fram á að varnaraðili hafi verið í vanskilum með afborganir af öllum samning­unum á riftunardegi þeirra. Einnig þótt það yrði niðurstaða Hæstaréttar að fjár­mögn­unar­leigusamningarnir væru láns­samningar í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og ákvæði þeirra um gengisbindingu leigugjalds væri því óskuld­bindandi fyrir varnaraðila.

Sóknaraðili þykir einnig hafa sýnt fram á að vanskil varnaraðila hafi í öllum tilvikum staðið lengur en í 45 daga. Samningunum var réttilega rift með undan­farandi greiðslu­áskorun. Með riftun samninganna missti varnaraðili rétt til umráða yfir og til afnota af marg­nefndum vélum og tækjum og ber honum því að afhenda sóknaraðila þau.

Varnaraðili krefst þess, verði ekki fallist á kröfur hans, að kveðið verði á um það í úrskurði að málskot til Hæstaréttar fresti aðfarargerð, sbr. 3. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Fyrir þessari kröfu færði hann þó ekki nein rök. Regla 3. mgr. 84. gr. laganna er undantekningarregla sem einkum á við ef hagsmunir sem um er deilt eru ófjárhagslegs eðlis og tjón gerðarþola yrði ekki bætt með fégreiðslu. Þar sem ekki verður annað séð en að þeir hagsmunir, sem hér eru í húfi, séu eingöngu fjárhagslegir þykja ekki vera efni til að fallast á þessa kröfu varnaraðila.

Sóknaraðili krafðist ekki málskostnaðar í aðfararbeiðni og verður honum því ekki úrskurðaður málskostnaður úr hendi varnaraðila þrátt fyrir þessa efnislegu niður­stöðu, sbr. 3. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.

Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Sóknaraðila, SP-fjármögnun ehf., er heimilt að fá tekin með beinni aðfarar­gerð úr vörslum varnaraðila, LP 2007, eftirtaldar vélar og tæki:

·                     HPI 3000 4C prentvél,

·                     Heidelberg Quickmaster, DI-46 PRO prentvél,

·                     Renault Kangoo bifreið, fastanr. VE-217, árg. 2006,

·                     Digimaster E125, bókaprentunarsamstæðu,

·                     Konica Minolta litljósritunarvél ásamt fylgihlutum,

·                     Neschen HotLam 1600, raðnr. NES-V6009920,

·                     Value Jet 1604 prentara, raðnr. MUT-VJ1604,

·                     Techway Winder Drier TW1600,

·                     Graphtec FC7000-160cm, raðnr. GRA-FC7000-16,

·                     Photoprint DX-C+P,

·                     HP tölvu xw8400,

·                     KM Bizhub pro C6500 EP, raðnr. A03V020 000041,

·                     Creo controlller c6500 ásamt búnaði,

·                     Heidelberg GTO 52, raðnr. 647907,

·                     Minolta Dialta, raðnr. N87,

·                     Heidelberg Cylinder, raðnr. 2950852,

·                     Heidelberg Truk, raðnr. 3850738,

·                     Polar MOHR hníf, raðnr. 6051477,

·                     Nagel heftilínu, raðnr. 885432,

·                     Nagel heftara, raðnr. 30500258,

·                     Nagel Citiborma borvél, raðnr. 4806,

·                     Foliant plöstunarvél, raðnr. 8031229400,

·                     Gbs lameringarvél, raðnr. MFM6031,

·                     Folimer fellingarvél, raðnr. 133,

·                    Mininak pöns vél, raðnr. 10150,

·                    Minolta Bizhub, C 250, raðnr. 611739979.