Hæstiréttur íslands
Mál nr. 52/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Útburðargerð
- Lögvarðir hagsmunir
|
|
Föstudaginn 2. mars 2001. |
|
Nr. 52/2001. |
Lindasól ehf. (Ólafur Sigurgeirsson hrl.) gegn Sigurði Hilmarssyni (Þorsteinn Einarsson hrl.) |
Kærumál. Útburðargerð. Lögvarðir hagsmunir.
L ehf. krafðist þess að ógilt yrði útburðargerð sýslumannsins í Kópavogi, sem fór fram 5. og 7. desember 2000 til að víkja L ehf. úr húsnæði S að Bæjarlind 6 í Kópavogi. Þrátt fyrir að framkvæmd útburðargerðarinnar hefði verið talin háð alvarlegum annmörkum og raunar í meginatriðum verið andstæð lögum var ekki talið unnt að horfa fram hjá því að eins og málið lá fyrir yrði ekki annað séð en að S hefði sjálfur að mestu eða öllu lokið við að rýma húsnæðið 13. desember 2000 og þeirri skipan í reynd verið komið á, sem með réttu hefði átt að fást með aðgerðum sýslumanns samkvæmt 72. gr. laga nr. 90/1989. Að þessu gættu var L ehf. ekki talinn hafa lögvarða hagsmuni af því að fá útburðargerðina fellda úr gildi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. febrúar 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 31. janúar 2001, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að ógilt yrði útburðargerð sýslumannsins í Kópavogi, sem fór fram 5. og 7. desember 2000 til að víkja sóknaraðila úr húsnæði varnaraðila að Bæjarlind 6 í Kópavogi. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að útburðargerðin verði ógilt. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðili dæmdur til að greiða kærumálskostnað.
I.
Samkvæmt gögnum málsins gerðu aðilarnir samning 8. júní 1999, þar sem sóknaraðili tók á leigu hjá varnaraðila húsnæði að Bæjarlind 6 í Kópavogi. Með beiðni 1. mars 2000 leitaði varnaraðili eftir því með vísan til 78. gr. laga nr. 90/1989 að sóknaraðili yrði borinn út úr húsnæðinu með beinni aðfarargerð vegna vanskila á leigugjaldi. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 12. maí 2000, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 7. júní sama árs í máli nr. 222/2000.
Með símskeyti 23. júní 2000 sagði varnaraðili framangreindum leigusamningi upp og krafðist um leið að sóknaraðili afhenti húsnæðið 1. október 2000. Sóknaraðili varð ekki við því og krafðist varnaraðili þess 2. október 2000 að sóknaraðili yrði borinn út úr húsnæðinu. Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 29. nóvember 2000 var fallist á þessa kröfu varnaraðila. Hann fór þess síðan á leit við sýslumanninn í Kópavogi að úrskurði þessum yrði fullnægt með útburðargerð. Fulltrúi sýslumanns tók gerðina fyrir 5. desember 2000, en samkvæmt beiðni varnaraðila hafði sóknaraðili ekki verið boðaður til hennar. Fyrirsvarsmenn sóknaraðila hittust fyrir að Bæjarlind 6 og kröfðust þess að undangengnu símtali við lögmann sinn að gerðinni yrði frestað. Gegn mótmælum varnaraðila féllst fulltrúinn ekki á það. Að því gerðu skipti varnaraðili um skrá í hurð að húsnæðinu og afhenti fulltrúanum lykla að henni. Ákvað fulltrúinn þessu næst að fresta gerðinni til fyrirtöku á skrifstofu sinni 7. desember 2000 „vegna ágreinings um innanstokksmuni”, eins og segir í bókun um gerðina. Gerðinni var síðan fram haldið þann dag. Ekki var þar mætt af hálfu sóknaraðila, en áður hafði hann mótmælt framkvæmd gerðarinnar með bréfi til sýslumanns 5. desember 2000 og krafist með símbréfi 6. sama mánaðar að fá afhenta lykla að húsnæðinu. Gerðinni var þá lokið með svofelldri bókun í gerðabók sýslumanns: „Lögmaður gerðarbeiðanda óskar eftir að fá afhenta lykla þá sem ftr. sýslumanns er með í vörslu sinni, að húsnæði gerðarbeiðanda að Bæjarlind 6, Kópavogi. Lögmanni gerðarbeiðanda eru afhentir lyklarnir, (3 stykki). Mun lögmaður gerðarbeiðanda hafa samráð við lögmann gerðarþola um að gerðarþoli rými húsnæði gerðarbeiðanda.”
Síðar um daginn 7. desember 2000 krafðist varnaraðili þess með símbréfi að sóknaraðili fjarlægði samdægurs úr húsnæðinu að Bæjarlind 6 nánar tiltekna lausafjármuni, að því viðlögðu að krafist yrði gjalds fyrir geymslu þeirra. Sóknaraðili krafði þá þegar sýslumann um skýringar á þessu og fékk í kjölfarið vitneskju um hvernig gerðinni hefði verið lokið af hans hendi. Að undangengnum frekari bréfaskiptum mun sóknaraðili hafa tekið hluta af munum sínum úr húsnæðinu 8. desember 2000 og virðist síðan að mestu eða öllu hafa fjarlægt það, sem eftir stóð, 13. sama mánaðar.
Sóknaraðili beindi máli þessu til Héraðsdóms Reykjaness með bréfi 6. desember 2000.
II.
Eins og að framan greinir fór varnaraðili fór þess á leit við sýslumanninn í Kópavogi að hann bæri sóknaraðila út úr húsnæðinu að Bæjarlind 6 með stoð í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 29. nóvember 2000. Fulltrúi sýslumanns ákvað sem áður segir að taka gerðina fyrir 5. desember sama árs án þess að boða áður sóknaraðila til hennar, svo sem heimilt var samkvæmt 5. tölulið 3. mgr. 21. gr. laga nr. 90/1989. Þegar fyrirsvarsmenn sóknaraðila höfðu hist fyrir á vettvangi hafnaði fulltrúinn réttilega kröfu hans um frest, sbr. 1. mgr. 26. gr. sömu laga. Framkvæmd gerðarinnar upp frá því var á hinn bóginn í öllum atriðum andstæð lögum. Í stað þess að bera sjálfur sóknaraðila og muni hans út úr húsnæðinu þegar í stað eða kveðja til menn á sínum vegum til að annast það verk og fullnægja þar með rétti varnaraðila samkvæmt 72. gr., sbr. 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989, vísaði fulltrúi sýslumanns starfsmönnum sóknaraðila út úr húsnæðinu og lokaði að því gerðu starfstöð hans. Tveimur dögum síðar tók fulltrúinn gerðina fyrir á ný og veitti þá varnaraðila umráð yfir húsnæðinu, þótt munir sóknaraðila væru þar enn. Lagði fulltrúinn síðan á vald varnaraðila hvort og þá hvenær sóknaraðili fengi úr húsnæðinu muni, sem ótvírætt tilheyrðu honum.
Þrátt fyrir þá alvarlegu annmarka á framkvæmd útburðargerðarinnar, sem að framan er getið, er ekki unnt að horfa fram hjá því að eins og málið liggur nú fyrir verður ekki annað séð en að sóknaraðili hafi sjálfur að mestu eða öllu lokið við að rýma húsnæðið 13. desember 2000. Þótt þar kunni enn að vera skilrúm, sem aðilarnir deila um eignarrétt að, hefur þeirri skipan í reynd verið komið á, sem með réttu hefði átt að fást með aðgerðum sýslumanns samkvæmt 72. gr. laga nr. 90/1989. Að þessu gættu hefur sóknaraðili ekki lögvarða hagsmuni af því að fá útburðargerðina fellda úr gildi. Verður niðurstaða hins kærða úrskurðar því að standa óröskuð að öðru leyti en um málskostnað.
Aðilarnir skulu hvor bera sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 31. janúar 2001.
I.
Mál þetta var þingfest 8. desember 2000 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum flutningi þess 11. janúar sl.
Sóknaraðili er Lindarsól ehf., kt. 470699-3109, Bæjarlind 6, Kópavogi.
Varnaraðili er Sigurður Hilmarsson, kt. 080551-7119, Fjarðarási 7, Reykjavík.
Dómkröfur sóknaraðila eru þær að útburðargerð sýslumannsins í Kópavogi nr. 9/2000 sem fram fór hjá sóknaraðila 5. desember 2000 að kröfu varnaraðila verði ógilt. Einnig krefst sóknaraðili ógildingar á þeirri ákvörðun sýslumanninss í Kópavogi að fela lögmanni varnaraðila umráð húsnæðisins að Bæjarlind 6, Kópavogi, áður en útburður eigna sóknaraðila hafði farið fram.
Þá er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila að skaðlausu.
Dómkröfur varnaraðila eru aðallega þær að málinu verði vísað frá dómi. Til vara er þess krafist að kröfum sóknaraðila verði hafnað.
Í báðum tilvikum er þess krafist að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða varnaraðila málskostnað að skaðlausu.
II.
Með tilkynningu til dómsins um kröfu um ógildingu aðfarargerðar, dagsettri 6. desember 2000, krafðist sóknaraðili, Lindarsól ehf., þess að útburðargerð sýslumannsins í Kópavogi í málinu nr. 9/2000, sem fram fór hjá sóknaraðila 5. s.m. að kröfu varnaraðila, Sigurðar Hilmarssonar, yrði ógilt. Í tilkynningunni sagði að útburðargerðin hafi farið fram með þeim hætti sem segði í bókun sýslumanns: „Lögmaður gerðarbeiðanda og gerðarbeiðandi hafna öllum fresti. Gerðarbeiðandi er einnig mættur og skiptir hann um skrá og afhendir fulltrúa sýslumanns lyklana og mun hann hafa þá í sinni vörslu.”
Krafa varnaraðila sé byggð á úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 29. nóvember 2000 í málinu nr. A 380/2000, þar sem í úrskurðarorði hafi verið kveðið á um að gerðarþoli Lindarsól ehf. skuli borinn út úr húsnæði að Bæjarlind 6, Kópavogi, með beinni aðfarargerð.
Það hafi verið síðla dags, sem úrskurður féll og það hafi ekki verið fyrr en næsta dag, sem hægt var að láta fyrirsvarsmenn gerðarþola vita af niðurstöðu. Skammur frestur hafi því verið til að útvega annað húsnæði undir starfsemina, sem væri rekstur sólbaðsstofu. Strax hafi verið gerðar ráðstafanir, enda hafi verið gerður leigusamningur um húsnæði í næsta nágrenni og hugað að flutningi.
Eftir hádegi umræddan þriðjudag hafi fulltrúi sýslumanns verið mættur og með honum varnaraðili og lögmaður hans. Bent hafi verið á að sóknaraðili hefði ekki verið boðaður við fyrirtöku aðfararbeiðnar, sem þó væri lögskylt, og óskað hafi verið eftir fresti í málinu til klukkan tólf á föstudag og þá hefði sóknaraðili lokið rýmingu. Varnaraðili hafi ekki samþykkt fresti og fulltrúi sýslumanns hafi sagt að varnaraðili réði í því efni.
Fulltrúa sýslumanns hafi þá verið tjáð að ef ekki ætti að fresta gerðinni ætti hún að fara fram, þannig að sýslumaður fullnægði rétti varnaraðila með útburði sóknaraðila eða þeirra hluta sem fjarlægðir yrðu og eftir atvikum með innsetningu varnaraðila (72. gr. laga nr. 90/1989). Varnaraðili ætti þannig að útvega geymsluhúsnæði undir eigur sóknaraðila og burðarmenn og bíla og fulltrúinn ætti lögum samkvæmt að vera viðstaddur gerðina, sem tæki líklega tvo daga. Bent hafi verið á að fullbúið húsnæði lægi fyrir í næsta nágrenni og fullgildur leigusamningur.
Lögmaður sóknaraðila hafi verið upptekinn vegna réttargæslu og hafi því ekki vitað af málinu fyrr en undir kvöld, en þá hafi honum verið tjáð að fulltrúinn hefði stöðvað rekstur fyrirtækisins. Skipt hafi verið um skrá og allar eigur sóknaraðila hefðu þannig verið lokaðar inni. Fyrirtækið væri lokað og það þýddi 60.000 krónur í tapaðar tekjur á dag. Ef fyrirtækið ætti að vera lokað lengur mætti margfalda tapið með dagafjölda. Við þetta bættist tjón vegna glataðra viðskipta, en viðskiptavinir sem kæmu að lokuðu húsi og fengju ekki svörun í síma leituðu vitaskuld annað.
Eftirfarandi athugasemdir vildi sóknaraðili gera: Samkvæmt 21. gr. aðfararlaga skuli sýslumaður, svo fljótt sem við verður komið eftir að aðfararbeiðni hefur borist, ákveða hvar og hvenær aðför fari fram svo sem verða má eftir óskum gerðarbeiðanda. Gerðarbeiðanda skuli tilkynnt sú ákvörðun á þann hátt sem sýslumanni þyki til hlýða.
Gerðarþola skuli tilkynnt með hæfilegum fyrirvara að beiðni sé komin fram um aðför hjá honum og um meginefni hennar. Honum skuli um leið tilkynnt hvar aðför muni byrja og sem nánast á hvaða tíma tiltekins dags. Tilkynningu skuli senda gerðarþola með útbornu ábyrgðarbréfi eða símskeyti eða birta honum af einum stefnuvotti.
Í 3. mgr. 21. gr. séu tiltekin sex atriði, sem geti valdið því að vikið sé frá tilkynningarskyldu. Ekkert af þeim atriðum hafi átt við í máli þessu. Fulltrúi sýslumanns hafi hvorki boðað sóknaraðila til gerðar né látið vita af því hvenær gerð skyldi fara fram. Þá hafi gerð verið haldið fram eftir frestsynjun gerðarbeiðanda með lokun húsnæðisins, en ekki með útburði eigna gerðarþola og starfsemi fyrirtækisins þannig stöðvuð. Hefði útburður farið fram þrátt fyrir að lagaskilyrði skorti hefði fyrirtækið ekki verið lokað, heldur hefði verið hægt að flytja eigurnar í nýja leiguhúsnæðið og halda uppi símsvörun og lágmarksþjónustu við viðskiptavini.
Sýslumaður hefði hvorki heimildir til umráðasviptingar eigna gerðarþola né til að stöðva fyrirtæki í fullum rekstri. Heimildir sýslumanns í útburðarmálum nái þannig aðeins til að framkvæma sjálfan útburðinn og í framhaldi af því innsetningu gerðarbeiðanda í húsnæðið að útburði loknum.
III.
Sóknaraðili lýsir málavöxtum nánar svo að í júní 1999 hafi varnaraðili keypt óinnréttað atvinnuhúsnæði að Bæjarlind 6, Kópavogi, hluta 0301. Í sama mánuði hafi kona hans, Jónína S. Gunnarsdóttir, stofnað einkahlutafélagið Lindarsól ehf. ásamt systur sinni, Guðbjörgu Ósk Gunnarsdóttur, og fósturdóttur Guðbjargar, Írisi M. Bergmann Hafsteinsdóttur. Hafi hver um sig átt þriðjung hlutafjár, sem hafi samtals verið sex milljónir króna og þannig hafi hver þeirra lagt fram tvær milljónir króna í reiðufé. Allar þrjár hafi verið kosnar í stjórn, en Jónína hafi orðið stjórnarformaður. Framkvæmdastjóri með prókúru hafi verið kosinn varnaraðili, Sigurður Hilmarsson.
Einkahlutafélag þetta hafi verið stofnað í því skyni að reka sólbaðsstofu í framangreindu húsnæði og hafi varnaraðili ætlað að ljúka innréttingum hið fyrsta svo hægt væri að hefja starfsemi. Leigusamningur hafi verið gerður milli varnaraðila og sóknaraðila 9. júní 1999. Hafi rekstur átt að geta hafist 1. júlí, en þá hafi leigutími átt að hefjast. Af því hafi ekki orðið og hafi framkvæmdir dregist á langinn og ekki hafi reynst unnt að opna fyrr en í desember. Munnlegt samkomulag hafi verið milli allra aðila um að ekki skyldi greiða leigu fyrr en húsnæðið væri tilbúið. Fólk þetta væri nátengt og ekki hafi þótt ástæða til að setja svo eðlilegan hlut á blað.
Fyrirtækið hafi tekið lán að fjárhæð 1.500.000 krónur og hafi því haft úr þeirri fjárhæð að spila, auk hlutafjár, eða samtals 7,5 milljónir króna. Í desember 1999 hafi verið gerður fjármögnunarleigusamningur að fjárhæð 9,9 milljónir króna vegna kaupa á átta ljósabekkjum.
Í janúar 2000 hafi verið komin upp óeining í hlutafélaginu þar sem engir peningar voru sagðir í sjóði til að greiða laun. Engar skýringar hafi fengist hjá stjórnarformanni félagsins eða manni hennar, framkvæmdastjóranum. Meirhluti hluthafa, þær Guðbjörg og Íris, hafi þá krafist hluthafafundar og hafi þar verið kjörin ný stjórn og Sigurði Hilmarssyni sagt upp sem framkvæmdarstjóra og prókúra hans afturkölluð. Í framhaldi af því hafi verið skipt um endurskoðanda og nýjum endurskoðanda falið að skoða bókhald félagsins. Sérstaklega hafi endurskoðandanum verið falið að athuga hvers vegna ekkert fé var til í sjóði. Komið hafi í ljós að samtals hefði 4.235.998 krónum verið varið til innréttinga og standsetningar á leiguhúsnæðinu án þess að samið hafi verið um það milli aðila.
Þann 16. febrúar 2000 hafi varnaraðili fengið símskeyti frá lögmanni sóknaraðila þar sem krafist hafi verið greiðslu á vangoldinni húsaleigu fyrir tímabilið september 1999 til og með febrúar 2000, samtals 1.733.040 krónur. Símskeyti þessu hafi strax verið svarað. Þrátt fyrir þetta bréf og ósk um frest til að finna út hver skuldaði hverjum hafi leigusamningnum verið rift og beðið um útburð. Varnaraðili hafi tapað þessu útburðarmáli bæði í héraði og fyrir Hæstarétti. Eftir þau úrslit hafi leigusamningi verið sagt upp með þriggja mánaða fyrirvara í samræmi við ákvæði þar um í samningnum. Að tilsettum tíma liðnum hafi útburðar verið krafist í Héraðsdómi Reykjavíkur. Kröfunni hafi verið mótmælt á þeim grunni að það þyrfti að vera nákvæmlega tilgreint hvað tilheyrði gerðarþola og hvað gerðarbeiðanda til þess að útburður gæti farið fram. Ekki hafi verið fallist á að fara þyrfti í einkamál með þetta álitamál og þann 29. nóvember sl. hafi verið kveðinn upp úrskurður í málinu, þar sem úrskurðarorðið hafi verið að gerðarþoli, Lindarsól ehf., skyldi borinn út úr húsnæði að Bæjarlind 6, Kópavogi, með beinni aðfarargerð.
Úrskurðurinn hafi verið kveðinn upp síðla dags og það hafi ekki verið fyrr en næsta dag, sem hægt var að láta fyrirsvarsmenn sóknaraðila vita af niðurstöðu. Stuttur tími hafi því verið til stefnu að koma fyrirtækinu úr húsnæðinu, en búið hafi verið að tryggja annað húsnæði. Samkvæmt þeim leigusamningi hafi það húsnæði verið tilbúið til aflhendingar 1. desember 2000 og leigutíminn til sama dags árið 2005.
Eftir hádegi þriðjudaginn 5. desember sl. hafi fulltrúi sýslumanns verið mættur og með honum gerðarbeiðandi og lögmaður hans. Bent hafi verið á að gerðarþoli hefði ekki verið boðaður við fyrirtöku aðfararbeiðnar, sem þó væri lögskylt, og óskað hafi verið eftir fresti í málinu til klukkan tólf á föstudag, en þá myndi gerðarþoli hafa lokið rýmingu. Gerðarbeiðandi hafi ekki samþykkt fresti og fulltrúi sýslumanns hafi sagt gerðarbeiðanda ráða í því efni. Fulltrúa sýslumanns hafi þá verið tjáð að ef ekki ætti að fresta gerðinni ætti hún að fara fram þannig að sýslumaður fullnægði rétti gerðarbeiðanda með útburði gerðarþola eða þeirra hluta, sem fjarlægðir yrðu, eftir atvikum með innsetningu gerðarbeiðanda. Gerðarbeiðandi ætti þannig í versta falli að útvega geymsluhúsnæði undir eigur gerðarþola og burðarmenn og bíla og fulltrúinn ætti lögum samkvæmt að vera viðstaddur gerðina, sem líklega tæki tvo daga. Bent hafi verið á að fullbúið húsnæði lægi fyrir í næsta nágrenni og fullgildur leigusamningur.
Fulltrúi sýslumanns hafi ekki haft áhuga á að leyfa sóknaraðila að kalla til lögmann, en stöðvað rekstur fyrirtækisins. Skipt hafi verið um skrá af varnaraðila sjálfum og allar eigur gerðarþola hafi þannig verið lokaðar inni. Bókað hafi verið að fulltrúi sýslumanns geymdi lyklana að húsnæðinu.
Með símbréfi síðla dags 7. desember sl. hafi lögmaður varnaraðila krafist þess f. h. varnaraðila að sóknaraðili fjarlægði allt lausafé í eigu sóknaraðila úr húsnæðinu að Bæjarlind 6 klukkan 14.30 föstudaginn 8. desember.
Með símbréfi sama dag til fulltrúa sýslumannsins í Kópavogi hafi verið óskað upplýsinga um hvaða valdheimildir væru svo óvænt komnar í hendur umboðsmanni varnaraðila.
Daginn eftir, 8. desember, hafi borist svar frá fulltrúa sýslumanns. Þar væri frá því greint að við fyrirtöku útburðarmálsins, 7. desember, hafi lögmanni varnaraðila verið fengin umráð húsnæðisins og hann væri þannig væntanlega að gefa gerðarþola kost á að nálgast muni sína úr húsnæðinu.
Þessu hafi verið mótmælt með símbréfi til sýslumanns og ábyrgð lýst á hendur fulltrúanum, embætti sýslumanns og ríkissjóði.
Svo hafi farið umræddan föstudag að sóknaraðili hafi hvorki fengið ljósabekki sína afhenta né skilrúm milli klefanna, en þeir væru settir upp með skrúfum eins og væri um hansahillur og aðra hluti, sem teldust ekki naglfastar innréttingar.
IV.
Varnaraðili lýsir málavöxtum þannig að þann 29. nóvember sl. hafi Héraðsdómur Reykjavíkur kveðið upp úrskurð í máli nt. A-380/2000. Úrskurðarorðið hafi verið á þá leið að gerðarþoli, Lindarsól ehf., skuli borinn út úr húsnæði að Bæjarlind 6, Kópavogi, með beinni aðfarargerð. Þá skyldi gerðarþoli greiða gerðarbeiðanda 40.000 krónur í málskostnað.
Í framhaldi af þessum úrskurði hafi þess verið farið á leit við sýslumanninn í Kópavogi að félagið yrði borið út úr húsnæði varnaraðila með beinni aðfarargerð í samræmi við úrskurð héraðsdóms. Útburður hafi farið fram þann 5. desember sl. þar sem skipt hafi verið um skrá, enda væri útburður ekki framkvæmdur með öðrum hætti. Þann 7. desember sl. hafi fulltrúi sýslumanns boðað til fundar vegna gerðarinnar vegna mótmæla sóknaraðila við gerðinni. Þar hafi ekki verið mætt af hálfu sóknaraðila og hafi lyklar því verið fengnir varnaraðila, sem hafi þann sama dag skorað á sóknaraðila að fjarlægja það sem tilheyrði félaginu. Mætt hafi verið af hálfu sóknaraðila sem hafi fjarlægt flesta hluti er tilheyrðu félaginu, en mestur tími varnaraðila hafi farið í að stöðva sóknaraðila í að fjarlægð yrðu naglföst skilrúm og veggir í húsnæðinu.
Sóknaraðili hafi nú höfðað mál til ógildingar á útburðargerð sýslumannsins í Kópavogi. Byggi sóknaraðili kröfu sína á því að hann hafi ekki verið boðaður til gerðarinnar og að ekki hafi verið staðið réttilega að sjálfum útburðinum. Á síðari stigum hafi sóknaraðili einnig krafist ógildingar á ákvörðun sýslumannsins í Kópavogi að fela lögmanni varnaraðila umráð húsnæðisins áður en útburður eigna hafði farið fram eins og það sé orðað í greinargerð sóknaraðila. Við fyrirtöku málsins hafi lögmaður varnaraðila óskað að bókuð yrðu mótmæli við því að aukið væri við kröfur í málinu auk þess sem krafist hafi verið frávísunar málsins.
V.
Sóknaraðili byggir kröfu sína um ógildi aðfarargerðarinnar og ákvörðunar sýslumanns á því að fulltrúi sýslumanns hafi hvorki boðað til útburðargerðarinnar né látið vita af því hvenær gerð skyldi fara fram. Þá hafi gerð verið haldið fram eftir frestsynjun gerðarbeiðanda með lokun húsnæðisins, en ekki með útburði eigna gerðarþola, og starfsemi fyrirtækisins þannig stöðvuð. Ef útburður hefði farið fram þrátt fyrir að lagaskilyrði skorti hefði fyrirtækið ekki verið lokað, heldur hefði verið hægt að flytja eigurnar í nýja leiguhúsnæðið og halda uppi símsvörun og lágmarksþjónustu við viðskiptavini. Sömuleiðis sé sú ákvörðun fulltrúa sýslumanns að fela lögmanni gerðarbeiðanda lykla og umráð húsnæðisins með öllu ólögleg þar sem lögum samkvæmt eigi gerðarbeiðandi aldrei að fá umráð fyrr en útburði er lokið. Varnaraðili hafi nú löglegar vörslur að forminu til og nýti aðstöðu sína með því að halda fyrir sóknaraðila meginhluta eignanna og þeim sem fjárhagsleg afkoma fyrirtækisins byggist á, þ.e. ljósabekkjunum.
Samkvæmt 21. gr. aðfararlaga skuli sýslumaður ákveða svo fljótt sem við verður komið, eftir að aðfararbeiðni hefur borist, hvar og hvenær aðför fari fram svo sem verða má eftir óskum gerðarbeiðanda. Gerðarbeiðanda skuli tilkynnt sú ákvörðun á þann hátt sem sýslumanni þyki hlýða. Gerðarþola skuli tilkynnt með hæfilegum fyrirvara að beiðni sé komin fram um aðför hjá honum og um meginefni hennar. Honum skuli um leið tilkynnt hvar aðför muni byrja og sem nánast á hvaða tíma tiltekins dags. Tilkynningu skuli senda gerðarþola með útbornu ábyrgðarbréfi eða símskeyti eða birta honum af einum stefnuvotti.
Í 3. mgr. 21. gr. aðfararlaga séu tiltekin sex atriði sem geti valdið því að vikið sé frá tilkynningarskyldu. Ekkert af þeim atriðum hafi átt við í máli þessu.
Samkvæmt 72. gr. aðfararlaga skuli sýslumaður fullnægja rétti gerðarbeiðanda með útburði gerðarþola eða þeirra hluta sem fjarlægðir verða og eftir atvikum með innsetningu gerðarbeiðanda. Þetta sé erindisbréf sýslumanna við framkvæmd útburðarmála og það vald geti sýslumenn ekki framselt.
Um lagarök vísar sóknaraðili til eftirtalinna greina aðfararlaga nr. 90/1989: 20. gr., 21. gr. 26. gr., 72. gr. 92. gr. og 93. gr. Kröfu um málskostnað styður sóknaraðili við 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
VI.
Varnaraðili kveðst byggja frávísunarkröfu sína á efnislegri vanreifun málsins auk þess sem ómögulegt sé að lesa út úr greinargerð sóknaraðila á hvaða lagaheimild kröfur hans um heimild til þess að bera aðfarargerðina undir dómstóla sé byggð. Þá hafi sóknaraðili aukið við kröfur sínar frá þingfestingu málsins og sé krafist frávísunar á þeim hluta.
Verði ekki fallist á frávísunarkröfu varnaraðila sé þess krafist að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Í greinargerð sóknaraðila sé því haldið fram að fulltrúa sýslumanns hafi borið að tilkynna sóknaraðila um fyrirhugaða gerð. Þessu til stuðnings vísi sóknaraðili til ýmissa lagaákvæða sem gildi almennt um aðfarargerðir, en láti liggja milli hluta að fjalla um það ákvæði sem eigi við um aðfarargerðir er byggi á úrskurði héraðsdóms. Í því sambandi sé rétt að vísa til 84. gr. aðfararlaga þar sem segi að úrskurði héraðsdómara samkvæmt þessum kafla, þ.e. 13. kafla, megi fullhægja þegar með aðför nema sérstakur aðfararfrestur hafi verið tiltekinn í úrskurðinum.
Þá segi í greinargerð sóknaraðila að ekkert af þeim atriðum eigi við, sem tilgreind séu í 21. gr. aðfararlaga, er vikið geti frá tilkynningarskyldu um fyrirhugaða gerð. Ítreki varnaraðili í því sambandi það sem áður hafi komið fram að ekki sé gert ráð fyrir tilkynningu eða fresti til handa gerðarþola skv. 84. gr. laganna. Ef talið yrði skylt að tilkynna gerðarþola um fyrirhugaða gerð samkvæmt 84. gr. aðfararlaga megi einnig benda á 5. tl. 3. mgr. 21. gr. laganna þar sem segi að víkja megi frá skyldu til tilkynningar skv. 1. mgr., ef krafist sé aðfarar að undangengnum úrkurði héraðsdómara skv. 77. gr. eða 13. kafla. Þá segi í 2. tl. sömu greinar að víkja megi frá tilkynningarskyldu ef hætt þyki að gerðarþoli muni spilla fyrir aðför fái hann vitneskju um að hennar sé að vænta.
Útburður hafi verið framkvæmdur með þeim hætti sem lýst sé í málavöxtum þar sem m.a. hafi þótt hætta á að komið yrði undan þeim hlutum sem tilheyrðu húsnæðinu og skemmdir yrðu unnar á því. Greinileg ástæða hafi verið fyrir áhyggjum varnaraðila, enda hafi það komið í ljós þegar farið var að afhenda hluti úr húsnæðinu að sóknaraðili hafi haft mestan áhuga á að fjarlægja naglfasta hluti, en látið vera að fjarlægja það sem félaginu var heimilt.
Útburðurinn hafi farið fram með þeim hætti að skipt hafi verið um skrá á húsnæðinu. Lyklar að húsnæðinu hafi verið fengnir varnaraðila þar sem sóknaraðili hafi ekki mætt til boðaðrar fyrirtöku. Þegar hafi verið skorað á sóknaraðila að fjarlægja þá muni er tilheyrðu félaginu, sem ekki hafi verið lokið við, þar sem áhugi sóknaraðila hafi aðallega beinst að því að valda skemmdum á húsnæðinu. Því sé mótmælt sem ósönnu að sóknaraðili hafi tilkynnt við gerðina að leiguhúsnæði væri tilbúið sem hægt væri að færa það í sem tilheyrði félaginu.
Þá mótmæli varnaraðili kröfu sóknaraðila um að hægt sé að krefjast ógildingar á aðfarargerð sem byggi á úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, enda liggi það í hlutarins eðli að nauðsynlegt sé að krefjast útburðar að nýju, enda sé ekki lagaheimild til þess að krefjast beinnar aðfarargerðar á grundvelli gerðar sem ógilt hafi verið með dómi. Ógilding á útburðargerð sýslumannsins í Kópavogi hafi því enga þýðingu, enda sé húsnæðið í vörslum eiganda þess.
VII.
Eins og að framan greinir krefst varnaraðili þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi. Byggir hann þá kröfu sína á því að málið sé efnislega vanreifað og að auki á því að ómögulegt sé að lesa það út úr greinargerð sóknaraðila á hvaða lagaheimild kröfur hans byggi um heimild til að bera aðfarargerðina undir dómstóla. Af hálfu varnaraðila hefur ekki verið gerð nánari grein fyrir því í hverju efnisleg vanreifun málsins sé fólgin. Fyrir liggur í málinu að sóknaraðili telur að það að hann var ekki boðaður til gerðarinnar eigi að leiða til þess að ógilda beri gerðina. Hefur sóknaraðili reifað þessi sjónarmið sín með ótvíræðum hætti og fært fram lagarök. Verður ekki fallist á það með varnaraðila að vísa beri málinu frá dómi sökum vanreifunar. Í annan stað bendir varnaraðili á að ógjörningur sé að lesa það út úr greinargerð sóknaraðila á hvaða lagaheimild kröfur hans byggja um heimild til að bera aðfarargerðina undir dómstóla. Taka ber undir það með varnaraðila að þetta kemur ekki fram með skýrum hætti hvorki í tilkynningu sóknaraðila til dómsins né í greinargerð hans. Reglur sem lúta að þessu er að finna í 15. kafla aðfararlaga og hefði sóknaraðila verið rétt að vísa til þeirra í tilkynningu sinni. Allt að einu þykja ekki vera komnar fram nægar ástæður til að vísa málinu frá dómi af þessum sökum. Þá er á það bent að sóknaraðili hafi aukið við kröfur sínar frá þingfestingu málsins og krefst varnaraðili frávísunar þeirrar kröfugerðar. Hér er um það að ræða að sóknaraðili krefst ógildingar þeirrar ákvörðunar sýslumanns að fela lögmanni varnaraðila umráð húsnæðisins að Bæjarlind 6, Kópavogi, áður en útburður eigna sóknaraðila hafði farið fram. Í 93. gr. aðfararlaga er mælt fyrir um hvað koma þurfi fram í tilkynningu til héraðsdómara hjá þeim sem krefst úrlausnar um aðfarargerð. Meðal þess sem þar þarf að koma fram er hvers krafist er fyrir héraðsdómara. Í þessu hefur það verið talið felast að sá sem úrlausnarinnar leitar verði þegar á því stigi að gera sambærilega grein fyrir kröfum sínum, málsástæðum, öðrum atvikum og lagarökum og gera þarf í stefnu. Sóknaraðili gat ekki í tilkynningu sinni til héraðsdóms þeirrar kröfu sem að framan greinir. Verður hann að bera hallann af því að hafa látið hjá líða að geta þessara málsástæðna. Samkvæmt því ber að vísa frá dómi viðbótarkröfu sóknaraðila sem fram kemur í greinargerð hans, sbr. 1. mgr. 93. gr. aðfararlaga, sbr. og 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Að framangreindri niðurstöðu fenginni verður ógildingarkrafa sóknaraðila tekin til efnislegrar umfjöllunar. Sem fyrr greinir byggir sóknaraðili ógildingarkröfu sína á því að fulltrúi sýslumannsins í Kópavogi boðaði hvorki til aðfarargerðarinnar né lét vita af því hvenær gerðin skyldi fara fram. Samkvæmt sérreglu sem kemur fram í 5. tl. 3. mgr. 21. gr. aðfararlaga þarf sýslumaður ekki að boða gerðarþola til aðfarargerðar. Þessi regla á við í þeim tilvikum þegar aðfarar er krafist samkvæmt úrskurði héraðsdómara eftir 13. kafla aðfararlaga. Á þessi regla við um beinar aðfarargerðir, en til þeirra teljast útburðargerðir. Samkvæmt framansögðu er ljóst að aðfarargerðin sem mál þetta snýst um verður ekki ógilt á þeim grundvelli að sýslumanni hafi verið skylt að boða varnaraðila til gerðarinnar.
Málatilbúnað sóknaraðila verður að skilja svo að það hvernig staðið var að framkvæmd hinnar umdeildu aðfarargerðar af hálfu sýslumanns leiði til þess að ógilda beri gerðina af þeim sökum. Þykir í því sambandi rétt að rekja nokkuð hvernig bókunum sýslumanns var háttað.
Gerðin fór þannig fram að hún hófst á skrifstofu sýslumanns þriðjudaginn 5. desember sl. og voru þá lögð fram tvö skjöl, þ.e aðfararbeiðni og úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur upp kveðinn 29. nóvember 2000. Bókað var hver mætti f.h. gerðarbeiðanda. Því næst var bókað að krafist væri útburðar gerðarþola úr húsnæði gerðarbeiðanda að Bæjarlind 6, Kópavogi, með beinni aðfarargerð samkvæmt framangreindum úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur. Því næst var bókað að gerðarþoli hafi ekki verið boðaður að beiðni lögmanns gerðarbeiðanda. Haldið var að Bæjarlind 6, Kópavogi, þar sem fyrir hittist Guðbjörg Ósk Gunnarsdóttir, fyrirsvarsmaður gerðarþola. Síðar kom einnig Íris Hafsteinsdóttir, fyrirsvarsmaður gerðarþola. Þessu næst var bókað að Guðbjörg Ósk hafi hringt í lögmann gerðarþola og að hann mótmæli útburðarbeiðninni, því að ekki hafi verið boðað til gerðarinnar og loks að hann óskaði eftir fresti f.h. gerðarþola. Þá var bókað að lögmaður gerðarbeiðanda hafnaði öllum fresti. Gerðarbeiðandi væri einnig mættur og að hann skipti um skrá og afhendi fulltrúa sýslumanns lyklana og að hann muni hafa þá í sinni vörslu. Því næst er bókað að fulltrúi sýslumanns muni boða lögmenn gerðarbeiðanda og gerðarþola til fyrirtöku 7. desember klukkan 10 vegna ágreinings um innanstokksmuni. Loks var bókað að Guðbjörg Ósk Gunnarsdóttir læsi bókunina yfir.
Fimmtudaginn 7. desember sl. tók sýslumaður útburðarmálið aftur fyrir í skrifstofu sinni. Bókað var að gerðarbeiðandi væri mættur ásamt lögmanni sínum. Lögmaður gerðarþola hafi verið látinn vita af þessari fyrirtöku gerðarinnar, en hann hafi tilkynnt fulltrúa sýslumanns að hann myndi ekki mæta. Þá var bókað að lögmaður gerðarbeiðanda óskaði eftir að fá afhenta lykla þá sem fulltrúi sýslumanns væri með í vörslu sinni að húsnæði gerðarbeiðanda að Bæjarlind 6, Kópavogi. Loks var bókað að lögmanninum hafi verið afhentir lyklarnir. Muni lögmaður gerðarbeiðanda hafa samráð við lögmann gerðarþola um að gerðarþoli rými húsnæði gerðarbeiðanda.
Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið er ljóst að framkvæmd útburðargerðarinnar lauk þann 7. desember sl. með því að sýslumaður afhenti lögmanni gerðarbeiðanda lykla að umræddu húsnæði og þar með umráð þess. Voru umráð húsnæðisins því í raun í höndum sýslumanns frá 5. til 7. desember sl. Enda þótt ekki hafi verið bókað að sýslumaður afhenti lögmanni gerðarbeiðanda umráð eignarinnar svo sem rétt hefði verið að gera til að taka af öll tvímæli verður ekki með neinu móti litið svo á að það hvernig gerðin fór fram leiði til þess að hana beri að ógilda á þeim grundvelli hvernig staðið var að framkvæmd hennar.
Samkvæmt því sem rakið hefur verið verður niðurstaða málsins sú að synjað er kröfu sóknaraðila um ógildingu hinnar umþrættu aðfarargerðar.
Eftir þessum úrslitum verður sóknaraðili úrskurðaður til að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 60.000 krónur.
Júlíus B. Georgsson settur héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kröfu sóknaraðila, Lindarsólar ehf., um að ógilt verði útburðargerð sýslumannsins í Kópavogi í málinu nr. 9/2000, sem fram fór hjá sóknaraðila að kröfu varnaraðila, Sigurðar Hilmarssonar, og hófst hjá sýslumanninum í Kópavogi 5. desember 2000 og lauk 7. sama mánaðar, er synjað.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 60.000 krónur í málskostnað.