Hæstiréttur íslands
Mál nr. 192/2006
Lykilorð
- Virðisaukaskattur
- Staðgreiðsla opinberra gjalda
- Sekt
- Lagaskil
|
|
Mánudaginn 2. apríl 2007. |
|
Nr. 192/2006. |
Ákæruvaldið(Björn Þorvaldsson settur saksóknari) gegn Jóni Axel Ólafssyni (Helgi Jóhannesson hrl.) |
Virðisaukaskattur. Staðgreiðsla opinberra gjalda. Sekt. Lagaskil.
J var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Eftir uppkvaðningu héraðsdóms í málinu var þessum refsiákvæðum breytt með 1. og 3. gr. laga nr. 134/2005 að því er varðar lágmark fésektar og var refsing J ákveðin með tilliti til þessara breyttu reglna. J hafði greitt upp í skattskuldir fyrir útgáfu ákæru með nánar tilgreindum hætti. Að því virtu var sektarrefsing hans ákveðin 8.500.000 krónur. Honum var ekki gerð fangelsisrefsing þar eð brot hans var ekki talið meiri háttar í skilningi 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Pétur Kr. Hafstein fyrrverandi hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 24. mars 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar héraðsdóms.
Endanlegar dómkröfur ákærða eru þær að honum verði ekki gerð refsing, en til vara að refsing verði milduð.
Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða fyrir brot gegn 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt með síðari breytingum og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda með síðari breytingum.
Eftir uppkvaðningu héraðsdóms var framangreindum refsiákvæðum breytt með 1. og 3. gr. laga nr. 134/2005 á þann hátt að lágmark fésektar, sem þar er mælt fyrir um, á ekki við ef brot einskorðast við að standa ekki skil á réttilega tilgreindum virðisaukaskatti samkvæmt virðisaukaskattskýrslu eða réttilega tilgreindri staðgreiðslu samkvæmt skilagrein, enda hafi verið staðin skil á verulegum hluta skattfjárhæðar eða málsbætur séu miklar. Refsing ákærða verður ákveðin með tilliti til þessara breyttu reglna, sbr. 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Fyrir Hæstarétt hefur ákæruvaldið lagt fram gögn um ráðstöfun á greiðslum eftir gjalddaga, en fyrir útgáfu ákæru, á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda vegna þeirra tímabila sem ákæra tekur til. Samkvæmt þeim hefur ákærði greitt alls 4.925.042 krónur vegna vangoldins virðisaukaskatts fyrir þau greiðslutímabil sem ákært er vegna. Um er að ræða greiðslu á höfuðstól samtals 4.417.951 króna vegna greiðslutímabilanna septemberoktóber og nóvember-desember 1998 og janúarfebrúar 1999, greiðslu 135.340 króna dráttarvaxta vegna þessara sömu tímabila og alls 371.751 krónu álag. Skuld vegna fyrsta greiðslutímabilsins september-október 1998 var að fullu greidd, en hins vegar voru færðar 2.576.086 krónur inn á höfuðstól vegna tímabilsins nóvember-desember það ár af 3.078.026 króna vangoldinni fjárhæð samkvæmt ákæru fyrir það tímabil. Skuld vegna greiðslutímabilsins janúar-febrúar 1999 var þó sögð að fullu greidd, en ekkert var greitt vegna tímabilanna mars-apríl og maí-júní 1999. Samkvæmt fordæmum Hæstaréttar við úrlausn refsimála vegna vanskila á staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts ber að leggja til grundvallar að innborgunum á slíka skuld verði ekki ráðstafað til greiðslu álags á vanskilafé heldur komi til lækkunar á höfuðstól skuldarinnar og dráttarvaxta af henni. Verða umræddar álagsgreiðslur ákærða vegna virðisaukaskatts, 371.751 króna, færðar til frádráttar elstu skattskuld. Telst sú álagsgreiðsla því sem greiðsla upp í 501.940 króna eftirstöðvar vegna greiðslutímabilsins nóvember-desember 1998. Samkvæmt þessu kemur ekkert af greiddu álagi til frádráttar 573.599 króna skuld vegna greiðslutímabilsins mars-apríl 1999 og 607.750 króna skuld vegna greiðslutímabilsins maí-júní sama ár, sem eru hin tvö síðustu sem ákært er vegna. Hefur því ekki fengist greitt upp í þessar skattskuldir.
Ákærði hefur fyrir útgáfu ákæru greitt alls 883.812 krónur vegna vangoldinnar staðgreiðslu opinberra gjalda, 787.357 krónur í höfuðstólsgreiðslur fyrir greiðslutímabilin janúar, febrúar, mars og apríl 1999, 17.720 krónur í dráttarvexti fyrir þau sömu tímabil og 78.735 krónur vegna álags. Hin sömu sjónarmið og að ofan eru rakin um frádrátt vegna álagsgreiðslu eiga við um ákvörðun refsingar vegna vanskila á staðgreiðslu opinberra gjalda. Því kemur greiðsla 78.735 króna til frádráttar 146.696 króna skuld vegna maí 1999. Sú fjárhæð nemur verulegum hluta af síðastgreindri fjárhæð samkvæmt 1. gr. laga nr. 134/2005, sbr. dóm Hæstaréttar 30. mars 2006 í málinu nr. 428/2005. Verður litið til þessa við ákvörðun refsingar. Hins vegar hefur ekkert fengist greitt vegna júní 1999.
Að öllu framangreindu virtu verður sektarrefsing ákærða ákveðin 8.500.000 krónur sem honum ber að greiða til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa en sæta ella fangelsi í fimm mánuði.
Þegar litið er til dóma Hæstaréttar 30. mars 2006 í málinu nr. 469/2005 og 19. október 2006 í málinu nr. 77/2006 verður ekki hjá því komist að telja að ákvæði laga nr. 134/2005 leiði til þess að brot ákærða verði ekki talið meiri háttar í skilningi 262. gr. almennra hegningarlaga. Því verður honum ekki gerð fangelsisrefsing.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.
Samkvæmt 1. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991 skal áfrýjunarkostnaður falla á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Jón Axel Ólafsson, greiði 8.500.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa en sæti ella fangelsi í fimm mánuði.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Helga Jóhannessonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. október 2005.
Mál þetta var höfðað með ákæru Ríkislögreglustjórans dagsettri 9. september 2004 á hendur Jóni Axel Ólafssyni, kt. 270963-2269, Haukshólum 3, Reykjavík. „fyrir eftirtalin skatta- og hegningarlagabrot, sem stjórnarmaður í einkahlutafélaginu Íslenska fjölmiðlafélaginu, kt. 571097-2739
I. Fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt.
Með því að hafa eigi staðið Tollstjóranum í Reykjavík, í samræmi við það sem lög áskilja, skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í nafni einkahlutafélagsins á árunum 1998 og 1999, samtals að fjárhæð kr. 6.101.240,- og sundurliðast sem hér greinir:
Uppgjörstímabil:
Árið 1998
September október kr. 867.925
Nóvember desember kr. 3.078.026
kr. 3.945.951
Árið 1999
Janúar febrúar kr. 973.940
Mars apríl kr. 573.599
Maí júní kr. 607.750
kr. 2.155.289
Samtals: kr. 6.101.240
Telst þetta varða við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50,1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42, 1995 og 191. gr. laga nr. 82,1998 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998.
II. Fyrir brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.
Með því að hafa eigi staðið Tollstjóranum í Reykjavík, í samræmi við það sem lög áskilja, skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins árið 1999, samtals að fjárhæð 1.036.733,- og sundurliðast sem hér greinir:
Uppgjörstímabil:
Janúar kr. 271.062
Febrúar kr. 215.252
Mars kr. 235.170
Apríl kr. 65.873
Maí kr. 146.696
Júní kr. 102.680
Samtals: kr. 1.036.733
Telst þetta varða við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45, 1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.”
Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 20. september sl.
Ákærði neitar sök. Verjandi ákærða gerir þær kröfur að ákærði verði sýknaður en til vara að honum verði dæmd vægasta refsing er lög leyfa. Þá gerir hann kröfu um málsvarnarlaun samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Samkvæmt gögnum málsins eru málavextir þeir að bú Íslenska fjölmiðlafélagsins ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði uppkveðnum 20. september 2001. Skiptum búsins lauk hinn 22. mars 2002 og var búið eignalaust. Eins og fram kemur í kæru skattrannsóknarstjóra dagsettri 5. janúar 2004 var tilkynning frá skiptastjóra þrotabúsins til ríkislögreglustjórans um hugsanlegt brot skattaðilans, tilefni rannsóknar skattrannsóknarstjóra. Tilkynningin var framsend skattrannsóknarstjóra og rannsókn hans hófst formlega með því að hann sendi skiptastjóranum tilkynningu um að hafin væri rannsókn á staðgreiðslu- og virðisaukaskattsskilum félagsins vegna tímabilsins maí til og með ágúst 1999 og skilum á innheimtum virðisaukaskatti vegna tímabilanna nóvember til og með desember 1998 og mars til og með júní árið 1999. Rannsókn skattrannsóknarstjóra lauk með gerð skýrslu dagsettri 4. febrúar 2003. Niðurstaða rannsóknarinnar var m.a. sú að sem fyrrum fyrirsvarsmaður félagsins hafi ákærði ekki staðið skil á þeirri afdregnu staðgreiðslu opinberra gjalda og þeim innheimta virðisaukaskatti sem honum bar að standa skil á til innheimtumanna ríkissjóðs fyrir hönd Íslenska fjölmiðlafélagsins ehf. vegna greiðslu- og uppgjörstímabila á tekjuárunum 1998 og 1999. Ekki kom til endurákvörðunar skattfjárhæða í málinu samkvæmt ákvörðun ríkisskattstjóra frá 11. febrúar 2003. Í framhaldi þess tók skattrannsóknarstjóri ákvörðun um að vísa málinu til opinberrar meðferðar hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjórans.
Í skýrslutöku af ákærða hjá lögreglu 15. nóvember 2004 var hann spurður um afdregna staðgreiðslu opinberra gjalda af launum launþega vegna ársins 1999 sem byggðar eru á skilagreinum og öðrum gögnum. Kvað hann það ekki hafa verið í hans verkahring að annast gerð skilagreinanna.
Varðandi afdregna en vangoldna staðgreiðslu opinberra gjalda kvað ákærði ekki hafa verið til peninga til að greiða skattana og hin skilaskylda staðgreiðsla sem hér um ræðir hafi farið inn í rekstur félagsins. Sömu svör gaf ákærði varðandi vangreiddan virðisaukaskatt og vísaði til ábyrgðar framkvæmdastjóra.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði kvaðst hafa verið starfandi stjórnarformaður Íslenska fjölmiðlafélagsins ehf. á þeim tíma sem um ræðir, líklega frá því í nóvember 1998. A hefði verið starfandi framkvæmdastjóri fyrirtækisins á þessum tíma og jafnan verið viðloðandi fyrirtækið. Borin er undir ákærða fundargerð af stjórnarfundi fyrirtækisins frá 24. nóvember 1998 þar sem fram kemur að stjórnarformaður hafi talið nauðsynlegt að afturkalla prókúruumboð Ingimars Hauks þar sem hann hafi hætt störfum 1. september 1998. Ákærði kvað lögmann sinn hafa útbúið fundargerðina með hliðsjón af hugsanlegu samkomulagi við A. Hins vegar hefði ekki komið til þess að ákærði yrði skipaður framkvæmdastjóri eins og þó komi fram í fundargerðinni. Ákærði kvaðst kannast við yfirlýsingu, dagsetta 2. sept. 1998, þar sem fram kemur að A hafi afhent B í umboði ákærða f.h. félagsins ýmis gögn, svo sem tékkhefti og stimpil félagsins. Kvað hann þetta hafa verið gert einhliða af A til að binda endi á tengsl hans við fyrirtækið. B hafi séð um bókhald fyrirtækisins og annað sem viðkemur rekstri þess.
Spurður um fjárhæðir í ákærunni, kvað ákærði þær að nokkru leyti hafa byggst á leiðréttingaskýrslu vegna rekstrarársins 1998 og gögnum sem voru lögð inn eftir að hann hvarf frá fyrirtækinu í ágúst 1999 og hefði hann því hvorki komið að gerð skýrslunnar né óskað eftir því að hún yrði gerð. Ákærði kannaðist hins vegar við undirritun sína á virðisaukaskattskýrslu vegna uppgjörstímabilsins sem leiðréttingaskýrslan lýtur að. Þá kvað ákærði tölur vegna staðgreiðslu opinberra gjalda hafa verið settar inn eftir að hann hætti hjá fyrirtækinu en greitt hefði verið samkvæmt skilagreinum. Kvaðst ákærði kannast við að 250.000 krónur vegna skilagreinar vegna maí og júní hafi verið ógreiddar.
Ákærði kvaðst hafa unnið að því að koma fyrirtækinu í eins góðan farveg og kostur var á þeim tíma þegar hann seldi fyrirtækið. Vangoldinn virðisaukaskattur hafi þá numið um það bil einni milljón króna. Fyrirtækið hefði hins vegar átt um 12-15 milljónir króna sem hafi dugað fyrir kröfum þótt hann viðurkenndi að þær hefðu verið fallnar í eindaga.
Vitnið A kvaðst hafa verið stjórnarmaður hjá Íslenska fjölmiðlafélaginu ehf. á árunum 1998 og 1999 og gerst framkvæmdastjóri félagsins einhvern tíma á því tímabili. Hefði hann verið viðloðandi reksturinn af og til en samstarfið hefði hins vegar ekki gengið sem skyldi og því hafi hann hætt störfum sem framkvæmdastjóri í september 1998. Fjárhagsleg staða fyrirtækisins hefði þá verið mjög erfið. Aðspurður kvað vitnið tvo starfsmenn fyrirtækisins hafa séð um bókhaldið en hann hefði ekki haft yfirumsjón með þeirri vinnu. Í raun hefði hann sem framkvæmdastjóri aðallega verið ákærða aðstoðar og hefði ákærði séð um fjármögnun rekstrarins. Kvaðst vitnið hafa fengið verktakagreiðslur fyrir störf sín hjá fyrirtækinu.
Vitnið C kvaðst hafa unnið að rannsókn málsins hjá skattrannsóknarstjóra, m.a. með því að taka skýrslu af ákærða. Kvað hann rannsóknina hafa byggst á framlögðum virðisaukaskattsskýrslum og staðgreiðsluskilagreinum, sem bornar hefðu verið undir þá, sem yfirheyrðir voru, en engin sjálfstæð rannsókn á bókhaldinu hefði farið fram. Slík bókhaldsrannsókn færi ekki fram ef hinir yfirheyrðu gerðu engar athugasemdir við skýrslurnar.
Vitnið D kvaðst hafa verið verkefnisstjóri rannsóknarinnar hjá skattrannsóknarstjóra. Rannsóknin hefði byggst á skýrslum, sem fyrir lágu, og hefði ekki farið fram samanburður á þeim og bókhaldi félagsins. Skýrslurnar væru byggðar á bókhaldi skattaðilans og leiðréttingarskýrslur væru gerðar í þeim tilgangi að leiðrétta innsendar skýrslur eftir á.
Niðurstaða.
Ákærði var stjórnarformaður Íslenska fjölmiðlafélagsins ehf. á þeim tíma sem um ræðir. Í krafti stöðu sinnar sem stjórnarformaður, bar ákærði ábyrgð á því að starfsemi og skipulag félagsins væri í réttu og góðu horfi, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994. Þar undir fellur ábyrgð á því að staðið sé skil á lögboðnum gjöldum og virðisaukaskatti en skv. 1. málslið 3. mgr. sömu greinar skal félagsstjórn annast um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins. Af gögnum málsins má sjá að ákærði undirritaði virðisaukaskattskýrslur félagsins. Í ákæru er byggt á þeim fjárhæðum sem fram koma í þeim skýrslum og leiðréttingaskýrslu. Það að ákærði hafi ekki sjálfur annast gerð skilagreina eða unnið virðisaukaskattskýrslur firrir hann ekki ábyrgð. Ekkert er fram komið um að tölur í skýrslunum séu rangar. Þá verður ráðið af gögnum málsins og framburði ákærða að honum var kunnugt um hvernig fjárhag félagsins var háttað og að ekki var til fé til þess að greiða hin opinberu gjöld sem og að þau hafi verið komin í vanskil.
Ákærði hefur borið því við að með kaupsamningi dagsettum 16. ágúst 1999 hafi verið gengið út frá því að kaupendur félagsins yfirtækju allar skuldir þess, þar með talin vangreidd opinber gjöld og virðisaukaskattskuld. Skil staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir júlí 1999 voru á eindaga þann sama dag. Önnur virðisaukaskattstímabil sem hér um ræðir voru fallin í eindaga svo og afdregin staðgreiðsla. Breytir samningurinn því engu um ábyrgð ákærða sem stjórnarmanns, þótt unnt sé að fallast á það með ákærða að hann hafi gert sitt ítrasta til að vinna félaginu vel og takmarka tjón þess.
Samkvæmt ofangreindu hefur ákærði með vanrækslu sinni unnið til refsingar samkvæmt ákvæðum laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 sem vísað er til í ákæru. Þá þykja brot ákærða vera stórfelld þar sem um verulegar fjárhæðir er að ræða og varða brot ákærða því einnig við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eins og í ákæru greinir.
Ákærði hefur ekki áður sætt refsingu. Brot hans sem hér um ræðir varða tekjuárin 1998 og 1999. Fram kemur í gögnum málsins að formlega hafi rannsókn skattrannsóknarstjóra hafist 4. júní 2002. Niðurstaða hans lá fyrir í skýrslu dagsettri 4. febrúar 2003 og framsendi hann ríkisskattstjóra málið með bréfi dagsettu 6. febrúar 2003. Í bréfi ríkisskattsstjóra til skattrannsóknarstjóra dagsettu 11. febrúar 2003 kemur fram að embættið hyggðist ekki nýta sér heimild til endurákvörðunar í málinu. Var málinu vísað til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra með bréfi skattrannsóknarstjóra dags. 5. janúar 2004. Ákæra ríkislögreglustjóra var gefin út 12. maí 2005.
Eins og hér hefur verið rakið er hér um að ræða brot sem framin voru fyrir 6-7 árum síðan. Hins vegar virðist rannsókn hafa verið haldið fram með viðunandi hætti frá 4. júní 2002. Á það verður ekki fallist að dráttur rannsóknarinnar hafi verið vítaverður þó finna megi að því að hún hófst seint. Verður höfð hliðsjón af þessu við ákvörðun refsingarinnar og þykir hún með vísan til alls framanritaðs og með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga hæfilega ákveðin 3 mánaða fangelsi. Rétt þykir að fresta fullnustu refsivistarinnar og fellur hún niður að liðnum 2 árum frá uppkaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Með vísan til 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um sektarlágmörk vegna brota á þeim lögum, er ákærði dæmdur til að greiða 14.300.000 krónur í sekt í ríkissjóð. Við ákvörðun vararefsingar verður að líta til skýrrar dómvenju og með vísan til hennar og þeirra sjónarmiða sem koma m.a. fram í dómi Hæstaréttar 18. febrúar 1999 í máli nr. 327/1998 er vararefsing ákveðin fangelsi í 6 mánuði.
Ákærði greiði allan sakarkostnað sem er málsvarnarlaun til skipaðs verjanda hans Helga Jóhannessonar hæstaréttarlögmanns. Með vísan til tímaskýrslu lögmannsins teljast málsvarnarlaun hans hæfilega ákveðin 291.330 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Björn Þorvaldsson, fulltrúi Ríkislögreglustjórans, flutti málið af hálfu ákæruvaldsins.
Arnfríður Einarsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Jón Axel Ólafsson, sæti fangelsi í 3 mánuði. Frestað er fullnustu refsingarinnar og fellur hún niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð samkvæmt 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði greiði 14.300.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan 4 vikna frá birtingu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 6 mánuði.
Ákærði greiði allan sakarkostnað sem er málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Helga Jóhannessonar hæstaréttarlögmanns, 291.330 krónur.