Hæstiréttur íslands

Mál nr. 13/1999


Lykilorð

  • Skiptaverðmæti
  • Sjómaður
  • Kjarasamningur
  • Aflamark


                                                        

Föstudaginn 18. júní 1999.

Nr. 13/1999.

Lómur hf.

(Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.)

gegn

Albert Hanssyni

(Ástráður Haraldsson hrl.

Björn L. Bergsson hdl.)

Skiptaverðmæti. Sjómenn. Kjarasamningur. Aflamark.

Útgerðarfélagið L lagði afla sinn upp hjá fiskverkuninni S. Félögin sömdu um að auk fjárgreiðslu legði S til þrjú tonn af veiðiheimildum fyrir hver fjögur tonn af afla sem L legði upp. Ágreiningur reis um hvaða verð ætti að miða við í hlutaskiptum áhafnar á skipi L og taldi skipverjinn A að leggja ætti markaðsverð veiðiheimilda S við þá fjárhæð sem S greiddi L fyrir aflann. Þar sem veiðiheimildirnar voru L ekki til frjálsrar ráðstöfunar var þessari kröfu hafnað og fallist á þá kröfu L að við hlutaskiptin yrði miðað við meðalverð sem úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna gaf út, enda var ekki sýnt fram á að unnt hefði verið að fá hærra verð fyrir aflann.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 12. janúar 1999. Hann krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.  Til vara krefst hann þess, að hann verði einungis dæmdur til að greiða stefnda 326.252 krónur með dráttarvöxtum frá þingfestingardegi í héraði 5. maí 1998 til greiðsludags, og að málskostnaður verði felldur niður.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Mörg ný skjöl hafa verið lögð fyrir Hæstarétt.

I.

Eins og fram kemur í héraðsdómi var stefndi háseti á Hafsúlu HF-77 á tímabilinu frá 11. september 1996 til 20. mars 1997.  Skipið var á þorskveiðum, og fyrir hver fjögur tonn af slægðum þorski, sem áfrýjandi lagði til fiskkaupanda, fékk hann afhent þrjú tonn af aflamarki miðað við slægðan þorsk, auk peningagreiðslu.  Var því um svokölluð „ tonn á móti tonni” viðskipti að ræða. Uppgjör sitt við stefnda miðaði áfrýjandi aðeins við peningagreiðslurnar en tók ekkert tillit til aflamarksins. Telur stefndi, að áfrýjandi hafi greitt sér lægri aflahlut en honum bar samkvæmt lögum og kjarasamningum og vísar í því sambandi til dóms Hæstaréttar frá 15. febrúar 1996, H.1996.522, og dóms Félagsdóms 5. mars 1997 í máli nr. 15/1996.  Telur stefndi að miða beri hlutaskiptin við markaðsverð móttekins aflamarks til viðbótar við þá peningagreiðslu, sem áfrýjandi fékk. 

Áfrýjandi telur aðallega, að tómlæti stefnda eigi að leiða til sýknu.  Stefnda hafi alla tíð verið kunnugt um eðli þessara viðskipta og aldrei gert athugasemdir við uppgjörið, þótt honum hafi verið sérstakar kæruleiðir opnar samkvæmt kjarasamningi Sjómannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna. Hafi áfrýjandi því mátt treysta því, að uppgjöri vegna viðkomandi veiðiferða væri lokið. Til vara byggir áfrýjandi á því, að aldrei geti verið rétt að miða við hærra skiptaverð en meðalverð eins og það er reiknað af úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.

II.

Með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar 15. febrúar 1996 var dæmt um það, að kostnaður af kaupum á aflamarki teldist til útgerðarkostnaðar, sem óheimilt væri að láta skipverja taka þátt í. Ágreiningur máls þess, sem hér er til úrlausnar, varðar ekki kvótaviðskipti, heldur snýst hann um það, hvernig finna skuli út skiptaverðmæti aflans.

Samkvæmt lögum nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins og fyrrgreindum kjarasamningi, grein 1.26 og grein 1.27, ber útgerðarmönnum að greiða laun miðað við það heildaraflaverðmæti sem útgerðin fær fyrir aflann. Í máli þessu hefur áfrýjandi ekki gert upp skiptahlut stefnda að því er varðar verðmæti aflamarks, sem greitt var fyrir landaðan þorsk. Er sýknukrafa áfrýjanda því ekki tekin til greina.

                                                    III.

Fyrir Hæstarétt hefur verið lögð yfirlýsing fyrirsvarsmanna áfrýjanda, sem gerði út Hafsúluna HF-77, og Sæunnar Axels ehf., sem keypti aflann, frá 19. janúar 1999. Í yfirlýsingunni segir meðal annars:  „Samningarnir fólu í sér að kaupandi aflans Sæunn Axels ehf. færði yfir til skips seljandans, Hafsúlunnar HF, aflaheimildir af skipum sínum auk þess sem greitt var umsamið verð fyrir aflann.  Það var forsenda fyrir þessum viðskiptum, að skip seljandans veiddi upp í hinar yfirfærðu aflaheimildir og þorsknum sem aflaðist út á þær yrði landað hjá kaupandanum Sæunni Axels ehf.  Enginn ágreiningur hefur nokkurn tíma verið milli aðilanna um þessi efnisatriði í samningi þeirra og raunar er það alkunna í atvinnugreininni að samningar um „tonn á móti þremur tonnum” feli í sér skuldbindingar af þessu tagi um nýtingu aflaheimildanna.” Er ágreiningslaust milli aðila málsins, að viðskipti þessi fari fram á framangreindan hátt.

Samkvæmt framansögðu var um gagnkvæman samning að ræða milli útgerðarmannsins og kaupanda aflans. Aflamarkið, sem útgerðarmaðurinn fékk, var honum ekki til frjálsrar ráðstöfunar og hafði því ekki sjálfstætt markaðsgildi fyrir hann.

IV.

Eins og að framan greinir telur áfrýjandi verðmæti kvótans, sem hann fékk fyrir aflann umfram fégreiðslu, vera mismun þess, sem greitt var fyrir landaðan afla í peningum og þess, sem hann hefði getað fengið fyrir aflann, ef hann hefði selt hann í annars konar viðskiptum, og miðar hann þar við meðalverð úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 84/1995 um úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, sbr. nú lög nr. 13/1998 um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna,  er það hlutverk nefndarinnar að ákveða fiskverð, sem nota skal við uppgjör á aflahlut áhafnar einstakra skipa, eins og nánar er kveðið á um í lögunum. Á nefndin að afla ítarlegra gagna um fiskverð og birta reglulega upplýsingar um það, þannig að þær gagnist útvegsmönnum og sjómönnum sem best, sbr. 2. gr. Í 5. gr. er kveðið á um það, að nefndin skuli við ákvörðun sína taka mið af því fiskverði, sem algengast er við sambærilega ráðstöfun afla. Samkvæmt áðurgreindum kjarasamningi, grein 1.26, III, um ráðstöfun afla í skiptum milli óskyldra aðila, getur áhöfn krafist samnings um uppgjörsverð og náist ekki samkomulag milli áhafnar og útgerðar skal vísa málinu til úrskurðarnefndar. Gögn málsins bera með sér, að það meðalverð, sem úrskurðarnefndin miðar við, hefur verið notað við ákvörðun skiptaverðs, þegar ágreiningur um slíkt hefur verið lagður fyrir nefndina á því tímabili, sem hér um ræðir.

Samkvæmt áðurgreindum kjarasamningi, grein 1.26, I, skal útgerðarmaður tryggja skipverjum hæsta gangverð fyrir fiskinn. Í máli þessu liggur ekki fyrir, að unnt hefði verið að fá hærra verð fyrir hinn umdeilda afla en meðalverð það, sem áfrýjandi byggir varakröfu sína  á. Er ekki tölulegur ágreiningur um þá kröfu og verður hún tekin til greina með vöxtum eins og í dómsorði segir.

Dæma ber áfrýjanda til að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Lómur hf., greiði stefnda, Albert Hanssyni, 326.252 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 15. apríl 1997 til greiðsludags.

Áfrýjandi greiði stefnda samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 1. desember 1998.

Mál þetta, sem dómtekið var 5. nóvember sl., var þingfest 5.maí 1998. Stefnandi er Albert Hansson, kt. 210773-3129, Vallarhúsum 9, Reykjavík, en stefndi Lómur hf., kt. 430189-1079, Stapahrauni 4, Hafnarfirði.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til greiðslu 1.574.425 króna með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 25/1987, af kr. 108.946 frá 15.10.1996 til 15.11.1996, þá af kr. 249.028,00 frá þeim degi til 15.12.1996, þá af kr. 386.714,00 frá þeim degi til 15.01.1997, þá af kr. 481.066,00 frá þeim degi til 15.02.1997, þá af kr. 687.313,00 frá þeim degi til 15.03.1997, þá af kr. 875.441,00 frá þeim degi til 15.04.1997, en þá af kr. 1.574.425,00 frá þeim degi til greiðsludags. Málskostnaðar er krafist að mati réttarins.

Stefndi krefst sýknu aðallega og að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað. Til vara er krafist lækkunar á stefnukröfum og að málskostnaður verði látinn niður falla.

Málavextir.

Málsatvik eru þau að stefnandi starfaði sem háseti um borð í Hafsúlu HF-77, sem stefndi gerir út. Stefnandi hóf störf hjá stefnda 11. september 1996 og starfaði hjá stefnda til 20. mars 1997. Á þeim tíma var afli skipsins 1.173.416 kg. af óslægðum þorski.

Stefndi átti svokölluð "tonn á móti tonni" viðskipti við fiskkaupanda. Eðli slíkra viðskipta eru að útgerð fær tvenns konar greiðslur fyrir landaðan afla. Annars vegar peningagreiðslur miðað við magn og hins vegar kvóta í formi aflamarks þeirra fisktegundar sem viðskiptin varða. Í þessu tilfelli fékk stefndi greidd 3 tonn af aflamarki miðað við slægðan þorsk auk peningagreiðslu fyrir hvert tonn af slægðum þorski sem stefndi lagði til fiskkaupanda. Verðmæti aflamarksins kom ekki til skipta við uppgjör til skipverja heldur einvörðungu sá hlutur sem greiddur var með peningum.

Ágreiningur aðila stendur um útreikninga aflaverðmætis þess hluta þorsksins sem stefndi fékk greitt fyrir með aflamarki á því tímabili sem stefnandi starfaði hjá stefnda. Stefndi kveður verðmæti aflamarksins, sem stefndi hafi fengið sem greiðslu hafi numið samtals 54.026.467 krónum. Hásetahlutur sé því 1.429.088 krónur, auk orlofs eða samtals 1.574.426 krónur. Stefnandi sundurliðar stefnukröfu á eftirfarandi hátt:

1. september 1996greitt með aflamarkikr.3.979.760,00hásetahluturkr.108.946,00

2. október 1996greitt með aflamarkikr. 5.257.356,00hásetahluturkr.140.082,00

3. nóvember 1996greitt með aflamarkikr.5.312.993,00hásetahluturkr.137.686,00

4. desember 1996greitt með aflamarkikr. 3.590.262,00hásetahluturkr.94.352,00

5. janúar 1997greitt með aflamarkikr.7.848.048,00hásetahluturkr.206.247,00

6. febrúar 1997greitt með aflamarkikr.7.259.424,00hásetahluturkr.188.128,00

7. mars 1997greitt með aflamarkikr.20.778.624,00hásetahluturkr.553.646,00

Samtalskr.54.026.467,00Samtalskr.1.429.087,00

Orlof á vangreidd laun 10,17%, gjaldfellt við ráðningarslitSamtalskr.145.338,00

Samtals höfuðstóll stefnukröfukr.1.574.425,00

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir á því að hann hafi með ofangreindum hætti verið látinn taka þátt í kaupum stefnda á veiðiheimildum en slíkt fari í bága við gildandi kjarasamninga og lög. Stefnda hafi verið skylt að gera upp aflaverðmæti og greiða laun í samræmi við ákvæði laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins og ákvæði greina 1.26 og 1.27 í kjarasamningi Sjómannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna. Samkvæmt tilvitnuðum ákvæðum laga og kjarasamninga beri útgerðarmönnum að greiða laun miðað við það heildaraflaverðmæti sem útgerðin fær fyrir aflann og sé útgerð óheimilt að draga frá því verðmæti kostnað við kaup á aflaheimildum.

Málsókn þessi byggi á því að við uppgjör aflahlutar hafi stefndi lagt rangt aflaverðmæti til grundvallar við ákvörðun skiptaverðmætis og þannig hafi hann dregið stóran hluta aflaverðmætis undan hlutaskiptum. Með þessum starfsaðferðum hafi stefndi greitt stefnanda stóran hluta aflaverðmætis undan hlutaskiptum. Með þessum starfsaðferðum hafi stefndi greitt stefnanda lægri aflahlut en honum bar samkvæmt lögum og kjarasamningum, sbr. áðurgreind lög nr. 24/1986. Hinn vangreiddi aflahlutur nemi því í raun verðmæti þess aflamarks sem stefndi fékk greitt fyrir aflann.

Þegar afli fiskiskipa sé seldur óunninn hér á landi sé skiptaverðmæti hans til hlutaskipta og aflaverðlauna 75% af því heildarverðmæti sem útgerðin fær fyrir hann við sölu, sbr. 1. gr. s.l. Skiptahlutfallið sé lögákveðið og verði ekki breytt nema vegna tilfallandi breytinga á olíuverði, en í lögum sé þó gert ráð fyrir því að skiptaverðmæti verði aldrei lægra en 70%. Lög þessi verði ekki túlkuð á annan veg en þann, að um leið og veiddur afli sé kominn um borð í fiskiskip, öðlast skipverjar, samkvæmt lögum, hlutdeild í heildarverðmæti alls aflans. Í raun megi segja að skipverjar öðlast eignarhlutdeild í veiddum afla um leið og hann komi inn fyrir borðstokkinn. Vísað er í þessu sambandi til ótvíræðra fordæma Hæstaréttar Íslands frá 15. febrúar 1996 í máli nr. 416/1994 og dóms Félagsdóms þann 5. mars 1997 í máli nr. 15/1996.

Lögin um skiptaverðmæti sé grundvöllur að launakerfi sjómanna og hluti af kjarasamningi Sjómannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna, sbr. gr. 1.27 í samningnum. Ljóst sé að verðmæti aflans, í skilningi 1. gr. laganna, geti aldrei verið háð einhliða ákvörðun stefnda, enda væri þá algerlega þýðingarlaust að ákveða skiptaprósentu með kjarasamningsgerð og löggjöf sem þessari ef stefndi gæti breytt forsendum útreiknings eftir eigin hentugleika. Sú háttsemi stefnda að miða uppgjör launahluta og greiða stefnanda eingöngu laun af þeim hluta aflans sem greitt var fyrir í peningum, en taka ekki inn í uppgjör verðmæti þess aflamarks sem greitt var fyrir aflann, feli í sér ólögmæta ráðstöfun stefnda og jafnframt brot á tilvitnuðum lögum sem og kjarasamningi aðila.

Um lagarök vísar stefndi til meginreglna vinnuréttar um greiðslu verkkaups og meginreglna samningaréttar um skyldu til efnda samninga auk laga nr. 30/1987 um orlof. Þá styður stefnandi kröfu sína við lög nr. 24/1986 sbr. 10. gr. laga nr. 79/1994, lög nr. 35/1985, lög nr. 34/1985, lög nr. 55/1980, lög nr. 19/1979 og lög nr. 80/1938. Kröfur um vexti og vaxtavexti styðjast við III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987. Krafa um málskostnað styðjist við 130. gr. eml. nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi mótmælir því að stefndi eigi nokkurn rétt á hendur stefnda vegna þess viðskiptafyrirkomulags sem viðhaft var. Komi þar tvennt til. Annars vegar tómlæti stefnanda sjálfs og áhafnar Hafsúlunnar og hins vegar sú staðreynd að uppgjör vegna veiða Hafsúlunnar voru miðuð við hæsta gangverð á stað og stund eins og kjarasamningur geri ráð fyrir.

Samkvæmt ákvæði 1.26 (I) kjarasamnings LÍÚ og Sjómannasambands Íslands hafi útgerðamaður sölu afla með höndum og hafi til þess umboð áhafnar, að því er varðar aflahlut hennar. Samkvæmt þessu sama ákvæði skyldi útgerðarmaður hafa samráð við fulltrúa áhafnar um fyrirhugaða sölu og afla og gera grein fyrir fyrirliggjandi upplýsingum um sölu og fiskverð. Samkvæmt ákvæði 1.26 (III) sama kjarasamnings geti áhöfn krafist þess með 5 daga fyrirvara að sérstakur samningur verði gerður um uppgjörsverð fyrir afla sem seldur sé beint milli óskyldra aðila. Náist ekki samkomulag skuli málinu vísað til úrskurðarnefndar sem hafi verið stofnsett með lögum nr. 84/1995. Nefndin skuli úrskurða innan fjögurra sólarhringa. Kjarasamningur LÍÚ og Sjómannasambands Íslands leggi þannig ríkar frumkvæðisskyldur á sjómenn sem vilji ekki una uppgjörsverði. Stafar það af því að ríkir hagsmunir búi því að baki að festa ráði ákvörðunum um fiskverð enda ótækt að aflahlutur sjómanna raskist verulega löngu eftir að sjóferð var farin og uppgjöri löngu lokið.

Fyrir liggi að stefnandi hafi alla tíð verið kunnugt um eðli þeirra viðskipta sem voru stunduð í þeim veiðiferðum sem hann fór í á vegum stefnda, auk þess sem stefnandi hafi alla tíð verið kunnugt um það hvert viðmiðunarverð yrði við uppgjör. Stefndi hafi ráðfært sig við áhöfn og gert sitt besta til að tryggja að verð það sem hann fékk fyrir aflann væri hæsta gangverð miðað við stað og stund. Aldrei hafi stefnandi eða áhöfnin á Hafsúlunni gert athugasemdir vegna þessa þrátt fyrir að sérstakar kæruleiðir hafi verið opnar. Þvert á móti hafi stefnandi og reyndar öll áhöfnin haft sérstaka velþóknun á þeim kjörum sem hún bjó við. Stefnda hafi í ljósi þessa mátt treysta því að uppgjöri vegna viðkomandi veiðiferða væri lokið. Hvað sem öðru líður geti stefnandi því, þegar af þessum sökum, ekki gert kröfur vegna vangoldinna launa í greindum veiðiferðum. Að framansögðu leiði að sýkna ber stefnda af kröfu stefnanda.

Því er mótmælt að uppgjör hafi ekki miðast við hæsta gangverð á afla á þeim tíma sem um ræðir, sbr. ákvæði 1.26 kjarasamnings LÍÚ og Sjómannasambands Íslands. Stefndi hafi miðað uppgjör við þær greiðslur sem hann hafði fengið í peningum. Vilji stefnandi halda því fram nú löngu eftir uppgjör, að grundvöllur launagreiðslna í einstökum tilfellum hafi verið annar en kjarasamningur gerði ráð fyrir, beri hann í öllum tilvikum sönnunarbyrði fyrir slíkum fullyrðingum. Beri því að sýkna stefnda.

Í þessu samhengi sé rétt að taka fram að stefndi taldi óþarfi að afla sannana um hæsta gangverð á stað og stund uppgjörs þar sem engar athugasemdir hafi borist frá áhöfn. Samningar stefnda við eigendur aflamarks sem aflinn var lagður upp hjá hafi miðast við að fégreiðsla fyrir landaðan afla væri sem næst hæsta gangverði á stað og stund. Gegn mótmælum stefnda geti stefnandi ekki haldið því fram að verð sem stefnandi sjálfur vildi á sínum tíma una sem "hæsta gangverð" hafi ekki í reynd verið "hæsta gangverð".

Loks tekur stefndi fram að sá reiknigrundvöllur sem stefnandi reki málið á sé fráleitur og verði að óbreyttu að sýkna stefnda af þeim sökum.

Varakrafa stefnda er á því byggð að stefnukrafa sé ljóslega í engu samhengi við nokkuð það sem gæti talist "hæsta gangverð óslægðs þorsks" og það liggi ljóst fyrir að skyldur stefnda takmarkist við að tryggja áhöfn sinni það verð.

Í tonni á móti þremur tonnum viðskiptum skuldbindi útgerðarmaður sig til að landa afla sínum hjá þeim aðila sem láti aflakvóta í té. Fyrir aflann sé svo greitt umsamið verð. Kvótinn sem útgerðarmaðurinn hafi sé honum ekki til frjálsrar ráðstöfunar og hafi ekkert beint markaðsgildi fyrir hann. Hann geti ekki selt hann og hann geti ekki veitt upp í hann, landað aflanum síðan annars staðar og fengið almennt markaðsverð fyrir aflann. Þar að auki skuldbindi útgerðarmaðurinn sig til að selja þessum aðila aflann vegna þessa kvóta á fyrirfram umsömdu verði. Verðmæti kvótans fyrir útgerðarmanninn sé því aldrei hreint markaðsverð hans, enda sé greiðsla í formi kvótans hluti af gagnkvæmum samningi hans og aflakaupandans sem innihaldi fleiri atriði sem líta verði til. Þar sem um sé að ræða gagnkvæman samning sé ekki hægt að líta á markaðsverð kvóta þar sem aðeins komi fégreiðsla á móti til samanburðar, heldur verði að finna út raunverulegt verðmæti kvótans í þeim viðskiptasamningi sem um ræðir hverju sinni. Í þeim viðskiptum sem hér um ræðir sé þetta einfalt. Raunverulegt verðmæti kvótans sem stefndi fékk umfram fégreiðslu fyrir afla sinn, sé mismunur þess sem greitt var fyrir landaðan afla í peningum og þess sem stefndi hefði getað fengið fyrir aflann ef hann hefði selt hann óháðum aðila í beinum viðskiptum.

Verð það sem stefndi hefði fengið í frjálsum viðskiptum fyrir aflann er einungis hægt að finna út með því að miða við meðalverð afla á þeim tíma og stað sem landanir eigi sér stað.

Útreikningi stefnanda er mótmælt sem fráleitum leik að tölum sem eigi á sér ekki stoð í raunveruleikanum. Ef farið yrði eftir honum yrði niðurstaða málsins í engu samræmi við veruleika á markaði né raunverulegar forsendur sem búi að baki tonni á móti þremur tonnum viðskiptum. Þar með yrði ljóst að útgerðarmenn gætu ekki lengur verðmetið fisk eftir framboði og eftirspurn eftir allt annarri og óskyldri vöru - þ.e.a.s. kvóta. Slík niðurstaða sé að sjálfsögðu ótæk. Telji stefnandi að endanlegt uppgjör hans sé ekki miðað við hæsta gangverð beri hann sönnunarbyrðina fyrir því.

Þá er dráttarvaxtakröfu stefnanda sérstaklega mótmælt. Bendir stefndi á að verulegur ágreiningur er um uppgjörsmáta þann sem stefndi byggi kröfu sína á og eðlilegt sé að úr honum sé leyst fyrir dómstólum. Þegar greiðslurnar voru inntar af hendi á gjalddaga hafði enginn ágreiningur verið um þær, enda stefnandi tekið við þeim án nokkurs fyrirvara. Ef krafa stefnanda verði tekin til greina krefst stefndi þess að dráttarvextir verði reiknaðir frá dómsuppsögu, en til vara frá þingfestingu málsins. Ef dómurinn telur þá niðurstöðu ekki í samræmi við atvik málsins krefst stefndi þess að upphafstíma dráttarvaxta beri að miða við 16. október 1997, þ.e. mánuði eftir að stefnandi fyrst krafði stefnanda um greiðslu kröfu sinnar.

Til stuðnings kröfum sínum vísar stefndi til meginreglu samningaréttar um skuldbindingagildi samninga og tómlæti og laga nr. 84/1995 um úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna. Kröfu sína um málskostnað styður stefndi við XXI. kafla laga nr. 91/1991, sbr. einkum 130. gr.

Niðurstaða.

Stefnandi hefur höfðað mál þetta til greiðslu vangoldinna vinnulauna sem hann telur sig eiga rétt á úr hendi stefnda. Stefnandi var háseti á skipi stefnda og byggir kröfu sína á því að stefndi hafi við uppgjör vinnulauna ekki tekið mið af verðmæti greiðslu sem stefndi hafi fengið í formi aflahlutdeildar frá kaupanda afla þess er landað var. Með þessum hætti hafi skiptaverðmæti það sem hlutur hans hafi verið reiknaður út frá verið lægri sem munar markaðsverði þeirrar aflahlutdeildar sem stefndi fékk greitt með. Um hafi verið að ræða svokölluð tonn á móti þremur tonnum viðskipti, en nánar er gerð grein fyrir eðli þeirra hér að framan.

Í 1. gr. laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, sbr. 10. gr. laga nr. 79/1994, segir að ekki sé heimilt að draga frá heildarverðmæti afla kostnað vegna kaupa á veiðiheimildum. Þetta er einnig áréttað í ákvæði 1.26 í kjarasamningi Sjómannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna. Þar segir að útgerðarmaður hafi með höndum sölu aflans og hafi til þess umboð áhafnar að því er aflahlut hennar varðar. Hann skal tryggja skipverjum hæsta gangverð fyrir fiskinn, þó aldrei lægra en útgerðarmaður fær. Síðan segir í ákvæði 1.26 að ekki sé heimilt að draga frá heildarverðmæti afla kostnað vegna kaupa á veiðiheimildum og er vísað til 1. gr. laga nr. 24/1986 í því sambandi.

Óumdeilt er í þessu máli að fyrir hvert tonn á slægðum þorski sem stefndi lagði til fiskkaupanda, fékk stefndi greitt 3 tonn af aflamarki auk peningagreiðslu. Verðmæti aflamarksins kom ekki til skipta við uppgjör heldur aðeins sá hluti sem greiddur var með peningum. Samkvæmt tilvitnuðum ákvæðum laga og kjarasamninga ber útgerðarmanni að greiða laun miðað við það heildaraflaverðmæti sem útgerðin fær fyrir aflann og er útgerðinni óheimilt að draga frá því verðmæti kostnað við kaup á aflaheimildum. Uppgjörsmáti sá, sem viðhafður var í skiptum aðila, var því brot á kjarasamningi aðila og brot á 1. gr. laga nr. 24/1986. Samkvæmt 18. gr. sömu laga varðar þessi háttsemi sektum.

Eins og atvikum er hátað í málinu þykir ekki skipta máli þó að stefnanda hafi verið kunnugt um þennan uppgjörsmáta. Tómlætisáhrif koma heldur ekki til álita þar sem um var að ræða lögbundin og umsamin lágmarkskjör.

Í III. kafla ákvæðis 1.26 í kjarasamningi aðila eru ákvæði um ráðstöfun afla í skiptum milli óskyldra aðila. Segir þar að áhöfn geti þá krafist samnings um uppgjörsverð. Enginn slíkur samningur lá fyrir og koma því þessi ákvæði kjarasamningsins ekki til álita í málinu.

Kemur þá næst til skoðunar við hvað eigi að miða þegar verðmæti aflamarksins er ákveðið. Í málflutningi kom fram hjá lögmanni stefnanda að útreikningur hans á verðmæti aflamarksins væri fundin út frá verðhugmyndum á aflamarki, sem kvótamiðlun Landssambands íslenskra útvegsmanna miðar við og birtar eru reglulega í fréttabréfi sambandsins, ,,Útveginum”. Í þeim útreikningum sem stefnandi hefur lagt fram (dskj. nr. 6) kemur fram að hann miðar útreikninga sína við kílóverð 67 krónur af þorski frá september til desember 1997, 80 krónur í janúar og febrúar 1997 og 85 krónur í mars 1997. Þessar viðmiðunartölur eru lægri en kvótaleiga LÍÚ gerir ráð fyrir nema í mars 1997, en þá er um sömu fjárhæð að ræða.

Stefndi heldur því fram að í viðskiptum hans og fiskkaupanda, þar sem greitt sé með tonni á móti þremur tonnum, sé ekki um hreint markaðsverð að ræða. Greiðsla með aflamarki sé hluti af gagnkvæmum samningi stefnda og fiskkaupanda sem kveði á um fleiri atriði sem líta þurfi til. Stefndi hefur þó ekki lagt fram þennan samning máli sínu til stuðnings. Verður því markaðsverð aflamarks, eins og Landssamband íslenskra útvegmanna reiknar það út, lagt til grundvallar í málinu. Með hliðsjón af atvikum málsins þykir rétt að taka vaxtakröfu stefnanda til greina.

Niðurstaða málsins verður því sú að kröfur stefnanda verða að öllu leyti teknar til greina. Málskostnaður ákveðst 280.000 krónur. Ekki er þá tekið tillit til reglna um virðisaukaskatt. Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

Dómsorð:

Stefndi, Lómur hf. greiði stefnanda, Albert Hanssyni, 1.574.425 krónur með dráttar-vöxtum skv. III. kafla laga nr. 25/1987, af kr. 108.946 frá 15.10.1996 til 15.11.1996, þá af kr. 249.028,00 frá þeim degi til 15.12.1996, þá af kr. 386.714,00 frá þeim degi til 15.01.1997, þá af kr. 481.066,00 frá þeim degi til 15.02.1997, þá af kr. 687.313,00 frá þeim degi til 15.03.1997, þá af kr. 875.441,00 frá þeim degi til 15.04.1997, en þá af kr. 1.574.425,00 frá þeim degi til greiðsludags 280.000 krónur í málskostnað.