Hæstiréttur íslands

Mál nr. 363/2012


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Dómari
  • Rannsókn
  • Skaðabætur
  • Skilorðsrof
  • Reynslulausn
  • Ítrekun
  • Hegningarauki


Fimmtudaginn 31. janúar 2013.

Nr. 363/2012.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari)

gegn

Róbert Arnarsyni

(Björgvin Þorsteinsson hrl.)

Halldóri Arnari Karlssyni

(Brynjar Níelsson hrl.)

Armando Luis Rodriguez og

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

Guðna Guillermo Gorozpe

(Kristján Stefánsson hrl.)

(Sveinn Andri Sveinsson hrl. f.h. brotaþola)

Líkamsárás. Dómarar. Rannsókn. Skaðabætur. Skilorðsrof. Reynslulausn. Ítrekun. Hegningarauki.

R og H voru sakfelldir í héraði fyrir líkamsárás samkvæmt 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 fyrir að hafa veist að B. Þá voru A, G og H með sama dómi sakfelldir fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás samkvæmt 2. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940 með því að hafa í félagi veist að A. Jafnframt var G sakfelldur í héraði fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás á grundvelli 2. mgr. 218. gr. laganna fyrir að hafa veist að C. G og H kröfðust ómerkingar beggja hinna áfrýjuðu dóma á þeirri forsendu að héraðsdómur hafi átt að vera fjölskipaður samkvæmt 4. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Hæstiréttur taldi skilyrði hafa verið fyrir hendi samkvæmt ákvæðinu til að þrír héraðsdómarar skipuðu dóm í hvoru máli um sig en ekki væru efni til að ómerkja hina áfrýjuðu dóma. Hvað varðar líkamsárás A, G og H á A taldi Hæstiréttur að brot þeirra yrði heimfært undir 1. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940 en ekki 2. mgr. þeirrar greinar þar sem ekki var talið hafið yfir skynsamlegan vafa að þeir hafi veist að A með höggum og spörkum í höfuð hans og andlit eins og þeim var gefið að sök í ákæru. Staðfesti Hæstiréttur sakfellingu R og H fyrir brot á 1. mgr. 217. gr.  laga nr. 19/1940 vegnar árásarinnar á B og sakfellingu G fyrir brot á 2. mgr. 218. gr. laganna vegna árásarinnar á C. Var A gert með dómi Hæstaréttar að sæta fangelsi í sex mánuði, H í eitt ár og G í þrjú ár en staðfest var niðurstaða héraðsdóms um sex mánaða fangelsisrefsingu R. Þá staðfesti Hæstiréttur einnig niðurstöðu hinna áfrýjuðu dóma um skaðabætur til handa B og C.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómarsson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut tveimur málum til Hæstaréttar 12. apríl og 28. júní 2012 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun, annarra en Halldórs Arnars Karlssonar. Að fengnu áfrýjunarleyfi skaut ríkissaksóknari síðan öðru málinu til Hæstaréttar 27. september 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærða Halldórs Arnars um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að niðurstaða hinna áfrýjuðu dóma um sakfellingu ákærðu verði staðfest, en að refsing þeirra verði þyngd.

Ákærði Róbert Arnarson krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing hans verði milduð og bundin skilorði. Þá krefst hann þess að bótakröfu B verði vísað frá dómi.

Ákærði Halldór Arnar Karlsson krefst aðallega ómerkingar annars af hinum áfrýjuðu dómum, uppkveðnum 28. febrúar 2012. Til vara krefst hann sýknu, en að því frágengnu að refsing hans verði milduð og bundin skilorði. Þá krefst hann þess að bótakröfu B verði vísað frá dómi.

Ákærði Armando Luis Rodriguez krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing hans verði milduð og bundin skilorði.

Ákærði Guðni Guillermo Gorozpe krefst aðallega ómerkingar hinna áfrýjuðu dóma. Til vara krefst hann sýknu, en að því frágengnu að refsing hans verði milduð og bundin skilorði. Þá krefst hann þess að bótakröfu C verði vísað frá dómi, en til vara að hún verði lækkuð.

Brotaþolinn B krefst þess aðallega að ákærðu Róbert og Halldór Arnar verði dæmdir til að greiða sér óskipt 1.302.193 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. desember 2010 til 5. nóvember 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann staðfestingar hins áfrýjaða dóms um bótakröfu sína.

Brotaþolinn C, áður [...], hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Er því litið svo á að hann krefjist þess að staðfest verði ákvæði hins áfrýjaða dóms um bótakröfu sína.

Fyrir Hæstarétti hafa málin tvö verið sameinuð.

I

Með fyrri dóminum, sem kveðinn var upp í Héraðsdómi Reykjavíkur 28. febrúar 2012, voru ákærðu Róbert og Halldór Arnar sakfelldir fyrir líkamsárás samkvæmt 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981, á grundvelli ákæru 6. september 2011 fyrir að hafa veist að B að kvöldi 27. desember 2010. Með þeim dómi voru ákærðu Armando Luis, Guðni Guillermo og Halldór Arnar jafnframt sakfelldir fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás samkvæmt 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981, á grundvelli ákæru 24. október 2011 með því að hafa í félagi veist að A aðfaranótt 7. maí 2010. Með dóminum var ákærði Armando Luis dæmdur í 16 mánaða fangelsi, ákærðu Guðni Guillermo og Halldór Arnar í tveggja ára fangelsi hvor um sig og ákærði Róbert í sex mánaða fangelsi, þar af var fullnustu þriggja mánaða frestað skilorðsbundið. Ennfremur var ákærðu Halldóri Arnari og Róbert gert að greiða B skaðabætur að fjárhæð 452.193 krónur ásamt nánar tilgreindum vöxtum.

Síðari dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur 22. júní 2012, en með honum var ákærði Guðni Guillermo sakfelldur fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás samkvæmt 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga á grundvelli ákæru 12. apríl 2012 fyrir að hafa í félagi við annan mann veist að C að morgni 9. júlí 2010. Var ákærða gerður hegningarauki vegna áðurgreinds héraðsdóms 28. febrúar 2012 og refsing hans ákveðin tólf mánaða fangelsi. Einnig var honum gert að greiða C 528.590 krónur í skaðabætur ásamt nánar tilgreindum vöxtum.

II

Ákærði Guðni Guillermo krefst ómerkingar beggja hinna áfrýjuðu dóma og ákærði Halldór Arnar dómsins 28. febrúar 2012, fyrst og fremst á þeirri forsendu að héraðsdómur hefði átt að vera fjölskipaður samkvæmt 4. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákvæðið felur í sér heimild dómstjóra til að ákveða að þrír héraðsdómarar skuli skipa dóm í máli ef sýnt þykir að niðurstaða kunni að verulegu leyti að ráðast af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi. Ræðst nauðsyn þessa úrræðis af aðstæðum hverju sinni.

Samkvæmt ákæru 24. október 2011 eru ákærðu sakaðir um líkamsárás sem getur varðað þá fangelsi allt að 16 árum ef sök er sönnuð. Jafnframt er ákærða Guðna Guillermo gefið að sök sams konar brot með ákæru 12. apríl 2012. Allir hafa ákærðu neitað sakargiftum. Þegar litið er til þess og hvernig framburði þeirra og vitna var háttað við rannsókn málanna voru fyrir hendi skilyrði til að beita heimild 4. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008 til að ákveða að þrír héraðsdómarar skipuðu dóm í hvoru máli um sig. Eins og atvikum er háttað eru þó ekki efni til þess að ómerkja hina áfrýjuðu dóma af þeirri ástæðu að einn héraðsdómari skipaði dóm í samræmi við meginreglu 2. mgr. sömu lagagreinar. Þá eru aðrar röksemdir ákærða Guðna Guillermo fyrir ómerkingu dómanna haldlausar.

III

Sú meginregla gildir að dómur í sakamáli skal reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008. Ef vitni hefur gefið skýrslu hjá lögreglu og staðfest það sem þar hefur verið eftir því haft við skýrslutöku fyrir dómi, með þeim hætti sem kveðið er á um í 3. mgr. 122. gr. laganna, verður sá framburður eftir atvikum lagður til grundvallar sakfellingu. Þá getur skýrsla vitnis hjá lögreglu haft sönnunargildi í sakamáli þótt vitnið hafi ekki komið fyrir dóm ef þess er ekki kostur við meðferð málsins, svo sem ef það er látið, sbr. 3. mgr. 111. gr. laganna. Ef ákærði eða vitni ber á annan hátt fyrir dómi en hjá lögreglu er dómara heimilt, samkvæmt 1. mgr. og 2. mgr. 109. gr. þeirra, að taka tillit til þess, sem fram kemur í lögregluskýrslu, ef hann telur breyttan framburð fyrir dómi ótrúverðugan, en sakfelling verður hins vegar ekki eins og áður segir reist á skýrslugjöf hjá lögreglu, einni og sér.

Samkvæmt ákæru 24. október 2011 er ákærðu Armando Luis, Guðna Guillermo og Halldóri Arnari gefið að sök „að hafa aðfaranótt föstudagsins 7. maí 2010 í Þingholtsstræti og nokkru síðar í Bankastræti til móts við veitingastaðinn Sólon í Reykjavík, í félagi veist að A með ofbeldi, meðal annars með ítrekuðum höggum og spörkum víðsvegar í líkama hans, höfuð og andlit. Af þessu hlaut A 2 cm langt sár aftan á höfði, nefbrot, mar og yfirborðsáverka á andlit og yfirborðsáverka á kvið, bak, mjaðmagrind og á hendi. Háttsemi ákærðu telst varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga ...“

Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi hafa allir ákærðu neitað sök. Þeir viðurkenndu þó við skýrslugjöf fyrir dómi að hafa verið staddir umrætt sinn á þeim stöðum sem í ákæru greinir. Kváðust þeir allir þrír hafa farið út úr bifreiðinni, sem þeir héldu síðar á brott með, í Bankastræti, en ákærðu Armando Luis og Guðni Guillermo neituðu að hafa ráðist á brotaþola, A. Ákærði Halldór Arnar greindi hins vegar svo frá við formlega skýrslutöku hjá lögreglu samkvæmt því sem fram kemur í skýrslu, undirritaðri af honum 7. maí 2010, að þeir hafi mætt brotaþola í Þingholtsstræti. Kvaðst ákærði Halldór Arnar hafa haldið á áfengisglasi og reynt að bjóða brotaþola sopa, en hann þá gripið glasið og fleygt því í götuna. Síðan er haft eftir ákærða í skýrslunni: „Mér fannst hann snúa ógnandi að mér og sló þá til hans. Honum virtist ekki vilja láta segjast og þá komu Guðni og Mondo í þetta. Ég hef líklega slegið hann niður, en Guðni varð undir þegar að hann blandaði sér í þetta. Þá tók ég manninn kverkataki aftanfrá uns hann bandaði út höndunum í uppgjöf. Þá sleppti ég honum og við fórum inní bíl sem [var] að koma að ná í okkur. Við ókum þarna útá Bankastræti en maðurinn hafði farið á undan okkur. Þá hittum við hann aftur fyrir. Hann var þá með ógnandi tilburði líkt og hann ætlaði að sparka í bifreiðina. Þá fórum við þrír út og „tókum í hann“, þá fyrst var sparkað í hann. Ég get ekki sagt hvort ég sparkaði sjálfur í hann og vil ekki tjá mig um félaga mína.“ Fyrir dómi fórust ákærða Halldóri Arnari meðal annars svo orð um það sem átti sér stað í Þingholtsstræti: „þetta lendir eitthvað smá svona í einhverjum ryskingum ... og ég man það að Guðni kom þarna og þeir lentu saman ... strákurinn, þeir detta í götuna, ég tek strákinn hálstaki aftan frá ... og tek svona kverkatak á honum“. Sagði ákærði að brotaþoli hefði fengið gat á höfuðið við að skella í götuna og hann sjálfur orðið blóðugur af þeim sökum. Þegar borin voru undir ákærða ummæli hans í áðurnefndri lögregluskýrslu um það sem gerst hafi í Bankastræti kvað hann það vera rangt eftir sér haft, en lögreglan hefði sagt sér í skýrslutökunni að sparkað hafi verið í brotaþola.

Við formlega skýrslutöku af brotaþola hjá lögreglu með aðstoð túlks var haft eftir honum í skýrslu, sem hann undirritaði 7. maí 2010, að tildrög árásarinnar hefðu verið þau að hann hafi farið út af gistiheimili sínu til að fá sér ferskt loft. Þrír karlmenn hefðu gengið í veg fyrir sig í hliðargötu út frá Laugavegi og neitað að hleypa sér í gegn nema hann greiddi þeim einhvers konar verndargjald. Síðan segir orðrétt í skýrslunni: „Ég neitaði því og reyndi ég að halda áfram för minni en mennirnir gengu áfram í veg fyrir mig. Sá sem hafði sig mest í frammi af þeim þremur hélt á glerglasi en hann byrjaði að ýta við mér og varð ég hræddur um að hann myndi beita glasinu gegn mér og skaða mig svo ég náði glasinu af honum og henti því í burtu en þá hafi mennirnir ráðist að sér með höggum og spörkum. Sá er hélt á glasinu var þrekvaxinn um 185 cm á hæð, dökkhærður ... Sá aðili hafi verið klæddur í hvítan bol og ljósar buxur. Aðili nr. tvö hafi verið sköllóttur um 180 cm að hæð, nokkuð þrekvaxinn, klæddur í svartan bol og bláar gallabuxur að ég held.“ Í skýrslunni er tekið fram að brotaþoli treysti sér ekki til að gefa lýsingu á þriðja árásarmanninum, en síðan segir: „Árásarmennirnir náðu að koma mér í götuna og létu þeir högg og spörk dynja á mér. Ég get ekki sagt til hve höggin eða spörkin hafi verið mörg en þeir tóku allir þátt í þessu og þó sá dökkhærði einna mest. Ég reyndi að verjast höggunum eftir mætti með því að bera hendur fyrir höfuð mér og einnig sem ég öskraði eins hátt og ég gat. Árásarmennirnir hættu barsmíðunum er einhver vegfarandi kom þarna að og hringdi eftir aðstoð lögreglu. Fóru þeir inn í VW fólksbifreið og óku aðeins áfram en komu síðan akandi aftur á bak í átt til mín. Fóru árásarmennirnir út úr bílnum og héldu áfram að berja mig og sparka í mig þar sem ég lá í götunni. Það dreif að fleiri vegfarendur og ráku þeir árásarmennina í burtu. Árásarmennirnir fóru þá aftur upp í bílinn og óku á brott.“ Í læknisvottorði 8. júní 2010 er áverkum, sem brotaþoli hlaut aðfaranótt 7. maí 2010, lýst á sama hátt og í ákæru. Aðspurð fyrir dómi bar L, læknir og sérfræðingur á slysa- og bráðadeild Landspítala Háskólasjúkrahúss, sem vottorðið gaf að erfitt gæti verið að greina hvort áverkar brotaþola hafi hlotist af höggum eða spörkum. Brotaþoli lést 14. desember 2011, skömmu áður en aðalmeðferð fór fram í málinu. Er upplýst að hann hafi svipt sig lífi, en ekkert er fram komið um að það hafi átt rætur að rekja til þeirra áverka sem hann hlaut í umrætt skipti.

Strax í kjölfar þeirra atvika, sem hér um ræðir, tók lögregla saman frumskýrslu þar sem því er lýst í stuttu máli er borið hafði við og síðan raktar frásagnir vitna sem gáfu sig fram á vettvangi af því sem þau töldu sig hafa séð og heyrt. Ekki voru teknar formlegar skýrslur af þessum sjónarvottum hjá lögreglu, en rúmu hálfu ári síðar voru teknar óformlegar skýrslur af þeim gegnum síma. Þegar umrædd vitni gáfu skýrslu fyrir dómi, meira en einu og hálfu ári eftir að atburðir höfðu átt sér stað, áttu þau erfitt með að rifja sjálfstætt upp það sem gerst hafði. Það var ekki fyrr en vitnisburður þeirra í fyrrgreindri frumskýrslu og eftir atvikum í símaskýrslu var borinn undir þau að atvik virtust rifjast upp fyrir sumum þeirra.

Vitnið H kvaðst við upphaf skýrslugjafar fyrir dómi „eiginlega ekkert“ muna eftir atvikum umrætt sinn. Þegar vitnisburður hennar í símaskýrslu var borinn undir hana kvaðst hún þó geta staðfest að átökin hafi verið að mestu yfirstaðin þegar hún kom á vettvang, en þeir sem stóðu að árásinni hafi verið þrír. Þegar þau ummæli vitnisins I í frumskýrslu lögreglu, að hann hafi séð þrjá menn hlaupa á eftir einum, látið högg dynja á honum og síðan sparkað ítrekað í andlit hans eftir að hann féll í götuna, voru borin undir vitnið fyrir dómi svaraði hann fyrst: „Sko náttúrulega, öllu er ofaukið ... kannski er maður búinn að smitast af of miklu þannig að ég vil allavega eftir á að hyggja ekki vera að segja eitthvað sem að er kannski ekki alveg ... eins og það var.“ Spurður frekar um hvort mennirnir þrír hafi sparkað í andlit brotaþola lét vitnið meðal annars þessi orð falla: „en eins og ég segi svona eftir á að hyggja þá gæti ... einhver skruðningur og hlaup hafa lúkkað eins og eitthvað annað. En það er náttúrulega – áverkarnir voru samt í andlitið þannig að ég veit ekki.“ Vitnið staðfesti að sú lýsing sem eftir honum var höfð í frumskýrslunni á tveimur árásarmannanna hafi verið rétt. Þannig hafi annar þeirra „verið í rauðum bol með mikið húðflúr á arminum, dökkhærður, og einn í hvítri peysu með hettu, svolítið breiður að sjá, hann hafði sig mikið í frammi.“ Síðan var borið undir vitnið það sem eftir honum var haft í áðurnefndri símaskýrslu að hann hafi séð „þrjá menn elta árásarþolann og kýla hann niður þar sem tekið var til við að sparka í hann.“ Spurður hvort vitnið staðfesti að hann hafi sagt hér satt og rétt frá svaraði hann: „Já ég myndi halda það“. Þá staðfesti vitnið lýsingu sína í símaskýrslunni á einum árásarmannanna að hann hafi verið „dökkhærður með sítt hár og í rauðum bol og með mikið húðflúr“. Vitnið G bar í skýrslu sinni fyrir dómi að hann hafi séð „tvo menn vera að berja einn mann og eru farnir að stappa ofan á honum meðan hann liggur á jörðinni“. Nánar spurður kvaðst vitnið sig minna að árásarmennirnir hafi verið tveir. Þegar hann var beðinn um að lýsa því betur hvernig þeir hefðu stappað á manni sem lá á jörðinni svaraði hann: „Ja við sáum bara þegar maður var kominn í jörðu að þá byrjuðu einhverjar sparkingar“.

Framburður brotaþola hjá lögreglu, sem áður er rakinn, er skýr og skilmerkilegur. Því hefur framburðurinn ótvírætt sönnunargildi í málinu, sbr. 3. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008, þótt hann verði ekki lagður að jöfnu við skýrslu sem gefin hefur verið fyrir dómi. Hélt brotaþoli því sem áður greinir fram að árásarmennirnir hafi verið þrír og gaf greinargóða lýsingu á tveimur þeirra sem kemur heim og saman við klæðaburð og útlit ákærðu Halldórs Arnar og Guðna Guillermo. Vitnin H og I báru fyrir dómi að þrír menn hafi ráðist á brotaþola umrætt sinn og hefur sá síðarnefndi gefið lýsingu á einum árásarmannanna sem er í samræmi við fatnað og útlit ákærða Armando Luis. Með vísan til þessa, fyrirliggjandi áverkavottorðs og annars þess, sem rakið er að framan, svo og niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærðu, verður talið að fram sé komin lögfull sönnun um að ákærðu hafi í sameiningu veist að brotaþola með ofbeldi aðfaranótt 7. maí 2010, fyrst í Þingholtsstræti og síðar í Bankastræti, með þeim afleiðingum sem í ákæru greinir. Ennfremur telst sannað með skýrslu ákærða Halldórs Arnars fyrir dómi og framburði brotaþola og vitnisins I, sem áður er vitnað til, að Halldór Arnar hafi haft sig meira í frammi en hinir tveir þegar þeir réðust á brotaþola.

Ákærðu er meðal annars gefið að sök í ákæru að hafa veist að brotaþola með ítrekuðum spörkum í höfuð hans og andlit. Sú verknaðarlýsing er í samræmi við framburð brotaþola hjá lögreglu þar sem hann kvað árásarmennina hafi náð að koma sér í götuna og látið spörk dynja á sér. Eins og áður greinir kom einnig fram í skýrslu ákærða Halldórs Arnars hjá lögreglu að sparkað hafi verið í brotaþola, en hann hvarf síðan frá þeim framburði fyrir dómi. Þótt tekið sé undir með héraðsdómara að þessi breytti framburður ákærða fyrir dómi sé ótrúverðugur verða þessi ummæli hans ekki lögð til grundvallar við úrlausn málsins þar sem þau voru höfð eftir honum í lögregluskýrslu, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008. Þá staðfesti vitnið I fyrir dómi það sem eftir honum var haft í óformlegum skýrslum lögreglu að hann hafi séð árásarmennina þrjá sparka í árásarþola liggjandi. Ennfremur bar vitnið G fyrir dómi að tveir menn hafi stappað ofan á þolandanum þar sem hann lá á jörðinni. Á hinn bóginn dregur það úr sönnunargildi vitnisburðarins um þetta atriði að hvorugt vitnið gat gefið nákvæma lýsingu á því hvernig að árásinni var staðið. Fyrir dómi hefur L læknir borið að erfitt geti verið að greina hvort áverkarnir á brotaþola hafi hlotist af höggum eða spörkum. Þá fór ekki fram rannsókn á skóm ákærðu eða verksummerkjum á vettvangi í því skyni að leiða í ljós hvort líklegt sé að ákærðu hafi veist að brotaþola liggjandi á götunni með spörkum í höfuð hans og andlit. Þegar allt þetta er virt verður ekki talið að ákæruvaldinu hafi tekist að sanna, svo að hafið sé yfir skynsamlegan vafa, að ákærðu hafi gerst sekir um þá háttsemi sem hér um ræðir, sbr. 108. gr. laga nr. 88/2008.

Samkvæmt þessu verður brot ákærðu ekki heimfært til 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, heldur 1. mgr. þeirrar greinar, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981. Verða þeir því sakfelldir fyrir það brot á grundvelli ákæru 24. október 2011, en sú hegðun rúmast innan verknaðarlýsingar ákærunnar og hefur málið verið reifað nægilega að því leyti, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008.

Með vísan til forsendna hinna áfrýjuðu dóma verður staðfest sakfelling ákærðu Róberts og Halldórs Arnars fyrir brot á 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga samkvæmt ákæru 6. september 2011. Ennfremur sakfelling ákærða Guðna Guillermo fyrir brot á 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga samkvæmt ákæru 12. apríl 2012. Samkvæmt framburði Æ, læknis og sérfræðings á slysa- og bráðadeild Landspítala Háskólasjúkrahúss, fyrir dómi mátti litlu muna að atlaga ákærða að brotaþolanum C, sem síðastnefnda ákæran tekur til, yrði honum lífshættuleg.

IV

Í hinum áfrýjuðu dómum er gerð grein fyrir sakarferli ákærðu. Við ákvörðun refsingar þeirra er í fyrsta lagi að líta til þess sem segir í héraðsdómi 28. febrúar 2012 um harkalega árás ákærðu Róberts og Halldórs Arnars á brotaþolann B að kvöldi 27. desember 2010. Með vísan til forsendna dómsins verður staðfest sú refsing sem ákærða Róbert var þar gerð fyrir það brot.

Við ákvörðun refsingar annarra ákærðu verður í öðru lagi að horfa til þess að þeir hafa verið sakfelldir fyrir að hafa ráðist ítrekað og í félagi á brotaþolann A aðfaranótt 7. maí 2010 og veitt honum alvarlega áverka, meðal annars á höfði og andliti. Var um að ræða harðskeytta árás sem bar vott um einbeittan brotavilja ákærðu. Samkvæmt öllu framansögðu verður refsing þeirra ákveðin með hliðsjón af 1., 3. og 6. tölulið 1. mgr. og 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði Armando Luis rauf með broti sínu skilorð samkvæmt dómi 7. desember 2009. Verður hinn skilorðsbundni dómur tekinn upp og dæmdur með þeirri refsingu sem hér er ákveðin, sbr. 60. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga. Það hefur áhrif til refsiþyngingar samkvæmt 1. mgr. 218. gr. b þeirra laga að hann var dæmdur fyrir brot á 1. mgr. 218. gr. laganna með áðurnefndum dómi. Að því virtu og með tilliti til alls þess sem að framan greinir skal ákærði sæta fangelsi í 6 mánuði. Ekki eru efni til að skilorðsbinda refsinguna.

Ákærði Halldór Arnar hefur eins og áður greinir verið sakfelldur fyrir tvö brot, annars vegar á 1. mgr. 218. gr. og hins vegar á 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt öllu framangreindu og að gættri 77. gr. sömu laga skal ákærði sæta fangelsi í eitt ár. Ekki eru efni til að skilorðsbinda refsinguna.

Við ákvörðun refsingar Guðna Guillermo verður til viðbótar öllu því sem áður er fram komið að líta til þess að hann hefur verið sakfelldur fyrir brot á 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás á brotaþolann C að morgni 9. júlí 2010 auk árásarinnar aðfaranótt 7. maí það ár. Ákærða hafði verið veitt reynslulausn 25. desember 2008 í tvö ár á eftirstöðvum refsingar samkvæmt dómi 16. apríl 2007, 250 dögum. Með síðarnefnda brotinu rauf hann skilorð reynslulausnarinnar og verða eftirstöðvarnar því dæmdar nú, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Við ákvörðun refsingar ákærða ber að gæta ákvæða 77. gr. og 78. gr. þeirra laga, auk þess sem 1. mgr. 218. gr. b laganna hefur áhrif til þyngingar hennar þar sem hann hafði tvívegis verið dæmdur fyrir brot á 2. mgr. 218. gr. þeirra áður en hann gerðist sekur um þau brot sem að framan greinir. Samkvæmt öllu framansögðu sæti ákærði fangelsi í þrjú ár. Ekki eru efni til að skilorðsbinda refsinguna.

Með vísan til forsendna hinna áfrýjuðu dóma eru staðfest ákvæði þeirra um skaðabætur, annars vegar til brotaþolans B og hins vegar brotaþolans C.

Ákvæði hinna áfrýjuðu dóma um sakarkostnað í héraði skulu vera óröskuð sem og ákvæði héraðsdóms 28. febrúar 2012 um málskostnað til handa brotaþolanum B.

Eftir framangreindum málsúrslitum er rétt að ákærðu greiði helming kostnaðar vegna áfrýjunar héraðsdóms 28. febrúar 2012, þar á meðal málsvarnarlaun verjenda sinna fyrir Hæstarétti sem ákveðin eru með virðisaukaskatti, eins og greinir í dómsorði, en að öðru leyti skal sá kostnaður greiddur úr ríkissjóði. Ákærði Guðni Guillermo skal greiða kostnað vegna áfrýjunar héraðsdóms 22. júní 2012, annan en málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti sem rétt er að greiðist að hálfu af honum og að hálfu úr ríkissjóði, svo sem nánar kemur fram í dómsorði.

Ákærðu Róbert og Halldór Arnar skulu greiða brotaþolanum B 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Ákvæði héraðsdóms 28. febrúar 2012 um refsingu ákærða, Róberts Arnarsonar, skal vera óraskað.

Ákærði, Armando Luis Rodriguez, sæti fangelsi í 6 mánuði.

Ákærði, Halldór Arnar Karlsson, sæti fangelsi í eitt ár.

Ákærði, Guðni Guillermo Gorozpe, sæti fangelsi í þrjú ár.

Ákvæði hinna áfrýjuðu dóma um skaðabætur til handa B og C skulu vera óröskuð.

Ákvæði hinna áfrýjuðu dóma um sakarkostnað í héraði skulu vera óröskuð. Ennfremur ákvæði héraðsdóms 28. febrúar 2012 um málskostnað til handa B.

Ákærði Róbert greiði helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, sem eru alls 313.750 krónur. Ákærði Armando Luis greiði helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, sem eru alls 313.750 krónur. Ákærði Halldór Arnar greiði helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, sem eru alls 439.250 krónur. Ákærði Guðni Guillermo greiði helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, sem eru alls 502.000 krónur. Ákærðu greiði í sameiningu helming af öðrum kostnaði vegna áfrýjunar héraðsdóms 28. febrúar 2012, sem er alls 52.820 krónur. Ákærði Guðni Guillermo greiði annan kostnað en málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns vegna áfrýjunar héraðsdóms 22. júní 2012, 25.390 krónur. Kostnaður vegna áfrýjunar beggja dómanna greiðist að öðru leyti úr ríkissjóði.

Ákærðu Róbert og Halldór Arnar greiði í sameiningu B 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. febrúar 2012.

                Mál þetta, sem dómtekið var 6. febrúar sl., er höfðað af ríkissaksóknara með ákæru á hendur Armando Luis Rodriguez, kt. [...], [...], Reykjavík, Guðna Guillermo Gorozpe, kt. [...], [...], Reykjavík, Halldóri Arnari Karlssyni, kt. [...], [...], Reykjavík og Róbert Arnarsyni, kt. [...], [...], Reykjavík. Er málið upphaflega höfðað gegn ákærðu, Armando Luis, Guðna Guillermo og Halldóri Arnari með ákæru 24. október 2011 fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 7. maí 2010 í Þingholtsstræti og nokkru síðar í Bankastræti til móts við veitingastaðinn Sólon í Reykjavík, í félagi veist að A með ofbeldi, meðal annars með ítrekuðum höggum og spörkum víðsvegar í líkama hans, höfuð og andlit. Af þessu hlaut A 2 cm langt sár aftan á höfði, nefbrot, mar og yfirborðsáverka á andlit og yfirborðsáverka á kvið, bak, mjaðmagrind og á hendi.

Háttsemi ákærðu er talin varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

                Þá er málið einnig höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 6. september 2011 á hendur Róbert Arnarsyni og Halldóri Arnari Karlssyni, en málin voru sameinuð undir rekstri málsins. Í þeirri ákæru er ákærðu gefið að sök líkamsárás í félagi, með því að hafa að kvöldi mánudagsins 27. desember 2010, á og við veitingastaðinn [...], [...], Reykjavík, veist að B, kt. [...], sem þar var að aðstoða starfsmann staðarins sem hafði lent í átökum við ákærðu, en ákærðu veittu B ítrekuð hnefahögg og spörk, auk þess sem þeir keyrðu höfuð hans með afli í millivegg úr plexigleri utan við staðinn, allt með þeim afleiðingum að hann hlaut djúpan skurð á innanverða vör ásamt bólgum á báðum vörum, tognun á brjóstkassa og dreifða yfirborðsáverka auk þess sem gervigómur hans brotnaði.

                Er þetta talið varða við 1. mgr. 217. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981.

                Er þess krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

                B krefst þess að ákærðu verði óskipt dæmdir til greiðslu á skaðbótum að fjárhæð 1.302.193 krónur ásamt vöxtum frá 27. desember 2010 í samræmi við 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 og dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá því mánuður er liðinn frá dagsetningu bótakröfunnar.

                Ákærðu neita allir sök. Verjendur ákærðu krefjast vægustu refsingar er lög leyfa og málsvarnarlauna sér til handa.

                Ákæra 24. október 2011.

                Aðfaranótt föstudagsins 7. maí 2010 kl. 02.58 fékk lögregla tilkynningu um að ráðist hafi verið á mann í Bankastræti í Reykjavík. Í frumskýrslu kemur fram að tilkynnandi hafi greint frá því að hann hafi heyrt öskur og hótanir. Í skýrslunni kemur fram að skömmu síðar hafi  borist önnur tilkynning en í þeirri hafi komið fram að árásarmennirnir hafi farið á brott í bifreið með skráningarnúmerið [...]. Í skýrslunni er þess getið að þrír lögreglumenn hafi stöðvað för bifreiðarinnar á Sóleyjargötu. Tveir lögreglumenn hafi farið í Bankastræti en er lögreglumenn hafi borið að garði hafi sjúkrabifreið verið komin á staðinn og sjúkraflutningamenn verið að huga að þeim er ráðist hafi verið á. Í frumskýrslu er rakið að svo virðist sem þrír menn, ákærðu Armando Luis Rodriguez, Guðni Guillermo Gorozpe og Halldór Arnar Karlsson, hafi ráðist á brotaþolann A með ofbeldi eftir einhver orðaskipti á milli þeirra við Þingholtsstræti [...]. Brotaþoli hafi átt leið þar um en hann hafi dvalið á hóteli við Laugaveg og verið á göngu um borgina. Ákærðu hafi elt brotaþola upp Bankastræti og látið einhver högg dynja á honum. Á móts við veitingastaðinn Sólon í Bankastræti hafi brotaþoli fallið í götuna vegna ágangs ákærðu og þeir látið spörk og högg dynja á honum. Brotaþoli hafi verið blóðugur í andliti, bólginn og blár. Hafi vitni lýst því að brotaþoli hafi ítrekað biðlað um að árásarmennirnir sýndu sér miskunn.

                Í frumskýrslu eru rakin atvik er lögreglumenn stöðvuðu akstur bifreiðar með skráningarnúmerið [...] á Sóleyjargötu. Fram kemur að skömmu áður en bifreiðin hafi verið stöðvuð hafi stúlka, D, yfirgefið bifreiðina og hlaupið á brott frá henni. Stuttu síðar hafi einn ákærðu, Halldór Arnar, einnig hlaupið frá bifreiðinni og hafi hann reynt að klifra yfir vegg norðan við Sóleyjargötu. Lögreglumenn hafi stöðvað flótta þeirra beggja. Ákærðu, Armando Luis og Guðni Guillermo, hafi verið inni í bifreiðinni og þeir verið handteknir. Ákærði, Armando Luis, hafi verið í framsæti bifreiðarinnar hægra megin en ákærði, Guðni Guillermo, í aftursæti bifreiðarinnar. Ökumaður bifreiðarinnar hafi verið E, en auk hans og ákærðu hafi einnig verið í bifreiðinni F og D.

Í skýrslunni er rakið að lögreglumenn hafi rætt við nokkur vitni á vettvangi. Starfsmenn á veitingastaðnum [...] í Bankastræti hafi gefið sig fram við lögreglu, en um hafi verið að ræða G og H. Hafi þau greint lögreglu frá því að þrír menn hafi elt brotaþola og ráðist á hann við veitingastaðinn Sólon. Hafi þau séð mennina sparka í höfuð brotaþola þar sem hann hafi legið í jörðinni. Ekki hafi þau getað gefið greinargóða lýsingu á árásarmönnunum. Þá hafi I, starfsmaður á [...], einnig gefið sig fram. Hafi hann lýst því að hann hafi hlaupið út er hann hafi heyrt hróp. Hafi hann séð þrjá aðila elta mann. Hafi hann hlaupið út af veitingastaðnum og séð mennina láta höggin dynja á manninum sem við það hafi fallið í götuna. Þá hafi þeir ítrekað sparkað í andlit mannsins. I hafi lýst mönnunum þannig að einn þeirra hafi verið dökkhærður og í rauðum bol með mikið húðflúr á armi. Annar hafi verið í hvítri peysu með hettu. Sá hafi verið svolítið breiður að sjá en hann hafi haft sig mikið í frammi. Ekki hafi I getað lýst þeim þriðja. Þá kemur fram að lögregla hafi rætt við J og K sem hafi lýst því að þeir hafi verið á göngu í Bankastræti við Ingólfsstræti. Hafi þeir séð þrjá menn elta einn. Einn árásarmannanna hafi verið í rauðum bol og með húðflúr en annar í hvítri hettupeysu. Ekki hafi þeir getað lýst þeim þriðja. Þeir hafi séð árásarmennina beita hnefum á brotaþola. Um leið hafi brotaþoli ítrekað beðið árásarmennina um að hætta. Við eitt sparkið eða höggið hafi brotaþoli fallið í jörðina og árásarmennirnir eftir það ítrekað sparkað í líkama og höfuð brotaþolans. Sá árásarmannanna sem hafi verið í hvítu peysunni hafi haft sig mest í frammi en hann hafi ítrekað sparkað í höfuð brotaþola. Þegar starfsmaður af [...] hafi komið hrópandi út af veitingastaðnum hafi árásarmennirnir hætt árásinni og hlaupið niður Bankastræti. 

Í frumskýrslu kemur fram að lögreglumaður hafi farið á slysadeild og rætt þar við brotaþola. Hafi brotþoli greint frá því að hann hafi fengið sér göngutúr í bænum og gengið niður Laugaveg. Hann hafi síðan ákveðið að beygja til vinstri og þar inn götu. Þá hafi komið að honum þrír menn. Hafi þeir gengið í veg fyrir hann og hindrað för hans. Hafi brotaþoli reynt að komast fram hjá þeim en þeir sagt að þeir myndu ekki hleypa honum framhjá nema að hann myndi greiða þeim tiltekna fjárhæð í verndargjald. Hafi hann ekki fallist á það og reynt að halda förinni áfram. Sá er haft hafi sig mest í frammi hafi verið með bjórglas í hendi. Sá hafi verið þrekvaxinn, dökkhærður og í hvítum bol. Annar mannanna hafi verið sköllóttur, nokkuð þrekvaxinn og í svörtum bol. Ekki hafi brotaþoli treyst sér til að lýsa þriðja manninum. Hafi brotaþoli óttast að sá árásarmannanna er haft hafi sig mestu í frammi og haldið hafi á bjórglasinu myndi beita glasinu gagnvart brotaþola. Hafi brotaþoli því tekið glasið úr hendi hans og fleygt því frá sér. Um leið hafi mennirnir ráðist á brotaþola með höggum og spörkum. Hafi þeir náð að leggja brotaþola í jörðina þar sem þeir hafi haldið áfram barsmíðunum. Skömmu síðar hafi fólk komið að og mennirnir hætt atlögunni. Hafi brotaþoli greint frá því að hann hafi reynt að verjast atlögunni eftir mætti með því að bera hendur fyrir andlit sitt á meðan höggin hafi dunið á honum. Hafi brotaþoli sagt að hann væri ferðamaður á Íslandi og væri hann á leið af landi brott næstkomandi miðvikudag. Myndi hann koma á lögreglustöð og leggja fram kæru á hendur árásarmönnunum fyrir líkamsárás.

Fram kemur að rætt hafi verið við ákærðu á lögreglustöð. Er tekið fram að þeir hafi allir verið undir áhrifum áfengis og sennilega einnig fíkniefna. Hafi þeir lítið viljað tjá sig um málið. Hafi ákærði, Armando Luis, sagt að hann væri saklaus. Ákærði, Guðni Guillermo, hafi viðurkennt að hafa verið á vettvangi en ekki séð neina líkamsárás. Föt ákærða, Halldórs Arnars, hafi verið blóðug, en bæði hafi verið blóð á hettupeysu hans og skóm er hann hafi verið í.

L sérfræðingur á slysa- og bráðadeild Landspítala háskólasjúkrahúss hefur 8. júní 2010 ritað læknisvottorð vegna komu brotaþola á deildina 7. maí 2010 kl. 04.55. Í vottorðinu kemur meðal annars fram að brotaþoli hafi ekki virst undir áhrifum áfengis. Hafi hann gefið greinargóða lýsingu. Hafi hann lýst því að hann hafi orðið fyrir líkamsárás af hálfu þriggja manna. Hafi þeir komið aftan að honum og veitt honum ítrekuð hnefahögg, auk þess sem þeir hafi sparkað í hann. Hafi brotaþoli fallið í jörðina og árásarmennirnir haldið áfram að veita honum högg í kvið, bak, háls, höfuð og andlit. Í vottorðinu kemur fram að töluverð bólga hafi verið í kringum vinstra auga, bæði neðan og ofan við augað. Einnig hafi hann verið bólginn yfir nefi vinstra megin. Á höfði aftanverðu hafi hann verið með stjörnulaga sár, um 2 cm langt hið lengsta. Aftan til á baki hægra megin hafi verið roðablettur, líklega eftir endurtekin högg. Á hægri hendi hafi hann verið með yfirborðssár, einkum yfir hnúum. Ekki hafi verið grunur um nein beinbrot. Sár á höfði hafi verið staðdeyft og því lokað með tveim sporum. Brotaþoli hafi aftur komið á deildina næsta dag. Hafi hann lýst því að hann væri með höfuðverk og óljósar sjóntruflanir. Einnig hafi honum liðið mjög illa andlega. Hafi hann verið mjög áhyggjufullur um að hafa mögulega hlotið höfuðkúpubrot eða áverka á heila. Hafi hann grátið í viðtalinu. Hann hafi verið með áberandi glóðarauga sem náð hafi yfir hálft andlit vinstra megin. Einnig hafi virst vera skekkja á nefi yfir til vinstri. Hafi verið tekin sneiðmynd af höfði, en hún hvorki sýnt innvortis blæðingar né höfuðkúpubrot. Hins vegar hafi nefbeinabrot verið staðfest. Í niðurstöðu er tekið fram að batahorfur væru góðar og að brotaþoli myndi ná sér að fullu af áverkum. Það væri hins vegar töluverð andleg áraun að verða fyrir árás af því tagi er brotaþoli hafi orðið fyrir og finni sumir fyrir streitueinkennum og hræðslu í þó nokkurn tíma á eftir.  

Brotaþoli mætti á lögreglustöð 7. maí 2010 og lagði fram kæru á hendur ákærðu fyrir líkamsárás. Viðstaddir skýrslutökuna voru tilnefndur réttargæslumaður brotaþola og [...] túlkur. Brotaþoli lýsti atvikum þannig að hann hafi verið á gistiheimili við Laugaveg í Reykjavík. Hafi hann farið út til að fá sér frískt loft og í þeim erindagjörðum gengið niður Laugaveg og inn hliðargötu til vinstri. Þar hafi þrír karlmenn gengið í veg fyrir brotaþola og neitað að hleypta brotaþola í gegn nema hann greiddi þeim verndargjald. Hafi brotaþoli neitað að verða við því og reynt að halda för sinni áfram. Hafi mennirnir áfram gengið í veg fyrir brotaþola. Sá er haft hafi sig mest í frammi hafi haldið á glerglasi en sá hafi byrjað að ýta við brotaþola. Kvaðst brotaþoli hafa orðið hræddur um að sá myndi beita glasinu og skaða með því brotaþola. Hafi brotaþoli náð glasinu af manninum og hent því í burtu. Við það hafi mennirnir ráðist á brotaþola með höggum og spörkum. Sá árásarmannanna sem haldið hafi á glasinu hafi verið þrekvaxinn um 185 cm á hæð, dökkhærður og klæddur í hvítan bol og ljósar buxur. Annar árásarmaður hafi verið sköllóttur, um 180 cm á hæð, nokkuð þrekvaxinn og klæddur í svartan bol og bláar gallabuxur. Ekki hafi brotaþoli treyst sér til að lýsa þeim þriðja. Árásarmennirnir hafi náð að koma brotaþola í götuna og látið högg og spörk dynja á brotaþola. Hafi þeir allir tekið þátt í árásinni, en sá dökkhærði hafi þó haft sig mest í frammi. Hafi brotaþoli reynt að verjast höggunum eftir mætti með því að bera hendur fyrir höfuð sér og reyna að öskra eins hátt og hann hafi getað. Hafi árásarmennirnir hætt árásinni er vegfarandi hafi komið að og hringt eftir aðstoð lögreglu. Hafi þeir farið inn í bifreið sem hafi verið ekið aðeins áfram en síðan bakkað í átt að brotaþola. Hafi árásarmennirnir farið út úr bifreiðinni og haldið áfram að berja brotaþola og sparka í hann þar sem brotaþoli hafi legið í götunni. Fleiri vegfarendur hafi drifið að og þeir rekið árásarmennina á brott. Hafi þeir farið aftur upp í sömu bifreið og áður og bifreiðinni verið ekið á brott.

Í rannsóknargögnum málsins eru ljósmyndir er rannsóknarlögreglumaður hefur tekið af brotaþola á lögreglustöð 7. maí 2010.

Í málinu liggur frammi staðfesting frá Europool frá 19. janúar 2012 þar sem gerð er grein fyrir því að móðir brotaþola hafi upplýst símleiðis að brotaþoli hafi látist 14. desember 2012 í úthverfi Rómar á Ítalíu.

Ákærðu voru allir vistaðir í fangageymslum lögreglu eftir handtöku. Þeir gáfu allir skýrslu hjá lögreglu næsta dag eftir dvöl í fangageymslu. Þá gáfu þeir allir skýrslu við aðalmeðferð málsins.

Ákærði, Armando Luis, lýsti því hjá lögreglu að hann hafi, ásamt meðákærðu, verið á Hótel Þingholti í Þingholtsstræti. Með þeim hafi verð fleira fólk. Hafi ákærði farið út af hótelinu ásamt F, D og E. Hafi ákærði heyrt einhver læti utandyra, sem ákærði hafi ekki skipt sér af heldur farið beint inn í bifreið er ákærði og samferðafólk hans hafi verið á. Skömmu síðar hafi meðákærðu komið inn í bifreiðina. Bifreiðinni hafi verið ekið út í Bankastræti. Þá hafi einhver komið hlaupandi að bifreiðinni og verið með ógnandi tilburði líkt og hann ætlaði að sparka í bifreið ákærðu. Ákærðu hafi við þetta farið út úr bifreiðinni. Hafi ákærði engan þátt tekið í árás á þennan mann en ákærði kvaðst ekki vilja tjá sig um meðákærðu. Hafi ákærði verið undir áhrifum áfengis. Í lögregluskýrslunni er tekið fram að ákærði hafi verið með áberandi húðflúr og klæddur í rauðan bol. Þá hafi hann verið dökkhærður. Er borið var undir ákærða að vitni hafi lýst einum árásarmanninum þannig að komi heim og saman við útlit og klæðnað ákærða kvaðst ákærði hafa verið á staðnum og fólk eflaust séð ákærða þar. Hafi það gert ráð fyrir að ákærði væri þátttakandi. Fyrir dómi lýsti ákærði atvikum þannig að hann, ásamt meðákærðu, hafi verið að skemmta sér á Hótel Þingholti. Vinur ákærðu, E, hafi komið á staðinn á bifreið til að ná í þá. Hafi ákærðu farið inn í bifreiðina og E ekið henni í Bankastræti. Þar hafi bifreiðinni verið lagt og ákærðu farið út. Talsverð læti hafi verið í miðbæ Reykjavíkur þessa nótt en ákærðu hafi verið að skemmta sér. Ekki hafi ákærði sjálfur lent í neinum átökum þessa nótt. Hafi ákærði verið klæddur í rauðan bol. Hafi hann verið undir áhrifum áfengis. Ákærði kvaðst ekki minnast þess að hafa hitt fyrir einhvern einstakling fyrir utan hótel í Þingholtsstræti.

Ákærði, Guðni Guillermo, var spurður að því hjá lögreglu hvort hann hafi tekið þátt í árás á brotaþola. Ákærði svaraði því til að ,,Ég var þarna á staðnum vissulega, en tók engan þátt í árásinni. Ég vil ekki tjá mig um gjörðir annarra.“ Kvað ákærði vel geta staðist að hann hafi verið í bifreið og Bankastræti og að hann hafi farið út úr bifreiðinni. Hann hafi hins vegar engan þátt tekið í átökum. Fyrir dómi lýsti ákærði atvikum þannig að hann hafi verið á Hótel Þingholti að skemmta sér ásamt meðákærðu og fleira fólki. Hafi ákærðu farið út af hótelinu og hitt þar fyrir einhvern mann. Sá hafi sennilega verið útlendingur. Ekki hafi ákærði rætt neitt við þann mann. Meðákærði, Halldór Arnar, hafi hins vegar boðið þessum manni drykk. Ákærði kvaðst þá sjálfur hafa farið að ræða við stúlku á staðnum. Skyndilega hafi ákærði heyrt eitthvað brothljóð og í því séð þennan mann hlaupa á brott. Ákærði hafi farið inn í bifreið sem átt hafi að flytja ákærðu á brott. Þeirri bifreið hafi E ekið, en auk hans hafi verið í bifreiðinni F og D. Fljótlega eftir að bifreiðinni var ekið af stað hafi hún verið stöðvuð við veitingastaðinn Sólon í Bankastræti. Þar hafi ákærðu farið út úr bifreiðinni. Ákærði kvaðst ekki hafa tekið eftir neinu sérstöku við það tækifæri. Mikið af fólki hafi verið á staðnum og ákærði heyrt einhver læti. Hann hafi hins vegar ekki séð nein átök. Ákærðu hafi farið aftur inn í bifreiðina og E haldið för áfram. Lögregla hafi stöðvað bifreiðina í Sóleyjargötu. Ákærði kvaðst ekki kannast við að hafa séð blóð í fatnaði meðákærða, Halldórs Arnars, þessa nótt. Hafi ákærði verið undir áhrifum áfengis. Hann myndi atvik þó vel.

Ákærði, Halldór Arnar, lýsti atvikum þannig hjá lögreglu að hann hafi greint sinn, ásamt meðákærðu, verið á Hótel Þingholti í Þingholtsstræti. Hafi ákærðu yfirgefið staðinn og mætt þessum manni. Hafi ákærði haldið á glasi með áfengi í. Hafi hann reynt að bjóða manninum að drekka, en maðurinn þá gripið glasið og fleygt því í götuna. Hafi glasið brotnað við það. Hafi ákærða fundist maðurinn ógnandi og af þeim ástæðum slegið til hans. Hafi virst sem maðurinn vildi ekki láta sér segjast og meðákærðu því komið í málið. Hafi ákærði líklega slegið manninn niður, en meðákærði, Guðni Guillermo, þá orðið undir manninum. Hafi ákærði í framhaldi tekið manninn kverkataki aftanfrá uns maðurinn hafi bandað frá sér í uppgjöf. Þá hafi ákærði sleppt manninum og ákærðu farið inn í bifreið sem komin hafi verið á staðinn til að ná í ákærðu. Hafi ökumaður bifreiðarinnar ekið henni í Bankastræti. Í Bankastræti hafi þessi maður aftur verið kominn og gert sig líklegan til að sparka í bifreiðina. Hafi ákærðu þá allir farið út úr bifreiðinni og ,,tókum í hann“. Þá fyrst hafi verið sparkað í manninn. Gæti ákærði ekki sagt hvort hann hafi sjálfur sparkað í manninn og vildi hann ekki tjá sig um félaga sína. Kvaðst ákærði þetta kvöld hafa verið klæddur í hvíta hettupeysu, grænar buxur og íþróttaskó. Blóð í fatnaði ákærða væri úr þessum manni. Kvaðst ákærði hafa verið fullur þessa nótt og hafi hann vitað að lögregla myndi handtaka ákærða. Af þeim ástæðum hafi hann reynt að flýja úr bifreiðinni í Sóleyjargötu. Ákærði kvaðst örugglega hafa valdið einhverjum af þeim áverkum er brotaþoli hafi greinst með eftir atlöguna. Fyrir dómi lýsti ákærði atvikum þannig að ákærði hafi komið út af hótelinu í Þingholtsstræti og þá verið með glas í hendi. Þá hafi útlendingur komið á móti honum. Kvaðst ákærði hafa boðið honum í glas. Útlendingurinn hafi hafnað boðinu. Hafi ákærði lagt nokkuð að honum að þiggja boðið og útlendingurinn þá tekið glasið úr hendi ákærða og hent því í götuna. Kvaðst ákærði hafa orðið pirraður vegna þessa. Í því hafi meðákærði, Guðni Guillermo, komið að. Ákærði kvaðst hafa lamið þennan mann í götuna og í kjölfarið tekið hann með hálstaki ofan af meðákærða, Guðna Guillermo, sem hafi fallið í götuna með manninum. Við þetta hafi maðurinn fengið gat á höfuðið og blóð úr honum komið í fatnað ákærða. Í framhaldi þessa hafi ákærðu allir farið inn í bifreið sem hafi verið komin til að sækja ákærðu. Þessi útlendingur hafi þá sparkað í bifreiðina og í kjölfarið hlaupið á brott. Ökumaður bifreiðar þeirrar er ákærðu hafi verið á hafi stöðvað aksturinn í Bankastræti. Þar hafi ákærðu allir farið út úr bifreiðinni. Með ákærðu í för hafi verið E, F og D. Þau hafi öll gengið um Bankastrætið og orðið viðskila hvort við annað. Fólk hafi síðan safnast saman fyrir utan veitingastaðinn Prikið í Bankastræti. Ekki hafi ákærði séð þennan útlending þar og ekki lent í neinum frekari átökum við hann heldur en í Þingholtsstrætinu. Ákærði kvaðst ekki hafa sparkað í brotaþola þessa nótt. Ákærði kvað rangt eftir sér haft í lögregluskýrslum að því marki sem framburði hans þar og við aðalmeðferð málsins bæri ekki saman. Ákærði hafi verið meira í tökum við þennan mann. Hafi hann ekki slegið hann og ekki sparkað í hann.

J kvaðst hafa verið fyrir framan veitingastaðinn Sólon í Bankastræti þessa nótt. Hafi J séð kýlingar og slagsmál í Bankastræti. Með J þessa nótt hafi verið K. Hafi J og K viljað stöðva slagsmálin en svo hafi virst sem þrír til fimm menn væru að ráðast á útlending. Í upphafi hafi útlendingurinn staðið en eftir einhver högg hafi hann fallið í götuna. Er J hafi komið að slagsmálunum hafi hópurinn tvístrast. J kvaðst hafa rætt við lögreglumenn á vettvangi og gefið þeim lýsingu á atvikum. Væri sú lýsing rétt.

K kvaðst hafa verið á staðnum þessa nótt. Hafi maður verið laminn í Bankastræti og viðkomandi fallið í götuna. Kvaðst K ekki telja að hann hafi séð er viðkomandi var laminn. Hafi hann séð einhverja hlaupa á brott af vettvangi. Sá er fallið hafi í götuna hafi verið fluttur á brott af vettvangi með sjúkrabifreið. 

H kvaðst hafa starfað á veitingastaðnum [...] í Bankastræti. Er borið var undir H að hún hafi greint lögreglumanni frá því að þrír menn hafi staðið að árás á einn í Bankastrætinu aðfaranótt föstudagsins 7. maí 2010 kvaðst H staðfesta að það væri rétt. Kvaðst hún hafa hlúð að brotaþolanum eftir atlöguna til að reyna að stöðva blæðingu úr höfði hans.

M kvaðst hafa gengið upp Bankastræti þegar maður í miklu uppnámi hafi komið á móti honum. Sá hafi verið blóðugur í andlit og óskað eftir því að M myndi hringja í lögreglu og sjúkrabifreið. Hafi M hringt í kjölfarið. Maðurinn hafi lýst því að menn hefðu slegið hann niður og að hann þyrfti aðstoð vegna þess. Eftir það hafi bifreið komið í áttina að þeim og maðurinn sagt að þar væru á ferð þeir er hefðu ráðist á sig. Kvaðst M þá hafa ákveðið að fara yfir á götuna hinu megin og reynt að fá þennan mann með sér. Það síðasta sem M hafi séð hafi verið þar sem maðurinn hafi verið við bifreið þessara manna. Hafi hann þá aftur hringt í Neyðarlínuna vegna málsins. M kvaðst muna eftir því að lögreglumaður hafi rætt við sig um málið. Hafi hann þá munað atvikin betur. Samkvæmt rannsóknargögnum málsins hafði lögreglumaður símasamband við M 15. desember 2010. Hefur lögreglumaður þá eftir M að árásarþoli hafi komið blóðugur á móti honum í Þingholtsstræti en M hafi verið að koma frá Bankastræti. Hafi lítilli bifreið verið ekið greitt að þeim og árásarþolinn virst hræddur við þá sem voru í bifreiðinni. Hafi árásarþoli hlaupið niður að horni Bankastrætis þar sem bifreiðin hafi stöðvast og maður farið út úr henni og á eftir árásarþola. Hafi M þá hringt í lögreglu. Ekki hafi hann séð barsmíðar er átt hafi sér stað í framhaldi. 

I kvaðst hafa verið við vinnu á veitingastaðnum [...] en vaktinni hafi rétt verið lokið. Hafi hann heyrt hróp fyrir utan staðinn sem beint hafi athyglinni að átökum fyrir utan. I kvaðst hafa gefið þá lýsingu á atvikum er fram komi í skýrslu lögreglumanns um símaviðtal við I 15. desember 2010. Þar er greint frá því að I hafi séð þrjá menn elta árásarþola og kýla hann niður og sparka í hann í kjölfarið. Hafi I þá hlaupið til. Hafi I þótt minnistætt að einn árásarmannanna hafi verið dökkhærður með sítt hár og í rauðum bol og með mikið húðflúr. Árásarmennirnir hafi horfið á braut er fólk hafi drifið að. Fyrir dómi lýsti I því að hann hafi hugað að brotaþola þar sem hann hafi legið eftir í götunni. Hafi ekki verið auðvelt að ná sambandi við hann vegna ástands hans.

G kvaðst hafa verið að vinna á veitingastaðnum [...] þessa nótt. Er honum hafi verið litið út hafi hann séð þar sem tveir menn hafi verið að lemja þann þriðja. Um 10 til 15 metrar hafi verið á milli G og átakanna þegar þetta var. Hafi G rokið út í þeim tilgangi að stöðva slagsmálin. Árásarþoli hafi staðið uppréttur í upphafi átakanna en fallið við einhver höggin. Einhverjir árásarmannanna hafi veist að honum liggjandi, en tveir þeirra hafi stappað ofan á honum. Að atlögunni lokinni hafi árásarmennirnir farið niður Bankastrætið. Árásarþola hafi verið ráðlagt að liggja áfram í götunni þar sem blóð hafi runnið undan höfði hans. Atlaga árásarmannanna gagnvart brotaþola hafi verið harkaleg og því væri hún G minnisstæð. Hafi hann verið í sjokki á eftir. Er undir G var borið að í frumskýrslu lögreglu er haft eftir honum að þrír menn hafi veist að einum kvaðst G í dag einungis muna eftir að þeir hafi verið tveir.

F kvaðst, ásamt D og E, hafa verið að skemmta sér í miðbæ Reykjavíkur umrædda nótt. Hafi þau um nóttina hitt ákærðu niður í miðbæ. Þegar kvöldið hafi verið á enda hafi þau, ásamt ákærðu, verið stödd á hóteli í Þingholtsstræti. Á einhverjum tímapunkti hafi D og E farið en síðan komið aftur til að sækja ákærðu. E hafi ekið bifreiðinni frá hótelinu og niður í Bankastræti. Þau hafi þá verið sex saman í bifreiðinni, en fyrir utan ákærðu hafi verið í henni F, D og E. Á einhverjum tímapunkti hafi einhver sparkað í bifreiðina og ákærðu þá farið út úr henni. Þau hin hafi verið áfram inni í bifreiðinni. Einhverju síðar hafi ákærðu komið aftur inn í bifreiðina. Stuttu síðar hafi lögregla stöðvað akstur bifreiðarinnar. F kvaðst ekki hafa séð nein átök þessa nótt. Þá hafi ekki verið rætt um nein átök eftir að ákærðu hafi komið inn í bifreiðina á nýjan leik.

D kvaðst hafa verið að skemmta sér þessa nótt með vinkonum sínum. Um nóttina hafi hún hitt ákærðu við hótel í miðbæ Reykjavíkur. E hafi sótt þau að hótelinu en þaðan hafi hann ekið bifreiðinni niður í Bankastræti. D kvaðst hafa vitað að einhver slagsmál hafi átt sér stað á milli ákærðu, Guðna Guillermo, Halldórs Arnars og einhvers drengs. Eitthvað hafi verið á milli ákærða, Guðna Guillermo og þessa drengs. Í kjölfarið hafi ákærði, Halldór Arnar, tekið drenginn ofan af ákærða, Guðna Guillermo. Hafi hún ekki séð þau átök frekar eða hvort einhver högg eða spörk hafi verið veitt. Í Bankastræti á móts við veitingastaðinn Sólon hafi þessi drengur sparkað í bifreið er þau hafi verið á og ákærðu þá farið út úr bifreiðinni og farið eitthvað upp eftir í átt að Laugavegi. Talsvert af fólki hafi verið á staðnum. Hafi hún séð að einhverjar ryskingar eða átök hafi verið fyrir aftan bifreiðina. Ekki hafi hún séð hvort ákærðu hafi verið í þeim hópi.   

E kvaðst hafa verið með F og D þessa nótt. Á einhverjum tímapunkti hafi þau verið stödd við hótel í Þingholtsstræti. Hafi E séð þar sem útlendingur hafi verið að reyna að tjá sig við ákærðu. Þessi maður hafi sparkað í bifreið E og ákærðu þá rætt við drenginn. Ekki hafi E séð nein átök á milli ákærðu og þessa drengs.  

N, móðir brotaþola, kvað son sinn hafa verið námsmann, þó svo hann hafi að einhverju leyti unnið hjá föður sínum. Hafi hann ferðast um Evrópu og meðal annars ákveðið að fara einn til Íslands til að sjá eldfjöllin á Íslandi. Frá Íslandi hafi hann farið í maí 2010 og þá haldið til Belgíu. Þaðan hafi hann farið til Grikklands, þar sem hún hafi hitt hann. Þá hafi brotaþoli verið bólginn um nef og augu. Einnig hafi honum liðið illa í baki. Þá hafi hann verið illa farinn andlega. Hann hafi verið óttasleginn og liðið mjög illa. Hafi N viljað að sonur hennar færi til læknis í [...], en það hafi hann ekki viljað. 

L læknir staðfesti læknisvottorð sitt á meðal rannsóknargagna málsins og skýrði einstök atriði því tengt. Hafi hún sjálf skoðað brotaþola. Hafi sú lýsing sem brotaþoli hafi gefið henni á atvikum komið heim og saman við þá áverka er hann hafi greinst með. Ekki sé auðvelt að greina áverka eftir því hvort þeir hafi verið veittir með hnefahöggum eða spörkum. Hafi brotaþoli ekki verið undir áhrifum áfengis. Hafi hann gefið greinargóða lýsingu á atburðum. Þá hafi verið greinilegt að honum hafi liðið mjög illa.

O rannsóknarlögreglumaður staðfesti þátt sinn í rannsókn málsins. Kvaðst O hafa tekið skýrslu af brotaþola hjá lögreglu. Túlkur hafi aðstoðað við skýrslutökuna. Eftir að skýrslan hafi verið rituð niður og þýdd fyrir brotaþola hafi brotaþoli ritað undir hana. Vottur hafi verið viðstaddur skýrslutökuna. 

P fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður staðfesti sinn þátt í rannsókn málsins. Kvaðst P hafa tekið framburðarskýrslur af ákærðu í kjölfar vistunar þeirra í fangageymslu. Hafi hann haft þann háttinn á að þegar framburður væri skráður innan gæsalappa væri P að skrá framburð niður eins og viðkomandi hafi orðað hlutina. Slíkur framburður ætti ekki að vera rangt skráður niður. Þá hafi ákærðu ekki haft uppi neinar athugasemdir varðandi skýrslurnar er þeir hafi ritað undir þær. Ákærði, Halldór Arnar, hafi í skýrslutökunni játað á sig árás á brotaþola. P kvaðst hafa ritað undir skýrslu af brotaþola sem vottur að skýrslutökunni. Hafi hann setið inni og hlustað á meðan skýrslutakan hafi farið fram. Brotaþoli hafi verið illa á sig kominn andlega en hann hafi grátið mikið á meðan á skýrslugjöfinni stóð. Hafi hann verið í miklu áfalli.

Niðurstaða:

Ákærðu er gefin að sök sérstaklega hættuleg líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 7. maí 2010 í Þingholtsstræti og nokkru síðar í Bankastræti í Reykjavík í félagi veist að brotaþola með ofbeldi sem nánar er lýst í ákæru, sem og afleiðingum háttseminnar. Eru brot ákærðu talin varða við 2. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940. Ákærðu neita allir sök. Synja ákærðu, Armando Luis og Guðni Guillermo, fyrir að hafa ráðist á brotaþola, en viðurkenna að hafa verið að skemmta sér á þessum tíma í miðbæ Reykjavíkur. Þá hefur ákærði, Guðni Guillermo, borið að útlendingur hafi verið fyrir utan hótel í miðbænum sem meðákærðu hafi rætt við. Ákærði, Halldór Arnar, hefur einnig neitað sök. Hann hefur viðurkennt að hafa slegið brotaþola í götuna eftir að brotaþoli hafi slegið glas úr hendi ákærða. Við þetta hafi brotaþoli fallið í götuna og fengið gat á höfuðið. Hafi hann fallið yfir meðákærða, Guðna Guillermo. Ákærði hafi tekið brotaþola hálstaki til að losa hann ofan af meðákærða. Til annarra átaka hafi ekki komið. Fyrir lögreglu bar ákærði hins vegar um atvik í Þingholtsstræti með sama hætti og fyrir dómi. Að því er varðar atlöguna í Bankastræti viðurkenndi hann að ákærðu hafi allir farið út úr bifreiðinni er brotaþoli hafi sparkað í bifreiðina og að ákærðu hafi tekið í brotaþola. Þá fyrst hafi verið sparkað í manninn. Hafi ákærði örugglega valdið einhverjum af þeim áverkum er brotaþoli hafi greinst með.

Brotaþoli gaf skýrslu hjá lögreglu á rannsóknarstigi málsins. Staðhæfði hann að ákærðu hafi veist að honum í félagi í Þingholtsstræti og að þeir hafi aftur veist að honum í félagi í Bankastræti þar sem þeir hafi allið slegið brotaþola og sparkað í hann liggjandi. Kom brotaþoli ekki fyrir dóm við aðalmeðferð málsins til skýrslugjafar en fyrir dóminum liggja staðfestar upplýsingar lögregluyfirvalda um að brotaþoli hafi látist í 14. desember sl.

Nokkur vitni hafa komið fyrir dóminn og borið um atvik þessa nótt. J kvaðst hafa verið fyrir framan veitingastaðinn Sólon í Bankastræti þessa nótt og hafa séð kýlingar og slagsmál í Bankastræti. Svo hafi virst sem þrír til fimm menn væru að ráðast á útlending. Í upphafi hafi útlendingurinn staðið en eftir einhver högg hafi hann fallið í götuna. H bar að þrír menn hafi staðið að árás á einn í Bankastræti. I kvaðst hafa séð þrjá menn elta brotaþola og kýla hann niður og sparka í hann í kjölfarið. Hafi I þótt minnistætt að einn árásarmannanna hafi verið dökkhærður með sítt hár og í rauðum bol og með mikið húðflúr. G kvaðst hafa rokið út í þeim tilgangi að stöðva slagsmálin. Brotaþoli hafi staðið uppréttur í upphafi átakanna en fallið við einhver höggin. Einhverjir árásarmannanna hafi veist að honum liggjandi, en tveir þeirra hafi stappað ofan á honum. Atlaga árásarmannanna hafi verið harkaleg og G minnisstæð. Í frumskýrslu lögreglu er haft eftir öllum ofangreindum vitnum eftir stutt samtal við þau á vettvangi að þrír menn hafi veist að einum þessa nótt í Bankastræti. Hafi árásarmennirnir lamið manninn og sparkað í höfuð hans eftir að hann hafi fallið í götuna.

Ákærðu voru allir handteknir síðar þessa sömu nótt á leið frá vettvangi. Vitni hafa lýst því að einn árásarmannanna hafi verið klæddur í hvíta hettupeysu. Samkvæmt gögnum málsins var blóð í þeim fatnaði er ákærði, Halldór Arnar, var klæddur í við handtöku. Var hann þá meðal annars klæddur í hvíta hettupeysu. Þá hafa vitni einnig lýst því að annar árásarmaður hafi verið dökkhærður, í rauðum bol og með áberandi húðflúr. Í lögregluskýrslu er tekin var af ákærða, Armando Luis, eftir vistun í fangageymslu er skráð að ákærði hafi verið dökkhærður, í rauðum bol og með áberandi húðflúr. Lögreglumenn er skýrslu tóku af ákærða, Halldóri Arnari, hjá lögreglu hafa komið fyrir dóminn og staðfest skýrslu ákærða rétta. Hefur ákærði ekki gefið trúverðuga skýringu á breyttum framburði sínum fyrir dómi, en þar hefur hann synjað fyrir að hafa veist að brotaþola í Bankastræti. Verður framburður ákærða hjá lögreglu lagður til grundvallar niðurstöðu.

Með hliðsjón af því sem hér að ofan greinir, framburði vitna sem staðhæfa að árásarmennirnir hafi verið þrír og að þeir hafi slegið brotaþola og sparkað í hann liggjandi, þ. á m. höfuð hans, fyrirliggjandi áverkavottorðs sem ótvírætt þykir benda til þess að brotaþoli hafi verið sleginn víðsvegar í líkama og sparkað í höfuð hans, þess að lýsing vitna á fatnaði árásarmannanna kemur heim og saman við fatnað ákærðu, Armando Luis og Halldórs Arnars, þykir dóminum komin fram lögfull sönnun um að ákærðu hafi í félagi veist að brotaþola með þeim  hætti er í ákæru er lýst og með þeim afleiðingum er þar greinir. Með því að hafa staðið þrír saman að atlögunni, sem fólst í því að slá brotaþola ítrekað hnefahögg í líkama og höfuð og sparka í höfuð brotaþola þar sem brotaþoli lá í götunni, eru ákærðu sekir um sérstaklega hættulega líkamsárás. Með hliðsjón af því verða ákærðu sakfelldir samkvæmt ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða. 

Ákæra 6. september 2011.

Að kvöldi mánudagsins 27. desember 2010 kl. 23.34 var tilkynnt um slagsmál á og við veitingastaðinn [...] í Austurstræti í Reykjavík. Er lögreglumenn komu á staðinn lá B, brotaþoli í máli þessu, mikið slasaður aftanvert við staðinn. Var lögreglumönnum gerð grein fyrir því að árásarmennirnir hafi farið inn á veitingastaðinn [...] við Austurstræti. Fram kemur að lögreglumenn hafi farið inn á þann stað en ekki fundið árásarmennina. Í framhaldi hafi lögreglumenn skoðað myndbandsupptökur af atburðinum úr eftirlitsmyndavél er staðsett hafi verið utandyra. Þar hafi mátt greina að ákærði, Halldór Arnar, hafi haft sig mikið í frammi og slegið frá sér. Þá kemur fram að greina hafi mátt mann sem tekið hafi atburðinn upp á myndbandsupptökuvél. Skyndilega hafi hópur manna farið að þeim manni. Á staðnum hafi verið rætt við Q, sem hafi starfað á veitingastaðnum sem barþjónn. Hafi Q greint frá því að ákærði, Halldór Arnar, hafi verið með vinum sínum inni á staðnum og látið dólgslega. Hafi Q reynt að fá þá út af staðnum en ákærði og vinir hans slegið til Q. Þá hafi farið af stað slagsmál sem færst hafi út fyrir. Hafi mennirnir verið búnir að króa Q af úti og verið að slá hann er brotaþoli hafi komið Q til aðstoðar. Hafi brotaþoli verið laminn fyrir vikið. Hafi Q náð að losa sig og starfsmenn veitingastaðarins náð að læsa útihurð staðarins og halda mönnunum þannig úti. Árásarmennirnir hafi síðan yfirgefið staðinn er lögreglu hafi borið að garði. Einhverjir hafi farið inn á veitingastaðinn [...]. Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að Q hafi verið bólginn á kinnbeini og á vinstri hendi. Á staðnum hafi verið rætt við R, sem unnið hafi á [...]. Hafi hún greint frá því að ákærði, Halldór Arnar, og vinir hans hafi verið með læti inni á staðnum, en ákærða hafi hún kannast við og þekkt með nafni. Samstarfsmaður hennar, Q, hafi reynt að fá ákærða og félaga hans út af staðnum en þeir þá byrjað að lemja Q. Þá hafi slagsmál farið af stað. Ákærði, Halldór Arnar, hafi haft sig mest í frammi, en ákærði, Róbert, hafi einnig verið æstur. Slagsmálin hafi farið út fyrir staðinn, en þar hafi sérstaklega ákærði, Halldór Arnar, haldið áfram að lemja Q. Hafi brotaþoli farið að skipta sér af og náð einhverjum af Q. Hafi brotaþoli þá verið laminn sjálfur. R hafi fundið mynd á internetinu af ákærða, Halldóri Arnari, sem hún hafi látið lögreglu í té. Á þeirri mynd hafi einnig mátt sjá ákærða, Róbert. Ekki hafi R munað eftir nafni ákærða, Róberts, á þeirri stundu. Hafi hún tjáð lögreglu að ákærði, Róbert, hafi haft sig mikið í frammi. Á vettvangi hafi verið rætt við brotaþola. Hafi hann greint frá því að hann hafi ætlað að aðstoða Q, þar sem menn hafi verið að lemja hann. Við það hafi brotaþoli verið laminn nokkur högg í andlitið. Hafi verið farið með brotaþola á slysadeild, en þangað hafi hann verið fluttur með sjúkrabifreið. Hafi hann verið mjög vankaður eftir árásina. Skömmu eftir þetta hafi lögreglumenn farið að veitingastaðnum [...] en þar hafi verið tilkynnt um mann sem hafi fallið í tröppu. Á staðnum hafi lögreglumenn hitt fyrir ákærða, Halldór Arnar, og hafi hann verið handtekinn vegna málsins. Hafi hann verið mjög ölvaður og greinilega undir áhrifum örvandi efna. Ákærði hafi í byrjun verið rólegur. Er ákærði hafi verið kominn út af staðnum hafi einhver þar fyrir utan bent á ákærða og sagt að hann væri sá sem mest hafi verið að berja frá sér. Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að síðar hafi orðið ljóst að ákærði, Róbert, hafi slasast inni á [...] og hafi hann sjálfur farið á slysadeild.

                Brotaþoli mætti á lögreglustöð 10. febrúar 2011 og lagði fram kæru á hendur ákærðu fyrir líkamsárás.

                S sérfræðingur á slysa- og bráðadeild Landspítala háskólasjúkrahúss hefur 25. febrúar 2011 ritað læknisvottorð vegna komu brotaþola á deildina. Í vottorðinu kemur meðal annars fram að brotaþoli hafi við skoðun verið tannlaus, en hann hafi komið með gervigóm sem hafi brotnað í tvennt. Hafi hann verið með nokkuð djúpan skurð innanvert á efri vör og verulega bólgu í vörum, bæði þeirri efri og þeirri neðri. Hann hafi verið greindur með tognun í brjóstkassa og með dreifða yfirborðsáverka. Sár innan á vör hafi verið saumað. Brotaþoli hafi leitað á deildina á ný 5. janúar 2011 vegna vaxandi verkja í hægri síðu. Ekki hafi komið fram brot í rifbeinum við sneiðmyndarannsókn.

                Ákærði, Róbert, gaf skýrslu hjá lögreglu 5. maí 2011 og fyrir dómi við aðalmeðferð málsins. Ákærði kvaðst hafa farið á veitingastaðinn [...] umrætt sinn. Inni á staðnum hafi ákærði rekist utan í einhvern og einhverjar kýtingar farið af stað. Ákærði hafi verið nokkuð ölvaður þetta kvöld og myndi hann því atvik ekki vel. Einhver læti hafi farið af stað fyrir utan staðinn og hafi ákærði ýtt einhverjum frá sér. Ákærði hafi verið í för með meðákærða þetta kvöld. Ákærði kvaðst kannast við einhver læti við dyravörð staðarins, sem hafi reynt að henda ákærða út af staðnum. Engin slagsmál hafi átt sér stað. Ákærði kvaðst ekki kannast við þá lýsingu á atvikum er fram komi í ákæru. Þá kvaðst ákærði ekki kannast við brotaþola. Ákærði kvaðst hafa farið inn á veitingastaðinn [...] síðar þetta kvöld og hafa fengið högg á höfuðið þar inni við að detta niður stiga. Hafi hann þurft að leita á slysadeild vegna þessa.

                Ákærði, Halldór Arnar, var yfirheyrður eftir dvöl í fangageymslu. Þá gaf hann skýrslu við aðalmeðferð málsins fyrir dómi. Kvaðst hann þetta kvöld, ásamt meðákærða, hafa farið á veitingastaðinn [...]. Meðákærði hafi lent í einhverjum kýtingum við stráka inni á staðnum, sem ákærði hafi blandað sér í. Þá hafi dyravörður tekið ákærða hálstaki og hafi ákærði slegið til dyravarðarins tvisvar sinnum með flötum lófa. Með þeim hætti hafi ákærða tekist að losa sig. Þá hafi slagsmál byrjað sem borist hafi út fyrir staðinn. Mikið af fólki hafi verið á svæðinu. Ákærði kvaðst hafa verið hálf vankaður eftir hálstakið og ekki séð hlutina vel. Kvaðst hann einungis hafa lent í átökunum við dyraverðina en engan annan. Ákærði kvaðst ekki kannast við þá lýsingu á atvikum er fram kæmu í ákæru. Ákærði kvaðst hafa drukkið áfengi þetta kvöld.

                Brotaþoli kvaðst hafa verið fyrir utan veitingastaðinn þetta kvöld að fá sér að reykja. Hafi hann veitt athygli slagsmálum og séð barþjón af [...], Q, vera kominn í götuna þar sem hann hafi verið laminn og í hann sparkað. Hafi brotaþoli ákveðið að ganga á milli og sagt við árásarmennina að þetta væri ekki þess virði. Það næsta er brotaþoli myndi væri að hann hafi verið að ranka við sér og þá verið alblóðugur. Myndi hann einungis eftir að hafa fengið eitt högg beint í andlitið en við það hafi hann dottið út. Afleiðingar árásarinnar hafi verið þær að gervigómur brotaþola hafi brotnað og hann fengið ýmsa líkamlega áverka. Hafi hann átt erfitt með sjón á vinstra auga í kjölfar árásarinnar. Þá hafi hann glímt við sálarstríð í kjölfar atburðarins. Hafi hann fengið nokkurs konar andlegt áfall. Brotaþoli kvaðst ekki hafa drukkið mikið áfengi þetta kvöld.

                Q kvaðst hafa starfað sem barþjónn á [...] þetta kvöld. Hafi hann heyrt einhvern hávaða og hróp inni á staðnum. T, starfsmaður á frívakt, hafi farið til ákærðu í kjölfarið og Q fylgt á eftir. Slagsmál hafi farið af stað og Q reynt að taka ákærðu með sér út af staðnum í gegnum nálægar dyr með því að ýta hópnum út. Í kjölfarið hafi ákærðu ráðist báðir að Q með höggum og spörkum en Q hafi fallið í jörðina við atlöguna. Hafi Q legið á grúfu á jörðinni. Á svæðinu hafi einnig verið T og U, annar starfsmaður [...]. Brotaþoli hafi verið fyrir utan staðinn, en hann hafi Q þekkt. Brotaþoli hafi náð að trufla ákærðu þannig að Q hafi náð að komast á fætur. Ákærðu hafi þá ráðist á brotaþola þar sem annar þeirra hafi haldið brotaþola á meðan hinn hafi kýlt hann. Síðan hafi þeir tekið brotaþola og þeir í sameiningu fleygt honum tvisvar til þrisvar sinnum í millivegg úr plexígleri er hafi verið utan við staðinn. Í þeim atgangi hafi þeir haldið um bak og öxl brotaþola þannig að andlit og nef brotaþola hafi komið fyrst í millivegginn. Greinilegt hafi verið að við það hafi tönn brotnað í brotaþola en hann hafi orðið alblóðugur við þetta. Q kvaðst hafa staðið hinu megin við millivegginn og séð þetta greinilega. Einhver þriðji maður hafi verið á staðnum sem hvatt hafi ákærðu áfram, en sá hafi sjálfur engan þátt tekið í árásinni. Hafi Q séð að ákærðu hafi verið mjög sterkir og hættulegir og því brugðið á það ráð að koma fólki aftur inn á veitingastaðinn og ásamt T náð að loka hurðinni. Í þeim atgangi hafi Q aftur verið laminn af ákærðu og höggið komið í gagnaugað. Brotaþola hafi þeim tekist að taka með sér inn. Í þessum átökum hafi því einungis tekið þátt Q, brotaþoli, T og síðan ákærðu. Talsverður fólksfjöldi hafi verið fyrir utan staðinn en enginn af þeim tekið þátt í átökunum. Q kvaðst ekki hafa þekkt ákærðu fyrir atburðinn. Hann hafi hins vegar tekið þátt í því að aðstoða lögreglu við að finna út hverjir þeir hafi verið. Í lögregluskýrslu staðhæfði Q að það væri alveg ljóst að ákærðu hafi báðir verið að verki í atlögunni gagnvart brotaþola en Q hafi séð þegar þeir hafi kýlt hann og barið og síðan keyrt hann saman í millivegginn. Þá lýsti Q því að hann hafi farið með lögreglu inn á veitingastaðinn [...] þar sem lögregla hafi handtekið ákærða, Halldór Arnar.

                T kvaðst hafa verið á [...] þetta kvöld þar sem hann væri alla jafnan starfsmaður. Þetta kvöld hafi hann þó ekki verið við störf. Hafi T orðið var við einhvern skarkala inni á staðnum Austurvallamegin. Hafi einhver átök verið í gangi sem borist hafi út af staðnum. Hafi T farið út og reynt að róa mannskapinn. Hafi einhver gripið í T og hann fengið högg. Kvaðst T hafa séð þegar brotaþoli hafi sennilega ætlað að stöðva atlögu gagnvart starfsmönnum staðarins. Þá hafi hann séð er brotaþola hafi verið hent í millivegginn fyrir utan. T kvaðst hafa gefið lögregluskýrslu vegna málsins á sínum tíma. Þá hafi hann munað atvik betur. Er undir T var borið að við yfirheyrslu lögreglu 29. mars 2011 hafi hann greint frá því að árásarmennirnir hafi verið komnir með brotaþola á milli sín og keyrt hann af öllu afli með höfuðið í millivegginn úr plexígleri staðfesti hann að sú lýsing væri rétt. Þá staðfesti T að við sömu yfirheyrslu hafi hann borið að hann hafi séð er lögregla hafi handtekið annan árásarmannanna á veitingastaðnum [...] en sá hafi haft sig mest í frammi.

                R kvaðst hafa starfað á [...] þetta kvöld. Hópur manna hafi komið inn á staðinn. Tveir starfsmenn staðarins, Q og U, hafi vegna óláta vísað þessum mönnum út af staðnum bakdyramegin. Q hafi reynt að ræða við mennina og hafi R kannast við einn þeirra sem ákærða, Halldór Arnar, á þessum tíma. Hafi ákærði, Halldór Arnar, orðið eitthvað rólegri en þá hafi annar maður komið að og verið mjög æstur. Sá hafi reynt að lemja Q og náð að koma einhverjum höggum á hann. Brotaþoli hafi blandað sér í málið og ætlað að ganga á milli. Þegar þar var komið hafi R reynt að hringja í lögreglu því hún hafi áttað sig á því að starfsmenn staðarins væru of fáliðaðir í átökunum. Þá hafi hún reynt að loka hurð staðarins til að átökin bærust ekki aftur inn. R kvaðst hafa séð er ákærði, Halldór Arnar, og þrír aðrir hafi lamið brotaþola, en ákærði og annar til hafi haft sig mestu í frammi. Hafi hún örugglega einnig séð einhver spörk frá ákærða, Halldóri Arnari, og öðrum. Óhugnanlegt hafi verið að horfa á atlöguna. Hafi R séð brotaþola lenda í jörðinni. Hafi hann verið tekinn upp og lagður niður inni á veitingastaðnum á meðan beðið hafi verið eftir sjúkraliði. Hafi hún ekki séð er brotaþoli hafi verið keyrður í millivegginn. R kvaðst hafa aðstoðað lögreglu við að finna út hverjir árásarmennirnir væru. Hafi hún farið á internetið og þar fundið mynd af ákærða, Halldóri Arnari. Hún hafi einnig verið með í för er lögregla hafi farið inn á veitingastaðinn [...] til að handtaka ákærða, Halldór Arnar. Ákærðu hafi verið tveir saman þetta kvöld og tveir aðrir með þeim. Hinir tveir hafi verið í því að hvetja til slagsmálanna. Hafi R virst sem ákærði, Halldór Arnar, hafi verið leiðtoginn þetta kvöld. Ákærði, Róbert, hafi hins vegar komið öllu af stað. Væri enginn vafi í huga R að ákærðu hefðu báðir veist að brotaþola. Er R gaf skýrslu hjá lögreglu 29. mars 2011 lýsti hún því að er R hafi reynt að koma fólki inn á staðinn aftur í þeim tilgangi að loka staðnum hafi hún séð brotaþola reyna að aðstoða Q en þá hafi ákærðu ráðist á brotaþola og gengið í skrokk á honum með höggum og spörkum og hafi verið greinilegt að ganga hafi átt frá honum. Hafi stórséð á brotaþola á eftir. Hafi R farið inn og hringt á lögreglu á meðan starfsmenn staðarins hafi komið brotaþola í öruggt skjól innandyra.

                U kvaðst óljóst muna atvik. Ekki var tekin af honum lögregluskýrsla við rannsókn málsins. Kvaðst U muna eftir því að starfsmenn staðarins hafi hent einhverjum út af staðnum vegna slagsmála. Þá kvaðst U muna eftir því að brotaþoli hafi verið með brotna tönn eftir átök sem átt hafi sér stað. Hafi U kannast við ákærðu. Ekki hafi hann hins vegar séð þegar brotaþoli hafi verið laminn þar sem U hafi þá verið kominn inn á staðinn.

                V kvaðst hafa verið starfsmaður á [...] á þessu tímabili en þetta kvöld hafi hann ekki verið að vinna. Hafi hann verið nýkominn inn á staðinn er R hafi komið og sagt að einhverjir væru að lemja Q. Kvaðst V hafa hlaupið af stað og tekið eftir brotaþola, sem hafi verið alblóðugur. Á sama tíma hafi hann séð Q fyrir utan staðinn reyna að koma fólki aftur inn á staðinn til að unnt væri að loka útidyrahurð að staðnum. Hafi hann þá veitt athygli þeim mönnum sem ráðist hafi á brotaþola. Miðað við ástand þessara manna hafi þeir ekki verið með réttu ráði. Útlendingur hafi verið að taka upp á myndband utandyra. Hafi mennirnir fari að honum og hótað honum lífláti nema hann myndi eyða því er hann hefði tekið upp. Kvaðst V ekki hafa verið vitni að því er brotaþoli hafi verið laminn. Hann hafi hins vegar séð ákærðu slá frá sér fyrir utan staðinn.  

Þ kvaðst ekki muna eftir málinu eða þekkja ákærðu. Hafi hann verið í talsverðri óreglu er atvik málsins hafi átt sér stað. Kvaðst hann ekki minnast þess í dag að lögreglumenn hafi rætt við hann á vettvangi.

S læknir staðfesti læknisvottorð sitt á meðal gagna málsins. Hafi áverkar þeir er brotaþoli hafi fengið samrýmst því að brotaþoli hafi orðið fyrir höggum og spörkum. Hafi S sjálfur skoðað brotaþola.

                Niðurstaða:

                Ákærðu er gefin að sök líkamsárás, með því að hafa að kvöldi mánudagsins 27. desember 2010 á og við veitingastaðinn [...] í Austurstræti í Reykjavík veist að brotaþola, en ákærðu er gefið að sök að hafa veitt brotaþola hnefahögg og spörk, auk þess að hafa keyrt höfuð hans með afli í millivegg úr plexígleri utan við staðinn. Afleiðingar árásarinnar koma fram í ákæru, en brotið er talið varða við 1. mgr. 217. gr. laga nr. 19/1940. Ákærðu neita báðir sök. Hafa þeir viðurkennt að hafa verið á staðnum þetta kvöld. Hefur ákærði, Halldór Arnar, viðurkennt að hafa slegið dyravörð með flötum lófa er dyravörðurinn hafi tekið ákærða hálstaki. Hafi það verið inni á veitingastaðnum og gert í þeim tilgangi að losa takið. Ákærði synjar fyrir að hafa veist með ofbeldi að brotaþola. Ákærði, Róbert, neitar alfarið sök.

                Fyrir dóminn hafa komið nokkur vitni. Tvö þeirra, Q og R voru starfandi á veitingastaðnum [...] þetta kvöld, en það þriðja, T, var á frívakt og aðstoðaði starfsmenn á staðnum í þeim átökum er áttu sér stað. Vitnin Q og T hafa bæði staðhæft að þau hafi séð þar sem ákærðu hafi í sameiningu veist að brotaþola, fyrst með höggum og spörkum en síðan hafi þeir báðir tekið í brotaþola og keyrt höfuð hans í millivegg úr plexígleri fyrir utan staðinn. Hafa báðir jafnframt staðhæft að hafa fylgst með því er lögregla hafi handtekið ákærða, Halldór Arnar, síðar um nóttina, en hann hafi verið annar árásarmannanna. Vitnið R bar einnig fyrir lögreglu að hún hafi séð þegar ákærði, Halldór Arnar, í félagi við annan árásarmann hafi veist að brotaþola með höggum og spörkum. 

Við mat á niðurstöðu er til framburða vitnanna Q, T og R að líta. Með hliðsjón af þeim er fram komin lögfull sönnun fyrir því að ákærði, Halldór Arnar, hafi veist að brotaþola með þeim hætti er í ákæru greinir og þeim afleiðingum er þar koma fram. Fram er komið að vitni þessu þekktu ekki deili á ákærða, Róbert, á þessum tíma. Var hann auk þess ekki handtekinn þetta kvöld, en hann leitaði á slysadeild eftir að hafa fallið í stiga inni á veitingastaðnum [...] þar sem ákærði, Halldór Arnar, var handtekinn. Ofangreind vitni báru um að báðir árásarmennirnir hafi farið þangað inn. Þá hafa framangreind vitni staðhæft að tveir menn hafi staðið að atlögunni en aðrir á svæðinu verið hvetjandi og enn aðrir áhorfendur. Dómurinn hefur litið á myndbandsupptöku úr eftirlitsmyndavél fyrir utan veitingastaðinn. Þá gengu dómari og sakflytjendur á vettvang. Sjónarhorn eftirlitsmyndavélarinnar er þannig að hún hefur ekki beinst af þeim stað er árásin á brotaþola átti sér stað. Hún veitir hins vegar óræka sönnun fyrir því að ákærðu gengu báðir mjög hart fram fyrir utan veitingastaðinn og sést enginn annar lemja frá sér með viðlíka hætti. Þegar til þessa er litið þykir dóminum hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði, Róbert, hafi verið hinn árásarmaðurinn af tveim sem réðust gegn brotaþola þetta kvöld. Með hliðsjón af því verður ákærði, Róbert, einnig sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemi hans þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

                Ákærði, Armando Luis, er fæddur í [...] 1985. Hann gekkst undir viðurlagaákvörðun árið 2003 vegna umferðarlagabrots. Þá gekkst hann undir sátt 2005 vegna brota gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Á árinu 2009 var ákærði í tvígang dæmdur, fyrst fyrir eignaspjöll en síðan fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940. Í nóvember 2010 var ákærði dæmdur fyrir brot gegn umferðarlögum. Á árinu 2011 gekkst ákærði í tvígang undir sáttir vegna brota gegn umferðarlögum.  

Ákærði, Guðni Guillermo, er fæddur í [...] 1979. Brotaferill ákærða hófst árið 1997. Frá því ári til ársins 2007 hefur ákærði 5 sinnum verið dæmdur fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Þá hefur hann í þrígang gengist undir sáttir vegna brota gegn umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni og einu sinni gengist undir viðurlagaákvörðun vegna brota gegn umferðarlögum. Ástæða þykir til að nefna að ákærði var 23. mars 2007 dæmdur í 4 mánaða fangelsi, þar af þrjá mánuði skilorðsbundið fyrir brot gegn valdstjórninni. Þá var hann 16. apríl sama ár dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940, 4. mgr. 220. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. og 1. mgr. 164. gr., sbr. 20. gr. sömu laga og öðrum tilgreindum ákvæðum almennra hegningarlaga og umferðarlaga. Loks var ákærða í dómi 19. desember 2007 ekki gerð sérstök refsing fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940 og ákvæðum umferðarlaga. 

Ákærði, Halldór Arnar, er fæddur í [...] 1978. Á árinu 2003 gekkst ákærði undir viðurlagaákvörðun fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. laga nr. 19/1940. Á árinu 2005 var hann dæmdur fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Þá var hann á árinu 2009 dæmdur fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og umferðarlögum. Hann gekkst 28. desember 2010 í tvígang undir sáttir fyrir brot gegn umferðarlögum. Loks gekkst hann 11. maí 2011 undir sátt fyrir brot gegn umferðarlögum.

Ákærði, Róbert, er fæddur í [...] 1977. Á árinu 2002 gekkst hann undir viðurlagaákvörðun vegna brota gegn umferðarlögum, tollalögum og vopnalögum. Á árinu 2009 gekkst hann undir sátt fyrir brot gegn umferðarlögum. Sama gerðist í júní 2010. Loks gekkst hann undir sátt 24. janúar 2011 fyrir brot gegn umferðarlögum.

Við ákvörðun refsingar ákærðu er í fyrsta lagi til þess að líta að ákærðu, Armando Luis, Guðni Guillermo og Halldór Arnar, hafa hér að framan verið sakfelldir fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás í félagi. Var árás ákærðu ófyrirleitin, þar sem þeir réðust þrír gegn einum. Spörkuðu þeir meðal annars í höfuð fórnarlambsins þar sem það lá í jörðinni. Til viðbótar þessu hefur ákærði, Halldór Arnar, verið sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. laga nr. 19/1940, fyrir að hafa í félagi við meðákærða, Róbert, ráðist að manni sem var að reyna að stilla til friðar fyrir utan veitingastað í miðbæ Reykjavíkur. Var framganga þeirra gagnvart brotaþolanum harkaleg. Að því er alla ákærðu varðar verður refsing ákveðin með hliðsjón af 1., 3. og 6. tl. 1. mgr. og 2. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940. Þá verður við ákvörðun refsingar ákærðu, Armando Luis og Guðna Guillermo, í ljósi sakaferils þeirra, litið til ákvæða 218. gr. b laga nr. 19/1940, sbr. 71. gr., sem heimilar að hækka refsingu allt að helmingi, hafi sá sem er dæmdur sekur um brot gegn 2. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940 áður verið dæmdur sekur um brot gegn þeirri grein eða 1. mgr. 218. gr. laganna. Enginn ákærðu á sér nokkrar málsbætur.

Ákærði, Armando Luis, hefur með broti sínu rofið skilorð samkvæmt dómi 7. desember 2009. Verður hinn skilorðsbundni dómur nú tekinn upp og dæmdur með þeirri refsingu sem hér er ákveðin, sbr. 60. gr. laga nr. 19/1940. Þó svo brotið hafi verið framið áður en ákærði var dæmdur í dómi 24. nóvember 2011 og gekkst undir tvær sáttir á árinu 2011 hefur það ekki áhrif á ákvörðun refsingar í málinu. Með hliðsjón af öllu framansögðu sæti ákærði, Armando Luis, fangelsi í 16 mánuði. Ekki eru efni til að skilorðsbinda refsinguna.

Ákærða, Guðna Guillermo, var veitt reynslulausn 25. desember 2008 í tvö ár af eftirstöðvum refsingar 250 dögum. Ákærði hefur rofið skilorð reynslulausnarinnar og verða eftirstöðvarnar nú dæmdar með. Með hliðsjón af því og öllu ofangreindu er refsing ákærða, Guðna Guillermo, ákveðin fangelsi í 2 ár. Ekki eru efni til að skilorðsbinda refsinguna.

Þó svo brot ákærða, Halldórs Arnars, hafi verið framin áður en ákærði gekkst undir sáttir á árunum 2010 og 2011 hefur það ekki áhrif á ákvörðun refsingar eins og hér hagar til. Með hliðsjón af öllu ofangreindu er refsing ákærða, Halldórs Arnars, ákveðin fangelsi í 2 ár. Ekki eru efni til að skilorðsbinda refsinguna.  

Brot ákærða, Róberts, er framið áður en ákærði gekkst undir sátt 24. janúar 2011. Þrátt fyrir það hefur það ekki áhrif á ákvörðun refsingar í málinu. Með hliðsjón af öllu framangreindu sæti ákærði, Róbert, fangelsi í 6 mánuði. Refsing ákærða verður skilorðsbundin að hluta, svo sem í dómsorði er mælt fyrir um.

Vegna ákæru 6. september 2011 krefst B þess að ákærðu, Halldór Arnar og Róbert, verði óskipt dæmdir til greiðslu á skaðbótum að fjárhæð 1.302.193 krónur ásamt vöxtum. Samanstendur krafan af kröfu um miskabætur að fjárhæð 1.000.000 krónur og útlagðan kostnað að fjárhæð 302.193 krónur. Þá er gerð krafa um málakostnað. Ákærðu hafa hér að framan verið sakfelldir fyrir líkamsárás gagnvart brotaþola. Með vísan til 26. gr. laga nr. 50/1993 á hann rétt á miskabótum vegna háttsemi ákærðu. Með hliðsjón af framferði ákærðu, afleiðingum háttseminnar og dómvenju á réttarsviðinu eru miskabætur ákveðnar 400.000 krónur. Krafa vegna góms er studd áætlun. Verður kröfunni hafnað. Sama gildir um kröfulið vegna gleraugna. Krafa vegna sjúkrakostnaðar að fjárhæð 41.949 krónur er studd reikningum. Verður sá kröfuliður tekinn til greina. Sama gildir um kröfulið vegna lyfjakostnaðar að fjárhæð 7.024 krónur og ferðakostnað að fjárhæð 3.220 krónur. Samkvæmt þessu verða ákærðu einnig dæmdir til að greiða brotaþola útlagðan kostnað að fjárhæð 52.193 krónur. Um vexti fer sem í dómsorði greinir. Þá verða ákærðu dæmdir til að greiða brotaþola málskostnað svo sem í dómsorði er mælt fyrir um.

                Ákærðu, Armando Luis, Guðni Guillermo og Halldór Arnar, greiði óskipt 34.500 krónur í sakarkostnað vegna ákæru 24. október 2011. Þá greiði ákærðu, Halldór Arnar og Róbert, óskipt 34.500 krónur í sakarkostnað vegna ákæru 6. september 2011. Að öðru leyti greiði ákærðu málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, svo sem í dómsorði er mælt fyrir um. Brotaþolanum A var skipaður réttargæslumaður fyrir dómi. Sú skipan var felld niður við andlát brotaþolans. Verða ákærðu, Armando Luis, Guðni Guillermo og Halldór Arnar, dæmdir til að greiða þóknun réttargæslumanns brotaþolans, eins og mælt er fyrir um í dómsorði. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

                Dóm þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.

D ó m s o r ð :

                Ákærði, Armando Luis Rodriguez, sæti fangelsi í 16 mánuði.

Ákærði, Guðni Guillermo Gorozpe, sæti fangelsi í 2 ár.

Ákærði, Halldór Arnar Karlsson, sæti fangelsi í 2 ár.

Ákærði, Róbert Arnarson, sæti fangelsi í 6 mánuði. Fresta skal fullnustu 3ja mánaða af refsingunni og falli sá hluti hennar niður að liðnum tveim árum frá birtingu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærðu, Halldór Arnar og Róbert, greiði óskipt B skaðabætur að fjárhæð 452.193 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 27. desember 2010 til 5. nóvember 2011 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Ákærðu, Halldór Arnar og Róbert, greiði B óskipt 260.000 krónur í málskostnað.

                Ákærðu, Armando Luis, Guðni Guillermo og Halldór Arnar, greiði óskipt 34.500 krónur í sakarkostnað og þóknun réttargæslumanns brotaþola Oddgeirs Einarssonar héraðsdómslögmanns, 251.000 krónur. Ákærðu, Halldór Arnar og Róbert, greiði óskipt 34.500 krónur í sakarkostnað. Ákærði, Armando Luis, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Páls Kristjánssonar héraðsdómslögmanns, 614.950 krónur, ákærði, Guðni Guillermo málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Stefáns Karls Kristjánssonar héraðsdómslögmanns, 753.000 krónur, ákærði Halldór Arnar, málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Snorra Sturlusonar héraðsdómslögmanns, 753.000 krónur og ákærði, Róbert, málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Steinbergs Finnbogasonar héraðsdómslögmanns, 502.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júní 2012.

Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 12. apríl 2012, á hendur

„Guðna Guillermo Gorozpe, kennitala [...], [...] Reykjavík

fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa að morgni föstudagsins 9. júlí 2010 í íbúð á neðstu hæð fjölbýlishússins að [...] í [...], í félagi við annan mann, veist með ofbeldi að C, en ákærði sló hann í hnéð með járnröri þannig að C féll í jörðina og er hann stóð upp slógu ákærði og félagi hans, C nokkrum höggum í höfuðið með járnröri. Af árásinni hlaut C þrjá skurði á höfuð og tognun og ofreynslu á hægra hné.

Háttsemi ákærðu telst varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu C, kennitala [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða honum bætur að fjárhæð kr. 1.760.465 með vöxtum skv. 8. gr.laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 9. júlí 2010 til greiðsludags en að mánuði liðnum frá birtingu bótakröfu er krafist dráttarvaxta af sömu fjárhæð skv. 6. gr., sbr. 5. gr. og 9. gr. vaxtalaga til greiðsludags. Auk þess er krafist réttargæsluþóknunar úr hendi ákærða, brotaþola að skaðlausu samkvæmt framlögðum reikningi.“

Verjandi ákærða krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þess er aðallega krafist að bótakröfu verði vísað frá dómi en til vara að krafan sæti lækkun. Sakarkostnaðar, þ.m.t málsvarnarlauna, er krafist úr ríkissjóði að mati dómsins.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar, dagsettri 10. júlí 2010, var lögreglan kvödd að [...] að morgni 9. júlí 2010, vegna líkamsárásar sem C hafði orðið fyrir, fyrr um morguninn. C greindi lögreglunni svo frá að um klukkan 7:50 um morguninn hefði verið knúið dyra hjá honum. Úti fyrir var maður sem spurði um A, sem hann kvað meðleigjanda sinn. C kvaðst hafa greint manninum frá því að A væri erlendis en þá hefði skyndilega birst annar karlmaður sem hefði barið sig með járnhlut í hægra hnéð svo hann féll um koll. Þá hefði maðurinn barið sig í höfuðið. Í kjölfarið hefði árásin borist inn í íbúðina þar sem hann kvaðst hafa fallið í gólfið og þar sem mennirnir héldu áfram að berja sig með járnhlutnum, víða í líkamann. Mennirnir hurfu síðan á braut. C lýsti mönnunum og kvað annan þeirra heita Guðna og bera erlent eftirnafn. Fram kom að C leitaði læknis eftir þetta.

Hinn 14. júlí 2010 kom C á lögreglustöð og lagði fram kæri á hendur ákærða vegna háttseminnar sem í ákæru greinir. Lýsti hann málavöxtum svo að hann hefði vaknað að morgni 9. júlí 2010 er bankað var á dyr íbúðar hans. Úti fyrir var strákur sem hann kvaðst aldrei hafa séð áður og hafi sá spurt eftir A, félaga ákærða sem dvaldi á þessum tíma hjá honum. C hefði sagt manninum að A væri í útlöndum. Í sömu andrá hefði ákærði komið fyrir húshornið með járnrör sem hann sló í hné C svo hann féll í gólfið. Er hann stóð á fætur hefðu báðir mennirnir slegið hann með járnröri í höfuðið. Hann viti ekki hversu mörg högg hann fékk, en hann hlaut þrjá skurði á höfuðið og lýsti hann því. C kvaðst hafa rankað við sér við baðherbergisdyrnar en mennirnir hafi horfið á braut. Hann kvaðst hafa hringt í Bsem hefði þekkt ákærða, er hann var á leið frá húsinu.

Tekin var skýrsla af ákærða hjá lögreglunni 3. desember 2010. Hann neitaði að hafa veist að C og kvaðst ekki hafa verið á staðnum greint sinn. Hann kvaðst hvorki þekkja C né A.

Nú verður rakinn framburður ákærða og vitnisburður fyrir dómi.

Ákærði neitar sök og kvaðst ekkert vita um þetta mál og ekki hafa verið staddur í [...] á þeim tíma sem í ákæru greinir og ekki vita nein deili á C. Ákærða var kynntur vitnisburður B hjá lögreglu. Hann kvaðst ekki vita deili á þeim manni og ekki hafa skýringu á vitnisburði hans og þá kvaðst ákærði ekki kannast við A.

Vitnið C, áður [...], kvað hafa verið bankað upp á hjá sér á þeim tíma sem í ákæru greinir, en hann hefði verið að gera sig kláran í skóla. Er hann opnaði stóð úti maður sem kallaði sig D og spurði hann eftir A, sem hafði fengið að gista á heimili C nokkrum sinnum. Er C greindi frá því að A væri ekki á staðnum hefði ákærði komið fyrir húshornið og lamið sig með járnröri í hnéð svo hann féll við. Þegar hann stóð á fætur hefðu báðir mennirnir barið sig inn um alla íbúðina. Hann hafi aðallega orðið fyrir höfuðhöggum og honum hefði tekist að verjast einhverjum þeirra. Við höggin kvaðst hann hafa dottið út um stund. Hann kvaðst aldrei hafa rætt við þessa menn áður en hann þekki ákærða í sjón og viti hver hann sé. Hann kvað heimsókn ákærða og samferðamanns hans hafa verið vegna deilna sem upp hefðu komið milli ákærða og A, félaga vitnisins, en þeim hefði lent saman í partýi einum til einum og hálfum mánuði áður og ákærði hefði verið að heimta af A peninga vegna íþróttagalla. C kvað ákærða hafa rukkað 60-70 þúsund krónur fyrir gallann en að lokum voru greiddar 300 þúsund krónur eftir að C varð fyrir líkamsárásinni, þar sem ákærði hefði hótað A að ganga frá honum. C kvað B hafa komið að strax eftir árásina og séð til ákærða en B hefði ekið sér á slysadeild.

Clýsti afleiðingum árásarinnar, sem urðu þær sem í ákæru greinir auk þess sem hann hafi tapað sjón á hægra auga og lýsti hann því og rakti það til árásarinnar.

Vitnið A kvaðst hafa dvalist á [...] á þeim tíma sem í ákæru greinir. Hann kvaðst ekki vita til þess að ákærði og C þekktust. A lýsti því að þeim ákærða hefði lent saman á fylleríi einhverjum dögum áður en líkamsárásin sem hér um ræðir átti sér stað. A kvað C hafa vitað af útistöðum sínum og ákærða, þar sem hann hefði sagt honum frá þeim. Þeir ákærðu hefðu náð sáttum síðar. A kvað C hafa sagt sér frá því einhverjum dögum síðar að ákærði hefði komið á heimili hans að leita að vitninu og þá hafi ákærði gengið í skrokk á C.

Vitnið B lýsti því er hann kom akandi [...] á þessum tíma. Hann kvaðst hafa séð tvo menn hlaupa í burtu frá [...], er hann ók bíl sínum inn á bílastæði við húsið. Annar mannanna hafi haldið á röri. Fjarlægðin í mennina hafi verið á að giska 30 metrar. Hann kvaðst hafa gengið niður fyrir húsið og þá hitt C alblóðugan og hafi hann greint sér frá því að tveir menn hefðu lamið hann. Annar þeirra hafi verið ákærði en hinn maðurinn var ekki nafngreindur og kvaðst vitnið ekki hafa þekkt hann. Er hann kom þarna að hafi hann talið að annar maðurinn, sem hann sá hlaupa burt, væri ákærði og taldi vitnið sig þekkja ákærða frá því er ákærði og sonur vitnisins þekktust, en þeir væru á sama reki. Síðar, um þremur mánuðum seinna, kvaðst hann hafa hitt ákærða í samkvæmi og þá hafi honum ekki fundist þetta sami maðurinn og hann sá hlaupa frá húsinu og lýst var. Þeir ákærði hefðu rætt saman í samkvæminu um málið. B kvað C hafa sagt sér að ákærði hefði verið annar mannanna sem gengu í skrokk á honum, en B kvaðst ekki efast um það að C hefði þekkt ákærða. Ítrekað spurður um það hvort hann þekkti ákærða sem annan mannanna sem hljóp frá húsinu kvaðst hann hafa gengið út frá því, þar sem honum hefði verið greint svo frá. Eiginlega megi segja að hann hafi ekki þekkt ákærða heldur hafi hann gengið út frá því. B kvaðst hafa rætt við C eftir þetta og ekið honum á sjúkrahús.

B gaf skýrslu hjá lögreglunni 28. september 2010. Í skýrslunni er svofelldur kafli: ,,Á þessum tíma var ég að gista hjá C að [...], [...]. Þegar líkamsárásin átti sér stað var ég u.þ.b. að koma heim og mætti þá þessum tveimur mönnum sem komu á móti mér. Ég þekkti annan þeirra sem Guðna Guillermo Gorozpe en hinn sem var með honum þekkti ég ekki. Guðni hélt þá á járnröri þegar hann gekk framhjá mér og hugsaði ég með mér „hvað er eiginlega í gangi“. Ég fór því næst inn í íbúðina til C þar sem ég sé blóð í anddyrinu og finn þá C inná baði, vankaðan. Ég talaði við hann stuttlega og keyrði honum síðan á spítala því C vildi ekki fá sjúkrabíl.“

Síðar í skýrslunni segir að vitnið viti til þess að „félagi C var búinn að vera í einhverju bulli við Guðna“.

Fyrir liggur læknisvottorð C, dagsett 4. september 2010, sem Æ, sérfræðilæknir á slysa- og bráðadeild Landspítala-háskólasjúkrahúsi, Fossvogi, ritaði. Í vottorðinu er svofelldur kafli:

,,Skoðun:

Við skoðun var blóðþrýstingur 149/88, púls 89/mín., öndunartíðni 16/mín. og súrefnismettun 99% á súrefnis. Hann var áttaður á stað og stund. Eðlileg meðvitund GCS 15 og gaf góða sögu. Eðlileg hjarta- og lungnahlustun. Það sást mar á efri hluta brjóstkassa á ca. 5 x 3 cm svæði. Kviður mjúkur, lítilsháttar eymsli við skoðun undir vinstri curvaturu. Ekki sleppieymsli og ekki vöðvavörn. Garnahljóð voru eðlileg. Lítilsháttar mar sást í vinstri neðri fjórðung á 3 x 2 cm svæði. Ómun af kvið: Ekki sást merki um frían vökva í kvið. Við taugaskoðun voru kraftar symmetriskir og snertiskyn. Eðlileg svörun á ljósopum við ljósi og augnhreyfingar eðlilegar. Á höfði sást ca. 7-8 cm skurður sem lá frá hárrótinni upp á mitt höfuð, var mjög djúpur alveg inn að beini og gat á galeu. Ekki aðskotahlutir í sári. Ekki klárir beináverkar. Aðlægt því hægra megin sást V-laga ca. 3 cm skurður sem er þó ekki eins djúpur, náði niður í fitulag. Á hnakka sást djúpur gapandi skurður ca. 4 cm niður í fitulag en ekki niður að beini og ekki sást op á galeu. Við skoðun á hægra hné er ekki merki um liðbandaskaða. Eðlileg hreyfigeta í hné og ekki merki um vökva í lið. Tauga- og æðaskoðun eðlileg.

Rannsóknir:

Það var tekið þvagstix og það voru hvít og rauð blóðkorn í þvagi.

Hækkun á hvítum blóðkornum í blóði en blóðprufur að öðru leyti eðlilegar fyrir utan hækkun á lifrarprófum.

Hjartalínurit sýndi sinus takt 92 slög/mín. Engar bráðar breytingar að sjá.

Það var fengin tölvusneiðmynd af höfði og niðurstaðan var að það greindust ekki áverkamerki intracranialt en bólga og loft í mjúkvefjum extracanialt. Brot greindust ekki en hins vegar var talsverð mjúkpartabólga hátt paritooccipitalt hægra megin og loft í mjúkvefjum og einnig mjúkvefjabólga frontalt vinstra megin og loft þar einnig í mjúkvefjunum. Einnig lítið haematoma parietalt vinstra megin.

Tekin röntgenmynd af lungum og það var ekki pneumothorax, ekki tilfærð rifbrot. Hjartastærð og æðavídd eðlileg. Ekki fleiðruvökvi.

Greiningar:

Opið sár á hársverði, S01.0

Tognun og ofreynsla á aðra og ótilgreinda hluta hnés, S83.6.“

Æ gaf skýrslu fyrir dómi, skýrði og staðfesti læknisvottorðið og kvað áverkana samrýmast lýsingu C á því sem gerðist. Vottorðið er skrifað upp úr sjúkraská en Æ skoðaði ekki C heldur aðstoðarlæknir. Æ lýsti því að mjög stutt hefði verið í það að áverkinn, sem lýst er sem 7-8 cm skurði frá hárrótinni upp í mitt höfuð, hefði farið í gegnum höfuðkúpuna með þeim afleiðingum að sjúklingurinn hefði getað látist. Áverkinn hafi verið alvarlegur.

Niðurstaða

Ákærði neitar sök. Hann kveðst hvorki vita deili C né A og engin deili vita á B. Vitnin, C og A, hafa borið efnislega á sama veg um samskipti ákærða og A áður en atburðurinn sem í ákæru greinir átti sér stað. Þá bar A um að hafa náð sáttum við ákærða. Vitnið B bar hjá lögreglunni að hann hefði vitað af einhverjum samskiptum, „bulli“, félaga C og ákærða. Þá bara B um að hafa hitt ákærða í samkvæmi og rætt við hann þar um málið. Ekkert af þessu kannast ákærði við. Allt sem rakið hefur verið er í andstöðu við framburð ákærða, sem er ótrúverðugur. Vitnið C hefur frá upphafi borið á sama veg um atburði. Hann greindi frá því að hafa verið laminn með barefli sem lýst var. Vitnið B bar að hafa þekkt ákærða á hlaupum frá húsinu og að hann hefði þá haldið á járnröri. B kom á vettvang örstuttu eftir að líkamsárásin átti sér stað. Breyttur vitnisburður B fyrir dómi er ekki trúverðugur og skýringar sem hann gaf á breyttum vitnisburði eru ótraustar og í ósamræmi við það sem áður kom fram hjá honum og vitninu C. Þá báru öll vitnin um samskipti A og ákærða en þau voru ástæða fyrir komu ákærða á heimili C eins og rakið hefur verið. Að öllu þessu virtu er sannað með trúverðugum vitnisburði C og B hjá lögreglu og að hluta með vitnisburði hans fyrir dómi og með stoð í vitnisburði A, en gegn ótrúverðugum framburði ákærða, að hann hafi gerst sekur um háttsemi þá sem í ákæru greinir og er brot hans þar rétt fært til refsiákvæðis.

Ákærði á að baki sakaferil frá árinu 1997 og hefur síðan hlotið sex refsidóma fyrir þjófnað, hylmingu, brot gegn 225. og 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga, brot gegn valdstjórninni og líkamsárásir, hótun, fjársvik og umferðarlagabrot. Þá hefur hann frá árinu 2006 gengist undir þrjár lögreglustjórasáttir fyrir fíkniefnabrot og umferðarlagabrot og eina viðurlagaákvörðun fyrir umferðarlagabrot. Síðast hlaut ákærði dóm hinn 28. febrúar 2012, tveggja ára fangelsi fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, en ákærði hefur þrisvar sinnum verið fundinn sekur um stórfellda líkamsárás sem varðar við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Brot ákærða nú er fjórða sakfellingin fyrir slík brot og er tekið mið af þessu við refsiákvörðun, sbr. 5. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Brot ákærða var fólskulegt og tilefnislaust og beindist gegn manni sem átti ekkert sökótt við ákærða. Nú ber að dæma hegningarauka, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga vegna dóms frá 28. febrúar 2012. Að öllu ofanrituðu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákvörðuð fangelsi í 12 mánuði.

Undir dómsmeðferð málsins var bætt við kröfur C. Ákærði hefur ekki heimilað að hinar auknu kröfur komist að í málinu og verður ekki um þær fjallað, sbr. 1. mgr. 173. gr. laga nr. 88/2008 og verður því aðeins fjallað um kröfugerðina sem tekin er upp í ákæruna. Krafan sundurliðast svo:  Krafist er bóta vegna útlagðs kostnaðar að fjárhæð 28.290 krónur, miskabóta á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, 1.500.000 krónur, málskostnaðar lögmanns með virðisaukaskatti 232.175 krónur. Samtals 1.760.465 krónur.

Ákærði er bótaskyldur gagnvart C og er hann dæmdur til að greiða útlagðan kostnað að fjárhæð 28.590 krónur. Þá á C rétt á miskabótum úr hendi ákærða á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og þykja miskabæturnar hæfilega ákvarðaðar 500.000 krónur auk vaxta eins og greinir í dómsorði, en vaxtakröfu var ekki andmælt. Þá greiði ákærði Magnúsi Birni Brynjólfssyni hæstaréttarlögmanni, skipuðum réttargæslumanni C, 125.500 króna réttargæsluþóknun að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ákærði greiði 34.500 krónur í útlagðan sakarkostnað ákæruvaldsins.

Ákærði greiði Stefáni Karli Kristjánssyni héraðsdómslögmanni 288.650 króna málsvarnarlaun að meðtöldum virðisaukaskatti.

Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

Ákærði, Guðni Guillermo Gorozpe, sæti fangelsi í 12 mánuði.

Ákærði greiði C, kt. [...], 528.590 krónur í miska- og skaðabætur auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 9. júlí 2010, en með dráttarvöxtum skv. 6. gr., sbr. 5. og 9. gr. vaxtalaga, frá 4. júní 2012 til greiðsludags.

Ákærði greiði 34.500 krónur í útlagðan sakarkostnað ákæruvaldsins.

Ákærði greiði Magnúsi Birni Brynjólfssyni hæstaréttarlögmanni 125.500 króna réttargæsluþóknun.

Ákærði greiði 288.650 króna málsvarnarlaun Stefáns Karls Kristjánssonar héraðsdómslögmanns.

Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun þóknana lögmanna.