Hæstiréttur íslands

Mál nr. 350/2012

íslenska ríkið (Einar Karl Hallvarðsson hrl.)
gegn
A (Hulda Rós Rúriksdóttir hrl.)

Lykilorð

  • Líkamstjón
  • Skaðabætur
  • Sakarskipting
  • Gjafsókn
  • Skóli


Líkamstjón. Skaðabætur. Sakarskipting. Gjafsókn. Skóli.

A höfðaði mál á hendur Í til heimtu skaðabóta vegna líkamstjóns sem hann hlaut í svonefndum gangaslag í Menntaskólanum í Reykjavík vorið 2009. Hæstiréttur taldi það ófullnægjandi háttsemi af hálfu menntaskólans að gera ekki nægar ráðstafanir við slaginn til að koma í veg fyrir augljósa hættu á að nemendur slösuðust. Yrði það metið stjórnendum skólans til gáleysis sem Í bæri skaðabótaábyrgð á. Á hinn bóginn vísaði rétturinn til þess að A hefði sjálfur ráðið þátttöku sinni í slagnum og verið fulltíða maður er atvik gerðust. Samkvæmt því yrði A látinn bera helming tjónsins sjálfur. Var Í gert að greiða A skaðabætur að helmingi vegna tímabundins atvinnutjóns, þjáninga, varanlegs miska og varanlegrar örorku, auk hluta umkrafinna kostnaðarliða vegna sjúkrakostnaðar og annars fjártjóns.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. maí 2012. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann lækkunar á kröfu stefnda og að málskostnaður falli niður á báðum dómstigum.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

Dómendur í málinu fóru á vettvang 7. desember 2012.

I

Eins og greinir í héraðsdómi slasaðist stefndi 21. apríl 2009, þá rétt tvítugur að aldri, er hann tók þátt í svokölluðum gangaslag í aðalbyggingu Menntaskólans í Reykjavík. Meiðslum stefnda og afleiðingum slyssins er ítarlega lýst í hinum áfrýjaða dómi. Slagur sem þessi mun hafa farið fram í skólanum einu sinni til tvisvar á ári allt frá 19 öld. Umgjörð hans var sú að útskriftarnemendur úr 6. bekk vildu hringja inn til kennslustundar en nemendur úr yngri árgöngum skólans, einkum 5. bekk, reyndu að varna því. Sjöttubekkingar leituðust þá við að hringja gamalli bjöllu sem komið var fyrir á gangi í norðurálmu á fyrstu hæð skólans fáum metrum frá stiga upp á efri hæðir byggingarinnar. Áður en slagur hófst söfnuðust nemendur úr 6. bekk saman á annarri hæð hússins og réðu ráðum sínum um hvernig komast skyldi framhjá varnarliði yngri nemenda og að bjöllunni. Því næst ávarpaði einhver fulltrúi sjöttubekkinga yngri nemendur úr þrepum stigans. Féll það gjarnan í hlut hringjara skólafélags nemenda, inspectoris platearum, en stundum tók einhver annar það að sér. Hvatti sá sína menn til átaka til að verja heiður sinn en gerði jafnframt hróp að yngri nemendum og skoraði á þá að víkja. Síðan var ráðist til atlögu sem fólst í því að eldri bekkingar komu niður stigann og köstuðu sér á hóp yngri nemenda og reyndu að krafla sig áfram í átt að bjöllunni. Atgangur var einatt mikill, ekki síst hin síðari ár, eftir að leikurinn þróaðist á þann veg að nemendur úr útskriftarárgangi viðhöfðu ýmsar tilfæringar áður en slagur hófst, einkum í því skyni að andstæðingar þeirra næðu ekki á þeim taki. Þegar þar var komið ætluðust stjórnendur skólans til að einungis piltar úr tveimur elstu árgöngum tækju þátt eða væru á átakasvæðinu.

Fram er komið að á árunum 2005 og 2006 urðu þrisvar sinnum meiðsli í gangaslag. Lýsa báðir málsaðilar því að rektor hafi af þeim sökum viljað banna þennan sið en hætt við vegna þrýstings frá nemendum og heimilað hann að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Óumdeilt er, sem kemur fram í greinargerð rektors um málefnið, að í rektorstíð hans frá árinu 2001 hafi hann og sex til átta starfsmenn skólans fylgst með slagnum frá völdum stöðum og skyldi leik hætt er kennari blés í flautu. Samkvæmt greinargerð rektors munu viðbótarskilyrðin hafa falist í því að nemendur 6. bekkjar mættu ekki setja límband yfir buxnastreng, þeir skyldu hvorki vera berir að ofan né smyrja sig olíu, jafnframt því sem miðað yrði við að ekki fleiri en 50 nemendur úr 5. og 6. bekk væru í hvoru liði, en þrengsli voru mikil. Umrætt sinn munu sjö kennarar hafa fylgst með slagnum og samkvæmt því sem fram er komið var hann stöðvaður um sinn áður en hann var flautaður af samkvæmt fyrirmælum rektors, að líkindum innan 10 mínútna frá því að hann hófst. Var það þó ekki gert vegna meiðsla stefnda sem engin var varð við í fyrstu. Myndbandsupptöku af leiknum er nánar lýst í héraðsdómi en eins og þar greinir köstuðu nemendur 6. bekkjar sér úr stiga og af stigahandriði yfir yngri nemendur sem stóðu í hnapp á gólfinu fyrir framan stigann. Eftir að stefndi slasaðist var gangaslagur lagður af samkvæmt ákvörðun rektors.

II

Bæði rektor og B íþróttakennari skýrðu frá því í skýrslum sínum við aðalmeðferð málsins að farið hafi verið yfir reglur áður en gangaslagurinn hófst umrætt sinn. Hafi B talað við yngri árganginn, en C þann eldri. Af því sem fram er komið er þó ekki með öllu upplýst hvaða skilyrði voru kynnt nemendum. Til að mynda kvað B það ekki hafa verið bannað að vera ber að ofan eða hafa límband yfir buxnastreng. Þá er fram komið að margir útskriftarnemenda voru berir að ofan og höfðu sett límband yfir buxnastreng en ekki verður séð að rektor hafi gengið eftir að þessum skilmálum hans yrði fylgt. Stefndi, sem var í útskriftarárgangi, kvaðst í aðilaskýrslu sinni fyrir héraðsdómi hvorki hafa heyrt af þessum reglum né áhyggjum kennara eða skólastjórnar af þróun mála. Hafi hann gengið til leiks ber að ofan, en ekki getað límt yfir buxnastreng vegna þess að límband hafi verið uppurið.

Stefndi hafði verið valinn af samnemendum sínum sem hringjari skólans. Hafði hann það hlutverk að hringja inn og út úr tímum allt skólaárið. Til þess var ekki notuð áðurnefnd bjalla heldur bjalla sem staðsett er við stiga milli hæða í aðalbyggingu skólans. Stefndi kvaðst hafa talið það hlutverk sitt sem hringjara að taka þátt í slagnum. Rektor sagðist hafa gefið sig á tal við stefnda á annarri hæð skólans áður en slagur hófst og spurt hann sérstaklega hvort hann ætlaði að taka þátt. Stefndi hafi lýst vilja sínum til þess en upplýst að annar nemandi myndi leiða hópinn. Sérstaklega aðspurður fyrir dómi kvaðst stefndi ekki muna hvort rektor hafi átt þetta samtal við sig.

Stefndi lýsti málavöxtum nánar þannig að eftir að hann hafi hringt út í matarhlé hafi hann skipt um föt fyrir gangaslaginn og nokkrir nemendur elsta árgangsins hafi hist í svokallaðri T-stofu á annarri hæð hússins þar sem sett hafi verið saman „hernaðaráætlun“. Hún hafi falist hafi í því að nokkrir stórir og sterkir nemendur færu fremstir niður stigann. Skyldu þeir mynda með bakhluta sínum nokkurs konar gangveg fyrir þá sem á eftir kæmu, en þeim var ætlað að fara upp á þvögu yngri bekkinga og í átt að bjöllunni. Þeir sem teknir yrðu niður skyldu vera í þvögunni og reyna að ýta þeim eldribekkingum áfram sem ofan á þvögunni væru. Hafi þeir eldribekkingar ákveðið að vera berir að ofan, svo síður yrði gripið í þá, og setja límband yfir buxnastreng í sama tilgangi. Eftir að sá sem leiddi sjöttubekkinga hafði ávarpað yngri nemendur hafi þeir eldri myndað röð og slagurinn hafist í samræmi við áætlun. Stefndi kvaðst ekki hafa verið með allra fyrstu mönnum og raunar ekki náð upp á þvöguna. Hann hafi reynt að komast upp á handrið stigans en strax verið dreginn niður á gólfið. Hafi hann þá ákveðið að fara inn í þvöguna til að hjálpa sínum mönnum. Næsta sem hann myndi eftir væri að hann hefði hnigið niður, fengið mikla hellu fyrir eyrun og átt erfitt með andardrátt. Hafi hann haft þá einu hugsun að komast í ferskt loft. Sér hafi einhvern veginn tekist það og hitt D íþróttakennara við útidyr skólans. Í þann mund hafi hlé verið gert á leiknum en hann svo hafist aftur. Stefndi kvaðst ekki minnast þess að hafa fengið högg umrætt sinn og ekki vita hvað olli meiðslum sínum.

Ekkert þeirra vitna, sem skýrslur gáfu við meðferð málsins, gat upplýst frekar hvernig stefndi meiddist. Sá sem næst komst því var jafnaldri hans, E, er var í liði útskriftarárgangsins. Sérstaklega aðspurður kvaðst vitnið hafa séð að stefndi hélt um háls sér og reyndi að komast úr þvögunni og að vegg þar sem minni troðningur var. Vitnið sagði atgang hafa verið svo mikinn að þrátt fyrir að hann hafi verið í góðu líkamlegu formi og stundað reglulega líkamsrækt hefði hann að slag loknum lagst örmagna niður.

III

Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi reisir stefndi kröfu sína á því að hann hafi verið að sinna störfum sínum sem hringjari skólans og að slysið megi rekja til gáleysis skólastjórnar og kennara sem leyft hafi þennan hættulega slag sem þátt í skólastarfinu eftir ákveðnum reglum sem skólinn hafi síðan ekki framfylgt. Á því beri áfrýjandi skaðabótaskyldu eftir reglum um húsbóndaábyrgð. Áfrýjandi byggir á hinn bóginn einkum á því að stefndi hafi á sína ábyrgð tekið þátt í slagnum og andmælir fullyrðingu stefnda um að leikurinn hafi verið hluti af starfi skólans sem stefnda hafi verið skylt að taka þátt í.

Fram er komið að stefndi hlaut líkamstjón meðan á gangaslagnum stóð. Á hinn bóginn verður hvorki af skýrslu stefnda né vitna ráðið hvað varð til þess að hann slasaðist. Verður því ekki talin sönnuð sú fullyrðing í stefnu að meginorsök slyssins megi rekja til þess að einhver nemenda hafi kastað sér yfir stefnda, en þess að gæta að stefndi kveðst hafa verið dreginn niður á gólfið og er óvíst á hvaða augnabliki átakanna meiðsli hans urðu. Þá hefur stefndi á engan hátt reynt að færa sönnur fyrir fullyrðingum sínum um að tjónið hafi aukist vegna saknæmra athafna starfsmanna skólans eftir slysið.

Eins og að framan er rakið var afar löng hefð fyrir slag fjölda ungmenna í tiltölulega þröngum húsakynnum Menntaskólans í Reykjavík. Þrátt fyrir að viðburður þessi hafi talist vera á vegum skólafélags nemenda var ákvörðun á síðari tímum um framkvæmd hans tekin í samráði við skólastjórnendur. Höfðu þeir síðastnefndu í hendi sér að ákveða hvort siðurinn skyldi aflagður. Vegna hættu á líkamsmeiðingum hafði rektor gripið til þess ráðs að láta starfsfólk skólans hafa eftirlit með slagnum. Urðu slysin 2006 til þess að rektor tók ákvörðun um að banna þennan harkalega slag framvegis. Fyrir þrýsting frá skólafélagi nemenda var sú ákvörðun dregin til baka með skilyrðum um frekari afskipti af hálfu skólans við framkvæmd slagsins, sem þó var ekki fylgt eftir sem skyldi. Er fallist á með stefnda að af hálfu skólans hafi ekki verið gripið til nægra ráðstafana til að koma í veg fyrir augljósa hættu á að nemendur slösuðust. Verður þetta metið stjórnendum skólans til gáleysis sem áfrýjandi ber skaðabótaábyrgð á.

Einungis hluti nemenda skólans átti þess kost að gerast þátttakendur í slagnum og gegn andmælum áfrýjanda hefur stefndi ekki sýnt fram á að honum hafi borið að taka þátt sem hringjari skólans. Verður því að miða við að hann hafi sjálfur ráðið þátttöku sinni. Stefndi var fulltíða maður er atvik gerðust. Hann hafði áður fylgst með slag sem þessum og vissi hvernig hann fór fram. Hann kom jafnframt að skipulagningu atlögu sjöttubekkinga sem hann réðst óhikað til. Af þessum sökum verður stefndi látinn bera helming tjóns síns sjálfur.

Í máli þessu er ekki tölulegur ágreiningur um tímabundið atvinnutjón, þjáningabætur eða varanlegan miska stefnda. Þá verður með vísan til forsendna héraðsdóms fallist á niðurstöðu hans um varanlega örorku.

Krafa stefnda um bætur vegna sjúkrakostnaðar og annars fjártjóns byggist á 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 en þar segir meðal annars að sá sem bótaábyrgð ber á líkamstjóni skuli greiða skaðabætur fyrir sjúkrakostnað og annað fjártjón sem af því hlýst. Með vísan til forsendna héraðsdóms er fallist á að gögn málsins beri með sér útlagðan kostnað stefnda vegna læknisskoðana 26.565 krónur, sjúkraflutninga 9.400 krónur, sjúkraþjálfunar 24.097 krónur, lyfja 14.579 krónur og hálskraga 11.768 krónur. Krafa stefnda um kostnað vegna leigu á sérstöku rúmi að fjárhæð 88.097 krónur er nægilega rökstudd og hefur ekki verið tölulega andmælt. Verður því á hana fallist. Á hinn bóginn nýtur ekki við gagna um nauðsyn þess að kaupa umrætt rúm og verður kröfu um endurgreiðslu kaupverðs þess því hafnað. Hið sama gildir um kröfu vegna kaupa á svokölluðu veggsjóvarpi og hjálpartæki fyrir tölvu. Verður áfrýjandi því dæmdur til að greiða stefnda helming af tjóni hans eða samtals 4.265.449 krónur.

Áfrýjandi hefur mótmælt upphafstíma vaxtakröfu stefnda. Samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga skulu dæmdar bætur fyrir þjáningar, varanlegan miska og tímabundið atvinnutjón bera 4,5% ársvexti frá því að tjón varð og bætur fyrir varanlega örorku bera þá vexti frá upphafsdegi metinnar örorku samkvæmt 5. gr. laganna, en um dráttarvexti fer eftir ákvæðum laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Batahvörf stefnda voru metin 12. janúar 2010. Ekki liggur annað fyrir en að það hafi fyrst verið við höfðun máls þessa 29. júní 2011 sem stefndi gerði fjárkröfu á hendur áfrýjanda. Samkvæmt þessu skal áfrýjandi greiða 4,5% ársvexti af 1.531.660 krónum frá  21. apríl 2009 til 12. janúar 2010, en af 4.178.196 krónum frá þeim degi til 29. júlí 2011, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 4.265.449 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Rétt er að málskostnaður falli niður á báðum dómstigum.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað verður staðfest, en um þann kostnað stefnda fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefnda, A 4.265.449 krónur með 4,5% ársvöxtum af 1.531.660 krónum frá  21. apríl 2009 til 12. janúar 2010, en 4.178.196 krónum frá þeim degi til 29. júlí 2011, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 4.265.449 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu óröskuð.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 450.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. apríl 2012.

Mál þetta er höfðað 29. júní 2011 og dómtekið 29. mars sl.

Stefnandi er A, […].

Stefndi er íslenska ríkið. 

Stefnandi krefst þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða honum skaða-, miska- og þjáningabætur að fjárhæð 8.893.588 krónur með 4,5% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 21. apríl 2009 til 1. ágúst 2010, en með dráttar­vöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða máls­kostnað, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Stefndi krefst sýknu og greiðslu málskostnaðar. Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar og málskostnaður látinn niður falla.

Dómari og lögmenn aðila gengu á vettvang 29. mars 2012.

I

Þann 21. apríl 2009 tók stefnandi þátt í atburði í Menntaskólanum í Reykjavík sem kallaður var gangaslagur og haldinn var ár hvert í skólanum en hefur nú verið lagður af. Um var að ræða hefð innan skólans sem snérist um að útskriftarárgangur reyndi að hringja bjöllu við enda gangs á meðan ungmenni í öðrum árgöngum reyndu að koma í veg fyrir hringingu. Myndaðist við þetta mikil kös á afar litlu svæði við skólabjölluna. Stefnandi var í 6. bekk og gegndi starfi hringjara skólaárið 2008-2009 sem er elsta embættið innan skólans. Hringjari er valinn úr hópi 6. bekkinga og hlutverk hans er að hringja inn og út úr tímum allt skólaárið. Stefnandi heldur því fram að hefð sé fyrir því að hringjari taki þátt í gangaslag og það gerði stefnandi. 

Umræddan dag hafði gangaslagurinn rétt hafist og stefnandi var miðja vegu á ganginum. Fékk stefnandi þungt högg á höfuðið, sáran verk í háls og bak og hellu fyrir eyrun. Komst hann út úr þvögunni af eigin rammleik og fór að útidyrunum til að fá meira loft. Hefur hann lýst líðan sinni þannig að honum hafi fundist eins og þyngsli væru í hálsinum og um stund þótt erfitt að anda. Leikfimikennari kom að honum og sá að eitthvað var að en stefnandi kveðst ekki muna vel eftir því sem gerðist á þessum tímapunkti. Það sem stefnandi man næst er að hann fór með öðrum leikfimikennara út í skrifstofu í íþróttasalnum sem er í næstu byggingu og fékk hann þar kælingu á hálsinn og kom rektor þar einnig að. Leikfimikennarinn spurði stefnanda hvort hann þyrfti að fara á slysadeild en rektor tók af skarið um að fara skyldi með stefnanda þangað. Stefnandi var ekið á slysadeildina í bifreið kennara. Eftir rannsóknir á spítalanum kom í ljós að stefnandi var tvíbrotinn á fyrsta hálslið og liðband rifið.  Stefnandi var settur í stífan hálskraga sem hann þurfti að nota í 13 vikur og var hann í 5 vikur til viðbótar í mýkri kraga, samtals í rúma fjóra mánuði. Hann var byrjaður í stúdentsprófunum en fékk próf sín metin, þ.e. hann lauk áföngunum án þess að taka próf. Stefnandi var óvinnufær allt sumarið. 

Lögmaður stefnanda sendi bréf til Menntaskólans í Reykjavík 7. janúar 2010 þar sem stjórnendur skólans voru upplýstir um að stefnandi hygðist leita réttar síns og krefja skólann um bætur. Með bréfi frá mennta- og menningamálaráðuneytinu 21. janúar 2010 var lögmanninum tilkynnt að erindið hefði borist ráðuneytinu. Þann 23. febrúar 2010 var lögmanni stefnanda tilkynnt að ríkislögmanni hefði verið falið að taka afstöðu til kröfu stefnanda. Með bréfi 5. maí 2010 hafnaði ríkislögmaður því að bótaskylda væri til staðar. Stefnandi fékk 24. september 2010 dómkvaddan matsmann til að meta líkamstjón sitt vegna slyssins og lauk matsgerðinni 15. mars 2011. Í henni var komist að þeirri niðurstöðu að stöðugleikatímapunktur væri 12. janúar 2010. Tímabundið atvinnutjón var talið taka til tímabilsins frá 21. apríl 2009 til 28. ágúst 2009. Að því er varðaði þjáningabætur var tímabil þjáningabóta metnar hið sama og tímabil tímabundins atvinnutjóns eða frá 21. apríl 2009 til 28. ágúst 2009. Varanlegur miski var metinn 12% og varanleg örorka 12%.

II

Af hálfu stefnanda er á því byggt að stjórn Menntaskólans í Reykjavík, rektor og kennarar hafi sýnt af sér gáleysi í kringum þann atburð er stefnandi varð fyrir alvarlegu slysi í skólanum við þátttöku í gangaslag 21. apríl 2009. Byggt sé á meginreglum skaðabótaréttar, þ.m.t. sakarreglunni og reglunni um vinnuveitendaábyrgð.

Á undanförnum áratugum hafi gangaslagur í skólanum þróast með þeim hætti að nemendum hafi verið bráð hætta búin af þátttöku í athöfninni. Drengir hafi farið úr að ofan, borið á sig olíu og notuðu límband til að líma yfir buxnastrengi og allt sem hægt hafi verið að krækja í. Markmið 6. bekkinga með þessu hafi verið að sem erfiðast yrði fyrir yngri nemendur að ná taki á þeim og taka þá úr umferð.  Hættan sem hins vegar skapast hafi af þessu hafi orðið sú að erfitt hafi orðið að ná nemendum upp úr gólfinu ef þeir hefðu troðist undir. Nemendur hafi kastað sér svo ofan á þvöguna sem myndast hafi á ganginum og spriklað áfram ofan á höfðum samnemenda sinna í átt að bjöllunni. Nokkur alvarleg slys hafi orðið í slíkum gangaslag. Fyrir nokkrum áratugum hafi nemandi misst framan af fingri þegar trúlofunarhringur hafi fests á nagla. Á árinu 2005 hafi nemandi fengið skurð á handlegg sem þurft hafi að sauma nálægt sinum og slagæð. Vorið 2006 hafi nemandi orðið undir í þvögu og klemmst við það taug í öðrum fótlegg og nemandinn þurft nokkurra mánaða læknismeðferð vegna þess. 

Eftir því sem fram kemur í greinargerð rektors hafi verið reynt að stemma stigu við slysahættu og eftir slysið vorið 2006 rektor ákveðið að banna gangaslag framvegis. Sú ákvörðun hafi síðar verið dregin til baka og gangaslagur leyfður að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Viðburðurinn hafi fyrst og fremst átt að vera táknrænn atburður til að viðhalda hefðinni eins og fram komi í bréfi rektors. Fjöldi nemenda sem taka hafi mátt þátt hafi verið takmarkaður við 50 nemendur úr 5. bekk og 50 nemendur úr 6. bekk. Bann hafi verið sett við því að smyrja sig með olíu eða nota límbönd og skyldu nemendur vera í bolum. Þessar reglur hafi verið settar til að takmarka slysahættu en þeim hins vegar ekki virst vera framfylgt sem skyldi. Þannig sjáist á myndskeiði sem tekið hafi verið af gangaslagnum 2009 að drengir í 6. bekk hafi verið berir að ofan án þess að slagurinn væri stöðvaður af þeim sökum auk þess sem nokkrir hafi sett límbönd yfir buxnastrengi sína. Stefnandi kveður límbandið hafa klárast fljótt og því hafi ekki fleiri verið með niðurlímda buxnastrengi. Þá sjáist á myndskeiði að nemendurnir kasti sér yfir þvöguna af miklum þunga og sparki sér áfram. Ljóst sé að mikil slysahætta sé af slíku og fyrirsjáanlegt fyrir stjórn skólans, rektor og kennara að illa gæti farið.  

Samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar beri skóli ábyrgð á öryggi nemenda sinna. Gangaslagurinn hafi verið haldinn í matarhléi á skóladegi í húsnæði skólans og sé óvíst að allir þeir sem tekið hafi þátt í slagnum hafi verið sjálfráða. Stjórnendur skólans hafi leyft gangaslag innan veggja skólans og skólinn haldið utan um leikinn með því að hafa eftirlit með honum og með því að setja reglur um hann sem þó hafi ekki verið fylgt eftir nema að litlu leyti. Rektor og kennarar hafi stöðvað gangaslaginn af í miðjum leik með því að flauta en flautað hann svo á aftur stuttu síðar. Þessir aðilar hafi því haft einhverja stjórn á slagnum og getað stöðvað hann þegar þeir hafi talið ástæðu til. Í myndskeiði sem fylgi stefnu sjáist hvernig nemendur hafi kastað sér yfir samnemendur sína með miklum þunga og full ástæða verið til að grípa inn í og flauta leikinn af á þeirri stundu. Það hafi ekki verið gert.

Samkvæmt 39. gr. laga um framhaldsskóla nr. 92/2008 skuli starfa nemendafélag í hverjum framhaldsskóla sem vinni m.a. að félags-, hagsmuna- og velferðarmálum nemenda. Það skuli setja sér reglur um skipan, starfssvið og starfshætti. Þá komi ennfremur fram í 39. gr. laganna að nemendafélag starfi á ábyrgð skólans. Það sé því ljóst að jafnvel þó litið verði svo á að nemendafélag skólans hafi staðið að einhverju leyti fyrir gangaslag sé nemendafélagið og starfsemi þess engu að síður á ábyrgð skólans. Skólinn geti því ekki skýlt sér á bak við það að nemendafélag hafi skipulagt þennan atburð.

Þá sé ljóst að nemendur geti ekki einu sinni tryggt sig vegna þess sem þarna hafi farið fram. Stefnandi hafi reynt að sækja í heimilistryggingu sína skaðabætur en verið hafnað á þeim grundvelli að um undanskylda áhættu væri að ræða þar sem slys hefði orðið í handalögmáli. Látið hafi verið reyna á þessa höfnun fyrir Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum en hún komst að sömu niðurstöðu, þ.e. að stefnandi hafi verið þátttakandi í handalögmálum í umrætt sinn og að því væri um undanskylda áhættu að ræða jafnvel þótt nemendafélag skólans hafi hugsanlega staðið fyrir atburðinum. 

Stjórn skólans og rektor beri ábyrgð á því að hafa heimilað gangaslag innan veggja skólans. Slysahættan hafi ekki getað dulist nokkrum manni og komi meðal annars fram í greinargerð B íþróttakennara að rektor hafi alltaf haft áhyggjur af þessum sið, gangaslag og tjáð það vel og vandlega m.a. á skólaráðsfundum. Þrátt fyrir þetta hafi verið tekin ákvörðun um að leyfa gangaslaginn eða a.m.k. var ekki tekin ákvörðun um að banna hann. Það að leyfa gangaslag hafi verið gáleysi af hálfu stjórnar skólans, þeirra stjórnenda sem að ákvörðuninni hafi komið og rektors. 

Reglur sem gilt hafi um gangaslag hafi verið afskaplega fáar. Þær virðist helstar hafa verið þær að ekki hafi verið heimilt að vera ber að ofan, ekki mátt líma niður buxnastrengi og ekki mátt bera olíu á sig. Af þessum þremur reglum virðist einungis einni hafa verið fylgt eftir en af myndunum að dæma virðist olía ekki hafa verið notuð í gangaslag 2009. Þrátt fyrir að eftirlitið hafi verið eitthvað þá hafi það engu að síður verið ófullnægjandi fyrir atburð af þessu tagi. Ljóst sé að átta kennarar hafi ekki roð við hundrað karlkyns nemendum í miklum keppnisham. Þá hafi leikurinn ekki verið flautaður af þegar stórir nemendur hafi kastað sér ítrekað yfir hópinn af miklum þunga og spriklað áfram. Engin viðbragðsáætlun við slysum virðist hafa verið til eða að minnsta kosti hafi hún ekki verið kynnt fyrir nemendum. Viðbrögð við slysi stefnanda hafi ekki verið rétt. Þegar um hálsáverka sé að ræða beri alltaf að kalla til sjúkrabifreið, sér í lagi þegar sá slasaði sé fölur og svari illa spurningum eins og honum sé líst í greinargerð B íþróttakennara. Í slíkum tilvikum séu líkur á að sjúklingur sé í áfalli. Ekki sé víst hvaða afleiðingar það hafi haft fyrir brotið og hvort það hafi hliðrast meira við það að stefnandi hafi verið sendur í bifreið kennara upp á bráðamóttöku en ljóst sé að það hafi að minnsta kosti ekki verið til bóta fyrir mein hans. Þá hafi ekki verið kallað á lögreglu til að taka út aðstæður á slysstað eða taka skýrslu af vitnum. Allt þetta verði að teljast gáleysi af hálfu kennara og rektors og á því verði íslenska ríkið að bera vinnuveitendaábyrgð.

Óhappatilvik séu tilvik, þar sem tjóni sé valdið og orsakatengsl milli háttsemi og tjóns séu sönnuð, án þess að unnt sé að kenna neinum um það, t.d. vegna þess að það sé tilviljun ein sem valdi því að tjón verði. Ekki sé hægt að líta á það atvik sem hafi valdið slysi stefnanda sem óhapp. Aðstæður hafi verið með þeim hætti að viðbúið hafi verið að slys gæti átt sér stað. Þetta hafi stjórnendur skólans og rektor átt að átta sig á og stemma stigu við enda beri þeir ábyrgð á öryggi nemenda í skólanum og því verið um gáleysi þeirra að ræða. Sjónarmið um óhappatilvik geti því ekki átt við.

Ekki sé hægt að líkja gangaslag við íþróttir á borð við handbolta, fótbolta og körfubolta. Um þær íþróttir gildi strangar reglur en fáar reglur virðist gilda um háttsemi þátttakenda í gangaslag. Enginn sé tekinn út úr eða settur í bann fyrir óíþróttamannslega framkomu heldur einkennist leikurinn af slagsmálum sem eigi sér stað á mjög litlu svæði og sé ómögulegt að hafa eftirlit með því hver geri hverjum hvað. Þetta sé ólíkt boltaíþróttum þeim sem nefndar hafi verið þar sem mun færri leikmenn keppi á stærra svæði. Þessu hafi stjórnendur skólans borið ábyrgð á eins og áður hafi komið fram. Ef atburður sem þessi sé á annað borð leyfður innan skóla sé viðbúið að unglingar taki þátt í honum enda beri þeir ekki alltaf sama þroska og eldra fólk til að skynja hættu eða sama mótstöðuafl til að standast þrýsting félaga sinna.  Stefnandi hafi gegnt embætti hringjara sem sé embætti á vegum nemendafélagsins. Í þessu embætti hafi falist eins og áður segi að hringja inn og út úr tímum. Stefnandi hafi verið kosinn í embættið vegna þess að hann hafi verið stundvís og áreiðanlegur og því vel til þess fallinn að gegna starfi hringjara. Hins vegar fylgi embættinu hálfgerð kvöð þess efnis að taka þátt í gangaslag og að reyna að hringja bjöllunni í þetta skipti ekki síður en önnur skipti skólaársins. Þannig hafi stefnanda meðal annars verið boðið að taka til máls í krafti embættis síns og þruma yfir höfðum 5. bekkinga áður en 6. bekkur hafi lagt til atlögu. Stefnandi hafi afþakkað það og annar tekið til máls í hans stað. Þetta sýni engu að síður þá pressu sem hafi verið á stefnanda að taka þátt í gangaslagnum og að honum hafi ekki verið auðvelt um vik að skorast undan því. 

Þá væri gríðarlega ósanngjarnt að láta bótaskyldu falla að öllu leyti niður á þeim grundvelli að stefnandi hafi sjálfur tekið áhættu og engan veginn í samræmi við þróun dómvenju. Frekar hafi verið tilhneiging til að láta tjónþola bera meðábyrgð á tjóninu í réttu hlutfalli við eigin sök í stað þess að láta skaðabótaskyldu falla alveg niður vegna áhættutöku. Ef dómurinn líti af einhverjum ástæðum svo á að stefnandi beri að hluta til sök á sínu tjóni sjálfur væri rétt að beita frekar reglum um eigin sök en reglum um áhættutöku.

Viðbrögð skólarektors og kennara bendi til þess að þessir aðilar hafi áttað sig á þeirri hættu sem um hafi verið að ræða. Þetta komi meðal annars fram í bréfi rektors þar sem hann lýsi því hvernig hann hafi bannað gangaslag af ótta við slys en síðar fallist á að hann yrði haldinn áfram í breyttu formi. Ekki sé efast um að töluverð pressa hafi verið frá nemendum skólans að fá að hafa gangaslag áfram. Það séu þó stjórnendur skólans sem beri ábyrgð á öryggi nemendanna og í því skyni að tryggja það öryggi verði þeir að vera tilbúnir að taka óvinsælar ákvarðanir. Það að hafa leyft það að gangaslagur færi fram og síðan ekki hafa flautað hann af þegar reglur um boli og límbönd hafi verið brotnar og nemendur tekið að kasta sér af miklu afli ofan á aðra og sparka sér áfram verði að teljast saknæm háttsemi stjórnar skólans, kennara og rektors. Á þessu verði íslenska ríkið að bera vinnuveitendaábyrgð.

Gerð sé krafa um að stefndi verði dæmdur til greiðslu 8.893.588 krónur. Krafan sundurliðist með eftirfarandi hætti:

 

 Tímabundið atvinnutjón skv. 2. gr. skaðabótalaga

frá 21. apríl 2009 til 28. ágúst 2009

1.800.000 krónur

Þjáningabætur skv. 3. gr. skaðabótalaga

201.500 krónur

Varanlegur miski skv. 4. gr. skaðabótalaga

1.061.820 krónur

Varanleg örorka skv. 5. gr. skaðabótalaga

5.293.072 krónur

Læknis-, lyfja- og sjúkrakostnaður, skv. 1. gr. skaðabótalaga

 

a.Læknisskoðanir

28.853 krónur

b.Endurgreitt vegna læknisþjónustu

-2.288 krónur

c.Sjúkraflutningar

9.400 krónur

d. Sjúkraþjálfun

24.097 krónur

e.Lyfjakostnaður

14.579 krónur

f.Hjálpartæki, kragi

11.768 krónur

g.Hjálpartæki, rafmagnsrúm, leiga

88.097 krónur

h.Rúm með rafmagnsgafli, kaup

242.714 krónur

i.Hjálpartæki f. tölvu

6.998 krónur

j.Veggsjónvarp

112.978 krónur

Samtals

8.893.588 krónur


Byggt sé á matsgerð F læknis en útreikningur sé í samræmi við reglur skaðabótalaga nr. 50/1993. Samkvæmt matsgerð sé tímabundið atvinnutjón stefnanda frá 21. apríl 2009 til 28. ágúst 2009. Stefnandi hafi verið búinn að fá vinnu hjá […] hf. sumarið 2009 en ekkert getað unnið vegna slyssins. Samkvæmt yfirlýsingu frá fyrirtækinu hafi tekjur stefnanda orðið 1.800.000 krónur yfir sumarið. Í samræmi við 2. gr. laga nr. 50/1993 sé gerð krafa um að stefndi greiði þessa fjárhæð sem sé tímabundið atvinnutjón stefnanda. Gerð sé krafa um þjáningabætur, miskabætur og varanlega örorku í samræmi við 3.-5. gr. laga nr. 50/1993. Stefnandi hafi verið að ljúka námi í Menntaskólanum í Reykjavík og sé tekjuviðmiðið í samræmi við það eins og fram komi á sundurliðunarblaði. Gerð sé krafa um greiðslu alls læknis-, lyfja- og sjúkrakostnaðar stefnanda í samræmi við 1. gr. laga nr. 50/1993. Þar sem stefnandi hafi þurft að liggja lengi og vera sem mest hreyfingarlaus í veikindum sínum sé gerð krafa um greiðslu á rúmi með rafmagnsgafli og veggsjónvarpi sem hann hafi eingöngu keypt vegna slyssins. Útlagður kostnaður vegna matsgerðar og vottorða sé 284.440 krónur og sé það hluti málskostnaðar. Sú fjárhæð sé ekki inni í stefnukröfunni.

Í matsgerð F komi fram að stefnandi hafi verki á brotsvæði með útleiðslu niður í háls og upp í höfuð við snúning og ákveðnar stöður höfuðs. Þar sé gert ráð fyrir vaxandi slitbreytingum þegar fram líði stundir sem geti leitt til meiri óþæginda og verkja en nú séu. Þá komi fram að hreyfiferlar séu skertir og ósamhverfir.  Matsmaður telji brot á fyrsta hálshryggjarlið vera alvarlegan áverka og miski metinn 12%. Í matsgerð komi fram að með vaxandi slitbreytingum í hálsi með tilheyrandi verkjum og hreyfiskerðingu dragi líklega úr getu slasaða við störf, bæði við skrifborð svo og við störf sem krefjist meiri líkamlegrar áreynslu. Varanlega örorka sé metin 12%. Gerð sé krafa um 4,5% ársvexti af stefnufjárhæðinni, skv. 16. gr. laga nr. 50/1993 frá slysdegi til 1. ágúst 2010 en dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags. Upphafsdagur dráttarvaxta miðist við mánuð frá þeim degi sem matsbeiðni hafi verið lögð fram í héraðsdómi, sbr. orðalag 9. gr. laga nr. 50/1993 um að skaðabótakröfur skuli bera dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. að liðnum mánuði frá þeim degi sem kröfuhafi sannanlega hafi lagt fram þær upplýsingar sem þörf hafi verið á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta.

Stefnandi styður kröfur sínar við meginreglur skaðabótaréttar, sérstaklega reglur um vinnuveitandaábyrgð og sakarábyrgð, og skaðabótalög nr. 50/1993, einkum 1.-8. gr. og 15. og 16. gr.  Þá vísar stefnandi til laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Krafa um málskostnað er studd við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda. Um varnarþing sé vísað til 33. gr. laga nr. 91/1991. Loks sé vísað til 1. mgr. 6. gr. , 9.  og 12. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

III

Stefndi kveður stefnanda greina þannig frá atvikinu í stefnu að þegar stefnandi hafi verið miðja vegu á ganginum hafi einhver látið sig falla á hópinn. Við það hafi stefnandi fengið þungt högg á höfuðið, sáran verk í háls og bak og hellu fyrir eyru. Íþróttakennari skólans, sem staðið hafi á stigapallinum og fylgst með, reki í minni að oftast hafi þyngri drengir farið fyrst en hinir á eftir. Ekki sé vitað með vissu hvort einhver hafi hent sér á höfuð stefnanda eða farið um með bægslagangi yfir þvöguna og hugsanlega slegið eða sparkað í stefnanda, þar sem hann hafi farið um. Ólíklegt sé að hann hafi getað hent sér yfir þá sem á undan hafi farið þar sem hann hafi aðeins getað staðið í annarri til fjórðu tröppu og þverbiti í lofti verið í vegi. Hann hafi þó getað spyrnt sér upp á við, reynt að kasta sér yfir og seilst í átt að bjöllunni ofan á þeim sem á gólfinu hafi verið og með aðstoð þeirra, en stefnandi hafi ákveðið að skipa sér í þann hóp. Stefnandi hafi þannig tekið fullan þátt í leiknum og ætlað að ryðjast áfram og hjálpa örðum að komast yfir þvöguna í átt að bjöllunni. Í þessum atgangi hafi stefnandi orðið fyrir meiðslum. Stefndi telji að stefnandi hafi engum þrýstingi verið beittur um að ganga til þessa leiks heldur hafi hann gert það sjálfviljugur. Hvergi sé komið fram eða sannað að hefð sé fyrir því að klukkuvörður skólans taki þátt í slagnum. Meginatriði sé að stefnandi, sem á þessum tíma hafi verið tvítugur að aldri, hafi alfarið haft um það val hvort hann tæki þátt í þessum leik nemenda. Komi auk þess fram í stefnu að stefnandi hafi afþakkað að tala til nemenda í krafti embættis síns. Sýni það að stefnandi hafi ekki verið undir kvöð um að taka þátt vegna embættis ,,inspector platearum“.

Fram komi í gögnum að margir kennarar skólans hafi haft eftirlit með þessum gangaslag og sett honum mörk og reglur. Svo virðist sem nemendur hafi ekki farið að þessum fyrirmælum og sumir verið berir að ofan og fest límband um mjaðmir sér. Ekki verði þó séð að þetta hafi valdið slysinu því fyrir liggi að stefnandi muni hafa verið á ganginum þegar einhver hafi farið yfir hann, líklegast úr stiganum. Sé þó allljóst að viðkomandi hafi farið offari. Engan veginn hafi verið fyrirsjáanlegt í augum stjórnenda skólans, í ljósi umvandana þeirra og tilmæla, að slys stefnanda hafi getað hlotist af.

Stefndi telji að starfsmenn skólans hafi brugðist hratt og vel við þegar í ljós hafi komið að stefnandi hafði meiðst. Lögð sé áhersla á að B íþróttakennari hafi flautað leikinn af um leið og óhapp virtist hafa orðið. Annar íþróttakennari, D, hafi hlúð að stefnanda úti við dyr skólans. B, sem hafi talið sig vel hæfan til að meta hvort um alvarleg meiðsl hafi verið að ræða á þessum tímapunkti, hafi talið þau minniháttar. Hafi stefnandi kvartað um í hálsi og virst fölur. Hafi rektor og íþróttakennarinn kvatt hann síðar til að hitta lækni og rektor síðar tekið af skarið um að réttast væri að aka honum á slysadeild. Engin teikn hafi hins vegar verið um að meiðsl hans hafi verið slík að kalla þyrfti til sjúkrabifreið. Hafi það ekki verið upplifun starfsfólks, stefnanda sjálfs né annarra að meiðslin væru alvarleg. Fram komi í stefnu að stefnandi hafi fengið kælingu, en íþróttakennarinn hafi látið hann fá kælipoka og tvöfalt teygjubindi um hálsinn. Rangt sé því að hann hafi verið sendur án alls stuðnings. Engar vísbendingar séu um að meiðsl stefnanda eða tjón hafi aukist við það að sjúkra­flutningamenn hafi ekki komið honum á spítala. Engin efni séu til að líta svo á að aðhlynning og ákvarðanir stafsfólks skólans eftir slysið geti hafa talist saknæm. Vangaveltur í stefnu þar að lútandi eiga sér ekki stoð, en fyrir þessu beri stefnandi sönnunarbyrði.

Stefndi byggi á því að sýkna beri þar sem ekki séu uppfyllt skilyrði til stofnunar bótaábyrgðar eftir almennum reglum, hvorki sakarreglunni né reglunni um vinnu­veitendaábyrgð. Tjón stefnanda sé að rekja til háttsemi hans sjálfs og ákvarðana. Stefnandi hafi haft fullan þroska og vit til að ákveða hvort hann tæki þátt í slagnum eða ekki. Hafi honum hlotið að vera ljóst að einhver slysahætta væri fyrir hendi þegar tápmiklir drengir í hópum hafi tekist á með þeim hætti sem tíðkað var í þessum gangaslag. Verði að leggja til grundvallar að hann hafi þekkt þennan leik gjörla og fyrirkomulag hans. Hann hafi getað haldið sér til hlés, en sjálfur kosið að taka þátt. Enginn hvatning eða þrýstingur hafi verið frá hendi skólans eða starfsmönnum hans nema síður væri. Eigi því við meginreglur hins almenna skaðabótaréttar, að menn beri tjón sitt sjálfir og að slys stefnanda hafi komið til vegna eigin sakar hans og áhættutöku. Reglur um óhappatilviljun eiga einnig við, enda hvergi til að dreifa saknæmri háttsemi starfsmanna eða stjórnenda skólans.

Þá byggi stefndi einnig á 13. kapítula Mannhelgisbálks Jónsbókar frá 1281, en þar segir: „Nú gengr maðr til leiks, fangs eða skinndráttar at vilja sínum, þá ábyrgist hann sik sjálfr at öllu, þó at hann fái mein eða skaða af.“ Ákvæðið sé enn gildandi í landslögum og eigi sérstaklega við í málinu, jafnhliða reglum um eigin sök og áhættutöku. Sé um að ræða sérstakt ákvæði, sem í reynd sé fólgið í réttarreglum seinni tíma, en fangi sérstaklega umrætt atvik og leiði til þess að stefnandi skuli bera tjón sitt sjálfur að fullu.

Þá byggi stefndi einnig á því að meginorsök slyssins hafi verið sú eftir því sem fram komi í stefnu að einhver nemenda hafi kastað sér yfir stefnanda, sparkað í hann eða farið með því offorsi sem hafi verið í trássi við tilmæli skólastjórnenda. Ef sú lýsing atvika sé rétt verði að leggja til grundvallar að orsaka fyrir tjóni stefnanda sé að leita í háttsemi hans sjálfs og þess sem kastað hafi sér yfir hópinn og lent á eða sparkaði í stefnanda. Meginorsakir slyssins hafi verið athafnir stefanda sjálfs og eftir atvikum þessa samnemanda en ekki starfsmanna sem stefndi beri ábyrgð á.

Stefndi mótmæli því að stjórn skólans, rektor og kennarar hafi sýnt af sér gáleysi í kringum þennan atburð eða með því að leyfa hann í skólahúsinu. Hefð fyrir ýmsum atburðum í menntaskólanum sé rík. Gangaslagur hafi verið tíðkaður um langt árabil og ,,tolleringar“ nýnema fari einnig fram. Þótt slys geti orðið í leikjum af þessum toga hafi stjórnendur skólans ratað þann meðalveg að banna ekki leikinn en setja honum mörk til að draga úr hættu á óhöppum. Með því að mæla fyrir um færri þátttakendur, fjölga starfsmönnum til að líta eftir leiknum og setja honum skilyrði, hafi vissulega verið gripið til eðlilegra ráðstafana. Hafi því háttsemi starfsmanna skólans hvorki verið ólögmæt né saknæm. Stjórnendur skólans hafi reynt að fylgja reglum þessum eftir, en þótt einhverjir hafi farið úr að ofan og límt bönd um sig, hafi slysið ekki orsakast af því. Af framangreindum ástæðum sé því mótmælt að alvarleg eða bráð slysahætta hafi verið fyrirsjáanleg. Í ljósi þessarar löngu hefðar og þess að stjórnendur skólans hafi þó gripu til ráðstafana til að hemja leikinn sé því mótmælt að háttsemi þeirra verði metin þeim til sakar.

Ekki sé ljóst hvaða dómafordæmi skírskotað sé til í stefnu um að skóli beri ábyrgð á öryggi nemanda, en víst sé að sú sé ekki almenn regla heldur fari eftir atvikum og aðstæðum hverju sinni. Engri ábyrgð af því tagi sé til að dreifa í þessu tilviki. Þá mótmæli stefndi því að 39. gr. laga nr. 92/2008 styðji kröfur stefnanda. Gangaslagurinn hafi byggt á þeirri hefð sem nemendur hafi haldið við um langan aldur. Ákvæði 39. gr. laga nr. 92/2008 varði ekki skaðabótaábyrgð auk þess sem tilgangur breytingar á nefndum lögum hafi stafað af hækkun sjálfræðisaldurs í 18 ár. Stefnandi hafi verið lögráða sem fyrr greini og breyti greint ákvæði því ekki að hann hafi borið ábyrgð á tjóni sínu sjálfur. Engin stoð sé fyrir því í dómaframkvæmd að ákvæði 39. gr. laga nr. 92/2008 leiði sjálfkrafa til ábyrgðar skólans eða stefnda á slysum. Þá verði hvergi séð að brotið hafi verið gegn lögum nr. 46/1980, enda ekki um slíkt vinnusamband að ræða. Sé enginn rökstuðningur fyrir þessari tilvísun í stefnu. Þá sé mótmælt að það geti rennt stoðum undir kröfur stefnanda þótt lögregla hafi ekki verið kvödd á staðinn strax til að taka út aðstæður eða yfirheyra vitni. Hafi skýrslutökur farið fram að tilhlutan stefnanda en enginn virðist hafa séð gjörla hvernig slysið hafi borið að. Meðal gagna málsins sé mynddiskur en stefnandi hafi ekki byggt á honum í stefnu eða að slysið sjáist þar. Með vísan til framangreindra málsástæðna beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

Stefndi mótmæli einnig ætluðu tjóni, einkum útreikningi þess og einstökum liðum í nokkrum atriðum. Stefndi mótmæli tekjuviðmiðun til útreiknings bóta fyrir varanlega örorku enda ekki rökstutt í stefnu eða gögnum við hvaða tekjur sé miðað. Mótmælt sé kröfu um kostnað vegna læknismeðhöndlunar og lyfja enda komi ekki fram hvað af því hafi verið greitt af almanna- eða sjúkratryggingum og hver hafi verið hlutur stefnanda. Mótmælt sé einnig kostnaði vegna kaupa á sérútbúnu rúmi, hjálpartækja vegna tölvu og sjónvarpi. Almennt sé mönnum kleift að fá til afnota sérútbúnað vegna meiðsla eða áverka sér að kostnaðarlausu eða fyrir lítið endurgjald. Af gögnum verði ekki séð að stefnandi hafi leitað þeirra úrræða vegna þessa útbúnaðar nema um tíma. Þá geti sjónvarpskaup með engu móti jafngilt bótaskyldu tjóni.

Verði ekki á sýknukröfu fallist sé krafist verulegrar lækkunar bóta. Vísi stefndi til ofangreindra málsástæðna um eigin sök og mótmæli við einstaka liðum. Byggi stefndi á því að skipta beri sök þannig að stefnandi beri stærstan hluta tjóns síns sjálfur. Vaxta- og dráttarvaxtakröfu sé mótmælt, einkum upphafstíma dráttarvaxta.

Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað vísar stefndi til XXI. kafla laga nr. 91/1991.

Niðurstaða:

Rektor Menntaskólans í Reykjavík hefur 2. febrúar 2010 ritað greinargerð vegna þess atburðar er stefnandi slasaðist í gangaslag 21. apríl 2009. Í bréfinu kemur fram að gangaslagur hafi í tíð rektors frá árinu 2001 ávallt verið undir ströngu eftirliti og sex til átta starfsmenn skólans fylgst með slagnum og verið til eftirlits. Fram kemur að einn starfsmaður skólans, oftast íþróttakennari skólans, hafi verið staðsettur neðst í stiganum með góða yfirsýn yfir átakasvæðið og verið með flautu sem hann hafi notað ef stöðva þyrfti slaginn. Aðeins hafi 50 nemendur úr 5. bekk fengið að taka þátt og 50 nemendur úr 6. bekk. Bann hafi verið sett við því að smyrja sig með olíu eða nota límbönd. Nemendur skyldu vera í bolum. Sömuleiðis hafi kennarar ásamt skólastjórnendum haft strangt eftirlit með slagnum. Rektor hafi tekið ákvörðun strax eftir slysið 2009 að fullreynt væri með gangaslaginn og yrði hann ekki haldinn oftar.

Þá hefur B íþróttakennari ritað greinargerð vegna gangaslagsins 21. apríl 2009. Í greinargerð B kemur meðal annars fram að hefðin væri sú að 6. bekkingar kæmu saman á annarri hæð Gamla skóla. Á jarðhæð væru yngri nemar að búast til varnar milli stiga og bjöllu. Oftast væru plön þannig að 6. bekkingar þytu niður, þungaviktarmennirnir fremstir og reyndu að ryðjast að bjöllunni. Léttari piltar kæmu á eftir og hentu sér ofan á hauginn þar sem félagar þeirra handlönguðu þá ofan á kösinni í átt að bjöllu með uppréttum höndum. Yngri bekkingar reyndu að varna því með því að draga 6. bekkinga út um aðaldyr að vestanverðu eða bakdyr að austanverðu eins hratt og kostur væri. Atburðarásin 21. apríl 2009 hafi verið þannig að 6. bekkingar hafi komið öskrandi niður stigann og flestir reynt að kasta sér ofan á kösina. Enginn hafi komist að bjöllunni og 6.  bekkingum kippt niður á gólf. B hafi eftir bestu getu reynt að sjá hvort nemendur kæmu standandi niður með fætur á undan til að enginn myndi troðast undir. Hafi B undirbúið 5. bekkinga þannig að gegn flautu B hafi þeir þurft að rýma miðsvæðið samstundis og draga sig út ganga eða í átt að útidyrum. Auk B hafi konrektor verið í sjónlínu nálægt aðalbjöllu en B hafi staðið í neðri þreparöð stigans. Kennari hafi staðið rétt hjá B á miðpalli stiga. Húsvörður hafi staðið við flatskjá í anddyri, annar íþróttakennari við aðaldyr. Þá hafi tveir aðrir kennarar gætt útganga. Rektor hafi ekki verið langt undan við stigaskörina á annarri hæð. Hafi eftirlitsaðilar verið ,,strategískt“ vel staðsett. Hafi 6. bekkingar hagað sér óvenjulega að því leyti að flestir hafi reynt að kasta sér ofan á þvöguna. Á eftir stefnanda hafi komið þykkir og öflugir piltar og kastað sér ofan á kösina. Í stað þess að vera handlangaðir áfram hafi þeir barist um eins og þeir væru að synda ofan á félögum sínum. Hafi B flautað að minnsta kosti tvívegis til öryggis. Hafi hann óttast að einhver gæti hafa troðist undir. Er B hafi flautað hafi átökin samstundis hætt. 

Í stefnu er vísað til myndskeiðs sem tekið var af gangaslagnum 21. apríl 2009. Myndskeið þetta er lagt fram sem gagn í málinu og horfðu dómari og lögmenn aðila á disk með því undir aðalmeðferð málsins. Á myndskeiðinu má sjá upphaf gangaslagsins. Hlaupa nemendur úr 6. bekk öskrandi niður stiga í skólanum eins og þeir séu á leið í orrustu. Eru þeir allir berir að ofan. Er stefnandi þar á meðal, en á undan honum niður stigann eru að minnsta kosti 15 nemendur. Af myndskeiði þessu sést er fyrstu nemendurnir fara að kösinni en margir þar á eftir kasta sér samstundis úr stiganum út yfir kösina. Stefnandi fer neðst í þvöguna og virðist gera sig líklegan til að komast út í kösina. Hann hverfur sjónum en á sama tíma stökkva nokkrir stæðilegir nemendur úr 6. bekk af sama stað út yfir kösina og brjótast um og sparka frá sér. Áhlaupið heldur áfram með sama móti og stökkva nemendur úr 6. bekk ítrekað út yfir kösina.   

Rektor Menntaskólans í Reykjavík hafði um árabil haft verulegar áhyggjur af gangaslag í skólanum vegna slysahættu honum samfara. Hafði hann gripið til þess ráðs að setja strangar reglur um slaginn, sem meðal annars fólust í því að nemendur máttu ekki vera berir að ofan, þeir máttu ekki bera á sig olíu eða nota límbönd til að líma yfir buxnastrengi. Þá var fjöldi nemenda í slagnum takmarkaður. Var slagurinn undir ströngu eftirliti rektors og kennara og gat íþróttakennari stöðvað leikinn hvenær sem var með flautu. Eftir atburð þann sem mál þetta á rætur sínar að rekja til tók rektor fyrir atburð þennan og hefur hann ekki verið haldinn eftir það.

Með því að setja umræddum gangaslag strangar leikreglur og hafa strangt eftirlit með honum tóku stjórnendur Menntaskólans í Reykjavík ábyrgð á því að gangaslagurinn færi eftir settum reglum. Máttu nemendur eftir það ganga út frá því að þeim reglum yrði framfylgt. Myndskeið af nefndum slag sýnir að nánast allir nemendur úr 6. bekk voru ekki í bolum, sem var brot á umræddum reglum. Þrátt fyrir það var leikurinn ekki stöðvaður af rektor, sem var á staðnum. Einnig sýna myndir á dskj. nr. 42 að einhverjir nemenda úr 6. bekk notuðu límbönd, þrátt fyrir að það væri bannað. Þá sýnir tilvitnað myndskeið stælta nemendur úr 6. bekk kasta sér úr stiga og af stigahandriði út yfir nemendur í 5. bekk. Koma þeir út yfir nemendurna í höfuðhæð. Framferði þetta var augljóslega stórhættulegt gagnvart þeim nemendum er á gólfinu stóðu þar sem mikil hætta skapaðist á því að af gæti hlotist áverkar á höfði eða hálsi. Í ljósi mikillar slysahættu hefði rektor, að mati dómsins, ekki átt að heimila að nemendur stykkju af og úr stiga út yfir höfuð annarra nemenda með þessum hætti. Verður að meta rektor skólans til gáleysis að hafa ekki stöðvað slaginn þegar nemendur fóru ekki eftir þeim reglum er settar höfðu verið og að hafa leyft nemendum úr 6. bekk að stökkva út yfir höfuð nemenda sem á gólfi stóðu. Telur dómurinn sannað að stefnandi hafi hlotið áverka þá er hann styður kröfur sínar við er stæðilegir nemendur köstuðu sér út yfir kösina. Með hliðsjón af þessu ber stefndi fébótaábyrgð á tjóni stefnanda.  

Stefnandi gekk til leiksins umrætt sinn að eigin ákvörðun þess meðvitaður að líkamleg átök myndu eiga sér stað. Þá hafði hann sjálfur ekki fylgt þeirri reglu að vera í bol. Þrátt fyrir þessi atriði var framferði nemenda 6. bekkjar skólans þegar þeir stukku út yfir samnemendur sína langt umfram það sem eðlilegt getur talist. Það gerðu þeir án þess að rektor skólans gripi inn í atburðarásina og stöðvað framferðið. Var slysahætta af þessari ástæðu mikil. Í því ljósi verður skaðabótaskylda stefnda ekki lækkuð á grundvelli eigin sakar eða áhættutöku stefnanda.

Skaðabótakrafa stefnanda er reist á matsgerð dómkvadds matsmanns og lögum nr. 50/1993. Hefur stefnandi krafist 1.800.000 króna fyrir tímabundið atvinnutjón, 201.500 króna í þjáningabætur, 1.061.820 króna fyrir varanlegan miska, 5.293.072 króna fyrir varanlega örorku og 537.196 króna í læknis-, lyfja og sjúkrakostnað. Stefndi hefur ekki mótmælt kröfuliðum um tímabundið atvinnutjón, þjáningabætur og varanlegan miska. Stefnandi hefur gert grein fyrir útreikningi á þessum kröfuliðum og gögnum að baki. Verða þeir teknir til greina eins og þeir eru fram settir.

Að því er varðar bætur fyrir varanlega örorku mótmælir stefndi tekjuviðmiði til útreiknings bótum fyrir varanlega örorku, en hann telur ekki rökstutt í stefnu eða gögnum við hvaða tekjur sé miðað. Að því er þennan kröfulið varðar kemur fram í stefnu að stefnandi hafi verið að ljúka námi við Menntaskólann í Reykjavík og sé tekjuviðmið í samræmi við það eins og fram komi í sundurliðunarblaði. Samkvæmt dskj. nr. 14 er árslaunaviðmið 2.571.500 x 17,15300 x 12,00%. Er útreikningur í samræmi við ákvæði 5. til 8. gr. laga nr. 50/1993. Samkvæmt því greiði stefndi stefnanda 5.293.072 krónur fyrir varanlega örorku.  

Að því er læknis-, lyfja- og sjúkrakostnað varðar hefur stefndi mótmælt kostnaði vegna læknismeðhöndlunar og lyfja þar sem ekki komi fram hvað hafi verið greitt af almanna- og sjúkratryggingum og hver hafi verið hlutur stefnanda. Mótmælt er kostnaði vegna kaupa á sérútbúnu rúmi, hjálpartæki vegna tölvu og sjónvarpi. Til grundvallar öllum þessum kröfuliðum liggja reikningar fyrir kostnaði. Að því er læknisskoðanir varðar liggja fyrir upplýsingar um þátt Sjúkratrygginga Íslands í þeim kostnaði, sem tekið hefur verið tillit til. Ekki kemur til þátttöku í kostnaði vegna sjúkraflutninga, sjúkraþjálfunar eða lyfjakostnaðar. Til sjúkrakostnaðar teljast hjálpartæki og annar búnaður sem tjónþoli þarf að nota tímabundið eða varanlega. Við ákvörðun bóta þarf að hafa í huga að kostnaðurinn þarf að hafa verið nauðsynlegur og sanngjarn með tilliti til aðstæðna. Stefnandi hefur lýst líðan sinni í kjölfar atburðarins 21. apríl 2009. Eftir að heim var komið sama kvöld og atburðurinn varð og næstu daga kvaðst stefnandi hafa átt mjög erfitt með að leggjast niður í rúm eða sitja uppi. Hafi hann þurft aðstoð í hvert skipti sem hann hafi þurft að hreyfa sig. Hafi hann þurft að taka verkjalyf og verið mjög þreyttur. Þá hafi hann átt erfitt með svefn. Hafi hann þurft að vera með hálskraga í 4 mánuði eftir atburðinn. Stefnandi hefur uppi kröfur vegna kostnaðar við kraga, leigu á rafmagnsrúmi og kaup á slíku rúmi, hjálpartæki fyrir tölvu og veggsjónvarp. Kostnaður vegna kraga var nauðsynlegt hjálpartæki í ljósi þeirra áverka er stefnandi varð fyrir. Fellur kostnaður vegna kraga ekki undir þátttöku Sjúkratrygginga Íslands samkvæmt reglum um hjálpartæki og greiðsluþátttöku í þeim samkvæmt bréfi Sjúkratrygginga Íslands frá 1. september 2009. Verður þessi kröfuliður tekinn til greina að fullu. Hið sama gildir um leigu og kaup á rafmagnsrúmi, en slíkt rúm var stefnanda nauðsynlegt í ljósi þess hvernig áverka hann hlaut og þeirra erfiðleika er hann hafði við að glíma varðandi hreyfingu. Má af bréfi Sjúkratrygginga Íslands frá 1. september 2009 álykta að sama gildi um þátttöku Sjúkratrygginga Íslands í kostnaði vegna leigu eða kaupa á rafmagnsrúmi og varðandi kraga. Verða þessir kröfuliðir teknir til greina. Hið sama gildir um kostnað vegna hjálpartækja við tölvu. Þá þykir sanngjarnt af tilliti til aðstæðna að stefnandi fái einnig bættan kröfulið varðandi kaup á veggsjónvarpi þar sem stefnandi var rúmfastur lengi eftir atburðinn og gat sig illa hreyft. Var sjónvarpið sett í hæð er hentaði stefnanda rúmliggjandi. Er kostnaði vegna sjónvarpskaupa auk þess í hóf stillt. Verður þessi liður einnig tekinn til greina. Samkvæmt öllu framangreindu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 8.893.588 krónur í skaðabætur, sem eru stefnukröfur málsins.

Stefndi mótmælir vaxta- og dráttarvaxtakröfu, einkum varðandi upphafstíma vaxta. Krafa um bætur fyrir sjúkrakostnað og annað fjártjón samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 50/1993 ber ekki vexti eftir 16. gr. laganna. Stefnda verður á hinn bóginn gert að greiða stefnanda vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 af þeim fjárhæðum sem stefnanda eru dæmdar vegna þessara liða í skaðabótakröfunni. Bera dæmdar skaðabætur að öðru leyti 4,5% ársvexti samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1993 frá tjónsdegi 21. apríl 2009. Kröfur um annað en læknis-, lyfja- og sjúkrakostnað eru reistar á matsgerð. Telja verður að stefnandi hafi lagt fram þær upplýsingar sem hann hafði yfir að ráða varðandi tjónsatvikið og fjárhæð bóta um aðrar skaðabætur en læknis-, lyfja- og sjúkrakostnað við framlagningu matsbeiðni í héraðsdómi. Samkvæmt því ber dæmd fjárhæð dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. ágúst 2010. Ekki verður hins vegar séð að krafa um læknis-, lyfja- og sjúkrakostnað hafi verið höfð uppi fyrr en í héraðsdómsstefnu. Af þeim hluta kröfunnar reiknast dráttarvextir frá málshöfðun 29. júní 2011, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.  

Málskostnaður fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans 750.000 krónur.  

Af hálfu stefnanda flutti málið Íris Ösp Ingjaldsdóttir héraðsdómslögmaður, en af hálfu stefnda Einar Karl Hallvarðsson hæstaréttar­lögmaður.

Dóminn kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, A, 8.893.588 krónur, með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 8.356.392 krónum frá 21. apríl 2009 til 1. ágúst 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af þeirri fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags, og hins vegar vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 af 537.392 krónum frá 21. apríl 2009 til 29. júní 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags.

Málskostnaður fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans 750.000 krónur.