Hæstiréttur íslands

Mál nr. 564/2013


Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Ítrekun


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 15. maí 2014.

Nr. 564/2013.

 

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson saksóknari)

gegn

Kristni Kristinssyni

(Árni Pálsson hrl.)

 

Þjófnaður. Ítrekun.

K var ákærður vegna tveggja innbrota og var fundinn sekur um brot gegn 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar var litið til sakaferils K og að brotið var framið í félagi við annan mann. K var dæmdur í 10 mánaða fangelsi.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari, Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari og Ingibjörg Benediktsdóttir fyrrverandi hæstaréttardómari.  

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 22. ágúst 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð.

Fallist er á niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða samkvæmt ákærum og heimfærslu brota hans til refsiákvæðis.

Samkvæmt sakavottorði ákærða nær sakaferill hans allt aftur til ársins 1996, en með dómi 13. júní það ár var hann meðal annars dæmdur fyrir auðgunarbrot. Eftir það hefur hann verið dæmdur 12 sinnum fyrir slík brot, síðast 9. júlí 2009. Að þessu virtu og með vísan til 255. gr., svo og 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þar sem ákærði framdi brotin í félagi við annan mann, er refsing hans ákveðin fangelsi í 10 mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um málsvarnarlaun verjanda ákærða verður staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, og útlagður kostnaður verjandans, hvort tveggja eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærði, Kristinn Kristinsson, sæti fangelsi í 10 mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um málsvarnarlaun verjanda ákærða skal vera óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 381.162 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Árna Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur, og útlagðan kostnað hans, 42.500 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra föstudaginn 28. júní 2013

Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð mánudaginn 6. maí 2013, er höfðað með tveimur ákærum lögreglustjórans á Akureyri á hendur X, kt. [...], og Kristni Kristinssyni, [...]. Báðar ákærur eru gefnar út hinn 12. desember 2012.  Fyrri er „fyrir þjófnað með því að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 9. október 2012, brotist inn í A [...] og stolið þaðan 7 óáteknum flöskum af sterku áfengi, 24 áteknum flöskum af sterku áfengi, 5 flöskum á [sic] Bacardi breezer, 6 flöskum af Viking bjór og 5 flöskum af Carlsberg bjór.

Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Síðari er „fyrir þjófnað með því að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 9. október 2012, brotist inn í verslunina B, [...] og stolið þaðan Olympus VG-120 myndavél, Philips rafmagnsrakvél, Philips borðasíma [sic], þremur Nokia 101 gsm símum, Gatheti borasetti, þremur pörum af vinnuvettlingum, tveimur kartnum [sic] Winston vindlingum, tveimur svanahálstöngum, tveimur kartonum af Salem vindlingum, 39 sígarettupökkum í lausu, fimm pökkum af Fauna vindlum, einu Nokia hleðslutæki, einni hálfslítra Pepsí Max flösku. fjórum Prins Póló súkkulaðistykkjum og tveimur túbum af súperlími.

Telst þetta varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Ákærði X játar sök samkvæmt báðum ákærum.  Hann krefst vægustu refsingar sem lög leyfa.

Ákærði Kristinn neitar sök samkvæmt báðum ákærum.  Hann krefst sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa.  Verjendur krefjast þóknunar.

Málin voru sameinuð.

Málavextir

Verzlunin B

Samkvæmt lögregluskýrslu hringdi C, [...], til lögreglu kl. 05:23 að morgni 9. október 2012 og tilkynnti innbrot sem hefði verið framið í verzlunina B, [...]. Hefði C vaknað við gelt í hundi sínum, hleypt honum út og þá séð tvo menn á lóðinni, granna og hávaxna og hefði annar verið með bakpoka.  Hefðu þeir tæmt ruslapoka sem hefði verið á lóðinni „og notað hann undir það sem þeir hefðu verið með.“  C hefði fundizt þeir vera með „sígarettukarton“ og grunað að þeir hefðu brotizt inn í verzlunina og því hringt á lögreglu.  Eftir þessa tilkynningu hefði lögregla farið á staðinn og séð að hurð í aðalinngangi verzlunarinnar var opin og rúða í henni brotin.  Innan dyra hefði mátt sjá hluti á gólfi.  Eigandinn hefði verið fenginn á staðinn og hefði hann sagt fjóra síma horfna, tvær myndavélar, vindlinga og heimasíma.

Samkvæmt lögregluskýrslu fékk lögregla upplýsingar um að sézt hefði til ferða þeirra X og Kristins Kristinssonar, ákærðu í máli þessu, skammt frá verzluninni og með bakpoka.  Hafi lögregla farið að heimili ákærða Kristins.  Þar hafi ákærðu hitzt fyrir. Að fengnu samþykki ákærða Kristins hafi verið leitað í íbúðinni.  Þar hafi fundizt þrjár túbur af súperlími, átta pakkar af winston-vindlingum og einn af winston bláum, hálfslítra flaska af Pepsi max, vindlabútar og smámynt í peysuvasa ákærða Kristins.  Þá hafi fundizt ein flaska af Absolut citron, Absolut mandarin, flaska af Tópasi vodkaskoti og ein flaska af Banana bols liqueur. Flöskurnar hafi fundizt bak við og undir sóffa í stofunni.

Samkvæmt lögregluskýrslu kom eigandi verzlunarinnar að máli við lögregluna skömmu eftir leitina á heimili ákærða Kristins, og tjáði henni að megnið af því sem stolið hefði verið hefði fundizt á [...].  Meðan lögregla var þar við leit barst tilkynning um innbrot í A.

A

Samkvæmt skýrslu fór lögregla á staðinn eftir að tilkynnt hefði verið um innbrot.  Þar hafi komið í ljós að brotin hefði upp hurð á austurhlið hússins og á öllum hæðum ummerki um mannaferðir.  Samkvæmt upplýsingum sem lögregla hafi fengið á vettvangi hefði í kjallara verið geymt áfengi, fyrningar frá veitingarekstri.  Brotizt hefði verið inn í geymsluna og hluta þessa áfengis stolið, sennilega fleiri en tuttugu flöskum.

Samkvæmt lögregluskýrslu fór ákærði X að kvöldi 9. október með lögregluþjónum og vísaði þeim á ferðatösku sem hann sagðist hafa falið þar ásamt meðákærða Kristni. Segir í skýrslunni að taskan hafi verið falin norðan í hafnargarðinum, inni á milli stórgrýtis, og hafi hún verið full af áfengisflöskum.

Samkvæmt lögregluskýrslu var forstöðumanni A afhentar áfengisflöskur sem sagðar eru hafa verið „í fórum“ ákærðu. Samkvæmt lista voru þar 24 opnar flöskur og átta fullar.

Skýrsla ákærðu og framburður vitna fyrir dómi

Ákærði Kristinn sagði að meðákærði og D hefðu haft samband við sig og boðið sér í kvöldmat að D.  Ákærði hefði farið þangað og þeir hefðu borðað og drukkið bjór á eftir.  Þegar bjórinn hefði allur verið drukkinn hefði D gengið til náða en þeir meðákærði farið heim til ákærða þar sem hefði verið meiri bjór. Þeir hefðu eitthvað drukkið af honum en að lokum hefði ákærði sofnað í sóffa.  Hann hefði vaknað við rask og húsið þá verið fullt af lögregluþjónum.

Ákærði kvaðst ekki kannast við innbrotin sem rakin eru í ákæru, nema af lestri skýrslna. Spurður hvort hann kannaðist við að þýfi úr innbrotunum hefði fundizt heima hjá honum svaraði ákærði:  „Hann hefir sjálfsagt komið með eitthvað af því þarna hann félagi, eða annað hvort eða eitthvað.“  Kvaðst ákærði ekki vita nákvæmlega hvað hefði fundizt hjá honum.  Ákærði hefði ekki átt annað áfengi en bjór.  Keypti hann sér vindlinga í „kartoni“ væri hann vanur að geyma það í frysti. Pepsi max flöskuna hefði hann eflaust átt enda drykki hann mikið af því.

Ákærði sagði að systir sín ætti heima skammt frá V og hún hefði farið á snyrtingu klukkan fimm eða sex um morguninn og séð þá mann fyrir utan með tösku og hefði sagt sér að þetta hefði verið hvorugur ákærðra.

Ákærði sagði að meðákærði hefði gert „alls konar gloríur“ á hans „hlut áður“, brotizt inn hjá ákærða og stolið frá honum og eitt sinn lamið hann í höfuð og hönd með golfkylfu.  Alltaf hefði ákærði þó „gef[] honum sjens“ á eftir.  Sagði ákærði að sér fyndist „eins og hann sé að koma mér í eitthvað þú veizt tómt tjón með sér“, af því að ákærði hefði ekki viljað draga kæru á hendur meðákærða til baka.

Ákærði X játar sök samkvæmt báðum ákærum og sagði meðákærða hafa tekið þátt í innbrotunum báðum.  Fyrst hefði verið farið í A en síðar í B.  Þetta kvöld hefðu þeir verið búnir að drekka „svolítið mikið áfengi og mikið af bæði örvandi og róandi lyfjum“ og verið „komnir í svolítið ruglað hugarástand.“ Eftir matinn hjá Frímanni hefðu þeir ákveðið að fara heim til meðákærða og fá sér „meira þar“.  Þar hefðu þeir náð sér í kúbein og tösku, farið svo í A „og [spennt] upp hurðina þar og [sparkað] hurðina niður í kjallarann.“  Þeir hefðu verið með svartan íþróttapoka sem meðákærði hefði átt, troðfyllt hann af áfengisflöskum og bjór og haldið saman á honum „alla leiðina að bryggjunni og [hjálpazt] að við að lyfta honum þarna yfir eða [...] upp á vegginn.  Og [klöngrazt] síðan með hann upp í grjótgarðinn saman.“ Hefði einn maður aldrei náð að koma pokanum þar yfir, svo þungur og stór hefði hann verið.  Eftir þetta hefðu þeir setið á grjótgarðinum og drukkið bjór en farið síðan bæði heim til Frímanns og heim til meðákærða.  Verzlunin B væri milli þeirra staða og á leið þeirra þar hjá hefði meðákærði brotið rúðu þar og farið inn og ákærði elt, með hálfum huga, því honum hefði fundizt þetta „svolítið vitlaust af því að þetta var inni í íbúðahverfi“.  Þegar þeir hefðu komið úr verzluninni hefðu þeir verið með eitthvað af þýfinu þaðan í þunnum plastpoka.  Hann hefði rifnað inni á lóðinni við [...] og ákærði hefði þá tæmt ruslapoka sem þar hefði verið og sett þýfið í ruslapokann.  Þá hefðu þeir deilt örstutt um það hvort þeir ættu næst að fara heim til D eða heim til meðákærða.  „Við enduðum á að fara heim til D með drasl.“

Ákærði kvaðst hafa þekkt meðákærða frá um fjórtán ára aldri og hefði byrjað að drekka áfengi og neyta fíkniefna með honum.  Hefðu þeir alltaf verið góðir vinir en þó hefði meðákærði fyrir einhverjum mánuðum reynt að brjótast inn heima hjá ákærða og eitthvert ósætti orðið á milli þeirra.  Viku fyrir innbrotin eða svo hefði D reynt eitthvað að sætta þá því hann hefði sagzt vera hálfhræddur við hversu reiður meðákærði væri ákærða.

Ákærði sagði að mennirnir sem D hefði heyrt til á heimili sínu um nóttina hefðu verið þeir ákærðu.  Hefðu þeir verið þar tveir saman og ekki fleiri.  Þeir hefðu farið með drjúgan hluta þýfisins heim til D því ákærði hefði talið engan vita að hann héldi til þar.  Ekki hefðu þeir viljað geyma þýfið hjá meðákærða því þangað kæmi lögreglan ætíð í heimsókn ef brotizt væri inn í bænum.

Vitnið C, íbúi á [...], sagði að hundur sinn hafi vakið sig um nóttina og vitnið farið og hleypt dýrinu út.  Hefði vitnið þá séð mann standa úti á götunni „með fullt fangið af einhverju dótaríi“.  Vitnið hefði þá kallað á hund sinn að koma, en maður þessi hefði þá komið hlaupandi líka.  Vitnið hefði þá stokkið inn og læst en maðurinn komið inn í garð þess og tekið að „athafna sig fyrir framan gluggann á anddyrinu“.  Hefði vitnið þá hringt á lögregluna og þegar það hefði komið til baka frá því verki hefði annar maður verið kominn og þeir kropið fyrir utan húsið.  Lögregla hefði svo komið rúmri klukkustund síðar.  Vitnið sagðist aldrei hafa séð framan í mennina og ekki hafa þekkt þá.  Þeir hefðu verið með bakpoka, dökkklæddir og með húfu.  Eftir þetta hefði vitnið fundið nokkura eitthundraðkrónu peninga í garðinum.

Vitnið D sagði að kvöldið fyrir þetta hefði ákærði X haft samband við sig og spurt hvort hann mætti gista hjá vitninu.  Það hefði orðið úr.  Daginn eftir hefði hann stungið upp á því að þeir elduðu saman kvöldmat.  Það hefði gengið eftir og ákærði þá spurt hvort hann mætti bjóða ákærða Kristni í matinn.  Vitnið hefði tekið vel í það og þeir allir setið saman og borðað og drukkið bjóra þar til um ellefuleytið er vitnið hefði farið að sofa, en þeir út.  Vitnið hefði sofið á efri hæð hússins en á neðri væri snyrting.  Þangað hefði vitnið átt erindi um fimmleytið um morguninn en þá heyrt raddir úr stofunni, sem einnig væri á neðri hæðinni.  Hefði vitnið gefið sér að þeir ákærðu væru þar og jafnvel þriðji maður en hefði ekki kannað það mál heldur farið aftur í rúmið.  Þegar vitnið hefði komið aftur niður um sjö- eða áttaleytið til að fara í vinnu, hefði það litið í stofuna og séð þá vindlinga-„karton“ með verðmerkingu eins og vitnið þekkti úr verzluninni, enda væri það sjálft þar tíður gestur.  Næst hefði vitnið farið inn í eldhús og þá fundið í ísskápnum síma og fjóra vindlingapakka.  Á gólfinu hefðu verið umbúðir utan um myndavél og kaplar sem vitnið hefði ekki kannazt við.  Vitnið hefði gengið út í verzlunina og þar verið hópur manna að ræða innbrot.  Vitnið hefði spurt hvort menn vildu ekki kíkja með því heim og líta á það sem þar væri.  Það hefðu menn gert og í framhaldi af því verið haft samband við lögreglu.

Vitnið sagði að um morguninn hefði verið mold á gólfi í anddyri en þegar vitnið hefði farið niður um nóttina hefði þar engin mold verið.

Vitnið sagði að á þessum tíma hefði það ekki læst húsi sínu.

Vitnið sagði að ákærðu hefðu verið vinir en eitthvað hefði sletzt upp á þann vinskap og því hefði það komið vitninu á óvart þegar ákærði X vildi bjóða ákærða Kristni í matinn.  Um kvöldið hefði hins vegar farið vel á með mönnum og engin óvild sjáanleg.

Vitnið E kvaðst hafa verið að aka Hafnargötuna um áttaleytið um morguninn þegar það hefði séð báða ákærðu koma gangandi norðan við trésmiðju sem þarna væri.  Vitnið kvaðst þekkja báða mjög vel og hafa ekið um fjóra til fimm metra frá þeim.  Ekki væri vafi á að þetta hefðu verið þeir.

Vitnið F rannsóknarlögreglumaður sagði að þegar lögregla hefði komið að málinu hefði tilkynnandi sagt að tveir frekar hávaxnir grannvaxnir menn hefðu verið á ferð og aðrar upplýsingar borizt um að sézt hefði til ákærðu á ferðinni um klukkan sjö um morguninn skammt frá verzluninni.  Hefði vitnið þá ákveðið að fara heim til ákærða Kristins, gert það og fundið ákærðu báða þar.  Þar hefði lögregla fundið hluti sem hefði mátt ætla að væru úr innbrotinu í verzlunina, en ekki hefði þá verið vitað um innbrotið í menningarmiðstöðina. Skömmu síðar hefði eigandi verzlunarinnar hringt í vitnið og sagt frá komu D í verzlunina og frásögn hans.  Lögregla hefði þá farið heim til D og fundið þar í herbergi ákærða X kassa með vörum úr verzluninni.  Næst hefði verið hringt til vitnisins og tilkynnt um innbrot í menningarmiðstöðina.  Eftir rannsókn þar hefðu ákærðu verið fluttir til yfirheyrslu.  Báðir hefðu neitað öllu en ákærði X síðar játað hlut sinn.

Niðurstaða

Ákærði X játar sök að fullu.  Játningin fær stoð í gögnum málsins.  Hluti þýfis fannst í næturstað hans og hann vísaði lögreglu á stóran hluta þess.  Sök hans telst að fullu sönnuð í málinu.

Ákærði X ber að meðákærði hafi verið með sér við bæði innbrotin. Ljóst er að þeir borðuðu saman um kvöldið og fóru saman út um ellefuleytið eða svo.  Þá er sannað með framburði E að þeir voru saman á gangi utandyra snemma morguns, nokkru áður en lögregla fann þá báða á heimili ákærða Kristins. Hluti þýfis fannst þá á heimilinu. Af framburði C verður ráðið að tveir menn hafi verið við verzlunina B um nóttina. Í lögregluskýrslu segir að C hafi tilkynnt að ruslapoki á lóð sinni hafi verið tæmdur og notaður undir varning mannanna, en ákærði X bar fyrir dómi að þannig hefði hann farið að.  Þykir mega slá því föstu að C hafi séð tvo menn við verzlunina og að annar þeirra hafi verið ákærði X, nýkominn úr innbrotinu.

Ákærði Kristinn bar fyrir dómi að systir sín hefði séð til einhverra annarra manna fyrir utan menningarmiðstöðina um nóttina. Systirin var ekki leidd fyrir dóminn og ekkert lagt fram sem veitti þessum framburði stuðning.  Er ekki unnt að byggja á þessu.

Ljóst er að misklíð varð milli ákærðu.  Dregur sú staðreynd úr sönnunargildi framburðar ákærða X um þá háttsemi sem hann segir ákærða Kristin hafa haft í frammi.  En þegar á það er horft, að sannað er ákærði X gerðist sekur um þessi innbrot, að vitni sá til tveggja manna við verzlunina og hann var annar þeirra, að ljóst er að ákærðu voru saman á ferli um bæinn bæði fyrir og eftir innbrotin og að þeir finnast saman heima hjá ákærða X og þar finnst um leið hluti þýfisins, þykir enginn skynsamlegur vafi vera á hlutdeild ákærða X í málinu.  Er óhjákvæmilegt að líta svo á að sannað sé svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærðu hafi staðið saman að innbrotum þessum og séu sannir að sök samkvæmt ákæru en háttsemi þeirra er þar rétt færð til refsiheimildar.

Samverknaður horfir til refsiþyngingar samkvæmt 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði Kristinn hefur talsverðan sakaferil.  Munu refsidómar yfir honum komnir á þriðja tuginn og hefur hann margoft verið sakfelldur fyrir auðgunarbrot. Þannig mun hann frá árinu 1998 hafa verið sakfelldur fyrir þjófnað níu sinnum, síðast í júlí 2009 þegar hann var dæmdur í fimm mánaða fangelsi fyrir þjófnað og umferðarlagabrot.  Þá hefur hann ítrekað verið sakfelldur fyrir fjársvik, en einnig nytjastuld og hylmingu.  Refsing hans verður nú ákveðin fangelsi í átta mánuði og í ljósi sakaferils kemur skilorðsbinding ekki til greina.

Brotaferill X er skemmri og hefur ekki ítrekunaráhrif í málinu. Síðast var hann sakfelldur hinn 12. desember 2012 fyrir umferðarlagabrot og fíkniefnalagabrot. Hafði ákærði með þeim brotum rofið skilorð eldri dóms, en fullnustu sex mánaða af sjö mánaða fangelsisvistardómi hafði verið frestað í apríl 2012.  Var refsing hans með dóminum í desember 2012 ákveðin fangelsi í níu mánuði en fullnustu sex mánaða af þeim var frestað og skyldi falla niður að liðnum tveimur árum héldi hann almennt skilorð.  Brot ákærða nú framdi hann fyrir uppsögu þessa dóms og verður honum nú ákveðinn hegningarauki.

Ákærði X hefur játað sök sína að fullu og vísaði meðal annars á þann hluta þýfis sem falinn var utan húss og ekkert sérstakt bendir til að hefði komið í leitir án ábendingar ákærða.  Mun það þýfi sem ákærðu ekki drukku um nóttina og morguninn, að mestu hafa komizt til skila. Þá hefur ákærði upplýst um aðild samverkamanns síns að brotinu en til þess ber að líta samkvæmt 9. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga.  Eins þykir mega byggja á því að ákærði reyni nú að koma sér á kjöl og hefur hann meðal annars verið til meðferðar um nokkurt skeið.  Eins og áður segir verður refsing hans nú ákveðin sem hegningarauki við þann dóm sem hann fékk í desember 2012, en þá var honum gerð fangelsisrefsing í níu mánuði en fullnustu sex mánaða af henni frestað skilorðsbundið.  Verður nú skilorðshluti þeirrar refsingar tekinn upp og honum gerð refsing í einu lagi.  Verður honum nú gerð sex mánaða fangelsisrefsing.

Ákærðu verður gert að greiða málsvarnarlaun verjenda sinna.  Ákærði X greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ingvars Þóroddssonar hdl., 150.600 krónur, og ákærði Kristinn málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Andrésar Más Magnússonar hdl., 251.000 krónur.  Virðisaukaskattur er innifalinn.  Gögn málsins greina að öðru leyti ekki frá sakarkostnaði.  Gætt var ákvæða 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008.

Eyþór Þorbergsson fulltrúi sýslumannsins á Akureyri fór með málið af hálfu ákæruvaldsins.

Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Ákærði X sæti fangelsi í sex mánuði.

Ákærði Kristinn Kristinsson sæti fangelsi í átta mánuði.

Ákærði X greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ingvars Þóroddssonar hdl., 150.600 krónur.

Ákærði Kristinn greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Andrésar Más Magnússonar hdl., 251.000 krónur.