Hæstiréttur íslands
Mál nr. 530/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Kærufrestur
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Föstudaginn 30. september 2011 |
|
Nr. 530/2011. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn Þorbergi Bergmann Halldórssyni (Stefán Karl Kristjánsson hdl.) |
Kærumál. Kærufrestur. Frávísun frá Hæstarétti.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að afplána skilorðsbundna refsingu sem honum hafði verið gerð með dómi. Málinu var vísað frá Hæstarétti, enda hafði kæra borist héraðsdómi eftir að frestur samkvæmt 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála var liðinn.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru sem stimpluð er um móttöku í Héraðsdómi Reykjavíkur 27. september 2011 og barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. september 2011, þar sem varnaraðila var gert að fullnusta þá refsingu sem honum var gerð með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 21. febrúar 2011. Kæruheimild er í w. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og hann „verði leystur úr haldi.“
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Hinn 21. febrúar 2011 var varnaraðili dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur til fangelsisvistar í tvö ár og sex mánuði. Var í dómsorði kveðið svo á að fresta skyldi fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dómsins héldi dómfelldi almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá var einnig kveðið á um að frestun fullnustu refsingarinnar skyldi verða bundin sérstöku skilyrði 4. töluliðar 3. mgr. sömu lagagreinar og var ákærða gert að gangast undir dvöl á hæli í allt að einu ári í því skyni að venja hann af neyslu áfengis eða deyfilyfja. Skyldi hann hefja slíka dvöl innan viku frá uppkvaðningu dómsins, ella væri um rof á þessu skilyrði að ræða. Í hinum kærða úrskurði er rakið hvernig varnaraðili er talinn hafa rofið þetta sérstaka skilyrði. Gerði sóknaraðili af því tilefni kröfu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur um að varnaraðila yrði gert að „fullnusta“ þá refsingu sem honum var gerð með dóminum 21. febrúar 2011. Ekki er vafi á að með þessum orðum er átt við að varnaraðila verði gert að afplána refsinguna. Lagaheimild fyrir úrskurðinum er að finna í 1., sbr. 5. mgr. 59. gr. almennra hegningarlaga. Málið sætir meðferð eftir XXVII kafla laga nr. 88/2008.
Kæra varnaraðila barst héraðsdómi eftir að frestur samkvæmt 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 var liðinn, en varnaraðili var viðstaddur uppkvaðningu úrskurðarins. Verður málinu því vísað frá Hæstarétti.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. september 2011.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að Þorbergi Bergmann Halldórssyni, kt. [...], verði gert að fullnusta þá refsingu sem honum var gerð með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 21. febrúar 2011.
Í greinargerð kemur fram að með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 21. febrúar 2011 í málinu S-993/2010 hafi Þorbergi Bergmann Halldórssyni, [...], verið gert að sæta fangelsi í 2 ár og 6 mánuði en fullnustu refsingarinnar verið frestað í 3 ár frá uppkvaðningu dómsins, héldi dómfelldi almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Framangreind frestun hafi einnig verið bundin skilyrði 4. tl. 3. mgr. sömu lagagreinar og hafi dómfellda verið gert að gangast undir dvöl á hæli í allt að 1 ár í því skyni að venja hann af neyslu áfengis eða deyfilyfja. Þess hafi verið getið að dómfelldi skyldi hefja slíka dvöl innan viku frá uppkvaðningu dómsins, ella væri um rof á þessu skilyrði að ræða.
Samkvæmt upplýsingum lögreglu hafi dómfelldi haldið til Svíþjóðar í kjölfar dómsins þar sem hann muni hafa undirgengist einhverskonar meðferð. Samkvæmt gögnum lögreglu hafi hann hins vegar verið kominn til Íslands í síðasta lagi 15. ágúst sl. er hann hafi verið tekinn við akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.
Dómfelldi hafi frá því dómur féll komið 6 sinnum við sögu hjá lögreglu, síðast í gær er hann hafi verið handtekinn vegna vandræða á veitingastað í miðbænum. Þegar lögreglan hafi haft afskipti af honum hafi hann verið undir áhrifum ávana- og fíkniefna og/eða áfengis. Lögregla hafi því margoft gefið Þorbergi tækifæri til að bæta ráð sitt og skrá sig í meðferð á ný en nú virðist fullreynt að slíkt muni ekki bera árangur.
Kærði eigi að baki töluverðan sakaferil. Í maí 2007 hafi kærði verið dæmdur í 15 mánaða fangelsi vegna fjölda auðgunarbrota og fíkniefnabrota. Í febrúar 2009 hafi kærði svo verið dæmdur í 18 mánaða fangelsi vegna fjölda auðgunarbrota, fíkniefnabrota og umferðarlagabrota. Kærði hafi lokið afplánun seinni dómsins hinn 14. júní 2010 og hafi skömmu síðar hafið að brjóta af sér á nýjan leik sem hafi endað með áðurnefndum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 21. febrúar 2011.
Við rannsókn mála kærða hafi komið í ljós að hann sé enn í mikilli neyslu fíkniefna og sé það mat lögreglustjóra að dómfelldi hafi með háttsemi sinni í verulegum atriðum rofið þau skilyrði sem honum voru sett skv. 4. tl. 3. mgr. 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, enda ekki nýtt þann tíma og fjölmörgu tækifæri sem hann hafi fengið til að undirgangast meðferð við fíkn sinni.
Vísað sé til framangreinds, hjálagðra gagna og 1. mgr., sbr. 5. mgr. 59. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 21. febrúar sl. var dómfelldi dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir 17 þjófnaðarbrot auk fjársvika og brota gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Refsingin var þó bundin bæði almennu skilorði og skilyrði skv. 4. tl. 3. mgr. 57. gr. almennra hegningarlaga og dómfellda gert að gangast undir dvöl á hæli í allt að eitt ár í því skyni að venja hann af neyslu áfengis eða deyfilyfja.
Fram hefur komið að dómfelldi fór í meðferð í kjölfar dómsins en að eigin sögn hefur hann þó tvívegis hætt meðferð á tímabilinu og ekki haldið bindindi á áfengi og deyfilyf.
Samkvæmt framlögðum gögnum hefur lögregla, frá uppkvaðningu dómsins, haft afskipti af dómfellda í 8 skipti, tvisvar vegna ætlaðra hótana, einu sinni vegna ætlaðrar gripdeildar, einu sinni vegna ætlaðs þjófnaðar og einu sinni vegna ætlaðrar líkamsárásar og þrisvar sinnum vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna.
Dómfelldi hefur í þinghaldi í dag viðurkennt að hafa nokkrum sinnum rofið hið sérstaka skilorð dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 11. febrúar 2011.
Með þessu hefur hann rofið gróflega skilyrði skv. 4. tl. 3. mgr. 57. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt ofanrituðu og með vísan til 1. mgr. 59. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þykja uppfyllt skilyrði þess að verða við kröfu Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að dómfellda verði gert að fullnusta þá refsingu sem honum var gerð með fyrrgreindum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Þorbergi Bergmann Halldórssyni, [...], er gert að fullnusta þá refsingu sem honum var gerð með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 21. febrúar 2011.