Hæstiréttur íslands

Mál nr. 36/2007


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Miskabætur


Fimmtudaginn 24

 

Fimmtudaginn 24. maí 2007.

Nr. 36/2007.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari)

gegn

Adam Baranowski

(Guðjón Ægir Sigurjónsson hrl

 Hilmar Gunnlaugsson hdl.)

    

Kynferðisbrot. Miskabætur.

A var ákærður fyrir kynferðisbrot með því að hafa þröngvað Y með ofbeldi til annarra kynferðismaka en samræðis á þann hátt sem nánar var lýst í ákæru. Fjölskipaður héraðsdómur mat framburð stúlkunnar, sem fékk stoð í framburði annarra vitna, trúverðugan. Með hliðsjón af því, ástandi hennar eftir atvikið og niðurstöðu DNA-rannsóknar þótti sannað að A hefði gerst sekur um þá háttsemi sem honum var gefin að sök og var hann sakfelldur fyrir brot gegn 194. gr. almennra hegningarlaga. Refsing hans þótti hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði og var hann jafnframt dæmdur til að greiða stúlkunni 700.000 krónur í miskabætur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.

Ákæruvaldið skaut málinu til Hæstaréttar 28. desember 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru, refsing hans þyngd og honum gert að greiða Y 1.800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. janúar 2006 til 27. maí sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing samkvæmt héraðsdómi verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að kröfu Y verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að krafan verði lækkuð.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða. Að virtu því, sem greinir í héraðsdómi, er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði, en til frádráttar henni kemur gæsluvarðhald, sem hann sætti frá 30. janúar til 2. febrúar 2006.

Niðurstaða héraðsdóms um skaðabótaskyldu ákærða gagnvart Y verður staðfest. Miskabætur henni til handa eru hæfilega ákveðnar 700.000 krónur. Ákærða var kynnt bótakrafa 27. apríl 2006 og verða vextir dæmdir því til samræmis eins og nánar greinir í dómsorði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest. Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Ákærði, Adam Baranowski, sæti fangelsi í 15 mánuði, en til frádráttar þeirri refsingu kemur gæsluvarðhaldsvist hans frá 30. janúar til 2. febrúar 2006.

Ákærði greiði Y 700.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. janúar 2006 til 27. maí sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 438.885 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðjóns Ægis Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Ásu Ólafsdóttur hæstaréttarlögmanns, 99.600 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 19. desember 2006.

Mál þetta, sem þingfest var þann 13. júní s.l. og dómtekið 17. nóvember s.l., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 9. júní 2006 á hendur Adam Baranowski, kennitala 071175-2359, Egilsbraut 16, B, fyrir eftirtalin brot, framin laugardaginn 28. janúar 2006 í herbergi er ákærði hafði til umráða að [...]:

I.

            Kynferðisbrot, með því að þröngva Y, kennitala [...], sem þá var þrettán ára gömul, með ofbeldi til annarra kynferðismaka en samræðis, en ákærði káfaði á brjóstum og kynfærum stúlkunnar innanklæða, setti hönd hennar á getnaðarlim sinn, sleikti brjóst hennar og kynfæri og setti fingur í leggöng hennar.

Telur ákæruvaldið háttsemi ákærða varða við 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 40/1992 og lög nr. 40/2003.

II.

            Áfengislagabrot, með því að veita sömu stúlku áfengi þrátt fyrir að honum væri kunnugt um að hún væri yngri en 20 ára gömul.

             Telur ákæruvaldið háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 18. gr., sbr. 1. mgr. 27. gr. áfengislaga nr. 75/1998.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Margrét Gunnlaugdóttir héraðsdómslögmaður krefst þess fyrir hönd kæranda að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 1.800.000 auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, frá 28. janúar 2006 til greiðsludags Loks krafðist réttargæslumaðurinn þóknunar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Ákærði mætti við þingfestingu málsins og óskaði eftir fresti til að taka afstöðu til ákærunnar og ráðfæra sig við verjanda sinn. Var málinu frestað til þriðjudagsins 4. júní 2006 en þá mætti ákærði og neitaði sök.

Verjandi ákærða krefst aðallega sýknu og að bótakröfu kæranda verði vísað frá dómi.  Til vara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og að refsivist, ef dæmd verður, verði skilorðsbundin og að bótakrafa sæti verulegri lækkun.  Þess er krafist að allur sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun að mati dómsins, verði greidd úr ríkissjóði. 

Málavextir.

             Að kvöldi 28. janúar 2006 hafði lögreglan á Selfossi samband við lögregluna í Reykjavík og óskaði eftir aðstoð við að hafa uppi á ungri stúlku, Y en grunur léki á að henni hefði verið nauðgað í B fyrr um daginn af karlmanni um þrítugt. Vinur Y hefði hringt en hún hefði sjálf ekki viljað snúa sér til lögreglu og tilkynna um atvikið. Hafði lögreglan í Reykjavík samband símleiðis við Y um klukkan 21:50, sama kvöld, og staðfesti hún við lögreglu að hún hefði verið í B fyrr um daginn en vildi lítið tjá sig um hvað það hefði verið sem komið hafði upp á. Síðar sama kvöld hitti lögreglan í Reykjavík Y fyrir að heimili hennar og eftir nokkrar viðræður féllst hún á að fara á bráðamóttöku LSH í Fossvogi, með því skilyrði að kærasti hennar C færi með henni. Loks var þeim báðum ekið á bráðamóttökuna um kl. 0:05 eftir miðnætti. Skömmu síðar eða kl. 0:07 var haft samband við ömmu Y, D og henni kynnt málið, þar sem foreldrar Y voru erlendis og hún í pössun hjá ömmu sinni. Ræddi Hallgrímur Hallgrímsson, lögreglumaður, við Y á bráðamóttökunni að D, ömmu hennar, viðstaddri. Í samtali við Hallgrím Hallgrímsson, lögreglumann, sagði Y  atvikið hafa átt sér stað í verbúð, rétt fyrir utan B. Kvað hún húsið vera stórt hvítt hús sem væri á vinstri hönd þegar ekið væri að B. Sagði Y  gerandann, Adam að nafni, vera með herbergi á leigu í umræddu húsnæði og hefði atvikið átt sér stað í rúmi í herberginu hans. Í samtali Hallgríms við C, kærasta Y  kom fram að hann hefði verið sofandi í öðru herbergi þegar atvikið hafi átt sér stað en hann vaknað við það að Y  hafi komið til hans mjög æst og grátandi.

             Lögreglumenn fóru að verbúð í B daginn eftir til þess að finna og handtaka ákærða. Við komu hafi verbúðin verið læst og enginn komið til dyra. Skömmu síðar hafi þar komið að erlendur aðili sem hafi haft lykla að húsinu og hleypt þeim inn og jafnframt bent á hvaða herbergi ákærði dveldi í.   Var ákærði handtekinn og færður í fangaklefa á lögreglustöðinni vegna rannsóknar málsins.

             Í skýrslu Kristínar Andersen, læknis, sem framkvæmdi réttarlæknisfræðilega skoðun á Y, sunnudaginn 29. janúar s.l. kl. 1:00, er frásögn sjúklings af atvikinu færð í skýrsluna. Þar kemur fram að brotaþoli hafi gist á gistiheimili í B síðastliðna nótt og hafi verið þar ásamt kærasta sínum, pólskum, og vini hans. Þau hafi setið inni á einu herbergi e.h. þann 28. janúar s.l. og hafi verið að horfa á sjónvarpið. Kærasti hennar og vinur hans hafi farið út en brotaþoli hafi áfram verið inni í herberginu ásamt pólskum manni sem heiti Adam og sé tæplega þrítugur og brotaþoli kannist lítillega við. Hann hafi verið að halda að brotaþola „landa“ og hafi alltaf verið að reyna að fá hana til að drekka meira og hafi hún verið orðin ringluð. Hafi hann síðan byrjað að klæða brotaþola úr en hún reynt að kalla en hann hækkað í sjónvarpinu til þess að ekki heyrðist í henni. Hafi brotaþoli verið ringluð og óviss hvað væri á seyði. Segist brotaþoli hafa reynt að komast fram en Adam togað í hana og haldið henni niðri. Hafi hann kysst hana á munninn og kynfærin og einnig á brjóstið. Þá hafi hann sett fingur upp í leggöngin á henni. Segist brotaþoli muna óljóst hvað hafi gerst en segir Adam ekki hafa haft við sig samfarir og sé ekki viss um hvort hann hafi haft sáðlát. Hafi hún síðan náð að slíta sig lausa og hlaupið fram en Adam hafi læst sig inni í herberginu sínu og neitað að hafa gert nokkuð. Brotaþoli hafi sagt kærasta sínum og vini frá atvikinu og hafi verið haft samband við lögreglu í kjölfarið. Hafi brotaþoli komið á neyðarmóttökuna í fylgd kærasta síns og lögreglu. Í skýrslu Kristínar Andersen, læknis, segir ennfremur um ástands sjúklings við skoðun: „Hún situr í hnipri og talar lágt. Finnst óþægilegt að tala um þetta og vill lítið tjá sig. Er mjög samvinnuþýð. Líður illa“. Þá kemur einnig fram í skýrslu læknis, varðandi tilfinningalegt ástand brotaþola, að samhengislaus framsetning sé á máli hennar og hún sé öll líkamlega spennt. Segir jafnframt að hún finni hvergi til og sé ekki með neina líkamlega áverka, hvorki á ytri kynfærum né annarsstaðar.

             Í greinargerð Ólafar Ástu Farestveit, uppeldis- og afbrotafræðings í Barnahúsi, ritaðri 9. október 2006, vegna viðtala hennar við Y í fjögur skipti á tímabilinu 9. febrúar til 13. júní s.l., kemur fram að Y  hafi verið mjög þögul í viðtölunum. Erfiðlega hafi gengið að fá hana til að mæta í viðtölin og hafi hún afboðað sig ítrekað. Hún hafi sagt að hún hefði aldrei viljað að málið yrði tilkynnt og vildi fá að vera í friði. Þrátt fyrir það sagði Y  að sér liði stundum illa yfir því sem Adam hafi gert við hana en vildi samt ekki ræða það frekar. Ákveðið hafi verið að gera hlé á viðtölunum þar sem ekki hafi gengið að vinna með stúlkuna, vegna þess að hún hafi ekki verið sjálf tilbúin til þess og ekki í samvinnu. Eftir viðtal við barnaverndarnefnd hafi stúlkan samþykkt að koma aftur í viðtöl til Ólafar en hafi þó ekki virst tilbúin til að ræða við hana, þar sem hún hafi haldið áfram að yppa öxlum, segja „ég veit ekki“ og svara í eins atkvæðis orðum. Í framhaldi af því var ákveðið að Y  væri ekki tilbúin til að þiggja þjónustu Barnahúss og væri ekki meðferðartæk. Var það jafnframt mat Ólafar Ástu að Y  ætti í  miklum vanda með tilfinningalíf sitt og samskipti við annað fólk.

             Skýrsla var tekin af brotaþola, Y, í Barnahúsi þann 31. janúar 2006. Var skýrslan tekinn upp á myndband.  Segist Y  hafa farið til B með rútunni kl. 17:50, föstudaginn 27. janúar 2006, til að hitta vin sinn C og beðið rútuna að stoppa fyrir utan verbúðina þar sem atvikið átti sér stað. Þar hafi E, vinur C, verið og hún farið með honum til B til að sækja C og F. Frá B hafi þau farið aftur í verbúðina og hafi E bent þeim á herbergi sem þau mættu fá lánað. Í verbúðinni hafi nokkrir vinir C verið sem hún sagðist ekki vita hvað heita, nema Adam sem hún sagði vera vin pabba C og svo E en þeir búi báðir þarna í verbúðinni í sitt hvoru herberginu. Sagðist hún lítið muna eftir því hvað hafði gerst á föstudagskvöldinu annað en það að þau hefðu leikið sér í tölvu sem þar var og jafnframt verið að drekka áfengi. Sagði Y  sig hafa vaknað um hádegi daginn eftir, laugardaginn 28. janúar s.l. Hafi þau, hún, C og F, fengið sér morgunmat um kl. 13 og síðan farið inn í herbergi til Adams til að horfa á mynd í sjónvarpinu og hafi það verið um kl. 14. Hafi þau þrjú verið í rúminu hans Adams en Adam verið sjálfur í hægindastól sem var samsíða rúminu. Sagði hún Adam hafa gefið sér eitthvað að drekka en hann hafi einnig verið að drekka sjálfur. Sagðist Y  hafa fljótlega orðið ringluð af drykknum sem Adam hafi gefið sér en það hafi verið Coke og eitthvað sem hún viti ekki hvað sé en sagði lögregluna hafa fundið landa þegar lögreglan hafi verið að skoða húsið. Sagði hún að u.þ.b. hálftíma eftir að þau hefðu komið inn í herbergið til Adams hafi hann gefið sér sígarettu. Við það hafi C orðið reiður við það og farið út úr herberginu. Stuttu síðar hafi F sagst þurfa að fara á klósettið og einnig farið út úr herberginu og hafi þeir hvorugur komið aftur. Um þetta leyti hafi Adam verið sofandi í hægindastólnum og hún verið sofna í rúminu hans Adams eftir að F fór út úr herberginu. Hafi Adam þá vaknað og farið að strjúka á henni bakið, þar sem hann sat í hægindastólnum, en hún hafi reynt að ýta honum í burtu. Aðspurð um hvernig hún hafi verið klædd, sagðist hún hafa verið klædd í náttbuxur, bol og peysu en Adam hafi verið í íþróttabuxum og bol að hana minnti. Sagði Y  Adam hafa haldið áfram að strjúka sér þó hún hafði reynt að ýta honum í burtu frá sér og hafi farið að strjúka á sér brjóstin utan klæða. Þá hafi verið bankað á hurðina og hafi hann þá kippt höndunum að sér og einhver kona, samlanda hans, komið síðan inn. Þau hafi talað saman á pólsku sem hún hafi ekki skilið og svo hafi hún farið aftur. Sagði Y  síðan Adam hafa dottið úr stólnum og hún ætlað við það tækifæri að fara út úr herberginu. Hafi Adam þá togað í hana og hent henni í rúmið aftur þannig að hún lenti á bakinu. Hafi hann þá klætt hana úr peysunni og lagst aftan við hana í rúminu og haldið henni niðri þannig að hún hafi ekki komist í burtu en hún hafi snúið frá honum. Sagði Y  hann því næst hafa farið að káfa á brjóstunum á sér og kynfærum innanklæða, þannig að hann hefði farið með höndina inn undir fötin sem hún var klædd í. Sagðist hún hafa beðið hann um að sleppa sér og farið að kalla á hjálp. Þá hafi Adam hækkað í sjónvarpinu með fjarstýringunni sem var í rúminu, þannig að það heyrðist ekki í henni kalla á hjálp. Sagði Y  að dyrnar inn í herbergið hefðu verið lokaðar meðan á þessu stóð en hélt að þær hefðu ekki verið læstar. Sagðist hún hafa kallað á C en aðspurð sagði hún sig greinilega ekki hafa kallað nógu hátt. Sagðist hún aðspurð ekki hafa öskrað en hækkað róminn. Þá sagðist hún einnig hafa reynt að ýta honum í burtu frá sér en hann hafi haldið sér fastri. Þessu næst sagði Y  að Adam hefði farið að sleikja hana. Hann hafi byrjað á að sleikja á henni munninn, síðan hafi hann girt niður um hana og togað bolinn frá og sleikt á henni brjóstin og kynfærin. Sagði Y  að þegar þarna hafi verið komið hafi Adam verið á hnjánum á gólfinu og boginn yfir sig en hún legið í rúminu. Sagðist hún hafa reynt að ýta hausnum á honum í burtu en ekki getað. Sagði hún Adam síðan hafa notað puttana þannig að hann hefði sett þá inn í leggöngin á henni og sagðist hún hafa fundið til þegar hann gerði það. Sagðist hún þá hafa orðið að hrinda honum í burtu en ekki vitað hvernig hún hafi átt að gera það og hafi hún prófað að kalla meira en þá hafi hann hækkað meira í sjónvarpinu. Aðspurð kvað hún teiknimyndina Madagaskar hafa verið í sjónvarpinu. Sagði Y  hafa síðan beðið Adam að gefa sér eitthvað að drekka og hann staðið upp til þess. Þá hafi hún náð að hlaupa út úr herberginu og beint yfir í herbergið þar sem C og F hafi verið. Sagðist hún hafa sagt þeim frá því hvað Adam hefði gert við sig. Hafi F í kjölfarið hringt í eldri bróður sinn G og beðið hann um að koma og sækja þau. G hafi fljótlega komið og þau farið heim til F og G. Skömmu síðar hafi H, annar bróðir F, keyrt sig til Reykjavíkur en hún hafi beðið hann um að keyra sig á BSÍ. Þangað hafi bróðir hennar komið að sækja hana. Sagði hún G hafa hringt á lögregluna eftir að hún hafi verið farin frá B og hún hafi ekki vitað af því fyrr en lögreglan hafi hringt til hennar þar sem hún var að bíða eftir bróður sínum á BSÍ. Það hafi verið um kl. 22 á laugardagskvöldinu. Aðspurð um hvað henni hefði fundist um að G hefði hringt á lögregluna, sagði hún ekki hafa viljað að hann myndi hringja og tilkynna um málið. Hafi það verið vegna þess að hún hafi verið hrædd. Sagði Y  lögregluna hafa komið heim til sín og hún beðið þá um að koma aftur seinna, þar sem amma hennar var að koma en hún hafi ekki viljað láta ömmu sína vita hvað hefði komið upp. Þá hafi G hringt í hana og hún sagt honum að hún vildi ekki fara upp á neyðarmóttöku nema C kæmi með sér og hafi G keyrt C til Reykjavíkur til sín. Sagði hún aðspurð C vera kærasta sinn. Síðan þegar þau hafi verið að fara upp á neyðarmóttöku hafi lögreglan hitt þau í götunni heima hjá henni og keyrt þau, þ.e. hana og C, upp á neyðarmóttöku í Fossvoginum þar sem hún hafi farið í skoðun. Hafi það verið rétt fyrir miðnætti á laugardagkvöldinu. Sagði Y  að á mánudeginum 30. janúar s.l. hafi hún hringt til lögreglunnar á Selfossi til að spyrjast fyrir um málið. Aðspurð um hvers vegna hún hefði gert það, sagðist hún ekki vilja kæra Adam. Sagði hún að ef hann hefði ekki verið fullur hefði hann ekki gert þetta og þetta því ekki vera beint honum að kenna. Sagði Y  að sér hefði ekki liðið vel eftir þetta og ekki viljað gera neitt mál úr þessu. Nánar spurð sagði Y  Adam hafa tekið höndina á sér og sett hana í klofið á sér, innan klæða, nánar tiltekið á getnaðarlim sinn og það hefði verið blautt, hart og mjúkt. Sagði hún Adam hafa haldið um höndina á sér, rétt fyrir ofan úlnlið, og sett hana í klofið á sér. Svo hefði hann sett lófann á sér yfir handabakið á hendinni á henni. Sagði hún þetta hafa varað í um mínútu en síðan hefði hún náð að kippa hendinni í burtu. Þá sagði Y  nánar aðspurð að hún myndi eftir að síminn hans hefði hringt á meðan atvikinu stóð en hann hefði ekki tekið símann. Þá sagði hún að hann hefði verið með broddaskegg og hefði hún meitt sig á bringunni vegna þess. Sagði hún að sér hefði liðið illa á meðan þessu stóð. Nánar spurð um hvort Adam hefði sagt eitthvað við hana þegar þetta var að gerast, sagði Y  að þegar hún hefði sagt honum að hætta hefði hann sagt á ensku „bara fimm mínútur“ en hún hefði sagt „nei“ við hann og beðið hann að hætta og sagst vilja fara en hann þá sagt á ensku „bara fimm mínútur“. Aðspurð sagðist Y  hafa einu sinni áður hitt hann en það hefði verið fyrir um viku síðan í herberginu hjá E í þessu sama húsi. Þar hefði hann verið að laga tölvuna hans E en hún hefði ekkert talað við hann í það skipti. Sagðist hún hafa verið þar með C. Kvaðst hún aðspurð ekki muna til þess að Adam hefði reynt eitthvað sem honum hefði ekki tekist í umrætt skipti. Nánar aðspurð um hvort hún teldi Adam hafa vitað hversu gömul hún væri, kvaðst hún ekki telja að hann vissi um aldur hennar, nema þá helst ef C hefði sagt honum það. Aðspurð um hvort hún hefði oft farið austur til C, kvað hún svo vera en þá hefði hún alltaf gist heima hjá honum og foreldrum hans. Nánar aðspurð um hvenær hún hefði byrjað að drekka áfengi á laugardeginum, þ.e. það sem Adam hefði gefið henni, kvaðst hún ekki muna það nákvæmlega. Nánar spurð um hvort hún hefði fundið fyrir áfengisáhrifum þegar umrætt atvik hafi átt sér stað, kvaðst hún hafa verið ringluð og hafi séð allt í móðu. Aðspurð um hvort það hefði verið vegna áfengisins sem Adam hefði gefið henni, kvað hún svo hafa verið og það hefði komið úr spriteflösku. Aðspurð um hvort hún hefði séð áhrif áfengis á Adam, sagði Y  Adam hafa „labbað smá skakkt“ þarna þegar konan hafi komið og svo hefði hann dottið úr stólnum eins og áður var lýst. Að lokum sagðist hún aðspurð ekki hafa sagt öðrum en C, F og móður sinni frá atvikinu en vissi til þess að F hefði sagt G, eins og áður greinir, og H bróður sínum að einhverju leiti.

             Lögregluskýrsla var tekin af ákærða og kvaðst hann saklaus af því að hafa snert Y í umrætt sinn. Kvaðst hann hafa verið mjög drukkinn þarna á laugardeginum 28. janúar s.l. Kvaðst hann muna eftir því að hafa verið að horfa á sjónvarpið í hægindastól sínum í herbergi sínu. Þar hafi jafnframt verið krakkar að nafni C, F og Y en kvaðst ákærði hafa sofnað af og til og muni málsatvik ekki í samfellu. Hann kvaðst þó muna eftir því að hafa rumskað á einhverjum tímapunkti og þá hafi hann verið einn í herberginu ásamt Y. Neitaði þá ákærði að hafa leitað á Y.

             Þann 1. febrúar 2006 gaf ákærði aftur skýrslu fyrir lögreglu og var hann inntur eftir því hvort hann hefði einhverju við fyrri framburð að bæta og kvað hann svo ekki vera og sagði fyrri framburð réttan. Þá var ákærði spurður um tengsl sín við Y, kvaðst hann þekkja hana lítið. Sagðist hann hafa séð henni bregða fyrir heima hjá C, 3-4 vikum fyrir umrætt atvik, einnig hefði hann séð hana með C í herbergi E, u.þ.b. viku fyrir umrætt atvik. Aðspurður kvað ákærði að á föstudagskvöldinu, 27. janúar 2006, hefði fólk hist í verbúðinni og allir verið að drekka áfengi nema E. Það hafi verið samkvæmi í sameiginlega rýminu á annarri hæð hússins. F og C hafi komið með tvo lítra af sterku heimatilbúnu áfengi. Hafi hann fengið sér að drekka eins og aðrir en annars verið meira og minna í herberginu sínu, þar sem hann hafi verið að klára að horfa á kvikmynd í sjónvarpinu en verið með fólkinu eftir að kvikmyndinni lauk. Kvaðst ákærði hafa gengið til náða um kl. 1:00 aðfararnótt laugardagsins 28. janúar s.l. og verið orðinn talsvert ölvaður en þó ekki svo að hann kvaðst muna eftir öllu kvöldinu. Sagði ákærði að skömmu áður en hann hefði farið að sofa hefði hann farið yfir í herbergi krakkanna til að sussa á þau. Þegar hann hafi opnað inn til þeirra hafi honum sýnst þau vera klæðalítil þar sem þau sátu á móti hvort öðru en þau hafi dregið sængina yfir sig og Y  hefði dregið bolinn niður. Kvaðst ákærði hafa boðið þeim yfir í herbergið til sín að horfa á sjónvarpið og þau sagst ætla að koma síðar en ekki komið. Morguninn eftir, þ.e. laugardaginn 28. janúar s.l., hafi ákærði vaknað milli kl. 7:00 – 8:00 við það að vinur hans, I, hafi hringt og viljað koma í heimsókn. Kvað ákærði vin sinn hafa viljað koma til að drekka með ákærða eina tveggja lítra flösku af heimatilbúnum Vodka. Hafi hann komið og þeir drukkið saman um hálfan lítra af flöskunni en I hafi síðan skilið eftir smá lögg handa ákærða en tekið restina með sér sjálfur. Kvað ákærði að laust eftir hádegi hafi C komið til sín og spurt hvort ákærði ætti súpuduft. Hafi ákærði síðan hitt krakkana í eldhúsinu skömmu síðar en E þá verið búinn að gera handa þeim súpu. Kvaðst ákærði hafa sest með þeim og borðað. Þá kvaðst ákærði hafa lagt til að þau myndu öll fá sér „snaps“ enda hefði þeim ekki veitt af því þar sem einhverjir höfðu verið að æla kvöldið áður. Þar sem allt vín hefði verið búið hefði E ekið ákærða og F út í sjoppu og komið við á leiðinni og náð í tveggja lítra flösku af heimatilbúnum Vodka. Kvað ákærði þá síðan hafa farið aftur í verbúðina. Kvað ákærði Y hafa verið þá einu sem hafi viljað drekka þennan Vodka og ákærði hefði hellt í glas fyrir hana „góðan slump“ sem hún hefði skellt í sig í tvennu lagi. Um það bil 5 – 10 mínútum síðar hafi hann boðið henni meira sem hún og þáði. Hafi þau drukkið úr sama glasinu og hafi þetta verið um 100ml í hvert sinn. Aðspurður kvað ákærði C, F og Y hafa komið með sér upp í herbergið sitt en E hafi farið í sitt herbergi. Hafi ákærði sest í hægindastólinn en krakkarnir lagst í rúmið og þau farið að horfa á teiknimynd en síðan farið að horfa á nýjustu Batman myndina. Aðspurður kvaðst ákærði hafa verið orðinn nokkuð drukkinn en þó munað allt sem gerðist. F og C hafi ekki verið að drekka. Y kvað ákærði ekki hafa verið jafn drukkna og kvöldið áður. Kvaðst ákærði hafa gefið henni einn drykk til viðbótar sem hún síðan hefði blandað með gosi og drukkið. Sjálfur hefði hann drukkið einn drykk til viðbótar óblandaðan. Aðspurður kvaðst ákærði hafa sofnað í stólnum sínum og þegar hann hafi vaknað hafi strákarnir verið farnir en Y  verið liggjandi í rúminu hans. Kvaðst ákærði hafa þá hellt sér enn í glasið og horft á sjónvarpið. Kvaðst ákærði síðan ekki alveg muna hvort hann hefði vaknað sjálfur en hann hefði skynjað að J væri kominn inn í herbergið. Aðspurður kvað ákærði sig minna að J hafi vantað eitthvað til að laga tölvuna sína, kvað hann hana hafa staldrað við í nokkrar mínútur en síðan farið. Kvaðst ákærði ekki vera viss um hvað hefði farið þeirra á milli. Kvað ákærði aðspurður Y þá enn hafa verið í rúminu en snúið í átt að veggnum og  með sængina yfir sér en sig sjálfan hafa verið í hægindastólnum. Aðspurður um hvort hann hefði snert Y þar sem hún hafi legið í rúminu hans svaraði ákærði „nei, trúið mér“. Í kjölfarið var borinn undir ákærða framburður Y  sem tekinn var af henni í Barnahúsi. Voru ásakanir Y  bornir undir ákærða í nokkrum hlutum og neitaði ákærði staðfastlega fyrir þá alla og kvað framburð hennar ýmist vera skáldskap eða vitleysu. Aðspurður hvenær Y  hafi farið út úr herberginu hans, kvað ákærði hana hafa skyndilega staðið upp, kallað endurtekið á C og síðan farið út úr herberginu. Kvaðst ákærði hafa séð hvar Y  hefði farið rakleiðis yfir í herbergið til C. Kvaðst ákærði ekki hafa farið beint á eftir henni en farið svona um hálfri mínútu síðar yfir í herbergið til strákanna og þá séð hvar Y  hafi legið í rúminu hjá C og kúrt hjá honum. Hafi hann þá lokað dyrunum og farið aftur yfir í sitt herbergi. Þá neitaði ákærði fyrir að hafa nokkurn tíma hækkað í sjónvarpinu og kvaðst ávallt hafa verið í hægindastólnum sínum þann tíma sem Y  hafi verið inni hjá honum. Aðspurður kvað ákærði enga aðra hafa verið í húsinu um þetta leyti að hann teldi. Þá kvaðst ákærði aðspurður um aldur Y  halda að hún væri um 15-16 ára.

             Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að hann staðfesti fyrri framburð sinn hjá lögreglu.  Aðspurður um samtal sitt við J, er hún kom inn í herbergi til ákærða, kvað ákærði J hafa viljað að hann kæmi með sér heim en ákærði kvaðst hafa neitað því sökum þess að hann hefði verið orðinn of drukkinn. Aðspurður um hvað hefði gerst eftir að J hefði farið, kvaðst ákærði hafa fengið sér enn í glasið og síðan sofnað. Hefði hann næst vaknað við að Y  hefði staðið upp, kallað á C og farið yfir í herbergið til hans að hann taldi. Aðspurður um hvort hún hefði verið í uppnámi þegar hún yfirgaf herbergi ákærða, kvað ákærði hana hafa verið mjög ölvaða, virst ekki vita hvar hún væri og illa á sig komna. Því hefði ákærði viljað vita hvort hún hefði farið yfir til C eða ekki og þess vegna farið á eftir henni. Hafi ákærði farið yfir í herbergið til strákanna til að athuga með Y og séð þá hvar hún lá í fanginu á C. Aðspurður um hvenær ákærði hefði fyrst verið sakaður um kynferðisbrot, kvað ákærði sig hafa fengið símtal frá E, á meðan krakkarnir hafi enn verið inni í herberginu, þar sem E spyr ákærða hvað hafi gerst í herberginu hjá honum. Kvaðst ákærði hafa verið hissa á þessu og sagt E að hann vissi ekki hvað hafði gerst. Kvað ákærði þá E hafa tjáð sér að hann hefði frétt að ákærði hefði nauðgað Y og meitt hana. Kvaðst ákærði hafa verið hissa á þessum ásökunum. Kvaðst hann hafa farið því næst yfir í herbergið til strákanna og spurt þá hvað þeir væru að gera honum, af hverju þeir væru að gera honum þetta og hvernig hann hefði átt að geta gert þetta, þar sem hann gæti varla staðið í fæturna. Kvað ákærði þá C hafa svarað því til að hann hefði ekki verið inni í herberginu hjá ákærða og vissi ekki hvað ákærði væri fær um að gera. Aðspurður um hvort það hefði verið ráðist á ákærða vegna málsins, kvað ákærði að svo hefði verið síðar um kvöldið, þ.e. að kvöldi laugardagsins 28. janúar s.l., en það hefðu ekki verið strákarnir sem voru þar að verki, C eða F. Í málinu liggur fyrir áverkavottorð ákærða, ritað af Hilmi Ásgeirssyni lækni, dagsett 30. janúar 2006, þar sem fram kemur að ákærði hafi leitað sér læknisaðstoðar vegna líkamsárásar. Þá var framburður Y  fyrir Barnahúsi enn borinn undir ákærða, lið fyrir lið, og neitaði ákærði enn ásökunum hennar. Nánar aðspurður kvað ákærði sig ekki hafa átt nein kynferðisleg samskipti við Y. Þá var kynnt fyrir ákærða niðurstaða úr DNA-rannsókn þar sem fram kemur staðfesting á því að DNA sem rakið sé til ákærða, trúlega úr munnvatni, hafi fundist á brjósti Y . Kvaðst ákærði ekki vita hvernig það sé til komið. Nánar aðspurður hvort ákærði neiti vegna þess að hann hafi ekki gert það sem honum sé gert að sök eða hvort það sé vegna þess að hann muni það ekki, kvaðst ákærði ekki hafa gert það sem honum sé gert að sök í málinu. Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa spurt Y um aldur hennar. Nánar spurður um hversu lengi ákærði teldi J hafa stoppað, kvaðst ákærði halda að það hefði verið í um tíu mínútur, a.m.k. minna en hálftíma. Kvað ákærði aðspurður J hafa vel getað séð yfir allt herbergið og hafi Y  verið sofandi undir sænginni þann tíma sem J hafi stoppað. Aðspurður kvað ákærði Y hafa verið í buxum og bol í umrætt sinn en kvaðst ekki muna til þess að hún hefði verið í peysu. 

             Vitnið C, kt. 070190-3469, kom fyrir dóminn og kvað ákærða vera vin föður síns en Y hafa verið unnustu sína þegar atvikið gerðist en þau hafi verið saman í um hálft ár. Aðspurður kvað C að Y  hefði komið til sín föstudaginn 27. janúar s.l. og þau hafi farið að verbúðinni þar sem ákærði bjó en þar hafi verið partý. Áfengi hafi verið við hönd sem keypt hafi verið í kolaportinu. Kvaðst C hafa verið mjög fullur á föstudagskvöldinu og kvað ákærða hafa verið að aðstoða sig vegna drykkju sinnar. Kvað C að þau hefðu vaknað um hádegi og þá farið aftur að drekka en hann kvað að hann hefði farið með ákærða að sækja meira áfengi laust eftir hádegi en það hafi verið áfengi úr kolaportinu sem falið hafi verið í skrúðgarðinum í B. Kvað C að þau hefðu verið búin að drekka svolítið áfengi og þau hefðu verið inni í herberginu hjá ákærða, þ.e. hann, F, Y  og ákærði, svo hafi hann og F farið inn í herbergi til sín að sofa. Þá hafi Y  komið eftir skamma stund inn í herbergi til sín grátandi og vakið sig. Hélt C að það hefði verið um hálftíma síðar en kvaðst þó hafa verið sofnaður. Kvað C Y hafa verið búna að drekka áfengi en sagði jafnframt að hún hefði sagt, þegar hún kom inn, að ákærði hefði reynt að nauðga sér og hafi verið hágrátandi. Aðspurður kvaðst C ekki hafa áður séð Y í slíku ástandi og hafi hún verið grátandi líkt og hún væri hrædd. Sagði C Y ekki hafa farið nánar út í hvað ákærði hefði nákvæmlega gert við sig. Þá sagði C aðspurður að þegar þau hefðu farið inn í herbergi til ákærða, fyrir atvikið, þá hefðu þau þrjú, þ.e. hann, F og Y , öll farið upp í rúm ákærða. Kvaðst C hafa farið ásamt F yfir í herbergið sitt, sem var á móti herbergi ákærða og hafi hurðunum á báðum herbergjum verið lokað. Þá sagðist C hafa heyrt að hækkað hefði verið í sjónvarpinu eftir að hann hefði verið kominn inn í herbergið til sín. Kvaðst C hafa komið inn í herbergið til sín aðeins á undan F og hækkað hafi verið í sjónvarpinu eftir að F hafi verið kominn inn. Kvaðst C spurður hafa verið drukkinn um þetta leyti. Sagði C að eftir að Y  hefði sagt honum og F hvað ákærði hafði gert við sig hefðu þeir farið fram til að tala við ákærða en hann ekki sagst hafa gert neitt. Í kjölfarið hafi F hringt í bróður sinn og beðið hann um að sækja Y. Skömmu síðar hafi H bróðir F komið, náð í Y og keyrt hana í bæinn. Kvaðst C síðan hafa fengið far með G, bróður F, í bæinn til að fara með Y á neyðarmóttökuna. Aðspurður kvað C Y ekki hafa viljað hringja á lögregluna en G hafa viljað það og gert. Þá kvaðst C ekki telja að ákærði hafi vitað kvað Y  hafi verið gömul en kvað ákærða vita hvað hann væri gamall. Nánar aðspurður sagði C að Y  hefði ekki sagt sér hvað ákærði hefði gert við sig annað en það að hann hefði reynt að nauðga sér. Þá sagði C að Y  hefði verið frekar mikið drukkin í umrætt sinn og að þetta hefði verið í fyrsta skipti sem hún hefði verið að drekka að hann teldi. Kvaðst C ekki muna lengur hvernig Y  hafi verið klædd. Þá var C spurður um hvort Y  hefði verið að drekka kvöldinu áður, þ.e. á föstudagskvöldinu, og hvort hún hefði haft einhver samskipti þá við ákærða, kvað C hana hafa verið talsvert drukkna en hann hafi ekki tekið eftir því að hún hefði haft einhver samskipti við ákærða það kvöld.

             Vitnið F, kt. [...], skýrði svo frá fyrir dómi að  hann þekkti ákærða eiginlega ekki neitt og vissi lítið um hann. Hins vegar kvað hann Y hafa verið kærustu sína áður en hún hafi byrjað með C. Sagði F að hann og C hefði komið í verbúðina föstudaginn 27. janúar s.l. og verið að hlusta á tónlist og þess háttar.  Aðspurður kvað F það geta passað að þau hefðu verið að drekka á laugardeginum. Þá sagðist F muna til þess að þau, þ.e. hann, ákærði, C og Y  hefðu farið inn í herbergi til ákærða að horfa á sjónvarpið. Hefði C og Y  legið í rúminu. Kvað hann C hafa farið fyrst yfir í sitt herbergi, síðan hafi hann sjálfur farið skömmu síðar og þá sýnst ákærði vera sofandi í stólnum sínum. Kvaðst F hafa heyrt í sjónvarpinu eftir að hann hafi farið út úr herbergi ákærða og yfir í herbergið til C. Kvað hann sig og C hafa verið að spjalla þegar Y  hafi komið hágrátandi inn í herbergið til þeirra og sagt C skömmu síðar að ákærði hefði verið að misnota sig. Kvaðst F aðspurður ekki hafa séð Y áður í slíku ástandi en kvaðst ekki geta borið um hvort hún hefði verið drukkin. Kvað F að C hefði reynt að tala við ákærða en síðan hafi H bróðir F komið og náð í Y og farið með hana í bæinn. Sagði F að hann hefði sagt G bróður sínum frá þessu og jafnframt sagt að Y  hafi ekki viljað kæra þetta en G hafi hringt í ömmu hennar og sagt henni frá þessu og halda að hann hefði beðið hana um að kæra þetta. Nánar aðspurður um hvað Y  hefði sagt eftir að hún hefði komið inn til þeirra í kjölfar atviksins, kvað F að hún hefði sagt við C „fyrirgefðu C, fyrirgefðu C“, sagði F síðan að hún hefði sagt að ákærði hefði haldið sér og farið að sleikja hana. Aðspurður kvað F að Y  hefði sagt að einhver kona hefði komið inn í herbergið á meðan þessu stóð og þá hafi ákærði sest í stólinn og byrjað aftur eftir að hún fór. Kvaðst F ekki muna hvernig Y  hafi verið klædd í umrætt sinn. Aðspurður kvað F hægindastólinn sem ákærði hafi verið í hafa snúið samsíða rúminu. Þá sagði F að C hefði útvegað áfengið og gefið ákærða það. Aðspurður kvaðst F ekki halda að ákærði hafi vitað hvað hann eða Y  hafi verið gömul en kvaðst halda að ákærði hafi vitað hvað C var gamall.

             Vitnið E, kt. [...], skýrði svo frá fyrir dómi að hann þekkti ákærða vel en þeir hafi unnið saman í ein þrjú ár. Sagðist E hafa keyrt unga stúlku, sem komið hafi í verbúðina þessa umræddu helgi, heim til C en hún hafi komið með rútunni til að hitta C sem var kærasti hennar. Kvað E þau síðan hafa komið sjálf aftur í verbúðina. Hafi þau verið að drekka þar áfengi sem þau hafi komið haft meðferðis. Kvað hann þau hafa drukkið bæði um kvöldið og síðan morguninn eftir en kvaðst ekki muna nákvæmlega hvort það hafi verið föstudagur, laugardagur eða sunnudagur. Aðspurður kvaðst hann muna að þau hefðu farið inn til ákærða að horfa á sjónvarpið og stelpan hefði verið í rúminu með C, ákærði hafi verið í hægindastólnum og F hafi verið þarna líka. Kvaðst E aðspurður hafa kíkt inn í herbergið til þeirra en ekki hafa setið með þeim í umrætt sinn. Kvaðst hann hafa verið á leið til Reykjavíkur þegar C hafi hringt í hann og sagt honum að Y  sé grátandi vegna þess að ákærði hafi gert henni eitthvað. Kvaðst hann hafa þá snúið við og farið aftur heim í verbúðina. Þegar hann hafi komið aftur í verbúðina hafi Y  farið að tala við hann um málið en alltaf farið að gráta þegar hún reyndi tjá sig. Kvaðst hann hafa reynt að róa hana og boðið henni að keyra hana heim til sín en hún ekki viljað sökum ölvunarástands sína og hann þá farið með hana inn í herbergi til sín og leyft henni að vera það. Kvaðst hann ekki muna til þess að hafa talað við ákærða í umrætt sinn. Þá var borinn undir E framburður sem hann gaf hjá lögreglu þann 29. janúar s.l. þar sem hann sagði Y ekki hafa verið miður sín eða grátandi þegar hann hafi hitt hana eftir atvikið. Kvað hann þetta líklegast ekki hafa verið beinan grátur heldur meira svona kjökur en kvaðst eiga erfitt með að útskýra það. Kvaðst E aðspurður hafa rætt það við ákærða seinna um kvöldið hvort það væri rétt sem Y  væri að bera upp á hann. Sagði hann ákærða hafa neitað ásökunum. Nánar aðspurður kvaðst E hafa séð rétt áður en hann fór af stað til Reykjavíkur, hvar Y  hafi legið í rúminu og snúið til veggjar en strákarnir verið farnir út úr herberginu yfir í sitt herbergi og verið sofandi þar. Aðspurður kvað hann ákærða vera almennt rólegan, hljóðlátan og góðan mann. Þá kvað hann ákærða ekki eiga erfitt með áfengi og ef eitthvað hefði verið þá hefði það verið ákærði sem hefði róað krakkana niður kvöldið áður. Kvað hann ákærða hafa verið hissa á spurningunum þegar E hafi borið upp á hann þær sakir sem C hefði tjáð E í gegnum síma skömmu eftir atvikið. Þá sagði hann Y hafa verið klædda í einhverjum buxum og bol í umrætt sinn og kvaðst minnast þess að hún hafi verið drukkin. Kvaðst hann ekki hafa fengið upplýsingar um hvað ákærði átti að hafa gert nákvæmlega við Y annað en að ákærði átti að hafa nauðgað henni.

             Vitnið Björgvin Sigurðsson, sérfræðingur við tæknideild lögreglunnar í Reykjavík, kom fyrir dóminn. Kvaðst Björgvin hafa fengið send gögn frá lögreglunni á Selfossi sem safnað var á neyðarmóttöku og hafi séð um milligöngu vegna sendingar gagnanna til Rettsmedisinsk Institutt í Osló til DNA-rannsóknar.  Hann kvaðst ekki kanna það sjálfur hvort sýnin séu tæk til DNA-rannsóknar, heldur sendi þau beint út til háskólans í Osló til rannsóknar.  Kvað hann Norðmennina hafa skoðað pinnana, fyrst með sérstöku prófi sem leitar að ensímum sem finnast aðallega í munnvatni en finnist einnig í öðrum líkamsvessum, svo sem þvagi og leggangavökva. Þar sem pinnarnir gáfu jákvæða svörun við þessu prófi voru þeir DNA greindir. Sýni merkt nr. 1-3, DNA-snið úr þeim gáfu öll snið sem var samskonar og DNA-snið þolanda. Í sýni nr. 4 hafi hinsvegar fundist DNA-snið sem var samskonar og DNA-snið hins ákærða, ásamt nokkrum auka samsætum og þær samsætur hafi allar verið að finna í DNA-sniði þolanda. Þar sem sýnið hafi verið tekið af líkama þolanda, þ.e. hægra brjósti, þykja allar líkur til þess að þær séu frá henni komnar. Aðspurður kvað Björgvin styrk framangreindra ensíma vera miklu meiri í munnvatni en finnist í öðrum líkamsvessum. Aðspurður kvað Björgvin það vera tölfræðilega mögulegt að umrætt DNA-snið hafi borist með fingrum á þolanda. Þá sagði Björgvin aðspurður líkurnar á því að finna annan einstakling með sama DNA-snið vera að lágmarki vera einn á móti milljarði, samkvæmt upplýsingunum frá rannsóknarstofnuninni í Osló. Þá kvað Björgvin aðspurður ástæðu þess að hann komi ekki nálægt rannsókninni sjálfur nema með milligöngu á sýnum frá Íslandi til Oslóar, vera þá að í þessu máli hafi einungis verið um munnmök að ræða og káf og þá finnist einungis þekjufrumur en ekki sæðisfrumur og hann geti ekki greint milli þekjufrumna tveggja einstaklinga. Aðspurður kvað hann framangreinda skýrslu sína vera samantekt á niðurstöðum rannsókna í Osló. Aðspurður kvað Björgvin það vera rétt að einungis hefði fundist óverulegt magn DNA í sýnunum en kvað það ekki vera óeðlilegt þegar um þekjufrumur sé að ræða. Hann kvaðst ekki geta skýrt það hvers vegna það hefði ekki fundist DNA-snið úr ákærða í fleiri sýnum, þar sem hann hafi ekki verið viðstaddur sýnatökuna á neyðarmóttökunni. Aðspurður um hvort DNA-sniðið úr ákærða sem hafi fundist á hægra brjósti brotaþola gæti hafa borist með öðrum hætti, kvað hann það vera tölfræðilega mögulegt. Hann kvað miklar líkur vera á því að DNA-snið tapist þvoi brotaþoli sér en kvaðst þó ekki hafa neinar rannsóknir sem styðji þá ályktun sína. Þá kvaðst hann ekki geta sagt til um hversu lengi sé hægt að ná DNA-sniði af brotaþola sé ekkert að gert en taldi að það ætti að vera a.m.k. þangað til brotaþoli myndi þvo sér. Aðspurt kvað vitnið það vera mögulegt að munnvatn skolist af kynfærum brotaþola hafi brotaþoli þvaglát áður en sýnataka fari fram.

             Þá kom vitnið J, kt. [...], fyrir dóminn. Hún kvað  ákærða og mann sinn vera vinnufélaga. Þá sé hann einnig bróðir vinkonu hennar. Hún kvaðst hafa farið til ákærða til að fá lánaða tölvuleiki. Hafi hún hitt strák sem hafi sagt ákærða vera inni í herberginu sínu. Þá hafi hún farið inn til hans og spurt hann um tölvuleiki. Hann hafi verið fullur í stólnum sínum og stelpan einnig verið drukkin og legið í rúminu hans. Aðspurð kvað hún þetta hafa verið unga stelpu sem hún hefði ekki séð áður. Sagði J stelpuna hafa lyft höfðinu upp og litið til sín en snúið sér síðan aftur af veggnum, breitt yfir sig og væntanlega sofnað aftur. Kvaðst hún hafa stoppað í u.þ.b. fimm mínútur og kvað hún ákærða hafa verið drukkinn. Hún kvað svipinn á stúlkunni hafa verið þannig að henni hafi fundist hún hafa verið óvelkomin þangað inn í herbergið til þeirra, fundist hún vera að trufla. Þá kvað J stúlkuna hafa vel getað gengið út þegar hún hafi komið. Hún kvaðst ekki hafa orðið var annað en að ákærði hefði setið í stólnum þegar hún hafi komið og hann setið þar meðan hún var þar. Hún kvað stúlkuna hafa verið með sængina upp að höfði og kvað hana hafa litið á sig eins og áður sagði og síðan dregið sængina upp fyrir haus. Kvaðst hún ekki hafa tekið eftir að stelpan hefði verið í uppnámi. Kvaðst hún ekki trúa því að ákærði hefði gert það sem hann væri ásakaður um. Segir hún ákærða vera mjög rólegan, áhugamálin hans vera aðallega tölvuna, sjónvarpið og vinnuna og kvað hann vera lítið fyrir uppákomur. 

             Vitnið K, kt. [...], móðir Y  kom fyrir dóminn. Aðspurð kvaðst hún hafa verið búin að gefa dóttur sinni leyfi til að fara til B umrædda helgi að hitta C. Kvaðst hún ekki hafa verið í þetta skipti í samskiptum við foreldra C, þar sem hún hafi verið erlendis umrædda helgi. Kvað vitnið það næsta sem hún viti hafi verð þegar móðir hennar, þ.e. amma brotaþola, sagði vitninu frá því sem gerst hafði umrædda helgi. Kvað K dóttur sína hafa síðar sagt sér í smáatriðum hvað hafði gerst. Sagði hún fyrir dóminum hvað dóttir hennar hefði sagt sér og var það að öllu leyti í samræmi við það sem fram kemur í skýrslu Y . Aðspurð kvað K dóttur sína hafa sagt sér frá atburðinum áður en hún hafi farið í skýrslutöku í Barnahúsi. Þá kvað K, aðspurð um áhrif atviksins á Y, að hún væri búin að vera á Stuðlum í greiningu og meðferð, í um þrjár vikur, og væri líklega að fara á þunglyndislyf. Fyrir þann tíma hafi hún verið í L í þrjár vikur, þar sem hún hefði verið hætt að geta verið í sínum skóla. Kvað hún L vera skóla fyrir krakka sem rekist ekki  í venjulegum skólum. Kvað hún dóttur sína hafa mætt illa og ekki mætt  í skólann síðan í janúar. Kvað hún Y ekki hafa mætt í skólann í tvær vikur eftir atvikið og ekki tekið nema eitt próf síðastliðið vor. Þá hafi hún mætt eina viku í skólann um haustið og síðan alveg hætt að mæta. Þá kvað hún Y hafa mætt í viðtalsmeðferð í Barnahúsi um tíma en ekki fengist til að tjá sig þar.

             Vitnið Kristín Andersen, kt. 061259-7299, kvensjúkdóma- og fæðingalæknir, kom fyrir dóminn. Aðspurð kvað Kristín brotaþola hafa verið samvinnuþýða en hafa lítið viljað tjá sig um málið og hafi fundist óþægilegt að vera á neyðarmóttökunni. Þá sagði Kristín enn fremur að brotaþoli hefði sagt sér að hún hefði verið að drekka þarna fyrr um daginn, þ.e. á laugardeginum 28. janúar 2006, en Kristín kvað sig hins vegar ekki hafa merkt það á brotaþola þegar hún kom í skoðun og hafi það verið um kl. 1:00 aðfaranótt sunnudagsins. Aðspurð um sýnatökuna kvað Kristín að reglan væri sú að sýni væru tekin á stöðum sem samræmdust frásögn brotaþola í hvert sinn. Þá kvað Kristín aðspurð sig hafa notað pinna sem bleyttur hafi verið í saltvatni og síðan hafi hún strokið honum eftir húðinni, því næst hafi pinninn verið þurrkaður og settur í þar til gert box og sent á rannsóknarstofuna þar sem leitað sé að DNA í sýninu. Nánar aðspurð kvað Kristín sig hafa tekið sýni frá þrem stöðum í og við leggöng. Eitt sýni hafi verið tekið innan úr leggöngum, annað við leggangaop og það þriðja af ytri börmum. Hafi markmið sýnatökunnar verið að leita eftir t.d. DNA úr munnvatni.

Niðurstaða

            Framburður kæranda við komu á neyðarmóttöku er í öllum aðalatriðum samræmi við frásögn móður hennar af upplifun dóttur sinnar og frásögn hennar hennar í Barnahúsi.  Þá fær framburður kæranda stoð í framburði annarra vitna fyrir dómi, þeirra C, F og E, að því er varðar háttarlag hennar og ákærða fyrir og eftir ætlað atvik. Þá samræmist framburður kæranda framburði vitnisins J, að því er varðar hegðun ákærða og kæranda í herbergi ákærða.  Þá telur dómurinn frásögn kæranda í skýrslutöku í Barnahúsi einkar trúverðuga. Kærandi  hefur lýst atvikum þannig að ákærði hafi byrjað að strjúka á sér bakið og hafi hún þá reynt að ýta honum í burtu en ekki getað. Þá hafi ákærði strokið á henni brjóstin utan klæða en þurft frá að hverfa þar sem vitnið J hafi bankað og komið inn. Ákærði hafi síðan hindrað för kæranda út úr herberginu eftir að vitnið J hafi verið farin og togað í kæranda og hent henni aftur í rúmið þar sem ákærði hafi haldið henni og káfað á henni innan klæða. Þá samræmist það framburði kæranda að hún hafi reynt að kalla á hjálp en ákærði komið í veg fyrir að það heyrðist með því að hækka í sjónvarpinu, því vitnið C hefur borið fyrir dómi að hækkað hafi verið í sjónvarpinu inni hjá ákærða eftir að vitnið hefði verið komið inn í herbergið sitt. Því næst lýsir kærandi því að ákærði hefði dregið buxur hennar niður og togað bolinn hennar frá brjóstunum. Hafi ákærði síðan sleikt á henni brjóstin og kynfærin og stungið putta inn í leggöngin. Í gögnunum liggur fyrir að DNA-snið úr munnvatni, sem samræmist DNA-sniði ákærða, þannig að yfir vafa sé hafið, hafi fundist í sýni sem tekið hafi verið af hægra brjósti kæranda. Skýtur það styrkum stoðum undir frásögn kæranda. Þá hafi kærandi enn reynt að ýta ákærða frá sér en ekki getað og ákærði enn hækkað í sjónvarpinu þegar kærandi hafi reynt að kalla á hjálp. Það hafi ekki verið fyrr en kærandi hafi beðið ákærða um meira að drekka að hann hafi látið af háttsemi sinni og kærandi náð að hlaupa út og yfir til herbergis kærasta síns og vinar hans. Hafa vitnin C og F báðir borið fyrir dómi að kærandi hafi komið inn í herbergi til þeirra í uppnámi, grátið og sagt ákærða hafa nauðgað sér. Styður vitnisburður C og F, vitnisburð kæranda að þessu leyti. Þá hefur vitnið E einnig staðfest það fyrir dómi að kærandi hafi verið í uppnámi þegar hann hafi hitt hana skömmu eftir meint atvik.  Þá er ljóst af þeim gögnum sem aflað var á neyðarmóttöku að kærandi hefur orðið fyrir áfalli.

             Ákærði hefur við rannsókn og meðferð málsins ætíð neitað sök.   Hefur framburður ákærða verið sá að hann hafi verið sofandi í hægindastól sínum og einungis vaknað þegar vitnið J hafi komið í heimsókn en því næst þegar kærandi hafi ákveðið að fara yfir í herbergið til vitnanna C og F. Það sem styður framburð ákærða er vitnisburður vitnisins J en hún hefur borið fyrir dómi að ákærði hafi setið í hægindastól sínum þegar vitnið kom í heimsókn. Hins vegar hefur ákærði ekki getað skýrt það hvers vegna DNA-snið, sams konar og hans, hafi fundist á hægra brjósti kæranda eða hvers vegna hún kunni að hafa borið hann þeim sökum sem raun ber vitni.

             Það er mat dómsins, þegar allt það sem hér hefur verið rakið er virt, sérstaklega staðfastur og trúverðugur framburður kæranda um atvik málsins sem fær stoð í framburði vitna í máli þessu, hegðun hennar og ástand eftir atvikið og sérstaklega með hliðsjón af framangreindri niðurstöðu DNA-rannsóknar, að ekki sé varhugavert að telja nægilega sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákærulið I.  Hins vegar er ósannað að ákærða hafi verið ljóst að kærandi hafi verið yngri en 14 ára og verður brot hans því ekki heimfært undir 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga.  Brot ákærða varðar hins vegar við 194. gr. sömu laga  og hefur hann því unnið sér til refsingar. 

            Ákærði hefur viðurkennt að hafa veitt kæranda áfengi, þrátt fyrir að vita að hún væri undir lögaldri. Hefur ákærði því gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gert að sök samkvæmt ákærulið II.

Refsiákvörðun

            Ákærði hefur ekki áður sætt refsingum hérlendis eða erlendis svo vitað sé. Þegar tekið er tillit til ungs aldurs kæranda og atvika að öðru leyti þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði. Til frádráttar kemur gæsluvarðhald ákærða frá 30. janúar 2006 til og með 2. febrúar 2006.

Skaðabótakrafa

Margrét Gunnlaugsdóttir héraðsdómslögmaður hefur fyrir hönd K, vegna ólögráða dóttur hennar, krafist miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 1.800.000 krónur auk dráttarvaxta, skv. III. kafla vaxtalaga, nr. 38/2001, frá 28. janúar s.l. til greiðsludags og málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins, að viðbættum virðisaukaskatti.

             Í bótakröfu er vísað til þess að verknaður ákærða hafi leitt til verulegs tjóns fyrir kæranda sem lýsi sér í andlegri vanlíðan, kvíða og mikilli hræðslutilfinningu. Hafi það í för með sér vöðvaspennu og eymsli í maga. Þá hafi kærandi ekki treyst sér til að mæta í skóla eftir atvikið og hefur skólasókn hennar því að mestu fallið niður af þeim sökum. Þá sé hún enn barn að aldri og á viðkvæmu þroskaskeiði í lífi sínu og því séu afleiðingar verknaðarins víðtækari en ella. Um lagarök er vísað til 26. gr. laga nr. 50/1993 um skaðabætur.

             Fyrir liggur greinargerð Ólafar Ástu Farestveit, uppeldis- og afbrotafræðings, en hún hitti kæranda vegna viðtalsmeðferðar í fjögur skipti á tímabilinu 9. febrúar s.l. til 13. júní s.l. Í greinargerðinni kemur m.a. fram að kærandi eigi í miklum vanda með tilfinningalíf sitt og samskipti við annað fólk.

             Þá liggur einnig frammi í málinu greinargerð Barnaverndar Reykjavíkur en þar kemur fram að kærandi hafi farið í greiningar- og meðferðarvistun á Stuðlum í ágúst s.l. Kærandi hafi síðan byrjað í skóla í byrjun september s.l. en hætt að mæta undir lok sama mánaðar. Þá hafi verið sótt um fyrir kæranda í Brúarskóla og hafi hún byrjað þar í byrjun október s.l. og hafi átt að vera þar í meðferð til og með 30. nóvember s.l. en Brúarskóli sé lítill skóli fyrir nemendur sem oftast eigi við hegðunar- eða tilfinningavanda að etja.

             Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða dómsins að framferði ákærða hafi valdið kæranda miska. Á hún rétt á miskabótum vegna háttsemi ákærða á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993. Að málsatvikum virtum þykja bætur hæfilega ákveðnar 900.000 krónur og bera þær vexti eins og í dómsorði greinir.

Samkvæmt framangreindum úrslitum málsins og með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. a-lið 164. gr. sömu laga með áorðnum breytingum, ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað 808.926 krónur, þar með talinn kostnaður vegna DNA-rannsóknar, 121.470 krónur og 7.500 krónur vegna læknisvottorðs og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðjóns Ægis Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 530.370 krónur og þóknun Margrétar Gunnlaugsdóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns kæranda, sem þykir hæfilega ákveðin 149.586 krónur og er þá innifalinn virðisaukaskattur í báðum tilvikum. 

Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari flutti málið af hálfu ákæruvaldsins.

Héraðsdómararnir Hjörtur O. Aðalsteinsson sem dómsformaður, Ástríður Grímsdóttir og Ásgeir Magnússon kváðu upp dóminn.

Dómsuppkvaðning hefur dregist vegna embættisanna dómenda.

Dómsorð:

Ákærði, Adam Baranowski, sæti fangelsi í 18 mánuði. Til frádráttar refsingu kemur gæsluvarðhald ákærða frá 30. janúar 2006 til 2. febrúar 2006. 

Ákærði greiði Y 900.000 krónur í miskabætur með vöxtum samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. janúar 2006 til 9. júlí 2006 en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags samkvæmt 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga.

Ákærði greiði allan sakarkostnað 808.926 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðjóns Ægis Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns 530.370 krónur og skipaðs réttargæslumanns kæranda, Margrétar Gunnlaugsdóttur héraðsdómslögmanns 149.856 krónur.