Hæstiréttur íslands

Mál nr. 315/2008


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Húsbrot
  • Miskabætur


                                     

Fimmtudaginn 27. nóvember 2008.

Nr. 315/2008.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir, saksóknari)

gegn

X

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Líkamsárás. Húsbrot. Miskabætur.

X var ákærður fyrir fjórar líkamsárásir og tvö húsbrot með því að hafa veist að fyrrverandi eiginkonu sinni á heimili hennar. Voru brot hans heimfærð til 1. mgr. 217. gr. og 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Gegn neitun X var ekki talið sannað að hann hefði gerst sekur um eina af þessum líkamsárásum en hann sakfelldur fyrir hinar þrjár og tvö húsbrot.  Refsing X var ákveðin átta mánaða fangelsi en var skilorðsbundin að hluta. Þá var X dæmdur til greiðslu miskabóta til handa A að fjárhæð 600.000 krónur.

  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 15. maí 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu og að ákærði verið dæmdur til greiðslu bóta til A, að fjárhæð 2.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 24. janúar 2005 til 29. júní 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, en til vara sýknu. Að því frágengnu krefst hann þess að refsing verði milduð. Þá krefst hann að skaðabótakröfu A verði vísað frá héraðsdómi en til vara að hún verði lækkuð.

Krafa ákærða um ómerkingu héraðsdóms reist á því að héraðsdómur hefði átt að vera fjölskipaður samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Ákvæði þetta felur í sér heimild til að ákveða að þrír héraðsdómarar skuli skipa dóm í máli ef sýnt þykir að niðurstaða kunni að verulegu leyti að ráðast af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi. Eins og sönnunargögnum er háttað í málinu þykja ekki efni til að hnekkja ákvörðun héraðsdómara um að sitja einn í dómi. Ómerkingarkröfu ákærða er því hafnað.

Ákærða er gefið að sök að hafa framið fjórar líkamsárásir og tvö húsbrot. Með fyrsta lið ákæru er honum gefið að sök að hafa að kvöldi 24. janúar 2005 ráðist á A og margsinnis veitt henni hnefahögg í andlit, bak, axlir, hnakka og maga, rifið í hár hennar og sparkað í fætur hennar, allt með þeim afleiðingum að hún hlaut bólgu um kinnbein, höku og niður á neðri kjálka beggja vegna, mar og roða utanvert á hægri augabrún, eymsli í hársverði og yfirborðsáverka og óþægindi í kvið. Héraðsdómur reisir niðurstöðu sína á frásögn A, vitnisins D framlögðu læknisvottorði, frumskýrslu lögreglu og framburði læknis og lögreglumanns er staðfestu framangreind gögn. Samkvæmt umræddri frumskýrslu var óskað eftir aðstoð lögreglu að [...] Reykjavík vegna heimilisófriðar. Hins vegar verður ekki séð af gögnum málsins að ákærði hafi verið á vettvangi er lögregla kom þangað, eins og gengið er út frá í héraðsdómi. A lagði ekki fram kæru fyrr en 15. mars 2006, eða rúmu ári eftir að atvik eiga að hafa gerst og gaf ákærði því fyrst skýrslu í kjölfar kærunnar. Gegn neitun ákærða og með vísan til 45. gr. og 46. gr. laga nr. 19/1991 er uppi slíkur vafi um sekt ákærða að sýkna ber hann af kröfu ákæruvalds vegna þessa liðar ákæru.

Um niðurstöðu sína vegna þriðja liðar ákæru vísar héraðsdómur til framburðarskýrslu ákærða hjá lögreglu. Hins vegar verður ekki séð að hún hafi verið borin undir ákærða fyrir dómi. Þrátt fyrir það er nægilega sannað með öðru því sem rakið er í héraðsdómi að ákærði hafi samkvæmt þeim lið gerst sekur um líkamsárás er varðar við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og húsbrot samkvæmt 231. gr. laganna.

Niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu samkvæmt öðrum og fjórða lið ákæru verður staðfest með vísan til forsendna hans.

Þrátt fyrir að ákærði sé sýknaður af fyrsta lið ákærunnar er til þess að líta við ákvörðun refsingar að hann er nú sakfelldur fyrir þrjár líkamsárásir og tvö húsbrot á heimili A. Verður refsing hans ákveðin fangelsi í 8 mánuði, en þegar litið er til þess að dráttur varð á rannsókn málsins hjá lögreglu, sem ekki hefur verið skýrður, og þess að ákærði hefur ekki áður verið fundinn sekur um refsivert brot sem hér skiptir máli, þykir rétt að binda hluta refsingar ákærða skilorði eins í héraðsdómi greinir.

Með vísan til þess sem rakið er í héraðsdómi um afleiðingar árása ákærða annars vegar og hins vegar þess að ákærði er sýknaður af fyrsta lið ákæru verða miskabætur samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 ákveðnar 600.000 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir.

Ekki liggur fyrir yfirlit réttargæslumanns um störf hennar í þágu málsins. Að virtum gögnum þess verður þóknun henni til handa vegna rannsóknar og meðferðar málsins í héraði ákveðin 250.000 krónur, en ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða að öðru leyti staðfest.

Með vísan til 1. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991 verður ákærði dæmdur til að greiða 2/3 áfrýjunarkostnaðar samkvæmt yfirliti ákæruvalds um sakarkostnað, þar með talda 2/3 hluta málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um refsingu ákærða, X.

Ákærði greiði A 600.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. mars 2006 til 29. júní 2007, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði 250.000 krónur í þóknun til réttargæslumanns brotaþola, Helgu Leifsdóttur héraðsdómslögmanns vegna meðferðar málsins í héraði. Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er að öðru leyti óraskað.

Ákærði greiði 2/3 hluta áfrýjunarkostnaðar málsins, sem samtals nemur 286.818 krónum, þar með eru talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur. Úr ríkissjóði greiðist 1/3 hluti kostnaðarins.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. apríl 2008.

Málið er höfðað með ákæru Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri  10. september sl. á hendur ákærða, X, kt. xxxxxx-xxxx, Kópavogi, “fyrir eftirtalin brot á hendur A, kt. 010670-2179, fyrrverandi eiginkonu hans, á heimili hennar í [...] í Reykjavík:

i) Að kvöldi mánudagsins 24. janúar 2005, fyrir líkamsárás með því að hafa ráðist á A og margsinnis slegið hana hnefahöggum í andlit, bak, axlir, hnakka og maga, rifið í hár hennar og sparkað í fætur hennar, allt með þeim afleiðingum að hún hlaut bólgu um kinnbein, höku og niður á neðri kjálka beggja vegna, mar og roða utanvert á hægri augabrún, eymsli í hársverði og yfirborðsáverka og óþægindi í kvið.

ii) Að kvöldi miðvikudagsins 27. apríl 2005, fyrir líkamsárás með því að hafa ráðist A í svefnherbergi íbúðarinnar og dregið hana á hárinu úr rúmi sem hún sat í og ítrekað slegið hana með krepptum hnefa þar sem hún lá í gólfinu, með þeim afleiðingum að hún hlaut eymsli í baki, hálsi og í hársverði og mar yfir vinstri rasskinn.

iii) Laust eftir miðnætti mánudagsins 20. febrúar 2006, fyrir líkamsárás og húsbrot, með því að hafa ruðst í heimildarleysi inn á heimili A og gripið í hár hennar og haldið henni fastri á meðan hann sló hana hnefahöggum í andlit og í bak, og svo sparkað í fætur hennar, með þeim afleiðingum að hún hlaut mar og rispur á enni, þreifieymsli yfir á höfði og hálsvöðvum,  marbletti á hægri öxl og upphandlegg, mar á brjóstkassa og þreifieymsli undir rifjum.

iv) Aðfaranótt fimmtudagsins 23. mars 2006, fyrir líkamsárás og húsbrot, með því að hafa ruðst í heimildarleysi inn á heimili A og í svefnherbergi íbúðarinnar ráðist á hana með hnefahöggum í öxl og andlit, dregið hana á hárinu og sparkað í hana, og svo gripið um hönd hennar og snúið upp á hana, allt með þeim afleiðingum að hún var margrispuð í andliti, bólgin yfir vinstra kinnbeini og með eymsli á höfði, hún hlaut marbletti og bólgur á brjóstkassa vinstra megin og marblett á vinstri upphandlegg

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20, 1981 og 110. gr. laga nr. 82, 1998 og 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 123. gr. laga nr. 82, 1998. 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Í málinu gerir nefnd A þá kröfu, að ákærði verður dæmdur til að greiða henni bætur að fjárhæð kr. 2.000.000, auk vaxta skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 24. janúar 2005 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að bótakrafa þessi var kynnt fyrir sakborningi, en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Auk þess er gerð krafa um þóknun við réttargæslu úr hendi sakbornings samkvæmt mati réttarins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á réttargæsluþóknun.”

Ákærði neitar sök að öllu leyti.  Krefst hann sýknu af refsikröfu, þess að fébótakröfunni verði vísað frá dómi og allur sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð.

Málavextir

Ákærði og A eru skilin lögskilnaði eftir stormasamt samband og hjónaband.  Talsverður munur er á því hvernig þau lýsa þessu sambandi en fyrir liggur þó að A fékk lagt nálgunarbann á ákærða þegar þau stóðu í skilnaðinum.   Lögskilnað munu þau hafa fengið 30. nóvember sl.

Ákærði hefur sagt að samband þeirra A hafi staðið í á fimmta ár.  Þau hafi gengið í hjónaband en svo skilið að borði og sæng ári seinna.  Hafi sambandið verið mjög erfitt þar sem konan sé haldin spilafíkn og hafi tapað miklu fé í spilum.  Þá hafi hún unnið sem súludansmær á þekktum stað.  Hafi hlotist af þessu öllu árekstrar milli þeirra enda sé konan auk þess skapmikil.  Kveðst hann oft hafa mátt þola andlegt og líkamlegt ofbeldi af hendi hennar.  Hafi hún mörgum sinnum brugðið hnífi þegar hún reiddist.  Sambúðinni hafi lokið fyrir einu til einu og hálfu ári síðan.  Þrátt fyrir það sem hún segi um sambúðartímann sé það rétt að hann hafi alltaf verið “inni á heimilinu” og oft gist næturlangt hjá henni í [...].  Hann segist álíta að kærur A séu allar “peningaplokk” og sé nálgunarbannið liður í þessum blekkingaleik hennar.  Hann kveðst þó hafa virt nálgunarbannið og ekki hafa sett sig í samband við konuna eftir síðasta atvikið í málinu. 

A hefur að sínu leyti skýrt frá því að ákærði hafi oft verið drukkinn og ofbeldisfullur í hennar garð á meðan samband þeirra varaði.  Hann sé annars vænsti maður ódrukkinn en hann hafi oft farið út á kvöldin og komið ölvaður heim.  Hafi hann þá farið að rífast í henni og á endanum lagt á hana hendur.  Hafi hún stundum þurft að flýja að heiman með son sinn, sem nú sé 12 ára gamall, vegna þessa og þá ekki verið í öðru en innifötum.    Hún segir að þau hafi slitið samvistir árið 2004 og því ekki verið í sambúð 2005 og 2006 þegar atvikin gerðust.  Hafi hún reynt að halda vinsamlegu sambandi við hann þrátt fyrir þetta og hann komið á heimili hennar þegar hann vildi.  Hún kveðst hafa fengist við ýmis störf hér á landi, svo sem verksmiðjustörf.  Þá kannast hún við að hafa verið dansmær á skemmtistað áður en þau ákærði kynntust og neyðst til þess að gera það aftur um skeið eftir að þau ákærði fóru að búa saman, enda hafi þau ákærði verið illa stödd fjárhagslega vegna drykkju hans.  Hafi hann virst sætta sig við það.  Aðspurð segir hún að oft hafi komið til handalögmála hjá þeim þegar ákærði var ölvaður.  Eggvopn hafi þó ekki komið við sögu nema í síðasta skiptið.     Hún segist vera 165 cm á hæð.  Hún segir að meðan á brotum ákærða stóð hafi hún óttast um líf sitt og auk þess sjái hún eftir þeim tíma sem hafi farið í sambúðina við ákærða.  Hún segist hafa lagt sig fram til þess að geðjast honum og gera gott úr öllu.  Þá segist hún hafa áhyggjur af því sem kunni að gerast hér eftir.  Hún segist hafa orðið vör við það að ákærði hafi reynt að nálgast hana í eitt skipti eftir síðasta atvikið en hún hafi ekki kært það til lögreglunnar. 

I. kafli ákæru

Samkvæmt staðfestri lögregluskýrslu E var það kl. 19.08, mánudaginn 24. janúar 2005 að boð bárust honum og H lögreglumanni um að þeir skyldu fara í [...] út af erjum milli fyrrum sambýlisfólks.  Þegar þangað kom voru þar fyrir A og ákærði í málinu.  Segir þar að hún hafi verið sýnilega hrædd og miður sín.  Kvað hún ákærða hafa komið óbeðinn í heimsókn og verið ölvaður og æstur. Hefði hann brugðist illa við þegar hún bað hann fara og rifið í hár henni, slegið hana með krepptum hnefa á hægri vanga og á hnakkann og svo eitt högg í magann.  Hún gat þess að hún væri nýkomin úr gallblöðruaðgerð og hefði ákærða verið fullkunnugt um það.  Þá hefði hún verið að gæta ársgamals barns þegar þetta gerðist. 

A fór á slysadeild Fossvogsspítala nokkru seinna þetta kvöld og segir í staðfestu vottorði Hlyns Þorsteinssonar læknis að dálítil bólga hafi verið um kinnbein  og höku og niður á kjálka báðum megin.  Þá segir þar að konan hafi kvartað um eymsli í hársverði og hægra megin á kviði.

Í skýrslu sem hún gaf hjá lögreglu rúmu ári síðar, 15. mars 2006, sagði hún svo frá að hún hefði beðið hann að fara út þar sem hann væri drukkinn en hann þá reiðst og ráðist á hana með höggum.  Hefði hún reynt að verjast honum með því að halda höndunum fyrir andlitinu en fengið högg á bak, axlir og hnakka og hann rifið í hár hennar.  Hefði hún fengið högg vinstra megin í líkamann og á kviðinn og eins hefði hann sparkað í fætur henni.  Hún hefði náð að róa hann og svo getað hringt á lögregluna.

Ákærða sagðist svo frá í skýrslu hjá lögreglu 23. mars 2006 að hann  myndi ekki eftir þessu atviki en neitaði að hafa ráðist á A.  Hann kvaðst hafa búið hjá henni á þeim tíma sem þetta gerðist.

Verður nú gerð grein fyrir því sem fram hefur komið í aðalmeðferð málsins um þetta sakaratriði. 

Ákærði segir það um fyrsta lið ákærunnar að hann muni ekki gjörla eftir þessu atviki og reyndar nánast ekkert.  Neitar hann að hafa gerst sekur um þá árás sem lýst er þar.  Hann kveðst ekki bera ábyrgð á þeim áverkum sem lýst er í vottorði Hlyns Þorsteinssonar læknis.  Hann segist hafa búið á heimilinu hjá A á þeim tíma sem um ræðir og hann t.d. fengið póst sinn sendan þangað.

 A segir um þetta atvik að hún hafi þá nýlega verið komin úr læknisaðgerð út af gallblöðru, tveimur til þremur dögum áður.  Hafi hún verið að gæta ársgamals barns fyrir vinkonu sína heima hjá sér og barnið verið hjá henni marga daga, en ákærði hafði séð um barnið fyrir hana nokkra daga meðan hún var á sjúkrahúsinu og verið enn með lykla að íbúðinni út af því.  Í þetta tiltekna skipti hafi ákærði svo verið staddur hjá henni í heimsókn, einu sinni sem oftar, og verið drukkinn.  Hafi hún beðið hann um að fara en hann brugðist illa við og beðið hana um peninga.  Hafi hún reynt að koma honum út en hann hafi rifið í hárið á henni og slegið hana í andlitið og í kviðinn og bakið.  Einnig hafi hann sparkað í líkama hennar eftir að hún var fallin í gólfið.  Hafi þetta gerst inni í svefnherberginu.  Hann hafi svo farið og hafi hún eða nágranni hringt í lögregluna sem hafi komið.  Hún hafi þá leitað sér læknishjálpar á slysadeild og D, vinur hennar, ekið henni þangað.  Hún segir einhverja muni í eigu ákærða hafa enn verið í íbúðinni þegar þetta gerðist. 

Hlynur Þorsteinsson, læknir, sem sinnti A á slysadeild, segir hafa legið fyrir að hún hefði gengist undir aðgerð á kviði 12 dögum áður en hún kom á slysadeildina.  Hafi hún sagst hafa verið slegin í kviðinn.  Hafi því verið hugað að þessu en ekki hafi fundist merki þess að hún hefði orðið fyrir skaða þar.  Hann segir mar á mjúkvefjum geta komið fram fljótlega eftir högg ef hart er undir og hefði mar eftir högg á þeim tíma sem skiptir máli hér getað verið komið fram þegar konan kom á slysadeildina.  Aðspurður segir hann ekki hafa sést mar á kvið, en þar sé mýkra svæði og lengra í hart á móti. 

E lögreglumaður segir að þegar þeir komu á staðinn í umrætt sinn hafi þeir hitt þar fyrir A sem hafi verið í miklu uppnámi, miður sín og hrædd.  Hafi hún sagt ákærða hafa komið í heimsókn, óboðinn, þá skömmu áður og verið mjög ölvaður og æstur.   Hafi hún sagst hafa beðið hann um að fara út en hann þá orðið ókvæða við og ráðist á hana og barið hana í andlit og í maga og tekið í hárið á henni.  Hefði hann svo farið að því loknu en þetta hefði ekki verið fyrsta skiptið að hann réðist á hana.  Þá segist vitnið muna eftir ungu barni sofandi þarna.  Þá hafi komið á staðinn einhver vinur A fljótlega eftir að þeir lögreglumennirnir komu á staðinn.  Hann kveðst ekki hafa séð áverka á konunni en hún hafi sagt ákærða hafa barið hana í magann og sagðist hún í því sambandi vera nýkomin úr læknisaðgerð á kviði.

D, kunningi A, hefur komið fyrir dóminn og skýrt frá því að hann hafi ekið henni á slysadeild eftir að hún hafði orðið fyrir árás fyrrum sambýlismanns síns og þá verið nýkomin úr gallsteinaaðgerð.  Gæti þetta hafa verið í janúar 2005.  Hafi hann ekið henni frá [...] á slysadeild Fossvogsspítalans eftir að hún hringdi í hann heim og bað um að vera ekið þangað.  Hafi konan verið í slæmu ástandi, átt erfitt með gang eftir að ákærði hefði kýlt hana í síðu og bak, að hún sagði.    

Niðurstaða

Ákærði neitar sök.  Dómurinn metur frásögn A af atvikinu hins vegar trúverðuga.  Er frásögnin auk þess studd staðfestu læknisvottorði um áverka á henni, staðfestri lögregluskýrslu og framburði E svo og framburði D.  Ber að byggja á frásögn A og er sannað, gegn neitun ákærða, að hann hafi ráðist á hana með þeim hætti sem greinir í þessum ákærukafla og veitt henni þá áverka sem þar greinir.  Hefur ákærði með þessu orðið sekur um brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.

II. kafli ákæru

Í málinu er lögregluskýrsla I, 19. apríl 2006, þar sem greinir frá því að íbúar í [...] hafi hringt til lögreglunnar út af heimiliserjum hjá A.  Skýrsla þessi er hins vegar óstaðfest.

Í málinu er staðfest læknisvottorð Þóris Njálssonar, sérfræðings á slysadeild Fossvogsspítala, dagsett 6. maí 206.  Segir þar að A hafi komið á slysadeildina 29. apríl 2005 eftir líkamsárás sem hún sætti 27. apríl 2005, kl. 23.  Hafi verið mar yfir vinstri rasskinn, um 2x4 cm í þvermál.  Hafi hún sagst vera aum þar og í öllum hryggvöðvum vinstra megin í baki svo og yfir hálsvöðvum vinstra megin. Þá hafi hún fundið til eymsla aftan til í hársverði.

A kom  á lögreglustöðina við Hverfisgötu 15. mars 2006 og kærði yfir því að ákærði hefði ráðist á hana 27. apríl árið áður.  Sagðist hún hafa verið heima hjá sér í [...] og hefði ákærði komið inn óboðinn og ráðist á hana með hnefahöggum í líkamann, aðallega á vinstri hlið, og einnig rifið í hárið á henni.  Hefði ákærði ráðist á hana inni í svefnherbergi en vinkona hennar, B, sem stödd var hjá henni, reynt að stöðva árásina.

Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu 23. sama mánaðar og kvaðst hann ekki kannast við þetta atvik.  Kvaðst hann álíta að A væri með þessu að reyna að kúga út úr honum fé þar sem hún væri á förum til Tælands og einnig þyrfti hún peninga til þess að spila.

B, sem fyrr er nefnd, gaf skýrslu hjá lögreglu 26. september 2006 og greindi frá því að hún hefði á þessum tíma búið hjá A og þær verið þar heima að horfa á sjónvarp ásamt syni a þegar ákærði kom skyndilega inn og réðst á A.  Hefði hann rifið í hárið á henni og barið hana.  Hafi hann virst alls gáður.  Hafi hann dregið konuna á hárinu fram úr rúmi sem þau höfðu setið á og slegið hana með krepptum hnefa og haldið í hár hennar.  Hafi flest höggin lent í síðu hennar og baki.  Hún kvaðst hafa stokkið til og reynt að stöðva árásina og ákærði svo hætt skömmu síðar.  Daginn eftir hefði hún ekið með A á slysadeild og hún þá átt erfitt með gang.  Kvaðst hún hafa séð að A var með marblett á baki. Þá sagði hún að hárflygsur sem ákærði hefði reytt úr A hefðu verið á svefnherbergisgólfinu.   Hún sagði sig minna að nágranni A, J að nafni, hefði komið þarna og hringt á lögreglu.  Hefði lögreglan komið en ákærði þá verið farinn.

Ákærði var aftur yfirheyrður um þetta atvik 29. maí 2006.  Sagði hann þá að það væri ekki rétt að hann hefði ráðist með hnefahöggum á A en hann kynni að hafa rekið henni kinnhest.  Þá kvað hann það ekki rétt að B hefði reynt að stöðva stimpingar þeirra A og ekki myndi hann til þess að hafa séð áverka á henni eftir þetta.  Gætu áverkar sem lýst er í læknisvottorðinu verið af völdum annarra karlmanna.

J, nágranni A, gaf skýrslu hjá lögreglu 29. maí 2006.  Hann hefur einnig komið fyrir dóm.  Frásögn hans er öll fremur ruglingsleg og óljós og lítið á henni byggjandi.  Eru því ekki efni til þess að rekja skýrslur hans í málinu um þetta eða önnur tilvik í málinu.

Verður nú gerð grein fyrir því sem fram hefur komið í aðalmeðferð málsins um þennan kafla ákæru. 

Ákærði neitar sök.  Segir hann atvikinu vera rangt lýst í ákæru enda “rámi” hann í það að allt sé þar rangt.  Sé ekkert til í þessum sakargiftum.  Bendir hann á það að þær A og B séu vinkonur og samlöndur.  Hann muni ekki eftir tilviki sem þessu.  Séu áverkarnir sem lýst er í málinu ekki af hans völdum. 

A segir um þennan atburð að hún hafi verið heima hjá sér og vinkona hennar í heimsókn og þær nýkomnar heim.  Hafi þær setið að spjalli inni í svefnherbergi og hafi hún þá heyrt að einhver lauk upp útidyrunum með lykli og kom inn í íbúðina.  Hafi ákærði komið inn og ráðist á hana orðalaust. Hafi hann gripið í hár hennar og slegið hana í andlitið.  Vinkonan hafi skorist í leikinn og reynt að stöðva ákærða.  Hafi kunningi hennar sem býr í húsinu eða B hringt til lögreglu, sem hafi komið á vettvang.  Hún segist hafa leitað sér læknishjálpar eftir þetta.  Hún segist muna sérstaklega eftir þessu atviki þar sem vinkona hennar hafi verið stödd hjá henni.  Hafi vinkonan ekið henni þangað strax á eftir.  Þar hafi verið löng bið og hún því farið án þess að vera skoðuð og komið aftur næsta dag.  Ekki muni hún hvort kunningi hennar, J, hafi komið niður til hennar í þetta skipti en hann hafi þurft að gera það í önnur skipti. 

Hún segir B hafa búið þarna þegar þetta gerðist og búið þar um sex eða sjö mánaða skeið.  Hún segir þau ákærða stundum hafa haft náin kynni á þessum tíma, þótt sambúð væri slitið, enda hefðu þau verið hjón.  Vegna þeirra ummæla B að þau ákærði hafi rifist á daginn en verið vinir á kvöldin segir hún að hún hafi vorkennt ákærða í aðra röndina og eins hafi hún ekki átt neina aðra vini.

B hefur skýrt frá því hún hafi verið stödd hjá A, vinkonu sinni, í umrætt sinn og þær verið að horfa á sjónvarp í svefnherbergi A.  Sonur A hafi verið heima en annars staðar í íbúðinni.  Ákærði hafi komið inn í íbúðina, reiður mjög að sjá, og orða- og fyrirvaralaust farið að A og einnig rifið í hár hennar.  Hann hafi dregið hana út úr herberginu og barið hana nokkrum sinnum en hún reynt að bera hönd fyrir höfuð sér.  Ekki hafi hún séð hvort hann sló með krepptum hnefa.  Sonur A hafi verið þarna grátandi en ekki viti hún hvort hann hafi séð árásina sjálfa.  Ákærði hafi svo farið strax eftir árásina en A grátið.  Hafi hún í fyrstu ekki viljað leita læknishjálpar en daginn eftir segir vitnið þær hafa farið saman til læknis.  B segist hafa búið hjá A þegar þetta gerðist.  Hún kveður A hafa sagt sér að hún hygðist flytja til ákærða á þessum tíma og hann hafi komið daglega í heimsókn til A.  Hann hafi þó ekki verið með lykla.  Aðspurð segir B það rétt sem haft er eftir henni í lögregluskýrslu að þau A og ákærði hafi sæst eftir þessa árás eins og oftast eftir að í odda skarst með þeim.  Hún segist ekki vita hvenær sambandi þeirra lauk endanlega enda hafi hún hætt að fylgjast með þeim á tímabili. 

Undir hana er borið það sem haft er eftir henni í lögregluskýrslu að ákærði hafi dregið Aá hárinu fram úr herberginu og slegið hana með krepptum hnefa þar sem hún lá í gólfinu meðan hann hélt í hár hennar með hinni hendinni.  Hafi hann ítrekað slegið hana í bak og síðu með krepptum hnefa.  Segir hún þetta vera rétt eftir haft og vera rétta lýsingu á athæfi ákærða. 

Þórir Njálsson, kt. 160153-5719, Sæbraut 3, Seltjarnarnesi, sérfræðingur á slysa- og bráðasviði Landspítala-háskólasjúkrahúss, tók á móti A þegar hún kom á slysadeild 29. apríl 2006.  Hefur hann sagt að um hafi verið að ræða minniháttar áverka á ýmsum stöðum, svo sem marbletti og eymsli.  Hafi marblettirnir virst nýlegir og hefðu getað verið 2 daga gamlir.  Hann kveður þessa áverka geta samrýmst því sem konan sagði að maður hennar hefði kýlt hana á nokkrum stöðum.   Hann minnir að konan hafi ekki komið sama dag og hún varð fyrir áverkunum, tveim dögum síðar eða svo.  Hafi konan ekki borið sig illa og ekki virst eiga erfitt með að hreyfa sig. 

Niðurstaða

Ákærði hefur neitað sök fyrir dómi en skýrsla hans hjá lögreglu verður þó ekki skilin öðru vísi en svo að hann kannist við atvikið og að hafa þá átt í stimpingum  við A og rekið henni kinnhest.  Framburður a um þetta atvik er að mati dómsins trúverðugur og hér nýtur við vætti sjónarvotts, B, sem dómurinn álítur einnig trúverðugt vitni.  Loks er í málinu staðfest læknisvottorð Þóris Njálssonar um komu A á slysadeild og áverka sem þar er lýst.  Ber að byggja á frásögn kvennanna um atvik þetta og telst vera sannað, gegn neitun ákærða, að hann hafi ráðist á A á þann hátt sem lýst er í ákærunni og veitt henni þá áverka sem þar er lýst.  Hefur ákærði með þessu gerst brotlegur við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.

III. kafli ákæru

Í málinu er staðfest skýrsla K lögreglumanns, dagsett 23. febrúar 2006.  Samkvæmt henni var tilkynnt um heimilisófrið í fjölbýlishúsinu [...] um hálfeittleytið nóttina 20. sama mánaðar og fóru lögreglumenn á vettvang í bíl að sinna þessu.  Þegar knúið var dyra á íbúðinni, sem um ræddi, var ekki svarað og ekki að heyra að neitt gengi á þar inni.  Þegar lögreglumenn fóru út aftur hittu þeir tvær konur fyrir utan, þær A og C.  Var A grátandi og með áverka á enni.  Kvað hún ákærða hafa ráðist á sig en hann væri farinn á brott.  Hefði hann ekki virst vera ölvaður.  Kvaðst hún hafa komið heim til þess að sækja sér föt en þá hefði ákærði komið inn á eftir henni óboðinn.  Væri hún nýbúin að láta skipta um læsingu og hefði ákærði ekki átt að geta komist inn þess vegna.  Hefði hann barið hana ítrekað í höfuð og fætur.  Loks segir í skýrslunni að þeir lögreglumennirnir hafi ekið A á slysadeild.

Í málinu er staðfest læknisvottorð Elísabetar Benedikz læknis á slysadeild Fossvogsspítala, dagsett 15. mars 2006.  Er þar lýst komu A á slysadeildina klukkan 19 mínútur yfir eitt um nóttina.  Þar er haft eftir henni að hún hefði orðið fyrir árás fyrrverandi eiginmanns á heimili hennar.  Hefði hann birst skyndilega inni hjá henni og slegið hana margsinnis í líkama og höfuð, andlit og brjóstkassa.  Þá hefði hann slegið henni við vegg og rifið í hárið á henni.  Við skoðun hafi komið í ljós mar og tvær grunnar rispur á enni.  Þá hafi verið eymsli yfir processus madtoideus vinstra megin og yfir hálsvöðva þeim megin.  Þá hafi sést tveir litlir marblettir á hægri öxl og lítið yfirborðssár vinstra megin á brjóstkassa.  Loks hafi verið eymsli undir rifjum á vinstri síðu.

A kom á lögreglustöðina við Hverfisgötu þennan dag og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir líkamsárás.  Kvaðst hún hafa brugðið sér inn til sín meðan kunningjakona hennar beið eftir henni í bíl fyrir utan.  Hefði ákærði komið inn á eftir henni og þegar farið að berja hana með krepptum hnefa í andlitið og í bak og einnig hefði hann sparkað í fætur henni.  Hefði hann virst ódrukkinn og spurt hana hvort hún væri í tygjum við mann sem hann tiltók.  Hefði hún reynt að róa ákærða sem hefði svo fylgt henni út að bílnum og haldið um handlegg hennar.  Þar hefði hún náð að sleppa frá honum og þær stöllur forðað sér á hlaupum.  Hefði hún þá hringt í lögregluna og svo gefið sig fram þegar lögreglan kom.  Ákærði hefði þá verið horfinn á braut.  Kvaðst hún kæra ákærða til refsingar.

Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu 23. mars 2006.  Hann kvaðst hafa beðið eftir A heima hjá henni eftir að hafa verið í símsambandi við hana.  Hefði hann komist inn í íbúðina þegar eftir að hún var farin þar inn, enda verið með lykil.  Hefði hann fengið lykil að íbúðinni vegna þess að hann hefði tekið að sér að aka syni A í danskennslu. Hefði hún strax ráðist á hann með orðum og gerðum, enda skapmikil kona.  Hafi hann reynt að tala hana til en það hefði ekki borið árangur.  Hefði komið til handalögmála með þeim og þau löðrungað hvort annað.  Kvaðst hann ætla að hann hafi rekið henni þrjá kinnhesta og ef til vill slegið hana á axlirnar líka.  Hefði honum tekist að fá hana til þess að setjast á rúm en hún þá runnið á sleipum rúmfatnaði sem var á gólfinu og niður á gólf og á fætur honum.  Hefði hann þá fallið yfir hana, enda þröngt þarna í svefnherberginu.   Hann kannast við að hafa farið með A út að bílnum en ekki minnast þess að hafa leitt hana.  Hann segir hana hafa kvartað um verki í baki.  Hann kvað áverkana sem lýst er í áverkavottorði ekki geta verið af hans völdum.

C gaf skýrslu hjá lögreglu 8. mars 2006.  Sagði hún þær hafa brugðið sér heim til A sem ætlaði að sækja þangað eitthvað.  Kvaðst hún hafa beðið í bílnum meðan A brá sér inn.  Eftir 10 – 15 mínútur hefðu þau ákærði komið að bílnum og ákærði haldið í handlegg hennar.  Hafi A verið grátandi og blætt úr rispum á enni hennar.  Hefði hún stigið úr bílnum og A þá slitið sig lausa og þær hlaupið á brott.  Hefði A hringt í lögregluna og þær svo falið sig í gangi fjölbýlishúss þarna.  Hefðu þær gefið sig fram þegar þær sáu lögregluna.  A hefði sagt ákærða hafa komist óboðinn inn til hennar og slegið hana í höfuðið.

Verður nú gerð grein fyrir því sem fram hefur komið í aðalmeðferð málsins um þennan ákærukafla. 

Ákærði segir þennan kafla ákærunnar vera rangan.  Geti hann ekki greint frá þessu atviki enda muni hann ekki eftir því.  Hann muni þó að ákærða hafi verið með bíl hans að láni þegar þetta gerðist.  Hann kannast ekki við að vera valdur að þeim áverkum sem lýst er í vottorði Elísabetar Benedikz læknis.  Hann kannast ekki við nafnið C.  

A segir um þetta atvik að um daginn hafi hún verið hjá vinkonu sinni, en hún þurft að skreppa heim og C beðið eftir henni úti í bíl á meðan hún fór inn þar.  Hafi hún líklega ekki læst á eftir sér þegar hún fór inn en þó lokað á eftir sér.  Að minnsta kosti hafi ákærði ekki átt að vera með lykil þegar þetta var.  Skyndilega hafi hann komið óbeðinn inn í íbúðina á eftir henni.  Ekki muni hún hvort þau skiptust á orðum en hann hafi ráðist á hana og slegið hana í andlitið með krepptum hnefa fleiri en tveimur og hún ekki komið vörnum við.  Eins hafi hann sparkað í hana eftir að hún var fallin.  Þá hafi hann rifið í hár hennar en hún slitið sig lausa svo að hann hélt eftir hári úr höfði hennar. Hafi hún reynt að róa hann niður og sagt að þau gætu kannski tekið upp samband aftur, enda enginn verið nærstaddur til þess að hjálpa henni.  Þegar hann hafði róast hafi hún notað tækifærið og hlaupið út til vinkonu sinnar sem beið úti í bíl.  Kveðst hún halda að C hafi ekki séð ákærða.  Hún segir þær svo hafa farið í aðra íbúð að fela sig fyrir ákærða.  Hafi hún hringt þaðan í barnsföður sinn til þess að láta hann vita hvað gerst hafði. Hafi barnsfaðirinn komið til hennar en ekki muni hún hvort það var hún eða einhver annar sem hringdi í lögregluna sem hana minnir að hafi einnig komið á staðinn.  Hún segist hafa verið mjög hrædd þegar þetta gerðist.    

K lögreglumaður hefur komið fyrir dóm og skýrt frá því að hann muni eftir því að hafa séð tvær konur koma út í þann mund sem þeir lögreglumennirnir hugðust fara af vettvangi.  Hafi komið fram að önnur þeirra hafi orðið fyrir líkamsárás manns og sú kona verið í uppnámi.  Hafi þeir farið inn með konunum og rætt við þær stuttlega.  Konan hafi svo farið á slysadeild og minnir vitnið að þeir lögreglumennirnir hafi ekið henni þangað.  Ekki kveðst hann muna eftir áverkum á henni.  Ekki muni hann hvort konan hafi talað um að árásarmaðurinn hefði haft lykil að íbúðinni en hann segir að það sem fram komi í skýrslunni um það sé haft eftir henni.

C hefur komið fyrir dóm og skýrt frá því að hún minnist þess að hafa verið setið í bíl, sem ákærði muni hafa átt, og verið að bíða eftir A sem hafði brugðið sér inn til sín.  Hún segist vita til þess að A hafi stundum verið á bílum í eigu ákærða.  Hafi þetta verið skömmu eftir að þær kynntust að ráði.  Hún kveðst svo hafa séð hana koma út aftur grátandi og einnig kærasta hennar, eins og vitnið nefnir manninn.  Segist hún hafa séð manninn taka í jakkann sem A var í.  Hafi A sagt henni að koma út úr bílnum og að þær skyldu forða sér.  Hafi A virst bólgin í andlitinu.  Þær hafi hlaupið inn í næsta stigagang og falið sig þar.  A hafi hringt í barnsföður sinn og svo hafi lögreglan komið á staðinn.  Hafi A sagt að hún skildi ekki hvernig ákærði hefði komist inn í íbúðina og hann að hann hefði barið hana þar inni.  Hefði hann kýlt hana í andlitið.  Hún segist hafa heyrt að A hafi haft samband við ákærða eftir  þetta atvik.  

Elísabet Benedikz læknir á slysadeild hefur skýrt frá því að hún hafi tekið á móti A og skoðað hana þegar hún kom þangað á deildina 20. febrúar 2006.  Konan hafi verið með marblett á enni og 2-3 grunnar rispur.  Þá hafi hún kvartað um eymsli á beinnibbunni fyrir aftan vinstra eyra – processus mastoideus.  Eins hafi hún verið með eymsli í hálsvöðvum vinstra megin.  Tveir marblettir hafi verið á hægri öxl og einnig hafi konan talað um eymsli yfir rifjum á vinstri síðu og þar sést grunnt sár, einnig.  Áverkarnir hafi verið þannig að þeir samrýmdust því sem konan sagði að maður hefði ráðist á hana og slegið hana ítrekað.  Hafi marblettirnir á konunni virst vera nýlegir, innan við sólarhrings gamlir.  Erfitt sé annars að segja til um aldur marbletta með nákvæmni.  T.d. hefðu þessir marblettir getað verið allt frá klukkutíma til eins eða tveggja sólarhringa gamlir. 

Niðurstaða

Ákærði neitar sök að öllu leyti og ber jafnframt við minnisleysi.  Hjá lögreglu kannaðist hann við að hafa farið inn í íbúð A eftir að hún hafði farið þar inn og læst á eftir sér.  Fyrir liggur að þau voru ekki í sambúð á þessum tíma.  Þá er óumdeilt að ákærði fór inn í íbúðina óboðinn og að A var þar húsráðandi.  Skiptir hér ekki máli þótt hann kunni að hafa verið með lykil í fórum sínum.  Ákærði kannaðist enn fremur við að hafa  lent í átökum við hana, eins og rakið var, og að hafa slegið hana í andlit og á axlir.  Framburður A, sem rakinn var og dómurinn metur trúverðugan, er studdur framburði C, sem dómurinn metur einnig trúverðugan.  Loks er frásögn A studd staðfestu læknisvottorði Elísabetar Benedikz.  Ber að leggja til grundvallar frásögn A af því sem gerðist í íbúð hennar í [...] í umrætt sinn. Er því sannað, gegn neitun ákærða,  að hann hafi ruðst inn í íbúðina og ráðist á hana eins og lýst er í þessum ákærulið og veitt henni þá áverka sem í ákærunni greinir.  Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. og 231. gr. almennra hegningarlaga.

IV. kafli ákæru

Samkvæmt staðfestri lögregluskýrslu G var það klukkan 1.53 fimmtudagsnóttina 23. mars 2006 að lögreglumenn voru kvaddir til þess að fara í [...].  Þegar þangað kom sáu þeir karlmann koma hlaupandi á móti þeim, klæddan jakka og nærbuxum.  Kvaðst hann hafa verið staddur í einni íbúðinni þar en maður hefði sparkað upp útidyrunum og ráðist á konu sem hann var gestur hjá.    Lögreglumennirnir fóru inn og heyrðu mikil læti koma frá svefnherberginu.  Þar hittu þeir fyrir ákærða þar sem hann stóð yfir A og þau að rífast.  Var ákærði handtekinn og færður í fangageymslu.  Kvaðst hann hafa komið til þess að hitta fyrrverandi konu sína en þá orðið þess var að hún var með karlmann hjá sér.  Hefði hann sparkað upp íbúðardyrunum og einnig svefnherbergisdyrunum og rekið karlmanninn út.  Hefði þeim Asvo lent saman og þau slegist um stund.  Hefði hún tekið skæri og otað að honum en hann tekið um skærin og skorist við það á fingri.  Eftir A er það haft að hún hefði heyrt mikil læti þegar íbúðarhurðinni var sparkað upp og skömmu síðar hefði svefnherbergishurðinni einnig verið sparkað upp.  Hefði ákærði svo gengið í skrokk á henni með höggum og togað í hárið á henni. Var hún rispuð í andliti og á höndum sem hún sagði vera eftir skæri sem ákærði hefði beitt gegn henni.

A leitaði sér læknishjálpar á slysadeild Fossvogsspítala um morguninn.  Í staðfestu vottorði Þóris Njálssonar læknis þar á deildinni segir að konan hafi kvartað um eymsli í höfði, andliti, vinstra megin á brjóstkassa og í vinstri upphandlegg eftir að fyrrverandi sambýlismann hafi ráðist á hana um tvöleytið um nóttina og barið.  Hafi hann verið með hring á hendi og hún skorist af hringnum.  Í vottorðinu segir að konan hafi verið margrispuð í andliti  eftir eitthvert áhald.  Rispurnar séu grunnar og útheimti ekki sérstaka aðgerð.  Þá hafi verið bólga yfir vinstra kinnbeini.  Þá kvarti hún um eymsli í hársverði eftir að rifið var í hárið á henni.  Á brjóstkassa fyrir ofan vinstra brjóst hafi verið margir marblettir og far sem gæti verið eftir fingur.  Hafi verið bólga yfir þessu svæði og það aumt viðkomu.  Á vinstri upphandlegg hafi verið aumur marblettur. 

Í málinu er vottorð Geirs Guðmundssonar læknis á Læknavaktinni, dagsett 3. mars sl.  Þar kemur fram að læknirinn hafi skoðað ákærða 24. mars 2006.  Hafi ákærði sagt að á hann hefði verið ráðist með skærum tveim dögum áður.  Sást 1 cm langt sár á vinstra gagnauga og bólga þar.  Grunn rispa hafi verið út frá vinstri nös, fram og upp, medialt, um 1 cm löng.  Þrjú lítil sár hafi verið á bringunni og tvö stærri, 3 cm grunnt sár og grunn rispa, um 8 cm löng.  Tvö smásár hafi verið á fingrum vinstri handar, enn fremur smárispur á hægri vísifingri.  Smásár hafi verið á hægri úlnlið og mar aftan á vinstri úlnlið.  Þá hafi ákærði fundið til eymsla í úlnliðunum og í öllum fingurliðum einnig, einkum í hnúaliðum svo að hann gat ekki kreppt fingurna að fullu. 

A gaf skýrslu hjá lögreglu 23. mars 2006 og sagðist hafa verið með karlmann hjá sér í rúminu.  Hefði hún þá heyrt að brotist var inn um íbúðardyrnar og hún þá stokkið að svefnherbergishurðinni til þess að standa fyrir henni.  Hefði ákærði samt brotist inn og hún dottið við það í rúmið.  Hefði hann veist að henni og sagst mundu drepa hana og svo barið hana nokkrum sinnum í öxl og andlit.  Hefði hann svo dregið hana á hárinu.   Hún hefði þó náð að grípa skæri til þess að verja sig með en hann snúið þau úr hendi hennar og við það hefði hún rispast á höndunum.  Hún sagði ákærða hafa verið með hring á fingri og hún rispast af honum í andliti þegar hann sló hana.  Karlmaðurinn, sem var hjá henni í heimsókn, hefði hraðað sér út til þess að ná í hjálp en ákærði hefði haldið áfram að berja hana þar til lögreglan kom og ítrekað líflátshótanirnar.  Hún kvaðst kæra ákærða fyrir líkamsárás og húsbrot.

Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglunni um atvikið næsta dag.  Sagðist hann hafa árangurslaust reynt að ná tali af henni í síma um kvöldið.  Hefði hann svo haldið heim til hennar og orðið þess var að hún var með karlmann hjá sér.  Hann kvaðst hafa farið upp að íbúðardyrum Ahringt hjá henni dyrabjöllunni en þegar ekki var ansað hafi hann sett öxlina í hurðina og hún látið strax undan án átaka.  Hafi hann farið inn og þá séð þar karlmann, sem hann áleit að gæti verið viðskiptavinur, og beðið mann þennan vinsamlega að fara út.  Hefði hann svo snúið sér að A og spurt hvort þetta væri framkoman sem hún vildi sýna honum og það ekki í fyrsta skipti.  Hún hefði hins vegar tekið stór skæri og otað að honum.  Hefði hann tekið í skærin og þá skorist á gagnauga.  Í þessum átökum hefði hann runnið til á sæng sem var á gólfinu og fallið við það.  Hefði

A verið sturluð af reiði yfir því að ákærði hefði komist að því að hún væri með öðrum karlmanni.  Hann kvaðst hafa farið á læknavaktina í Kópavogi með áverkana sem hann hlaut. 

Í skýrslu, sem tekin var af ákærða 29. maí 2007, neitaði hann að hafa slegið A með krepptum hnefa og kvaðst hann ekki vera valdur að áverkunum á henni.  Hann segir þau hafa fallið oftar en einu sinni í sængurfatnaðinum sem hafi verið úr silki og því mjög sleipur.  Geti hún hafa fengið áverka af því. 

Verður nú gerð grein fyrir því sem fram hefur komið í aðalmeðferð málsins um IV. kafla ákærunnar. 

Ákærði segir þennan kafla ákærunnar vera rangan.  Hann segir A hafa ráðist á hann með skæri.   Hann hafi komið heim en gengið illa að opna og þá spyrnt upp hurðinni eða sett í hana öxlina.  Hafi hann þá séð að þar var fyrir nakinn karlmaður og í sömu andrá hafi A veist að sér með skærunum og hafi hann þurft að leita læknis eftir það, enda verið allur útstunginn eftir hana.  Hann segist hafa verið nýbúinn að tala við A í síma, um 1 ½ tíma áður, og hún sagt að hann skyldi koma til hennar og hún því átt von á honum.  Hafi þetta verið út af peningum enda hún ævinlega verið fjárþurfi.  Hann segist hafa reynt að ná af henni skærunum en þetta hafi verið inni í svefnherbergi konunnar.  Hafi hann ekki gert annað á hennar hluta og sé frásögn hennar af þessu atviki röng.  Hann segir þau bæði hafa fallið í gólfið í átökunum enda hafi verið hált teppi eða sæng á gólfinu milli rúms og skáps.  Hann segir að þótt A hafi oft skipt um læsingu að íbúðinni hafi hún jafnoft látið hann fá nýja lykla.  Það hafi ekki verið hans vegna að hún hafi látið skipta um þær heldur vegna þess að “strákurinn týndi óspart af lyklum”.  

A skýrir frá því að í þetta sinn hefði hún verið að skemmta sér og farið heim með karlmanni.  Áður hefði hún fengið margar símhringingar en ekki séð úr hvaða númeri hringt var og verið skellt á um leið og hún svaraði.  Hún kveðst hafa talað við ákærða í síma um kvöldið en ekki muna hvað rætt hafi verið eða hvort þeirra hafi hringt.  Eftir að heim til hennar kom hafi þau, karlmaðurinn og hún, farið inn í svefnherbergið og lokað á eftir sér.  Hafi þau svo heyrt dynk frá íbúðardyrunum, sem hafi verið læstar, og strax eftir það hafi ákærði svo brotist inn í svefnherbergið sem einnig hafi verið læst.  Hafi ákærði ráðist á hana, reiður mjög, og sagst mundu drepa hana. Hún eigi erfitt með að muna nákvæmlega hvað hann gerði henni, en hann hafi þrifið í hárið á henni og slegið hana fast í andlitið með krepptum hnefa.  Hafi ákærði verið með hring á hendi.  Hafi hún svo náð að grípa skæri sem voru þarna á náttborðinu og getað varið sig með þeim og náð að stinga ákærða eitthvað eða reynt það, en hún hafi verið mjög hrædd.  Hafi ákærði snúið upp á handlegg hennar til þess að ná af henni skærunum og náð þeim af henni.  Hafi hún þá skorist á hendi á þeim.  Ekki muni hún nákvæmlega eftir einstökum atriðum í árás ákærða.  Ákærði hafi sparkað en ekki muni hún hvar spörkin lentu.  Gestur hennar hafi forðað sér út á hlaupum og náð að kalla til lögreglu sem hafi komið og skakkað leikinn og tekið ákærða.  Hún segir það vera rangt hjá ákærða að hún hafi átt von á honum í heimsókn þegar þetta var.  Þá sé það einnig  rangt að hún hafi ráðist að ákærða með skærunum um leið og hann kom inn.  Hið rétta sé að hún hafi gripið til þeirra eftir að hann hafði ráðist á hana. 

G, lögreglumaður, sem kvaddur var á vettvang, hefur skýrt frá því að sést hafi að íbúðarhurðinni hafði verið sparkað upp og inni fyrir læti og rifrildi og slagsmál milli karls og konu þarna inni.  Hafi þetta verið tusk en ekki hafi hann séð högg eða spörk.  Þá segir vitnið að sýnilega hefði eitthvað gengið á með svefnherbergishurðina.  Hafi verið gengið á milli þeirra tveggja og þau skilin.  Þá segir vitnið að þau hefðu talað um að skæri hefðu komið við sögu í átökunum en ekki muni þau hafa fundist þarna.  Á fólkinu hafi sést bæði klór og rispur en ekki að sjá að blætt hefði úr þeim.  Þó hafi karlmaðurinn sýnt skurð á fingri sem hann sagðist hafa hlotið við það að skærunum var beitt á hann.  Karlmaðurinn hafi verið æstur, en við mælandi þó, og konan einnig mjög æst.  Hafi hún sagst myndu koma sér sjálf á slysavarðstofuna. 

Þórir Njálsson læknir, sem fyrr er nefndur, hefur skýrt frá því að A hafi sagt mann sinn fyrrverandi hafa verið með hring á fingri þegar hann barði hana svo að séð hafi á henni rispur eftir hringinn.  Segir læknirinn það vel geta staðist í ljósi áverka á henni.  Rispur þessar hafi þó verið grunnar og ekki blætt úr þeim.  Hafi því ekki þurft neinna læknisverka við.  Ekki kveðst hann sérstaklega muna hvernig komið hafi verið fyrir konunni andlega þegar hún kom á slysadeildina en þó muni hún hafa komið vel fyrir, eins og í fyrra skiptið.   

F, barnsfaðir A, hefur komið fyrir dóminn.  Segir hann A hafa hringt í sig um hálfeitt- eða eittleytið og sagt að ákærði hefði brotist inn til hennar og inn í svefnherbergi, barið hana og reynt að stinga hana.  Hefði hún verið með karlmann hjá sér en sá væri hlaupinn út.  Hefði svo farið á staðinn og hitt hana og hún þá verið í miklu “sjokki” og mjög hrædd.  Hann segir þetta ekki vera í fyrsta skipti sem A hafi hringt út af atviki sem þessu.  Hann segir samband þeirra A og ákærða hafa verið þannig að syni þeirra hafi liðið illa út af því. 

D, sem fyrr er nefndur, hefur skýrt frá því að A hafi hringt heim til hans eftir að ákærði hafði brotist inn til hennar þar sem hún var með karlmann hjá sér.  Gæti þetta hafa verið í mars 2006.  Hafi sést að útidyrnar höfðu verið brotnar upp og svefnherbergishurðin verið mölbrotin.  Kveðst vitnið svo hafa gert við þessar skemmdir.  Hafi A ekki verið í góðu ástandi, enda marin og blá og skorin á höndum eftir að hafa varið sig með skærum, að hún sagði.  Ákærði hafi verið farinn þegar vitnið kom á vettvang.  Kveðst vitnið hafa farið með konuna á slysadeild.

Niðurstaða

Ákærði neitar sök.  Hann neitar því að hafa barið hana og veitt henni þá áverka sem greinir í ákærunni.  Þá hefur hann borið því við að A hafi boðið honum til sín, þótt hann kannist við að hafa brotið sér leið inn til hennar.  Frásögn ákærða er ekki trúverðug og í henni eru mótsagnir.  Framburð A álítur dómurinn aftur á móti vera trúverðugan og hann er studdur vottorði og vætti Þóris Njálssonar læknis svo og vætti þeirra F og D.  Verður byggt á framburði A og er sannað, gegn neitun ákærða, að hann hafi ruðst í heimildarleysi inn í íbúð A og inn í svefnherbergi hennar og ráðist á hana með höggum og spörkum svo að hún hlaut þá áverka sem í ákærunni segir.  Hefur hann með því brotið gegn 1. mgr. 217. gr. og 231. gr. almennra hegningarlaga.      

Refsing, skaðabætur og sakarkostnaður

Ákærði á að baki nokkurn sakferil en hann hefur ekki þýðingu fyrir mál þetta.  Brot ákærða gegn A voru niðurlægjandi fyrir hana og einkenndust af hrottaskap og ófyrirleitni.  Þá voru þau til þess fallin að valda henni miklum ótta og andlegum raunum til frambúðar.  Sérstaklega var síðasta brot ákærða óheyrileg misgerð við konuna.  Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 8 mánuði.  Rétt er að skilorðsbinda 5 mánuði af refsingunni og ákveða að sá hluti hennar falli niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu að telja.

Að kröfu A ber að dæma ákærða til þess að greiða henni 900.000 krónur í miskabætur ásamt almennum vöxtum samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá 23. mars 2006 til 28. júní 2007 en upp frá því með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laganna til greiðsludags. 

Dæma ber ákærða til þess að greiða verjanda sínum, Kristjáni Stefánssyni hrl., 400.000  krónur í málsvarnarlaun og Helgu Leifsdóttur hdl.  750.000 krónur í réttargæslulaun og fyrir útlagðan kostnað. Dæmast laun lögmannanna með virðisaukaskatti.  Þá ber að dæma ákærða til þess að greiða 46.400 krónur í annan sakarkostnað.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð

Ákærði, X, sæti fangelsi í 8 mánuði.  Frestað er því að framkvæma 5 mánuði af refsingunni og fellur sá hluti hennar niður að liðnum 3 árum.

Ákærði greiði A 900.000 krónur í miskabætur ásamt almennum vöxtum frá 23. mars 2006 til 28. júní 2007 en upp frá því með dráttarvöxtum til greiðsludags. 

Ákærði greiði verjanda sínum, Kristjáni Stefánssyni hrl. 400.000  krónur í málsvarnarlaun og Helgu Leifsdóttur hdl. 750.000 krónur í réttargæslulaun og kostnað.   Þá greiði ákærði 46.400 krónur í annan sakarkostnað.