Hæstiréttur íslands
Mál nr. 602/2011
Lykilorð
- Vinnuslys
- Líkamstjón
- Vinnuveitendaábyrgð
- Gjafsókn
Vinnuslys. Líkamstjón. Vinnuveitendaábyrgð. Gjafsókn.
A krafðist þess að viðurkennd yrði bótaskylda B vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir í starfi, er hann fór með vinstri hönd upp um stút sandblandara til þess að losa stíflu í honum. Breytingar höfðu verið gerðar á blandaranum vegna tiltekins verkefnis þannig að neðsti hluti stútsins hafði verið skorinn af, en að því loknu settur aftur á þannig að hann var festur með tveimur skrúfboltum. Hæstiréttur vísaði til þess að A hefði skrúfað neðsta hluta stútsins lausan og komist þannig með höndina inn í blandarann, í stað þess að nota járnstaut sem ætlaður var til þess að losa stíflur í honum. Var þessi ráðstöfun A talin á hans eigin ábyrgð og ósannað að slys hans yrði rakið til ófullnægjandi öryggisbúnaðar sandblandarans. Þá þótti hvorki sannað að skort hefði á leiðbeiningar um framkvæmd starfans né að fyrirsvarsmönnum B hefði verið kunnugt um að A og eftir atvikum aðrir losuðu stíflur með þeim hætti sem gert hefði verið umrætt sinn. Staðfesti Hæstiréttur því niðurstöðu héraðsdóms um sýknu B.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. nóvember 2011. Hann krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda vegna líkamsáverka er áfrýjandi varð fyrir 11. maí 2007 í starfi hjá stefnda. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti líkt og málið væri ekki gjafsóknarmál, en hann nýtur gjafsóknar á báðum dómstigum.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði aðeins tekin til greina að hluta og málskostnaður þá felldur niður.
Áfrýjandi hefur stefnt Vátryggingafélagi Íslands hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi, sem hóf störf hjá stefnda í október 2001, varð fyrir slysi við vinnu sína 11. maí 2007, er hann fór með vinstri hönd upp um stút sandblandara, sem hann starfaði við, til þess þess að losa stíflu í honum. Reyndist sandblandarinn vera í gangi og lentu fingur vinstri handar áfrýjanda í snigli, sem ber sand í gegnum blandarann. Stjórntæki sandblandarans eru við hlið stútsins, sem áður greinir. Áfrýjandi hafði starfað við sandblandarann í um það bil eitt ár er slysið varð. Aðstæðum og atvikum að slysinu er lýst skilmerkilega í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar greinir breytti stefndi sandblandaranum þannig að neðsti hluti stútsins var skorinn af vegna tiltekins verkefnis, en að því loknu settur á aftur þannig að hann var festur með tveimur skrúfboltum. Í því horfi var sandblandarinn er slysið varð og var ekki unnt að fara með höndina inn í blandarann til að losa stíflur. Það þurfti að gera með járnstaut og er ósannað í málinu að hann hafi ekki verið tiltækur er slysið átti sér stað. Áfrýjandi notaði þó ekki þá aðferð heldur skrúfaði neðsta hluta stútsins lausan og komst á þann hátt með höndina inn í blandarann. Var sú ráðstöfun hans á eigin ábyrgð en ekki stefnda.
Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms er ósannað að slys áfrýjanda verði rakið til ófullnægjandi öryggisbúnaðar sandblandarans. Skiptir ekki máli í því sambandi þótt framangreindar breytingar á honum hafi leitt til þess að forsendur öryggismerkingar hafi ekki lengur verið fyrir hendi. Jafnframt er hvorki sannað að slysið verði rakið til skorts á leiðbeiningum til áfrýjanda um hvernig standa ætti að því að losa um stíflur í sandblandaranum né að fyrirsvarsmönnum stefnda hafi verið kunnugt um að áfrýjandi og eftir atvikum aðrir starfsmenn losuðu tilfallandi stíflur með því að skrúfa lausan neðsta hluta stútsins án þess að straumur til sandblandarans væri rofinn. Er því skilyrði reglunnar um vinnuveitandaábyrgð, að orsök tjóns þurfi að vera rakin til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi starfsmanna vinnuveitandans ekki fullnægt og verður niðurstaða héraðsdóms um sýknu stefnda því staðfest. Þarf þá ekki að huga sérstaklega að ætlaðri eigin sök áfrýjanda.
Málskostnaðarákvörðun héraðsdóms og ákvæði hans um gjafsóknarkostnað verður staðfest.
Rétt þykir með vísan til 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 600.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 20. október 2011.
Mál þetta, sem tekið var til dóms 22. september 2011, var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjaness af A, […], gegn B ehf., […], og Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík, til réttargæslu, með stefnu sem birt var 25. janúar 2011.
Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda stefnda vegna líkamsáverka sem stefnandi varð fyrir 11. maí 2007 í starfi sínu hjá stefnda er hann hlaut varanlega líkamsáverka á baugfingri, löngutöng og vísifingri vinstri handar. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu líkt og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hans hendi að mati dómsins en til vara að dómkröfur stefnanda verði aðeins teknar til greina að hluta.
Af hálfu réttargæslustefnda eru ekki gerðar sjálfstæðar dómkröfur.
I.
Stefnandi lýsir málavöxtum svo að hann hafi slasast við vinnu sína í B ehf. þann 11. maí 2007. Hann hafi unnið við sandblandara, hluta af vélasamstæðu í málmsteypunni, þegar snigill, sem ber sand að vélinni, hafi stíflast. Stefndi hafi áður breytt vélinni á þann hátt að settur hafði verið nýr útbúnaður (sigti) ofan við pönnu til þess gerða að taka við kögglum eða steinum, sem skildust frá sandinum sem fara átti í framleiðsluna. Það hafi komið fyrir að úrgangurinn hafi safnast fyrir ofan sigtið og stíflað snigilinn. Þá hafi orðið að losa þennan útbúnað frá og kraka upp í þau göng sem úrgangurinn gekk eftir. Til þess hafi verið komið fyrir járnfleyg (kraga) við vélina sem hafi átt að nota ef hún stíflaðist. Hafi fleygur þessi verið týndur í nokkurn tíma fyrir slysið. Stefnandi hafi kvartað yfir því við verkstjóra stefnda en ekki hafi verið brugðist við umkvörtunum stefnanda, heldur vinnslu haldið áfram eins og ekkert hefði í skorist. Stefnandi kveður það samt sem áður hafa verið algengt að snigillinn hafi stíflast og þá hafi þurft að losa pönnuna/sigtið/hlífina frá og kraka með járnstöng inn í snigilinn til að losa stífluna. Á slysdegi hafi stefnandi slökkt á vélinni, eða talið sig gera það, áður en hann hafi losað pönnuna/sigtið. Sökum hávaða í vélasalnum hafi hann ekki greint hvort vélin væri í gangi eða ekki. Hafi hann talið, í ljósi þess að hann hafi slökkt á vélinni og að járnstöngin hafi ekki verið tiltæk, að hann yrði að losa stífluna með öllum tiltækum ráðum hið snarasta en mikið hafi legið við að vinna við vélina stöðvaðist ekki. Verkstjórinn hafi verið vanur að láta vel í sér heyra ef slíkt hafi komið fyrir þar sem tjón hafi þá orðið á framleiðslunni. Því hafi orðið að bregðast fljótt og örugglega við og losa um stífluna. Því hafi stefnanda brugðið þegar vélin hafi stíflast og ekki haft önnur verkfæri tiltæk en höndina til þess að losa stífluna, enda hafi hann haldið að vélin væri ekki í gangi. Um leið og stíflan hafi brostið hafi snigillinn hins vegar tekið við sér með þeim afleiðingum að stefnandi hafi slasast illa á vinstri hendi. Farið hafi verið rakleiðis með stefnanda á slysadeild þar sem gert hafi verið að sárum hans eins og kostur hafi verið. Lögregla hafi verið kvödd á slysstað um 45 mínútum eftir slysið svo sem fram komi í lögregluskýrslu sem lögð hafi verið fyrir dóminn. Í lögregluskýrslunni komi fram að lögreglan hafi rætt við einn af eigendum félagsins, C. C hafi sagt að stefnandi hafi verið að vinna á sandblástursvélinni. „Hafi vélin stíflast og [A] því tekið öryggishlífina frá, því það hefði ekki dugað að hreinsa vélina með hlífina á. [A] hafi því tekið hlífina af, sett vinstri höndina upp í vélina með þeim afleiðingum að hann slasaðist á fingrum vinstri handar.“
Í læknisvottorði D, sérfræðings í bæklunar- og handarskurðlækningum, komi fram að stefnandi hafi leitað á slysadeild þann 11. maí 2007 með mikla áverka á vinstri hendi. Hafi stefnandi upplýst að hann hafi verið að vinna við að hreinsa steypublöndunarvél með vinstri hendi en óvart rekið sig í takka og kveikt á vélinni og þannig klemmt sig í valsinum. „Við skoðun á slysadeild voru verulegir áverkar á mjúkpörtum og beinum fjærenda vísifingurs, löngutangar og baugfingurs. Röntgenmynd var fengin og sýndi þverbrot á miðkjúku vísifingurs nálægt fjærlið án mikillar tilfærslu. Á svipuðum slóðum á löngutöng var þverbrot í miðkjúku með verulegri tilfærslu. Í baugfingri var mölbrot á fjærenda fjærkjúkunnar og hliðrun töluverð.“ Læknirinn lýsi áverkum enn frekar þannig: „Á vísifingri var húðin að hluta rifin af. Langatöng var mjög illa farin. Fjærendi var fölur og engin merki blóðflæðis. Fjærhlutinn hékk í raun á grönnum stilki. Á baugfingri var nöglin rifin af og miklir áverkar á mjúkvefjum“. Stefnandi hafi farið aftur í skoðun til sama læknis þann 21. maí 2008. Sú skoðun hafi leitt eftirfarandi í ljós: „Engin bólga eða aflögun var sýnileg á vinstri úlnlið. Hreyfing vinstri úlnliðs var eðlileg. Ástand á fingrum var þannig: I- eðlilegt ástand með eðlilegri hreyfingu og skyni. II- mjósleginn, réttiskerðing c.a. 45 gráður yfir fjærlið en með aðstoð hægt að rétta lið að fullu. III- ástand eftir stúfhögg gegnum miðkjúku. Aumur viðkomu yfir stúf. IV- kartnögl. Aflögun á fjærkjúku. V- eðlilegt ástand …Undirritaður taldi ekki mikinn ávinning af því fyrir [A] að fara í aðgerð vegna réttiskerðingar vísifingurs enda óvíst hvar sinavandinn raunverulega lægi þar. Viðkvæmni á stúfi löngutangar yrði eingöngu meðhöndluð með íhaldssömum hætti. Loks þótti ekki freistandi að gera aðgerð á nögl baugfingurs þar sem ógróið brot var í fjærkjúkunni og í ljós kom að [A] hafði heldur ekki mikinn áhuga á aðgerð yfirleitt vegna þess.“ Í samantekt í læknisvottorðinu komi eftirfarandi fram: „[A] er þannig hraustur, rétthentur […] verkamaður sem meiddist illa á vinstri hendi við vinnu sína fyrir rúmu ári. Í aðgerð sama dag varð að fjarlægja fjærenda vinstri löngutangar um miðja miðkjúkuna. Auk augljósra eftirstöðva eftir það hafði [A] við lokaskoðun ári eftir slys skerta réttu yfir fjærlið vísifingurs og erfiðleika við að beygja hann auk kartnaglar og ógróins brots á fjærkjúku á baugfingri. Hann lýsti að auki verkjum frá úlnliðnum. Ekki þótti tilefni til frekari skurðaðgerða að sinni. Horfur [A] eru þær, að réttiskerðing á vísifingri, stúfhögg á löngutöng og kartnögl og aflögun fjærkjúku baugfingurs eru varanleg. Nytsemi handarinnar verður þannig aldrei söm og fyrir slys. Hitt er þó mögulegt, að verkir dofni með tímanum enda eingöngu ár liðið frá slysi.“
Stefnandi kveðst hafa átt rétt á bótum úr launþegatryggingu sinni eftir slysatburðinn. Hafi E læknir metið stefnanda en í mati hans komi eftirfarandi fram: „Í vinnuslysinu 11.05.2007 slasaðist [A] talsvert á vinstri hendi. Stúfhögg er um miðja kjúku vinstri löngutangar, kartnögl og skert hreyfing í vinstri baugfingri og væg hreyfiskerðing í vinstri litlafingri. Ógróið brot í fjærkjúku vinstri baugfingurs, skertur hreyfiferill í fjærkjúkulið vinstri vísifingurs. Skertur gripkraftur í vinstri hendi eins og við er að búast eftir þessa áverka. Einnig eru einkenni frá vinstri úlnlið en ekki hefur greinst beináverki þar á röntgenmyndum.“ Hafi læknirinn talið að tímabundin læknisfræðileg örorka (tímabundið atvinnutjón) væri frá slysdegi til 15. júlí 2007 og væri 100% en varanleg læknisfræðileg örorka (miski) væri 18%.
Stefnandi kveður réttargæslustefnda hafa hafnað bótaskyldu úr frjálsri ábyrgðartryggingu stefnda umfram launþegatryggingu. Höfnun bótaskyldu byggi á umsögn Vinnueftirlitsins sem kallað hafi verið til vegna slyssins. Í umsögn Vinnueftirlitsins sé komist svo að orði: „Tildrög slyssins voru þau að slasaði var að vinna við sandblandara. Snigilrör á blásaranum stíflaðist og til að komast að stíflunni, þurfti slasaði að fjarlægja grind, sem var við enda rörsins að neðanverðu. Hann taldi sig hafa slökkt á vélinni, en þar sem hann var með heyrnahlífar og hugsanlega verið hávaði frá öðrum búnaði í vinnusalnum, heyrði hann ekki að vélin var enn í gangi. Venjulega er notað sérstakt járn til að losa um svona stíflur, en í þetta skipti var það, einhverra hluta vegna, ekki tiltækt. Slasaði stakk vinstri hendi upp í rörið, grandalaus um að vélin væri í gangi og lenti þá með þrjá fingur í sniglinum og brotnuðu þeir illa … Orsakir slyssins virðast helst vera þær að járnið, sem venjulega er notað til stíflulosunar, var ekki tiltækt og að slasaði heyrði ekki að vélin væri í gangi.“ Stefnandi kveður réttargæslustefnda hafa viðurkennt að um vinnuslys hafi verið að ræða og greitt stefnanda bætur úr launþegatryggingu stefnda hjá réttargæslustefnda. Réttargæslustefndi hafi hins vegar ekki fallist á skaðabótaskyldu stefnda vegna líkamstjóns stefnanda. Sé stefnandi því knúinn til þess að höfða mál þetta.
II.
Stefndi kveður málsatvik með þeim hætti að mánudaginn 11. maí 2007 hafi stefnandi slasast á fingrum við vinnu sína hjá stefnda. Hafi stefnandi haft umsjón með sandblandara af gerðinni SPARTAN II, númer […], ágerð 2006. Hafi sandblandarinn verið CE- merktur. Stefnandi hafi séð um að hreinsa sandblandarann sem gert hafi verið reglulega á tveggja til fjögurra vikna fresti. Auk þess hafi stundum þurft að hreinsa ef snigilrör stíflaðist eða snigillinn stoppaði vegna of mikillar mótstöðu af sandinum. Sandblandarinn hafi verið opnaður að ofanverðu til hreinsunar, þar sem útstreymisstútur hafi átt til að stíflast, en stundum hafi þurft að hreinsa stútinn neðan frá. Við opnun blandarans að ofanverðu hafi straumur farið af vélinni en þeim megin hafi engin öryggisgrind verið fyrir hreyfanlegum hlutum vélarinnar. Þegar hreinsa hafi þurft neðan frá hafi hins vegar verið öryggisgrind neðst í stútnum sem hindrað hafi að hægt væri komast með hendurnar að hættulegum og hreyfanlegum hlutum í snigli sandblandarans. Op hafi verið neðan á stútnum um 15 sentímetra í þvermál og harðbannað hafi verið að fara með höndina upp í stútinn. Til að losa stíflur hafi venjulega verið notaður 250-300 millimetra langur stálstautur. Stefnandi hafi séð um að hafa ávallt tiltæk verkfæri til að hreinsa sandblandarann. Stefnandi hafi unnið við blandarann í eitt ár fyrir slysið. Stefndi hafi allnokkru áður en slysið varð skorið frá neðsta hluta stútsins til að stytta hann meðan framleitt hafi verið tiltekið mót fyrir fyrirtækið […]. Mótið hafi verið mjög hátt og þurft hafi háan mótakassa sem ella hefði ekki komist undir blandarann. Þetta hafi verið gert með samþykki framleiðanda. Að loknu þessu verkefni hafi stefndi fest afskorna hluta stútsins aftur á með tveimur skrúfuboltum. Hafi blandarinn þá aftur verið kominn í sama horf og áður, nema hvað hægt hafi verið að taka neðsta hluta stútsins frá með því að skrúfa upp skrúfuboltana með skrúflykli en það tekið nokkrar mínútur. Hafi blandarinn verið í þessu horfi þegar stefnandi slasaðist. Hins vegar sé rangt og misskilningur að settur hafi verið í blandarann „nýr útbúnaður (sigti) ofan við pönnu“, eins og fram komi í stefnu.
Stefndi kveður tildrög slyssins hafa verið þau að sandblandarinn hafi stíflast sem oftar. Stálstauturinn til að losa stífluna hafi af einhverjum ástæðum ekki verið tiltækur. Í stað þess að kalla til verkstjóra eða nota annað tiltækt verkfæri hafi stefnandi losað upp festibolta stútsins með skrúflykli og tekið burtu neðsta hluta stútsins með öryggisgrindinni. Hins vegar hafi næg önnur verkfæri verið tiltæk nálægt blandaranum, svo sem skrúfjárn, kúbein eða skrúflykill. Stefnandi hafi talið sig hafa slökkt á vélinni. Hann hafi verið með heyrnarhlífar og sagst ekki hafa heyrt hvort vélin hafi verið í gangi. Hafi hann síðan stungið vinstri hendi upp í snigilrörið til að losa stífluna með hendinni og lent með þrjá fingur í sniglinum sem hafi verið á hreyfingu. Hafi fingurnir brotnað illa. Enginn sjónarvottur hafi verið að slysinu. Stefndi telji mögulegt að stefnandi hafi rekið sig í gangsetningarhnapp vélarinnar þegar hann hafi reynt að losa stífluna. Hann hafi strax verið fluttur á slysadeild og lögregla og Vinnueftirlit kvödd á vettvang. Lögregla hafi rætt við stefnanda á slysadeildinni. Lögreglan hafi haft eftir honum að hann hafi ýtt á takka til að stöðva vélina. Hann hafi verið með heyrnarhlífar og því ekki heyrt hvort vélin hafi slökkt á sér eða ekki. Eftir að hafa árangurslaust reynt að losa stífluna með hlífina (öryggisgrindina) á, hafi hann tekið hlífina af og sett vinstri höndina upp í vélina til að hreinsa hana. Síðan hafi hann fundið að spaðarnir í vélinni hafi enn verið í gangi. Samkvæmt læknisvottorði hafi hann sagt læknum á slysadeild að hann hafi verið að hreinsa vélina með vinstri hendi en óvart rekið sig í takka og kveikt á vélinni og þannig klemmt sig í valsinum.
Stefndi greinir einnig frá því að í frumumsögn Vinnueftirlitsins segi, eftir frásögn C um aðdraganda slyssins, að stefnandi hafi talið sig hafa slökkt á vélinni. Þar sem hann hafi verið með heyrnarhlífar og hugsanlega verið hávaði frá öðrum búnaði í vinnusalnum hafi hann hins vegar ekki heyrt að vélin var enn í gangi. Sérstakt járn hafi venjulega verið notað til að losa um svona stíflur en í þetta skipti hafi það einhverra hluta vegna ekki verið tiltækt. Hafi stefnandi stungið vinstri hendi upp í rörið grandalaus um að vélin væri í gangi. Í umsögn Vinnueftirlitsins segi enn fremur að aðstæður á slysstað hafi virst vera viðunandi og ekki verið gerðar athugasemdir við þær. Sandblásarinn hafi verið nýlegur og CE- merktur. Virðist orsakir slyssins helst vera þær að járnið, sem venjulega hafi verið notað til stíflulosunar, hafi ekki verið tiltækt og að slasaði hafi ekki heyrt að vélin hafi verið í gangi. Síðar hafi Vinnueftirlitið endurskoðað umsögn sína vegna ábendingar um að vélinni hafi verið breytt. Hin endurskoðaða umsögn vinnueftirlitsins sé frá 8. febrúar 2011. Þar segi að breytingar hafi verið gerðar á blandaranum þannig að neðsti hluti stúts, sem beini sandi í steypumót, hafi verið skorinn af en festur á ný með skrúfuboltum. Öryggisgrind sé í neðri hluta stútsins sem varni því að hægt sé að komast að hættulegum og hreyfanlegum hlutum í snigli vélarinnar. Þessi breyting hafi verið gerð til að unnt væri að blanda sandi í hærri mót en upprunalega hafi verið gert ráð fyrir. Breytingin hafi verið gerð eftir munnlegu leyfi framleiðanda. Með hliðsjón af framangreindu sé það mat Vinnueftirlitsins að rekja megi orsök slyssins til eftirfarandi atriða: 1. Verkið hafi ekki verið unnið í samræmi við starfsvenjur, þ.e. ekki notast við sérstakt verkfæri til að losa stífluna. 2. Breytingar á vélinni hafi gert það mögulegt að komast að hreyfanlegum hlutum hennar. 3. Áhættumat fyrir vinnustaðinn hafi ekki verið gert. Vinnueftirlitið hafi gefið fyrirmæli um að lögð yrði fram ný „samræmisyfirlýsing“ vegna breytinganna eða vélinni komið aftur í fyrra horf.
Stefndi kveður stefnanda hafa verið […] ára að aldri á slysdegi. Hann hafi verið ófaglærður. Hann hafi unnið hjá stefnda í sex ár eða frá 2001 þar af í rúmlega eitt ár við sandblandarann sem hann slasaðist við. Áður hafi hann unnið við annan sandblandara hjá stefnda. Hafði stefnandi í upphafi fengið leiðbeiningar um það hvernig standa ætti að verki og sérstaklega brýnt fyrir honum að ekki mætti undir neinum kringumstæðum stinga hendinni upp í sandop á blandara. Hafi þeim sem unnið hafi við sandblandara, þar á meðal stefnanda, verið kenndar eftirfarandi verklags- og öryggisreglur: Að láta samstarfsmann eða yfirmann vita þegar stöðva þyrfti og opna blandara til að sinna hreinsun. Að slá út höfuðstraum af blandara á stjórnskáp rétt við blandarann. Að taka straum af blandara með því að ýta á neyðarstopprofa á blandaranum. Að nota verkfæri til hreinsunar og fara aldrei með hendurnar inn í stút á blandara eða í snigilrör.
Stefndi greinir svo frá að stefndi og réttargæslustefndi hafi talið að slys stefnanda væri ekki skaðabótaskylt. Stefnandi hafi skotið málinu til Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum. Samkvæmt úrskurði nefndarinnar 5. ágúst 2009 hafi nefndin talið að stefndu bæru ekki skaðabótaábyrgð á slysi stefnanda. Í úrskurði nefndarinnar segi efnislega að stefnandi hafi farið með aðra höndina upp í stútinn á snigilrörinu án þess að fullvissa sig um að slökkt væri á vélinni. Yrði slysið ekki rakið til bilunar eða galla í vélinni eða til þess að vélin hafi að öðru leyti verið vanbúin. Ekkert liggi fyrir um það að járnið, sem notað hafi verið til að losa um stífluna, hafi ekki verið tiltækt vegna atvika sem stefndi beri ábyrgð á. Þá segi að engin haldbær rök séu fyrir því að slysið megi rekja til þess að stefndi hafi ekki gætt laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustu og öryggi á vinnustöðum eða stjórnvaldsreglna settum samkvæmt þeim. Að öllu athuguðu beri stefndi ekki skaðabótaábyrgð á líkamstjóni stefnanda og bætist tjón hans því ekki úr ábyrgðartryggingu stefnda hjá réttargæslustefnda.
Stefnandi hafi í kjölfarið talið að úrskurður nefndarinnar væri ekki byggður á réttum forsendum. Hann hafi snúið sér til réttargæslustefnda með bréflegri kröfu um að félagið hlutaðist til um frekari upplýsingaöflun. Í bréfinu hafi meðal annars verið sagt að fyrir slysið hafi vélinni verið breytt á þá leið að sett hafi verið nýtt sigti í pönnuna eða kassann sem sá hluti sandsins sem ekki blandast hafi safnast í. Slíkt sigti hafi ekki verið í vélinni og vélin því vanbúin. Þá hafi járnið sem nota hafi átt við að losa stíflur verið týnt í nokkurn tíma og yfirmenn stefnda vitað það. Þeir hafi látið óátalið að stefnandi losaði stíflur með hendinni eins og hann gerði. Þá telji stefnandi að hann hafi rekið sig í rofa þegar hann losaði stífluna en rofinn hafi skagað út í loftið og verið hættulegur. Af hálfu réttargæslustefnda hafi kröfum og staðhæfingum stefnanda verið hafnað með því málsatvik hafi að fullu verið upplýst með rannsókn lögreglu og Vinnueftirlits, slysatilkynningum og málsatvikalýsingu lögmanns stefnanda í fyrri bréfum og málskoti til úrskurðarnefndar en samræmi væri í þeim gögnum.
III.
Stefnandi byggir dómkröfu sína á að hann hafi slasast við vinnu sína í vinnusal stefnda að […] þann 11. maí 2007. Hann hafi hlotið varanlega líkamsáverka á vinstri hendi þegar snigill í sandblandara hafi óvænt farið í gang. Byggir stefnandi á því að hann hafi lotið boðvaldi verkstjóra, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 46/1980 og 21. gr. sömu laga. Stefnandi byggir á því að búnaður sem venjulega hafi verið notaður til að losa sams konar stíflur í sandblandaranum hafi ekki verið til staðar. Sú venja sé staðfest með yfirlýsingu F. Hafi stefnandi meðal annars verið búinn að vekja máls á þessari vöntun við verkstjóra en því ekki verið sinnt, sem brjóti gegn skyldum verkstjóra eins og þeim sé lýst í 23. gr. laga nr. 46/1980. Þá byggir stefnandi á að stefndi hafi ekki látið fara fram áhættumat sem 65. gr. a. laga nr. 46/1980 geri þó ráð fyrir, sbr. einnig 4. gr. reglugerðar nr. 367/2006 um notkun tækja. Vinnuveitandinn hafi því ekki verið búinn að greina þær hættur sem skapast gætu í vinnslusal sínum. Byggir stefnandi á að Vinnueftirlitið hafi þegar þann 22. mars 2005 gert þá kröfu að slíkt áhættumat yrði gert fyrir málmbræðsluna en því hafi ekki verið sinnt. Stefnandi byggir á að hefði slíkt mat farið fram hefði verklag það sem tíðkað hafi verið í málmbræðslunni við þennan hluta vélasamstæðunnar ekki fengist samþykkt.
Þá byggir stefnandi á að vankantar hafi verið á stjórnbúnaði vélasamstæðunnar og að hann hafi þrýst á stjórnborð vélarinnar til þess að stöðva vélina. Stefnandi byggir einnig á því að ekki hafi verið gætt 5. gr. reglugerðar nr. 367/2006 um að atvinnurekandi skuli gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að tæki, sem starfsmönnum sé ætlað að vinna við, verði notað án þess að öryggi starfsmanna sé ógnað. Ekki sé um það deilt að umræddur snigill hafi átt það til að stíflast og þá hafi starfsmenn þurft að losa frá sigti/hlíf/pönnu til þess að komast að stíflunni og losa hana. Jafnvel þótt rofi í stjórnborði hafi gefið til kynna að vélin ætti að vera stöðvuð hafi stefnandi ekki með nokkru móti getað vitað að straumur væri enn á vélasamstæðunni. Ekki hafi verið settur nemi (útsláttarrofi) á sigtið/pönnuna, sem þó hafi oft þurft að losa, til að rjúfa straum á vélinni. Bendir stefnandi á 5. gr. reglugerðar nr. 367/2006 í því efni en stórlega hefði mátt draga úr slysahættu með því að setja útsláttarrofa á sigtið/pönnuna. Byggir stefnandi á að það hafi verið gáleysi stefnda að útbúa ekki slíkan útsláttarrofa þar sem starfsmenn hans hafi oft þurft að losa sigtið/pönnuna frá sniglinum til þess að fært væri að losa stífluna. Byggir stefnandi á að þar sem mikill hávaði sé allajafna í vélasal hafi hann ekki heyrt hvort vélin var í gangi eða ekki en slíkt sé óforsvaranlegur frágangur á vél.
Þá byggir stefnandi á því að hafi hann ræst vélina óviljandi (rekið sig í rofann/slökkvarann) gildi um það regla 2.1 í Viðauka I með reglugerð nr. 367/2006, um að stjórnbúnaði skuli komið fyrir utan hættusvæða og að engin hætta megi stafa af gangsetningu hans sem rekja megi til gáleysis. Samkvæmt sömu reglu skuli stjórnbúnaður vera öruggur og við val á honum skuli hafa í huga fyrirsjáanlegar bilanir, galla og álag miðað við fyrirhugaða notkun. Byggir stefnandi á að stefndi hafi ekki haft ofangreint í huga þegar breytingar hafi verið gerðar á sigtinu/pönnunni á sandblandaranum. Hafi breytingin einmitt verið framkvæmd þar sem nokkuð oft hafi komið fyrir að sandblásarinn stíflaðist. Byggir stefnandi á að stefndi hefði átt að hafa ofangreind öryggissjónarmið í huga þegar breytingin á vélinni hafi farið fram en mjög þröngt hafi verið um þann starfsmann sem losa hafi átt stíflu og því hætta á að starfsmaðurinn rækist í þau.
Stefnandi byggir einnig á að járnstöngin, sem alla jafna hafi verið notuð til þess að losa stíflur úr sandblandaranum, hafi ekki verið tiltæk á þeim stað sem hún hafi alla jafna verið geymd. Byggir stefnandi á að verkstjórn hafi verið ábótavant þar sem þá þegar hafi verið búið að kvarta yfir því að járnstöngin hafi ekki verið tiltæk á þeim stað þar sem hún hafi alla jafna verið geymd. Það sé á ábyrgð verkstjóra að sjá til þess að slíkt öryggistæki sé tiltækt og sé á sínum stað. Byggir stefnandi enn fremur á að hart hafi verið lagt að þeim sem við vélina unnu að vélin stöðvaðist ekki þar sem hún hafi verið tengd öðrum vélum og þá gæti öll framleiðslan eyðilagst.
Stefnandi byggir á að sandblandarinn, sem sé með svokallað CE- merki, hafi ekki verið skoðaður eftir þá breytingu sem stefndi hafi látið gera á vélinni. Með þessu hafi stefndi í raun blekkt stefnanda og einnig Vinnueftirlitið þegar það hafi komið á staðinn í kjölfar slyssins og ekki athugað vélina vegna CE- merkingarinnar. CE-merking véla sé til þess fallin að auka traust manna á slíku tæki, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 761/2001, sbr. einnig 3. mgr. 8. gr. sömu reglugerðar, þar sem fjallað sé um að óheimilt sé að einkenna vél með slíku merki á þann hátt að þriðji maður sé í villu um þýðingu merkingarinnar. Tæki þurfi að standast skoðun og starfsmenn megi gera þá kröfu að tæki með slíkri merkingu sé eins öruggt og kostur sé. Byggir stefnandi enn fremur á reglu 1.4.2 í viðauka I reglugerðar nr. 761/2001 um fastar og lausar hlífar. Slíkar hlífar skuli vera í tengslum við læsingarbúnað til að koma í veg fyrir að hreyfanlegir vélarhlutar fari af stað á meðan unnt sé að komast að þeim og þær þurfi að gefa skipun um stöðvun þegar þær fara úr læstri stöðu. Þá byggir stefnandi á að vél skuli hanna, smíða og útbúa þannig að stjórnandi þurfi sem sjaldnast að hafa afskipti af henni. Byggir stefnandi á því að þegar slíkt sé ekki hægt verði afskipti stjórnanda vélarinnar að fara fram á auðveldan og öruggann hátt, sbr. reglu 1.6.4 í viðauka I í ofangreindri reglugerð. Slíku hafi ekki verið að heilsa í tilviki stefnanda.
Þá byggir stefnandi á því að líkamstjónið sé bótaskylt á grundvelli vinnuveitendaábyrgðar. Reglan sé ólögfest almenn regla sem byggi á að vinnuveitendur beri ábyrgð á skaðaverkum starfsmanna sinna. Felist hin saknæma háttsemi vinnuveitanda í framangreindum málsástæðum. Stefnandi hafi verið starfsmaður stefnda, sem hafi haft húsbóndavald yfir honum, og háttsemi tjónvalds ekki verið fjarlæg starfi hans. Raunar hafi starf stefnanda að hluta til falist í því að losa slíkar stíflur og því augljós tengsl við starfið. Stefnandi byggir enn fremur á því að leggja beri ábyrgð á vinnuveitanda áður en horft sé til hugsanlegrar eigin sakar starfsmanns. Þá byggir stefnandi á tilskipun EBE- ráðsins frá 12. júní 1989 (89/391/EBE) um lögleiðingu ráðstafana er stuðli að bættu öryggi og heilsu starfsmanna á vinnustöðum sem og tilskipun ráðsins frá 30. nóvember 1989 um lágmarkskröfur varðandi öryggi og hollustu er starfsmenn noti tæki á vinnustöðum (89/655/EBE) sem báðar hafi verið innleiddar í landsrétt. Byggir stefnandi á að ef ekki sé fyrst horft á ábyrgð vinnuveitanda gagnvart eigin sök starfsmanns muni þessar reglur ráðsins, auk ofangreindra laga, ekki ná markmiðum sínum. Þá byggir stefnandi á að greina verði á milli þeirra skyldna sem hvíli á vinnuveitanda annars vegar og starfsmanna hans hins vegar. Byggir stefnandi á að þegar líkamstjón megi rekja til þess að vinnuveitandi hafi ekki farið eftir reglum sem gilda um öryggi á vinnustað beri hann ábyrgð á slysi sem verði á starfsmanni hans, hvort sem slysinu sé valdið af gáleysi eða ásetningi. Vinnuveitanda sé skylt að tryggja að aðstæður á vinnustað tefli ekki öryggi starfsmanna í tvísýnu, sbr. 13. gr. laga nr. 46/1980. Þær skyldur sem lög leggi á starfsmann megi ekki vera það þungbærar að þær geri að engu skyldur vinnuveitanda samkvæmt lögum og tilskipunum ráðsins sem að ofan greini. Reglurnar um að vinnuveitandi tryggi öryggi á vinnustað nái ekki markmiðum sínum á skilvirkan hátt ef ekki sé jafnframt fallist á bótaábyrgð hans ef út af bregði. Þetta fái stoð í 3. mgr. 5. gr. tilskipunar 89/391/EBE sem og dómi EFTA dómstólsins í máli nr. E-2/10 þar sem segi að skyldur starfsmanna á sviði öryggis og hollustu við vinnu sína skuli ekki hafa áhrif á meginregluna um ábyrgð vinnuveitanda. Ábyrgðin á öryggi og heilsu starfsmanna á vinnustað hvíli fyrst og fremst á vinnuveitanda. Byggir stefnandi á að ekki sé um óvenjulegar eða ófyrirsjáanlegar kringumstæður að ræða þar sem sérstakt járn hafi átt að vera tiltækt til þess að losa stíflur úr vélasamstæðunni. Því eigi vinnuveitandi að bera meginábyrgðina á öryggi og heilsu starfsmanna sinna. Hefði öllum öryggisreglum verði fylgt hefði stefnandi einfaldlega ekki orðið fyrir líkamstjóni. Því geti ekki verið um stórfellt gáleysi stefnanda að ræða. Því hafi stefnandi orðið fyrir tjóni sem stefndi beri ábyrgð á.
Þá byggir stefnandi á að hann eigi lögvarða hagsmuni af því að viðurkenningarkrafa hans verði tekin til efnislegrar úrlausnar þar sem sýnt hafi verið fram á að stefnandi hafi hlotið varanlegt líkamstjón í vinnuslysi sem hann hafi orðið fyrir.
Um lagarök vísar stefnandi til hertrar sakarreglu þar sem vinnuaðstæður séu hættulegar og reglunar um vinnuveitendaábyrgð. Þá vísar stefnandi til reglunar um uppsafnaða sök og nafnlaus mistök. Enn fremur vísar stefnandi til laga nr. 46/1980 ásamt reglugerð nr. 431/1197 um notkun tækja, 1-6. gr., reglugerðar nr. 581/1995, reglugerðar nr. 761/2001, um vélar og tækjabúna auk nefndra EB- reglna. Viðurkenningarkröfu sína byggi stefnandi á 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og kröfu um málskostnað byggi stefnandi á 130. gr. sömu laga.
IV.
Stefndi byggir á því að skaðabótaábyrgð á slysinu fari eftir sakarreglunni. Á stefnanda hvíli sönnunarskyldan um meinta sök stefnda og orsakatengsl.
Aðalkrafa stefnda um sýknu sé á því byggð að ekki sé sannað að stefndi eða starfsmenn hans eigi nokkra sök á slysi stefnanda sem alfarið megi rekja til stórfellds gáleysis stefnanda sjálfs. Því til stuðnings sé bent á eftirfarandi:
Í fyrsta lagi hafi slys stefnanda verið rannsakað af lögreglu og Vinnueftirlitinu. Ekkert hafi komið fram við þá rannsókn sem bent hafi til þess að sandblandarinn hafi verið gallaður eða búnaði hans áfátt og slysið megi að rekja til þess. Rannsóknaraðilar hafi heldur engar athugasemdir gert í þá átt að tilteknar öryggisreglur í lögum eða reglugerðum hefðu verið brotnar hvað varðaði öryggisbúnað sandblandarans og að það hefði orsakað slysið. Það hafi líka verið niðurstaða Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum að engin haldbær rök væru fyrir því að slysið mætti til þess rekja að stefndi hafi ekki gætt ákvæða laga nr. 46/1980 um hollustu og öryggi á vinnustöðum og stjórnvaldsreglna settum samkvæmt þeim. Engar athugasemdir hafi heldur verið gerðar við verkstjórn og það verklag sem tíðkast hafi og stefnandi hafi átt að fara eftir við hreinsun vélarinnar. Þvert á móti hafi sagt í upphaflegri umsögn Vinnueftirlitsins að orsakir slyssins hafi helst virst vera þær að járnið, sem venjulega hafi verið notað til stíflulosunar, hafi ekki verið tiltækt og að slasaði hafi ekki heyrt að vélin hafi verið í gangi. Í endurskoðaðri umsögn Vinnueftirlitsins segi að rekja mætti orsakir slyssins til þess að verkið hafi ekki verið unnið í samræmi við starfsvenjur, þ.e. að ekki var notast við sérstakt verkfæri til að losa stífluna. Að breytingar á vélinni hafi gert það mögulegt að komast að hreyfanlegum hlutum hennar og að áhættumat fyrir vinnustaðinn hafði ekki verið gert. Rökstyðji Vinnueftirlitið það ekki frekar. Verði ekki séð hvernig áhættumat, þó það hefði verið til staðar, hefði komið í veg fyrir slysið. Vinnueftirlitið hafi heldur ekki gert neinar athugasemdir við það verklag sem venja hafi verið að viðhafa við hreinsun á stíflum. Því fái það ekki staðist, sem stefnandi haldi fram, að ef áhættumat hefði farið fram, hefði „verklag það sem tíðkað var“ ekki verið samþykkt.
Í annan stað hafi enginn möguleiki verið að komast að hreyfanlegum hlutum vélarinnar, nema með því að fjarlæga fyrst öryggisbúnaðinn. Það hafi bæði átt við um neðsta hluta stútsins með öryggisgrindinni, sem stefnandi fjarlægði áður en hann fór með höndina upp í snigilrörið, sem og aðra hluta sandblandarans, t. d. reimskífu við mótor sem snýr sniglinum og snigilrörið sjálft. Hvergi hafi verið hægt að komast að hinum hreyfanlegu hlutum vélarinnar án þess að opna fyrst hlífarnar yfir þeim eða taka fyrst burtu öryggisbúnaðinn sem hafi hindrað að hægt væri að komast að hreyfanlegum hlutum vélarinnar. Hafi það líka gilt um stútinn sem stefnandi slasaðist við. Breytingin sem gerð hafi verið á stútnum, sem kominn hafi verið í sama horf og áður með öryggisgrindina til staðar neðst í stútnum þegar slysið varð, hafi því ekki verið orsakavaldurinn að slysinu. Það sem blasi við að valdið hafi slysinu hafi hins vegar verið sú gjörð stefnanda að skrúfa upp boltana sem festu neðsta hluta stútsins ásamt öryggisgrindinni við hinn hluta stútsins og taka neðsta hluta stútsins með öryggisgrindinni burtu. Fara síðan með höndina upp í stútinn og fingurna í snigilinn sem hafi verið á hreyfingu. Ekkert slys hefði orðið ef stefnandi hefði ekki gert þetta. Stefnandi hafi gert þetta gegn starfsvenjum og fortakslausu banni við því að fara með hönd upp í stútinn. Alrangt sé að það hafi verið látið óátalið að stefnandi losaði stíflur með hendinni. Yfirmönnum stefnanda hafi verið alls ókunnugt um slíkt og ekki liðið það.
Í þriðja lagi sé það rangt hjá stefnanda og ósannað að hann hafi fyrir slysið kvartað við verkstjóra út af því að járnið til að losa stífluna hafi ekki verið tiltækt og verkstjóri ekki sinnt því. Verkstjóri hafi enga slíka kvörtun fengið. Eigendur stefnda og yfirmenn stefnanda hafi enga hugmynd haft um að verkfærið, sem venja hafi verið til að nota við að losa stíflur, væri ekki tiltækt. Það hafi verið í verkahring stefnanda sjálfs en ekki verkstjóra að halda til haga og hafa á vísum stað þau verkfæri sem stefnandi hafi þurft að nota til að hreinsa stíflur. Einnig hafi verið nóg af öðrum nothæfum verkfærum tiltækum við blandarana, svo sem kúbein, skrúfjárn, meitlar og skrúflyklar, ef járnið sem venjulega væri notað væri ekki til staðar, en stefnandi hafi einmitt notað skrúflykil til að losa festiboltana á stútnum. Stefnandi hafi getað notað skrúflykilinn til að fara með upp í stútinn í stað þess að stinga hendinni þangað eins og hann hafi gert. Ekkert bendi heldur til þess, eins og réttilega sé nefnt í áliti Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum, að það að járnstöngin hafi ekki verið stefnanda tiltæk, megi að rekja til atvika sem stefndi beri ábyrgð á en ekki stefnandi sjálfur. Ein af starfsskyldum stefnanda hafi verið að sjá til þess að verkfæri til hreinsunar á stíflum væru ávallt tiltæk. Þá hafi það verið stefnanda vandalaust að snúa sér til verkstjóra eða annars yfirmanns og fá aðra járnstöng eða járntein í stað þeirrar sem honum hafi ekki verið tiltæk. Nóg hafi verið til af slíku hjá stefnda.
Í fjórða lagi sé rangt hjá stefnanda og ósannað að „verklag það sem tíðkað var“ hefði ekki verið samþykkt, ef búið hefði verið að gera áhættumat hjá stefnda, sbr. 65. gr. laga nr. 46/1980. Vinnueftirlitið hafi engar athugasemdir gert við verklagið sem slíkt, né leitt nein rök að því að vöntun áhættumats hafi verið orsakavaldur að slysinu. Hafi stefnandi ekki leitt neinar sönnur að fullyrðingu sinni í þessu efni eða hvernig tilvist áhættumats hefði skipt einhverjum sköpum um slysið. Það eitt að áhættumat hafi ekki verið gert sanni ekki að vöntun á því sé orsakavaldur að slysi. Sönnunarbyrði um orsakatengsl hvíli á stefnanda.
Í fimmta lagi sé ósannað að nemi eða útsláttarrofi hafi átt að vera á „sigti/pönnu“ til að rjúfa straum á vélinni. Stefnandi hafi ekki bent á neitt því til stuðnings. Myndi og hafa komið fram í umsögn Vinnueftirlitsins ef svo hefði átt að vera en Vinnueftirlitið hafi engar athugasemdir gert í þá átt. Einnig sé röng og ósönnuð sú staðhæfing stefnanda að ræsirofi vélarinnar hafi verið of nálægt „sigtinu“/“pönnunni“, þannig að hætta hafi verið á því að starfsmaður ræki sig í rofann þegar stíflur hafi verið losaðar. Ekki þurfi annað en líta á myndir af vélinni til að sjá að á því hafi verið hverfandi hætta. Myndi og hafa komið fram í umsögn Vinnueftirlitsins ef ræsirofinn hefði verið hættulega nálægt „sigtinu/pönnunni“ eða ekki í takt við reglur þar að lútandi. Vinnueftirlitið hafi engar athugasemdir gert í þá átt.
Í sjötta lagi sé rangt og ósannað að búnaður sandblandarans hafi verið í ósamræmi við reglu 1.4.2 í um hlífar í viðauka I við reglugerð 761/2001. Ekkert liggi fyrir um að sá búnaður sandblandarans sem stefnandi hafi slasast við falli undir reglu 1.4.2. Sama gildi um ákvæði 1.6.4 í viðauka I, sem stefnandi vísi til. Vinnueftirlitið hafi heldur enga athugasemd gert í þá veru að búnaður sandblásarans væri í ósamræmi við þessar tilteknu reglur. Jafnframt sé á það að líta að sandblandarinn hafi upphaflega verið CE- merktur og því uppfyllt kröfur laga og reglugerða til öryggis, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 761/2009. Alls ósannað sé að vélin hafi eftir breytinguna ekki lengur fullnægt öryggiskröfum samkvæmt lögum og reglugerðum. Slíkt sé hvergi staðhæft í umsögn vinnueftirlitsins. Hitt sé svo annað mál að eftir breytinguna hafi ekki lengur mátt einkenna vélina með CE- merki fyrr en eftir að samræmisyfirlýsing lægi fyrir eða vélinni hafi verið komið í upphaflegt horf. Hafi Vinnueftirlitið enga athugasemd gert við það en það eitt sé engin sönnun þess að vélin hafi ekki, eftir að henni var komið aftur í sama horf eins og gert var, fullnægt þeim öryggisatriðum sem CE- merkið standi fyrir.
Vegna aðalkröfu sinnar byggir stefndi jafnframt á því að enginn vafi sé um eigin sök stefnanda á slysinu. Hann hafi verið […] ára að aldri á slysdegi og þaulvanur starfinu og vélinni. Honum hafi verið kennt strax í byrjun hvernig standa ætti að verki við losun á stíflu. Sérstaklega hafi verið brýnt fyrir honum að ekki mætti undir neinum kringumstæðum fara með höndina upp í stútinn eða í snigilrörið. Stefnandi hafi mátt vita, og það hafi verið augljóst hverjum manni, að stórhættulegt væri að stinga hendi upp í snigilrörið án þess að vita fyrir víst að slökkt væri á vélinni og hún færi ekki í gang. Um þetta, og skýr fyrirmæli vinnuveitanda um að fara ekki undir neinum kringumstæðum með hönd upp í snigilrörið, hafi stefnandi ekki hirt. Stefnandi hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi þegar hann hafi skrúfað lausan og tekið burtu neðsta hluta stútsins með öryggisgrindinni og stungið hendinni gegn fortakslausu banni upp í snigilrörið án þess að vita fyrir víst að slökkt væri á vélinni. Stefnandi hafi getað séð hvort straumur hafi verið á vélinni eða ekki með því að gá að því hvort straumljós logaði á panel aftan við blandarann. Þá hafi stefnandi getað heyrt hvort vélin væri í gangi með því að taka af sér eyrnahlífarnar. Ekki hafi verið meiri hávaði en svo á staðnum.
Þá hafi stefnandi með atferli sínu brotið gegn eftirtöldum verklags- og öryggisreglum sem honum hafi verið kenndar. Að láta samstarfsmann eða yfirmenn vita að stoppa þyrfti og opna blandara vegna stíflu. Að slá út höfuðstraum af blandara í stjórnskáp rétt við blandarann. Að taka straum af blandaranum með því að ýta á neyðarstopprofa á blandaranum. Að nota ávallt verkfæri til hreinsunar. Að fara aldrei með hönd upp í stútinn eða að hreyfanlegum hlutum í blandaranum. Stefnandi hafi með atferli sínu sýnt af sér stórkostlegt gáleysi. Gildi einu þó rétt sé, sem læknar hafi eftir stefnanda, að hann hafi rekið sig óvart í ræsirofann og þannig gangsett vélina þegar hann hafi verið að losa stífluna með höndina upp í snigilrörinu. Hefði stefnandi fylgt starfsvenjum, þ.e. notað verkfæri til að losa stífluna, eða fylgt verklags- og öryggisreglum að öðru leyti, hefði ekki komið að sök þó hann ræki sig í ræsirofann. Ekkert afsaki brot stefnanda á verklags-og öryggisreglunum og alveg sérstaklega þá gjörð hans að fara með höndina upp í snigilrörið í stað þess að nota verkfæri. Ekkert hafi þvingað stefnanda til þess að fara með höndina upp í rörið. Stefnandi hafi sjálfur átt að sjá um að verkfæri til að losa stífluna væru tiltæk. Ef járnstöngin, sem venjulega hafi verið notuð, hafi ekki verið tiltæk, hafi stefnanda borið að fá sér annað áhald til að losa með stífluna í hennar stað, svo sem skrúflykilinn sem hann hafi notað til að losa upp festiboltana á neðsta hluta stútsins þar sem öryggisgrindin hafi verið. Stefnanda hafi ekkert verið að vanbúnaði að nota lykilinn eða önnur verkfæri sem nóg hafi verið af. Þá hafi hann getað kallað til verkstjóra. Hvað sem öðru líði verði ekki horft fram hjá því, að með því að brjóta verklags – og öryggisreglurnar og fara gegn fortakslausu banni með höndina upp í snigilrörið, hafi stefnandi valdið slysi sínu sem annars hefði ekki orðið. Þar sé ekki við aðra að sakast. Stefnandi eigi því að bera allt tjón sitt sjálfur. Tilvísun stefnanda til 3. mgr. 5. gr. tilskipunar 89/391/EBE og dóms EFTA- dómstólsins í máli nr. 2/10 hafi hér enga þýðingu við sakarmatið en tilskipunin hafi ekki lagagildi á Íslandi. Verði því ekki á henni byggt í lögskiptum milli einkaaðila. Að sama skapi hafi dómur EFTA- dómstólsins í máli nr. 2/10 ekkert fordæmisgildi í fyrirliggjandi máli.
Þá byggi varakrafa stefnda á því að stefnandi eigi höfuðsök á slysinu og hugsanleg bótaskylda takmarkist við það. Um eigin sök stefnanda sé vísað til fyrri málastæðna um það efni.
V.
Í skýrslu sinni fyrir dómi sagði stefnandi m.a. að hann hefði verið með heyrnarhlíf og með tónlist á og því ekki heyrt hvort vélin væri í gangi. Hann taldi sig hafa slökkt á vélinni. Hann sagði að sér hafi ekki verið kennt sérstaklega á vélina og hafi samstarfsmaður stefnda sýnt honum hvernig best væri að taka stútinn af til að hreinsa vélina. Stefnandi sagði að járnstauturinn hefði verið til staðar í umrætt sinn. Járnið hafi oftast verið notað en einnig sú aðferð að fara með höndina upp í stútinn. Kvaðst hann hafa gert það oft áður.
G, framkvæmdastjóri stefnda, sagði m.a. í skýrslu sinni fyrir dómi að stefndi hafi verið sjálfstæður í starfi. Hann kvaðst hafa kennt honum á eldri sandblandara, sem hafi áður verið í notkun, og á þeim blandara hafi ekki verið nein öryggishlíf. Að öðru leyti hafi þessi tæki verið eins. Kvaðst hann hafa tekið skýrt fram við hann að undir engum kringumstæðum mætti hann setja höndina upp í blandarann. Það hafi einnig að sjálfsögðu gilt um nýja blandarann sem stefndi hafi slasað sig á. Alfarið hafi verið bannað að nota hendur við að losa stíflu. Skýr regla hafi verið um það í fyrirtækinu og ætlast til að járnstautur væri notaður til þess. Kvaðst G aldrei hafa séð starfsmenn losa frá stútinn og öryggishlífina. Hann hefði áminnt viðkomandi starfsmann ef hann hefði orðið var við slíkt. Unnt sé að slökkva á sniglinum með rofa á stjórnborði. Þá fari rafmagn af sniglinum en ekki vélinni sjálfri. Venja hafi verið að slökkva með þessum takka og síðan nota járnið til þess að fara upp í stútinn í gegnum öryggisgrindina og krapa burt stíflu. Það hafi þurft að gera nokkrum sinnum á dag. G kvaðst aldrei hafa séð starfsmenn sína skrúfa stútinn af. Eftir slysið hafi stúturinn verið soðinn fastur að tilmælum Vinnueftirlitsins.
H og F, starfsmenn stefnda, könnuðust við að komið hafi fyrir að stúturinn hafi í einhverjum tilvikum verið tekinn af vélinni þegar það hafi átt við. Kvað F það hafa komið fyrir að hann hafi sjálfur hreinsað vélina með því að nota hendur við verkið.
VI.
Þann 11. maí 2007 slasaðist stefnandi á fingrum við vinnu sína hjá stefnda. Hann vann við sandblandara og hafði gert um eins árs skeið. Vinna við sandblandarann var fólgin í því að fylla steypumót með mótasandi. Í blandaranum er snigill sem ber sand í gegnum hann og að útstreymisstút neðan á vélinni. Venja var að hreinsa sandblandarann og snigilrörið á tveggja til fjögurra vikna fresti og var þá blandarinn opnaður að ofanverðu og rofnaði þá straumur sjálfkrafa til vélarinnar.
Þess á milli þurfti nokkrum sinnum á dag að hreinsa útstreymisstútinn neðan frá til þess að losa um stíflur. Neðst í stútnum er öryggisgrind sem varnar því að unnt sé að komast að sniglinum eða öðrum hreyfanlegum hlutum vélarinnar. Í þeim tilvikum var straumur rofinn til snigilsins með sérstökum hnappi á stjórnborði og stöðvaðist hann þá en rafmagn hélst á vélinni að öðru leyti. Var notaður járnstautur, um 25-30 sentímetra langur, til þess að kraka upp í stútinn í gegnum öryggisgrindina og losa um stíflur.
Fram hefur komið í málinu að breytingar höfðu verið gerðar á blandaranum áður en slysið varð þannig að neðsti hluti stútsins, sem beinir sandi í steypumót, hafði í hagræðingarskyni verið skorinn af vegna ákveðins verkefnis en festur síðar aftur á með boltum eftir að verkefninu lauk. Fyrir þessa breytingu var stúturinn og öryggisgrindin ein heild og því ómögulegt að fara með höndi upp í stútinn. Eftir breytingu var unnt að losa stútinn frá ásamt öryggisgrindinni. Eftir slysið var stúturinn soðinn fastur við vélina að beiðni Vinnueftirlitsins og var vélin þá komin í upprunalegt horf.
Þegar slysið varð ákvað stefnandi að nota ekki járnið heldur losaði hann neðsta hluta stútsins frá með því að skrúfa tvo festibolta lausa með skiptilykli. Tók hann þá einnig í burtu öryggisgrindina. Stefndi taldi sig hafa slökkt á vélinni en heyrði ekki í henni þar sem hann var með hlífar fyrir eyrum og tónlist í heyrnarhlífinni. Stefnandi telur mögulegt að hann hafi rekið sig í gangsetningarhnapp vélarinnar þegar hann var að reyna að losa stífluna. Hann stakk vinstri hendi upp í rörið og lenti með þrjá fingur í sniglinum og brotnuðu þeir illa.
G, framkvæmdastjóri stefnda, kvaðst hafa kennt stefnanda á eldri blandara sem hafi verið nánast eins og sá sem stefnandi slasaðist á. Á þeim eldri hafi þó ekki verið öryggisgrind. Hafi hann lagt blátt bann við því að farið væri með höndina inn í vélina að neðanverðu heldur skyldi ávallt nota járnstautinn til þess að losa stíflur. Fram kom þó í vitnaframburði starfsmanns stefnda að eitthvað hafi tíðkast að stúturinn væri tekinn frá og farið væri með fingur upp í stútinn til að losa stíflur. Þá hafi að sjálfsögðu verið slökkt á vélinni. G sagði í framburði sínum fyrir dómi að hann hafi lagt blátt bann við slíku verklagi og hefði hann áminnt starfsmenn ef hann hefði séð slíkt.
Í stefnu er því haldið fram að járnstauturinn hafi ekki verið til staðar þegar stefnandi slasaðist og m.a. þess vegna hafi stefnandi tekið þá ákvörðun að hreinsa stífluna með hendinni. Við aðalmeðferð sagði stefnandi hins vegar að járnstauturinn hefði verið tiltækur á sínum stað. Enda þótt að járnið hefði ekki verið tiltækt í umrætt sinn hefði mátt nota hvaða verkfæri sem var, eins og t.d. skrúfjárn eða skiptilykilinn sem stefnandi notaði til þess að skrúfa öryggisgrindina frá. Þá er einnig ranglega farið með í stefnu að nýr útbúnaður hafi verið settur á útstreymisstútinn. Málsástæður stefnanda, byggðar á þessum grunni, koma því ekki til álita. Einnig sú málsástæða að mikill þrýstingur hefði verið á stefnanda að láta vélina ekki stöðvast með þeim afleiðingum að framleiðsla stöðvaðist eða jafnvel eyðilegðist. Þessi málsástæða er einnig á misskilningi byggð því það tók stuttan tíma að losa um stíflur með því að fara upp í stútinn að neðanverðu, sem gert var nokkrum sinnum á dag, og stöðvaðist framleiðslulína ekki við það. Voru atvik með þeim hætti er slysið varð. Hins vegar stöðvaðist framleiðsla þegar blandarinn var hreinsaður á tveggja til fjögurra vikna fresti.
Ekki verður fallist á með stefnanda að ákvæði 65. gr. laga nr. 46/1980 um áhættumat komi til álita þar sem upplýst er í málinu að Vinnueftirlitið gerði ekki athugasemdir við það verklag sem stefnda var kennt og átti að fara eftir. Þá gerði Vinnueftirlitið ekki heldur athugasemdir við að útsláttarrofi var ekki á neðri hluta vélarinnar og að ræsirofi væri of nálægt vélinni. Verður því ekki fallist á þær málsástæður stefnanda að vélin hafi að þessu leyti verið vanbúin. Þá er ósannað að búnaður sandblandarans hafi verið í ósamræmi við reglur 1.4.2 og 1.64 í viðauka I við reglugerð nr. 761/2001. Ósannað er að vélin hafi eftir breytingu ekki fullnægt öryggiskröfum samkvæmt lögum og reglugerðum, enda var stúturinn, sem stefnandi fjarlægði, festur með boltum við vélina.
Stefnandi var […] ára gamall þá er slysið varð. Hann hafði starfað um fimm og hálft ár hjá stefnda, þar af eitt ár við sandblandarann. Hann var því þaulvanur starfinu. Vann hann einn við vélina og sá um umhirðu hennar. Slysið verður rakið til þess að stefnandi skrúfaði neðsta hluta stútsins og þar með öryggishlífina frá og fór með höndina upp í stútinn án þess að tryggja að slökkt væri á vélinni. Enda þótt breytingar á vélinni gerðu það mögulegt að komast að hreyfanlegum hlutum hennar verður ekki litið fram hjá því að verklag stefnanda var brot á starfsvenjum og átti að vera honum ljóst hversu hættulegri aðferð hann beitti. Ekki verður séð að neitt annað en stórkostlegt gáleysi stefnanda hafi ráðið ákvörðun hans um þetta verklag og ekki hefur verið sýnt fram á að knýjandi þörf hafi verið á að beita þessu verklagi fremur en að nota tiltæk verkfæri og án þess að fjarlægja öryggishlífina. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að hætta hafi stafað af sandblandaranum ef eðlilega hefði verið að verki staðið en hætta stafaði hins vegar af þeirri aðferð sem stefnandi beitti í umrætt sinn. Telja verður að stefnandi hafi mátt gera sér grein fyrir þeirri hættu. Þannig verður að telja að slysið verði rakið til óaðgæslu stefnanda sjálfs en ekki til atvika er varði stefnda.
Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða dómsins að ekki séu efni til að fella ábyrgð á slysi stefnanda á stefnda. Verður stefnandi þannig sjálfur að bera ábyrgð á því hvernig til tókst í umrætt sinn. Er stefndi samkvæmt þessu sýknaður af kröfum stefnanda um skaðabætur en eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns hans, Þ. Skorra Steingrímssonar hdl., sem þykja hæfilega ákveðnar 753.000 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari dæmir mál þetta.
DÓMSORÐ
Stefndi, B ehf., á að vera sýkn af kröfum stefnanda, A.
Málskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns hans, Þ. Skorra Steingrímssonar hdl., 753.000 krónur.