Hæstiréttur íslands
Mál nr. 452/2015
Lykilorð
- Líkamsárás
- Ölvunarakstur
- Ökuréttarsvipting
- Einkaréttarkrafa
- Ómerkingu héraðsdóms hafnað
|
|
Fimmtudaginn 28. janúar 2016. |
|
Nr. 452/2015.
|
Ákæruvaldið (Stefanía G. Sæmundsdóttir saksóknari) gegn X (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.) (Arnbjörg Sigurðardóttir hrl. réttargæslumaður) |
Líkamsárás. Ölvunarakstur. Ökuréttarsvipting. Einkaréttarkrafa. Ómerkingu héraðsdóms hafnað.
X var sakfelldur fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa veist að A, þáverandi unnustu sinni, sparkað og slegið í andlit hennar og líkama ásamt því að hafa slegið hana í höfuð með kertastjaka. Hann var á hinn bóginn sýknaður af ákæru fyrir aðra sérstaklega hættulega líkamsárás. Ekki var fallist á með ákæruvaldinu að ómerkja bæri héraðsdóm sökum þess að í því tilviki hefði ekki hefði verið lagt sérstakt mat á trúverðugleika framburðar ákærða og brotaþola. Þá var ómerkingarkröfu X, vegna rangs mats á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008, einnig hafnað. Við ákvörðun refsingar X var meðal annars litið til 3. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940 en líkamsárásin, sem var hrottaleg, beindist að unnustu hans á heimili hennar. Þá var X jafnframt sakfelldur fyrir ölvunarakstur.Var refsing X ákveðin fangelsi í tíu mánuði en fullnustu sjö mánaða hennar var frestað skilorðsbundið í tvö ár, auk þess sem staðfest var niðurstaða héraðsdóms um sviptingu ökuréttar og greiðslu sektar vegna ölvunarakstursbrotsins, svo og greiðslu miska- og þjáningabóta til A.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 18. júní 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess aðallega krafist að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað hvað varðar fyrri lið ákæru ríkissaksóknara 12. mars 2014, en að niðurstaða um sakfellingu ákærða verði að öðru leyti staðfest. Til vara er þess krafist að ákærði verði sakfelldur samkvæmt fyrrnefndri ákæru auk ákæru lögreglustjórans á [...] 2. maí 2014. Í báðum tilvikum er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, en að því frágengnu að refsing hans verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi, en til vara að hún verði lækkuð.
A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 1.545.760 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. ágúst 2010 til 5. apríl 2014, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
I
Aðalkrafa ákæruvaldsins er reist á því að ómerkja beri hinn áfrýjaða dóm vegna þess ágalla á málsmeðferð að héraðsdómur hafi ekki lagt mat á trúverðugleika framburðar ákærða og brotaþola vegna sakargifta samkvæmt fyrri lið ákæru ríkissaksóknara 12. mars 2014, en með dóminum var ákærði sýknaður af þeirri háttsemi sem honum er gefin að sök samkvæmt þeim ákærulið.
Af gögnum málsins er ljóst að brotaþoli kærði ekki hina ætluðu árás 22. ágúst 2010 fyrr en 10. febrúar 2013.
Í forsendum fjölskipaðs héraðsdóms er rakið að brotaþoli hafi komið á sjúkrahúsið á [...] 22. ágúst 2010 með þá áverka sem greinir í vottorði sjúkrahússins og að þar hafi jafnframt komið fram að brotaþoli hafi sagt ákærða hafa ráðist á sig. Þá hafi hún borið á sama veg hjá félagsráðgjafa sem starfi á sjúkrahúsinu. Brotaþoli hafi einnig sagst hafa skýrt mágkonu ákærða frá atvikinu um svipað leyti, en hin síðarnefnda hafi ekki kannast við það sem vitni fyrir dómi. Yrði að skoða framburð mágkonunnar í ljósi tengsla hennar við ákærða, en engu að síður þætti, í ljósi meginreglu sakamálaréttarfars um að ákæruvaldið beri sönnunarbyrði af öllu því sem ákærða er í óhag, ekki fært að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að brotaþoli hafi tjáð sig á þennan hátt í samtali sínu og mágkonunnar. Þá hafi enginn nema brotaþoli borið fyrir dómi með vissu um að hún og ákærði hafi verið saman umrætt kvöld og lægju engin gögn fyrir í málinu sem styddu það sérstaklega. Af þessum sökum hafi ákæruvaldið ekki gegn neitun ákærða fært fram lögfulla sönnun fyrir því að brotaþoli hafi verið á heimili ákærða 22. ágúst 2010 og hlotið af hans völdum þá áverka sem í ákæru greinir.
Samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála metur dómari hverju sinni hvort nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt við broti, þar á meðal hvaða sönnunargildi skýrslur ákærða hafi, vitnisburður, skjöl og önnur sönnunargögn. Þá metur dómari það enn fremur ef þörf krefur hvert sönnunargildi þær staðhæfingar hafa sem varða ekki beinlínis það atriði sem sanna skal en ályktanir má leiða af um það, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar.
Framangreint sönnunarmat héraðsdóms ber það með sér að dómurinn hafi talið óþarft að meta trúverðugleika framburðar ákærða og brotaþola, þar sem engin gögn málsins bæru með sér að brotaþoli hefði verið á heimili ákærða það kvöld sem líkamsárás sú, sem hér um ræðir, var talin hafa átt sér stað samkvæmt ákæru. Stæðu því orð gegn orði um þetta grundvallaratriði við sönnunarmat í málinu og hafi ákæruvaldið þar af leiðandi ekki axlað þá sönnunarbyrði sem á því hvílir eftir 108. gr. áðurnefndra laga.
Í ljósi þess sem rakið hefur verið eru ekki efni til að ómerkja hinn áfrýjaða dóm af þeim sökum að ekki hafi verið lagt sérstakt mat á trúverðugleika framburðar ákærða og brotaþola. Verður þeirri kröfu ákæruvaldsins því hafnað.
Ekkert er fram komið í málinu um að niðurstaða hins áfrýjaða dóms um mat á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi sé rangt svo einhverju skipti um úrlausn málsins, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008. Af þeim sökum verður ómerkingarkröfu ákærða einnig hafnað.
II
Samkvæmt 4. mgr. 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er dómstólum heimilt, sé dæmt fyrir tvö eða fleiri brot, er annað eða sum varða fangelsi en hin sektum, að dæma sektir jafnframt fangelsi, svo sem gert var í héraðsdómi.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en fangelsisrefsingu þá, sem ákærði hlaut fyrir brot það sem hann var sakfelldur fyrir samkvæmt ákæru ríkissaksóknara. Til þyngingar refsingar ákærða fyrir það brot horfir samkvæmt 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga að brotið, sem var hrottafengið, beindist að unnustu hans á heimili hennar. Er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 10 mánuði, en fresta skal fullnustu 7 mánaða refsingarinnar skilorðsbundið eins og nánar greinir í dómsorði.
Ákærða verður gert að greiða ⅔ hluta alls áfrýjunarkostnaðar málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en fangelsisrefsingu ákærða, X. Ákærði sæti fangelsi í 10 mánuði, en fresta skal fullnustu 7 mánaða refsingarinnar og sá hluti hennar falla niður að liðnum 2 árum frá uppsögu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði greiði ⅔ hluta alls áfrýjunarkostnaðar málsins, samtals 1.153.640 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjenda sinna, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 620.000 krónur, auk útlagðs kostnaðar hans, 44.500 krónur, og Gísla M. Auðbergssonar hæstaréttarlögmanns, 124.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Arnbjargar Sigurðardóttur hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur, svo og ferðakostnað hennar, 64.900 krónur.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 12. maí 2015.
Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð þriðjudaginn 17. mars, er höfðað með tveimur ákærum á hendur X, kt. [...], [...], [...].
Fyrri ákæru gaf ríkissaksóknari út hinn 12. mars 2014 og er hún fyrir „neðangreind brot gegn fyrrum unnustu [ákærða], A, [sem ákærði hafi framið] á [...] sem hér greinir:
1. Sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 22. ágúst 2010 á ofangreindu heimili sínu að [...] veist með ofbeldi að A og sparkað ítrekað í líkama hennar og höfuð. Af þessu hlaut A bólgu yfir vinstra hluta andlits, bólgu og skrámu á nef, bólgu aftan við hægra eyra og tvær kúlur á höfuð, mar á handarbak, upp- og framhandlegg hægri handar, mar yfir vinstri axlarvöðva og á vinstri framhandlegg, mar á brjóstkassa og eymsli í hálsi og mjóbaki.
2. Sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 10. febrúar 2013, að [...], veist að A, sparkað og slegið í andlit hennar og líkama ásamt því að hafa slegið hana í höfuð með kristalkertastjaka. Afleiðingar árásarinnar urðu þær að A hlaut kúlu aftan á hnakka hægr[a] megin, á vinstri hlið höfuðs og ofan við vinstra eyra, mar aftan á baki, á vinstri upphandlegg, hægri framhandlegg, við vinstri úlnlið og aftan á hægra læri. Þá hlaut hún skurð á vinstra handarbak sem sauma þurfti saman og bólgu á varir.
Teljast brot þessi varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“ A, kt. [...], gerir þá kröfu að ákærði verði dæmdur til að greiða henni kr. 1.545.760,- í skaða- og miskabætur, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 22. ágúst 2010 til 5. apríl 2014, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Auk þessa er krafist hæfilegrar þóknunar vegna starfa réttargæslumanns að mati dómara eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts.
Síðari ákæru gaf lögreglustjórinn á [...] út hinn 2. maí 2014 og er hún „fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 10. mars 2014, ekið bifreiðinni [...], undir áhrifum áfengis (alkóhólmagn í blóði reyndist 1,99), stutta vegalengd á bifreiðastæði við afgreiðslu [...] við [...] á [...]. Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, með síðari breytingum. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar, samkvæmt 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga.“
Ákærði neitar sök. Að því er varðar síðari ákærulið í ákæru ríkissaksóknara neitar ákærði að hafa sparkað í A og neitar að hafa slegið hana með kertastjaka en viðurkennir að þau hafi tekist á og hann slegið hana, en það hafi verið í sjálfsvörn. Ákærði krefst sýknu en til vara krefst hann vægustu refsingar sem lög leyfi. Verjandi hans krefst málsvarnarlauna úr ríkissjóði.
Málin voru sameinuð.
Málavextir
Ákæra ríkissaksóknara, fyrri ákæruliður
Samkvæmt lögregluskýrslu kom A, hér eftir nefnd brotaþoli, til lögreglu 19. febrúar 2013 vegna mála sem í skýrslunni eru sögð „varða samskipti hennar og X“, ákærða í málinu. Sagði hún þá meðal annars svo frá að ákærði hefði, hinn 22. ágúst 2010, að heimili sínu í [...], sparkað í sig, svo hún hefði orðið bólgin í andliti og fengið mikla verki. Hún hefði farið á sjúkrahús eftir þetta en ekki leitað til lögreglu.
Samkvæmt vottorði úr bráðasjúkraskrá [...]sjúkrahússins á [...] kom brotaþoli þangað kl. 15:31 hinn 22. ágúst 2010. Er haft eftir henni að hún hafi daginn áður farið út að borða með unnusta sínum, þau hafi eitthvað farið að kýta og þegar heim til hans hafi verið komið hafi hann hrint henni svo hún hafi dottið í gólfið og sparkað í nokkur skipti í höfuð hennar. Um skoðun á henni segir í vottorðinu: „Hún er mjög sjokkeruð að sjá. Höfuð: Hún er greinilega bólgin yfir [vinstri] hluta andlits, sérstaklega yfir kinnbeini og fyrir framan eyra. Einnig nokkuð bólgin á nefi og það er skráma [vinstra] megin á nefi. Einnig bólga fyrir aftan [hægra] eyra og 2 aðrar kúlur á höfði. Við þreifingu á andlitsbeinum er hún mjög aum yfir [vinstri] zygomaticus og yfir [vinstri] sinus og einnig kjálka, bæði efri og neðri. Finnst vera skrítin tilfinning eiginlega báðum megin í andliti, þó ekki eins og náladofi. Það er sársaukafullt að bíta tönnum saman og getur ekki opnað munninn að fullu. Öll andlitsbein eru stabil. Ekki blóð úr eyrnagöngum. Það eru mikil eymsli þegar þreifað er yfir nefi en ekkert óstabilitet þreifast. Öll andlitsmimik eru eðlileg og sjón í lagi. [Hægri] handleggur: Það er mar ofan á handarbaki, fyllir nær allt handarbakið. Það er einnig mar dorsalt á framhandlegg og 2 á upphandlegg, þetta er allt byrjandi mar. Mjög aum við þreifingu. Þó ekki aum í olnbogalið, úlnlið eða öxl og allar þreifingar í þessum liðum eðlilegar. [Vinstri] handleggur: Það er stórt mar yfir deltoid vöðva og einnig mar dorsalt á framhandlegg. Það er í lagi með öxl, olnboga og úlnlið. Það má sjá mar á thorax, rétt fyrir neðan axilluna á bakinu [vinstra] megin. Það eru eymsli paravertebralt í hálsi, ekki bankaum yfir hryggjatindum á hálsi eða bakinu, en eymsli við þreifingu í mjóbaki og paravertebralt þar. Allar hreyfingar í baki eru þó í lagi en hún heldur mjóbakinu svolítið stífu.“ Undir vottorðið ritar B læknir.
Samkvæmt vottorði C háls-, nef- og eyrnalæknis, dags. 11 nóvember 2013, kom brotaþoli til læknisins hinn 25. október 2010, þar sem hún hefði orðið fyrir líkamsárás tveimur mánuðum áður og þá fengið högg á höfuð, andlit og háls. Í vottorðinu segir að við skoðun hafi verið að sjá „svolitla þykknun á vinstri kinn, eðlilegar andlitshreyfingar og skoðun [að öðru leyti] innan eðlilegra marka. Virtist vera með smá blóðgúl í vinstri kinn sem var að fara og hverfa en virtist ganga frekar hægt.“ Þá segir í vottorðinu að brotaþoli hafi komið í eftirlitsskoðun til læknisins hinn 11. ágúst 2011. Hafi bólga á andliti þá verið gengin niður. Áður hafi D lýtalæknir sprautað í hægri kinn hennar vegna skekkju á brosi. Við skoðun hafi komið í ljós að munnvik hægra megin hafi verið aðeins lægra, sem hugsanlega hafi verið vegna sprautunnar, en annað eðlilegt.
Samkvæmt vottorði D lýtalæknis, dags. 5. nóvember 2013, kom brotaþoli til læknisins hinn 8. ágúst 2011 og hafi þá sagst hafa fengið áverka ári áður eftir spark í andlit. Við skoðun hafi hún verið „með dýpri nasolabiallínu vinstra megin, þ.e.a.s. hrukkulínan milli vinstri kinnar og munns. Er þó ekki lömuð en áberandi er þó hve vöðvakraftur vinstri andlitshelmings er minni en hægra megin. Þar er áberandi munur og þegar hún talar er eins og munnvik séu aðeins skökk vegna sömu orsaka. Útlitslega séð er hægt að minnka þetta örlítið með því að sprauta fylliefni undir nasolabialhrukkuna til að [mýkja] þetta örlítið og það var gert“. Þá segir í vottorðinu að brotaþoli hafi hitt lækninn að nýju hinn 3. júní 2013 og hafi hún þá sagst hafa fengið spark á vinstri andlitshelming í febrúar. Við skoðun hafi verið „greinilegt að andlitið virkaði skakkt en aðallega virðist efri vör vinstra megin vera slappari þegar hún talar og hangir þar aðeins meira niður þannig að eins og tonus vöðvanna sé ekki eins mikill vinstra megin eins og hægra megin. Það er þó ekki full lömun á tauginni, hún getur brosað, hún getur talað en bara eins og vöðvatonusinn sé ekki eins mikill. Húðskyn er eðlilegt. Þegar bankað er yfir fascialis taugina, þ.e.a.s. andlitstaugina sem hefur með andlitsvöðvana að gera á þessu svæði er hún aum þar yfir vinstra megin en ekki hægra megin. Óþægindi niður eftir kinn yfir tauginni vinstra megin. Álitið var eins og fyrr að taugin sé aðeins löt, þó ekki lömuð. Erfitt að gera sér grein fyrir hvort þetta sé versnun frá því 2 árum áður eða ekki. Ekki var gerð aðgerð eða frekari meðferð planlögð en henni var ráðlagt að gefa þessu tíma enda fannst sjúklingi þessi einkenni versna við þennan seinni áverka. Erfitt er að gera sér grein fyrir batahorfum þannig að líklega er þessi taugalömun sem að hluta til virðist vera í andlitstaug varanleg, hún allavegana var til staðar 08. 08. 2011 og þegar maður skoðar sjúkling u.þ.b. 2 árum seinna virðist enginn bati hafi orðið þarna á. Geri ekki ráð fyrir að taugin nái sér eða það sé hægt með aðgerðum að lagfæra þetta. Ef hins vegar taugin verður algerlega lömuð myndi horfa allt öðru vísi við. Þá yrði hægt að gera aðgerð til að fá betri function eða leiðni í þessa taug.“
Samkvæmt vottorði E félagsráðgjafa á sjúkrahúsinu á [...] kom brotaþoli til hennar hinn 25. ágúst 2010 í kjölfar komu á slysadeild hinn 22. ágúst „í kjölfar meints ofbeldis á henni af hálfu kærasta síns“, ákærða. Hafi hún komið reglulega til félagsráðgjafans „til úrvinnslu áfalls og til að fá aðstoð við að setja nýjan ramma utan um líf sitt, þ.e. að slíta sambandi við [ákærða].“ Hafi hún sýnt sterk einkenni kvíða og hræðslu, átt erfitt með svefn og óttast viðbrögð ákærða við sambandsslitum. Henni hafi svo gengið ágætlega að slíta tengsl við ákærða, farið að vinna einhverjum vikum eftir atburðinn og í nóvember hafi hún verið farin „að geta notið lífsins betur, losa um einangrun og hitta vinkonur.“
Ákæra ríkissaksóknara, síðari ákæruliður
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu barst tilkynning klukkan 04:13 hinn 10. febrúar 2013 um hávær öskur í konu úr íbúð í [...], líklega íbúð [...]. Á vettvangi hafi brotaþoli opnað þar fyrir lögreglu og verið í miklu uppnámi, með áverka í andliti og blóðugar hendur. Á vettvangi hafi ákærði einnig verið og er haft eftir honum í frumskýrslu að þau hafi rifist og það farið úr böndunum. Var ákærði handtekinn og fluttur af vettvangi en brotaþoli flutt á slysadeild. Þá hafi ákærði verið færður á slysadeild klukkan 05:10.
Í málinu liggja fyrir ljósmyndir sem lögregla tók á vettvangi. Sjást meðal annars brotnir kertastjakar á gólfi og að glerplata á sófaborði er skökk. Þá segir að blóðblettir hafi fundist á sófa. Einnig sést á myndum blóð við eldhúsvask og á eldhúsgólfi og brotin flaska á eldhúsgólfinu. Þá sjást á myndum blóðblettir á gangi íbúðarinnar og blóðkám á svalahurð og vegg við hana, og einnig segir í gögnunum að blóðkám hafi verið á svölunum sjálfum.
Tekið var blóðsýni úr ákærða til alkóhólákvörðunar klukkan fimm um morguninn. Samkvæmt vottorði rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands mældist magn alkóhóls í sýninu 2,11. Ekki er í málinu vottfest skjal um að sýni hafi verið tekið úr brotaþola, en þess er getið í frumskýrslu lögreglu að svo hafi verið gert. Segir í yfirliti lögreglu að skjal með niðurstöðu alkóhólákvörðun taki til sýna úr báðum aðilum. Skjalið greinir tvær, annars vegar þá sem rakin hefur verið og varðar sannanlega ákærða. Hin niðurstaðan hljóðar um 1,63 og verður miðað við að hún taki til brotaþola.
Samkvæmt áverkavottorði, undirrituðu af F lækni, dags. 1. mars 2013, kom brotaþoli á bráðamóttöku hinn 10. febrúar 2013. Hafi hún þá verið „sjokkeruð að sjá“ og grátið. Hún hafi verið með kúlu aftan á hnakka hægra megin og aðra á vinstri hlið höfuðs, verið aum við þreifingu neðst á hálsi og þreifiaum „yfir paravertebral vöðva á hálsi. Getur hreyft háls í alla hreyfifleti en fær eymsli við að reigja höfuðið aftur og einnig fær hún eymsli þegar hún setur höku niður í bringu. Það er að sjá mar aftan á baki í hæð við C7 sem nær frá hægri öxl og út á þá vinstri, um 10 cm á lengd. Er um 3 cm breitt. Hún er með bólgnar varir og hefur blætt úr þeim. Er að sjá blóð í kringum munn. Útlimir: Það er að sjá mar á innanverðum upphandleggnum vinstra megin. Einnig er að sjá mar á vinstri úlnlið. Á vinstra handarbaki er skurður sem að saumaður er með 3 sporum. Einnig er að sjá á hægri framhandlegg 2 marbletti á stærð við 5 krónu peninga.“ Í vottorðinu segir einnig að hún hafi komið að nýju daginn eftir og þá hafi verið teknar Röntgen-myndir af hálsi og brjósthrygg en engir brotáverkar hafi greinst. Við skoðun hafi sést greinilegur marblettur aftan á hægra læri, um sex til sjö cm á lengd og einn í þvermál þar sem mest hafi verið. Þá hafi hún kvartað yfir „töluverðum eymslum yfir vinstra parietalsvæði og eru nokkur eymsli þar við þreifingu. Þreifast greinilega kúla þar sem hún er mjög aum. Hún er sirka 4 cm fyrir ofan vinstra eyra. Ekki eru nein merki um haematom eða mar í gegnum hárið. Einnig er hún með nokkur eymsli á bak við vinstra eyra. Hugsanlega smá punktmarblettur sem er um sirka ½ x ½ cm að stærð. Er þá aðallega aum við þreifingu. Ekki augljós merki um yfirborðsáverka. Þá er hún mjög aum í vinstri hendi þar sem hún hafði verið saumuð“. Brotaþoli hafi komið að nýju í saumatöku hinn 22. febrúar. Hafi þá verið sýking í kring um skurðsárið og hafi hún verið sett á sýklalyf í vikutíma.
Samkvæmt áverkavottorði undirrituðu af F lækni, dags. 28. febrúar 2013, kom ákærði á bráðamóttöku hinn 10. febrúar 2013. Hann hafi verið sýnilega ölvaður en sagt skýrlega frá atvikum frá sínum sjónarhóli. Skyrta hans hafi verið blóðug yfir vinstri framhandlegg. Um skoðun segir meðal annars: „Áverka var að sjá á vinstri handlegg. Það var að sjá eitt skurðsár dorsalt rétt neðan við olnboga, var grunnt örlítið gapandi. Sett var 1 spor í sárið og síðan settur steristrip plástur yfir. Annað sár var meira distalt, um 5 cm ofan við úlnlið, um 2 cm á lengd. Við fyrstu sýn virtist það ekki vera djúpt en þegar búið var að deyfa í sárið og farið var með pincettu niður þá virtist það liggja undir húðlagið. Annað sár sem lá volart virtist vera útgangsport sársins. Sett voru 2 spor í sárið dorsalt en sárið sem var volart var skilið eftir opið, lokað með steristripi. Hann var með eðlilega hreyfigetu í öllum fingrum og virtist hnífsblaðið rétt hafa aðeins farið undir húðlagið. Ekki var að sjá sinaskaða. Hann var töluvert bólginn fram á handarbak alveg upp undir kjúkur. Var þreifiaumur yfir metacarpalbeini I og II aðallega. Hann var með fulla hreyfigetu um úlnlið en töluvert verkjaður í öllum framhandleggnum. Einnig var að sjá stórt bitfar um miðjan framhandlegg lateralt. Hann var með rispur inni í hægri og vinstri lófa. Einnig var að sjá fleiðursár á hægri framhandlegg sem var plástrað. Ekki var að sjá áverka annarsstaðar á líkama.“ Síðar sama dag hafi ákærði komið í endurmat og þá verið tekin Röntgen-mynd af framhandlegg sem ekki hafi sýnt beináverka. Skoðun hafi sýnt að „distal status“ hafi verið í lagi og engin merki verið um taugaskaða. Hafi hann getað hreyft alla fingur. Enn hafi hann haft verki og bólgur eftir stungusár og bit.
Samkvæmt vottorði E félagsráðgjafa á sjúkrahúsinu á [...] kom brotaþoli til hennar í kjölfar þess að hafa leitað á slysadeild hinn 10. febrúar 2013. Hafi brotaþoli lýst því að hún hafi átt erfitt með að slíta alveg tengslin við ákærða og hafi þau tekið saman að nýju og gengið vel í fyrstu. Hafi hún komið í regluleg viðtöl hjá félagsráðgjafanum og meðferðartímabil verið frá 20. febrúar 2013 til 24. október 2014. Segir í vottorðinu meðal annars að brotaþoli hafi lýst vaxandi líkamlegri og andlegri þreytu og megi líklega rekja þau einkenni að verulegu leyti til langvarandi streitu og kvíða og hræðslu. Hafi brotaþoli sveiflast mjög tilfinningalega gagnvart ákærða og í senn haft áhyggju af honum og vitað að hún þyrfti að slíta sig frá honum. Segir svo í vottorðinu að „ítrekað ofbeldi sem [brotaþoli hafi] orðið fyrir“ hafi að mati félagsráðgjafans „klárlega sett sitt mark á konuna. Hún [lýsi] sífelldri þreytu, dofaeinkennum og skertu jafnvægi sem vel [geti] verið einkenni áfallastreitu.“
Ákæra sýslumannsins á [...]
Samkvæmt lögregluskýrslu barst hinn 10. mars 2014 klukkan 02:38 tilkynning um að ölvaður ökumaður hefði komið að bifreiðastöðinni [...] á bifreiðinni [...] og væri vitni að akstrinum, G. Ökumaður hefði hlaupið frá stöðinni þegar hann hafi orðið þess var að hringt var á lögreglu. Er lögregla hefði verið á leið á vettvang hefði hún orðið vör við mann á hlaupum við [...]götu [...] og hafi hún þekkt hann sem ákærða. Hafi hann verið hlaupinn uppi og handtekinn og hafi kveikjuláslyklar bifreiðarinnar fundist í vasa hans. Segir í skýrslunni að ákærði hafi verið „margsaga um hvort hann hefði ekið bifreiðinni eða ekki“, og hafi hann borið öll merki ölvunar við handtökuna. Tvívegis var tekið blóð úr ákærða til rannsóknar, klukkan 03:15 og klukkan 04:45. Samkvæmt vottorði rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands mældist alkóhól 1,99 í fyrra sýni en 1,55 í hinu síðari.
Tekin var skýrsla af ákærða eftir handtökuna og neitaði hann þá að tjá sig um sakarefnið.
Hinn 11. apríl 2014 gaf ákærði skýrslu hjá lögreglu og sagði þá að vinur sinn, H, hefði ekið bifreiðinni frá heimili ákærða og að leigubifreiðastöðinni.
Hinn 14. apríl 2014 gaf H skýrslu hjá lögreglu. Kvaðst hann hafa ekið bifreið ákærða þessa nótt frá heimili ákærða og að leigubifreiðastöðinni. Hefði hann skilið bifreiðina þar eftir og farið þaðan gangandi.
Skýrsla ákærða og framburður vitna fyrir dómi
Ákæra ríkissaksóknara, fyrri ákæruliður
Ákærði sagði samband sitt og brotaþola hefði verið mjög gott, en stormasamt. Áfengisneysla hefði valdið vandamálum í sambandinu og ættu þar bæði sök. Væri brotaþoli mjög skapbráð og hefði gert margt á hlut ákærða, sem ekki hefði farið lengra. Sjálfur ætti hann enga ofbeldissögu og hefði aldrei lagt hendur á nokkurn mann. Hann hefði hins vegar oft þurft að verja sig þegar brotaþoli hefði fengið „bræðisköst“. Sambandið hefði varað í um níu ár, en þau hefðu aldrei átt sameiginlegt heimili, þótt slíkt hefði stundum komið til tals. Sambandinu væri nú lokið, þótt ákærði gæti ekki nefnt ákveðna dagsetningu í því samhengi. Síðast hefðu þau verið saman sem par, fyrir hálfu ári, eða svo.
Spurður um þetta kvöld sagðist ákærði ekki muna hvort þau brotaþoli hefðu farið saman út þá, en sagði engin gögn málsins styðja að hún hefði verið hjá sér um kvöldið. Áverkar sem hún hefði verið með daginn eftir, væru ekki af sínum völdum.
Brotaþoli sagði samband þeirra ákærða hafa staðið í átta ár eða svo, og hafa verið stormasamt, tilfinningaríkt og flókið. Víndrykkja, afbrýðisemi og misskilningur hefði spillt fyrir þeim. Bæði hefðu neytt áfengis en ákærði þó í meira mæli en hún.
Spurð um fyrri ákæruliðinn sagði brotaþoli að þau hefðu farið út að borða og eftir það á skemmtistað þar sem þau hefðu verið langt fram eftir nóttu. Þar hefði hún dansað tvo eða þrjá dansa við annan mann, en hætt því þegar vinkona sín hefði bent sér á að ákærði hefði staðið reiður á dansgólfinu með kreppta hnefa. Brotaþoli hefði þó ekki tekið því neitt alvarlega því kvöldið hefði verið búið að vera „mjög skemmtilegt“. Þau hefðu farið með leigubifreið heim til hans og strax í forstofunni hefði hafist rifrildi og ákærði fljótlega hrint sér í gólfið og byrjað að sparka í sig, fyrst í hliðina, í kring um brjóstkassa og út á handlegg, en svo í höfuðið margoft. Brotaþoli hefði farið inn í herbergi ákærða og læst að sér, en hann hefði átt lykil og hefði opnað og komið inn og þar haldið áfram um stund. Kvaðst brotaþoli ekki muna frekar eftir sér fyrr en hún hefði vaknað í rúmi í herberginu daginn eftir. Hefði hún farið heim til sín, lagt sig en ákveðið eftir það að fara á sjúkrahús vega verkja, einkum höfuðverkja.
Brotaþoli sagðist hafa hringt í mágkonu sína, vitnið I, og sagt henni hvað gerst hefði. Hefði mágkonan komið til brotaþola sama dag eða daginn eftir og séð áverkana.
Brotaþoli sagði að ákærði hefði oft komið til sín dagana eftir þetta og viljað „gera allt til þess að laga þetta“ og hefði meðal annars séð um innkaup fyrir hana. Hann hefði sýnt henni „fram á það að hann var sjálfur ekki ánægður með það sem gerðist“, og hefði það átt þátt í því að hún hefði ákveðið að kæra atvikið ekki til lögreglu.
Vitnið I, mágkona ákærða, var spurð hvort hún hefði talað við brotaþola í ágúst 2010. Kvaðst hún hafa farið tvisvar og talað við hana, en ekki muna hvenær það hefði verið nákvæmlega. Þá kvaðst hún ekki muna orðaskiptin nákvæmlega, en þær hefðu rætt deilur sem verið hefðu milli ákærða og brotaþola og áfengisneyslu þeirra. Hefði vitnið sagt að skoðun sín væri „að þau ættu að hætta því, en nákvæmlega hvað okkur fór á milli man ég ekki“. Vitnið sagðist ekki hafa séð áverka á brotaþola og ekki muna til þess að brotaþoli hefði sagt við sig að ákærði hefði lagt hendur á hana. Nánar spurð neitaði hún að brotaþoli hefði sagt að orðið hefðu átök þar sem hún hefði meiðst. Brotaþoli hefði sagt sér að hún væri þreytt og vansvefta, og það hefði ekki leynt sér, auk þess sem hún hefði eflaust glímt við eftirköst áfengisneyslu og verið útgrátin. Ekki hefðu verið, vitninu vitanlega, átök milli ákærða og brotaþola, en vitnið tók fram að það hefði ekki verið daglegur gestur hjá þeim.
Vitninu voru sýndar myndir af brotaþola, sem liggja fyrir í málinu, og sagði vitnið að brotaþoli „hefði verið vansvefta, útgrátin og örugglega verið timbruð eftir fyllerí, en svona var hún ekki.“
Vitni J, sonur ákærða, kvaðst hafa átt heima hjá föður sínum í mörg ár, fram á árið 2011. Herbergi vitnisins hefði verið við hliðina á innganginum í húsið og hefði hann því tekið eftir mannaferðum í og úr húsinu. Vitnið sagði að í ágúst 2010 hefði hann verið að vinna síðari hluta dags en almennt verið mjög mikið heima á kvöldin. Sagðist vitnið hafa verið heima umrætt kvöld og vísaði til þess að á þessum tíma hefði það sofið heima hjá sér allar nætur og hefði hvergi annars staðar getað verið. Hann hefði verið heima eiginlega hvert einasta kvöld að spila tölvuleiki. Kvaðst vitnið ekki kannast við að nein átök hefðu orðið milli ákærða og brotaþola á þessum tíma.
Vitnið K vinnufélagi brotaþola kvaðst muna eftir því að hafa hitt ákærða og brotaþola í nokkur skipti saman á [...]. Hugsanlega hefði eitt skiptið verið í ágúst 2010. Kvaðst vitnið muna eftir því að ákærði hefði orðið afbrýðissamur vegna þess að brotaþoli hefði dansað við annan mann og hefði vitnið þá sagt við hana „að það væri kannski sniðugt hjá henni að hætta að dansa við hann.“
Vitnið B læknir staðfesti vottorð sitt. Vitnið sagði þá áverka sem brotaþoli hefði verið með hefðu getað komið heim og saman við frásögn hennar. Batahorfur hefðu verið góðar. Hugsanlega yrðu slíkir áverkar til þess að menn misstu daga úr vinnu, en ekki marga.
Vitnið E félagsráðgjafi sagði brotaþola hafa leitað á slysadeild sjúkrahússins í ágúst 2010 og í framhaldi af því hefði henni verið vísað til vitnisins. Þeirra fyrsta viðtal hefði verið 25. ágúst og þá hefði sést á andliti brotaþola og eitthvað á höndum hennar, að því er vitnið minnti. Fyrst og fremst hefði brotaþola verið brugðið og hún verið skelkuð. Hefði brotaþoli viljað fá aðstoð við að slíta sambandinu, sem hún hefði verið í lengi. Brotaþoli hefði verið í viðtölum við vitnið fram yfir næstu áramót og þá verið komin „á góða leið“, ef svo mætti segja. Hefði brotaþoli sýnt ýmis einkenni sem þekktust hjá konum sem átt hefðu í ofbeldisfullu sambandi.
Ákæra ríkissaksóknara, síðari ákæruliður
Ákærði tók fram að hann myndi atvikið ekki í smáatriðum, enda hefði hann verið ölvaður og þau brotaþoli bæði. Þá hefðu allt gerst hratt, þegar í íbúð brotaþola hefði verið komið. Þau hefðu farið saman í matarboð í heimahús um kvöldið, en eftir það á [...]. Þaðan hefðu þau farið með leigubifreið heim til hennar. Þar hefðu þau fljótlega farið að þrasa og hún tekið upp vasahníf, svo sem hún væri vön. Ákærði hefði þá orðið hræddur, enda hefði hún stungið hann áður, og reynt að ná af henni hnífnum. Sá leikur hefði eitthvað borist um íbúðina en að lokum hefði hann náð af henni hnífnum, en áður hefði hann fengið þrjú sár á hendina, þar af eitt í gegn. Þá hefði brotaþoli reynt að stinga hann í bakið. Ákærði hefði tekið utan um brotaþola, til þess að róa hana, en þá hefði hún bitið hann í hendina og hefði hann borið tannaför eftir í hálfan mánuð. Eftir þetta hefði „leikurinn [borist] þarna eitthvað um húsið og endirinn er sá að við dettum um eitthvert tréborð inni í stofunni, sem var með glerplötu, og á því voru einhverjir kertastjakar sem náttúrulega duttu niður og brotnuðu“. Eftir þetta hefði ákærði náð að róa brotaþola, en hún hefði tekið síma og hringt á lögreglu. Ákærði hefði tekið af henni símann, enda hefði sér fundist lögreglan búin að koma „nógu oft“ til þeirra. Ákærði hefði farið í yfirhöfn sína og byrjað að þurrka upp blóð af gólfinu en þá hefði lögreglu borið að garði og hún handtekið ákærða. Fossblætt hefði úr höndum ákærða en hann hefði samt verið fluttur í fangageymslu en brotaþola verið ekið á sjúkrahús.
Ákærði var spurður hvort hann hefði getað flúið úr íbúðinni en sagðist ekki hafa átt möguleika á því. Brotaþoli hefði reynt að stinga sig í bakið og væru göt á baki skyrtu hans eftir það. Leðurjakkinn sem hann hefði verið í væri hins vegar heill, enda hefði hann farið úr honum þegar hann kom inn í íbúðina. Á sjúkrahúsinu um nóttina hefði bakið ekkert verið skoðað og því væru ekki til læknisfræðileg gögn um áverka á bakinu, sem hefðu bæði verið eftir stungu og klór.
Brotaþoli sagði þau ákærða hafa farið út um kvöldið, en í leigubifreiðinni heim til hennar á eftir hefði ákærði sagt að hún hefði verið „mjög köld við hann“ þetta kvöld. Hefði hún þá sagt honum að koma ekki með sér inn heldur fara heim til sín. Hefði hún svo yfirgefið bifreiðina og farið ein inn til sín. Þegar hún hefði verið komin inn hefði ákærði fljótlega knúið dyra og það fast og hún þá ákveðið að opna svo „hann myndi ekki gera eitthvað“. Þegar hún hefði opnað hefði hann sparkað beint framan í hana og aftur þegar hún hefði legið í gólfinu. Hún hefði reynt að slá til baka og reynt að losa sig við hann. Þessar ryskingar hefðu borist um alla íbúðina og í eitt skipti, er ákærði hefði haldið um höfuð hennar, hefði hún bitið hann. Hefði hann þá byrjað að „láta höggin dynja“ og þau þá verið komin í stofusófann. Hefði hann þá meðal annars barið sig í höfuðið með kristalskertastjaka. Hún hefði tekið stálkertastjaka og ætlað að verja sig með honum, en ákærði tekið hann af henni. Þá hefði hún hlaupið til að ná í síma en ákærði einnig tekið hann af henni. Loks hefði hún náð í lítinn hníf til að ógna ákærða með, en ákærði einnig náð honum. Hún sagðist ekki muna til þess að hafa reynt að stinga ákærða með hnífnum, en hún hefði otað hnífnum að honum til að halda honum frá sér. Ákærði hefði þá verið „með hendurnar úti um allt til þess að reyna að taka hann af“ brotaþola. Hefði hann getað fengið stungusár vegna þess. Hún kvaðst ekki muna til þess að hafa reynt að stinga ákærða í bakið. Nánar spurð hvort verið gæti að hún hefði hlaupið á eftir ákærða og stungið hann í bakið sagði hún að það gæti verið, en hún myndi ekki eftir því.
Brotaþoli sagði að lögregla hefði komið einni til tveimur mínútum eftir að átökunum hefði lokið.
Vitnið L, sem heima á í annarri íbúð fyrir ofan íbúð brotaþola, kvaðst hafa tilkynnt atvikið til lögreglu. Vitnið hefði vaknað um nóttina við „gríðarlegan hávaða“ úr íbúð brotaþola og skruðninga í húsgögnum. Þá hefði hún heyrt „óhljóð“ í konu, frekar væl en öskur. Ekki hefði heyrst í karlmanni. Ekki hefði farið milli mála að þarna hefði ofbeldi verið haft í frammi.
Vitnið sagði að sér hefði fundist lögregla lengi á leiðinni og hefði ætlað að hringja til hennar aftur, þegar hún hefði komið. Hefði hún svo séð lögreglu fylgja ákærða á brott.
Vitnið M leigubifreiðarstjóri kvaðst hafa ekið ákærða og brotaþola á heimili brotaþola í febrúar 2013. Hefði vitninu fundist framkoma brotaþola við ákærða á leiðinni vera „dálítið leiðinleg“. Nánar spurt vísaði vitnið til þess að tónninn í tali hennar hefði verið „fráhrindandi“ og hún „æddi nú út á undan manninum á meðan hann er að gera upp [...] ökugjaldið“. Vitnið kvaðst ekki hafa heyrt í ákærða á leiðinni.
Vitnið N lögregluþjónn sagði brotaþola hafa opnað fyrir lögreglunni og þá verið blóðug, hrædd og lítið getað tjáð sig. Ákærði hefði verið á staðnum og að þrífa blóð af gólfi, æstur og hefði hreytt einhverju í lögregluna. Hefði strax verið ákveðið að handtaka hann og færa af vettvangi. Staðfesti vitnið skýrslu sína en kvaðst ekki muna nú hvaða orð hefðu farið milli manna á vettvangi.
Vitnið O lögregluþjónn sagðist hafa komið á vettvang, en þá hefðu aðrir lögregluþjónar þegar verið komnir. Hefði ákærði þá verið að þrífa gólfið, sem hefði verið svolítið blóðugt, en brotaþoli hefði setið eða legið á gólfinu og verið í uppnámi. Ákærði hefði ekki verið æstur en „hundfúll“ vegna komu lögreglu og sagt um einkamál þeirra að ræða. Hefði honum orðið tíðrætt um að brotaþoli væri blóðheit og erfið. Ákærði hefði verið fluttur á lögreglustöðina og þegar hann hefði þar verið færður úr leðurjakka sínum hefði komið í ljós að hann hefði verið talsvert blóðugur á annarri hendi og með stungusár þar, en einnig klór- og bitför. Þá hafi ákærði verið með þrjá síma á sér og sagt að einn væri hans sjálfs, annar væri gsm-sími brotaþola og þriðji heimasími hennar. Gsm-sími brotaþola hefði verið brotinn í tvennt.
Vitnið sagði að ákærði hefði sagt að brotaþoli hefði ráðist að sér mér hníf.
Vitnið P rannsóknarlögreglumaður sagðist hafa fengið skyrtu ákærða í hendur við rannsókn málsins. Skyrtan hefði verið blóðug á ermum. Vitnið kvaðst hafa séð lítið gat á skyrtunni, milli herðanna, en þar hefði ekkert blóð verið að sjá. Hefði vitnið fengið ákærða til sín til að athuga hvort eitthvað væri að sjá á honum sem skýrt gæti gatið. Vitnið hefði skoðað bak ákærða en þar hefði ekkert verið að sjá sem tengst gæti gatinu á skyrtunni, hvorki sár né hrufl. Vitnið kvaðst ekki muna hvenær þetta hefði verið gert, það hefði verið einhverjum dögum eftir atvikið, en ekki mörgum. Vitnið kvaðst ekki muna hvort þá hefði verið tekin skýrsla af ákærða.
Vitnið R, bróðir ákærða, sagðist hafa verið viðstaddur er kona sín, vitnið I, hefði tekið sauma úr hendi ákærða. Hefði ákærði sagt brotaþola hafa stungið sig. Þá hefði ákærði kvartað yfir kláða á baki og hefði vitnið skoðað bakið og séð „smá áverka“ á því ofarlega, rétt fyrir neðan hnakka.
Vitnið sagðist hafa farið heim til brotaþola í febrúar 2013, að beiðni fyrrverandi tengdaföður hennar. Hún hefði þá verið með marbletti og hefði gefið þá skýringu að ákærði hefði ráðist á sig.
Vitnið I, mágkona ákærða, sagðist hafa séð áverka á ákærða eftir hníf. Hún hefði tekið sauma úr hendi hans en þeir hefðu komið til af hnífstungu frá brotaþola, að því er ákærði hefði sagt. Hún kvaðst ekki muna nákvæmlega hvenær þetta hefði verið.
Vitnið E félagsráðgjafi bar að brotaþoli hefði komið á slysadeild í febrúar 2013 og í framhaldi af því til vitnisins. Hefði þá verið liðinn langur tími frá því þær hefðu hist síðast. Vitnið staðfesti vottorð sitt en að öðru leyti þykir ekki sérstök ástæða til að rekja framburð þess frekar hér.
Vitnið D lýtalæknir kvaðst hafa skoðað brotaþola í ágúst 2010. Skoðunin og frásögn brotaþola gætu komið heim og saman. Vitnið kvað mun hafa verið á hægri og vinstri andlitshelmingi og áberandi minni vöðvanotkun í vinstri kinn eða í kring um vörina. Brotaþoli hefði komið aftur til sín í júní 2013 og þá hefði vitninu fundist vera meiri dofi og vöðvi við efri vör slappari en áður. Spurður um batahorfur sagði vitnið að það tæki taugar allt að tveimur árum að verða betri, en eftir það yrði yfirleitt ekki frekari bati. Hafi ástand brotaþola í júní 2013 verið vegna áverka sem hún hafi fengið í febrúar sama ár, mætti geri ráð fyrir að ástandið hafi þá átt eftir „að skána eitthvað“.
Vitnið C læknir staðfesti vottorð sitt.
Vitnið F læknir staðfesti vottorð. Hún kvað áverka á brotaþola geta komið heim og saman við sögu hennar. Brotaþoli hefði þurft að vera með sauma í tíu daga og þurft að vera frá vinnu allan þann tíma, og væntanlega lengri tíma hafi hún fengið sýkingu. Sár ákærða í lófa gætu komið heim og saman við að hann hafi tekið um hnífsblað til að reyna að ná hníf. Hún kvaðst ekki muna hvort hún hefði skoðað bak ákærða en það hefði verið bókað ef hann hefði borið um stunguáverka á baki.
Vitnið S, BA í sálfræði, kvaðst hafa verið „meðferðaraðili“ ákærða í nokkur ár en auk þess hefðu þau þekkst í 24 ár. Aðstoðaði hún ákærða sem vinur hans. Vitnið sagðist hafa séð umbúðir á baki ákærða eftir stungusár, en ekki muna hvenær það hefði verið.
Ákæra lögreglustjórans á [...]
Ákærði sagðist hafa verið heima hjá sér þegar vinur sinn, H, hefði komið í heimsókn á eigin bifreið. Ákærði hefði verið búinn að mæla sér mót við tiltekinn bifreiðastjóra á [...] og hefði H ekið sér þangað á bifreið ákærða, en skilið eigin bifreið eftir heima hjá honum. Þegar á leigubifreiðastöðina hefði verið komið, hefði ákærði stigið úr bifreiðinni og farið í afgreiðsluna. Bifreið sín hefði verið skilin eftir við stöðina en H gengið leiðar sinnar, en hann hefði þá átt heima þar skammt frá. Bifreiðarstjóri sá, sem ákærði hefði ætlað að finna, hefði verið nýfarinn af stöðinni svo ákærði hefði gengið burt og ætlað á eftir H. Þegar hann hefði verið kominn í námunda við [...], sem væri um áttatíu metra frá leigubílastöðinni, hefði lögreglan komið og tekið hann fastan.
Ákærði sagði að til væru þrjú eintök af lyklum að bifreið sinni. Sjálfur hefði hann eitt, dóttir sín annað og H hefði þarna verið með það þriðja.
Ákærði var spurður hvers vegna hann hefði ekki sagt lögreglu að H hefði ekið bifreiðinni en ekki hann sjálfur, og sagði það vera vegna þess að hann „treysti ekki lögreglunni fyrir húshorn“. Þar að auki ætti lögreglan ekki að yfirheyra drukkna menn.
Ákærði kvaðst efast um að leigubifreiðarstjóri sá, sem hefði sagst hafa séð hann aka bifreið sinni, hefði séð það í raun. Þarna hefði verið niðamyrkur og filmur fyrir rúðum. Kvaðst ákærði ekki muna til þess að bifreiðastjórinn hefði verið úti á plani, enda væri síminn á [...] með snúru sem byði ekki upp á slíkt.
Vitnið G leigubifreiðarstjóri kvaðst hafa verið á næturvakt á [...] umrædda nótt. Afgreiðslan væri jafnan læst að nóttu en knúið hefði verið dyra og vitnið hleypt komumanni inn. Þar hefði ákærði verið á ferð og kvað vitnið engan vafa leika á því, þeir væru jafnaldrar og vitnið hefði kannast við hann í þrjátíu til fjörutíu ár. Ákærði hefði viljað vín en vitnið sagst ekki hafa það í boði. Eftir stuttar viðræður þeirra um þetta hefði ákærði farið út. Fyrir utan hefði bifreið staðið og ákærði opnað dyr hennar og sest undir stýri. Vitnið hefði hugsað með sér að ákærði væri ölvaður og hefði farið á eftir honum, „[rifið] upp hurðina og [sagt]: þú ferð ekkert á þessum bíl, nú hringi ég bara á lögregluna.“ Þá hefði ákærði fært bifreiðina fyrir húshornið og komið svo gangandi til vitnisins og beðið hann um að hringja ekki á lögregluna. Vitnið hefði svarað því til að hann liði engum að aka ölvaður en þá hefði ákærði ætt af stað og gengið yfir götuna. Vitnið hefði náð sambandi við lögreglu og lýst ferðum ákærða. Ákærði hefði komið að nýju til vitnisins og endurtekið ósk sína um að ekki yrði hringt á lögreglu en vitnið hefði svarað því til að hann væri þá með lögregluna í símanum. Ákærði hefði þá tekið „á strauið aftur yfir götuna og milli húsa og í áttina að [...]“ en vitnið áfram verið í sambandi við lögreglu. Skömmu síðar hefði vitnið séð glampa af bláum ljósum og lögreglumann á hlaupum og séð lögreglu taka ákærða fastan við [...]. Lögreglan hefði svo komið með ákærða til vitnisins og spurt hvort væri ökumaðurinn, og hefði vitnið staðfest það.
Vitnið sagði að enginn hefði verið með ákærða í bifreiðinni og enginn þar nálægt.
Vitnið sagði að sú vegalengd sem ákærði hefði ekið að sér ásjáandi hefði ekki verið löng, tveir til þrír metrar.
Vitnið sagði að stæði það, sem ákærði hefði lagt bifreið sinni í, væri eingöngu ætlað leigubifreiðum. Stæðið væri ekki merkt þeim sérstaklega en þetta vissu allir.
Vitnið T lögregluþjónn sagði tilkynningu hafa borist um ölvaðan ökumann við [...]. Lögreglan hefði hraðað sér þangað og séð þá mann á ferli milli [...]götu [...] og [...]. Kallað hafi verið til hans en hann þá hlaupið undan. Annar lögregluþjónn, U, hefði stokkið úr bifreiðinni og farið á eftir manninum, sem hefði verið handtekinn skammt frá. Þeir hefðu farið með hann á [...] þar sem tilkynnandi hafi staðfest að hinn handtekni væri ökumaðurinn. Maðurinn hefði verið með lykil bifreiðarinnar á sér.
Vitnið sagðist ekki muna hvort maðurinn hefði sagt að einhver annar hefði ekið bifreiðinni eða nefnt vitnið H á nafn. Slíkt hefði þá verið skráð í skýrslu.
Vitnið U lögregluþjónn lýsti aðdraganda handtöku ákærða með sama hætti og vitnið T. Vitnið sagði að ákærði hefði ekki gefið skýra frásögn við handtökuna og fyrst sagt að hann hefði ekki ekið bifreiðinni en svo sagst hafa verið á henni, en frásögnin hefði aldrei orðið heildstæð. Vitnið tók þó fram að langt væri um liðið.
Vitnið H kvaðst hafa farið heim til ákærða þetta kvöld og þá verið á eigin bifreið. Eftir um tveggja klukkustunda veru þar hefði hann ekið ákærða þaðan, á bifreið hans, að bifreiðastöðinni [...]. Hefði vitnið lagt bifreiðinni vestan megin við afgreiðslu [...]. Þetta hefði vitnið gert að beiðni ákærða sem hefði ætlað að hitta einhvern bifreiðastjóra að máli. Þeir ákærði hefðu skilið á planinu við bifreiðastöðina og er vitnið hefði gengið burt hefði hann séð ákærða ganga að dyrunum. Á þessum tíma hefði vitnið átt heima í [...] og hefði gengið þangað en skilið bifreið ákærða eftir. Ákærði hefði viljað hafa þennan hátt á, og hann hefði átt bifreiðina, svo vitnið hefði ekki andmælt því. Vitnið hefði svo farið með frænda sínum daginn eftir og vitjað bifreiðar sinnar heima hjá ákærða.
Vitnið sagði að það stæði, sem hann hefði lagt í, væri eingöngu ætlað leigubifreiðum. Hann hefði hins vegar lagt þar, þar sem hann hefði séð að bifreiðin yrði ekki fyrir neinum þarna og hann hefði talið í lagi að hún yrði þar til morguns. Vitnið hefði notað varalykla að bifreiðinni og tekið þá með sér eftir aksturinn.
Niðurstaða
Ljóst er að brotaþoli kom á sjúkrahúsið á [...] hinn 22. ágúst 2010 og var þá með þá áverka sem í vottorði eru greindir. Þá er ljóst af vottorði að hún hefur þá borið að unnusti hennar hafi ráðist á sig. Hún hefur borið á sama veg við félagsráðgjafa er starfar á sjúkrahúsinu. Hún kveðst einnig hafa tjáð mágkonu ákærða þetta sama í samtali um svipað leyti, en mágkonan kannaðist ekki við það er hún bar vitni fyrir dóminum. Framburð mágkonunnar verður að skoða í ljósi tengsla hennar og ákærða en engu að síður þykir, í ljósi meginreglu sakamálaréttarfars um að ákæruvaldið beri sönnunarbyrði af öllu sem ákærða í óhag, ekki fært að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að brotaþoli hafi tjáð sig á þennan hátt í samtali þeirra.
Ákærði neitar sök og kveður ósannað að brotaþoli hafi verið á heimili hans umrætt kvöld. Sonur hans kvaðst fyrir dómi hafa verið heima og ekki hafa orðið var við nein átök. Framburð hans verður að meta í ljósi tengsla hans við ákærða og þess að vel á fimmta ár er liðið frá þessum tíma.
Óumdeilt er að ákærði og brotaþoli fóru ósjaldan út að skemmta sér saman. Hins vegar hefur enginn nema brotaþoli borið fyrir dómi af vissu um að þau hafi verið saman umrætt kvöld. Engin gögn liggja fyrir í málinu sem veita því atriði sérstakan stuðning. Þegar á allt er horft þykir dóminum sem ákæruvaldinu hafi ekki tekist að færa fram lögfulla sönnun fyrir því, svo hnekkt geti neitun ákærða, að brotaþoli hafi verið á heimili ákærða aðfaranótt 22. ágúst 2010 og þar fengið af hans völdum þá áverka sem taldir eru upp í ákæru. Verður því að sýkna ákærða af fyrri ákærulið í ákæru ríkissaksóknara.
Enginn vafi er hins vegar á að til átaka kom milli ákærða og brotaþola aðfaranótt sunnudagsins 10. febrúar 2013. Telja má sannað að hvort um sig hafi fengið þá áverka sem í vottorðum greinir.
Skyrta ákærða var sýnd í réttinum og var lítið gat á baki hennar. Hins vegar sá P rannsóknarlögreglumaður, sem sérstaklega kallaði ákærða á sinn fund í framhaldi af því að hafa tekið eftir gatinu á skyrtunni, engin merki um ákomu á baki ákærða. Í læknisvottorði um skoðun á ákærða eftir atvikið er hvorki minnst á áverka á baki né á að hann hafi sagt frá stungu í bakið. Þykir í þessu ljósi ekki verða byggt á að hann hafi fengið stungu í bakið í átökunum, og þykir framburður bróður hans og vitnisins S engu breyta um þessa niðurstöðu.
Ákærði kveðst hafa verið í sjálfsvörn. Fyrir liggur að brotaþoli freistaði þess í átökunum að hringja til lögreglu en ákærði tók af henni síma. Lögregla fann á honum tvo síma brotaþola og var annar brotinn. Ákærði kvaðst fyrir dómi hafa hindrað hana í að hringja á lögreglu þar sem sér hefði fundist lögregla búin að koma nógu oft til þeirra. Sú staðreynd að brotaþoli reyndi að kalla á lögreglu en ákærði hindraði það, mælir gegn því að hann hafi átt hendur sínar að verja fyrir árásum brotaþola. Verður að telja almennar líkur á því að það sé fremur árásarþoli en árásarmaður sem vilji fá lögreglu á vettvang.
Vitnið L kvaðst hafa heyrt úr íbúðinni „óhljóð“ í konu og lýsti „óhljóðunum“ sem væli frekar en öskrum. Hún hefði hins vegar ekkert heyrt í karlmanni.
Ljóst má telja að brotaþoli hafi á einhverju stigi átakanna haft hníf í hönd og ákærði fengið áverka af honum, en sjálf segist hún hafa otað honum að ákærða í varnarskyni. Ber þeim ákærða saman um að hann hafi tekið af henni hnífinn. Ákærði hlaut stungusár á hönd og rispur í báða lófa og þykja áverkarnir geta komið heim og saman við þessa frásögn.
Að mati dómsins var framburður brotaþola trúverðugur en á hinn bóginn þykir í ljósi framanritaðs ekki trúverðugt að hún hafi ráðist á ákærða sem hafi síðan verið í sjálfsvörn. Þykir verða að leggja framburð brotaþola til grundvallar og telja ákærða sannan að sök samkvæmt síðari ákærulið, en háttsemi hans er í ákærunni rétt færð til refsiheimildar.
Loks er ákærða gefið að sök að hafa ekið bifreið sinni undir áhrifum áfengis stutta vegalengd.
Vitnið G leigubifreiðarstjóri bar fyrir dómi að ákærði, sem vitnið hefði kannast við um áratuga skeið, hefði komið á leigubifreiðastöðina, falast þar eftir áfengi, en eftir að hafa verið tjáð að það væri ekki í boði, farið í bifreið sína og ekið henni spölkorn. Fyrir liggur að vitnið hafði samband við lögreglu og bar kennsl á ákærða þegar hann hafði verið handtekinn þar skammt frá, stuttu síðar. Framburður vitnisins var mjög trúverðugur.
Fyrir liggur að ákærði var handtekinn skammt frá bifreiðastöðinni og var hann þá með kveikjuláslykil að bifreiðinni í fórum sínum. Nefndi ákærði ekki við lögreglu þá um nóttina að vinur sinn, H, hefði í raun ekið bifreiðinni, en telja verður líkur á því að maður, sem handtekinn er fyrir ölvunarakstur, upplýsi lögreglu um það ef hann veit til þess að annar maður hafi í raun verið ökumaðurinn. Fyrir dómi vísaði ákærði til þess að hann treysti lögreglunni alls ekki og hefði því ekki tjáð sig um þetta við hana um nóttina, auk þess sem alls ekki ætti að yfirheyra ölvaða menn. Hvað sem um þessi atriði má segja þykir ekki verða horft fram hjá því að ákærði nefndi H ekki sem raunverulegan ökumann, þegar lögreglan handtók hann og færði á lögreglustöð grunaðan um ölvunarakstur.
Framburður ákærða og H fyrir lögreglu um mánuði eftir atvikið, og svo framburður þeirra beggja fyrir dómi, breytir engu um það, að telja verður sannað með mjög trúverðugum framburði vitnisins G að ákærði hafi í raun ekið bifreið sinni stuttan spöl á bifreiðastæðinu við [...] þessa nótt. Er hann því sannur að sök samkvæmt ákæru sýslumannsins á [...], en háttsemi hans er í ákærunni rétt færð til refsiheimildar.
Af sakaferli ákærða skal þess getið hér að með dómi Hæstaréttar Íslands var hann hinn [...] dæmdur til greiðslu 250.000 króna sektar fyrir brot gegn 1. sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga og var jafnframt sviptur ökurétti í tvö ár og þrjá mánuði frá 10. mars 2014 að telja, en héraðsdómur, þar sem ákærði hafði verið sakfelldur fyrir brot gegn sömu lagaákvæðum, var kveðinn upp [...]. Hefur dómurinn ítrekunaráhrif að því er varðar tímalengd sviptingar ökuréttar sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 92/2008. Ákærða hefur ekki áður gerð refsing fyrir ofbeldisbrot. Á hinn bóginn var brotaþoli unnusta hans um átta til níu ára skeið, þótt þau hafi aldrei átt sameiginlegt heimili. Verður litið svo á að þau hafi verið nákomin í skilningi 3. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940. Verður ákærði dæmdur til átta mánaða fangelsis en fullnustu þeirrar refsingar skal frestað og niður skal hún falla að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá verður ákærða gerð 220.000 króna sekt vegna umferðarlagabrotsins en sextán daga fangelsi komi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins. Ákærði verður sviptur ökurétti í þrjú ár og sex mánuði frá 10. júní 2016 að telja. Ákærði framdi ólögmæta meingerð gagnvart brotaþola og verður dæmdur til greiðslu 600.000 króna miskabóta til hennar ásamt vöxtum svo sem í dómsorði greinir. Þá liggur fyrir samkvæmt vottorði að brotaþoli var í tólf daga með sauma og svo á sýklalyfjum í viku vegna sýkingar. Verður ákærði dæmdur til greiðslu þjáningabóta vegna nítján daga, 33.440 króna, ásamt vöxtum svo sem í dómsorði greinir. Bótakrafa var birt 4. mars 2014.
Ákærði er sýknaður af fyrri ákærulið ákæru ríkissaksóknara en sakfelldur af hinum síðari og ákæru sýslumanns. Verður ákveðið að ákærði greiði að tveimur þriðju hlutum en ríkissjóður einum þriðja 1.860.000 króna málsvarnarlaun Gísla M. Auðbergssonar hrl., verjanda ákærða, 366.560 króna ferðakostnað verjandans og 558.000 króna þóknun Arnbjargar Sigurðardóttur hrl. réttargæslumanns, og er virðisaukaskattur innifalinn í launum lögmannanna. Annar sakarkostnaður samkvæmt yfirliti ákæruvaldsins, 258.603 krónur, er vegna ákæruliða er ákærði er sakfelldur fyrir og ber honum að greiða hann að fullu, en fjörutíu þúsund króna ferðakostnaður vitnis, sem ekki er getið á yfirlitinu, var vegna þess ákæruliðar er ákærði var sýknaður af og greiðist sá kostnaður úr ríkissjóði. Gætt var ákvæða 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008.
Af hálfu ákæruvaldsins fór Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari með málið.
Málið dæma héraðsdómararnir Þorsteinn Davíðsson, Erlingur Sigtryggsson og Ólafur Ólafsson.
D Ó M S O R Ð
Ákærði, X, sæti átta mánaða fangelsi en fullnustu refsingarinnar er frestað og niður skal hún falla að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940.
Ákærði greiði 220.000 króna sekt í ríkissjóð en sextán daga fangelsi komi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.
Ákærði er sviptur ökurétti í þrjú ár og sex mánuði frá 10. júní 2016 að telja.
Ákærði greiði A 633.444 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 10. febrúar 2013 til 5. apríl 2014, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði að tveimur þriðju hlutum 1.860.000 króna málsvarnarlaun verjanda síns, Gísla M. Auðbergssonar hrl., 366.560 króna ferðakostnað hans, og 558.000 króna þóknun Arnbjargar Sigurðardóttur hrl. réttargæslumanns brotaþola. Þá greiði ákærði annan sakarkostnað 258.603 krónur.