Hæstiréttur íslands
Mál nr. 760/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Reynslulausn
- Skilorðsrof
- Fullnusta refsingar
|
|
Miðvikudaginn 23. desember 2009. |
|
Nr. 760/2009. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (Björgvin Jónsson hrl.) |
Kærumál. Reynslulausn. Skilorðsrof. Fullnusta refsingar.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X, sem hafði verið veitt reynslulausn á grundvelli 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga, skyldi afplána 225 daga eftirstöðvar refsingar, enda taldist kominn fram sterkur grunur um að X hefði framið brot sem varðað gæti allt að 6 ára fangelsi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. desember 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 21. desember 2009, þar sem varnaraðila var gert að afplána 225 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar, sem hann hlaut með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 20. mars 2009. Kæruheimild er í 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Fallist er á með sóknaraðila að varnaraðili sé undir sterkum grun um að hafa framið afbrot sem varðað getur sex ára fangelsi. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 21. desember 2009.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], verði gert að afplána 225 daga eftirstöðvar reynslulausnar 15 mánaða fangelsisdóms Héraðsdóms Reykjavíkur nr. 258/2009, sbr. reynslulausn sem honum var veitt af Fangelsismálastofnun ríkisins þann 16. september 2009.
Af hálfu kærða er þess krafist að kröfunni verði hafnað.
Krafan er reist á því að kærði sé undir rökstuddum grun um brot gegn 1. mgr. 168. gr., 4. mgr. 220. gr., 244. gr. og 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 2.gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana og fíkniefni nr. 65/1974 og ákvæðum umferðalaga nr. 50/1987.
Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu segir að með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 20. mars 2009 hafi kærði hlotið 15 mánaða fangelsisdóm fyrir auðgunarbrot, nytjastuld, fíkniefnalagabrot og umferðarlagabrot. Með ákvörðun Fangelsismálastofnunar 16. september 2009 hafi kærða verið veitt reynslulausn á eftirstöðvum refsingarinnar, 225 daga.
Kærði eigi að baki töluverðan sakarferil og hafi ítrekað á undanförnum árum hlotið dóma vegna auðgunarbrota, nytjastuldar, umferðar- og fíkniefnalagabrota. Á síðustu 2 árum hafi kærði hlotið 4 fangelsisdóma, ávallt fengið reynslulausn en þrátt fyrir það byrjað í afbrotum nánast samstundis eftir að hann hefur hlotið reynslulausn.
Í gær, sunnudaginn 20. desember, hafi kærði verið handtekinn eftir háskalega eftirför um Hafnarfjörð, Garðabæ og Kópavog, þar sem kærði hafi ekið bifreiðinni M, langt yfir leyfilegum hámarkshraða og án þess að sinna stöðvunarmerkjum lögreglu. Á vegarkafla milli Hafnarfjarðar og Kópavogs, á Reykjanesbraut, hafi kærði ekið á móti umferð á mikilli ferð og þannig raskað umferðaröryggi á alfaraleið og á ófyrirleitinn hátt stofnað lífi og/eða heilsu vegfarenda á akstursleiðinni í augljósan háska. Á akstursleið sinni hafi kærði ekið utan í nokkrar bifreiðar og stórskemmt m.a. tvær lögreglubifreiðar sem hafi veitt kærða eftirför, en eftirförinni hafi lokið í Kópavogi þegar kærði hafi velt bifreiðinni við fjölfarinn gatnamót. Kærði sé einnig grunaður um að hafa tekið bifreiðina M ófrjálsri hendi og að hafa ekið bifreiðinni undir áhrifum ávana og fíkniefna, auk þess að hafa brotið fjöldann allan af umferðarlagabrotum.
Lögregla rannsaki málið m.a. sem hugsanlegt brot gegn 1. mgr. 168. gr. og 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga en brot gegn 168. gr. geti varðað allt að 6 ára fangelsisrefsingu.
Fjöldin allur af lögreglumönnum og aðrir vegfarendur hafi orðið vitni að þessum akstri kærða en rannsókn málsins sé nú í fullum gangi og sé kærði undir sterkum grun að hafa framið brot gegn ofangreindum lagagreinum.
Auk þessa máls sem að ofan greinir hafi lögregla nú til rannsóknar eftirgreind mál, þar sem kærði sé sterklega grunaður um aðild og hafi þau öll komið upp eftir að kærða hafi verið veitt reynslulausn þann 16. september sl.:
007-2009-69268
Fyrir þjófnað, með því að hafa fimmtudaginn 5. nóvember 2009 farið inn í bifreiðina [...], sem stóð á bifreiðastæði við [...] og stolið þaðan hljómflutningskerfi og verkfærum sem voru í bifreiðinni, en eigandi bifreiðarinnar stóð kærða að verki og var kærði handtekinn á vettvangi með hluta af þýfinu í vörslum sínum. Þessi háttsemi er talin varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
007-2009-74555
Fyrir nytjastuld, með því að hafa fimmtudaginn 26. nóvember 2009, tekið bifreiðina [...] í heimildarleysi og til eigin nota frá bifreiðastæði við Kennaraháskólann við Stakkahlíð í Reykjavík og ekið bifreiðinni um götur höfuðborgarsvæðisins, uns lögregla stöðvaði kærða á bifreiðinni við Álftanes. Umrætt sinn hafði kærði einnig fíkniefni í vörslum sínum sem lögregla fann. Kærði hefur viðurkennt brotin og er háttsemin talin varða við 259. gr. almennra hegningarlaga og ákvæði laga um ávana og fíkniefni.
007-2009-76794
Fyrir nytjastuld, með því að hafa föstudaginn 4. desember 2009, tekið bifreiðina [...] í heimildarleysi og til eigin nota frá bifreiðastæði við Austurbæjarbíó við Snorrabraut í Reykjavík. Lögregla kom síðar sama dag að kærða og öðrum kunningjum hans þar sem þeir stóðu við bifreiðina á Laugavegi og hafði kærði lykla í vörslum sínum sem pössuðu í kveikjulás bifreiðarinnar [...]. Kærða hefur neitað sök og sagst einungis hafa verið að færa bifreiðina þar sem henni var svo illa lagt.
007-2009-78404
Fyrir nytjastuld, með því að hafa mánudaginn 14. desember 2009, tekið bifreiðina [...] í heimildarleysi og til eigin nota frá bifreiðastæði við [...]. Lögregla fann síðan bifreiðina þann 15. desember við [...] og fann síma kærða á vettvangi. Kærði hefur viðurkennt brotið og telst þetta varða við 259. gr. almennra hegningarlaga.
007-2009-78598
Fyrir nytjastuld, með því að hafa þriðjudaginn 15. desember 2009, tekið bifreiðina [...] í heimildarleysi og til eigin nota þar sem hún stóð á bifreiðastæði við [...]. Lögregla fann bifreiðina síðar sama dag við Hverfisgötu og kærði viðurkennt að hafa tekið bifreiðina þegar hann var að koma sér af vettvangi vegna máls sem rakið er hér að ofan. Telst þetta varða við 259. gr. almennra hegningarlaga.
007-2009-79400
Fyrir nytjastuld, með því að hafa að kvöldi fimmtudagsins 17. desember eða aðfaranótt föstudagsins 18. desember 2009 tekið bifreiðina [...] í heimildarleysi og til eigin nota frá bifreiðastæði við [...], en kærði hafði ökuskírteini eiganda bifreiðarinnar í fórum sínum þegar hann var handtekinn þann 18. desember í tengslum við rannsókn á ofangreindum málum. Ökuskírteini hafði verið í bifreiðinni [...] en kærði hefur ekki verið yfirheyrður ennþá vegna þess máls. Telst þessi verknaður varða við 259. gr. almennra hegningarlaga.
007-2009-79495
Fyrir hylmingu, með því að hafa föstudaginn 18. desember 2009, er kærði var handtekinn á Hverfisgötu í Reykjavík vegna rannsókna á ofangreindum málum, haft í vörslum sínum, ökuskírteini A, umráðamanns bifreiðarinnar [...], viðskiptakort Skeljungs, merkt Rafmagnsveitum ríkisins, frumrit leyfisbréfs vegna skotvopnakaupa merkt B, bíllykla af Wolksvagen og óþekkta húslykla, Magellan GPS tæki og hvíta straumsnúru, sem lögreglu grunar að sé þýfi. Telst þessi háttsemi varða við 254. gr. almennra hegningarlaga.
Framburðarskýrslur hafi ekki verið teknar af kærða í öllum þessum málum en hann hafi þegar játað á sig nokkur af þeim brotum sem hann sé grunaður um, þar á meðal þjófnaðarmál frá 5. nóvember sl. og nokkra af þeim nytjastuldum, sem hann sé grunaður um. Þá telji lögregla það sannað að kærði hafi verið ökumaður bifreiðarinnar M í gærdag þegar hann hafi verið handtekinn eftir háskaakstur og eftirför.
Það megi vera ljóst að kærði, sem hafi fengið reynslulausn þann 16. september sl., hafi nánast samstundis farið að stunda afbrot og hafi á þessum stutta tíma fengið réttarstöðu grunaðs manns í þó nokkrum málum er varði aðallega nytjastuld á bifreiðum og þjófnaði. Það sé mat lögreglu að brotastarfsemi kærða hafi færst í aukanna á síðustu dögum og þau brot sem kærði sé grunaður um geta varðað allt að 6 ára fangelsisrefsingu.
Það sé mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að öll lagaskilyrði 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsingar sé fullnægt, enda hafi kærði með ofangreindri háttsemi sinni rofið gróflega almenn skilyrði reynslulausnar, þá sé og ljóst, í ljósi játninga hans, að hann sé undir sterkum rökstuddum grun um að hafa framið afbrot sem varðað geti allt að 6 ára fangelsi.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsingar er þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Að öllu framangreindu virtu, sem og gögnum málsins að öðru leyti, verður fallist á það með lögreglustjóra að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að kærði hafi framið afbrot, þ.á.m. þjófnaðarbrot sem allt að 6 ára fangelsi liggur við. Dómurinn telur að skilyrði 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga sé uppfyllt og með vísan til þess fellst dómurinn á þá kröfu að kærði skuli afplána 225 daga eftirstöðvar reynslulausnar sem honum var veitt með ákvörðun Fangelsismálastofnunar 16. september 2009.
Úrskurð þennan kveður upp Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, kt. [...], afpláni 225 daga eftirstöðvar reynslulausnar, sem honum var veitt af Fangelsismálastofnun ríkisins þann 16. september 2009.