Hæstiréttur íslands

Mál nr. 164/2004


Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Líkamstjón
  • Skaðabætur
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 9

 

Fimmtudaginn 9. desember 2004.

Nr. 164/2004.

Þorkell Daníel Eiríksson

(Róbert Árni Hreiðarsson hdl.)

gegn

Ístaki hf. og

Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

(Ólafur Haraldsson hrl.)

 

Vinnuslys. Líkamstjón. Skaðabætur. Gjafsókn.

Þ leitaði dóms um bótaskyldu vegna slyss, sem hann kvaðst hafa orðið fyrir í starfi sínu hjá Í. Voru kröfur hans fyrir Hæstarétti reistar á málsástæðu, sem fól í sér að honum hafi verið gert að vinna með mun þyngri byrði en haldið var fram í málatilbúnaði hans í héraði. Var sú málsástæða of seint fram borin. Ósannað var að bakmeiðsli Þ hafi borið að með bótaskyldum hætti og var Í því sýknað af kröfum hans. Þá var S ekki talið bótaskylt gagnvart Þ á grundvelli slysatryggingar launþega sem Í hafði keypt hjá tryggingafélaginu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. apríl 2004. Hann krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda Ístaks hf. vegna slyss, sem hann varð fyrir í starfi 12. október 1998. Hann krefst einnig viðurkenningar á bótaskyldu stefnda Sjóvá-Almennra trygginga hf. samkvæmt slysatryggingu launþega, sem stefndi Ístak hf. keypti hjá félaginu. Jafnframt krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Stefndu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Stefndi Ístak hf. krefst þess til vara að sök verði skipt og málskostnaður falli í því tilviki niður.

Sjóvá-Almennum tryggingum hf. er jafnframt stefnt til réttargæslu í þeim þætti málsins, sem veit að frjálsri ábyrgðartryggingu, sem stefndi Ístak hf. keypti hjá félaginu.

Í málinu leitar áfrýjandi dóms um bótaskyldu stefndu vegna slyss, sem hann kveðst hafa orðið fyrir 12. október 1998 í starfi sínu hjá stefnda Ístaki hf. Hefur hann lagt fyrir Hæstarétt ný gögn, sem meðal annars hafa að geyma útreikninga á þyngd þeirra líparítsteina, sem hann var að vinna við í umrætt sinn. Er þar miðað við að þeir hafi verið allt að 140 cm langir og þyngd hinna stærstu 220 kg. Í stefnu til héraðsdóms var hins vegar lagt til grundvallar að steinarnir hafi verið 70 til 100 cm langir og þyngd hvers þeirra „um og yfir“ 100 kg. Eru kröfur áfrýjanda fyrir Hæstarétti þannig reistar á málsástæðu, sem felur í sér að honum hafi verið gert að vinna með mun þyngri byrði en haldið var fram í málatilbúnaði hans í héraði. Er sú málsástæða of seint fram borin og kemur ekki til álita í málinu. Að þessu virtu og með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður niðurstaða hans um annað en gjafsóknarlaun staðfest með þeim hætti, sem greinir í dómsorði.

Rétt er að hver aðilanna beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda á báðum dómstigum greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, sem verður ákveðin eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Stefndu, Ístak hf. og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., eru sýknir af kröfum áfrýjanda, Þorkels Daníels Eiríkssonar.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans á báðum dómstigum, samtals 1.000.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. janúar 2004.

 

Stefnandi málsins er Þorkell Daníel Eiríksson, kt. 051270-3209, en stefndu  eru Ístak hf., kt. 540671-0959, Engjateigi 7, Reykjavík og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., kt. 701288-1739, Kringlunni 5, Reykjavík, sem einnig er stefnt til réttargæslu.

Málið er höfðað með stefnu dagsettri 12. júní sl., sem birt var 13. sama mánaðar. Það var þingfest hér í dómi 19. sama mánaðar, en dómtekið 20. janúar 2004 að afloknum skýrslutökum og munnlegum málflutningi.

Eftirleiðis verður vísað til Ístaks hf. sem stefnda, en til Sjóvá-Almennra trygginga hf. sem meðstefnda.

Dómkröfur:

Endanlegar kröfur stefnanda eru þessar:

Að viðurkennt verði, að stefndi, félagið Ístak hf., sé bótaskylt fyrir líkamstjóni vegna slyss, sem stefnandi hlaut við vinnu hjá félaginu við endurbætur á Bessastaða­kirkju í Bessastaðahreppi þann 12. október 1998.

Að viðurkennt verði, að meðstefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., sé bóta­skyldur gagnvart stefnanda fyrir skaðabótum, samkvæmt slysatryggingu launþega, sem stefndi, Ístak hf., keypti hjá meðstefnda.

Sjóvá- Almennum tryggingum hf. er stefnt til réttargæslu í þeim þætti málsins, sem veit að frjálsri ábyrgðartryggingu, sem stefndi, Ístak hf., keypti hjá meðstefnda.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Stefndi, Ístak hf., krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefn­anda verði gert að greiða honum málskostnað, samkvæmt framlögðum málskostn­aðarreikningi, en til vara, að sök verði skipt og að málskostnaður verði felldur niður.

Meðstefndi, Sjóvá-Almennar hf., krefst sýknu af öllum kröfu stefnanda og að stefn­anda verði gert að greiða félaginu málskostnað, samkvæmt framlögðum máls­kostnaðarreikningi.

Stefnanda var veitt gjafsókn til höfðunar málsins með leyfi dóms- og kirkju­málaráðuneytisins, dags. 17. mars 2003.

Málavextir, málsástæður og lagarök málsaðila.

Málavextir eru í stórum dráttum sem hér segir: Stefnandi vann sem verkamaður hjá stefnda við endurbætur á Bessastaðakirkju í október 1998. Dagana 11. og 12. október vann stefnandi við það, ásamt Hannesi Jóhannessyni, að slá krossböndum á líparítplötur, sem síðan voru hífðar upp í kirkjuturninn. Verkstjóri var Guðmundur Jónsson. Að sögn verkstjóra voru plöturnar um 11,5 cm á þykkt, 56 cm á breidd og frá 70-100 cm á lengd og hafi þær þyngstu vegið um það bil 100 kg.  Plöturnar voru geymdar í nokkurra metra fjarlægð frá kirkjunni og stóðu þar upp á rönd. Þangað sóttu stefnandi og Hannes hverja einstaka plötu og báru hana að lyftu við kirkjuna,  þaðan sem hún var hífð upp á kirkjuþakið.  Vörubretti var komið fyrir við lyftuna. Plöturnar voru settar niður á vörubrettið á rönd, eða þeim velt upp á brettið, þannig að hægt væri að bregða undir þær böndum. Hannes hélt við plöturnar meðan stefnandi smeygði böndunum undir þær. Böndum var krossbrugðið um hverja plötu, sem að því búnu var hífð upp í turninn. Að sögn stefnanda varð hann fyrir slysi hinn 12. október, þegar verið var að bregða böndum á síðustu plötuna. Platan hafi fallið út af vörubrettinu með með þeim afleiðingum, að allur þungi hennar hafi lent á honum. Við það hafi hann fengið mikinn slink á bakið, enda hafi platan verið þung. Hann hafi strax fundið mikið til í bakinu, en einnig orðið haltur á hægri fæti en reynt að harka af sér og ljúka verkinu, enda talið að hann myndi jafna sig fljótlega. Hann hafi látið Guðmund Jónsson, verkstjóra stefnda, vita af atburðinum, sem hafi sagt honum að hvíla sig og fá sér kaffi.  Þegar verkir hafi ágerst hafi hann fengið leyfi Guðmundar til að fara heim og verið rúmfastur næstu daga. Hann hafi ekki komið til vinnu hjá stefnda eftir þetta.

Stefnandi leitaði til slysadeildar Sjúkrahúss Reykjavíkur 15. október vegna meiðslanna og fékk þar greininguna tognun á lendarhrygg. Í vottorði Andra K. Karlssonar, læknis, dags. 19. febrúar 1999, kemur fram, að stefnandi hafi verið greindur með svokallað „þursabit” af læknum slysadeildar. Hann hafi leitað til endur­komudeildar Sjúkrahúss Reykjavíkur 28. október og 11. nóvember 1998 vegna viðvar­andi verkja og fengið sömu sjúkdómsgreiningu í bæði skiptin.  Þá liggur fyrir vottorð Ragnars Jónssonar bæklunarlæknis, dags. 18. desember 1999. Í lokakafla vottorðsins er samantekt á helstu efnisþáttum þess. Þar segir m.a. svo: Þorkell hefur fyrri sögu um bakeinkenni og leiðsluverki niður í hægri ganglim. Hann hefur nú fengið mjóbakseinkenni eftir vinnuslys 12.10.1998 en þá var hann við vinnu hjá Ístaki í Bessastaðakirkju. Hann hefur eftir þetta ekki komist til vinnu. Ítarlegar rannsóknir hafa verið gerðar og hafa þær ekki sýnt fram á neina áverka á bein eða taugavef og virðist hér vera um að ræða afleiðingar mjóbakstognunar en erfitt getur verið að greina hér á milli fyrri einkenna og einkenna nú eftir síðasta slys..........

Stefnandi leitaði einnig til Halldórs Jónssonar bæklunarlæknis. Vottorð hans er dags. 4. apríl 2001. Í þeim kafla vottorðsins sem ber yfirskriftina ÁLIT segir m.a. svo: Gerð var segulómrannsókn á LHS v/ Hringbraut sem sýnir væga afturbungun á þremur neðstu hryggþófunum, sérstaklega tveimur neðstu. Það er hins vegar ekki að sjá lækkun á þeim eða hrörnunarbreytingar. Hins vegar eru vægar breytingar á smáliðunum. Einnig er einnig að finna svohljóðandi lýsingu: Rannsóknarniðurstöður sýna útbunganir á hryggþófum í þremur neðstu liðsbilunum. Hins vegar er ekki hægt að beintengja niðurstöðurnar umræddu óhappi (þ.e. slysinu 12. október 1998) öðruvísi en að Þorkell staðfestir að óþægindin hafi byrjað við og eftir óhappið. Þrátt fyrir þetta er óhjákvæmilegt annað en að Þorkell hafi hlotið slæma tognun á mjóbakið í umræddu tilviki.  

Ekki liggur fyrir mat á örorku stefnanda.

Í yfirlýsingu frá stefnda, sem dagsett er 15. desember 1998, kemur fram, að stefnandi var á launum hjá Ístaki hf. til og með 6. nóvember 1998. Síðan segir svo: Eftir þann tíma er hann búinn með áunnin sjúkraréttindi.

Lögmaður stefnanda óskaði eftir því við lögregluna í Hafnarfirði, að tildrög slyssins við Bessastaðakirkju yrðu rannsökuð. Stefnandi gaf skýrslu hjá lögreglu af þessu tilefni 29. desember 1998. Þar lýsir stefnandi atburðarásinni svo, að hann hafi staðið við steinplötu og haldið við hana, en þá hafi Hannes, vinnufélagi hans, skyndi­lega ýtt á plötuna, sem við það hafi fallið niður af vinnubrettinu og lagst á hann með fullum þunga. Hann hafi staðið hálfskakkur við verkið og snúist til við þau átök að forða því, að steinplatan félli í jörðina og kynni að brotna.  Hafi hann strax fundið til mikils sársauka. Honum hafi verið fyrirlagt að sýna aðgát, því að þessar steinplötur væru fornminjar. Guðmundur verkstjóri hafi komið til hans strax eftir slysið og hafi honum verið sagt frá því, sem gerst hafði. Nokkru síðar hafi hann fengið leyfi Guðmundar til að fara heim, þar sem hann hafi verið sárþjáður. Guðmundur hafi um leið klappað honum á bakið nokkuð harkalega og hafi hann við það kveinkað sér.  Stefnandi kvaðst hafa hringt í Guðmund u.þ.b. viku síðar og sagt honum að hann kæmist ekki til vinnu í bráð vegna slyssins. Guðmundur hafi þá sagt honum, að reyna að fá sig góðan og koma í vinnu, þegar hann treysti sér til þess. Hann hafi síðan frétt að slysið hefði aldrei verið tilkynnt til Vinnueftirlitsins og að Guðmundur vildi ekki kannast við slysið.

Guðmundur Jónsson verkstjóri gaf skýrslu hjá lögreglunni í Hafnarfirði hinn 15. janúar 1999. Hann lýsti verktilhögun með sama hætti og áður er getið. Hann  kvað stefnanda hafa komið að máli við sig um kl. 14.00 og borið sig illa og sagst vera slæmur í baki. Hann hafi sagt stefnanda að fara heim og jafna sig og koma síðan aftur, þegar hann væri orðinn góður. Eftir þetta samtal hafi hann spurt Hannes vinnufélaga stefnanda um þennan bakverk, en Hannes hafi ekki orðið var við neitt óeðlilegt, fyrr en stefnandi fór að kvarta yfir bakverkjum. Sömu svör hafi hann fengið hjá Valdimar, sem stjórnaði hífingum upp í turninn.  Guðmundur sagði stefnanda hafa unnið hjá stefnda í þrjár til fjórar vikur, þegar þessi atburður gerðist. Honum hafi þótt vinnan líkamlega erfið og barmað sér mikið og kvartað yfir verkjum í baki. Hann minntist þess að hafa klappað stefnanda á bakið, sem hafi kveinkað sér og borið sig aumlega.

Skýrsla var tekin af Hannesi Jóhannessyni, vinnufélaga stefnanda, hinn 28. janúar s.á. Hann sagðist ekki hafa orðið var við, að stefnandi hefði meitt sig. Hann minntist þess hins vegar, að stefnandi hefði kvartað yfir bakverkjum þennan dag og talað um, að hann hefði fengið hnykk á bakið. Hannes lét þess getið, að vel geti verið, að menn fengju á sig hnykk við vinnu við þessar plötur, sem væru þungar. Því gæti það hafa gerst, að stefnandi hefði slasast, án þess að hann hefði orðið þess var.

Valdimar Gíslason gaf skýrslu 6. febrúar s.á. Hann vann við að hífa líparít­plöturnar upp í kirkjuturninn daginn sem stefnandi slasaðist. Valdimar sagðist ekki hafa orðið þess var, að stefnandi hefði orðið fyrir slysi: Hann minntist þess hins vegar, að stefnandi hefði einhvern tímann sagst hafa fengið hnykk á bakið og verið slæmur eftir.

Stefndi, Ístak hf., var með slysatryggingu launþega og ábyrgðartryggingu hjá meðstefnda, Sjóvá- Almennum tryggingum hf., eins og áður er getið.

Lögmaður stefnanda tilkynnti meðstefnda um umrætt slys með bréfi, dags. 21. desember 1998, og spurðist fyrir um bótarétt hans. Sama dag tilkynnti lögmaðurinn Tryggingastofnun ríkisins um slysið.  Lögmaður stefnanda leitaði eftir skaðabótum hjá meðstefnda, sem ítrekað hafnaði beiðni hans á þeirri forsendu, að tjón stefnanda væri ekki bótaskylt.  Meðstefndi skaut málinu tvívegis til tjónanefndar vátrygginga­félaganna, sem í bæði skiptin komst að þeirri niðurstöðu að tjónið væri ekki bótaskylt. Loks lagði stefnandi málið fyrir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum, sem hafnaði kröfu stefnanda með úrskurði, dags. 10. október 2001.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir á því, að hann hafi slasast í vinnu hjá stefnda, Ístaki hf., með bótaskyldum hætti samkvæmt skilmálum slysatryggingar launþega, sem félagið hafi keypt hjá meðstefnda. Framlögð gögn beri ljóslega með sér, að hann hafi verið fullfrískur til erfiðisvinnu fyrir slysið. Vinnufélagar stefnanda og Guðmundur Jónsson verkstjóri hafi staðfest frásögn hans af atburðarrásinni, og að hann hafi orðið að hætta vinnu og fara heim af völdum slyssins. Þá staðfesti fjölmörg læknisvottorð og vottorð frá sjúkraþjálfara, að stefnandi hafi verið óvinnufær svo mánuðum skipti vegna slæmrar tognunar í mjóbaki. Afleiðingum slyssins sé einkar vel lýst í vottorði Halldórs Jónssonar læknis, en þar komi fram góð greining á þeim hryggskemmdum, sem stefn­andi hafi hlotið við slysið og lýsing á þeirri læknismeðferð, sem hann hafi þurft að leggja á sig.

Stefnandi byggir bótakröfu sína gagnvart stefnda, Ístak hf., á því, að vinnu­aðstæður hafi verið með öllu óforsvaranlegar, eins og framlögð gögn sýni. Ámælisvert sé að ætla starfmönnum að handleika líparítplöturnar og lyfta þeim af eigin rammleik, án nokkurra hjálpartækja,  upp á vörubretti, svo að hægt væri að slá stroffum utan um þær. Hver plata hafi vegið 100 kg og því verði að telja gáleysi að ætla einum manni að valda svo miklum þunga, ekki síst í ljósi þess, að fyrirsjáanlegt var, að vinnan myndi standa yfir í nokkra daga. Einnig hafi verið óvarlegt af verkstjóra að ætla Hannesi að vinna þetta verk.  Hannes hafi skertan styrk í hægri hendi, þar sem vanti bæði baugfingur og litla fingur. Verkið hafi verið líkamlega erfitt og útheimt fullan styrk í höndum, ekki síst í ljósi þess, að rigning og rok hafi verið allan þann tíma, sem á verkinu stóð, plöturnar verið blautar og hálar og tekið á sig mikinn vind.  Verkstjóranum hafi mátt vera ljóst, að þessi verktilhögun byði hættunni heim og færi í bága við reglur nr. 499/1994 um aðbúnað, öryggi og hollustu, þegar byrðar séu hand­leiknar, sbr. 38. gr. laga nr. 46/1980.

Einnig byggir stefnandi á því, að slysið hafi hlotist af aðgæsluleysi Hannesar Jóhannessonar, samstarfsmanns hans. Hannes hafi haldið undir þann enda líparít­plötunnar, sem tyllt hafi verið á vörubrettið og það hafi verið í hans verkahring að halda henni þar, meðan stefnandi smeygði stroffunni utan um hana. Hannes hafi annað hvort ýtt á plötuna, eða sett hana of tæpt á brettið, nema hvort tveggja hafi verið og því hafi hún fallið niður af brettinu með fyrrgreindum afleiðingum.

Þá byggir stefnandi á því, að Vinnueftirliti ríkisins hafi ekki verið tilkynnt um slysið, eins og lögskylt sé, sbr. 1. og 2. gr. reglna nr. 612/1989 og 81. gr. laga nr. 46/1980. Öll gagnaöflun hafi verið að frumkvæði stefnanda og lögmanns hans. Af þessum ástæðum telur stefnandi að leggja beri framburð hans til grundvallar um öll atvik málsins. Hefðu viðkomandi starfsmenn stefnda á vettvangi sinnt þeirri lagaskyldu að tilkynna um slysið til lögreglu og Vinnueftirlitsins innan 14 daga lög­mælts frests, lægju öll atvik málsins ljós fyrir. Stefndu verði að bera hallann af þessu aðgerðarleysi.

Stefnandi vísar til almennra reglna skaðabótaréttarins og reglna um slysa­tryggingu launþega og ábyrgðartryggingu fyrir atvinnurekstur, til stuðnings kröfum sínum, sbr. og áðurnefndar reglur um öryggi á vinnustöðum o. fl. og reglur um til­kynningaskyldu slysa.  Málskostnaðarkröfu sína byggir stefnandi á 130. gr. laga nr. 91/1991 (eml.), en kröfu sína um virðisaukaskatt til viðbótar tildæmdum málskostnaði á lögum nr. 50/1988.

Málsástæður og lagarök stefndu og meðstefnda.

Stefndu byggja á því, að stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir orsökum tjóns síns og umfangi þess og mótmæla þeirri málsástæðu stefnanda, að sönnunaraðstaðan hafi breyst þeim í óhag við það, að atvikið hafi ekki verið tilkynnt Vinnueftirliti ríkisins. Aðstæður hafi verið með þeim hætti, að enginn starfsmanna stefnda hafi gert sér grein fyrir því, að slys hefði orðið, enda hafi stefnandi ekki sagt Guðmundi Jónssyni verkstjóra annað en hann væri slæmur í baki og ekki minnst á, að hann hefði orðið fyrir slysi.  Einnig sé ljóst, að rannsókn á vegum Vinnueftirlitsins í kjölfar slyssins hefði ekki varpað nýju og breyttu ljósi á tildrög þess umfram það, sem sjá megi af gögnum málsins.

Stefndu byggja á því, að verkstjórn, vinnutilhögun og aðstæður á vinnustað hafi verið í fullu samræmi við allar þær reglur, sem um þau atriði gildi. Verkið hafi ekki verið áhættusamt. Það hafi verið einfalt og öllum ljóst, hvernig það yrði best og öruggast unnið. Ástæðulaust hafi verið að nota sérstök tæki umfram þau, sem notuð hafi verið. Meint tjón stefnanda megi þannig rekja til óhappatilviljunar og e.t.v. eigin sakar stefnanda.

Stefndu benda á, að því er varðar kröfu stefnanda á grundvelli slysatryggingar launþega, að slys sé skilgreint í grein 1.3 í skilmálum slysatryggingar launþega sem skyndilegur utanaðkomandi atburður, sem valdi meiðslum á líkama þess, sem tryggður sé og gerist sannanlega án vilja hans. Ekki verði ráðið af gögnum málsins, að stefnandi hafi orðið fyrir bakmeiðslum vegna utanaðkomandi atviks í merkingu skilmálanna.  Ósannað sé með öllu, að Hannes, samstarfsmaður stefnanda, hafi ýtt á plötuna eða sett hana tæpt á brettið. Fullyrðingum stefnanda í þessa veru sé algjörlega mótmælt.

Stefndu byggja varakröfu sína á því, að tjón stefnanda megi einkum rekja til óhappatilviljunar og eigin sakar hans sjálfs. Honum hafi borið að láta verkstjóra vita af veiklega í baki og fyrri bakmeiðslum og sýna sérstaka aðgát í ljósi þessa veikleika.  Hafi stefnandi fengið slink á bakið við verkið, stafi það af óhappatilviljun eða rangri líkamsbeitingu sem og óvarkárni hans sjálfs, sem stefnandi verði einn að bera ábyrgð á.

Stefndu vísa til skaðabótalaga, reglna skaðabótaréttar um sönnum tjóns og sönnunarbyrði og reglna skaðabótaréttar um orsakatengsl og sennilega afleiðingu, en byggja málskostnaðarkröfu sína á ákvæðum 21. kafla laga nr. 91/1991.

 

Niðurstaða:

Skýrsla var tekin af stefnanda við aðalmeðferð málsins. Anna Runólfsdóttir, sam­býliskona stefnanda, gaf einnig skýrslu fyrir dóminum, svo og Hannes Jóhannes­son og Guðmundur Jónsson, verkstjóri. Skýrsla var tekin af Valdimar Gíslasyni um síma.

Samstarfsmenn stefnanda og Guðmundur, verkstjóri stefnda, mundu mjög óljóst eftir þeim atburði, sem málið fjallar um. Allir staðfestu þeir þá frásögn, sem skráð var eftir þeim hjá lögreglu. Þeir hafi undirritað hana á sínum tíma og talið hana rétta.

Stefnandi greindi frá atvikum með líkum hætti og að framan er lýst. Hann kvaðst ekki geta fullyrt, að líparítplatan hafi fallið af vörubrettinu við það, að Hannes hafi ýtt á hana, en hún hafi fallið af brettinu með fyrrgreindum afleiðingum. Stefnandi viðurkenndi að hafa áður átt við bakmeiðsli að stríða,  en kvaðst ekki hafa kennt sér meins af þeim sökum í a.m.k. tvö ár fyrir slysið. Hann hafi unnið hjá Fossvirki hf., við gerð Hvalfjarðargangna frá hausti 1996 og fram á haustið 1998. Sú vinna hafi oft útheimt átök, þar sem reynt hafi á bak og hafi hann ekki fundið til óþæginda í baki við þau störf.

Yfirlýsing frá Haraldi A. Ingþórssyni, rekstrarstjóra stefnda Ístaks hf., liggur frammi í málinu. Þar er því lýst, að stefnandi hafi unnið hjá Fossvirki hf. á umræddu tímabili, hluti starfsins hafi verið erfiðisvinna með þunga hluti, sem stefnandi hafi ekki átt í erfiðleikum með. Haraldur neitaði að koma fyrir dóm og staðfesta yfirlýsingu sína, en lögmaður stefndu kvaðst ekki rengja efni hennar.

Stefnandi lýsti því yfir í dóminum, að hann hefði náð sér að fullu af fyrri bakmeiðslum, þegar umræddur atburður átti sér stað. Því verður ekki talið,  að óráð­legt hafi verið af Guðmundi Jónssyni, verkstjóra stefnda, að fela honum að vinna umrætt starf og verkstjórn ekki verið áfátt að þessu leyti.

Ljóst þykir, að stefnandi varð fyrir bakmeiðslum við störf sín hjá stefnda hinn 12. október 1998.  Allir samstarfsmenn stefnanda báru í skýrslu sinni hjá lögreglu, að stefnandi hafi kvartað yfir bakverkjum og sagst hafa fengið slink á bakið. Hannes sagði frá því, að stefnandi hafi kveinkað sér í kaffitímanum þennan dag og Guðmundur verkstjóri sagðist hafa spurt Hannes um bakverk stefnanda, eftir að hafa veitt stefnanda leyfi til heimferðar og hafi Hannes sagst ekki hafa orðið var við neitt, fyrr en stefnandi fór að kvarta um verk í bakinu. Valdimar kvaðst minnast þess, að stefnandi hafi í matar- eða kaffitíma einn daginn sagst hafa fengið hnykk á bakið og væri slæmur eftir það.

Á hinn bóginn liggur ekki fyrir með neinni vissu, hvernig bakmeiðsli stefnanda komu til, þótt líklegt þyki, að átök við líparítplöturnar hafi valdið þeim.

Stefnandi byggir einnig á því, að rangt hafi verið og óráðlegt af verkstjóra að ætla Hannesi Jóhannessyni að vinna umrætt verk.  Hannes hafi misst tvo fingur hægri handar, sem hafi áhrif á handstyrk hans. Verkið hafi verið erfitt og útheimt fullan styrk. Hannes upplýsti hér fyrir dómi, aðspurður um þessa fötlun sína, að hún hefði að hans mati engin áhrif haft á hæfi hans til að vinna verkið. Ósannað þykir því, að verkstjórn stefnda hafi verið röng í þessu tilliti.

Ekki verður heldur talið, að verktilhögun sú, sem stefnanda og Hannesi var ætlað að viðhafa, hafi verið hættuleg eða varhugaverð. Þeirra verkefni fólst í því að bera í sameiningu líparítplötur, allt að 100 kg um 10 metra vegalengd og slá á þær böndum, eins og áður er lýst. Þykir það ekki hafa verið ofviða tveimur fullfrískum mönnum.

Ósönnuð er sú staðhæfing stefnanda,  að Hannes, samstarfsmaður hans, hafi ýtt á líparítplötuna og valdið því að hún féll af vörubrettinu.

Þá byggir stefnandi á því, að leggja beri frásögn hans um málsatvik til grundvallar, þar sem stefndi, Ístak hf., hafi látið hjá líða að tilkynnta Vinnueftirliti eða lögreglu um atburðinn, eins og lögskylt sé.

Fram kom í skýrslu vinnufélaga stefnanda hjá lögreglu, sem þeir staðfestu hér í dómi, að hvorugur þeirra hafi áttað sig á því, að stefnandi hefði orðið fyrir slysi. Guðmundur verkstjóri greindi frá atvikum með sama hætti. Svo virðist, sem þessir þrír hafi talið, að stefnandi hafi tognað í baki við vinnu sína við það að hafa fengið á sig hnykk, án þess að um slys hafi verið að ræða.  Þeir upplifðu því atburðinn ekki sem slys og því var hann ekki tilkynntur viðkomandi stjórnvaldi eða lögreglu.

Stefnandi gerði hvorki fyrirsvarsmönnum stefnda, Ístaks hf., né Guðmundi Jónssyni verkstjóra grein fyrir því, svo sannað sé, að hann hafi orðið fyrir slysi. Að mati dómsins stóð það stefnanda nær, eins og hér stóð á, að hafa frumkvæði að rannsókn á orsökum atburðarins, sem hann og gerði, eins og áður er lýst.

Dómurinn lítur svo á, að rannsókn Vinnueftirlitsins hefði vart varpað skýrara ljósi á atburðarásina, þar sem enginn viðstaddra upplifði atburðinn sem slys. Enginn ágreiningur er um það, hvernig staðið var að verki eða hvaða hlutverk einstakur starfsmaður stefnda hafði með höndum við framkvæmd verksins. Lögreglurannsókn fór fram nokkrum mánuðum eftir að atvikið átti sér stað og ekki að sjá, að rannsókn sem fyrr hefði verið gerð, hefði breytt sönnunarstöðu stefnanda.

Með vísan til þess, sem að framan er rakið, þykir ósannað, að bakmeiðsli stefn­anda hafi borið að með bótaskyldum hætti.  Þykir því verða að sýkna stefnda, Ístak hf. af skaðabótakröfu stefnanda á hendur félaginu.

Stefnandi krefst þess einnig, að viðurkennt verði, að meðstefndi, Sjóvá- Almennar hf., sé bótaskylt gagnvart honum á grundvelli slysatryggingar launþega, sem stefndi, Ístak hf., keypti hjá tryggingafélaginu.

Í gr. 1.3 í tryggingaskilmálum meðstefnda,  sem áður er getið, er hugtakið slys skilgreint svo, að átt sé við skyndilegan utanaðkomandi atburð, sem valdi meiðslum á líkama þess, sem tryggður er og gerist sannanlega án vilja hans.

Því er lýst hér að framan, að ósannað sé, að stefnandi hafi slasast í vinnu hjá stefnanda.

Þegar af þeirri ástæðu ber að sýkna meðstefnda, Sjóvá-Almennar hf., af kröfu stefnanda.

Rétt þykir, eins og málsatvikum er háttað, að málsaðilar beri hver um sig kostnað af málinu.

Stefnandi fékk gjafsókn til höfðunar málsins, eins og áður er lýst.

Lögmaður stefnanda hefur lagt fram tímaskýrslu, þar sem hann gerir grein fyrir þeim tíma, sem hann hefur varið til málsins. Annars vegar er um að ræða yfirlit yfir tímafjölda, sem lögmaðurinn varði til málsins á fyrri stigum þess, allt frá lögreglu­rannasókn og þar til gjafsóknar er fyrst beiðst á árinu 2002 og hins vegar yfirlit yfir tímafjölda frá þeim tíma til þessa dags. Samtals er um að ræða 135,25 vinnustundir. Dómurinn hefur yfirfarið tímaskýrslu lögmannsins og telur 670.000 krónur hæfilegan málskostnað að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Miðað er við þann tíma, þegar lögmaður stefnanda hóf að undirbúa málsókn þessa á árinu 2002.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði.

Skúli J. Pálmason héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

Dómsorð:

Stefndu, Ístak hf. og Sjóvá-Almennar hf., eru sýknuð af kröfum stefnanda, Þorkels Daníels Eiríkssonar,  á hendur þeim.

Málskostnaður, 670.000, krónur greiðast úr ríkissjóði.