Hæstiréttur íslands

Mál nr. 257/2002


Lykilorð

  • Lausafjárkaup


Fimmtudaginn 6

 

Fimmtudaginn 6. febrúar 2003.

Nr. 257/2002.

Bendi ehf.

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

gegn

GK heildverslun ehf.

(Árni Vilhjálmsson hrl.)

og gagnsök

 

Lausafjárkaup.

G ehf. keypti alla heildsölustarfsemi B ehf. á sviði þvottahúsa- og efnalaugavara. Var hinu selda lýst sem heildsölurekstri sem fælist í sölu á sápum til nota í þvottahúsrekstri og öllum lager tengdum heildsölu á þeim sápuefnum, þar með töldum sápudælum. Í málinu deildu aðilar um hvort G ehf. hefði keypt allan lagerinn eða aðeins hluta hans, en strax eftir undirritun kaupsamningsins átti að fara fram á talning á honum. Þá deildu þeir um hvort G ehf. væri bundið við kaup á sápudælum og öðrum einstökum hlutum í lagernum. Í málinu var upplýst að forráðamenn aðilanna stóðu saman að því að telja þann hluta lagersins sem var á neðri hæð geymsluhúsnæðis eftir undirritun kaupsamningsins. Ekki varð hins vegar af því að þeir teldu hinn hlutann þrátt fyrir að B ehf. gengi eftir að svo yrði gert. Fór svo að forráðamaður B ehf. réðst sjálfur í að telja og verðleggja lagerinn á efri hæðinni með aðstoð starfsmanns G ehf. Af hálfu G ehf. var hins vegar viðurkennt að félagið hefði ekki aðeins selt af þeim hluta lagersins, sem það taldi sig hafa keypt, heldur einnig hinum hlutanum. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að B ehf. hafi við þessar aðstæður ekki átt annarra kosta völ en að vinna talninguna með þeim hætti, sem félagið gerði. Sé ósannað að G ehf. hafi af greiðasemi við B ehf. selt eða tekið til sín ýmsan varning af þeim hluta lagersins, sem félagið taldi sig þó ekki hafa keypt. Hafi G ehf. hvorki skilað söluandvirði þessa varnings til B ehf. né haldið því aðskildu frá sínu eigin fé. Var því fallist á kröfu B ehf. um greiðslu úr hendi G ehf. fyrir allan vörulagerinn. Þá var G ehf. talið bundið við kaup á sápudælum eins og öðrum einstökum hlutum í vörulager B ehf.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. júní 2002. Hann krefst þess að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 1.651.834 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 1.250.612 krónum frá 1. október 2000 til 13. sama mánaðar, af 650.612 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2000, af 1.301.223 krónum frá þeim degi til 1. desember sama árs, af 2.551.834 krónum frá þeim degi til 19. sama mánaðar og af 1.651.834 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 11. september 2002. Hann krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfu aðaláfrýjanda og honum dæmdur málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur og honum dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.

I.

Deila málsaðila er sprottin af samningi þeirra 16. ágúst 2000, en samkvæmt 1. gr. hans keypti gagnáfrýjandi „alla heildsölustarfsemi seljanda á sviði þvottahúsa- og efnalaugavara.“ Í 2. gr. er nánari lýsing hins selda þar sem segir að um sé að ræða „heildsölurekstur sem felst í sölu á sápum til nota í þvottahúsrekstri og allan lager tengdan heildsölu á þeim sápuefnum, þ.m.t. sápudælur.“ Segir í sömu grein að hluti samningsins sé framsal á samstarfssamningum aðaláfrýjanda við Fönn ehf. og Grýtu hraðhreinsun ehf., þar sem kveðið sé á um kaupskyldu þessara félaga á þvottaefnum af aðaláfrýjanda. Í greininni segir einnig að forsendur samningsins miðist við 40% „meðalálagningu og meðalsölu“ til nefndra viðskiptamanna og fjárhæðir í þeim viðskiptum síðan nánar tilgreindar. Í 3. gr. er kveðið á um kaupverð, en í 1. mgr. þeirrar greinar segir að það skuli vera 2.800.000 krónur „auk matsverðs á lager skv. 2. mgr. og veltutengdri viðbótargreiðslu skv. 3. mgr.“ Umrædd 2. mgr. 3. gr. hljóðar svo: „Strax eftir undirritun kaupsamnings þessa skal fara fram talning og mat á lager félagsins sem verðleggst miðað við söluverð án virðisaukaskatts að frádreginni álagningu, sem felur í sér niðurfærslu söluverðs um 28,572%.“ Í 3. mgr. 3. gr. segir síðan að til viðbótar föstu kaupverði samkvæmt 1. mgr. skuli gagnáfrýjandi greiða eingreiðslu eigi síðar en 10. janúar 2001, en fjárhæð hennar ráðist með nánar tilgreindum hætti af meðalsölu fjögurra síðustu mánaða ársins 2000. Ákvæði annarra greina samningsins, sem aðilar hafa vísað til í málinu, er nánar lýst í héraðsdómi.

Enginn ágreiningur er með aðilum um þær greiðslur, sem kveðið er á um í 1. mgr. og 3. mgr. 3. gr. samnings þeirra. Þeir eru hins vegar ekki á eitt sáttir um hvað felist í honum varðandi kaup á vörulager aðaláfrýjanda og um verð fyrir hann. Heldur aðaláfrýjandi fram að samið hafi verið um að gagnáfrýjandi skyldi kaupa allan vörulagerinn að engu undanskildu. Vísar hann til þess að aðilarnir hafi áður starfað að hluta til á sama markaði við vörusölu og þjónustu við þvottahús og efnalaugar og að gagnáfrýjandi hafi með samningnum keypt upp starfsemi keppinautar síns. Aðaláfrýjandi hafi verið að hætta starfsemi sinni og aldrei hafi annað staðið til en að selja heildsölustarfsemina og þar með vörulagerinn í einu lagi. Þjónusta aðaláfrýjanda við þvottahús og efnalaugar hafi ekki aðeins falist í afhendingu á sápuvörum, sem hafi selst hratt af lager hans, heldur einnig sölu á margs konar annarri vöru, sem gekk út á lengri tíma, en nauðsynlegt hafi verið engu að síðar að eiga hana á lager til að geta boðið upp á víðtæka þjónustu. Af slíkum varningi hafa til dæmis verið nefnd vírherðatré og fjölmargt annað. Vísar aðaláfrýjandi meðal annars til 1. gr. samningsins og telur orðalag hennar styðja sjónarmið sín um efni hans. Það geri einnig háttsemi gagnáfrýjanda eftir samningsgerðina, sbr. II. kafla hér á eftir. Ástæða þess að tekið sé sérstaklega fram í 2. gr. að sápudælur fylgi með í kaupunum hafi verið til að taka af öll tvímæli, en til umræðu hafi komið við samningsgerðina hvort kaupin skyldu ná til þeirra. Engin álitaefni hafi verið um aðra hluti á lagernum og því óþarft með öllu að geta um neitt annað sérstaklega. Gagnáfrýjandi heldur á hinn bóginn fram að samningurinn leggi ekki á hann skyldu til að taka við öllum vörulagernum, heldur aðeins hluta hans. Því til stuðnings vísar hann einkum til 2. gr., sem hafi að geyma nánari lýsingu á hinu selda. Þar sé skýrlega tekið fram að um sé að ræða sápu til nota í þvottahúsarekstri og allan lager tengdan heildsölu á þeim sápuefnum. Annað falli þar utan við, en meirihlutinn af lagernum hafi þó fallið í þann flokkinn, sem telst vera sápuefni. Vísar hann þá einkum til vöru frá framleiðandanum Kreussler í Þýskalandi, en viðskipti við hann hafi falið í sér verðmætasta þáttinn í hinu keypta. Að því er varðar sápudælurnar hafi komið í ljós að ekki hafi verið þörf á þeim til að uppfylla samstarfssamninga við áðurnefnda tvo viðskiptamenn, andstætt því sem aðaláfrýjandi hafi haldið fram við samningsgerðina. Forsendur séu því brostnar fyrir kaupum á þeim og sé gagnáfrýjandi óbundinn af samningnum að því leyti.

II.

Svo sem fram er komið sagði í 2. mgr. 2. gr. kaupsamningsins að strax eftir undirritun hans skyldi fara fram talning og mat á vörulager aðaláfrýjanda. Þessu ákvæði var fylgt eftir að því leyti að forráðamenn aðilanna stóðu saman að því að telja þann hluta lagersins, sem var geymdur á neðri hæð geymslurýmis aðaláfrýjanda, en ekki liggur nákvæmlega fyrir hvenær það var gert. Ekki varð hins vegar af því að þeir teldu hinn hlutann, sem var geymdur á efri hæðinni, þrátt fyrir að aðaláfrýjandi gengi eftir að svo yrði gert. Bar gagnáfrýjandi við önnum í fyrri hluta september 2000 vegna heimsóknar fulltrúa Kreussler til hans. Fór svo að forráðamaður aðaláfrýjanda réðst sjálfur í að telja og verðleggja lagerinn á efri hæðinni með aðstoð nafngreinds starfsmanns gagnáfrýjanda, sem fyrir kaupin hafði starfað hjá aðaláfrýjanda. Heldur aðaláfrýjandi fram að ekki hafi mátt dragast lengur að telja lagerinn, enda hafi gagnáfrýjandi verið kominn með umráð yfir honum þegar þarna var komið. Hafi forráðamaður aðaláfrýjanda gengið í verkið áður en hann fór til útlanda um miðjan september þar sem hann hafi dvalist næstu tvær vikurnar. Lagði aðaláfrýjandi í kjölfar talningarinnar fram yfirlit úr vörutalningarbók, sem hann styður kröfur sínar við. Telur hann verðmæti lagersins samkvæmt þessu hafa numið 3.751.834 krónum, sem gagnáfrýjandi hafi samkvæmt 4. gr. samningsins átt að inna af hendi á gjalddögum 1. október, 1. nóvember og 1. desember 2000. Hann hafi hins vegar aðeins greitt upp í það 2.100.000 krónur og nemi mismunurinn kröfufjárhæðinni. Gagnáfrýjandi mótmælir að þessi talning aðaláfrýjanda geti bundið hann á nokkurn hátt, en með henni hafi hinn síðarnefndi ætlað að losna á auðveldan hátt við allt, sem safnast hafi upp hjá honum á löngum tíma. Þá hafi nefndur starfsmaður ekki haft umboð til að taka þátt í vörutalningunni fyrir sína hönd, enda hafi gagnáfrýjandi ekki vitað af henni fyrirfram.

Óumdeilt er að vörulagerinn var eftir kaupin geymdur áfram í húsnæði aðaláfrýjanda. Gagnáfrýjandi fékk hins vegar umráð yfir honum eigi síðar en 1. september 2000 með því að honum voru afhentir lyklar að húsnæðinu. Hóf  hann þegar að selja vörur af lagernum. Viðurkennir gagnáfrýjandi að hann hafi ekki aðeins selt af þeim hluta lagersins, sem hann telur sig hafa keypt, heldur einnig hinum hlutanum. Gefur hann þá skýringu að þetta hafi hann gert til að hjálpa aðaláfrýjanda við að losna við „þá þungu lagervöru“, sem um hafi verið að ræða. Aðaláfrýjandi mótmælir þessari skýringu gagnáfrýjanda og heldur fram að ekki hafi verið farið fram á neina slíka greiðasemi. Þvert á móti hafi hann frá upphafi krafist greiðslu á grundvelli yfirlits úr vörutalningarbók og ekki ljáð máls á neinu öðru. Ef ónákvæmar upplýsingar um vörulagerinn hafi legið fyrir við kaupin, svo sem gagnáfrýjandi haldi fram, hafi talningin átt að leysa þann vanda.

III.

Samningur málsaðila er óskýr að því er varðar kaup á vörulager og verður ekki dregin ótvíræð niðurstaða af orðalagi hans. Við úrlausn málsins verður því að líta til fleiri atriða og þá einkum skýringa aðilanna og háttsemi þeirra í kjölfar samningsgerðarinnar.

Ótvírætt er að samkvæmt 2. mgr. 3. gr. kaupsamningsins skyldi talning og mat á lagernum fara fram strax eftir undirritun. Er einnig hafið yfir vafa að þetta ákvæði var ekki efnt um hluta lagersins af ástæðum, sem gagnáfrýjandi bar ábyrgð á. Því brýnna var að við þetta yrði staðið, þar sem gagnáfrýjandi hafði fengið umráð lagersins og hóf þegar að selja úr honum þótt hann teldi sig ekki geta staðið við þá samningsskyldu að talið yrði án tafar. Verður að fallast á með aðaláfrýjanda að við þessar aðstæður hafi hann ekki átt annarra kosta völ en að vinna verkið með þeim hætti, sem hann gerði.

Forráðamaður gagnáfrýjanda gaf skýrslu fyrir dómi. Af svörum hans verður ráðið að gagnáfrýjandi hafi selt eða tekið til sín ýmsan varning af lager aðaláfrýjanda, sem hinn fyrrnefndi taldi sig þó ekki hafa keypt. Sú ástæða að hann hafi gert þetta af greiðasemi við seljandann er ósönnuð. Engin skýr svör fengust heldur þótt ítarlega væri spurt við skýrslutökuna um hvaða vörur það nákvæmlega voru, sem hann seldi af lagernum, án þess að hafa keypt þær áður. Fram kom hins vegar að gagnáfrýjandi hefur hvorki skilað söluandvirði þessa varnings til aðaláfrýjanda né haldið því aðskildu frá sínu eigin fé.

Samkvæmt framanröktu stóð gagnáfrýjandi ekki við skyldu sína samkvæmt 2. mgr. 3. gr. kaupsamningsins og gerðir hans eftir viðtöku vörulagersins voru í engu samræmi við staðhæfingar hans um efni samningsins. Þær komu að auki ekki fram með ótvíræðum hætti fyrr en með bréfi 20. janúar 2001 þrátt fyrir að fullt tilefni hafi gefist til að hafa þær uppi þegar er aðaláfrýjandi lagði fram niðurstöðu vörutalningarinnar og krafðist greiðslu, sbr. 1. mgr. 4. gr. og 6. gr. þágildandi laga um lausafjárkaup nr. 39/1922. Samkvæmt öllu því, sem fram er komið, verður fallist á kröfu aðaláfrýjanda um greiðslu úr hendi gagnáfrýjanda fyrir allan vörulagerinn. Hefur gagnáfrýjandi engum rökum stutt að vörutalningarbók aðaláfrýjanda sýni ekki rétt magn eða verð vörunnar. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða hans að gagnáfrýjandi sé bundinn við kaup á sápudælum eins og öðrum einstökum hlutum í vörulager aðaláfrýjanda.

Í varakröfu gagnáfrýjanda felst meðal annars að staðfest verði sú niðurstaða héraðsdóms að lækka kröfu aðaláfrýjanda um 200.000 krónur vegna varnings frá Kreussler, sem móttekinn var í júní 2000. Var það gert á þeim grundvelli að leitt hafi verið í ljós varðandi þennan varning að ekki hafi verið tekið fullt tillit til forsendna um 40% meðalálagningu, sem lýst sé í 2. gr. kaupsamningsins, og verð vörunnar lækkað til samræmis við það. Aðaláfrýjandi mótmælir að krafan sé á rökum reist auk þess sem málsástæðan, sem að þessu lýtur, hafi fyrst komið fram þegar málið var endurupptekið í héraði eftir aðalmeðferð þess. Þessi málsástæða kemur ekki fram í greinargerð gagnáfrýjanda í héraði og er hún of seint fram komin. Verður þegar af þeirri ástæðu ekki fallist á þessa varakröfu gagnáfrýjanda.

Í héraðsdómi er gerð grein fyrir kröfu gagnáfrýjanda um skuldajöfnuð vegna skuldbindinga aðaláfrýjanda samkvæmt 5. gr. og 10. gr. kaupsamningsins, sem gagnáfrýjandi telur hann ekki hafa efnt. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hafnað kröfu, sem reist er á þessum ástæðum.

Niðurstaða málsins verður samkvæmt öllu framanröktu sú að gagnáfrýjandi verður dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda 1.651.834 krónur með vöxtum, eins og nánar greinir í dómsorði. Gagnáfrýjandi skal jafnframt greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Gagnáfrýjandi, GK heildverslun ehf., greiði aðaláfrýjanda, Bendi ehf., 1.651.834 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 1.250.612 krónum frá 1. október 2000 til 13. sama mánaðar, af 650.612 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2000, af 1.301.223 krónum frá þeim degi til 1. desember sama árs, af 2.551.834 krónum frá þeim degi til 19. sama mánaðar og af 1.651.834 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda samtals 450.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 4. mars 2002.

Mál þetta, sem dómtekið var 4. f.m., er höfðað 8. febrúar 2001 af Bendi ehf., Birkigrund 25 í Kópavogi, á hendur GK heildverslun ehf., Smiðjuvegi 4, Kópavogi.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 1.651.834 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 1.250.612 krónum frá 1. október 2000 til 13. sama mánaðar, en af 650.612 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2000, en af 1.301.223 krónum frá þeim degi til 1. desember 2000, en af 2.551.834 krónum frá þeim degi til 19. sama mánaðar, en af 1.651.834 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001, en frá þeim degi til greiðsludags með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá er krafist málskostnaðar.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar. Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar og málskostnaður falli niður.

Mál þetta var upphaflega dómtekið við lok aðalmeðferðar 20. nóvember 2001. Það var síðan endurupptekið á grundvelli heimildar í 104. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála 19. desember sl. Að undangenginni gagnaöflun, sem fram fór í kjölfar endurupptökunnar, var málið flutt munnlega að nýju 4. f.m.

I.

Stefnandi málsins hafði á sínum tíma með höndum heildsölustarfsemi á sviði þvottahúsa- og efnalaugavara. Hinn 16. ágúst 2000 gerðu málsaðilar með sér samning um kaup stefnda á þessum rekstri stefnanda. Er hið selda tilgreint þannig í 1. gr. samningsins að um sé að ræða „alla heildsölustarfsemi seljanda á sviði þvottahúsa- og efnalaugavara”. Í 2. gr. samningsins er hinu selda lýst nánar. Þar segir svo: „Um er að ræða heildsölurekstur sem felst í sölu á sápum til nota í þvottahúsarekstri og allan lager tengdan heildsölu á þeim sápuefnum, þ.m.t. sápudælur. Hluti af samningi þessum er framsal á samstarfssamningum seljanda við Fönn hf. [...] og Grýtu hraðhreinsun ehf. [...] báðir dags. í mars 2000, þar sem kveðið er á um kaupskyldu Fannar hf. og Grýtu hraðhreinsun ehf. á þvottaefnum af seljanda. Forsendur samningsins miðast við 40% meðalálagningu [...]” Umsamið kaupverð var 2.800.000 krónur auk matsverðs á lager og veltutengdrar viðbótargreiðslu. Skyldi talning og mat á lager fara fram strax eftir undirritun samningsins og verðlagning hans miðast við söluverð án virðisaukaskatts að frádreginni álagningu, sem fæli í sér niðurfærslu söluverðs um 28,572%. Greiðsla fyrir lager skyldi samkvæmt 4. gr. samningsins innt af hendi með þremur jöfnum greiðslum 1. október, 1. nóvember og 1. desember 2000. Talningu á lager mun hafa lokið í september 2000, en ekki er ljóst hvenær hún hófst. Greinir aðila ekki á um það hvaða vörur hafi verið á lager stefnanda þegar talning á honum fór fram. Stefndi heldur því hins vegar fram að hann hafi ekki skuldbundið sig til þess með samningi aðila að kaupa lagerinn í heild sinni heldur eingöngu þann hluta hans sem falli undir tilgreiningu á hinu selda í 2. gr. samningsins og tilheyrt geti heildsölu á sápuefnum. Þá hafnar hann því verðmati sem lagt er til grundvallar í kröfugerð stefnanda. Í samræmi við þessi sjónarmið hefur stefndi greitt stefnanda fyrir lager 2.100.000 krónur, en neitað frekari greiðslu. Þá telur hann sig eiga skaðabótakröfu á hendur stefnanda sem skuldjafna megi við hugsanlega fjárkröfu stefnanda vegna lagers. Byggir hann bótakröfuna á því að stefnandi hafi vanefnt skyldur sínar samkvæmt 5. og 10. gr. samningsins. Fyrri greinin hljóðar svo: „Seljandi skuldbindur sig til að vinna að framgangi hins selda rekstrar eins og kostur er með það að markmiði að tryggja eins og hægt er áframhaldandi viðskipti þeirra sem nú skipta við seljanda. Í því skyni skuldbindur seljandi sig til þess að hafa milligöngu um að koma á persónulegum samskiptum milli kaupanda og erlendra birgja. Með því er átt við að seljandi skuldbindur sig til að funda með erlendum birgjum og kaupanda sameiginlega eða heimsækja erlenda birgja með kaupanda, eins og þörf er á miðað við eðlilegar aðstæður. Kaupandi ber allan kostnað af slíkum heimsóknum eða fundum með birgjum.” Þá er í 10. gr. samningsins kveðið á um það að hann sé gerður með fyrirvara um samþykki Kreussler Gmbh. í Þýskalandi þess efnis að stefndi verði umboðsaðili fyrir vörur hins þýska félags á Íslandi. Heldur stefndi því fram að með þessu samningsákvæði hafi stefnandi skuldbundið sig til að tryggja það að stefndi fengi einkaumboð fyrir vörur frá Kreussler hér á landi. Það hafi ekki gengið eftir. Stefnandi hafnar bótakröfu stefnda alfarið. Byggir hann dómkröfu sína á því að stefnda sé samkvæmt samningnum skylt að standa honum skil á greiðslu fyrir allar þær vörur sem tilgreindar eru í vörutalningarbók og í samræmi við það verðmat sem þar er lagt á þær. Heildarkrafa stefnanda fyrir lager hafi að þessu gættu numið 3.751.834 krónum. Krefur hann stefnda nú um greiðslu þeirrar fjárhæðar sem á vantar miðað við fullar efndir samkvæmt þessu, eða 1.651.834 krónur.

II.

Stefnandi byggir dómkröfu sína á kaupsamningi aðila og niðurstöðu vörutalningar og mats á lager, sem hann kveður samninginn hafa tekið til. Með því að verðmæti lagersins hafi numið 3.751.834 krónum hafi stefnda borið að greiða 1.250.611 krónur á hverjum þeirra þriggja gjalddaga sem tilgreindir séu í samningnum og einni krónu betur. Heildargreiðsla stefnda fyrir lagerinn nemi hins vegar aðeins 2.100.000 krónum. Sundurliðast sú greiðsla þannig að 600.000 krónur voru inntar af hendi 13. október 2000, 600.000 krónur 1. nóvember sama árs og 900.000 krónur 12. desember sama árs.

Í stefnu er því haldið fram að krafa stefnanda um greiðslu á 3.751.834 krónum fyrir lager hafi legið fyrir um miðjan september 2000. Hafi stefnda í samræmi við fyrirmæli 52. gr. þágildandi laga um lausafjárkaup nr. 39/1922 borið að hafa uppi andmæli vegna þeirrar kröfu þegar í stað ef hann hefði það á annað borð í hyggju, enda sé um verslunarkaup að ræða. Það hafi hann ekki gert og því sé honum ekkert hald í málsástæðu sem snýr að því að stefnandi hafi vanefnt samninginn eða krafa stefnanda um greiðslu fyrir lager eigi af öðrum ástæðum ekki rétt á sér.   

Í skýrslu fyrirsvarsmanns stefnanda, Bent Frisbæk, fyrir dómi kom fram að í samningaviðræðum um kaup stefnda á rekstri stefnanda og síðar í kaupsamningi þeirra í milli hafi það verið skilningur beggja málsaðila að stefndi væri að kaupa starfsemi stefnanda í heild sinni, þar með talið allan lager. Stefnandi hafi verið að hætta rekstri og fráleitt sé að líta svo á að kaupsamningur hafi eingöngu átt að taka til hluta rekstrarins svo sem stefndi haldi nú fram. Þvottahús og efnalaugar hafi getið snúið sér til stefnanda og fengið þar allar þær vörur sem tengjast rekstri þeirra. Þessar vörur hafi verið á lagernum sem stefndi hafi keypt samkvæmt samningnum og ekkert umfram það. Þá hélt Bent því fram að fyrirsvarsmaður stefnda hafi fyrst borið því við stuttu eftir 19. desember 2000 að hann hefði ekki verið að kaupa allan lagerinn. Fram að því hafi stefndi borið við peningaleysi þegar stefnandi hafi gengið eftir efndum á samningnum. Að sögn Bents fór vörutalning fram í tveimur áföngum. Fyrirsvarsmaður stefnda hafi ásamt honum tekið þátt í talningu á sápum og sápuefnum frá Kreussler. Afganginn hafi Bent hins vegar talið með fyrrum starfsmanni stefnanda, Bjarklindi Aldísi Guðlaugsdóttur, en hún hafi verið orðinn starfsmaður stefnda þegar talningin fór fram. Áður en þessi seinni hluti talningarinnar fór fram hafi Bent gengið eftir því við fyrirsvarsmann stefnda að hann kæmi að talningunni og að lokið yrði við hana sem allra fyrst. Fyrirsvarsmaður stefnda hafi færst undan þessu. Þar sem Bent hafi verið á förum til útlanda um miðjan september hafi það orðið úr að Bjarklind aðstoðaði hann við talninguna. Kvaðst Bent líta svo á að fyrirsvarsmaður stefnda hafi samþykkt þá tilhögun. Þá hafnaði Bent því alfarið að stefnandi hafi vanefnt samning sinn við stefnda. Þannig kvaðst hann hafa unnið að því þegar eftir því hafi verið leitað að tryggja í þágu stefnda viðskiptasambönd við aðila sem áður hefðu verið í viðskiptum við stefnanda. Þá hafi stefnandi ekki haft einkaumboð fyrir Kreussler vörur þegar samningurinn var gerður. Aldrei hafi þannig verið inni í myndinni að stefnandi ætti að tryggja það að stefndi fengi einkaumboð fyrir þessar vörur hér á landi.

III.

Í greinargerð stefnda er sýknukrafa hans byggð á því að hann hafi þegar staðið við allar skuldbindingar sínar samkvæmt kaupsamningi aðila og eigi stefnandi því engar kröfur á hendur honum. Á grundvelli 2. gr. samningsins hafi stefndi staðið í þeirri trú að hann væri eingöngu að kaupa þann hluta lagers stefnanda sem þar sé tilgreindur, en ekki lagerinn í heild sinni. Utan við samninginn falli vörur sem ekki séu tengdar sápum til nota í þvottahúsrekstri. Í kröfugerð stefnanda felist hins vegar að stefndi sé krafinn um greiðslu fyrir vörur sem eigi ekkert skylt við þann rekstur sem hann hafi fest kaup á. Sem dæmi um þetta megi nefna handklæðarúllur, tauslá, straujárn, þvottanet, gufutæki og pressunartæki, úðara, merkipenna, stálullarmottur, stál á rúllur, taupoka, buxnaklemmur, bretti, klemmur, bursta, rakvélar, klúta, heftilosara, hefti og herðartréstanda. Þá vísar stefndi til þess að samkvæmt 2. mgr. 3. gr. kaupsamningsins skyldi fara fram talning og mat á lager stefnanda og kaupverð hans miðast við það mat. Sé ljóst að stefnandi hafi enga heimild haft til að meta lagerinn einhliða og setja síðan fram kröfu um greiðslu samkvæmt því mati. Þetta einhliða mat stefnanda á lagernum samkvæmt vörutalningarbók hans sýni engan veginn raunverulegt virði þess lagers sem stefndi hafi talið sig vera að kaupa.

Verði ekki á ofangreint fallist er á því byggt að stefndi eigi skaðabótakröfu á hendur stefnanda vegna tjóns sem hann hafi orðið fyrir og stafi af vanefndum stefnanda á kaupsamningnum sem skuldajafna megi gegn hugsanlegri kröfu stefnanda vegna kaup stefnda á lager. Þannig hafi það verið forsenda fyrir kaupum stefnda að hann yrði einkaumboðsaðili fyrir þýska fyrirtækið Kreussler hér á landi. Hafi þetta verið áréttað í bréfi sem fyrirsvarsmenn beggja málsaðila hafi ritað hinu þýska fyrirtæki 31. ágúst 2000. Síðar hafi komið í ljós að stefndi gæti ekki fengið einkaumboð til sölu á vörum frá Kreussler á Íslandi. Stefnandi hafi því ekki staðið við kaupsamninginn að þessu leyti. Hafi þessi vanefnd leitt til þess að stefndi hafi orðið að lækka söluverð á vörum frá Kreussler um allt að 20% í sumum tilvikum frá söluverði þeirra hjá stefnanda. Nemi tjón stefnda vegna þessa að minnsta kosti jafn hárri fjárhæð og stefnukröfu málsins. Auk þessa hafi stefnandi samkvæmt 5. gr. kaupsamningsins skuldbundið sig til þess að vinna að framgangi hins selda rekstrar eins og kostur væri með það að markmiði að tryggja áframhaldandi viðskipti þeirra aðila sem skipt hafi við stefnanda. Þetta hafi ekki gengið eftir, aðallega vegna þeirrar deilu sem upp hafi komið á milli aðila vegna mats á lager. Hafi þetta valdið stefnda tjóni þar sem samvinna við stefnanda hafi verið stefnda nauðsynleg til þess að hann næði tökum á þeim markaði sem hann hafi verið að fara inn á með þeim kaupum sínum sem hér um ræðir.

Stefndi mótmælir þeim skilningi stefnanda að 52. gr. laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup eigi við um viðskipti málaðila. Þannig sé það röng fullyrðing hjá stefnanda að stefndi hafi ekki í tíma haft uppi kvartanir við stefnanda vegna þeirrar fjárkröfu sem stefnandi hafi gert á hendur honum vegna lagers. Þá séu lögin frávíkjanleg skýringarlög sem eingöngu verði beitt ef ekkert annað sé berum orðum umsamið eða verið talið fólgið í samningi. Í samræmi við 2. gr. kaupsamnings aðila hafi ekki verið ástæða til þess fyrir stefnda að kvarta yfir verðmati á lager fyrr en talning á honum og mat hafði farið fram. Fram að þeim tíma hafi stefndi ekki haft ástæðu til að ætla að við verðmatið yrði ekki tekið tillit til seljanleika þeirrar vöru sem á lagernum var, hvort um gamla eða nýja vöru væri að ræða eða hvort hún yfir höfuð félli að þeirri skilgreiningu sem gefin sé á hinu selda í 2.gr. samningsins.   

IV.

Á meðal gagna málsins er bréf sem fyrirsvarsmaður stefnda, Gunnar Kristinsson, ritaði stefnanda 20. janúar 2001. Í bréfinu segir svo meðal annars: „Mér var ljóst að á þínum lager voru ýmsar vörur sem höfðu safnast saman hjá þér gegnum [árin] og margt af þeim vörur sem engin hreyfing var í. Það hvarflaði aldrei að mér að taka þessa vöru með í kaupunum, en hins vegar kvaðst ég geta orðið þér innan handa við að koma henni út á einhverjum ótilgreindum tíma og tel ég mig hafa staðið við það á undanförnum mánuðum. [...] Þá kem ég að mati lagers, en eins og þú manst þá var gríðarleg vinna því samfara að koma þessum málum af stað í byrjun september og var þá slæmt að hafa þá ekki verið búnir að koma því á hreint hvað ég tæki yfir af lagernum og ekki síður á hvaða verði, en ég ítreka aftur að ég vildi byrja á þessu verki áður en endanlega yrði gengið til samninga en ekki enda á því. Vegna þessa verklags sem þú varst höfundur að var fyrst farið að meta lager þegar allt var komið á fulla ferð við að ná upp sölu í Kreussler. Og tíminn sem til þess var valinn var vikan sem Jan var hjá okkur og ég á þeytingi með honum frá morgni og langt fram á kvöld. Þetta er tíminn sem þú tekur í þetta lagermat þ.e.a.s. tími sem ég átti ekki nokkurn möguleika á að vera viðstaddur við þá vinnu sem við ætluðum að fara í saman þar eð aldrei hvarflaði að mér að fara að taka við meira og minna steindauðri lagervöru sem safnast hefði upp hjá þér í áranna rás eins og nefni hér að framan. Þetta var hins vegar tími sem þér hentaði þar eð þú varst að fara erlendis. Í kjölfarið á þessu dembdir þú svo hér inn á skrifstofu til mín að mér fjarstöddum einhverjum lista yfir talningu á lager hjá þér og taldir að þar með væri komin verðmætistala sem yrði grundvöllur þeirra greiðslna sem mér bæri að inna af hendi á þeim tímapunktum sem ákveðin voru í samningi. Með öðrum orðum var að skilja að af þinni hálfu væru þessi atriði orðin endanleg okkar í milli. Þessu hef ég ítrekað mótmælt í viðræðum okkar síðustu mánuði. Þú barst ábyrgð á því að hafa ekki tölur um lagerinn og ég lít einfaldlega svo á að með þessum talningarlista hafir þú ætlað að losna snyrtilega við allt sem þú hafðir sankað að þér á löngum tíma og að sjálfsögðu sé ég hagræðið í því fyrir þig, en ég ítreka enn og aftur að aldrei stóð til að ég tæki við allri þessari vöru. Ég vil í þessu sambandi benda á 2. gr. kaupsamningsins þar sem fram kemur lýsing hins selda. Þar er ekkert sem bindur mig til að kaupa alla skapaða hluti sem tilheyrðu því sem þú kallar lager. Undir þennan samning hefði ég aldrei skrifað ef eitthvað í honum gæfi til kynna [að] ég myndi kaupa alla ótilgreinda lagervöru. [...] Varðandi sápudælurnar finnst mér að þú verðir að axla ábyrgð í því að hafa ekki verið búinn að koma því á hreint hvort þeirra væri þörf varðandi samninginn við Grýtu og Fönn. [...] Sá lager sem ég tel mig hafa átt með réttu að taka við er sá sem hér segir og við mat á honum er fylgt þeim reglum sem þú settir að öðru leyti en með Kreussler [...]: Kreussler kr. 1.547.971. Mevo kr. 316.149. Ronny kr. 195.832. Rigid Cole. kr. 44.235. = kr. 2.104.187. Hitt skoða ég sem þá þungu lagervöru sem ég er að hjálpa þér með að losna við og samkvæmt söluyfirliti sem þú hefur fengið afrit af er heildsala þeirrar vöru 1.9. – 31.12.2000 kr. 122.545 og kostnaðarverðið því 88.232.”

Í aðilaskýrslu Gunnars Kristinssonar fyrir dómi kom fram sá skilningur hans að við samningsgerðina hafi ekki legið fyrir hvaða vörur það væru sem stefnda bæri að yfirtaka. 2. gr. samningsins hafi verið orðuð með þetta í huga, en ákvæðið verði ekki skilið svo samkvæmt orðanna hljóðan að stefndi hafi skuldbundið sig til að kaupa lagerinn í heild sinni. Sagði Gunnar að aldrei hefði komið til greina af hans hálfu að undirrita samninginn miðað við þann skilning sem stefnandi leggi nú í hann að þessu leyti og að hann hafi gert fyrirsvarsmanni stefnanda grein fyrir því að ekki kæmi til álita að stefndi yfirtæki allan lagerinn. Ákvæði samningsins um kaup stefnda á lager hafi að meginstefnu til eingöngu náð til vöru frá Kreussler, en þar sé um að ræða sápur og sápuefni. Utan við samninginn falli í reynd sú vara sem stefndi hafi að öðru leyti fallist á að yfirtaka samkvæmt framansögðu. Þar sé í fyrsta lagi um að ræða vírherðartré og pappa sem sé settur á þau (Mevo). Í öðru lagi hafi stefndi fallist á að yfirtaka límrúllur sem notaðar séu til að ná kuski af fatnaði (Ronny). Í þriðja lagi falli undir þetta stífelsi í duftformi (Rigid coleman). Í öllum tilvikum sé um seljanlega vöru að ræða sem verið hafi um það bil 90% af lager stefnanda og verið hafi uppistaðan í sölu hans. Þá kvaðst Gunnar hafa lagt vörureikninga og skjöl frá Kreussler til grundvallar við útreikning á verðmæti þeirrar vöru frá fyrirtækinu sem samningurinn taki til, en stefnandi hafi fengið stóra vörusendingu frá Kreussler í júní 2000 sem verið hafi 60-70% af þeim heildarlager í Kreusslervörum sem stefndi hafi fest kaup á með samningi málsaðila. Verðmæti annarrar vöru hafi hann fundið út með þeirri reiknireglu sem samningurinn mæli fyrir um. Þá kvaðst Gunnar hafa fallist á það að aðstoða stefnanda við að losna við þá vöru sem hann hafi ekki yfirtekið. Staðfesti hann að kostnaðarverð þeirrar vöru í janúar 2001 hafi numið 88.232 krónum. Þar sem hann ætti gagnkröfu á hendur stefnanda hefði hann ekki staðið stefnanda skil á þeirri greiðslu né þeim 4.187 krónum sem stefnanda beri samkvæmt framansögðu réttur til umfram þær 2.100.000 krónur sem stefndi hafi greitt stefnanda vegna kaupa á lager. Þá kvaðst Gunnar líta svo á að forsenda fyrir kaupum stefnda á sápudælum hafi ekki reynst vera fyrir hendi. Þannig hafi það verið verið upplýst af hálfu stefnanda við samningsgerðina að nauðsynlegt væri fyrir stefnda að kaup dælurnar svo hann gæti uppfyllt samningsskuldbindingar sínar við Grýtu og Fönn. Síðar hafi komið í ljós að þetta væri rangt.

Við aðalmeðferð málsins gaf vitnaskýrslu Bjarklind Aldís Guðlaugsdóttir. Fram kom hjá henni að þeir Bent og Gunnar hafi talið hluta lagersins saman og þá að líkindum þann hluta hans sem hafi haft að geyma megnið af sápum og sápuefnum frá Kreussler. Það sem eftir var hafi hún talið ásamt Bent. Þá kvaðst hún hafa orðið vör við það fljótlega eftir að kaupsamningurinn var gerður að ágreiningur væri komin upp á milli málsaðila um það hvaða vörur stefndi ætti að yfirtaka. Hefði hún heyrt Gunnar tala um það við Bent að stefndi myndi ekki yfirtaka þann hluta lagersins sem vitnið og Bent höfðu talið. Samræmist skýrsla vitnisins því sem Gunnar hefur haldið fram um það að hann hafi mótmælt því stuttu eftir að Bent kom heim frá útlöndum að stefndi hafi skuldbundið sig til að kaup allan lager stefnanda.  

V.

Í málinu greinir aðila annars vegar á um efnislegt inntak samnings sem þeir gerðu sín á milli 16. ágúst 2000. Snýr ágreiningur aðila að þessu leyti að ákvæði samningsins um lager. Þá deila þeir í annan stað um fjárhæð endurgjalds til stefnanda fyrir þann hluta lagersins sem stefndi fellst á að samningurinn taki til.

Ekki er grundvöllur til þess að líta svo á að stefndi hafi vegna tómlætis fyrirgert rétti til að hafa uppi mótmæli gegn kröfu stefnanda. Er því þannig hafnað að 52. gr. laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup, sem í gildi voru þegar samningur aðila var gerður, geti ráðið niðurstöðu málsins. 

Svo sem áður er rakið heldur stefndi því fram að hann hafi ekki skuldbundið sig til að kaupa lager stefnanda í heild sinni heldur eingöngu hluta hans. Er sjónarmiðum stefnda sem að þessu lúta áður lýst. Af hálfu stefnanda er aftur á móti vísað til þess að hann hafi verið að hætta starfsemi og samningur aðila hafi því gengið út á það að stefndi keypti allan lager stefnanda, enda hafi þar einungis verið um að ræða vörur sem nauðsynlegt sé að hafa á boðstólum fyrir þvottahús og efnalaugar. Að því er þennan ágreining málsaðila varðar er það fyrst að segja að skýr ályktun um það hvort samningurinn hafi átt að taka til alls lagers stefnanda eða einvörðungu hluta hans verður ekki dregin af orðalagi þeirra samningsákvæða sem hér reynir á. Þá hefur ekki verið upplýst um atvik við samningsgerðina sjálfa eða í aðdraganda hennar sem varpað gætu ljósi á það hver hafi verið ætlun aðilanna í þessu efni. Ræðst túlkun samningsins þannig af því sem helst verður ráðið af orðalagi hans og ólögfestum reglum um túlkun löggerninga, en að auki geta atvik í kjölfar þess að samningurinn var gerður veitt vísbendingar um það hver hafi verið ætlun samningsaðila. Um fyrsta atriðið er til þess að líta að í 1. gr. samningsins er skýrt kveðið á um það að með honum sé stefndi að kaupa alla heildsölustarfsemi stefnanda á sviði þvottahúsa- og efnalaugavara. Má af þessu orðalagi draga þá ályktun að stefndi skyldi yfirtaka þá þjónustu við þvottahús og efnalaugar sem stefnandi hafði haft með höndum og að viðskiptamenn stefnanda gætu þannig sótt til stefnda þjónustu, þar á meðal öll vörukaup, sem stefnandi hefði áður séð þeim fyrir. Þar með væru vörur á lager stefnanda í engu undanskildar samkvæmt samningnum. Samrýmist sú niðurstaða best þeirri staðreynd að stefnandi var að hætta rekstri. Í 2. gr. samningsins er hins vegar fyrst vikið að lager sérstaklega og hann tíundaður á þann veg að um sé að ræða sápur „til nota í þvottahúsrekstri og allan lager tengdan heildsölu á þeim sápuefnum, þ.m.t. sápudælur”. Er að áliti dómsins eðlilegast að skýra ákvæði þetta svo að þar sé eingöngu lýst tilteknum hluta af heild, enda hefði að öðrum kosti legið beinast við að tilgreina hið selda með einföldum og afgerandi hætti. Þá er það svo að í vörutalningarbók, sem dómkrafa stefnanda er grundvölluð á, eru taldar upp ýmsar vörur sem vandséð er að tilheyrt geti því safni af vörum sem lýst er með hinum tilvitnuðu orðum. Auk þessa er til þess að líta að fyrir liggur með vitnisburði Bjarklindar Aldísar Guðlaugsdóttur að fyrirsvarsmaður stefnda hafi skömmu eftir að honum barst vörutalningarbókin í hendur komið þeim skilningi sínum á framfæri við fyrirsvarsmann stefnanda að þar væru tilgreindar vörur sem stefndi hefði aldrei haft í hyggju að kaupa. Loks liggur það fyrir að fyrirsvarsmaður stefnda kom ekki að talningu á þeim vörum sem stefndi staðhæfir að samningurinn taki ekki til, né annar í umboði hans. Að framangreindu virtu lítur dómurinn svo á að orðalag kaupsamnings aðila styðji frekar en ekki þá staðhæfingu stefnda að með samningnum hafi ekki verið samið um kaup hans á öllum lager stefnanda. Þykir í öllu falli mega líta svo á það hafi staðið stefnanda nær að tryggja sér með ótvíræðum hætti sönnun fyrir því að leggja beri þann skilning í samning aðila sem hann heldur fram. Slík sönnun liggur ekki fyrir.

Af samningi aðila er ljóst að stefndi skuldbatt sig til að kaupa af stefnanda sápudælur. Hefur stefndi ekki rennt viðhlítandi stoðum undir þá málsvörn sína að honum beri hvað sem þessu samningsákvæði líður ekki skylda til að standa stefnanda skil á fjárgreiðslu fyrir dælurnar. Þegar tekin skal afstaða til þess hvaða vörur af lager stefnanda falli að öðru leyti undir samning aðila er fyrst til þess að líta að stefndi heldur fram skýringarkosti þar um sem fær vel samrýmst orðalagi samningsins. Hið sama á ekki við að því er málatilbúnað stefnanda varðar. Þykir stefnandi í ljósi þessa verða að bera hallann af óskýrleika samningsins að þessu leyti. Af þessari afstöðu og sönnunarfærslu hér fyrir dómi leiðir síðan að leggja verður staðhæfingar fyrirsvarsmanns stefnda í þessum efnum til grundvallar við úrlausn málsins. Í því sambandi er í fyrsta lagi á það bent að af hálfu stefnda hefur því verið haldið fram að honum hafi á grundvelli samningsins eingöngu borið skylda til að taka við þeim vörum sem falli undir það að vera sápur og sápuefni. Samkvæmt vörutalningarlista og öðru því sem fram er komið í málinu nemur söluverð þessarar vöru 2.654.011 krónum án virðisaukaskatts. Að teknu tilliti til niðurfærslu kaupverðs um 28,572% nemur krafa stefnanda vegna þessa 1.895.707 krónum. Öðrum vörum, sem gerð er grein fyrir í kafla IV hér að framan, kveðst stefndi þannig hafa veitt viðtöku umfram skyldu. Krafa stefnanda vegna þeirra nemur samkvæmt gögnum málsins og framburði fyrirsvarsmanns stefnda 621.615 krónum, en söluverð þeirra samkvæmt vörutalningarbók er 870.268 krónur. Samkvæmt þessu bæri stefnda án tillits til þeirra varna sem hann að öðru leyti hefur uppi í málinu og að undanskilinni kröfu vegna kaupa á sápudælum skylda til að greiða stefnanda 417.322 krónur til viðbótar þeirri greiðslu fyrir lager sem hann þegar hefur innt af hendi, en hún nemur svo sem fram er komið 2.100.000 krónum.

Deila málsaðila snýr svo sem fram er komið ennfremur að því hvert eigi að vera endurgjald til stefnanda fyrir þær vörur sem viðskipti þeirra tóku til. Telur stefndi að einingaverð samkvæmt vörutalningarbók, sem dómkrafa stefnanda byggist á, sé ekki í samræmi við þær forsendur sem leggja eigi til grundvallar við ákvörðun þess samkvæmt samningi aðila. Í samningnum segir svo um þetta að matsverð það sem stefnda bæri að greiða fyrir lager skyldi miðast við söluverð án virðisaukaskatts að frádreginni álagningu, sem fæli í sér niðurfærslu söluverðs um 28,572%. Var í samræmi við þetta skýrlega tekið fram í 2. gr. samningsins að söluverð til stefnda skyldi miðast við að meðalálagning væri 40%. Af samanburði á einingaverðum samkvæmt vörutalningarbók annars vegar og skjali sem hefur að geyma verðútreikninga stefnanda á Kreussler vörum í júní 2000, en skjal þetta hefur stefndi lagt fram, verður ekki annað séð en að þessarar samningsforsendu hafi ekki verið gætt þegar stefnandi lagði mat á einingaverð á sápum og sápuefnum í viðskiptum sínum við stefnda. Að þessu virtu hefur stefnanda ekki tekist að hnekkja staðhæfingu stefnda  sem lýtur að þessari forsendu samnings þeirra, en í því skyni lagði hann fram ljósrit af fjölmörgum vörureikningum. Þykir vegna þessa og á grundvelli samanburðar á einingaverðum samkvæmt framangreindu rétt að lækka kröfu stefnanda vegna kaupa stefnda á sápum og sápuefnum um 200.000 krónur, en ekki er stoð fyrir frekari lækkun í þeim gögnum málsins sem hér koma til skoðunar. Samkvæmt þessu telst sú krafa stefnanda sem hér um ræðir með réttu tekin til greina með 1.695.707 krónum, enda er sú málsástæða stefnda sem leiðir til þessarar niðurstöðu sett fram með nægilega skýrum hætti í greinargerð hans. Stefnda hefur að öðru leyti ekki tekist að sýna fram á að einingaverð samkvæmt vörutalningarbók fari í bága við samning aðila. Þess utan er til þess að líta að samkvæmt skilningi fyrirsvarsmanns stefnda á efni samnings málsaðila, sem hlotið hefur staðfestingu í dómi þessum, tók hann við þeim vörum sem hér um ræðir umfram skyldu. Þá lá einingaverð þeirra hins vegar fyrir. Verður að telja að með viðtöku vörunnar og svo sem hér hagar til að öðru leyti beri stefnda að hlíta því verði sem stefnandi setti upp. Þá er ekki ágreiningur um fjölda vörueininga samkvæmt vörutalningarbók. Krafa stefnanda vegna þess hluta lagersins sem hér um ræðir verður því tekin til greina með þeirri fjárhæð sem hann krefst, 621.615 krónum.

Að mati dómsins hefur stefnandi rennt viðhlítandi stoðum undir kröfu sína vegna kaupa stefnda á sápudælum, en hún telst að teknu tilliti til forsendna samnings og gagna frá stefnanda nema 438.546 krónum. Svo sem þegar er fram komið telst stefnanda hafa átt kröfu að fjárhæð 2.317.322 krónur (1.695.707 + 621.615) vegna kaupa á lager að öðru leyti. Stefndi hefur vegna þessa þegar staðið stefnanda skil á 2.100.000 krónum. Vanskil stefnda nema því 655.868 krónum.

Í samningi aðila er kveðið á um það að hann sé gerður með fyrirvara um samþykki Kreussler Gmbh. í Þýskalandi þess efnis að stefndi verði umboðsaðili fyrir vörur félagsins á Íslandi. Fyrir liggur að þetta gekk eftir. Hefur stefndi ekki sýnt fram á það með viðhlítandi hætti að stefnandi hafi skuldbundið sig til að tryggja það að stefndi yrði einkaumboðsaðili hins þýska fyrirtækis hér á landi, enda fær sú skýring ekki samrýmst skýru orðalagi kaupsamnings. Þá eru ekki næg efni til að líta svo á  að stefnandi beri bótaábyrgð gagnvart stefnda á grundvelli 5. gr. kaupsamningsins, en þar var svo sem fram er komið mælt fyrir um þá skyldu stefnanda að vinna að framgangi hins selda rekstrar eins og kostur væri með það að markmiði að tryggja svo sem frekast væri unnt að viðskiptamenn stefnanda tækju upp viðskipti við stefnda. Verður að skýra þær skyldur sem gera mátti til stefnanda samkvæmt þessu samningsákvæði í ljósi þeirra fyrirvara sem þar eru gerðir og þess ágreinings sem kom upp á milli aðila strax í kjölfar þess að samningurinn var gerður. Er því samkvæmt þessu alfarið hafnað að stefndi eigi bótakröfu á hendur stefnanda.

Ljóst er að stefndi ber frekari greiðsluskyldu gagnvart stefnanda en felst í framangreindri niðurstöðu dómsins. Kemur þar til að hann hefur selt vörur af lager stefnanda, en ekki staðið stefnanda skil á þeim greiðslum sem inntar hafa verið af hendi til hans vegna þessa. Ekki liggur með vissu fyrir um hvaða vörur er hér að ræða og útreikningur á því endurgjaldi sem stefndi bíður fram er óljós. Er því ekki unnt að leysa úr því í þessu máli hver sé með réttu fjárhæð þessarar kröfu.

Með vísan til alls þess sem nú hefur verið rakið verður stefnda gert að greiða stefnanda 655.868 krónum ásamt vöxtum, svo sem í dómsorði greinir.   

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan, en dómarinn fékk málið til meðferðar 12. september sl.

D ó m s o r ð :

Stefndi, GK heildverslun ehf., greiði stefnanda, Bendi ehf., 655.868 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 918.623 krónum frá 1. október 2000 til 13. sama mánaðar, en af 318.623 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2000, en af 637.246 krónum frá þeim degi til 1. desember 2000, en af 1.555.868 krónum frá þeim degi til 19. sama mánaðar, en af 655.868 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Málskostnaður fellur niður.