Hæstiréttur íslands
Mál nr. 128/2006
Lykilorð
- Aðild
- Málsástæða
- Ómerking héraðsdóms
|
|
Fimmtudaginn 12. október 2006. |
|
Nr. 128/2006. |
Kristinn Bernburg Ragnarsson(Ólafur Garðarsson hrl.) gegn Heildarmálun ehf. (Guðjón Ármann Jónsson hrl.) |
Aðild. Málsástæða. Ómerking héraðsdóms.
Þar sem héraðsdómari hafði ekki tekið rökstudda afstöðu til tiltekinnar málsástæðu K þótti ekki verða hjá því komist að ómerkja héraðsdóminn og vísa málinu heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsálagningar að nýju, sbr. f. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. mars 2006. Hann krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfu stefnda og að stefndi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafan verði lækkuð og málskostnaður felldur niður á báðum dómstigum.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Í héraði var fallist á kröfu stefnda um endurgjald fyrir að mála fasteignina Bleikargróf 15, Reykjavík síðsumars 2001, samkvæmt reikningi útgefnum 21. júlí 2004.
Í niðurstöðukafla héraðsdóms er ekki tekin rökstudd afstaða til þeirrar málsástæðu áfrýjanda, að um aðildarskort hjá stefnda sé að ræða. Rök áfrýjanda eru þau, að félag með nafni stefnda og tilgangi hans hafi ekki orðið til fyrr en á árinu 2004. Félagið geti því ekki hafa verið aðili að verksamningi um málun fasteignarinnar Bleikargrófar 15 á árinu 2001, en stefndi krefst greiðslu á grundvelli hans. Málsgögn sýna ekki að stefndi hafi síðar eignast slíka kröfu. Í dómi ber að taka rökstudda afstöðu til málsástæðu sem haft getur áhrif á niðurstöðu máls, sbr. f. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þar sem ekki hefur, samkvæmt framansögðu, verið fjallað um málsástæðu sem höfð var uppi í héraði, verður ekki hjá því komist að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsálagningar að nýju.
Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til munnlegs málflutnings og dómsálagningar að nýju.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. desember 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 30. nóvember sl., að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað fyrir dómþinginu af Heildarmálun ehf., Lómasölum 12, Kópavogi, á hendur Kristni Bernburg Ragnarssyni, Austurgerði 10, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 17. febrúar 2005.
Dómkröfur stefnanda voru þær, að stefndi yrði dæmdur til að greiða stefnanda 1.085.018 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, frá 21. ágúst 2004 til greiðsludags. Þá krafðist stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi krafðist aðallega sýknu af öllum dómkröfum stefnanda og að stefnanda yrði gert að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu að viðbættum virðisaukaskatti, en til vara að dómkröfur stefnanda yrðu stórlega lækkaðar og að málskostnaður yrði látinn niður falla.
II
Stefnandi er einkahlutafélag og er forsvarsmaður þess Davíð Þór Bjarnason, málari að atvinnu. Samkvæmt framburði aðila fyrir dómi tók Davíð Þór Bjarnason að sér að mála húsið Bleikargróf 15 í Reykjavík og málaði hann húsið ásamt starfsmanni sínum.
Stefndi hefur lýst málavöxtum svo, að með kaupsamningi, dags. 19. júlí 2001, hafi Á.Á. fjárfestingar ehf. keypt fasteignina Bleikargróf 15, Reykjavík, en félagið hafi þá heitið Eignaumboðið ehf. Stefndi sé stjórnarmaður og framkvæmdastjóri þess félags. Tilgangur félagsins sé rekstur eignarhaldsfélaga og kaup og sala fasteigna. Á þessum tíma hafi stefndi einnig verið stjórnarmaður og framkvæmdastjóri Eignasels ehf., en tilgangur þess félags sé leiga á atvinnuhúsnæði. Það hafi verið í ágúst eða september 2001 sem forsvarsmaður stefnanda, Davíð Þór Bjarnason, hafi verið fenginn til þess persónulega af hálfu Eignasels ehf. að taka að sér málningarvinnu á ytra byrði hússins nr. 15 við Bleikargróf í Reykjavík. Um munnlegan samning hafi verið að ræða á þá leið að Davíð Þór skyldi vinna verkið í hjáverkum og fengi fyrir það greitt 300.000 krónur fyrir vinnu, en Eignasel myndi greiða efniskostnað. Nánar tiltekið hafi verkið lotið að málningarsprautun á þaki og hluta klæðningar utan á húsið fyrir utan bílskúr. Hafi Eignasel tekið út vörur hinn 20. ágúst 2001 vegna þessa verks, samkvæmt fyrirmælum frá Davíð Þór. Þá hafi Davíð verið veitt heimild til vöruúttektar vegna þessa verks hjá Slippfélaginu í nafni Eignasels hinn 28. ágúst 2001. Hafi honum ekki verið veitt heimild til annarra úttekta. Eftir að Davíð hafi lokið verkinu, að því er stefnda minnir um miðjan október 2001, hafi komið í ljós að hann hefði tekið út mun meira af efni í nafni Eignasels en þurft hafi til að mála klæðningu og þak hússins. Kveðst stefndi, í nafni Eignasels, hafa krafið Davíð um skýringar, en hann ekki getað gert grein fyrir úttektum sínum. Hafi stefndi ekki heyrt meira frá Davíð í kjölfarið og ekki hafi Eignaseli borist reikningur vegna þessarar vinnu.
Stefndi kveður Eignaumboðið ehf. hafa selt fasteignina Bleikargróf 15 í Reykjavík þann 26. mars 2002 og sé sérstaklega tilgreint í kaupsamningi að kaupandi hafi kynnt sér ástand eignarinnar og geri sér grein fyrir að hún þarfnaðist viðhalds.
Reikningur vegna umræddrar vinnu barst stefnda í lok júlí 2004.
Lögmaður stefnanda sendi stefnda innheimtubréf, dagsett 15. september 2004. Lögmaður stefnda mótmælti kröfunni með bréfi dags. 11. október 2004.
III
Stefnandi byggir kröfur sínar á reikningi útgefnum 21. júlí 2004 með gjalddaga 21. ágúst 2004, að fjárhæð 1.139.268 krónur, vegna kaupa stefnda á þjónustu stefnanda. Reikningurinn sé vegna 312 tíma vinnu á 2.600 krónur á klukkustund. Stefnandi kveður stefnda hafa beðið um þjónustuna. Reikningurinn beri með sér að innheimt sé fyrir leigu á lyftu sem nota hafi þurfti vegna verksins og vegna kaupa á bensíni á háþrýstidælu sem stefnandi hafi lagt út fyrir vegna stefnda. Stefnandi kveðst hafa talið sig hafa heimild, við útgáfu reikningsins, til að innheimta 90 daga vexti með reikningi, þar sem nokkuð var um liðið frá verklokum og þar til reikningur var gefinn út. Vegna þessa sé heildarfjárhæð reiknings 1.139.268 krónur. Hins vegar sé stefnufjárhæð lægri, þar sem ekki sé stefnt vegna þessara vaxta sem tilgreindir eru á reikningi. Stefnandi kveður stefnda í engu hafa mótmælt því að vinna þessi hafi farið fram eða gert athugasemdir við verkið. Lögmaður stefnda benti í bréfi dags. 11. október sl. á að ekki hafi verið samið við stefnanda um að vinna verkið en öll starfsemi forsvarsmanns stefnanda á þessum tíma fór fram á vegum stefnanda.
Stefnandi kveður stefnda engan vilja hafa sýnt til að greiða skuld sína þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir stefnanda til að innheimta skuldina.
Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna samninga- og kröfuréttar, sbr. 5. gr., 6. gr. og 28. gr. laga nr. 39/1922.
Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
III
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að hann hafi aldrei óskað eftir vinnu stefnanda og beri því að sýkna hann vegna aðildarskorts. Verkkaupi vegna málningarvinnu hafi verið fyrirtækið Eignasel ehf. sem stefndi hafi á þeim tíma sem verkið var unnið verið í fyrirsvari fyrir. Stefndi byggir og á því að stefnandi hafi aldrei verið í neinu samningssambandi við stefnda, verktaki hafi frá upphafi verið Davíð Þór Bjarnason persónulega. Í stefnu sé með engum hætti getið um með hvaða hætti stefnandi hafi orðið aðili að verksamningi og eignast kröfu á hendur stefnda. Beri því einnig af þeirri ástæðu að sýkna stefnda vegna aðildarskorts. Byggir stefndi á því að á stefnanda hvíli sönnunarbyrði fyrir því að á milli aðila máls þessa hafi komist á samningur sem stefnandi heldur fram og geti byggt rétt sinn á og sé sú sönnunarbyrði þyngri en ella þar sem í málinu liggi frammi gögn sem sanna eða gera mjög sennilegt að munnlegur verksamningur hafi verið á milli Davíðs Þórs Bjarnasonar persónulega og Eignasels ehf.
Sýknukrafa stefnda er í þriðja lagi á því byggð, verði ekki talið að aðildarskortur sé fyrir hendi, að stefnandi hafi sýnt af sér óafsakanlegt tómlæti við innheimtu kröfu sinnar. Tæplega þrjú ár hafi liðið frá því að stefnandi vann verkið þar til útgefinn hafi verið ódagsettur reikningur vegna þess. Þessi dráttur á því að stefnandi héldi til haga hugsanlegum rétti sínum sé óútskýrður og verði ekki réttlættur. Hafi stefndi með engu móti mátt reikna með að stefnandi héldi uppi kröfu á hendur honum persónulega eftir svo langan tíma.
Varakrafa stefnda er á því byggð, að með reikningi stefnanda sé verið að innheimta til mikilla muna of mikla vinnu miðað við umfang og eðli verksins. Krafa stefnanda sé ósanngjörn, hún sé ósundurliðuð og með öllu vanreifuð og órökstudd, en engin tímaskráning fylgi framlögðum reikningi eða upplýsingar um hversu margir starfsmenn stefnanda hafi komið að verkinu. Þá liggi ekkert fyrir um meintan útlagðan kostnað stefnanda vegna lyftu. Er skorað á stefnanda að leggja fram vinnuskýrslur og reikning vegna útlagðs kostnaðar. Benda verði á í þessu sambandi að uppgefinn tímafjöldi á reikningi, 312 klst., geri ráð fyrir vinnu við að mála hús í alls 39 daga ef gert sé ráð fyrir vinnu í 8 klst. á dag og að einn maður hafi unnið verkið. Þá byggir stefndi á því að gallar hafi verið á verkinu sem stefnandi beri bótaábyrgð á en eftir að því var lokið hafi komið í ljós að sprautað hafði verið yfir fúna klæðningu með þeim afleiðingum að hún hafi farið að flagna af. Hafi þurft að fá annan aðila til að ráða bót á verkinu.
Stefndi mótmælir dráttarvaxtakröfu stefnanda sérstaklega með vísan til ákvæða laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Um lagarök vísar stefndi til 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Einnig vísar stefndi til reglna kröfu- og verktakaréttar, almennra reglna kröfuréttar, sbr. lög um lausafjárkaup nr. 50/2000 og laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Þá vísar stefndi til almennra reglna samningaréttarins, sbr. laga nr. 7/1936.
Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
V
Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um greiðslu fyrir vinnu við að mála húsið Bleikargróf 15 í Reykjavík. Óumdeilt er að forsvarsmaður stefnanda vann þetta verk, en stefndi byggir á því að hann hafi ekki persónulega beðið um verkið heldur hafi hann gert það í nafni einkahlutafélagsins Eignasels, sem hann hafi verið í fyrirsvari fyrir og hafi verið umsamið að fyrir verkið skyldi greiða 300.000 krónur.
Samkvæmt framburði aðila fyrir dómi var það stefndi sem bað stefnanda um að mála húsið. Kvað stefnandi húsið hafa verið mjög illa farið og hafi þurft að háþrýstiþvo það og gera við miklar skemmdir, grunna það og mála. Einnig hafi hann grunnað og málað þak hússins, sem og bílskúr og einnig planið. Heldur stefnandi því fram að ekki hafi verið samið um greiðslu fyrir verkið, en efni skyldi tekið út á reikning stefnda hjá Slippfélaginu. Þá kom fram hjá stefnanda að hann hefði í langan tíma reynt að fá greitt fyrir vinnu sína hjá stefnda, en stefndi ætíð borið einhverju við, svo sem að efniskaup hans væru of mikil.
Samkvæmt framburði stefnda fyrir dómi þá sá Eignasel ehf. um framkvæmd við húsið og hafi stefnandi tekið út efni hjá Slippfélaginu á nafni þess félags. Stefndi kvaðst aldrei hafa verið eigandi að Bleikargróf 15. Aðspurður kvað hann stefnanda tvívegis hafa haft samband við sig eftir að verkinu lauk á árinu 2001 og 2002. Stefndi kvaðst hins vegar hafa verið mjög ósáttur við bæði vinnu hans og efnisúttekt. Hins vegar hafi honum fyrst borist reikningur vegna verksins þremur árum eftir að því lauk, sem ekki hafi verið í neinu samræmi við það sem samið hafi verið um og hafi hann verið búinn að áætla að greiða um 300 þúsund krónur fyrir verkið.
Eins og fram hefur komið var ekki gerður skriflegur samningur um umrædda vinnu stefnanda. Þá liggur fyrir að stefndi bað stefnanda um að framkvæma vinnuna. Þegar framangreint er virt verður að byggja á því að stefndi hafi persónulega beðið um að stefnandi ynni fyrir hann umrædda vinnu við húsið Bleikargróf 15 í Reykjavík, enda hefur stefndi ekki sýnt fram á að hann hafi gert það í nafni einkahlutafélags. Gegn andmælum stefnanda er alls ósönnuð sú fullyrðing stefnda að samið hafi verið um ákveðið verð fyrir vinnuna. Ljóst er að langur tími er liðinn frá því að umrætt verk var unnið. Hins vegar er fram komið að stefnandi hefur á þeim tíma ítrekað reynt að fá greitt fyrir vinnu sína án árangurs. Hefur stefndi, sem þó kveðst hafa verið í fyrirsvari fyrir það félag sem átt hafi að greiða fyrir vinnuna, að hans sögn 300.000 krónur, á engan hátt skýrt það af hverju ekki var greitt. Í ljósi þess og þegar atvik málsins eru virt þykir stefnandi ekki hafa fyrirgert rétti sínum til að krefja stefnda um greiðslu fyrir vinnuna.
Með vísan til alls framanritaðs ber því að fallast á kröfu stefnanda eins og hún er fram sett, enda hefur ekki verið sýnt fram á að umkrafin fjárhæð sé ósanngjörn.
Eftir þessari niðurstöðu ber að dæma stefnda til þess að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Kristinn Bernburg Ragnarsson, greiði stefnanda, Heildarmálun ehf., 1.085.018 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 21. ágúst 2004 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 200.000 krónur í málskostnað.