Hæstiréttur íslands

Mál nr. 94/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gagnsök
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Föstudaginn 16

 

Föstudaginn 16. mars 2001.

Nr. 94/2001

Hótel Reykjavík ehf.

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

gegn

Bertli ehf.

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

 

Kærumál. Gagnsök. Frávísunarúrskurður staðfestur.

 

Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um frávísun gagnsakarmáls frá héraðsdómi þar sem gagnsök hefði verið höfðuð of seint samkvæmt lokamálslið 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og eigi væru uppfyllt skilyrði 3. mgr. 28. gr. sömu laga.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. mars 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. febrúar 2001, þar sem vísað var frá dómi gagnsök, sem sóknaraðili höfðaði í máli varnaraðila á hendur sér. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila um frávísun gagnsakarinnar verði hrundið. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðili dæmdur til að greiða kærumálskostnað.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Hótel Reykjavík ehf., greiði varnaraðila, Bertli ehf., 75.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. febrúar 2001

I

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu gagnstefnda að loknum munn­legum flutningi 15. febrúar sl., er upphaflega höfðað með stefnu,  birtri 16. maí sl. en málið var þingfest 25. maí sl.  Gagnsök var höfðuð með framlagningu gagn­stefnu og skjala, er henni fylgdu, í þinghaldi 10. janúar sl.

Stefnandi í aðalsök og gagnstefndi er Bertill ehf., kt. 630192-2509, Knarrarvogi 4, Reykjavík.

Stefndi í aðalsök og gagnstefnandi er Hótel Reykjavík ehf., kt. 560791-1279, Rauð­arárstíg 37, Reykjavík.

Í aðalsök eru kröfur stefnanda að stefndi verði dæmdur til greiðslu 1.452.134 króna ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. janúar 2000 til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar.

Í aðalsök krefst stefndi aðallega sýknu en til vara lækkunar á kröfum stefnanda.  Í báð­um tilvikum er þess krafist að stefndi megi skuldajafna við dómkröfur stefnanda í sam­ræmi við ítrustu kröfur sínar.   Þá krefst hann málskostnaðar.

Í gagnsök er þess krafist að gagnstefndi greiði gagnstefnanda 3.219.723 krónur, "allt að frádregnum 901.102 krónum, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga" frá 10. janúar 2001 til greiðsludags.  Þá er þess krafist að gagnstefndi verði dæmdur til að gefa út afsal fyrir fasteigninni Rauðarárstíg 39 í Reykjavík.  Loks er krafist máls­kostn­aðar.

Gagnstefndi krefst þess aðallega að gagnsökinni verði vísað frá dómi og sér úr­skurð­aður málskostnaður og er þessi þáttur málsins hér til úrskurðar.

Í þessum þætti málsins krefst gagnstefnandi þess að frávísunarkröfunni verði hrund­ið og sér úrskurðaður málskostnaður.

 

II

Með kaupsamningi 18. október 1999 keypti stefndi fasteignina að Rauðarárstíg 39 í Reykjavík af stefnanda.  Í aðalsök krefur stefnandi stefnda um greiðslu eftirstöðva kaup­verðs samkvæmt samningi aðila.  Byggir stefnandi kröfu sína á ákvæðum samn­ings­ins. 

Stefndi byggir kröfur sínar í aðalsök á því að stefnandi hafi ekki tekið tillit til allra greiðslna, sem stefndi hafi greitt.  Þá hafi ekki verið lokið við tilskyldar úrbætur varðandi eldvarnir fasteignarinnar og stefnandi hafi ekki afhent bygg­ing­ar­nefnd­ar­teikn­ingar.  Loks krefst stefndi skaðabóta að álitum vegna fjártjóns, er hann telur stefn­anda hafa valdið sér með framangreindri vanrækslu.

Í gagnsök byggir gagnstefnandi á því að gagnstefndi sé bundinn við samkomulag frá 29. júní 1995 á milli gagnstefnda og Gleipnis hf. um að uppfylla ákvæði bygg­ing­ar­reglugerðar um eldvarnir fasteignarinnar og kosta allar brunavarnir hennar.  Gagn­stefnda beri að afhenda fasteignina í lögboðnu ástandi og loks að afhenda bygg­ing­ar­nefnd­arteikningar að nánar tilgreindum hlutum fasteignarinnar.

Gagnstefnandi telur sér heimilt að höfða gagnsök með vísan til heimildar í 3. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. sömu greinar um frest til þess.  Þegar aðalsök var höfðuð hafi verið óvíst um kostnað við úr­bætur á fasteigninni, sbr. það, er að framan segir.  Þess vegna hafi ekki verið unnt að gera gagnkröfur þegar í upphafi.  Matsgerð hafi auk þess ekki legið fyrir fyrr en í desem­ber sl. og fjárhæð gagnkröfu því ekki getað verið ljós fyrr en þá.  Það verði því ekki metið gagnstefnanda til vanrækslu að hafa ekki gert gagnkröfu fyrr.

Gagnstefndi byggir á því að samkvæmt nefndu ákvæði einkamálalaganna hafi frestur til að hafa uppi gagnkröfu verið liðinn þegar gagnsökin var þingfest.  Gagn­stefnandi haldi fram þeirri málsástæðu að hann hafi haldið eftir kaup­samn­ings­greiðslum vegna vanefnda gagnstefnda  án þess að hafa tilkynnt honum um þær.  Þá bendir gagnstefndi á að gagnstefnandi hafi engar kröfur haft uppi á hendur honum vegna vanefnda á kaupsamningnum fyrr en í greinargerð í aðalsök.

 

III

Aðalsök málsins var þingfest 25. maí 2000.  Áður hafði stefnandi sent stefnda inn­heimtubréf 30. mars sama ár þar sem krafist var greiðslu skuldar vegna kaup­samn­ingsins um Rauðarárstíg 39.  Stefndi lagði fram greinargerð sína 29. júní sl.  Í septem­ber sl. var tvisvar þingað í málinu og þá lögð fram gögn.  Í þinghaldi 19. október óskaði stefndi eftir dómkvaðningu matsmanns og sætti það ekki andmælum stefn­anda.  Matsgerð var lögð fram 10. janúar sl. um leið og gagnsök var þingfest, eins og áður sagði.

Samkvæmt lokamálslið 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verð­ur að höfða gagnsök innan mánaðar frá þingfestingu aðalsakar.  Í 3. mgr. sömu greinar segir að gagnkröfu megi hafa uppi síðar ef það er gert fyrir aðalmeðferð og það verði ekki metið varnaraðila til vanrækslu að hafa ekki gert gagnkröfuna í tæka tíð.  Í stefnu er því haldið fram að gagnstefnandi hafi innt síðustu greiðslu sína af hendi 7. janúar 2000.  Miðað við málatilbúnað gagnstefnanda hefði hann því í síðasta lagi þá átt að gera sér ljóst hvort hann teldi sig eiga gagnkröfur á hendur gagnstefnda.  Þrátt fyrir þetta er það fyrst í október sl. sem hann óskar eftir dómkvaðningu mats­manns, en hann byggir gagnkröfur sínar á matsgerðinni.   Það er því niðurstaða dóms­ins að gagnstefnandi hefði getað gert gagnkröfu í tæka tíð og verði að meta honum það til vanrækslu að hafa ekki gert það.  Með vísan til þessa og framangreinds ákvæð­is einkamálalaganna er gagnsök höfðuð of seint og ber að verða við kröfu gagnstefnda og vísa henni frá dómi.  Rétt þykir að ákvörðun málskostnaðar bíði efnisdóms.

 

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

 

Úrskurðarorð.

Gagnsök er vísað frá dómi en ákvörðun málskostnaðar bíður efnisdóms.