Hæstiréttur íslands

Mál nr. 40/2006


Lykilorð

  • Skjalafals
  • Vitnaskylda
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 1

 

Fimmtudaginn 1. febrúar 2007.

Nr. 40/2006.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari)

gegn

Guðrúnu Egilsdóttur Guðjohnsen og

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Skjalafals. Vitnaskylda. Mannréttindasáttmáli Evrópu. Sératkvæði.

G og X voru ákærðar fyrir skjalafals með því að hafa framvísað hvor sínu skuldabréfinu með falsaðri undirskrift Y sem sjálfskuldarábyrgðarmanns. X játaði að hafa ritað nafn Y á skuldabréfið sem hún var ákærð fyrir að framvísa en kvaðst hafa haft heimild Y til þess. Fyrir dómi skoraðist Y undan vitnaskyldu með vísan til 50. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála vegna skyldleika við báðar ákærðu. Í dómi Hæstaréttar var ekki talið hægt að útiloka að X hefði haft heimild Y til ritunar nafns hennar á skuldabréfið og var hún því sýknuð af þeirri háttsemi sem henni var gefin að sök. G bar á hinn bóginn fyrir dómi að Y hefði sjálf ritað nafn sitt á það skuldabréf sem hún var ákærð fyrir að framvísa. Þótti nægilega sannað með rithandarrannsókn að sú fullyrðing var röng. Talið var að G hefði sem útgefandi bréfsins og móttakandi lánsins hlotið að vera kunnugt um fölsunina. Var hún sakfelld fyrir skjalafals og refsing hennar ákveðin 30 daga skilorðsbundið fangelsi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. 

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 3. janúar 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærðu verði staðfest og refsing þyngd.

Ákærðu krefjast aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins en til vara að refsing verði milduð.  

I.

Ákæra útgefin 24. maí 2005 er í tveimur liðum. Varða báðir þá háttsemi að framvísa skuldabréfi með falsaðri undirskrift sjálfskuldarábyrgðarmanns. Upphaf málsins eru tvö kærubréf lögmanns Y til lögreglustjórans í Reykjavík rituð 4. mars 2003 og 26. sama mánaðar.

Með I. lið ákæru er ákærðu X nú gefið að sök að hafa framvísað á lögmannsstofu í apríl 2002 skuldabréfi að fjárhæð 530.000 krónur, sem hún sjálf hafði gefið út 16. apríl 2002, en með falsaðri nafnritun dóttur sinnar, Y, sem sjálfskuldarábyrgðarmanns. Ákærða játar að hafa ritað nafn Y, en heldur því á hinn bóginn fram að hún hafi haft heimild hennar til þess.

Dómur skal reistur á sönnunargögnum sem fram koma fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Framburður Guðrúnar Egilsdóttur Guðjohnsen styður frásögn ákærðu X um að Y hafi veitt samþykki sitt til þess að nafn hennar væri ritað sem sjálfsskuldarábyrgðarmanns á veðskuldabréfið, þó að ekki sé fullt samræmi með frásögnum þeirra um hvernig það bar að. Við aðalmeðferð málsins kom Y fyrir dóm, gætt var ákvæða 50. gr. laga nr. 19/1991 og nýtti hún sér þá rétt sinn til þess að tjá sig ekki frekar um málið. Vitni er skylt að mæta fyrir dómi og gefa þar skýrslu. Frá þessari meginreglu eru örfáar undantekningar, þar á meðal framangreint ákvæði 50. gr. laga nr. 19/1991 sem heimilar vitni að skorast undan vitnaskyldu ef nánasta skyldmenni á í hlut. Sú regla byggir meðal annars á því að ekki sé rétt að setja vitni í þá erfiðu siðferðilegu aðstöðu, að þurfa hugsanlega, áminnt um sannsögli, að bera vitni um afbrot nákomins ættingja. Verður að telja að þegar svo stendur á megi líta til undantekningarákvæðis 3. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991 og styðjast við skýrslu vitnisins hjá lögreglu eða öðrum rannsóknaraðila ef dómari metur það svo að slík skýrsla hafi sönnunargildi. Lögregla tók skýrslu af Y 1. apríl 2003 og símaskýrslu 19. janúar 2004. Við töku þeirra virðist lögreglu hafa láðst að gæta ákvæða 50. gr., sbr. 56. gr. og 2. mgr. 73. gr. laga nr. 19/1991 og benda henni á að hún gæti skorast undan vitnaskyldu vegna skyldleika við kærðu. Hafa skýrslur þessar þegar af þeirri ástæðu takmarkað sönnunargildi. Önnur sönnunarfærsla fór ekki fram fyrir dóminum. Í ljósi þess að verjanda gafst ekki kostur á að spyrja kærandann um það grundvallaratriði í vörn ákærðu, að samþykki Y hefði legið fyrir, þykir eins og hér háttar til, ekki vera hægt að útiloka að ákærða X hafi haft heimild til nafnritunarinnar. Verður hún því með vísan til 46. gr. laga nr. 19/1991 sýknuð af þeirri háttsemi sem tilgreind er í I. ákærulið.

II.

Með II. lið ákærunnar er ákærðu Guðrúnu gefið að sök að hafa í mars 1999 selt í útibúi Landsbanka Íslands veðskuldabréf að fjárhæð 550.000 krónur, útgefið af henni sjálfri 24. sama mánaðar, og sem hún vissi að var með falsaðri nafnritun hálfsystur sinnar, kæranda Y, sem sjálfskuldarábyrgðarmanns. Ákærða Guðrún hélt fast við þann framburð sinn fyrir dómi að Y hefði sjálf skrifað nafn sitt á bréfið og kvaðst hún hafa séð hana gera það, sem og undir breytingu á greiðsluskilmálum 6. desember 2000 vegna þessa skuldabréfs. Síðargreint skjal er meðal rannsóknargagna en ekki var ákært vegna þess.

Í tilefni af kærunni aflaði ríkislögreglustjóri rithandarsýna kæranda og ákærðu. Voru þau send til Statens kriminaltekniska laboratorium í Linköping, Svíþjóð til rannsóknar ásamt skuldabréfum þeim sem eru til umfjöllunar í ákæruliðum I. og II. og nefndu skuldbreytingarskjali. Niðurstaða þeirrar rannsóknar var að „ósennilegt“ væri að Y hefði ritað nafn sitt á skjölin. Vitnið B rithandarsérfræðingur sem vann að rannsókninni kom fyrir dóminn og staðfesti niðurstöðu hennar. Kvað hann jafnósennilegt í öllum tilvikum að Y hefði sjálf ritað nafn sitt, og rannsóknin hefði enn fremur leitt í ljós að mjög sennilegt væri að sami maður hefði ritað nafn Y á skuldabréfið frá 1999 og skuldbreytingarskjalið, en rithöndin á veðskuldabréfinu frá 2002 væri aðeins öðruvísi. Vissar samsvaranir hefðu verið með nafnritununum og rithönd X og Guðrúnar en ekki nægilegar til þess að hægt væri að segja neitt um að þær hefðu átt þar hlut að máli. Með rithandarrannsókn þessari, sem mælir hæsta stig líkinda fyrir því að viðkomandi hafi ekki sjálfur skrifað nafn sitt, þykir nægilega sannað að sú fullyrðing ákærðu Guðrúnar að Y hafi sjálf ritað nafn sitt sem sjálfskuldarábyrgðarmaður á skuldabréfið sé röng. Ákærða Guðrún var útgefandi bréfsins og móttakandi lánsins og hlaut henni að vera kunnugt um fölsunina. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er niðurstaða hans um þennan ákærulið og sakfellingu og refsingu ákærðu Guðrúnar staðfest.

Sakarkostnaður málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara, að meðtöldum málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu fyrir Hæstarétti með virðisaukaskatti, sem nánar er kveðið á um í dómsorði, greiðist að hálfu úr ríkissjóði, en ákærða Guðrún greiði helming hans.

Dómsorð:

Ákærða X er sýkn af kröfum ákæruvalds.

Héraðsdómur skal vera óraskaður um refsingu ákærðu Guðrúnar Egilsdóttur Guðjohnsen.

          Sakarkostnaður málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 429.223 krónur, greiðist að hálfu úr ríkissjóði en að hálfu af ákærðu Guðrúnu. Með áfrýjunarkostnaði málsins teljast málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur.    

 

 

Sératkvæði

Jóns Steinars Gunnlaugssonar

Sakargiftum ákærðu er lýst í hinum áfrýjaða dómi sem og afstöðu þeirra til ákæruefna. Fyrir Hæstarétti varðar málið aðeins þær sakargiftir sem sakfellt var fyrir í héraði. Þar var ákærða X sakfelld samkvæmt I. ákærulið fyrir að hafa framvísað sem greiðslu nefndu skuldabréfi eftir að hafa falsað áritun á nafni Y í reit fyrir áritun ábyrgðarmanns. Ákærða Guðrún var sakfelld fyrir sakargiftir samkvæmt II. ákærulið, þar sem henni var gefið að sök að hafa selt þar greint skuldabréf sem hún vissi að væri falsað með áritun á nafni Y.

Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi nýtti vitnið Y sér rétt sinn samkvæmt b. lið 1. mgr. 50. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, þegar hún kom fyrir héraðsdóm við aðalmeðferð málsins, en vitnið er dóttir ákærðu X og systir ákærðu Guðrúnar. Samkvæmt 1. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991 skal dómur reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi. Undantekningar í 2. og 3. mgr. sömu lagagreinar eiga hér ekki við. Synjun þessa vitnis á vitnisburði olli því að ákærðu áttu þess ekki kost að neyta réttar til að spyrja eða láta spyrja vitnið, sem kveðið er á um í d. lið 3. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, þar sem sáttmálanum er gefið lagagildi á Íslandi. Var ákærðu meðal annars nauðsynlegt að eiga þess kost að bera undir vitnið afstöðu sína til sakargiftanna. Er ljóst að hugsanlegt samþykki vitnisins við frásögn þeirra hefði þegar í stað leitt til sýknu. Af nefndum lagareglum leiðir að óheimilt er að byggja á öðrum gögnum í málinu, þar sem afstaða vitnisins til sakarefna er talin koma fram. Verður því framburður ákærðu fyrir dómi lagður til grundvallar nema að því leyti sem önnur sönnunarfærsla í málinu yrði talin sanna sakargiftir ákærunnar. Engin sönnunarfærsla liggur að mínum dómi fyrir um að ákærða X hafi ekki haft heimild Y dóttur sinnar til að skrifa nafn hennar á skuldabréfið í I. ákærulið. Með þessum rökum er ég sammála niðurstöðu meirihluta dómara um að sýkna þessa ákærðu af sakargiftum samkvæmt þeim lið.

Á hinn bóginn er ég ósammála niðurstöðu meirihlutans um að í II. ákærulið hafi ákæruvaldið fært fram í málinu sönnunargögn sem duga til sakfellingar ákærðu Guðrúnar. Aðeins er til athugunar hvort sérfræðiálit um rannsókn á rithöndum dugi til þess að brot ákærðu teljist sannað. Í niðurstöðunni er talið „ósennilegt“ að vefengdu undirskriftirnar séu gerðar af Y sjálfri. Slík líkindi geta ekki að mínum dómi talist uppfylla sönnunarskyldu ákæruvalds samkvæmt 45. gr. laga nr. 19/1991. Þar við bætist að sönnunarfærslan er alls ekki um atriði sem ræður úrslitum um sakfellingu ákærðu, þar sem sanna þarf að henni hafi verið kunnugt um að nafnritun Y væri fölsuð á skuldabréfið. Rannsóknin segir ekkert um það. Þessar sakargiftir teljast því ósannaðar og tel ég að sýkna eigi ákærðu Guðrúnu af sakargiftum samkvæmt II. ákærulið.

Með vísan til þess sem að framan greinir tel ég að allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti eigi að greiðast úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu fyrir Hæstarétti sem ég tel hæfilega ákveðin 373.500 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. desember 2005.

Mál þetta er höfðað með ákæru lögreglustjórans í Reykjavík dagsettri 24. maí sl. gegn Guðrúnu Egilsdóttur Guðjohnsen, kt. 260777-3869, Kambaseli 54, Reykjavík, og X [kennitala] [heimilisfang].

„fyrir skjalafals svo sem rakið er:

I.                 Ákærðu er báðum gefið að sök að hafa, í apríl 2002, framvísað sem greiðslu á lögfræðiskrifstofu A hrl. [heimilisfang] Reykjavík, óverðtryggðu skuldabréfi með sjálfsskuldarábyrgð nr. 7863 að fjárhæð 530.000 kr., útgefnu af ákærðu X 16. sama mánaðar, sem ákærða Guðrún vissi að X hafði falsað með áritun á nafni Y [kennitala] í reit fyrir áritun ábyrgðarmanns og ákærðu vissu að var falsað með áritun á nafni Z [kennitala], sem votts að undirritun og fjárræði aðila.

II.               Ákærðu Guðrúnu er gefið að sök að hafa, í mars 1999, selt í Landsbanka Íslands á Hellu, skuldabréf með sjálfsskuldarábyrgð nr. 588 að fjárhæð 550.000 kr. gefið út af ákærðu 24. sama mánaðar, sem ákærða vissi að var falsað með áritun á nafni nefndrar Y í reit fyrir áritun sjálfsskuldarábyrgðarmanns.

Framangreind brot ákærðu teljast varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdar til refsingar.”

Við fyrirtöku málsins 23. júní sl. leiðrétti sækjandi málsins II. lið ákærunnar með bókun á þann veg að þar á að standa að skuldabréf nr. 588 hafi verið selt í útibúi Landsbanka Íslands á Hótel Loftleiðum í Reykjavík en ekki í útibúi bankans á Hellu eins og ranglega er tilgreint í ákæru.

Ákærðu hafa neitað sök. Þær krefjast aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Verjandi ákærðu krefst þess að honum verði dæmd hæfileg málsvarnarlaun að mati dómsins. 

Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 23. nóvember sl.

Samkvæmt gögnum málsins hefur Y í tvígang kært fölsun á nafnritun hennar á skuldabréf. Í fyrri kærunni, sem er dagsett 4. mars 2003, kærir kærandi ákærðu Guðrúnu fyrir fölsun á nafnritun kæranda sem ábyrgðarmanns á skuldabréf útgefið af ákærðu Guðrúnu 24. mars 1999 til Landsbanka Íslands að höfðustóli 550.000 krónur en sjálfsskuldarábyrgðarmenn eru tilgreindir á bréfinu auk kæranda, þær ákærða X, móðir kæranda, og Z. Kemur fram sú afstaða kæranda að hún hafi aldrei samþykkt að gangast undir skuldbindingar samkvæmt skuldabréfinu en hún hefði fyrst fengið vitneskju um skuldabréfið og falsaða nafnritun hennar á það, þegar hún fékk tilkynningu frá sýslumanninum í Reykjavík um nauðungarsölu á eign hennar að [...].                                                                                                                                       

Seinni kæran er dagsett 26. mars 2003 þar sem Y kærði fölsun á ritun á nafni hennar sem sjálfsskuldarábyrgðaraðila á skuldabréf sem útgefið var þann 16. apríl 2002 af móður kæranda, ákærðu X, en skuldabréfið er með veði í [...], og í eigu Búnaðarbanda Íslands á Hellu. Fram kemur í kærunni að kærandi vísi framburði ákærðu Guðrúnar á bug um að kærandi hafi gefið móður sinni, ákærðu X, munnlegt umboð til ritunar á nafni kæranda á bréfið fyrir hönd kæranda. 

Í málinu liggur frammi rithandarrannsókn frá Kriminaltekniska laboratoriet í Svíþjóð á undirskriftum á skuldabréfum þeim sem getið er í ákæru að því er varðar nafnritun þeirra Y og Z. Þar kemur fram að út frá gerðum athugunum megi segja ósennilegt að undirskriftirnar „Y” séu gerðar af Y eigin hendi (fimm á þeim skala sem notaður er). Varðandi undirskriftirnar „Z” leyfi athuganirnar ekki ótvíræða niðurstöðu en þær bendi þó helst til þess að þær séu ekki gerðar eigin hendi (fjórir á þeim skala sem notaður er). Ekki sé hægt að segja neitt um hvort vefengdu undirskriftirnar í einhverju tilviki séu eftir ákærðu eða ekki (þrír á þeim skala sem notaður er).

Verður nú rakinn framburður ákærðu að því er varðar hvorn ákærulið fyrir sig en skýrslur vitna fyrir dóminum eru einungis raktar í umfjöllun um I. ákærulið þótt þær eigi við báða ákæruliði.

I. ákæruliður.

Ákærða Guðrún neitar sök. Hún kvað móður sína, ákærðu X, hafa gefið út skuldabréfið vegna kaupa ákærðu á bifreið. Móðir hennar hefði verið ábyrgðarmaður á upphaflegu bréfi en varð útgefandi á hinu nýja bréfi af því að ákærða var komin í vanskil. A lögmaður hefði séð um innheimtu bréfsins og boðið ákærðu skuldbreytingu á láninu ef hún fengi annan útgefanda á nýja bréfið. Móðir ákærðu hefði boðist til að vera útgefandi bréfsins og þær mæðgur hefðu beðið Y um að vera ábyrgðarmaður á bréfinu. Y hefði samþykkt það en sagt að þær gætu skrifað nafn hennar fyrir hennar hönd. Hefði Y lýst því að eiginmaður hennar gerði þetta gjarnan, þ.e. hann samþykkti að vera ábyrgðarmaður fyrir fólk en fólkið tæki sjálft ábyrgð á því og skrifaði nafnið hans. Y hefði viljað taka ábyrgð á bréfinu en vildi ekki skrifa nafnið sitt sjálf.

Kannaðist ákærða við að hafa skrifað undir bréfið frá 16. apríl 2002 sem vottur að undirskrift Y og minnti að hún hefði verið viðstödd þegar móðir hennar, ákærða X, ritaði nafn Y en var allavega viss um að hafa verið viðstödd þegar Y gaf X leyfi til þess. Ákærða kvað Z ekki hafa verið viðstadda þegar ákærða X skrifaði nafn Y en mundi ekki hvort Z hefði vitað að X hafði leyfi til nafnritunarinnar.

Ákærða kvaðst sjálf hafa ritað nafn Z sem votts á bréfið samkvæmt leyfi Z símleiðis en Z hefði ekki komist til að undirrita sjálf.

Ákærða sagði ákærðu X hafa afhent lögmannsstofunni skuldabréfið eftir að búið var að fylla það út og hefði ákærða X notað bréfið sem greiðslu á hinu fyrra bréfi sem hún var sjálfsskuldarábyrgðaraðili á.

Ákærða X neitar sök. Hún kannaðist við að hafa skuldbreytt skuldabréfi sem ákærða Guðrún hafði verið skuldari á og hefði ákærða greitt það upp síðar. Hún kvaðst hafa talað við Y í síma og spurt hvort hún vildi skrifa undir bréfið sem sjálfsskuldarábyrgðaraðili og hefði Y þá gefið ákærðu leyfi sitt til þess að nafn hennar yrði ritað sem sjálfsskuldarábyrgðaraðili á skuldbreytingarbréfið. Kvað ákærða ástæðu þess að málið var leyst með þessum hætti vera þá, að legið hefði á að klára þetta. Aðspurð mundi ákærða ekki eftir því hvort ákærða Guðrún hefði verið viðstödd þegar ákærða ritaði nafn Y á bréfið en kvaðst þó ráma í að svo hefði verið.

Ákærða kvað ákærðu Guðrúnu hafa ritað nafn Z sem votts á bréfið með leyfi Z en Z hefði sjálf sagt sér frá því. Ákærða kvaðst hafa afhent bréfið á lögmannsstofunni en kvaðst ekki hafa sagt viðtakanda frá því að Y hefði ekki sjálf ritað nafn sitt á bréfið. Ákærða hefði verið löngu búin að greiða bréfið upp þegar Y kærði hana.

Vitnið Y, systir ákærðu Guðrúnar og dóttir ákærðu X, kom fyrir dóminn en nýtti sér rétt sinn samkvæmt b lið 50. gr. laga nr. 19/1991 og vékst undan því að gefa vitnaskýrslu fyrir dóminum.

Vitnið B, réttarskjalafræðingur, kvaðst hafa unnið rithandarrannsókn þá sem liggur frammi í málinu og ritað skýrslu um hana sem liggur frammi í málinu. Staðfesti vitnið niðurstöðu skýrslunnar um að ósennilegt væri að undirritun Y á þeim skuldabréfum sem um ræðir í ákæru, stafaði frá henni sjálfri. Gat hann ekki fullyrt hvort sami maður hefði skrifað nafn Y á bæði skuldabréfin. Þá staðfesti vitnið niðurstöðu skýrslunnar um að ekki væri hægt að fullyrða hvort vefengdu undirskriftirnar væru eftir ákærðu X eða ákærðu Guðrúnu.

Niðurstaða.

Ákærða X hefur kannast við að hafa ritað nafn Y sem ábyrgðarmanns á skuldabréfið og ákærða Guðrún hefur kannast við að hafa ritað nafn Z sem votts á bréfið. Þá er óumdeilt að ákærða Guðrún vissi að ákærða X ritaði nafn Y á bréfið og að ákærða X vissi að ákærða Guðrún ritaði nafn Z á sama bréf. Ákærðu byggja sýknukröfu sína á því að bæði Y og Z hafi gefið leyfi sitt til að ákærðu rituðu nöfn þeirra á bréfið. Þegar litið er til framlagðrar yfirlýsingar Z um að ákærða Guðrún hafi haft leyfi sitt til að rita nafn sitt sem votts á bréfið, verður að telja ósannað að sú nafnritun sé fölsuð.

Sannað er með framlagðri rithandarrannsókn og framburðum ákærðu að Y ritaði ekki sjálf undir bréfið og þegar litið er til þess sem fram kemur í kæru Y og framburðar ákærðu Guðrúnar um að ákærða X hefði mátt rita nafn Y en að Y hefði ekki viljað undirrita bréfið sjálf, verður að telja að hvorki sé leitt í ljós að Y hafi gefið ákærðu X umboð né að fyrir hafi legið leyfi Y til nafnritunarinnar. Sannað er með framburði beggja ákærðu að ákærða X framvísaði hinu útfyllta og undirritaða skuldabréfi á lögmannsstofu A hrl. umrætt sinn. Er fram komið að hún gerði viðtakanda bréfsins ekki grein fyrir því hvernig undirritanirnar voru tilkomnar. Verður ákærða X því sakfelld fyrir skjalafals eins og henni er gefið að sök í þessum ákærulið og er brot hennar þar rétt heimfært til refsiákvæða. Hins vegar er ekkert fram komið í málinu sem rennir stoðum undir það að ákærða Guðrún hafi framvísað framangreindu skuldabréfi og verður hún því sýknuð af kröfum ákæruvaldsins samkvæmt þessum ákærulið.

II. ákæruliður.

Ákærða Guðrún hefur neitað sök. Hún kvað Y sjálfa hafa undirritað skuldabréfið og kvaðst ákærða hafa verið viðstödd heima hjá henni þegar hún undirritaði það. Aðspurð kvaðst ákærða ekkert hafa við framlagða rithandarrannsókn að athuga. Y hefði hins vegar sagt að hún ætti einskis annars úrkosti til að bjarga íbúð sinni en að kæra ákærðu fyrir fölsun.  

Niðurstaða:

Þegar litið er til framlagðrar rithandarrannsóknar og skýrslu vitnisins, B réttarskjalafræðings, hér fyrir dóminum um að ósennilegt væri að undirritun Y á skuldabréfunum sem um ræðir í ákæru, stafaði frá henni sjálfri og jafnframt til þess sem fram kemur í kæru Y, verður að telja sannað, gegn neitun ákærðu að hún hafi framvísað umræddu skuldabréfi vitandi að áritun Y sem sjálfsskuldarábyrgðarmanns var fölsuð. Verður ákærða Guðrún því sakfelld eins og krafist er og er brot hennar rétt heimfært til refsiákvæða í ákærunni. 

Refsing, sakarkostnaður o.fl.:

Samkvæmt sakavottorði ákærðu Guðrúnar hefur hún ekki áður gerst sek um refsivert brot. Að þessu virtu og þegar litið er til þess að mjög langur tími er liðinn frá því að það brot, sem hún er nú sakfelld fyrir, þykir refsing hennar hæfilega ákveðin 30 daga fangelsi en fresta skal fullnustu refsingarinnar í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og skal refsing hennar falla niður að þeim tíma liðnum, haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Samkvæmt sakavottorði ákærðu X hefur hún ekki áður gerst sek um refsivert brot. Að þessu virtu og þegar litið er til þess að langur tími er liðinn frá því að það brot, sem hún er nú sakfelld fyrir, var framið, þykir refsing hennar hæfilega ákveðin 30 daga fangelsi en fresta skal fullnustu refsingarinnar í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og skal refsing hennar falla niður að þeim tíma liðnum, haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærðu Guðrún og X greiði in solidum allan sakarkostnað málsins, sem nemur málsvarnarlaunum skipaðs verjanda þeirra, Sveins Andra Sveinssonar hrl., sem þykja hæfilega ákveðin 161.850 krónur  að meðtöldum virðisaukaskatti.

Guðjón Magnússon, fulltrúi lögreglustjóra, flutti málið af hálfu ákæruvaldsins.

Arnfríður Einarsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ:

Ákærða, Guðrún Egilsdóttir Guðjohnsen, sæti fangelsi í 30 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og skal refsing hennar falla niður að þeim tíma liðnum, haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærða, X, sæti fangelsi í 30 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og skal refsing hennar falla niður að þeim tíma liðnum, haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærðu greiði in solidum allan sakarkostnað málsins, sem nemur málsvarnarlaunum skipaðs verjanda þeirra, Sveins Andra Sveinssonar hrl., 161.850 krónum að meðtöldum virðisaukaskatti.