Hæstiréttur íslands

Mál nr. 735/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Frávísun frá Hæstarétti


                                     

Miðvikudaginn 19. nóvember 2014.

Nr. 735/2014.

 

Ákæruvaldið

(Súsanna Björg Fróðadóttir fulltrúi)

gegn

X

(enginn)

 

Kærumál. Frávísun frá Hæstarétti.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu Á um að X skyldi víkja úr þinghaldi meðan brotaþoli gæfi skýrslu. Málinu var vísað frá Hæstarétti þar sem kæran uppfyllti ekki áskilnað 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. nóvember 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 14. nóvember 2014, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðili víki úr þinghaldi meðan brotaþoli gefur skýrslu í máli sem sóknaraðili hefur höfðað gegn varnaraðila. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 skal í skriflegri kæru til héraðsdómara greint frá því hvaða úrskurður sé kærður, kröfu um breytingu á honum og ástæður sem kæran er reist á. Í skriflegri kæru sóknaraðila til héraðsdóms var hvorki greint frá kröfu um breytingu á hinum kærða úrskurði né þeim ástæðum sem hún væri reist á. Af þeim sökum er málinu vísað frá Hæstarétti, sbr. meðal annars dóm réttarins 17. febrúar 2009 í máli nr. 74/2009.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 14. nóvember 2014.

Ákærða er gefið að sök líkamsárás, með því að hafa í október árið 2012, rifið í hár eiginkonu sinnar, A, kt. [...], brotaþola þessa máls, lamið í hægri öxl hennar og sparkað í hægri mjöðm hennar, með þeim afleiðingum að brotaþoli hlaut eymsli yfir hægra kinnbeini, þrota og eymsli vinstra megin á höfuðleðri og eymsli þar yfir, eymsli aftan á hægri öxl, húðblæðingar á vinstri upphandlegg, mar og eymsli á vinstra handarbaki og eymsli utanvert á hægri mjöðm.

Sækjandi krafðist þess að ákærða yrði vikið úr þingsal á meðan brotaþoli gæfi skýrslu við aðalmeðferð málsins. Lögmaður ákærða hafnaði því og kvað skjólstæðing sinn ekki sætta sig við að fylgjast með skýrslugjöf úr hliðarherbergi. Var krafan tekin til úrskurðar 10. nóvember síðastliðinn eftir að málflytjendur höfðu tjáð sig um hana.

Sækjandi vísaði til 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála um að brotaþola yrði það afar þungbært ef hún þyrfti að gefa skýrslu að ákærða viðstöddum, og að það myndi hafa áhrif á framburð hennar. Um væri að ræða heimilisofbeldi og að brotaþoli óttaðist frekara ofbeldi af hálfu ákærða. Hafi brotaþoli lýst því yfir við lögmann sinn og sækjanda, að hún óttaðist ákærða og hafi því fengið neyðarhnapp hjá lögreglu í september sl. Málið hafa tekið mikið á brotaþola og var í því sambandi vísað til vottorðs frá Kvennaathvarfinu sem lægi fyrir í málinu.

Ákærði vísaði til 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 8. gr. laga nr. 97/1995 og til 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 á þann hátt að öll frávik frá þeirri meginreglu að ákærði eigi rétt á því að vera viðstaddur skýrslutöku, verði að skýra þröngt.

Samkvæmt 1. mgr. 166. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála á ákærði rétt á því að vera við aðalmeðferð máls. Í 1. mgr. 123. gr. sömu laga er heimild til þess að víkja ákærða úr þinghaldi meðan vitni gefur skýrslu, telji dómari að nærvera ákærða geti orðið vitninu sérstaklega til íþyngingar og haft áhrif á framburð þess.

Ákærða er gefið að sök líkamsárás sem talin er varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga gegn þáverandi eiginkonu sinni. Brotaþoli mun hafa fengið neyðarhnapp frá lögreglu í september sl. eftir að brotaþoli lýsti því yfir að hún óttaðist ákærða. Í málinu var vísað til vottorðs frá Kvennaathvarfinu sem staðfestir 19 komur og viðtöl við brotaþola sem gefur vísbendingar um hvernig sambúð þeirra hefur verið háttað. Lögreglan á Suðurnesjum hafnaði beiðni brotaþola um nálgunarbann í júní 2014, á þeim forsendum að lögreglan hafi ekki haft afskipti af ákærða og brotaþola vegna annarra mála en í ákæru greinir frá árinu 2012. Ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að ákærði og brotaþoli hafi síðan byrjað sambúð aftur í desember 2012, eftir meint brot þessa máls. Mál þetta er síðan tekið upp að nýju að beiðni brotaþola í júní 2014. Ekki voru lögð fram vottorð sérfræðinga, svo sem sálfræðings um að nærvera ákærða gæti orðið vitninu sérstaklega til íþyngingar og gæti haft áhrif á framburð þess.

Ákvæði 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 eru frávik frá þeirri meginreglu að ákærði eigi rétt á því að vera viðstaddur þinghöld í máli sínu. Samkvæmt nefndu ákvæði þarf nærvera ákærða að vera vitninu bæði til sérstakrar íþyngingar og að hafa áhrif á framburð þess. Þó brotaþoli hafi lýst því yfir að hún óttist ákærða og að ætla megi að skýrslutakan geti orðið henni til íþyngingar, hefur að mati dómsins ekki verið sýnt fram á með nægjanlegum hætti eins og máli þessu er háttað, að skýrslutakan sé vitninu sérstaklega til íþyngingar og kunni að hafa áhrif á framburð þess.

Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

Hafnað er kröfu sækjanda um að ákærði víki úr þinghaldi meðan brotaþoli gefur skýrslu.