Hæstiréttur íslands
Mál nr. 306/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Föstudaginn 5. júlí 2002. |
|
Nr. 306/2002. |
Sýslumaðurinn í Hafnarfirði(enginn) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Ingibjörg Benediktsdóttir og Pétur Kr. Hafstein.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. júní 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. júlí sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 28. júní 2002, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 23. ágúst nk. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 28. júní 2002.
Sýslumaðurinn í Hafnarfirði hefur krafist þess með skýrskotun til c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 að X verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 23. ágúst 2002, kl. 16:00.
Við fyrirtöku málsins mótmælti kærði kröfu um gæsluvarðald og krafðist þess að kröfunni yrði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldi yrði markaður skemmri tími.
Sýslumaður gerir grein fyrir því í kröfu sinni að kærði hafi þann 21. júní sl. verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til dagsins í dag á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála. Nú sé þess hins vegar krafist að kærði verði úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald á grundvelli c-liðar sömu lagagreinar þar sem hætta sé á því að hann haldi brotum áfram meðan málum hans sé ólokið.
Kærði sé grunaður um fjölmörg brot gegn almennum hegningarlögum, undanfarna mánuði sem flest megi heimfæra undir 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Kemur og fram í greingargerð sýslumanns að um allnokkur þjófnaðarmál á hendur kærða sé að ræða og að lögregla hafi hluta þeirra enn til rannsóknar. Þjófnaðarandlög innbrotanna séu einatt mjög svipuð, þ.e.a.s. munir sem geti auðveldlega gengið kaupum og sölum á götunni og þá oftar en ekki í skiptum fyrir fíkniefni. Í sumum málanna kemur kærði einn við sögu en í öðrum er hann í félagi við Y og í einhverjum tilvikum einnig Z.
Kærði hafi verið úrskurðaður í héraðsdómi Reykjaness í tveggja vikna gæsluvarðhald á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála, þar sem hætta þótti á að hann myndi halda brotum áfram á meðan málum hans væri ólokið. Hafi þá legið fyrir allnokkur mál þar sem kærði hafi verið grunaður um þjófnaði. Hafi lögreglustjóri ekki gefið út ákæru í þeim málum en til standi að sameina þau þeim málum sem nú séu til meðferðar.
Telji lögreglustjóri því enn frekar efni til þess nú en áður að úrskurða kærða í gæsluvarðhald á grundvelli sama lagaákvæðis og þann 14. febrúar sl. enda hafi það sýnt sig að ákærði haldi ótrauður áfram afbrotum, eftir að hann hafi verið látinn laus og því rökstudd ástæða til að ætla að hann haldi uppteknum hætti á meðan mál hans er til meðferðar.
Brot þau sem ákærði sé grunaður um að hafa framið, varði flest við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kærði sé fíkniefnaneytandi, ekki í fastri vinnu og virðist á undanförnum misserum hafa fjármagnað neyslu sína með þjófnuðum. Kemur og fram í greingargerð sýslumanns að kærði hafi sjálfur vísað til þess í skýrslu hjá lögreglu þann 24. maí sl. að hann sé atvinnulaus og heimilislaus fíkill og félagi hans Y hafi orðað það svo í skýrslutöku þann sama dag að hann, kærði og Z neyttu eiturlyfja daglega og þyrftu að brjótast inn og stela til að redda sér efnum á hverjum degi.
Sýslumaður vísar í kröfu sinni, auk þess sem að framan greini, til þess að kærði sé vanaafbrotamaður, en fyrst og fremst til þeirrar hættu sem fyrir hendi sé á áframhaldandi þjófnaðarbrotum, sem og þeirra almanna- og einstaklingsbundnu hagsmuna sem fyrir hendi séu og telur að þessi sjónarmið eigi að leiða til þess að fallast beri á kröfu um gæsluvarðhald á grundvelli c liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Af gögnum málsins má ráða að kærði hefur viðurkennt aðild að fjölda innbrota og er bendlaður við enn fleiri. Einnig hefur kærði viðurkennt að þýfi úr innbrotum þessum hefur hann notað í nokkrum tilvikum í skiptum fyrir fíkniefni. Benda gögn málsins eindregið til að kærði sé heimilislaus fíkniefnaneytandi og fjármagni neyslu sína með innbrotum. Hefur kærði sagt í skýrslu sinni fyrir dóminum að brot þau sem hann hefur viðurkennt og getið er um í gögnum málsins hafi hann framið í þeim tilgangi að afla sér fjár til þess að fjármagna fíkniefnaneyslu sína. Kærði hefur ekki látið af brotastarfsemi þrátt fyrir afskipti lögreglu af honum. Í c. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 kemur fram það skilyrði fyrir því að setja megi mann í gæsluvarðhald að ætla megi að hann muni halda áfram brotum meðan máli hans er ólokið. Hefur ákvæði þessu helst verið beitt gegn svokölluðum síbrotamönnum og hefur þá einkum verið horft til sakavottorðs þeirra þegar metið hefur verið hvort réttmætt sé að beita ákvæðinu eður ei. Í máli þessu gefur sakavottorð kærða ekki tilefni til beitingar ákvæðisins. Hins vegar er það mat dómara að beiting ákvæðisins verði ekki einskorðuð við mat á sakarferli ákærða samkvæmt sakavottorði. Í máli þessu liggur fyrir samfelld brotahrina kærða undanfarna mánuði og virðist ekkert lát þar á og engin ástæða til að ætla að kærði láti af þessari háttsemi ef hann verður látinn laus. Einkum þegar horft er til þess að kærði er fíkniefnaneytandi og hefur fjármagnað neyslu sína með þessum hætti. Það er því mat dómsins, með vísan til fyrirliggjandi gagna, að ekki sé á því vafi að fullnægt sé skilyrðum c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 og verður því fallist á kröfu sýslumanns eins og hún er fram sett. Í ljósi fjölda þeirra brota sem um ræðir verður fallist á það að kærði sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar eða allt til föstudagsins 23. ágúst 2002 kl. 16:00.
Sveinn Sigurkarlsson, héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð
ÚRSKURÐARORÐ:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til klukkan 16:00 föstudaginn 23. ágúst 2002.