Hæstiréttur íslands

Mál nr. 704/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaður


                                     

Þriðjudaginn 3. nóvember 2015.

Nr. 704/2015.

Ljósmyndastofa Péturs ehf.

Ingveldur Þorkelsdóttir

Gunnar Þorsteinsson

Elva Dögg Gunnarsdóttir og

Vagn Leví Sigurðsson

(Einar Hugi Bjarnason hrl.)

gegn

Bergljótu Kristinsdóttur

Jakobínu Helgu Finnbogadóttur

Guðmundi Hauki Gunnarssyni og

Maríu Dóru Björnsdóttur

(Bjarni Hauksson hrl.)

Kærumál. Málskostnaður.

L o.fl. höfðuðu mál þetta og kröfðust þess aðallega að B o.fl. yrði gert að fjarlægja fimm grenitré á tiltekinni lóð að viðlögðum dagsektum. Með hinum kærða úrskurði var málið fellt niður og B o.fl. gert að greiða L o.fl. málskostnað. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ekki virtist ágreiningur um það með aðilum að B o.fl. hefðu leyst af hendi þá skyldu sem þau voru krafin um í málinu, sbr. a. lið 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá bæru gögn málsins með sér að L o.fl. hefðu gert tilraun til þess að leysa þann ágreining sem uppi var milli þeirra og B o.fl. áður en málið var höfðað, en B o.fl. hafnað því að lagaskylda hvíldi á þeim að fella umrædd tré. Með hliðsjón af þessum atvikum var B o.fl. gert að greiða L o.fl. óskipt málskostnað eins og í dómsorði greindi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru sem barst héraðsdómi 8. október 2015 og Hæstarétti 13. sama mánaðar en kærumálsgögn bárust réttinum 21. þess mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september 2015 þar sem mál sóknaraðila á hendur varnaraðilum var fellt niður og þeim gert að greiða sóknaraðilum óskipt 550.000 krónur í málskostnað. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að varnaraðilar greiði sér óskipt 1.681.963 krónur í málskostnað í héraði og  kærumálskostnað.

Varnaraðilar kærðu úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar fyrir sitt leyti með kæru sem barst héraðsdómi 12. október 2015. Þau krefjast þess að sóknaraðilar greiði sér málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Samkvæmt gögnum málsins sendi lögmaður sóknaraðila varnaraðilum bréf 14. júlí 2014 þar sem skorað var á þau að fella grenitré sem stóðu á lóð þeirra að Skipholti 42 í Reykjavík en sóknaraðilar eru eigendur allra eignarhluta í aðliggjandi fjöleignarhúsi við sömu götu. Í bréfinu kom fram að yrðu varnaraðilar ekki við kröfunni væri sóknaraðilum nauðugur einn sá kostur að leita atbeina dómstóla. Varnaraðilinn Guðmundur Haukur sendi sóknaraðilum svarbréf 16. sama mánaðar í umboði varnaraðila þar sem hafnað var að þeim bæri lagaskylda til þess að fella trén. Í bréfinu var þó óskað eftir tillögum frá sóknaraðilum um hvernig unnt væri að koma til móts við þau til að lágmarka óþægindi sem sóknaraðilar teldu sig verða fyrir af völdum trjánna. Lögmaður sóknaraðila sendi varnaraðilanum Guðmundi Hauki sáttatillögu með bréfi 11. ágúst 2014 og kom þar einnig fram að yrði tillögunni ekki svarað innan tiltekinna tímamarka áskildu sóknaraðilar sér rétt til þess að setja fram ítrustu kröfur í dómsmáli. Bréfs lögmannsins sem sent var með ábyrgðarpósti var ekki vitjað og því ekki svarað. Sóknaraðilar höfðuðu mál þetta með stefnu birtri í mars 2015 og fjarlægðu varnaraðilar trén fljótlega eftir það.

Ekki virðist ágreiningur um það með aðilum að varnaraðilar hafi leyst af hendi þá skyldu sem þeir voru krafðir um í málinu, sbr. a. lið 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991. Gögn málsins bera með sér að sóknaraðilar hafi gert tilraun til þess að leysa þann ágreining sem uppi var milli þeirra og varnaraðila áður en málið var höfðað en varnaraðilar hafnað því að lagaskylda hvíldi á þeim til að fella umrædd tré. Samkvæmt þessu verður varnaraðilum gert að greiða sóknaraðilum óskipt 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði.

Varnaraðilar greiði sóknaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Varnaraðilar, Bergljót Kristinsdóttir, Jakobína Helga Finnbogadóttir, Guðmundur Haukur Gunnarsson og María Dóra Björnsdóttir, greiði óskipt sóknaraðilum, Ljósmyndastofu Péturs ehf., Ingveldi Þorkelsdóttur, Gunnari Þorsteinssyni, Elvu Dögg Gunnarsdóttur og Vagni Leví Sigurðssyni, 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. september 2015.

                Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 22. september sl., var höfðað með stefnu birtri 26. og 30. mars 2015.

                Stefnendur eru Ljósmyndastofa Péturs ehf., Stóragarði 15 á Húsavík, Ingveldur Þorkelsdóttir, Gunnar Þorsteinsson, Elva Dögg Gunnarsdóttir og Vagn Leví Sigurðsson, öll til heimilis að Skipholti 40 í Reykjavík.

                Stefndu eru Bergljót Kristinsdóttir, Hásölum 11 í Kópavogi, Jakobína Helga Finnbogadóttir, Guðmundur Haukur Gunnarsson og María Dóra Björnsdóttir, öll til heimilis að Skipholti 42 í Reykjavík.

                Stefnendur krefjast þess aðallega að stefndu verði dæmd til að fjarlægja fimm grenitré á lóð stefndu að Skipholti 42 í Reykjavík sem standa við lóðamörk lóðar nr. 40 við sömu götu, að viðlögðum 20.000 króna dagsektum sem renni óskipt til stefnenda. Til vara krefjast stefnendur að stefndu verði dæmd til að klippa tréin í 180 cm hæð frá jörðu að viðlögðum sömu dagsektum. Þá krefjast stefnendur málskostnaðar úr hendi stefndu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

                Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnenda og greiðslu málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

                Við fyrirtöku málsins þann 18. september sl. upplýstu aðilar að þeir væru sammála um að fella niður aðal- og varakröfu málsins enda hefðu stefndu leyst af hendi það sem þeir voru krafðir um með því að umdeild tré hefðu verið felld. Í þingbók sama dag er bókað að stefndu líti þó ekki svo á að í þessu felist viðurkenning af þeirra hálfu um að þeim hafi borið skylda til að verða við kröfu stefnenda.

                Eftir stendur ágreiningur aðila um greiðslu málskostnaðar. Stefnendur krefjast þess að stefndu greiði þeim óskipt málskostnað að fjárhæð 1.681.963 krónur. Stefndu krefjast þess að stefnendur greiði þeim óskipt málskostnað að fjárhæð 681.628 krónur. Í þinghaldi þann 22. september reifuðu lögmenn aðila sjónarmið varðandi ágreining sinn um málskostnað og var málið tekið til úrskurðar með vísan til 2. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991.

                Með vísan til a-liðar 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 er málið fellt niður.

                Með hliðsjón af atvikum máls og málalyktum og er rétt að stefndu greiði stefnendum málskostnað að hluta. Við ákvörðun um fjárhæð málskostnaðar er jafnframt litið til þeirra hagsmuna sem málið snýst um, umfangi málareksturs og kostnaðar við gagnaöflun. Þykir málskostnaður að teknu tilliti til ofangreinds hæfilega ákveðinn 550.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, sem stefndu greiði óskipt til stefnenda.

Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Mál þetta er fellt niður. Stefndu greiði stefnendum óskipt 550.000 krónur í málskostnað.