Print

Mál nr. 274/2010

Lykilorð
  • Eignarréttur
  • Stjórnarskrá
  • Afturvirkni
  • Lagarök

Fimmtudaginn 25. nóvember 2010.

Nr. 274/2010.

B og

C

(Helgi Jóhannesson hrl.)

(Arnar Þór Stefánsson hdl.)

gegn

Sparisjóði Vestmannaeyja

(Ásgeir Jónsson hrl.)

(Bjarni Lárusson hdl.)

Eignarréttur. Stjórnarskrá. Afturvirkni. Ábyrgð. Lagarök.

S krafði B og C um greiðslu skuldar sem sjálfskuldarábyrgðarmenn skuldabréfs, en aðalskuldari bréfsins var D. Með úrskurði héraðsdóms í september 2009 var nauðasamningur D til greiðsluaðlögunar staðfestur og allar samningskröfur gefnar eftir að fullu, þ. á m. kröfur samkvæmt umræddu skuldabréfi sem gefið var út í mars 2006. Í málinu deildu aðilar um hvort ábyrgð B og C væri niður fallin með vísan til 3. mgr. 9. gr., sbr. 12. gr. laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009, en ekki var um það deilt að þau hefðu í upphafi tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á umræddu láni. S taldi að víkja bæri þessum ákvæðum til hliðar þar sem þau væru ósamrýmanleg eignaréttarákvæði í 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. samningsauka við mannréttindasáttmála Evrópu. Talið var að með 3. mgr. 9. gr.  laga nr. 32/2009, sbr. 12. gr. laganna, hafi verið kveðið á um brottfall ábyrgða, sem til hafði verið stofnað fyrir gildistöku þeirra, án tillits til þess hver greiðslugeta ábyrgðarmanna væri. Kröfuréttur S á hendur B og C sem sjálfskuldarábyrgðarmönnum skuldabréfsins nyti verndar 72. gr. stjórnarskrár og þau réttindi yrðu ekki skert án bóta með afturvirkri íþyngjandi löggjöf. Fyrir Hæstarétti héldu B og C því fram að jafnvel þótt talið yrði að framangreind ákvæði laga nr. 32/2009 stönguðust á við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar yrði afleiðing þess ekki sú að krafa S á hendur þeim næði fram að ganga heldur leiddi það til bótaskyldu ríkissjóðs, sem bæri þá að bæta S það tjón er hann hefði orðið fyrir vegna ólögmætrar eignaskerðingar laganna við afnám ábyrgðanna. Talið var að af orðum 3. mgr. 9. gr. og 12. gr. laga nr. 32/2009, sbr. ummæli í nefndaráliti viðskiptanefndar með breytingartillögum við þær greinar, væri ljóst að við lagasetninguna hafi verið gengið út frá því að þessar skerðingar væru heimilar án bóta. Forsenda lagasetningarinnar hafi þannig verið sú að ekki væri skylt að bæta þolendum þessar skerðingar samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar. Valdheimildir dómstóla stæðu við þessar aðstæður aðeins til þess að virða lögin að vettugi að því leyti sem þau teldust andstæð stjórnarskrá, en ekki til þess að þeir leggi til grundvallar dómi að umtalsverð útgjöld vegna bóta féllu á ríkissjóð. Samkvæmt þessu yrði ákvæði 3. mgr. 9. gr. laga nr. 32/2009 ekki beitt um ábyrgð B og C á greiðslum samkvæmt skuldabréfinu og þeim gert að greiða S umkrafða fjárhæð.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 4. maí 2010. Þau krefjast sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem C var veitt fyrir héraðsdómi og þeim báðum fyrir Hæstarétti. 

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Stefndi höfðaði mál þetta á hendur áfrýjendum 29. og 30. september 2009 til heimtu skuldar samkvæmt skuldabréfi útgefnu 6. mars 2006. Bréfið var gefið út af D til Sparisjóðsins Suðurlandi, sem er útibú stefnda, en áfrýjendur tókust á hendur sjálfskuldarábyrgð á greiðslum samkvæmt því. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 15. september 2009 var nauðasamningur D til greiðsluaðlögunar staðfestur. Með honum voru samningskröfur gefnar eftir að fullu, en meðal þeirra var skuld D samkvæmt framangreindu skuldabréfi. Málavöxtum er nánar lýst í hinum áfrýjaða dómi.

 Aðila greinir á um hvort það leiði af 3. mgr. 9. gr. laga  nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn að krafa stefnda á hendur áfrýjendum sé niður fallin, en ekki er um það deilt að þau hafi í upphafi með bindandi hætti tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á umræddu láni. Þá er ekki í málinu tölulegur ágreiningur.

II

Í frumvarpi til laga um ábyrgðarmenn, sem útbýtt var á Alþingi 6. nóvember 2008 var upphaflega svohljóðandi ákvæði í 3. mgr. 9. gr.: „Nauðasamningur eða önnur eftirgjöf sem kveður á um lækkun kröfu á hendur lántaka hefur sömu áhrif til lækkunar kröfu á hendur ábyrgðarmanni.“ Í gildistökuákvæði 12. gr. frumvarpsins var kveðið á um að lögin skyldu þegar öðlast gildi, en um það sagði í athugasemdum að greinin þarfnaðist ekki skýringa að öðru leyti en því að miðað væri við að frumvarpið tæki til samninga um ábyrgðir sem gerðir væru frá og með gildistöku þess. Í febrúarbyrjun 2009 var útbýtt á Alþingi frumvarpi til laga um breyting á lögum um gjaldþrotaskipti o. fl. nr. 21/1991, en með því var lagt til að við 3. þátt laganna bættist nýr kafli, X. kafli a. Greiðsluaðlögun. Í frumvarpinu var ekki gert ráð fyrir að greiðsluaðlögun haggaði rétti lánardrottins skuldara til að krefja ábyrgðarmann um fulla greiðslu, sbr. 4. mgr. 60. gr. laganna. Frumvarp þetta var samþykkt óbreytt að þessu leyti á Alþingi 30. mars 2009 og birt sem lög nr. 24/2009, sem tóku gildi 1. apríl það ár. Þann 23. mars 2009 var útbýtt á Alþingi breytingartillögum við og nefndaráliti  um  fyrrgreint frumvarp til laga um ábyrgðarmenn frá viðskiptanefnd. Með breytingartillögunum var meðal annars lagt til að 3. mgr. 9. gr. frumvarpsins orðaðist svo: „Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 60. gr. laga um gjaldþrotaskipti o. fl. skal nauðasamningur eða önnur eftirgjöf, þ. m. t. nauðasamningur til greiðsluaðlögunar, sem kveður á um lækkun kröfu á hendur lántaka hafa sömu áhrif til lækkunar kröfu á hendur ábyrgðarmanni.“ Þá var lagt til að svofellt ákvæði bættist við gildistökuákvæði 12. gr. frumvarpsins: „Lögin taka til ábyrgða sem stofnað hefur verið til fyrir gildistöku þeirra að frátöldum 4. gr., 5. gr., 1. mgr. 6. gr. og 8. gr.“ Í nefndarálitinu sagði meðal annars um 9. gr. að í ljósi frumvarps um greiðsluaðlögun sem þá væri til umfjöllunar í allsherjarnefnd væri lögð til sú breyting „að þessir gerningar hafi sömu áhrif og nauðsamningur eða önnur eftirgjöf.“ Þá sagði að með breytingartillögunni legði nefndin til að þrátt fyrir 4. gr. 60. gr. laga um gjaldþrotaskipti skuli tilvik þau sem nefnd væru í 3. mgr. 9. gr. frumvarpsins leiða til lækkunar kröfu á hendur ábyrgðarmanni. Um gildistökuákvæði 12. gr. frumvarpsins sagði svo í nefndarálitinu: „Nefndin leggur til að þau ákvæði frumvarpsins sem lúta að stofnun, efni og formi ábyrgðarsamninga gildi ekki um ábyrgðarsamninga sem gerðir hafa verið fyrir gildistöku laganna og að það sama eigi við um þau ákvæði frumvarpsins sem takmarka aðför og gjaldþrotaskipti á búi ábyrgðarmanns. Breytingin er lögð til að gættum sjónarmiðum um afturvirkni laga og friðhelgi eignarréttar. Nefndin telur með hliðsjón af því að ábyrgðarsamningar eru oft gerðir til langs tíma eðlilegt að önnur ákvæði frumvarpsins nái til samninga sem þegar hafa verið gerðir enda séu þau í anda framkvæmdar sem viðhöfð hefur verið á grundvelli samkomulagsins um ábyrgðir og íþyngi lánveitendum ekki um of.“ Breytingartillögur nefndarinnar voru samþykktar og varð frumvarpið þannig breytt samþykkt sem lög frá Alþingi 30. mars 2009, eða sama dag og fyrrgreint frumvarp um greiðsluaðlögun, og birt sem lög nr. 32/2009, sem tóku gildi 4. apríl það ár.

III

Stefndi höfðaði mál þetta til innheimtu skuldar á hendur áfrýjendum sem sjálfskuldarábyrgðarmönnum skuldabréfs. Áfrýjendur tóku til varna og reistu sýknukröfu sína í greinargerð í héraði á því að ábyrgðarskuldbinding þeirra væri niður fallin vegna 3. mgr. 9. gr. laga nr. 32/2009. Með vísan til forsendan hins áfrýjaða dóms er staðfest sú niðurstaða hans að stefndi hafi við munnlegan flutning málsins í héraði getað komið að þeim rökum að víkja bæri 3. mgr. 9. gr. laga nr. 32/2009 til hliðar þar sem ákvæðið væri ósamrýmanlegt 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu.

Með 3. mgr. 9. gr.  laga nr. 32/2009, sbr. 12. gr. laganna, var kveðið á um brottfall ábyrgða, sem til hafði verið stofnað fyrir gildistöku þeirra, án tillits til þess hver greiðslugeta ábyrgðarmanna væri. Verður með vísan til forsendna héraðsdóms staðfest sú niðurstaða hans að kröfuréttur stefnda á hendur áfrýjendum sem sjálfskuldarábyrgðarmönnum skuldabréfsins njóti verndar 72. gr. stjórnarskrár og að þau réttindi verði ekki skert án bóta með afturvirkri íþyngjandi löggjöf á þann hátt sem að framan var lýst.

Áfrýjendur hafa fyrir Hæstarétti haldið því fram að jafnvel þótt talið yrði að framangreind ákvæði laga nr. 32/2009 stönguðust á við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar yrði afleiðing þess ekki sú að krafa stefnda á hendur þeim næði fram að ganga heldur leiddi það til bótaskyldu ríkissjóðs, sem bæri þá að bæta stefnda það tjón er hann hefði orðið fyrir vegna ólögmætrar eignaskerðingar laganna við afnám ábyrgðanna. Ekki verður ráðið af hinum áfrýjaða dómi að þetta atriði hafi komið sérstaklega til umfjöllunar í héraði. Um er að ræða lagarök til viðbótar þeim sem fyrr hafði verið teflt fram fyrir málsástæðu sem byggt hafði verið á og hefði Hæstarétti borið að huga að þeim þó að áfrýjendur hefðu ekki nefnt þau sérstaklega í málflutningi sínum fyrir Hæstarétti. Af orðum 3. mgr. 9. gr. og 12. gr. laga nr. 32/2009, sbr. framangreind ummæli í nefndaráliti viðskiptanefndar með breytingartillögum við þær greinar, er ljóst að við lagasetninguna var gengið út frá því að þessar skerðingar væru heimilar án bóta. Forsenda lagasetningarinnar var þannig sú að ekki væri skylt að bæta þolendum þessar skerðingar samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar. Verður talið að valdheimildir dómstóla standi við þessar aðstæður aðeins til þess að virða lögin að vettugi að því leyti sem þau teljast andstæð stjórnarskrá, en ekki til þess að þeir leggi til grundvallar dómi að umtalsverð útgjöld vegna bóta falli á ríkissjóð. Samkvæmt öllu framanröktu verður  ákvæði 3. mgr. 9. gr. laga nr. 32/2009 ekki beitt um ábyrgð áfrýjenda á greiðslum samkvæmt skuldabréfinu 6. mars 2006 og verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjenda greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjenda, B og C, greiðist úr ríkissjóði þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra 400.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 13. apríl 2010.

Mál þetta, sem dómtekið var 18. febrúar sl., er höfðað með stefnu birtri 29. og 30. september sl.

Stefnandi er Sparisjóður Vestmannaeyja, kt. 610269-5839, Bárustíg 15, Vestmannaeyjum.

Stefndu eru B, kt. [...], [...], [...] og C, kt. [...], [...], [...].

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 1.024.686 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. desember 2008 til greiðsludags.  Þá er krafist bankakostnaðar að fjárhæð 29.210 krónur og málskostnaðar að mati dómsins.

Dómkröfur stefndu eru þær að þau verði sýknuð af kröfum stefnanda.  Stefnda B krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt reikningi en stefndi C krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt reikningi eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en hann fékk gjafsókn í máli þessu með bréfi dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins dags. 4. desember sl. 

Málavextir.

Stefnandi lýsir málavöxtum svo að framangreind skuld sé samkvæmt skuldabréfi nr. [...], útgefnu á [...] þann 6. mars 2006 af stefnanda en skuldari er D.  Skuldabréfið var upphaflega að fjárhæð 1.000.000 krónur og skyldi það greiðast með 96 afborgunum í Sparisjóðnum á Suðurlandi, Selfossi, á  mánaðarfresti, í fyrsta sinn 1. apríl 2006.  Skuldin bar vexti frá 27. febrúar sama ár og skyldi greiða af því breytilega kjörvexti eins og þeir voru ákveðnir hverju sinni af sparisjóðnum, upphaflega 5,30% ársvexti að viðbættu 4,75% vaxtaálagi á ári, eða alls 10,05% ársvexti.  Þá var skuldabréfið bundið vísitölu neysluverðs með grunnvísitölu 249,7.  Breyting var gerð á greiðsluskilmálum skuldabréfsins 21. nóvember 2008 og námu eftirstöðvar skuldabréfsins 997.404 krónum og skyldi lánið endurgreiðast með 64 jöfnum afborgunum á mánaðarfresti, í fyrsta sinn 1. desember 2008, vextir og vísitala reiknaðir frá 17. nóvember sama ár.  Skuldabréfið fór í vanskil 1. desember sama ár og var gjaldfellt miðað við þann gjaldaga. Stefnandi sundurliðar skuldina þannig að eftirstöðvar þegar það hafi farið í vanskil  hafi numið 1.018.901 krónum og áfallnir samningsvextir þann dag hafi numið 5.785 krónum, eða samtals 1.024.686 krónum.  Þá sundurliðar stefnandi bankakostnað þannig að vanskilakostnaður sé 28.720 krónur og greiðsluseðlagjald vegna gjalddaga 1. desember 2008 sé 490 krónur, eða samtals 29.210 krónur.

Stefnandi segir stefndu hafa tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á greiðslum samkvæmt skuldabréfinu og hafi skuldin ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir.

Stefndu lýsa málsatvikum svo að þau hafi tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð vegna skuldabréfsins 6. mars 2006, en stefnda B er móðir skuldara, D og stefndi C er bróðir hennar.  D hafi orðið ófær um að standa skil á skuldum sínum, m.a. samkvæmt ofangreindu skuldabréfi og hafi hún þá leitað greiðsluaðlögunar hjá Héraðsdómi Reykjavíkur.  Með úrskurði dómsins upp kveðnum 13. maí 2009 var henni veitt heimild til greiðsluaðlögunar í samræmi við 3. þátt X kafla a laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009.  Í greinargerð umsjónarmanns með greiðsluaðlögun dagsettri 2. júlí 2009 var mælt með algjörri eftirgjöf allra samningskrafna D.  Í framhaldi af því óskaði hún eftir því að héraðsdómur staðfesti frumvarpið og í framhaldi af því skoraði dómurinn á alla þá sem teldu sig hafa andmæli gegn staðfestingu frumvarpsins að mæta á dómþingi þegar krafa um staðfestingu yrði tekin fyrir.  Andmæli bárust frá stefnanda þar sem gerð var sú krafa að nauðasamningi til greiðsluaðlögunar yrði hafnað.  Með úrskurði dómsins 15. september sl. var nauðasamningur D staðfestur og var gert ráð fyrir algjörri eftirgjöf samningskrafna, þ. á m. umræddu skuldabréfi.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að stefndu hafi tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á greiðslum samkvæmt skuldabréfinu og vísar til meginreglna samningaréttarins um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að efna samninga sem m.a. fái stoð í lögum nr. 7/1936.  Þá er vísað til vanefndaákvæða bréfsins sjálfs og sagt að málið sé rekið samkvæmt 17. kafla laga nr. 91/1991 (svo).  Dráttarvaxtakröfur eru reistar á lögum nr. 38/2001 og krafa um málskostnað er byggð á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Við munnlegan málflutning byggði stefnandi einnig á þeirri málsástæðu að 3. mgr. 9. gr. laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009, sem tóku gildi 4. apríl 2009 ættu ekki að hrófla við ábyrgð stefndu.  Taldi hann 12. gr. laganna, þar sem kveðið er á um að lögin taki til ábyrgða sem stofnað hafi verið til fyrir gildistöku laganna, stríða gegn reglum um afturvirkni laga.  Bæri að víkja lögunum til hliðar þar sem þau væru ósamrýmanleg 72. gr. stjórnarskrárinnar og lögum um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994, sbr. samningsviðauka nr. 1 við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis.  Byggði stefnandi á því að um brot á jafnræðisreglu og meðalhófsreglu væri að ræða og geti löggjafinn ekki haggað við gagnkvæmum samningum nema í algjörum undantekningartilvikum og komi fullar bætur fyrir.

Málsástæður og lagarök stefndu.

Stefndu byggja á því að ábyrgð þeirra sé ekki lengur fyrir hendi, enda sé krafan fallin niður og beri þau því ekki lengur ábyrgð í samræmi við yfirlýsingu sína.  Með nauðasamningi til greiðsluaðlögunar, sem staðfestur hafi verið með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 15. september 2009, hafi krafa á hendur D verið felld niður, sbr. 63. gr. b laga nr. 24/2009 um greiðsluaðlögun.  Eigi því stefnandi ekki lengur kröfu á hendur D enda teljist nauðasamningur kominn á þegar krafa skuldarans um staðfestingu nauðasamnings hefur verið tekin til greina með endanlegri dómsúrlausn, sbr. 1. mgr. 60. gr. laga nr. 21/1991.  Samkvæmt 4. mgr. 60. gr. laganna haggar nauðasamningur ekki rétti lánardrottins til að krefja ábyrgðarmenn um fulla greiðslu, en í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn segi að þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 60. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. skuli nauðasamningur eða önnur eftirgjöf, þ.m.t. nauðasamningur til greiðsluaðlögunar, sem kveður á um lækkun á kröfu á hendur lántaka, hafa sömu áhrif til lækkunar á kröfu á hendur ábyrgðarmanni.  Í 12. gr. laga um ábyrgðarmenn sé kveðið svo á um að lögin taki til ábyrgða sem stofnað hafi verið til fyrir gildistöku laganna.  Stefndu séu ábyrgðarmenn í skilningi laganna, en samkvæmt 2. mgr. 2. gr. sé með ábyrgðarmanni átt við einstakling sem gengst persónulega í ábyrgð til tryggingar efndum lántaka.  Sé málsókn stefnanda því ranglega beint að stefndu þar sem krafan hafi verið gefin eftir á hendur D og eigi sú eftirgjöf að hafa sömu áhrif á hendur stefndu.

Stefndu byggja á því að það sé meginregla að ný lög gangi framar eldri lögum.  Lög nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn séu sérlög sem gangi framar lögum nr. 21/1991.  Verði því að líta svo á að krafa stefnanda á hendur stefndu sé fallin niður á grundvelli framangreinds lagaákvæðis um ábyrgðarmenn.

Stefndu byggja málskostnaðarkröfu á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Niðurstaða.

Ekki er um það deilt í máli þessu að með nauðasamningi til greiðsluaðlögunar, sem staðfestur var með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 15. september 2009, var  krafa á hendur D samkvæmt framangreindu skuldabréfi felld niður, sbr. 63. gr. b laga nr. 24/2009 um greiðsluaðlögun.  Þá er ekki um það deilt að stefndu gengust undir sjálfskuldarábyrgð á greiðslum samkvæmt skuldabréfinu.  Málsaðilar deila um það í máli þessu hvort sú ábyrgð sé niður fallin með vísan til 3. mgr. 9. gr., sbr. 12. gr. laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009.

Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga nr. 32/2009 skal, þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 60. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nauðasamningur eða önnur eftirgjöf, þ.m.t. nauðasamningur til greiðsluaðlögunar, sem kveður á um lækkun kröfu á hendur lántaka, hafa sömu áhrif til lækkunar kröfu á hendur ábyrgðarmanni.  Lög þessi tóku gildi 4. apríl 2009 og í 12. gr. þeirra segir að þau taki til ábyrgða sem stofnað hafi verið til fyrir gildistöku þeirra að frátöldum 4. gr., 5.gr., 1. mgr. 6. gr. og 8. gr.  Í hinu upphaflega frumvarpi til laga um ábyrgðarmenn var ekki sambærilegt ákvæði en sérstaklega tekið fram varðandi 12. gr. frumvarpsins að miðað væri við að frumvarpið tæki til samninga um ábyrgðir sem gerðir væru frá og með gildistöku.  Segir í áliti viðskiptanefndar Alþingis að nefndin leggi til að þau ákvæði frumvarpsins sem lúta að stofnun, efni og formi ábyrgðarsamnings gildi ekki um ábyrgðarsamninga sem gerðir hafi verið fyrir gildistöku laganna og að það sama eigi við um þau ákvæði frumvarpsins sem takmarki aðför og gjaldþrotaskipti á búi ábyrgðarmanns.  Segir í  álitinu að breytingin sé lögð til að gættum sjónarmiðum um afturvirkni laga og friðhelgi eignarréttar.  Við meðferð málsins á Alþingi komu fram breytingartillögur frá viðskiptanefnd, m.a. þess efnis að við 12. gr. frumvarpsins bættist ákvæði þess efnis að lögin taki til ábyrgða sem stofnað hafi verið til fyrir gildistöku þeirra að frátöldum 4. gr., 5.gr., 1. mgr. 6. gr. og 8. gr.  Var frumvarpið síðan samþykkt á Alþingi, m.a. með þessari breytingartillögu.

Eins og rakið hefur verið byggði stefnandi á því við munnlegan flutning málsins að víkja bæri framangreindum ákvæðum laga um ábyrgðarmenn til hliðar þar sem þau væru ósamrýmanleg 72. gr. stjórnarskrárinnar og lögum um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994, sbr. samningsviðauka nr. 1 við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis.  Byggði stefnandi á því að um brot á jafnræðisreglu og meðalhófsreglu væri að ræða og geti löggjafinn ekki haggað við gagnkvæmum samningum nema í algjörum undantekningartilvikum og komi fullar bætur fyrir.  Stefndu mótmæltu þessum málsástæðum stefnanda sem of seint fram komnum.  Á það verður ekki fallist.  Stefnandi höfðaði málið sem innheimtumál á hendur stefndu sem tókust á hendur sjálfskuldarábyrgð á skuldabréfi.  Varnir stefndu byggðust á því að ábyrgð þeirra væri fallin niður með vísan til 3. mgr. 9. gr., sbr. 12. gr. laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009.  Slíkar varnir kalla ekki á sérstaka gagnaöflun og var stefnanda því rétt að svara þeim vörnum í munnlegum málflutningi og vísa til hliðsjónargagna máli sínu til stuðnings.  Það athugast hins vegar að mál þetta er ekki rekið samkvæmt XVII. kafla laga nr. 91/1991.

Fyrir gildistöku laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn átti stefnandi lögmæta kröfu á hendur stefndu sem þann 6. mars 2006 höfðu tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð vegna margnefnds skuldabréfs.  Við gildistöku laganna 4. apríl 2009 fólu ákvæði 3. mgr. 9. gr., sbr. 12. gr. laganna í sér að sjálfskuldarábyrgð stefndu féll niður.  Ekki verður um það deilt að kröfuréttindi njóta verndar eignarréttarákvæðis 72. gr. stjórnarskrárinnar og verða ekki skert án bóta með afturvirkri og íþyngjandi löggjöf.  Kröfuréttindi stefnanda voru tvímælalaust af þessum toga og af framanskráðu leiðir að ákvæðum 3. mgr. 9. gr., sbr. 12. gr. laga nr. 32/2009 verður ekki beitt um kröfu stefnanda á hendur stefndu.  Enginn ágreiningur er um fjárhæð kröfunnar og verður hún tekin til greina eins og nánar greinir í dómsorði.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.  Gjafsóknarkostnaður stefnda C sem er þóknun lögmanns hans, Hjálmars Blöndal hdl., 300.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt gjafsóknarleyfi hans.

Hjörtur O. Aðalsteinsson  dómstjóri kvað upp dóminn.  Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir lögbundinn frest en dómari og lögmenn aðila töldu endurflutning óþarfan.

DÓMSORÐ:

Stefndu, B og C, greiði stefnanda, Sparisjóði Vestmannaeyja, in solidum 1.024.686 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. desember 2008 til greiðsludags auk bankakostnaðar að fjárhæð 29.210 krónur.

Málskostnaður milli aðila fellur niður.  Gjafsóknarkostnaður stefnda C sem er þóknun lögmanns hans, Hjálmars Blöndal hdl., 300.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.