Print

Mál nr. 103/2014

Lykilorð
  • Ærumeiðingar
  • Tjáningarfrelsi
  • Stjórnarskrá

                                                                                               

Fimmtudaginn 25. september 2014.

Nr. 103/2014.

 

Jón Steinar Gunnlaugsson

(Reimar Pétursson hrl.)

gegn

Þorvaldi Gylfasyni

(Sigríður Rut Júlíusdóttir hrl.)

og gagnsök

 

Ærumeiðingar. Tjáningarfrelsi. Stjórnarskrá.

J höfðaði mál á hendur Þ og krafðist m.a. ómerkingar tiltekinna ummæla um hann sem birtust í erlendri grein Þ sem fjallaði um aðdraganda þess að ráðist hefði verið í undirbúning að endurskoðun stjórnarskrárinnar á Íslandi á árinu 2011. Í umræddri grein lýsti Þ meðal annars ástæðu þess að ákveðið hefði verið að halda kosningar til stjórnlagaþings árið 2010 og ákvörðun Hæstaréttar Íslands þar sem kosningarnar hefðu verið ógiltar. Velti Þ því og upp í greininni hvort ákvörðun Hæstaréttar hefði verið lögleg. Vék hann síðan að því sem hann kvað vera orðróm á meðal lögfræðinga, um að einn af dómurum Hæstaréttar hefði lagt drög að einni af kærunum til Hæstaréttar um ógildingu kosninganna til stjórnlagaþingsins, sem Hæstiréttur, undir forystu sama dómara, hefði nýtt sem átyllu til að ógilda kosningarnar. Ekki hefðu þó verið færðar sönnur á þetta. Eru síðastgreind ummæli þau sem J kvað ærumeiðandi í sinn garð. Í dómi Hæstaréttar kom fram að líta yrði til þess á hvern hátt hin umdeildu ummæli hefðu verið sett fram og í því sambandi tekið fram að orðrómurinn, sem Þ hefði vísað til í grein sinni, hefði komið fram í umfjöllun DV nokkrum mánuðum áður. Ummælin hefðu verið sett fram í tengslum við málefni sem þjóðfélagsleg umræða hefði spunnist um og skiptar skoðanir væru á. Þá hefði Þ tekið fram að ekki hefðu verið færðar sönnur á ummælin. Hefði hann þannig sett fram fyrirvara um sannleiksgildi ummælanna. Í dóminum var því næst tekið fram að J hefði gefið kost á sér til trúnaðarstarfa og hefði á löngum starfsferli, meðal annars sem hæstaréttardómari, tekið virkan þátt í þjóðfélagsumræðu um ýmis málefni. Hefði hann m.a. verið talsmaður þess að dómarar yrðu að þola gagnrýni á störf sín á opinberum vettvangi. Í ljósi þessa yrði ekki talið að Þ hefði farið út fyrir mörk leyfilegrar tjáningar og niðurstaða héraðsdóms, þar sem Þ var sýknaður, staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma héraðsdómararnir Símon Sigvaldason, Ásmundur Helgason og Ragnheiður Harðardóttir.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. febrúar 2014. Hann krefst þess í fyrsta lagi að eftirfarandi ummæli sem birtust 20. mars 2012 á blaðsíðu 16 í grein gagnáfrýjanda „From Collapse to Constitution: The Case of Iceland“ í ritröðinni „CESifo Working Paper“ verði dæmd dauð og ómerk: „Further, it is rumored among lawyers expert at analyzing the legal writings of one another that one of the Supreme Court justices, drafted one of the complaints that the Supreme Court, with the same judge leading the charge, used as pretext for invalidating the election.“ Í öðru lagi krefst hann þess að gagnáfrýjandi verði dæmdur til refsingar vegna ofangreindra ummæla. Þá krefst hann þess í þriðja lagi að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér miskabætur að fjárhæð 2.500.000 krónur og 500.000 krónur vegna kostnaðar við birtingu dómsins í tveimur dagblöðum, í báðum tilvikum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 6. september 2012 til greiðsludags. Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 18. febrúar 2014. Hann krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um annað en málskostnað, sem hann krefst í héraði og fyrir Hæstarétti.    

Atvikum málsins og helstu málsástæðum aðila er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Svo sem þar er rakið birtist í mars 2012 grein eftir gagnáfrýjanda í ritröð Háskólans í München í Þýskalandi. Greinin birtist í enskri útgáfu á veraldarvefnum og bar yfirskriftina ,,From Collapse to Constitution: The Case of Iceland“. Var hún 44 blaðsíður að lengd. Í greininni rakti gagnáfrýjandi ástæður þess að á árinu 2011 var ráðist í undirbúning að endurskoðun stjórnarskrárinnar á Íslandi. Leitaðist hann við að sýna fram á hvernig frumvarp til nýrrar stjórnarskrár, sem leit dagsins ljós á árinu 2011, hafi verið samið ,,með aðstoð frá almenningi“. Rakin voru nokkur lykilatriði frumvarpsins og lýst á hvern hátt það skæri sig frá gildandi stjórnarskrá. Þá var í greininni vikið að ástæðu þess að ákveðið hafi verið að halda í nóvember 2010 kosningar til stjórnlagaþings og lýst á hvern veg kosningarnar hafi verið ógiltar með ákvörðun Hæstaréttar 25. janúar 2011. Gerði gagnáfrýjandi grein fyrir gagnrýni á ákvörðun Hæstaréttar og vitnaði meðal annars til skrifa frá árinu 2011 um efnið. Gagnáfrýjandi rakti hvernig ákvörðun Hæstaréttar hafi af mörgum verið talin tilraun hagsmunaaðila til að ,,kæfa lýðræðisferli“ og rakti það einkum til andstöðu innan Sjálfstæðisflokksins við hugmyndir að stjórnlagaþingi. Velti gagnáfrýjandi því upp hvort ákvörðun Hæstaréttar kynni að hafa verið lögleg. Í framhaldi þess, á blaðsíðu 16 í greininni, vék gagnáfrýjandi síðan að því sem hann kvað vera orðróm á meðal lögfræðinga, um að einn af dómurum Hæstaréttar hafi lagt drög að einni af kærunum til Hæstaréttar um ógildingu kosninganna til stjórnlagaþingsins, sem Hæstiréttur, undir forystu sama dómara, hefði nýtt sem átyllu til að ógilda kosningarnar. Var því bætt við að ekki hefðu verið færðar sönnur á það. Í júní 2012 voru ummælin felld út úr greininni. Greinin birtist í íslenskri útgáfu í tímaritinu Skírni í maí 2012, í fyrra hefti 186. árgangs tímaritsins. Illugi Jökulsson þýddi og stytti ensku gerðina. Þá hafði meðal annars verið felldur út úr greininni sá hluti hennar þar sem vísað er í orðróminn. Aðaláfrýjandi telur að ummæli þau sem krafist er ómerkingar á og birtust á blaðsíðu 16 í grein gagnáfrýjanda í netútgáfu Háskólans í München hafi verið ærumeiðandi, til þess fallin að valda honum álitshnekki og falið í sér brot á ákvæðum 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Er krafa um ómerkingu ummælanna reist á 1. mgr. 241. gr. sömu laga.

Á meðal framlagðra gagna málsins er ljósrit úr tölublaði DV sem út kom miðvikudaginn 9. nóvember 2011. Undir yfirskriftinni ,,Sandkorn“ er meðal annars að finna svohljóðandi texta: ,,Sá kvittur hefur vaknað meðal þeirra sem þekkja til kæra vegna kosninga til stjórnlagaþings í fyrra að Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari kunni að hafa komið að kærunum, sem voru sendar til Hæstaréttar. Nú telja einhverjir sig bera kennsl á stílbrögð Jóns Steinars á einhverri kærunni og draga þá ályktun að dómarinn hafi verið með í ráðum. Pískrað er um að Jón Steinar hafi áður komið að því að semja skjöl sem send voru til Hæstaréttar.“

Mannorð annarra er meðal þeirra hagsmuna sem kunna að réttlæta að í lögum séu settar skorður við tjáningarfrelsi einstaklinga, eins og fram kemur í 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrár. Það er þó ávallt skilyrði að þær skorður séu nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum. Þegar metið er hvar draga skuli mörk leyfilegrar tjáningar gagnvart mannorði annarra skiptir máli hvort það efni sem birt er geti talist þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu og eigi þannig erindi til almennings, sbr. til dæmis dóma Hæstaréttar í málum nr. 278/2006 og nr. 65/2011.

Við úrlausn á því hvort gagnáfrýjandi hafi með ummælum sínum vegið að mannorði aðaláfrýjanda með því að bera út ærumeiðandi aðdróttun um hann verður að líta til þess á hvern hátt hin umdeildu ummæli voru sett fram. Í þeim er vísað í orðróm þess efnis að aðaláfrýjandi hafi lagt drög að kæru til Hæstaréttar, sem hann hafi síðan sem hæstaréttardómari tekið ákvörðun um. Sá orðrómur kom fram í umfjöllun DV nokkrum mánuðum áður. Tók gagnáfrýjandi fram að ekki hefðu verið færðar sönnur á ummælin. Með þessum athugasemdum hafði gagnáfrýjandi uppi tvenns konar fyrirvara gagnvart sannleiksgildi ummælanna, auk þess sem gefið var til kynna að orðrómurinn væri einungis reistur á ályktunum af orðfæri í einni kæru til Hæstaréttar. Gagnáfrýjandi tók því enga afstöðu til sannleiksgildis orðrómsins en fól lesendum að álykta um það. Ummæli gagnáfrýjanda, sem hér eru til skoðunar, voru hluti af viðamikilli umfjöllun hans um endurskoðun á stjórnarskránni. Ákvörðun Hæstaréttar 25. janúar 2011 um að ógilda kosningar til stjórnlagaþingsins hafði þau áhrif að horfið var frá fyrri áformum ríkisstjórnarinnar um að koma slíku þingi á. Var gripið til þess ráðs að setja á laggirnar sérstakt stjórnlagaráð, sem ekki hafði sama umboð til breytinga á stjórnarskránni og stjórnlagaþingið. Töluverð þjóðfélagsumræða varð um þessa ákvörðun Hæstaréttar, lögmæti hennar og afleiðingar.  

Ummæli gagnáfrýjanda á blaðsíðu 16 í ritröð Háskólans í München voru endursögn af ummælum sem áður höfðu birst opinberlega. Við þau ummæli hafði gagnáfrýjandi uppi ákveðna fyrirvara, eins og rakið hefur verið. Voru ummælin sett fram í tengslum við málefni er þjóðfélagsleg umræða hafði spunnist um og skiptar skoðanir voru um. Aðaláfrýjandi gaf kost á sér til trúnaðarstarfa í þágu almennings. Hefur hann á löngum starfsferli sínum, meðal annars á þeim tíma er hann var skipaður hæstaréttardómari, tekið virkan þátt í þjóðfélagsumræðu um ýmis málefni og verið talsmaður þess að dómarar verði að þola gagnrýni á störf sín á opinberum vettvangi. Þegar alls þessa er gætt verður ekki séð að gagnáfrýjandi hafi með ummælum sínum vegið svo að æru aðaláfrýjanda að það hafi farið út fyrir mörk leyfilegrar tjáningar samkvæmt 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrár. Með skírskotun til þess verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. febrúar 2014.

                Mál þetta höfðaði Jón Steinar Gunnlaugsson, kt. [...], Stigahlíð 63, Reykjavík, með stefnu birtri 4. júlí 2012, á hendur Þorvaldi Gylfasyni, kt. [...], Lindargötu 33, Reykjavík.  Málið var dómtekið 16. janúar sl. 

                Stefnandi gerir þessar kröfur: 

                A.  Aðallega:

                Að eftirfarandi ummæli sem birtust á 16. bls. í grein stefnda „From Collapse to Constitution: The Case of Iceland“ frá 20. mars 2012 nr. 3770 í ritröðinni „CESifo Working Paper“ verði dæmd dauð og ómerk: 

                Further, it is rumored among lawyers expert at analyzing the legal writings of one another that one of the Supreme Court justices, a staunch party man before being appointed to the bench in favor of three more qualified candidates according to the review committee assessing the candidates, drafted one of the complaints that the Supreme Court, with the same judge leading the charge, used as pretext for invalidating the election. But this has not been proven.“ 

                Til vara:

                Að eftirfarandi ummæli sem birtust á 16. bls. í grein stefnda „From Collapse to Constitution: The Case of Iceland“ frá 20. mars 2012 nr. 3770 í ritröðinni „CESifo Working Paper“ verði dæmd dauð og ómerk:

                Further, it is rumored among lawyers expert at analyzing the legal writings of one another that one of the Supreme Court justices, a staunch party man before being appointed to the bench in favor of three more qualified candidates according to the review committee assessing the candidates, drafted one of the complaints that the Supreme Court, with the same judge leading the charge, used as pretext for invalidating the election.“

                Til þrautavara:

                Að eftirfarandi ummæli sem birtust á 16. bls. í grein stefnda „From Collapse to Constitution: The Case of Iceland“ frá 20. mars 2012 nr. 3770 í ritröðinni „CESifo Working Paper“ verði dæmd dauð og ómerk: 

                Further, it is rumored among lawyers expert at analyzing the legal writings of one another that one of the Supreme Court justices, … , drafted one of the complaints that the Supreme Court, with the same judge leading the charge, used as pretext for invalidating the election.“ 

                B. Að stefndi verði dæmdur til refsingar vegna ofangreindra ummæla. 

                C. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð 2.500.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þingfestingardegi 6. sept. 2012 til greiðsludags. 

                D. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 500.000 krónur auk dráttar­vaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þingfestingardegi 6. sept. 2012 til greiðsludags til að standast kostnað af birtingu dómsins í tveimur dagblöðum. 

                E. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu. 

                Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda.  Þá krefst hann málskostnaðar að mati dómsins.

                Stefndi krafðist frávísunar í greinargerð sinni, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði 9. apríl 2013. 

                Ummæli þau sem stefnandi krefst að verði ómerkt var að finna í grein sem stefndi birti í ritröð sem nefnist CESifo Working Papers og birtist eingöngu á vefnum.  Upprunaleg útgáfa er merkt CESifo Working Paper No. 3770 og dagsett í mars 2012.  Ummælin eru þar í kafla VI, en fyrirsögn hans er The Supreme Court´s intervention.  Í greininni er fjallað um tillögur að nýrri stjórnarskrá sem Stjórnlagaþing vann á árinu 2012 og aðdraganda og ástæður þess að vinna hófst að gerð nýrrar stjórnarskrár á Íslandi.  Er vikið að Þjóðfundinum, kosningu til Stjórnlagaráðs og ógildingar Hæsta­réttar á kosningunni.  Þá er fjallað um önnur málefni eins og einkavæðingu Lands­bankans og Búnaðarbankans og skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.  Loks er fjallað um einstök ákvæði í tillögu Stjórnlagaráðs. 

                Þann 30. maí 2012 birtist grein eftir stefnanda í Morgunblaðinu þar sem hann fjallar um þessi ummæli og segir að hann muni höfða mál á hendur stefnda vegna þeirra.  Þann 31. maí ritaði lögmaður stefnanda bréf til stefnda þar sem því er lýst að hann telji ummælin brjóta gegn 234.-236. gr. almennra hegningarlaga. 

                Bréfi lögmannsins svaraði lögmaður stefnda með bréfi dags. 13. júní 2012.  Þar er lýst þeirri skoðun að ekki hafi verið brotið gegn stefnanda með ummælunum.  Þá hafi ummælin verið felld út úr greininni á vefsetri stefnda og háskólans í München.  Þá hafi hann beðið um að „ný gerð vinnugreinarinnar“ án ummælanna komi í stað hinnar eldri gerðar annars staðar á netinu.  Er tekið fram að þetta sé gert umfram skyldu, en að hann vilji með þessu taka tillit til athugasemda stefnanda.  Lagði stefndi fram í málinu prentun greinarinnar eins og hún birtist á áðurgreindum vefsetrum í júní 2012.  Er hin umdeildu ummæli þar ekki að finna.

                Greinin hefur ekki verið lögð fram í heild í hinni upprunalegu útgáfu.  Stefnandi lagði fram við þingfestingu þann kafla greinarinnar þar sem ummælin koma fram.  Stefndi lagði fram í heild endurskoðaða útgáfu frá júní 2012 eins og áður segir.  Þá var lögð fram í dóminum stytt útgáfa greinarinnar á íslensku og loks óstytt útgáfa á íslensku. 

                Stefndi lagði fram í málinu ljósrit af blaðsíðu 16 í DV, sem kom út miðviku­daginn 9. nóvember 2011.  Þar er í dálki sem ber heitið Sandkorn að finna klausu með fyrirsögninni Kærurnar og Jón Steinar.  Þar segir:  „Sá kvittur hefur vaknað meðal þeirra sem þekkja til kæra vegna kosninga til stjórnlagaþings í fyrra að Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari kunni að hafa komið að kærunum, sem sendar voru til Hæstaréttar.  Nú telja einhverjir sig bera kennsl á stílbrögð Jóns Steinars á einhverri kærunni og draga þá ályktun að dómarinn hafi verið með í ráðum.  Pískrað er um að Jón Steinar hafi áður komið að því að semja skjöl sem send voru til Hæstaréttar.“

Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi telur að umrædd ummæli feli í sér ærumeiðingar og aðdróttanir samkvæmt 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga.  Því sé dróttað að stefnanda að hann hafi unnið verk sem væri refsivert og varðaði embættismissi ef satt reyndist.  Þessi ærumeiðing sé virðingu hans til hnekkis og til þess fallin að rýra traust til hans í þeirri viðkvæmu stöðu sem hann gegni.  Þá eigi 236. gr. almennra hegningarlaga einnig við um þessi ummæli.  Stefndi hafi borið þau út, þótt útilokað sé að hann hafi haft sennilega ástæðu til að halda að þau væru rétt. 

                Stefnandi segir að tilvísun stefnda til 73. gr. stjórnarskrárinnar dugi ekki.  Hann verði þrátt fyrir ákvæði 73. gr. að ábyrgjast ummæli sín fyrir dómi.  Tjáningar­frelsi sæti skorðum til verndar mannorði annarra, sbr. 234.-236. gr. almennra hegningarlaga.  Þessar skorður séu nauðsynlegar og í samræmi við lýðræðishefðir.  Í þessu tilviki myndi beiting þessara ákvæða hegningarlaga ekki varða með neinum hætti 73. gr. stjórnarskrárinnar.  Sjónarmið stefnda í þá veru séu ýmist röng eða hafi enga þýðingu fyrir úrlausn málsins. 

                Aðdróttanir og meiðyrði stefnda verði ekki réttlætt með því að þau séu sett fram í þágu mikilvægrar umræðu sem varði m.a. dvínandi traust á Hæstarétti.  Ummæli stefnda feli hins vegar ekki í sér gildisdóm í þágu mikilvægrar umræðu né þjóni þeim tilgangi sem stefndi nefni.  Ummælin feli í sér alvarlegar og ósæmilegar aðdróttanir er beinist einkum að stefnanda, en einnig að öðrum dómurum sem tóku þátt í meðferð málsins. 

                Stefnandi mótmælir því að einhverju skipti að um hafi verið að ræða vinnu­grein sem ætti eftir að taka breytingum og hefði ekki verið birt á prenti.  Ekki verði skotist undan ábyrgð með þessum lýsingum og greinin hafi verið birt opinberlega, verið aðgengileg öllum almenningi.  Stefndi segi enda að með greininni hafi hann tekið þátt í opinberri umræðu. 

                Stefnandi segir augljóst að í ummælum stefnda sé vísað til sín, þótt hann hafi ekki verið nafngreindur.  Þá verði meiðyrði ekki réttlætt með því að lesandi þekki ekki þann sem um sé rætt. 

                Stefnandi segir það vera rangt hjá stefnda að segja að hann vísi til ósannaðs orðróms og að tilvist hans sé fréttnæm.  Engar heimildir séu tilgreindar fyrir þessum orðrómi.  Stefndi geti ekki borið út hvaða aðdróttanir sem honum detti í hug og réttlætt þær með því að segja að þær séu ósannaðar eða orðrómur.  Ósannaður orð­rómur geti heldur ekki verið mjög fréttnæmur og þjóðfélagslegir hagsmunir standi ekki til þess að hann sé borinn út.  Líta verði til þess að ummælin séu viðhöfð í fræði­grein sem birt sé í akademískri ritröð. 

                Krafa um ómerkingu ummæla er byggð á 1. mgr. 241. gr. almennra hegningar­laga.  Ummælin séu óviðurkvæmileg í skilningi ákvæðisins. 

                Þá telur stefnandi að skilyrði séu til þess að ákveða stefnda refsingu fyrir um­mæli hans.  Byggir hann aðallega á því að 2. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga eigi við, stefndi hafi ekki haft sennilega ástæðu til að halda að ummælin væru rétt.  Til vara byggir stefnandi á því að 234. og 235. gr. eigi við.  Við ákvörðun refsingar horfi það til refsiþyngingar að dylgjurnar beinist að störfum stefnanda við æðsta dómstól þjóðarinnar. 

                Miskabótakrafa er byggð á b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Ummælin hafi falið í sér ólögmæta meingerð gegn æru stefnanda.  Stefndi hafi borið alvarlegar sakir á stefnanda og vegið að starfsheiðri hans með sérstaklega grófum hætti.  Hér eigi að leiða til hækkunar miskabóta að miklu varði að almenningur beri traust til stefnanda við rækslu starfa hans. 

                Kröfu um greiðslu fjárhæðar til að kosta birtingu dómsins í fjölmiðli byggir stefnandi á 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga.  Segir hann að gjald fyrir auglýsingu á heilli síðu í Fréttablaðinu sé 678.955 krónur, en 484.405 krónur í Morgunblaðinu.  Krafa sín um 500.000 króna greiðslu sé því hófleg. 

                Stefnandi krefst málskostnaðar er geri hann skaðlausan af rekstri málsins.  Því verði að taka tillit til virðisaukaskatts af þóknun lögmanns hans, þar sem stefnandi stundi ekki virðisaukaskattskylda starfsemi. 

                Stefnandi vísar til 234.-236. og 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og almennra reglna kröfuréttar og skaðabótaréttar.

Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi byggir á því að ummæli sín séu vernduð af tjáningarfrelsisákvæði 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.  Engar kringumstæður í þessu máli réttlæti takmarkanir á tjáningarfrelsi hans.  Ákvæði 3. mgr. eigi ekki við hér, enda beri að túlka það þröngt.  Þá bendir stefndi á að hann hafi fjarlægt ummælin, þótt hann hafi ekki verið skyldur til þess. 

                Stefndi segir að ummælin brjóti ekki gegn neinum réttindum stefnanda.  Hann hafi ekki meitt æru stefnanda eða greint frá einhverju því sem leynt eigi að fara.  Ummælin brjóti ekki gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar.  Þá hafi stefnandi ekki verið nafngreindur. 

                Stefndi segir að ummælin og greinin í heild hafi verið liður í áralangri opinberri umræðu um m.a. ástæður efnahagshrunsins, um dvínandi traust á stofnunum þjóðfélagsins og loks um vinnu við nýtt frumvarp að stjórnskipunarlögum.  Stefndi hafi tekið þátt í þessari umræðu.  Ummælin verði að meta í samhengi við þessa opinberu umræðu og sé greinin innlegg í nauðsynlega þjóðfélagsumræðu.  Umræðan varði gagnrýni á stjórnmálaflokka og val dómara í Hæstarétt.  Niðurstaða Hæstaréttar um kosningar til stjórnlagaþings sé gagnrýnd í beinum tengslum við gagnrýni á dómararáðningar.  Ummælin verði að skoða í samhengi við þjóðfélagsumræðu um málefni þessi. 

                Stefndi byggir á því að stjórnmálaumræða og umræða um þjóðfélagsleg málefni og almannahagsmuni njóti sérstakrar verndar.  Í greininni sé fjallað um traust almennings á stofnunum þjóðfélagsins, m.a. Hæstarétti.  Fram komi að sprottið hafi orðrómur sem greint sé frá í greininni, en ekki sé tekin nein afstaða til sannleiksgildis þessa orðróms.  Frásögnin hafi verið liður í að koma boðskap greinarinnar til skila og varpa ljósi á þann jarðveg þar sem slíkur orðrómur verður til.  Ekki sé hægt að takmarka tjáningarfrelsi stefnda þannig að honum sé óheimilt að greina frá tilvist orðróms.  Þá hafi hann tekið fram að orðrómur þessi væri ósannaður. 

                Stefndi byggir á því að hann hafi verið í góðri trú um sannleiksgildi ummæla sinna.  Greint hafi verið frá orðrómi þessum í fjölmiðlum. (dskj. 34).  Hann beri ekki skyldu til að rannsaka orðróm þennan eða sanna, en hann hafi sagt að um orðróm væri að ræða.  Allt að einu hafi hann verið í góðri trú um sannleiksgildi orðrómsins.  Stefndi mótmælir því að hann beri sönnunarbyrði um efni orðrómsins.  Hann hafi raunar sannað tilvist orðrómsins með úrklippu úr dagblaði.   Þá hafi hann sannað að þrír aðrir umsækjendur hafi, að mati matsnefndar, verið metnir hæfari en stefnandi til að gegna stöðu hæstaréttardómara og að stefnandi hafi verið flokksbundinn sjálfstæðismaður til margra ára.  Þessi atriði virðist reyndar óumdeild, en samt sé krafist ómerkingar þeirra. 

                Stefndi byggir á því að ummæli sín séu endursögn á frásögn fjölmiðla.  Í nóvember 2011 hafi birst frétt í DV þar sem sagði að orðrómur væri á sveimi um að stefnandi kynni að hafa komið að kærum til Hæstaréttar vegna stjórnlaga­þingskosninganna og að einhverjir þættust þekkja stílbrögð stefnanda á einhverri kærunni.  Telur stefndi að sér sé heimilt að endursegja frásögn DV.  Þessi frétt hafi ekki verið dæmd dauð og ómerk.  Hann hafi verið í góðri trú um sannleiksgildi hennar. 

                Stefndi kveðst vera fræðimaður og samfélagsrýnir, hafa setið í stjórnlagaráði og einatt birt pistla um þjóðfélagsmál á opinberum vettvangi.  Telur hann sig bera sömu skyldur og réttindi og fjölmiðlar til að upplýsa almenning um málefni sem eigi erindi til almennings og hafa frelsi eins og þeir til að tjá sig um slík málefni.

                Þá vísar stefndi til meginreglna um þátttöku í opinberri umræðu.  DV hafi fjallað um téðan orðróm og stefnanda.  Þá hafi stefnandi í gegnum árin gert sig gildandi í opinberri umræðu um ýmis þjóðfélagsmál.  Enn fremur hafi hann kosið að tjá sig opinberlega um ýmis þjóðfélagsleg málefni, sem og um dómsmál sem rekin eru á hverjum tíma, einnig eftir að hann hafi orðið hæstaréttardómari.  Þá kveðst stefndi byggja sérstaklega á því að stefnandi hafi tekið þátt í umræðum um niðurstöðu Hæsta­réttar í stjórnlagaþingsmálinu.  Það verði að vega þungt, enda fáheyrt að Hæstaréttar­dómari tjái sig um niðurstöðu dómsins í máli sem hann hefur sjálfur tekið þátt í að dæma.  Því séu mörk leyfilegrar gagnrýni og tjáningar rýmri í máli þessu. 

                Stefndi bendir á að hann nafngreini stefnanda ekki í ummælum sínum.  Það sé ekki öllum lesendum ljóst að ummælin kunni að vera um stefnanda.  Greinin sé skrifuð á vettvangi erlendra fræðistarfa og ætluð lesendum á þeim vettvangi.  Þá telji stefnandi sjálfur að ummælin eigi ekki endilega við um hann, heldur einnig aðra dómara Hæstaréttar.  Líta verði til þessa ef komi til ákvörðunar miskabóta. 

                Stefndi vísar til meginreglna um tjáningu um og gagnrýni á opinberar persónur.  Stefnandi sé opinber persóna í margþættum skilningi, vegna fyrri starfa, vegna þátttöku í pólitísku starfi og í opinberri umræðu um árabil og vegna starfa sinna sem dómari í Hæstarétti.  Mörk heimillar gagnrýni séu rýmri varðandi stefnanda vegna þessarar stöðu hans.  Þá telur stefndi að tjáning um atriði sem varði hæfi stefnanda til að gegna stöðu sinni njóti víðtækari verndar en ella.  Stefndi segir að sér sé ekki skylt að taka afstöðu til sannleiksgildis slíks orðróms eða umfjöllunar fjölmiðla, enda sé hann í góðri trú. 

                Stefndi tekur til nokkur dæmi um orðalag sem stefnandi hafi notað og segir að aðili sem hafi tamið sér að nota gífuryrði í opinberri umræðu, m.a. í garð einstaklinga, verði sjálfur að þola harkalegri gagnrýni á störf sín en ella. 

                Stefndi kveðst byggja á því að í ummælum sínum felist ályktun, ádeila og gildisdómur.  Slík tjáning njóti sérlega sterkrar verndar.  Ummælin verði að skoða í samhengi við greinina í heild og umræðuna í heild. 

                Stefndi mótmælir því að unnt sé að dæma hann fyrir brot gegn 234., 235. eða 236. gr. almennra hegningarlaga.  Ummælin feli hvorki í sér ærumeiðandi móðgun né aðdróttun og hann hafi ekki haft ástæðu til að ætla annað en að þau væru sannleikanum samkvæmt.  Þá telur stefndi ekki skilyrði til að dæma stefnanda miskabætur.  Einnig mótmælir hann sérstaklega fjárhæð miskabótakröfunnar. 

                Loks mótmælir stefndi sérstaklega kröfu um greiðslu til að kosta birtingu dómsins.  Hann hafi þegar breytt ummælunum í samræmi við óskir stefnanda, þótt honum hafi ekki verið það skylt.  Þá er fjárhæð þessarar kröfu sérstaklega mótmælt sem of hárri. 

                Í lok greinargerðar sinnar bendir stefndi á að stefnandi hafi einungis lagt fram lítinn hluta umræddrar greinar.  Samkvæmt dómafordæmum bæði Hæstaréttar og Mannréttindadómstóls Evrópu beri hins vegar að meta ummæli í samhengi við greinina í heild.  Stefnandi byggi á að ummælin skuli einangruð.  Því hafi stefndi kosið að leggja greinina fram í heild. 

                Stefndi vísar til 73. gr. stjórnarskrárinnar, 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og 19. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. auglýsingu í C-deild stjórnartíðinda nr. 10/1979.  Þá vísar hann til 234.-236. gr. og 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. 

Niðurstaða

                Umrædd ummæli voru birt á vefnum.  Ekki er upplýst nákvæmlega hvenær þau birtust eða hve lengi þau voru aðgengileg á upphaflegum birtingarstað.  Af kröfu­gerð stefnanda má ráða að greinin hafi birst 20. mars 2012.  Sé það rétt hefur hún verið óbreytt á vefsvæðinu um rúmlega þriggja mánaða skeið.  Engar upplýsingar liggja fyrir almennt um útbreiðslu þessa vefjar eða hve oft grein stefnda var skoðuð. 

                Ummælin voru birt og skiptir ekki máli þótt greinin hafi verið nefnd „working paper“.  Í því felst ekki neinn fyrirvari sem þýðingu hefur í þessu sambandi. 

                Ekki var lögð fram þýðing löggilts skjalaþýðanda á umræddum texta.  Í stefnu er að finna þýðingu stefnanda sjálfs á honum og stefndi gerði ekki athugasemdir við hana.  Dómurinn taldi því ekki nauðsynlegt að krefja stefnanda um þýðingu löggilts skjalaþýðanda, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 91/1991.  Er textinn svohljóðandi:

                Þá gengur sá orðrómur meðal lögfræðinga, sem teljast til sérfræðinga í greiningu á lögfræðitextum hvers annars, að einn af dómurum Hæstaréttar, staðfastur flokksmaður áður en hann var skipaður dómari og þá tekinn fram fyrir þrjá hæfari umsækjendur samkvæmt áliti nefndar  sem mat umsækjendur, hafi lagt drög að einni af kærunum sem Hæstiréttur, undir forystu sama dómara, nýtti sem átyllu til að ógilda kosningarnar.  Ekki hafa þó verið færðar sönnur á þetta.

                Með þeim orðum sem hér um ræðir segir stefndi að orðrómur sé á kreiki um að stefnandi hafi komið að því að skrifa eina af kærunum til Hæstaréttar vegna Stjórnlagaþingskosninganna og tekið þátt í að úrskurða þær ógildar á grundvelli þeirrar kæru.  Því er bætt við að þetta sé ósannað.  Þá er fullyrt beint að dómari þessi sé staðfastur flokksmaður og að er hann hafi verið skipaður dómari hafi hann verið tekinn fram yfir þrjá umsækjendur sem matsnefnd hafi talið hæfari.  Stefnandi byggir ekki á því að þessi fullyrðing sé röng og þarf ekki að fjalla frekar um þennan hluta ummælanna. 

                Í orðum stefnda felst ekki fullyrðing um að stefnandi hafi skrifað eina af kærunum og síðan úrskurðað um hana.  Hann segir að orðrómur sé á kreiki um að svo hafi verið, en að það sé ósannað.  Þessi frásögn stefnda má heita hluti af frásögn hans í greininni um Stjórnlagaráðskosningarnar, ógildingu þeirra og viðbrögðum við ákvörðun Hæstaréttar.  Slíkur orðrómur lýsir mikilli vantrú á Hæstarétt.  Er ekki hægt að telja það óeðlilegt að frá slíkum orðrómi sé sagt í grein sem þessari.  Þá er stefnandi ekki nafngreindur í greininni, þótt stefndi hiki ekki við að auðkenna hann svo að engum sem þekkir til Hæstaréttar og hefur fylgst með þjóðmálaumræðu hér á landi á síðustu árum dyljist við hvern sé átt.  Stefndi segir skýrt að þetta sé orðrómur og að hann sé ósannaður.  Þessi frásögn af orðrómi er ekki fullyrðing um atvik eins og stefnandi byggir málatilbúnað sinn á.  Þess verður ekki krafist af stefnda að hann sanni tilvist þessa orðróms.  Hann hefur þó bent á frásögn í dagblaði, sem er efnislega lík þeim orðrómi sem hann segir að gangi manna á milli.  Engra heimilda er getið um orðróm þennan í greininni, en það er ekki á valdi dómsins að leggja mat á fræðilegt gildi hennar. 

                Að öllu þessu virtu verður ekki talið að stefndi hafi í grein sinni viðhaft refsiverða móðgun eða aðdróttun í garð stefnanda, eða borið slíka aðdróttun út, sbr. 234. og 235. sbr. og 236. gr. almennra hegningarlaga.  Þá eru ummælin ekki óviðurkvæmileg.  Verður því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda um ómerkingu ummæla, refsingu, og greiðslu til að mæta kostnaði af birtingu dómsins í dagblaði.  Á sama hátt fer um miskabótakröfu, sbr. b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999. 

                Að virtum öllum atvikum málsins og því að frávísunarkröfu stefnda var hafnað. er rétt að málskostnaður falli niður. 

                Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. 

D ó m s o r ð

                Stefndi, Þorvaldur Gylfason, er sýknaður af kröfum stefnanda, Jóns Steinars Gunnlaugssonar.

                Málskostnaður fellur niður.