Hæstiréttur íslands

Mál nr. 132/2005


Lykilorð

  • Aðild
  • Verksamningur
  • Uppsögn
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 17

 

Fimmtudaginn 17. nóvember 2005.

Nr. 132/2005.

Svavar Rúnar Guðnason

(Jónas Haraldsson hrl.)

gegn

Gutenberg ehf.

(Reynir Karlsson hrl.)

og gagnsök

 

Aðild. Verksamningur. Uppsögn. Skaðabætur.

S og G gerðu í desember 2000 með sér tímabundinn verksamning til þriggja ára um akstur S á prentgripum og öðru efni. Í samningnum var ákvæði um að honum mætti segja upp með þriggja mánaða fyrirvara ef ágreiningur kæmi upp í samstarfi. G sagði samningnum upp í nóvember 2001, og tilgreindi breytingar á starfseminni sem ástæðu uppsagnar. S andmælti uppsögninni, enda hefðu engin ágreiningsmál komið upp milli aðila hans á samningstímanum. Þrátt fyrir að bú S hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta í júní 2003 var talið að hann gæti haldið uppi kröfu á hendur G vegna uppsagnar samningsins í eigin nafni, enda var afstaða skiptastjóra ljós um að búið myndi ekki halda slíkri kröfu uppi. Var því hafnað kröfu G um sýknu vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 130. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Talið var, að G hafi ekki sýnt fram á að vegna nánar tilgreinds atviks hafi verið kominn upp ágreiningur með samningsaðilum sem heimilað hafi beitingu uppsagnarákvæðis, enda hafi ætlaðar ávirðingar heldur ekki verið tilgreindar sem ástæða uppsagnarinnar í uppsagnarbréfi. Var uppsögnin því talin óheimil og gert að bæta S það tjón er hann beið við uppsögnina. S, sem starfaði sem verktaki hjá G, þurfti ekki að sæta lækkun á bótakröfu sinni á þeim grundvelli að hann hafi aflað sér annarra tekna á því tímabili sem eftir stóð af samningstímanum eða hafnað tilboði G um starf sem launþegi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. apríl 2005. Hann krefst þess að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 7.780.342 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. nóvember 2001 til 26. apríl 2002, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 20. júní 2005. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu aðaláfrýjanda, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

I.

Aðaláfrýjandi og prentsmiðjan Grafík hf. gerðu með sér samning 20. desember 2000 þar sem sá fyrrnefndi tók að sér sem verktaki útkeyrslu á prentgripum og öðru efni gegn tilteknu endurgjaldi. Um gildistíma og uppsögn var í samningnum svofellt ákvæði: „Samningur þessi gildir til 31. 12. 2003, ef ágreiningur kemur upp í samstarfi, er uppsögn á samningi 3 mánuðir.“ Þann 30. nóvember 2001 sendi prentsmiðjan aðaláfrýjanda svohljóðandi bréf: „Ágæti samstarfsaðili, þar sem breytingar hafa orðið á rekstrinum hér í Prentsmiðjunni Grafík hf., þar sem Grafík mun flytja starfsemi sína í hús Gutenberg Síðumúla 16-18 og sameinast því fyrirtæki, segi ég hér með samningi okkar upp með þriggja mánaða fyrirvara og reikna ég með að síðasti dagur í vinnu hjá þér sé 28. febrúar 2002.“

Aðaláfrýjandi andmælti með bréfi 29. janúar 2002 að uppsögn samningsins væri heimil enda hafi engin ágreiningsmál komið upp milli aðila hans á samningstímanum. Því bréfi var svarað af hálfu prentsmiðjunnar 27. febrúar 2002. Var þar tekið fram að viðskiptavinur prentsmiðjunnar hafi kvartað undan því í september 2001 að stefndi hafi haft í frammi óviðurkvæmilegar athugasemdir við starfsstúlku viðskiptavinarins. Aðaláfrýjandi hafi að vísu beðið stúlkuna afsökunar en sú afsökunarbeiðni ekki rist djúpt. Þetta hafi ekki verið tilgreint í uppsagnarbréfinu af tillitssemi við aðaláfrýjanda. Það hafi hins vegar orðið til að auðvelda prentsmiðjunni ákvörðun um uppsögnina að til hafi staðið að sameina félagið Gutenberg ehf. og því ekki lengur þörf á vinnuframlagi aðaláfrýjanda.

 Í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi kannaðist aðaláfrýjandi við atvik þetta en taldi sig ekki hafa verið dónalegan í umrætt sinn. Þá kannaðist hann við að verkstjóri í prentsmiðjunni hafi gert athugasemdir við sig vegna þessa og hann beðið umrædda stúlku afsökunar í framhaldinu en síðan haldið áfram að aka vörum til þessa viðskiptavinar án vandamála. Meðal gagna málsins er skrifleg kvörtun þessa viðskiptavinar til prentsmiðjunnar 20. september 2001, sem aðaláfrýjandi kveður að ekki hafi borist sér fyrr en í lok febrúar 2002.

 Óumdeilt er að áður en framangreind uppsögn verksamnings aðila kom til framkvæmda bauð þáverandi framkvæmdastjóri prentsmiðjunnar aðaláfrýjanda að starfa sem launþegi við útkeyrslu á vörum fyrirtækisins en aðaláfrýjandi hafnaði því. Fyrir liggur að prentsmiðjan Grafík hf. sameinaðist Gutenberg ehf. og er hið sameinaða félag rekið undir nafni gagnáfrýjanda. Vegna fyrrgreindrar uppsagnar verksamnings aðila höfðaði aðaláfrýjandi mál 10. júní 2002 og krafðist þess að dæmt yrði að samningur aðila væri í fullu gildi auk þess sem hann gerði fjárkröfu á hendur gagnáfrýjanda. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 13. mars 2003 var því máli vísað frá dómi. Aðaláfrýjandi höfðaði mál þetta fyrir héraðsdómi 20. febrúar 2004.

II.

Með úrskurði Héraðsdóms Vestfjarða 25. júní 2003 var bú aðaláfrýjanda tekið til gjaldþrotaskipta. Gagnáfrýjandi reisir aðalkröfu sína um sýknu í fyrsta lagi á aðildarskorti þar sem þrotabúið hafi tekið við þeim kröfuréttindum sem aðaláfrýjandi taldi sig eiga á hendur gagnáfrýjanda og hann hafi því ekki haft forræði yfir þeim er hann höfðaði málið í héraði. Meðal gagna málsins er tölvupóstur skiptastjóra þrotabúsins til þáverandi lögmanns aðaláfrýjanda 21. apríl 2004. Þar kemur fram að við skýrslutöku skiptastjóra af þrotamanni hafi hann upplýst að hann teldi sig eiga fjárkröfu á fyrirtæki í Reykjavík vegna sendibílaaksturs samkvæmt sérstökum samningi. Málinu hafi á sínum tíma verið vísað frá dómi en hugmyndir væru uppi um að stefna að nýju. Hafi bústjóri „séð gögn varðandi þann málarekstur og er ljóst að þrotabúið mun ekkert koma frekar að því máli...“ Var skiptum lokið á skiptafundi 21. maí 2004 samkvæmt 155. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í ljósi framangreindra atvika og afstöðu skiptastjóra verður að telja að aðaláfrýjandi geti haldið uppi kröfu á hendur gagnáfrýjanda vegna uppsagnar samnings þeirra í eigin nafni og verður því ekki orðið við kröfu gagnáfrýjanda um sýknu vegna aðildarskorts, sbr.  2. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991.

III.

Eins og að framan er rakið gerðu aðaláfrýjandi og prentsmiðjan Grafík hf. tímabundinn verksamning um akstur aðaláfrýjanda. Samningurinn var uppsegjanlegur með þriggja mánaða fyrirvara „ef ágreiningur kemur upp í samstarfi...“ Málsatvik varðandi ætlaða óviðurkvæmilega framkomu aðaláfrýjanda við starfsstúlku viðskiptavinar prentsmiðjunnar eru rakin að framan. Kemur þar fram að af hálfu prentsmiðjunnar voru að vísu gerðar óformlegar munnlegar athugasemdir við framkomu aðaláfrýjanda en afsökunarbeiðni hans látin duga. Hefur gagnáfrýjandi ekki sýnt fram á að vegna þessa atviks hafi verið upp kominn ágreiningur með samningsaðilum sem heimilað hafi beitingu fyrrgreinds uppsagnarákvæðis enda voru ætlaðar ávirðingar heldur ekki tilgreindar sem ástæða uppsagnarinnar í bréfi prentsmiðjunnar 30. nóvember 2001. Verður fyrrgreind uppsögn því talin óheimil og er gagnáfrýjandi því skyldur til að bæta aðaláfrýjanda það tjón er hann beið við uppsögnina.

Í umræddum verksamningi aðaláfrýjanda og prentsmiðjunnar Grafík hf. var kveðið á um að prentsmiðjan skyldi skipta við aðaláfrýjanda einan með akstur í átta til tíu klukkustundir á hverjum virkum degi gegn greiðslu á 1.900 krónum fyrir hverja klukkustund að viðbættum virðisaukaskatti. Skyldi sú fjárhæð endurskoðuð á sex mánaða fresti með tilliti til hækkunar á verðlista sendibílastöðva. Þá myndi prentsmiðjan einnig fela aðaláfrýjanda akstur, svonefnda hraðþjónustu, á öðrum tímum ef hann hefði upp á slíka þjónustu að bjóða.  Í héraði gerði aðaláfrýjandi kröfu í átta liðum. Krafðist hann greiðslu vegna reglulegrar þjónustu á tveimur tímabilum auk virðisaukaskatts á þá þjónustu og greiðslu vegna svonefndra hraðsendinga á tveimur tímabilum auk virðisaukaskatts á hana, allt að frádregnum nánar tilgreindum rekstrarkostnaði.

 Fyrir Hæstarétti féll aðaláfrýjandi frá kröfum er lutu að svonefndri hraðþjónustu og virðisaukaskatti og hefur nú einungis uppi kröfu um bætur miðað við reglulega þjónustu. Miðar hann kröfu sína við greiðslu fyrir 208,55 klukkustundir á mánuði, sem var meðalvinnutími hans á tímabilinu 1. júní 2001 til 28. febrúar 2002 samkvæmt greiddum reikningum og vinnuskýrslum. Þegar uppsögn verksamningsins kom til framkvæmda 1. mars 2002 var tímagjald samkvæmt honum 2.014 krónur með umsömdum verðlagshækkunum og stóðu þá 22 mánuðir eftir af samningstímanum.

Krafa aðaláfrýjanda miðast við 5% hækkun tímagjalds frá 1. mars 2002 og 3,8% hækkun þess frá 1. maí 2003. Aðaláfrýjandi hefur engin gögn lagt fram til stuðnings kröfu sinni um 5% taxtahækkun 1. mars 2002 og verður henni hafnað. Af framlögðum gögnum má hins vegar sjá að hámarksökutaxti Sendibílastöðvarinnar hf. hækkaði um 4% þann 10. apríl 2003. Er því fallist á kröfu aðaláfrýjanda um viðmiðun við 3,8% hækkun samningstaxta frá 1. maí 2003 til loka samningstíma.

 Samkvæmt þessu hefðu greiðslur til hans frá samningsrofum til loka samningstímans numið 9.366,900 krónum. Frá þeirri tölu ber að draga ætlaðan rekstrarkostnað að fjárhæð 2.033.336 krónur, samkvæmt útreikningum aðaláfrýjanda, sem reistir eru á rekstrarkostnaði hans á tímabilinu 1. janúar 2001 til 28. febrúar 2002 samkvæmt staðfestu ljósriti úr framtalsgögnum hans. Aðaláfrýjandi starfaði sem verktaki hjá prentsmiðjunni Grafík hf. Hann þarf ekki að sæta lækkun á bótakröfu sinni á þeim grundvelli að hann hafi aflað sér annarra tekna á því tímabili sem eftir stóð af samningstímanum eða hafnað tilboði prentsmiðjunnar um starf sem launþegi. Til þess að aðaláfrýjandi verði eins settur og samningur aðila hefði verið réttilega efndur verður gagnáfrýjandi samkvæmt framansögðu dæmdur að greiða honum 7.335.564 krónur. Ber sú fjárhæð vexti samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. mars 2002, er hin ólögmæta uppsögn kom til framkvæmda, og dráttarvexti frá 26. apríl 2002, er mánuður var liðinn frá því að aðaláfrýjandi gerði sundurliðaða kröfu vegna uppsagnarinnar.

Gagnáfrýjandi verður dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Gagnáfrýjandi, Gutenberg ehf., greiði aðaláfrýjanda, Svavari Rúnari Guðnasyni, 7.335.564 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. mars 2002 til 26. apríl sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 28. febrúar 2005.

             Stefnandi er Svavar Rúnar Guðnason, kt. 140151-2629, Blikahólum 4, Reykjavík, en stefndi er Gutenberg ehf., kt. 440734-0149, Síðumúla 16-18, Reykjavík.

             Umboðsmaður stefnanda er Jónas Þór Jónasson hdl., en umboðsmaður stefnda er Reynir Karlsson hrl.

             I.  Dómkröfur.

             1. Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 12.079.341 krónu með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 30. nóvember 2001 til 26. apríl 2002, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags og leggist dráttarvextir við fjárhæðina á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 30. nóvember 2002.

             Þá er krafist málskostnaðar eftir vinnuframlagi lögmanns stefnanda og að skaðlausu fyrir stefnanda að teknu tilliti til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun og leggist dráttarvextir á málskostnaðarkröfu í samræmi við ákvæði laga nr. 91/1991.

             2.  Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda, en til vara er krafist verulegrar lækkunar á stefnukröfunni.

             Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

             II.  Málavextir.

             Aðilar málsins gerðu með sér verksamning dags. 20.september 2000 um að stefnandi myndi sem verktaki sjá um "útkeyrslu á prentgripum og öðru efni" fyrir Prentsmiðjuna Grafik hf., nú Grafik Gutenberg ehf. Samið var um að stefnandi fengi 1900 krónur fyrir hverja unna klst., auk virðisaukaskatts, og að greitt yrði samkvæmt reikningi.  Þá var í samningnum svohljóðandi ákvæði:  "Samningur þessi gildir til 31.12. 2003, ef ágreiningur kemur upp í samstarfi, er uppsögn á samningi 3 mánuðir."  Þá er í samningnum, ákvæði um, að mál skuli rekið fyrir Héraðsdómi Reykjaness, komi upp deilur milli samningsaðila.

             Með bréfi, dags. 30. nóvember 2001, sagði stefndi stefnanda upp störfum með 3ja mánaða fyrirvara.  Ástæða uppsagnarinnar, sem tilgreind var í uppsagnarbréfinu var sú, að breytingar hefðu orðið á rekstrinum í Prentsmiðjunni Grafík hf., þar sem Grafík myndi flytja starfsemi sína í hús Gutenbergs, Síðumúla 16-18, og sameinast því fyrirtæki.

             Í greinargerð kveður stefndi ástæðu uppsagnarinnar hafa verið tvíþætta, annars vegar ástæða sú, sem tilgreind var í bréfinu, en hins vegar óánægja með, að kvartanir hefðu borist stefnda frá viðskiptavinum.  Lýsir stefndi kvörtun viðskiptavinar svo, að stefnda hafi borist bréf, dags. 20. september 2001, frá einum viðskipta­vina sinna, ISS Ísland ehf.  Hafi kvörtunin lotið að því, að stefnandi hefði haft í frammi ýmiss konar óviðurkvæmilegar athugasemdir við starfsstúlku fyrirtækisins.  Í bréfinu segi m.a.:

   "Áreitni af hvaða toga sem er, er nokkuð sem ég frábið mér að hálfu birgja okkar. Frjálsleg og vinsamleg samskipti er nokkuð sem við viljum eiga við alla.  Þar sem ég hef fullan hug á að versla við fyrirtæki þitt áfram þá þætti mér vænt um að þú sæir til þess að þessi aðili komi framvegis ekki með vörur til okkar.  Heldur verði öðrum starfsmanni falið það." 

Stefndi kveður forsvarsmann sinn hafa greint stefnanda frá framangreindum athugasemdum, og hafi stefnandi komið í viðkomandi fyrirtæki eftir það og sagst eiga að biðjast afsökunar, en sú afsökunarbeiðni hafi ekki virst rista djúpt.

             Stefnandi lét af störfum hjá stefnda hinn 1. mars 2002.

             Stefnandi kveðst í einu og öllu hafa staðið við samninginn, og hafi hann engar athugasemdir fengið frá forsvarsmönnum stefnda um störf sín.  Enginn ágreiningur hafi komið upp milli aðila um samstarfið, sem hafi í alla staði verið gott.  Eftir að framkvæmdastjóri Grafík hf. hafi einhliða sagt sér upp störfum með bréfi, dags. 30. nóv. 2001, þar sem hinum "ágæta samstarfsaðila" sé sagt upp störfum með þriggja mánaða fyrirvara, vegna breytinga á rekstri í Prentsmiðjunni Grafík hf. og flutninga fyrirtækisins í annað húsnæði, hafi honum verið afhent bréf, dags. 20. sept. 2001, þar sem forsvarsmaður ISS Ísland kvarti undan framkomu stefnanda við afhendingu prentvara.  Bréf þetta hafi stefnandi fengið afhent 23. febrúar 2002, og hafi hann ekki vitað af tilvist þess fyrr en þá, en hafði heyrt af einhverri óljósri kvörtun starfsmanns fyrirtækisins, stúlku, sem hann hafi eðlilega beðið afsökunar, enda þótt hann teldi sig ekki hafa verið dónalegan við komur sínar í umrætt fyrirtæki og hafi ekki vitað um neinar formlegar kvartanir þaðan, enda hafi hann haldið áfram að aka vörum í fyrirtækið, án nokkurra athugasemda, hvorki þaðan né frá yfirmönnum sínum í Grafík hf.  Þannig hafi hann talið sig hafa haft réttmæta ástæðu til að halda, að mál þetta væri úr sögunni.  Það hafi ekki valdið neinum ágreiningi milli hans og vinnuveitanda hans, því síður, að um það hafi verið rætt sem ágreiningsmál milli aðila.

Uppsögn stefnanda, sem sé dags. 30. nóv. 2001, sé enda ekki í neinum tengslum við mál þetta, og telur stefnandi, að umrætt bréf ISS Ísland ehf. hafi í raun verið samið löngu eftir 20. september 2001 að beiðni stefnda eða framkvæmdastjóra stefnda, hafi áttað sig á, að þeir voru komnir í erfiðleika varðandi uppsögn stefnanda og fyrirhugaða sameiningu fyrirtækisins við önnur félög.  Þetta mál sé ekki nefnt í uppsagnarbréfi framkvæmdastjóra Grafík hf. frá 30. nóv. s.l.

             Stefnandi kveðst hafa mætt til vinnu sinnar eins og vanalega þann 1. mars 2002, þar sem hann hafi talið samninginn enn í fullu gildi, þrátt fyrir samruna Grafík hf. við önnur fyrirtæki í prentiðnaði.  Honum hafi verið vísað frá vinnu umræddan morgun, og hafi hann ekki mætt síðan, en með bréfi lögmanns hans þá Þorbjörns Árnasonar hdl., dags. 29. janúar 2002 og með tölvupósti dags. 26. febrúar 2002 hafði verið lögð áhersla á að samningur aðila væri enn í gildi og því myndi hann mæta til starfa 1. mars 2002.

             Í svarbréfi lögmanns stefnda dags. 27. febrúar 2002 var því hafnað að ekki hafi komið til ágreinings í samstarfi aðila og var vísað til framangreinds bréfs ISS Islands ehf. og er stefnandi þar átalinn fyrir að hafa ekki iðrast nógu mikið, er hann baðst afsökunar.  Þá er þar talað um að umrædd framkoma stefnanda kæmi stefnda illa og í ljósi þess að stefnandi hafi ekki tekið athugasemdum stefnda nægilega alvarlega hafi verksamningi aðila verið sagt upp, þó að það hafi ekki verið nákvæmlega tilgreint í uppsagnarbréfinu af tillitssemi við stefnanda.

             Þá segi síðar í bréfinu að af vorkunnsemi við stefnanda hafi honum verið boðið starf að nýju til að létta undir með honum.  Síðar í bréfinu kemur fram það viðhorf stefnda að uppsagnarákvæði samningsins verði að túlka svo að hægt sé að segja upp samningnum þegar annar aðilinn væri ósáttur og var stefnanda tilkynnt að stefndi stæði við uppsögn sína á samningnum.

             Stefndi hefur vísað til þess, að bú stefnanda hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta í Héraðsdómi Vestfjarða 25. júní 2003 og skiptum hafi ekki verið lokið 19. apríl 2004. Það hefur svo verið upplýst síðar að skiptum á búinu lauk 21. maí s.l.

             III. Málsástæður og lagarök.

         1. Stefnandi byggir mál sitt á því að fyrirvaralaus uppsögn stefnda á verksamningi aðila þann 20. desember 2001 hafi verið með öllu ólögmæt og beri stefnda að greiða stefnanda efndabætur vegna hinna ólögmætu samningsslita.

Verksamningur aðila hafi verið tímabundinn með gildistíma frá 20. desember 2000 til 31. desember 2003. Ekkert almennt uppsagnarákvæði væri í samningi aðila en þó segði að ef upp kæmi ágreiningur í samstarfi aðila þá væri heimilt að segja upp samningnum með 3ja mánaða uppsagnarfresti. Stefnandi telji einsýnt að málsatvik hafi hvorki verið með þeim hætti að stefnda hafi verið heimilt að segja upp samningnum á grundvelli framangreinds uppsagnarákvæðiðs né hafi honum verið heimilt að slíta samningnum fyrirvaralaust, þ.e. án undangenginnar áminningar, vegna vanefnda stefnanda á samningnum. Uppsögn stefnda á samningi aðila hafi því hvorki átt stoð í samningnum né almennum reglum kröfu- og vinnuréttarins um rétt samningsaðila til fyrirvaralausra slita samnings vegna verulegra vanefnda gagnaðila.

Eins og fyrr hefur verið rakið greindi stefndi stefnanda frá því í síðari hluta septembermánaðar 2001 að kvörtun hefði borist fyrr í mánuðinum frá einum af viðskiptamönnum stefnda um að stefnandi hefði verið dónalegur við eina af starfsstúlkum fyrirtækisins. Þetta hafi komið stefnanda á óvart en hann  engu að síður farið og beðið umrædda stúlku afsökunar. Stefnandi hafði þá talið að málinu væri lokið og hann haldið áfram að keyra vörum til fyrirtækisins án nokkurra athugasemda af hálfu stefnda, umrædds fyrirtækis eða umræddrar starfsstúlku.

Rúmum tveimur mánuðum eftir að stefnandi hafði beðist afsökunar á framkomu sinni eða þann 30. nóvember 2001 hafði stefndi sagt upp verksamningi aðila.

Eins og sjáist af framangreindu uppsagnarbréfi hafi samningi aðila verið sagt upp vegna breytinga á rekstri stefnda. Ekki sé minnst einu einasta orði á meinta ámælisverða hegðun stefnanda gagnvart fyrrgreindri starfstúlku viðskiptamanns stefnda, eða hún tilgreind sem ástæða uppsagnarinnar. Í upphafi uppsagnarbréfsins sé stefnandi titlaður sem “ágæti samstarfsaðili” sem bendi ekki til annars en að samstarf stefnanda og stefnda hafi alla tíð verið með miklum ágætum. Verði með engum hætti ráðið af uppsagnarbréfinu að nokkurt ósætti hafi verið milli aðila á þeim tíma er stefndi sagði upp samningi aðila eins og lögmaður stefnda haldi fram í bréfi sínu dags. 27. febrúar 2002.

Vakin sé sérstök athygli á því að það hafi ekki verið fyrr en með bréfi lögmanns stefnda dags. 27. febrúar 2002, þegar liðnir voru nær þrír mánuðir frá því að stefndi sagði upp samningi aðila og fimm mánuðir voru liðnir frá því að stefnandi átti að hafa verið dónalegur við fyrrgreinda starfsstúlku viðskiptamanns stefnda, að því sé borið við af hálfu stefnda að ágreiningur hafi verið milli stefnanda og stefnda vegna ofangreinds atviks og af þeim sökum hafi stefnda verið heimilt að segja upp verksamningnum. Að mati stefnanda sé þessi síðbúna viðbára stefnda ekkert annað en yfirklór til þess að reyna að hanga á ólögmætri uppsögn stefnda á samningi aðila. Þessu til stuðnings sé á það bent að eftir uppsögn stefnda á samningnum, í febrúarmánuði 2002, bauð stefndi stefnanda nýtt starf hjá stefnda (sameinuðu fyrirtæki Grafík hf. og Gutenberg ehf. síðan á árinu 2002). Sú staðreynd að stefnanda skuli hafa verið boðið að starfa áfram hjá stefnda bendi svo sannarlega ekki til þess að skugga hafi borið á samstarf aðila eða að nokkur ágreiningur hafi verið þeirra á milli.

Auk alls framangreinds sé á það bent að á starfstíma stefnanda hjá stefnda hafi stefndi engar athugasemdir gert við störf stefnanda. Kvörtun starfsmanns viðskiptamanns stefnda hafi augljóslega ekki verið litin alvarlegum augum og því ekki um eiginlegan ágreining að ræða milli aðila. Stefnandi hafi ekki verið áminntur vegna atviksins eins og búast hefði mátt við hefði stefndi litið atvikið jafn alvarlegum augum og hann virðist gera á síðari stigum, ef marka megi ofangreint bréf lögmanns stefnda.

Verði litið svo á, þrátt fyrir allt framangreint, að ágreiningur hafi verið milli aðila sé byggt á því að uppsögn stefnanda hafi alls ekki verið byggð á ofangreindum ávirðingum. Verði þær því ekki lagðar til grundvallar uppsagnar hans á verksamningi aðila.

Sundurliðun krafna.

Samkvæmt verksamningi aðila skyldi stefndi fá greiddar kr. 1.900.- pr. klukkustund og skyldi virðisaukaskattur bætast ofan á þá fjárhæð. Skyldi samningurinn endurskoðaður á sex mánaða fresti með tilliti til hækkunar á verðlista sendibílastöðva. Í samningnum hafi stefndi skuldbundið sig til að “versla eingöngu við Svavar [stefnanda] með aksturinn, eða frá 8 – 10 tíma á hverjum virkum degi”. Í samningnum segi jafnframt að stefnandi verði í útkeyrslu hjá stefnda frá 8.00 – 17.00 eða 18.00 á hverjum degi og svo á öðrum tímum, eftir samkomulagi við stefnda. Þá segi að stefndi “mun einnig versla annan akstur í gegnum verksala, hafi verksali upp á þá þjónustu að bjóða. Þessi akstur sé hraðþjónusta við einstaka aðstæður”.

Við ákvörðun bóta handa stefnanda verði að miða að því að gera hann eins settan og ef fyrrnefndur verksamningur hefði verið réttilega efndur. Þegar stefnandi lét af störfum hjá stefnda voru 22 mánuðir eftir af samningstímanum. Meðalvinnutími stefnanda hjá stefnda á tímabilinu frá 1. júní 2001 (er tímagjald hækkaði í kr. 2.014.- pr. klst.) og til og með 28. febrúar 2002, þ.e. út starfstíma stefnanda hjá stefnda, hafi verið 208.55 klst. pr. mánuð [1877 klst. / 9 mánuðir = 208.55 klst. pr. mánuð].

             Í samræmi við verksamning aðila hefði tímagjald stefnanda hækkað um 5% (í samræmi við útreikninga Landsambands sendibifreiðastjóra) þann 27. febrúar 2002 ef ekki hefði komið til uppsagnar stefnda á samningnum og þann 4. apríl 2003 um 3.8%. Í ársbyrjun 2002 hafi Landsamband sendibifreiðastjóra reyndar hætt að gefa út hámarkstaxta og viðmiðanir vegna tilmæla Samkeppnisráðs sem taldi að slíkt stangaðist á við samkeppnislög. Landsambandið reiknar hins vegar enn út fyrir félagsmenn sína árlegar hækkanir á kostnaðarliðum við rekstur sendibifreiða í samræmi við breytingar á vísitölu og hækkanir á verðlagi. Þær upplýsingar birti Landsambandið þó ekki opinberlega vegna framangreindra fyrirmæla Samkeppnisráðs.

Séu síðasttaldar tvær hækkanir skoðaðar með hliðsjón af taxtahækkunum vegna reksturs sendibifreiða á árunum frá 1987 til ársins 2001, sbr. dómskjal nr. 13, sjáist að umræddar hækkanir árin 2002 og 2003 séu bæði eðlilegar og sanngjarnar. Við samanburð á meðaltalshækkun taxta tímabilið frá 1996 – 2001 annars vegar og tímabilið 2002 – 2003 hins vegar, sjáist að á fyrrgreindu sex ára tímabili hækkaði taxtinn um 42.3%, en á síðastgreindu tveggja ára tímabili hækkar hann um 9%. Af þessu sést að hækkun á síðastgreindu tveggja ára tímabili sé hlutfallslega mun minni en á sex ára tímabilinu þar á undan.

Miðað við kr. 2.114.- tímagjald (eftir 5% hækkun frá og með 1. mars 2002, sbr. hækkun frá 27. febrúar s.á.) nemi krafa stefnanda kr. 6.611.535.- [208.5  15  2.114 = 6.611.535 kr.] vegna fimmtán mánaða tímabilsins frá 1. mars 2002 til 1. maí 2003. Við þessa fjárhæð bætist virðisaukaskattur, allt í samræmi við verksamning aðila, að fjárhæð kr. 1.619.826.- Miðað við kr. 2.198.- tímagjald (eftir 3.8% hækkun frá og með 1. maí 2003, sbr. hækkun frá 4. apríl s.á.) nemur krafa stefnanda kr. 3.202.143.- [208.5 * 7 * 2194 = 3.202.143.- kr.] vegna sjö mánaða tímabilsins frá 1. maí 2003 til ársloka sama ár. Við þessa fjárhæð bætist virðisaukaskattur, allt í samræmi við verksamning aðila, að fjárhæð kr. 784.525.- Samtals gerir þetta kr. 12.218.029.- [6.611.535 + 1.619.826 + 3.202.143 + 784.525 = kr. 12.218.029.-].

Samkvæmt skýrum ákvæðum verksamnings aðila skyldi stefnandi fá greitt sérstaklega fyrir svokallaðar hraðsendingar, sbr. orðalagið... “Grafík mun einnig versla annan akstur í gegnum verksala, hafi verksali upp á þá þjónustu að bjóða. Þessi akstur er hraðþjónusta við einstaka aðstæður”. Það hafi verið forsenda samstarfs milli stefnanda og stefnda að stefnandi fengi þessar hraðsendingar sérstaklega greiddar enda hafi kr. 1.900.- taxti pr. klukkustund í ársbyrjun 2001 verið verulega langt undir almennum taxta sendibílastöðva, sbr. taxti Landsambands sendibifreiðastjóra á dómskjali nr. 13. Hafi verið litið á greiðslu vegna hraðsendinganna sem hluta af heildarlaunakjörum stefnanda enda hafi greiðslur til stefnanda fyrir almennan akstur, þ.e. kr. 1.900.- pr. klukkustund, einungis miðað við 56% af tímagjaldi m.v. almennan taxta (án startgjalds) sambærilegra sendibifreiða. Hefði stefnandi aldrei gengið til samstarfs við stefnda hefði ekki náðst að semja svo um að stefnandi fengi hraðsendingarnar sérstaklega greiddar.

Fjöldi skráðra hraðsendinga tímabilið 1. júní 2001 til og með 28. febrúar 2002 sé samtals 1.001 sending eða 111.2 pr. mánuð. Gjald fyrir hverja hraðsendingu skyldi vera kr. 442.- auk virðisaukaskatts kr. 108.-, samtals kr. 550.- pr. sendingu. Hafi gjaldið miðast við það gjald sem forveri stefnanda í starfi hafi fengið greitt fyrir hraðsendingar. Stefndi hafi ekki greitt stefnda fyrir ofangreindar hraðsendingar á tímabilinu 1. júní 2001 til 28. febrúar 2002. Vangreitt vegna hraðsendinga sé því kr. 442.442.- [1001  442 = 442.442] ásamt virðisaukaskatti kr. 108.398.-, samtals kr. 550.840.- Miðað við 111 hraðsendingu á mánuði það sem eftir var samningstímans, þ.e. 22 mánuð, beri stefnda að greiða stefnanda kr. 1.079.364.- [111  22  442] auk virðisaukaskatt kr. 264.444.-, samtals kr. 1.343.808.-

Krafa stefnanda nemur samkvæmt ofangreindu kr. 14.112.677.- og sundurliðast hún á eftirgreindan hátt:

Greiðslur (v. 1.3 02 – 30.4 03)                      kr. 6.611.535

Virðisaukaskattur                                          kr. 1.619.826.-

Greiðslur (v. 1.5 03 – 31.12 03)                    kr. 3.202.143.-

Virðisaukaskattur                                          kr.   784.525.-

Ógreiddar hraðsendingar                            kr.   442.442.-

Virðisaukaskattur                                          kr.   108.398.-

Hraðsendingar út samningstímabil                         kr. 1.079.364.-

Virðisaukaskattur                                          kr.   264.444.-


             Samtals                                                              kr. 14.112.677.-

Til frádráttar framangreindri kröfu komi sá kostnaður stefnanda sem gengið hefði til að efna samning aðila út samningstímann, þ.e. frá 1. mars 2002 til ársloka 2003, enda verði að miða við það að gera stefnanda eins settan og ef verksamningur aðila hefði verið réttilega efndur. Sé frádrátturinn miðaður við upplýsingar á rekstrarreikningum sem fylgdu með skattframtölum stefnanda árin 2002 og 2003, þ.e. vegna áranna 2001 og 2002, og staðfestir hafa verið af skattstjóra.

Samkvæmt rekstrarreikningi fyrir árið 2001 hafi kostnaður stefnda við að inna samninginn af hendi fyrir sitt leyti numið kr. 1.289.168.- Eins og fyrr greinir starfaði stefnandi einvörðungu fyrir stefnda tímabilið janúar – febrúar á árinu 2002, eða 1/6 hluta úr árinu. Samkvæmt rekstrarreikningi fyrir framangreint tímabil hafi rekstrarkostnaður stefnanda numið kr. 632.374.- en fjárhæðir trygginga, þungaskatts & bifreiðagjalda og fyrningar miðast við allt árið. Til að finna út réttan rekstrarkostnað fyrir árið í heild sinni séu aðrir kostnaðarliðir en ofangreindir margfaldaðir með sex til að fá út heildarkostnað fyrir allt árið, þó einnig að frátöldum liðunum hlífðarfatnaður og aðkeypt vinna.

Rekstrarkostnaður stefnda fyrir allt árið 2002 hefði því litið svona út:

             Olía og smurningar                 [42.991 * 6 ]    = kr. 257.946.-

             Viðgerðir og varahlutir                       [13.001 * 6 ]    = kr.  78.006.-

             Þungaskattur & bifreiðagj.                                          = kr. 220.751.-

             Tryggingar                                                        = kr.  57.836.-

             Ferðakostnaður                                   [21.555 * 6 ]    = kr. 129.330.-

             Sími                                           [30.157 * 6 ]    = kr. 180.942.-

             Hlífðarfatnaður                                                              = kr.    4.883.-

             Aðkeypt vinna                                                              = kr.  61.200.-

             Fyrningar skv. skrá                                          = kr. 180.000.-

            

             Samtals                                                                           = kr. 1.041.564.-

Kostnaður stefnanda við að efna verksamninginn við stefnda tímabilið mars – desember 2002 hefði numið 10/12 hlutum af kr. 1.041.564.-, eða kr. 867.970.-

Við útreikning áætlaðs rekstrarkostnaðar vegna ársins 2003 sé miðað við meðaltal rekstrarkostnaðar vegna áranna 2001–2002. Eins og fyrr greinir hafi rekstrar-kostnaður stefnanda árið 2001 numið kr. 1.289.168.- Árið 2002 hefði hann verið kr. 1.041.564.- fyrir allt árið. Samtals vegna þessara tveggja ára kr. 2.330.732.- Þetta gerir kr. 1.165.366.- að meðaltali á ári tímabilið 2001 – 2002. Miðar stefnandi við þessa tölu við útreikning á áætluðum rekstrarkostnaði fyrir árið 2003.

Kostnaður stefnanda samkvæmt ofangreindu við að efna verksamning aðila út samningstímann (frá og með 1. mars 2002 til ársloka 2003) hefði því numið kr. 2.033.336.- [ 867.970 + 1.165.366 = 2.033.336 ] sem dragist frá framangreindri kröfu stefnanda. Krafa stefnanda á hendur stefnda nemi því samtals kr. 12.079.341.- [14.112.677 – 2.033.336 = kr. 12.079.341.-].

Þar sem stefnandi hafi  starfað sem verktaki hjá stefnda þurfi hann ekki,  samkvæmt því sem að ofan greinir, að sæta lækkun á bótakröfu sinni vegna ólögmætrar uppsagnar stefnda á verksamningnum.

Kröfu um efndabætur byggir stefnandi á reglum kröfu-, verktaka- og skaðabótaréttarins um skaðabætur innan samninga, vegna ólögmætrar uppsagnar stefnda á verksamningi aðila. Einnig meginreglum kröfu- og samningaréttar um skuldbindingargildi samninga. og efndir fjárskuldbindinga. Þá sé byggt á meginreglu kröfu- og samningaréttar þess efnis að tímabundnum samningi verður ekki sagt upp nema samkvæmt sérstakri og skýrri heimild í samningi aðila.

Krafa um vexti og dráttarvexti byggist á III. og IV. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðbætur.

Krafa um málskostnað byggist á lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. laganna. Krafa um virðisaukaskatt á málskostnað byggir á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

             2.  Stefndi byggir aðalkröfu sína um sýknu á því að bú stefnanda hafi verið úrskurðað gjaldþrota með úrskurði Héraðsdóms Vestfjarðar dags .25. júnði 2003 sbr. dskj. nr. 27.  Þeim skiptum sé ekki lokið sbr. endurrit úr þingbók á dskj. nr. 28.  Samkv. 72. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991 taki þrotabú skuldarans við öllum fjárhagslegum réttindum sem hann átti eða naut við uppkvaðningu úrskurðarins.  Samkv. greinargerð með lögunum felst í 72. gr., að ein megináhrif úrskurðar um gjaldþrotaskipti séu þau að til verði sjálfstæð persóna að lögum, þrotabú kennt við hlutaðeigandi mann, félag eða stofnun, en þessi lögpersóna taki í aðalatriðum bæði við réttindum og skyldum skuldarans og njóti hæfis til að öðlast réttindi og baka sér skyldur meðan hún er við lýði fram að endanlegum lokum gjaldþrotaskipta.  Óhjákvæmilegt sé því að sýkna stefnda sökum aðildarskorts sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 þar sem þrotabú hans eigi ekki aðild að málinu.

             Þá styður stefndi sýknukröfu sína á því að stefnandi eigi enga kröfu á hendur honum.  Við uppsögn samnings aðila hafi hann í einu og öllu farið eftir ákvæðum samningsins.  Stefnanda hafi verið sagt upp með 3ja mánaða fyrirvara svo sem samningurinn geri ráð fyrir.  Hin huglægu skilyrði almennu skaðabótareglunnar um skaðabætur innan samninga, séu því ekki fyrir hendi.  Háttsemi stefnda hafi hvorki verið saknæm né ólögmæt.  Þá byggir stefndi á því að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir neinu því tjóni sem rekja megi til háttsemi stefnda.

             Þá byggi stefndi á því að hann hfi verið ósáttur við háttsemi stefnanda í aðdraganda uppsagnarinnar og strax hugleitt að segja honum upp.  Þegar síðan ákveðið hafi verið að sameina þáverandi Prentsmiðju Grafík hf. við Steindórsprent - Gutenberg ehf., hafi það létt mönnum að taka endanlega ákvörðun um uppsögnina.

             Stefnandi hafi byggt á því að uppsögnin hafi verið ólögmæt þar sem engin ágreiningur hafi verið milli aðila, en það hafi verið skilyrði samkv. ákvæðum samningsins.  Stefndi byggi hins vegar á því, að vissulega hafi verið ágreiningur með aðilum, stendi hafi verið ósáttur við háttsemi stefnanda svo sem að framan sé greint.  Ágreiningur aðila hafi falist í að stefndi hafi  verið ósáttur við háttsemi stefnanda sem hafi hins vegar talið háttsemi sína í lagi.  Eftir standi að viðskiptavinir hafi kvartað undan stefnanda. Stefndi hafi því nýtt sé uppsagnarákvæði samningsins.

             Varakröfu sína byggir stefndi á því, að kröfur stefnanda séu allt of háar.  Í raun hafi stefnandi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir nokkru tjóni.  Stefnandi reikni út frá meðaltali unnina tíma frá upphafi samningstíma og til loka upphaflegs gildistíma samningsins.  Ekki sé tekið tillit til annarra tekna stefnanda á tímabilinu eða þeirrar skyldu hans að draga úr tjóni sínu. Skoraði stefndi á stefnanda að leggja fram gögn um laun sín eða tekjur á tímabilinu.  Í raun liggi ekkert fyrir að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni.  Þá sé heldur ekkert tillit tekið til hagræðis af eingreiðslu.  Þá mótmælir stefndi því að stefnandi eigi rétt á að fá sérstaklega greitt fyrir svokallaðar "hraðsendingar" frá 1. júní 2001.  Slíkt eigi sér enga stoð í samningi aðila, enda hafi stefnandi ekki krafist greiðslna fyrir slíkar sendingar fyrr en eftir að honum var sagt upp.  Hann hafi heldur aldrei gert athugasemdir í þessa veru við stefnda.  Hann beri sönnunarbyrðina fyrir því að þessi vinna hafi verið innt af hendi og að slíkar greiðslur hafi átt að fara fram og verði einnig að bera halla af tómlæti sínu.

             Þá byggi stefndi á því, að hann hafi boðið stefnanda annað starf hjá sér (hinu sameinaða fyrirtæki) en stefndi ekki þegið það sbr. það sem fram komi í bréfi lögmanns stefnda til lögmanns stefnanda dsgs. 27. febrúar 2002 á dskj. nr. 6 bls. 2 svo sem staðfest sé í stefnu.  Þannig hafi stefnandi ekkert gert til að draga úr meintu tjóni sínu.

             Þá mótmæli stefndi öllum tölulegum útlistunum stefnanda sem séu óskiljanlegar bæði hvað varðar tekjuhlið (taxta) og útgjaldalið (kostnað). Sama eigi við hækkanir á taxta stefnanda sem séu órökstuddar.

             Þá mótmæli stefndi dráttarvaxtakröfu stefnanda.  Telur stefndi að stefnandi geti í fyrsta lagi krafist vaxta frá þingfestingardegi málsins þegar stefnandi lagði fram þær upplýsingar sem nauðsynlegar voru til að meta tjónsatvik og fjárhæð skaðabóta sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001.

             Kröfugerð stefnanda sé um margt óljós.  Í kaflanum um sundurliðun krafna í stefnu sé mikið um tölulegar útlistanir án þess að greina frá því hvernig tölur séu fengnar eða vísa í framlögð skjöl því til staðfestingar.  Valdi þetta því að stefndi á erfitt með að byggja vörn sína í málinu.  Telur stefndi að þetta sé brot á d-, e- og g- lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.  Telur stefndi að þetta sé brot á d-, e- og g- lið 1. mgr. og komi til greina að vísa málinu frá dómi "ex officio" þótt ekki geri hann kröfu um það, þar sem hann hafi hagsmuni af því að fá efnisdóm í málinu.

             Varðandi lagarök að öðru leyti vísi stefnandi til almennra kröfu- og samningaréttarreglna um skaðabætur innan samninga.  Varðandi dráttarvaxtakröfu stefnanda vísar stefndi til III. kafla laga nr. 38/2001.  Þá vísar stefndi varðandi málskostnaðarkröfu sína til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991.

             IV.  Sönnunarfærsla.

             Í málinu gaf stefnandi aðilaskýrslu og skýrslu gaf og Sverrir Davíð Hauksson, kt. 060355-4529, Víðigrund 15, Kópavogi, fyrrverandi framkvæmdastjóri stefnda, sem hafði stöðu vitnis og vitni bar Jón Trausti Leifsson, kt. 080853-4919, Móabarði 37, Hafnarfirði, en það er framkvæmdastjóri ISS Íslands ehf.

             Fram kom hjá stefnanda, upphaf þess að hann gerði verksamning við Grafik hf., hafi verið að hann hafi síðla árs 2000 verið staddur í Reykjavík vegna málaferla og ekkert haft fyrir stafni og þá komið til þess, að hann hafi leyst af starfsmann við sendibílaakstur, sem unnið hafi hjá ónefndum aðila, sem annast hafi sendibílaakstur fyrir stefnda og verið með marga bíla vegna þessarar þjónustu við stefnda  o.fl.  Þessi rekstaraðili hafi hætt rekstri og þá hafi Grafik hf. vantað bílstjóra með bíl til að annast þessa þjónustu og hann tekið þetta að sér sem verktaki og hefði hann keypt bifreiðina af fyrrvera sínum og hefði hann miðað fjárfestinguna við verksamninginn þ.e. um 3 ár.  Hann sagði að eftir að sameining Grafik hf. og Gutenberg hf., hafi verið ákveðin, hafi starfsfólk Grafik hf. farið að fá uppsagnarbréf og hafi verið órói í starfsfólkinu út af þessu.  Hann kvað ástæður uppsagnar hafi í uppsagnarbréfinu til hans verið tilgreindar sameining Grafik hf. og Gutenberg hf., en ekki minnst á annað né vikið að því munnlega.  Hann kvað stefnu hins nýja sameinaða félags hafa verið að nota eigin ökutæki við aksturinn.  Hann kvaðst fyrir sameininguna hafa ekið mikið fyrir Gutenberg hf. og Offsetþjónustuna ehf.  Honum hafi líkað vel að starfa hjá stefnda og viljað vera þar áfram, og taldi sig ekki hafa brotið neitt það gegn stefnda sem réttlættu uppsögnina.  Hann kvað ætlaða dónalega hegðun þess við starfsstúlku sem getið væri í bréfi Iss  Ísland ehf. ekki vera tilgreinda í uppsagnarbréfinu.  Þargreint tilvik hafi gerst löngu áður en bréfið var dagsett og hafi hann ekki talið það vera áreiti, en hann hefði engu að síður  í framhaldi af því, að Sverrir Guðgeirsson, verkstjóri hjá Grafík hf. hafi minnst á þetta við hann, farið á skrifstofu Iss.  Ísland ehf. og beðið umrædda stúlku afsökunar og talið málinu þar með lokið, en það hafi þá ekkert legið fyrir um kvörtunarbréf frá Iss   Íslandi ehf..  Hann kvaðst samt ekki átta sig á því, hvað starfsstúlku Iss  Ísland ehf. hafi þótt dónalegt við framkomu hans.  Hann hafi í þargreint sinn komið ásamt öðrum manni frá Grafík ehf. með sendingu til Iss  Ísland ehf. og hafi samkvæmt venju átt að skila vörunni í læsta kompu eða geymsluherbergi, þar sem hafi verið tölvumiðstöð og því ekki verið talið rétt að rýmir væri öllum aðgengilegt.  Lykillinn að rýminu hafi verið geymdur inni á skrifstofu félagsins og hafi hann þurft að fara þangað og fá starfsmann þar til að opna fyrir sig rýmið.  Hann kvaðst því hafa farið inn á skrifstofuna og sagt við starfstúlkuna, sem þar var við símann og hann þekkti ekki, eitthvað á þá leið, "Góðan daginn elskan mín", viltu koma með mér í kompuna.  Hún hafi svo farið með þeim í geymslurýmið, þeir afhent vöruna þar og farið.  Hann kvaðst ekki hafa talið sig hafa sýnt stúlkunni óviðurkvæmilega hegðun, þó að hann hafi beðist afsökunar til að gera gott úr málinu.  Þá kvaðst hann ekki hafa litið svo á að honum hafi í þessu sambandi verið veitt áminning.  Hann hafi eftir þetta farið með vörur til Iss Íslands ehf. eins og áður.

             Hann kvaðst samkvæmt samningum við útkeyrsluna hafa átt að fá 1900 krónur 

+ vsk fyrir hverja unna klukkustund og reiknað með að vinnutíminn væri frá 08:00 til 17:00 eða 18:00 á hverjum virkum degi og svo eftir samkomulagi á öðrum tíma.  Hann kvað 1900 krónur á klukkustund hafa verið mjög lágt miðað við taxta sendibílstjóra og hafi greiðslan fyrir hraðsendinguna átt að vera uppbót á þetta lága kaup.  Hann kvaðst hafa átt að fá greitt ákveðið gjald fyrir hverja hraðsendingu, sem miðast hafi við það sem fyrirrennari hans hafi tekið og hafi það verið óháð því, hvenær í þær væri farið, en þetta hafi verið aukaálag, og hann stundum farið í þær í hádeginu eða á öðrum tíma,  þegar engin verkefni voru fyrir hendi.  Hann kvaðst einu sinni hafa reynt að fá reikninga borgaða vegna hraðþjónustu en fjármálstjóri stefnda hafi neitað að greiða og eiginlega farið upp á þak út af reikningsgerðinni.  Hann sagði á þessum tíma hafi verið þrúgað andrúmsloft hjá stefnda vegna sameiningarinnar og uppsagnabréfa, sem voru farin að berast vegna hennar og hann ákveðið að láta þetta kyrrt liggja í bili.  Hann kvað hinn fasta akstur samkvæmt reikningum hafa miðast við ákveðinn kílómetrafjölda og kostnað í því sambandi, en hraðsendingarnar hafi verið utan við þá viðmiðun og aukið á kostnaðinn við útkeyrsluna.

             Hann kvaðst eftir, að hann hætti störfum farið á sjóinn á ýsunet og tekjur hans verið um 400 þúsund krónur á mánuði.

             Hann kvaðst eftir að bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta hafa haft samband við skiptastjóra þess, látið hann vita af fyrirhugaðri málshöfðun og fengið leyfi hans til hennar, en þrotabúið hefði ekki haft áhuga á að fara í málið.

             Í skýrslu Davíðs Haukssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra stefnda kom fram, að hann staðfesti að hafa gert samninginn vegna útkeyrslu við stefnanda og undirritað hana.  Samkvæmt honum hafi fastur vinnutími stefnda verið 8-10 tímar á dag en hraðþjónusta sem greitt væri fyrir væru ferðir sem farnar væru utan þessa tíma, en hann kvaðst aldrei hafa séð reikning frá stefnanda vegna þessa.Hann kvað ágreining ekki hafa verið mikinn milli stefnanda og stefnda, en þó hafi verið misbrestir í samstarfinu, þó að þess sé ekki getið í uppsagnarbréfinu, sem hann hafi orðað eins kurteislega og hann gat.  Helsti ágreiningurinn hafi þó verið vegna kvörtunarbréfs frá Íss Ísland ehf., þar sem kvartað hafi verið yfir áreiti eða dónalegri framkomu stefnanda við starfsstúlku fyrirtækisins þar sem fyrirtækið hótaði að hætta viðskiptum við stefnda, ef stefnandi kæmi aftur með varning í fyrirtækið.  Hann kvað framkvæmdastjóra fyrirtækisins áður hafa kvartað munnlega við sig.  Hann kvað stefnanda hafa bætt ráð sitt, beðist afsökunar við stúlkuna, en taldi hann þó hafa tekið þessu nokkuð létt.  Honum var ekki alveg ljóst í hverju hin dónalega framkoma var fólgin og taldi það hafi ekki verið venja að starfsmaður Iss Íslands ehf. færi með stefnanda í geymslu fyrirtækisins, þegar hann kæmi með sendingar frá stefnda.  Hann hafi haldið áfram að fara með vörur í fyrirtækið eftir að hafa beðist afsökunar.  Hann taldi að stefnandi hefði verið áminntur fyrir þetta, þó það hafi ekki verið formlegt.  hann kvaðst enga afstöðu hafa tekið til þess, hvort stefnandi hafi í raun verið dónalegur, heldur hafi kvörtun framkvæmdastjóra fyrirtækisins nægt. Hann kvað stefnanda á margan hátt hafa verið ágætur starfsmaður, verið duglegur og samviskusamur, en hann hafi verið það sem kallað er  "Besser Wisser" og hafi brestir í samstarfinu verið vegna þess að stundum honum verið erfitt að fara að ráðum framkvæmdastjórans.  Hann sagði að honum hafi verið vel til stefnanda og viljað gera vel við hann og því boðið honum að gera við hann launasamning, þar sem hann hefði orðið starfsmaður stefnda og unnið sem fyrr við akstur.

             Það kvað engan nánari samning hafa verið um hvernig hraðþjónustunni skyldi sinnt, en þó miðað við að þær færu fram utan reglulegs vinnutíma.  Hann kvað  forvera stefnanda hafa sinnt starfi sínu án þess að fá sérstakar greiðslur fyrir hraðsendingar.

             Vitnið Jón Trausti Leifsson, framkvæmdastjóri Iss Ísland ehf., kvað ástæður kvörtunarbréfsins hafa verið að starfsstúlka fyrirtækisins hafi verið ósátt við framkomu stefnanda og talið hana dónalega, en mundi ekki nákvæmlega út á hvað dónaskapur hafi gengið, en það hafi verið í sambandi við að hann hafi beðið hana að koma með sér í kompuna.  Það kvaðst ekki hafa verið vitni að þessum dónaskap.  Hann kvað starfstúlkuna hafa unnið hjá fyrirtækinu í nokkurn tíma er þetta átti sér stað.  Það kvað starfsreglur að birgjar sem kæmu með vörur til fyrirtækisins yrðu að vera í fylgd með starfsmanni er þeir færu með vörur inn í kompuna. Það vissi ekki hvað stefnandi hafi sagt eða gert til að áreita eða móðga starfsstúlkuna, en orðaval hans hafi verið öðru vísi en venjulega, en einhverjar óþarflegar athugasemdir kunni að hafa valdið þessu, en það vissi ekki til að samsvarandi móðgun eða dónaleg hegðun hafi komið fram hjá stefnanda áður.

             V. Niðurstöður.

             Kröfu sína um sýknu vegna aðildarskorts byggir stefndi á því að stefnandi hafi verið úrskurðaður gjaldþrota 25. júní 2003 og því verði þrotabú stefnanda að eiga aðild í málinu í stað stefnanda.

             Stefnandi kveðst hafa farið í mál þetta í samráði við skiptastjóra þrotabúsins Björns Jóhannessonar hdl. og af framlögðum rafpósti frá skiptastjóranum er ljóst að hann vissi af málarekstrinum og lýsti því jafnframt yfir að þrotabúið myndi ekki koma að málinu.  Þetta verður ekki túlkað öðruvísi en skiptastjórinn heimili stefnanda málshöfðunina á eiginn kostnað, en þrátt fyrir að skiptastjórinn hafi vitað af því, að stefnt yrði að nýju í málinu eftir frávísun, ákvað hann að ljúka skiptum með vísan til 155. gr. laga nr. 21/1991 24. maí 2004.

             Í málinu verður því að líta svo á að afstaða skiptastjóra hafi verið þannig, að hann hafi samþykkt eða látið við það sitja án andmæla að stefnandi höfðaði framangreint mál í eiginn nafni og á eiginn kostnað, en skiptastjóri getur alténd tekið upp skiptin skv. 104. gr. laga nr. 21/1991 ef ástæða þykir til eftir niðurstöðu þessa máls.

             Það verður því að telja að  stefnandi, Svavar Rúnar, mátt hafa stöðu stefnanda í  máli þessu og er krafa stefnda um sýknu vegna aðildarskorts ekki tekin til greina.

             Í uppsagnarbréfi stefnda, dags. 30.11.2001, er tekið fram, að verksamningurinn milli aðila sé sagt upp með 3ja mánaða fyrirvara og síðasti dagur í vinnu hjá stefnanda sé 28. febrúar 2002.  Stefnandi mætti til vinnu 1. mars 2002 og var þá vísað frá vinnu..  Tilgreindar  ástæður uppsagnarinnar voru sem fyrr greinir breyting á rekstri Prentsmiðjunnar Grafík hf. með sameiningu hennar við fyrirtækið Gutenberg hf.

             Ekki eru í bréfinu tiltekin nein atriði sem hníga að því að stefnandi hafi brotið gegn ákvæðum samningsins, en við sameininguna öðlast hið sameinaða félag öll réttindi skv. samningnum og tók á sig þargreindar skyldur.

             Af framburði stefnanda sem og framburði Sveins D. Haukssonar fyrrum framkvæmdastjóra er ljóst að stefnandi hefur staðið að öllu leyti við samninginn af sínu hálfu og verður ekki betur séð en hann á þeim tíma sem liðinn var á samningstímanum ætíð haft bifreið tiltæka og farið þær ferðir sem óskað var á tilsettum tíma.

             Sú ávirðing sem stefnanda hefur helst verið gefið að sök, þ.e. óviðurkvæmileg og dónaleg framkoma við starfsstúlku Iss Ísland ehf. var ekki tilgreind sem uppsagnarástæða, enda þá langt um liðið frá því, að umrætt atvik átti sér stað, og virðist að einhverju leyti byggt á misskilningi.  Þannig ætlaði framkvæmdastjóri Grafík hf. að geymslurýmið, sem stefnandi skyldi afhenda vörurnar væri opið og því ekki þörf starfsmanns frá Iss Ísland ehf. til að opna geymsluherbergið og vera viðstaddur afhendingu og hefur metið það sem haft er eftir stefnanda í kvörtunarbréfi Iss Ísland ehf. eftir því.  Það er hins vegar staðfest í framburði Jóns Trausta framkvæmdastjóra Iss Ísland ehf., að geymsluherbergið var læst og fyrirmæli voru hjá fyrirtækinu að þegar komið væri með vörur sem fara skyldi inn í þetta herbergi skyldi starfsmaður fyrirtækisins opna geymsluna og vera viðstaddur afhendingu vörunnar og var þessi vari hafður á vegna þess að móðurtölva og annar tölvubúnaður var hafður í herberginu.  Þegar þetta er virt verður ekki séð hvernig framangreind ummæli, sem höfð eru eftir stefnanda geta talist dónaleg eða móðgandi. Jón Trausti hefur heldur ekki í vitnisburði sínum getað sagt hvaða önnur ummæli eða hegðun af hálfu stefnanda hafi valdið uppnámi hjá starfsstúlkunni.

             Það þykir því bresta sönnur um að stefnandi hafi gerst sekur um það áreiti sem honum var gefið að sök og verður kvörtunarbréf að teljast lítt grundað.

             Stefnandi þykir því ekki hafa gefið tilefni til uppsagnarinnar og verður hún af þeim sökum að teljast samningsbrot af hálfu stefnda og er fallist á að það að stefnda beri að greiða stefnanda vanefndabætur vegna þessara samningsslita.  Í niðurlagi samnings aðila um útkeyrslu stefnanda, kemur fram að mál um deilur á milli samningsaðila skulu rekið fyrir dómi og er ljóst að ágreiningur um túlkun samnings þ.á.m. um hvort og hvað ætti að greiða fyrir hraðþjónustu sem stefndi fór fram á að stefnandi annaðist og  var það  ekki uppsagnarástæða, en stefnandi lét ekki reyna á þetta, þó að reikningar hans fyrir hraðþjónustu fengjust ekki greiddir og hafði nokkuð ráðið þar um töluverð óvissa var þá hjá starfsfólki stefnda um störf sín og starfsumhverfið við fyrirhugaða sameiningu.

             Í samningnum kemur fram, að stefnandi þurfti að reka bifreið til að efna samninginn og því orðið að miða fjárfestinguna í bifreið og annan tilkostnað við samningstímann, en í samningnum skuldbatt stefndi sig til að versla eingöngu við stefnanda á 8-10 tíma á hverjum virkum degi og mátti hann því reikna með þeim tekjum.

             Til þess að  verða eins settur og samningnum hefði ekki verið sagt upp, á stefnandi því rétt á þessum tekjum að frádregnum rekstrarkostnaði vegna bifreiðar og þykir í því sambandi mega hafa til hliðsjónar þau rekstaryfirlit, sem fylgdu skattframtali stefnanda.  Í samningum er gert ráð fyrir að samningurinn yrði skoðaður á sex mánaða fresti með tilliti til hækkunar á verðlista sendibílastöðva.  Hækkunin á tímagjaldinu sem fram kemur í stefnu þykir því ekki óeðlileg og er miðað við hana.  Tölulegir útreikningar stefnanda á tekjum hans skv. efni samningsins það sem eftir lifði gildistíma hans og varðar áskildan 8-10 tíma akstur á dag verða því lagðar til grundvalla, en meðalvinnutíma stefnanda á mánuði sem tilgreindur er í stefnu hefur ekki verið mótmælt.  Samkvæmt því er samþykkt að stefnandi hafi átt rétt á kr. 9.613.678 í tekjur, en frá því dragast kr. 2.033.336,- sem eru rekstrargjöld vegna bifreiðar og telst því tekjumissir stefnanda vera kr. 7.580.342,-.

             Fyrir liggur að til að efna samninginn nægði rekstur á einni bifreið og eftir að samningnum var sagt upp lá beinast við að selja bifreiðina og hætta rekstri.  Kemur þá til álita hvort miða eigi tekjumissi stefnanda við skemmri tíma, t.d. sex mánuði sem venjulegan umþóttunartíma, en samninginn skyldi endurskoða á sex mánaða fresti vegna hækkunar tímagjalds.  Þá er og til þess að líta að stefnanda var boðinn launasamningur í framhaldi af uppsögninni,þ.e. ráðningarsamningur, þar sem honum bauðst að starfa áfram við útkeyrslu sem fastur starfsmaður stefnda, en sú skipulagsbreyting varð við sameininguna að stefndi tók þennan akstur í sínar hendur.

             Samkvæmt ráðningarsamningnum skyldi stefnandi hafa 267.000 krónur í kaup á mánuði eða kr. 5.874.000,- á 22ja mánaða millibili, sem mætti þá draga frá heildartekjum stefnanda fyrir tímabilið m.v. 8-10 tíma á dag við akstur á virkum dögum.

             Ljóst er að við sameiningu Grafík ehf. og Gutenberg hf. breyttust aðstæður allar og forsendur fyrir samningi stefnanda og stefnda um útkeyrslu, sem óhjákvæmilega hlaut að leiða til endurskoðunar á honum, en reikna mátt með að langt um meiri akstur yrði að ræða. Við þessar aðstæður var það metið koma betur út fyrir stefnda, að reka eigin bifreið til að annast þennan akstur.

             Við mat á hæfilegum vanefndabótum til stefnanda verður að hafa hliðsjón af þessu.

             Ekki fer á milli mála við túlkun á samningi aðila um útkeyrsluna, að svonefndur annar akstur eða hraðþjónusta í einstaka tilvikum er sérstök þjónusta, sem reiknað er jafnvel með stefnandi hafi ekki endilega upp á bjóða og eigi því að greiða fyrir sérstaklega, enda í samræmi við það, sem stefnandi heldur fram um það sem hann samdi um og hann kvað hafa  tíðkast  í viðskiptum stefnda og fyrirrennara hans.  Vegna ágreiningsins í málinu hefði það staðið stefnda nær að leggja fram gögn um það sem áður hafði verið greitt fyrir þessa þjónustu.  Samkvæmt því sem fram hefur komið í málinu hefur stefnandi aldrei fengið sérstaklega greitt fyrir hraðsendingar.  Hann hefur haldið því fram, að hann hafi reynt að fá greidda reikninga fyrir þessa þjónustu nokkru áður en hann fékk uppsagnarbréfið, en greiðslu verið hafnað.  Hann hefur samt ekki lagt fram þessa, reikninga, né hefur hann sýnt fram á að þessi staðhæfing sé rétt.  Þá hefur stefnandi ekki lagt fram gögn frá fyrirrennara sínum um að hann hafi fengið greitt sérstaklega fyrir hraðsendingar, hversu mikið hafi verið greitt eða hvernig að öðru leyti hafi verið háttað um þær, en stefnandi hefur hvorki nafngreint þennan fyrirrennara sinn né kallað hann til vitnis.  Engar staðfestingar eru heldur frá stefndu,en tilgreindir tímar á reikningum stefnanda umfram 10 tíma og á laugardögum gætu bent til þess að greiðsla fyrir þær hafi falist í fleiri tímum en 10 á virkum dögum og svo greiðslum fyrir útkeyrslu á laugardögum, sbr. vætti Sveins Hauks.

             Þegar þetta allt er virt, þykir vanta frekari gögn til að unnt sé að leggja dóm á kröfu stefnanda um sérstaka greiðslu fyrir hraðþjónustu og er þessum kröfulið því vísað frá dómi án kröfu vegna vanreifunar.

             Tekjumissir stefnanda er eins og að framan greinir að frádregnum rekstrarkostnaði bifreiðar kr. 7.580.342,- og við ákvörðun hæfilegra vanefndabóta í málinu þykir rétt að þau laun, sem stefnanda stóðu til boða á framangreindum 22ja mánaða tímabili kr. 5.874.000,- komi til frádráttar og ákveðast bæturnar því kr. 1.706.342,-.

             Ekki eru efni til að bæta virðisaukaskatti við þessa fjárhæð.

             Fallist er á að stefnda ber að greiða vexti skv. 8. gr. vaxtalaga af fjárhæðum frá 1. mars 2002 til 26. apríl 2002, en dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaganna frá þeim degi til greiðsludags.

             Eftir þessum úrslitum ber stefnda að greiða stefnanda  479.925 krónur í málskostnað og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

             Dóm þennan kveður upp Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari.

DÓMSORÐ

             Stefndi, Gutenberg ehf., greiði stefnanda Svavari Rúnari Guðnasyni, 1.706.342 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. vaxtalaga af fjárhæðinni frá 1. mars 2002 til 26. apríl 2002, en dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga frá þeim tíma til greiðsludags.

             Kröfu að fjárhæð 1.521.806 krónur auk 372.842 króna í virðisaukaskatt er án kröfu vísað frá dómi.

             Stefndi greiði stefnanda 479.925 krónur í málskostnað og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.