Hæstiréttur íslands

Mál nr. 116/2001


Lykilorð

  • Akstur sviptur ökurétti


Fimmtudaginn 31

 

Fimmtudaginn 31. maí 2001.

Nr. 116/2001.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Guðna Heiðari Richter

(Örn Höskuldsson hrl.)

 

Akstur án ökuréttar.

G var sakfelldur fyrir að hafa ekið án ökuréttar. Hafði G áður hlotið þrettán dóma og eitt skipti gengist undir lögreglustjórasátt fyrir akstur án ökuréttar. Með hliðsjón af sakarferli hans var honum gert að sæta fangelsi í þrjá mánuði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 19. mars 2001 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú staðfestingar héraðsdóms.

Ákærði krefst þess að refsing samkvæmt héraðsdómi verði milduð.

Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann frá árinu 1994 þrettán sinnum hlotið dóm og eitt skipti gengist undir lögreglustjórasátt fyrir akstur án ökuréttar. Í tíu tilvikum hafði ákærði einnig gerst sekur um önnur umferðarlagabrot. Með tilliti til þessa sakaferils þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í þrjá mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, svo sem greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Guðni Heiðar Richter, sæti fangelsi í þrjá mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Arnar Höskuldssonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur

                Ár 2001, þriðjudaginn 6. febrúar er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Ingibjörgu Benediktsdóttur héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 56/2001: Ákæruvaldið gegn Guðna Heiðari Richter, en málið var dómtekið 25. janúar sl. á grundvelli 125. gr. laga nr. 19/1991.

Málið er höfðað með ákæruskjali lögreglustjórans í Reykjavík 16. janúar sl. á hendur ákærða, Guðna Heiðari Richter, kt. 250477-5119, Skaftahlíð 20, Reykjavík, „fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni JP-040, að morgni laugardagsins 23. desember 2000, sviptur ökurétti frá Síðumúla í Reykjavík, uns lögregla stöðvaði aksturinn á Bæjarhálsi, við Hraunbæ.

Þetta telst varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 3. gr. laga nr. 57/1997.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Með skýlausri játningu ákærða, sem er í samræmi við önnur gögn málsins, þykir sannað að hann hafi gerst sekur um það brot, sem honum er að sök gefið í ákæru og þar er rétt heimfært til refsiákvæða.

Ákærði hefur hlotið 18 refsidóma frá árinu 1994, þar af 13 fyrir að aka sviptur ökurétti. Þann 7. febrúar 1996 var ákærði í fyrsta sinn sviptur ökurétti og þá í eitt ár frá 15. janúar 1996 vegna ölvunaraksturs. Þann 24. maí sama ár var hann á ný dæmdur vegna sama brots auk réttindaleysis vegna aksturs og var hann sviptur ökurétti í 1 ár frá 15. janúar 1997. Í desember 1997 var hann enn dæmdur fyrir sams konar brot og í maí árið áður og var nú sviptur ökurétti í 2 ár frá 15. janúar 1998. Í janúar 1998 var hann dæmdur til greiðslu 93.000 króna sektar fyrir að aka sviptur ökurétti. Ákærði var dæmdur á ný 20. febrúar 1998 í 30 daga varðhald og sviptur ökurétti í 3 ár frá 20. febrúar 1998, enn fyrir ölvun og akstur sviptur ökurétti. Í fimm tilvikanna var um hegningarauka að ræða og þess getið í dómunum að undanskildum dóminum frá 20. september 1999. Í þessum 8 dómum var ákærði sakfelldur fyrir að aka sviptur ökurétti í 17 skipti. Brot ákærða sem hér er til meðferðar var framið 23. desember, eða rúmum 5 vikum eftir að hann var dæmdur í fimm mánaða fangelsi fyrir sams konar brot. Brot hans nú er hins vegar framið sex dögum áður en hann hlaut síðasta dóm, 23. desember sl., fyrir sams konar brot, en ákærða var þá ekki dæmd refsing þar sem um hegningarauka var að ræða við fimm mánaða dóminn. Ljóst er af þessu og sakavottorði ákærða að brotavilji ákærða er harður og hann hefur linnulítið ekið sviptur ökurétti frá þeim tíma er hann var fyrst sviptur ökurétti árið 1996. Með hliðsjón af framansögðu og vísað til 5. og 6. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði.

Ákærði er dæmdur til að greiða þóknun skipaðs verjanda síns, Arnar Höskuldssonar hæstaréttarlögmanns, 30.000 krónur.

Sækjandi málsins var Sturla Þórðarson fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík.

D ó m s o r ð:

                Ákærði, Guðni Heiðar Richter, sæti fangelsi í 6 mánuði.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Arnar Höskuldssonar hæstaréttarlögmanns, 30.000 krónur.