Hæstiréttur íslands

Mál nr. 296/2008


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Slysatrygging
  • Málsástæða
  • Gjafsókn


                                                        

Fimmtudaginn 12. febrúar 2009.

Nr. 296/2008.

Brunavarnir Suðurnesja

(Ólafur Eiríksson hrl.)

gegn

Vilborgu Reynisdóttur

Kristínu Ósk Gísladóttur og

Reyni Arnari Gíslasyni

(Guðni Á. Haraldsson hrl.)

og gagnsök

 

Skaðabætur. Slysatrygging. Málsástæður. Gjafsókn.

G, sem starfaði sem aðalvarðstjóri hjá slökkviliði B, lést eftir hlaup á þolbretti í líkamsræktarstöð. Eiginkona hans og tvö börn kröfðu B, vinnuveitanda G, um bætur og reistu kröfu sína aðallega á því að B bæri sök á dauða G en til vara á því að um slys hafi verið að ræða sem B hafi borið að tryggja hann fyrir. G hafði þjáðst af háum blóðþrýstingi og verið ráðlagt af trúnaðarlækni B að taka lyf við því og að leita til hjartalæknis. Hafði B verið gerð grein fyrir þessu. G hafði hins vegar ekki fylgt ráðleggingunum. Talið var að ekkert væri í ljós leitt um eiginleika starfs G, sem gegndi stjórnunarstöðu hjá B, eða vanrækslu eða gáleysi B varðandi lyfjameðferð G eða líkamlega áreynslu, sem hafi leitt til andláts hans, svo að B yrði talinn bera sök á andlátinu. Þá var ekki talið að um slys hafi verið að ræða þar sem dánarorsök G var sjúkdómur. Var B því sýknað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. maí 2008. Hann krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum gagnáfrýjenda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að kröfur  gagnáfrýjenda verði lækkaðar og málskostnaður látinn falla niður.

Gagnáfrýjendur áfrýjuðu héraðsdómi 16. júlí 2008. Þau krefjast þess aðallega að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða gagnáfrýjandanum Vilborgu Reynisdóttur, persónulega og fyrir hönd ófjárráða dóttur hennar Kristínar Óskar Gísladóttur, 9.410.626 krónur og gagnáfrýjandanum Reyni Erni Gíslasyni 109.500 krónur, í báðum tilvikum með 4,5% ársvöxtum frá 22. september 2005 til 23. maí 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til vara er þess krafist að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða gagnáfrýjendunum Vilborgu og Kristínu Ósk 8.429.550 krónur og gagnáfrýjandanum Reyni Erni 917.640 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 22. október 2005 til greiðsludags. Jafnframt er þess krafist að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða gagnáfrýjendum saman miskabætur að fjárhæð 4.000.000 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 22. september 2005 til 23. maí 2007 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Að því frágengnu krefjast gagnáfrýjendur staðfestingar héraðsdóms. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar þeirrar sem þau njóta öll í héraði, en Vilborg og Kristín Ósk fyrir Hæstarétti.

I

Svo sem nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi hóf Gísli Viðar Harðarson, eiginmaður gagnáfrýjandans Vilborgar Reynisdóttur, störf sem slökkviliðsmaður á Suðurnesjum 1988, var ráðinn varðstjóri hjá aðaláfrýjanda 1995 og aðalvarðstjóri frá 16. maí 2000. Hann lést eftir hlaup á þolbretti í líkamsræktarstöð að morgni 22. september 2005 og var banamein hans rofnun ósæðar við hjartað með mikilli blæðingu inn í gollurshúsið. Hann var ný orðinn 46 ára. Gagnáfrýjendur, sem eru auk eiginkonu hans tvö börn þeirra hjóna, reisa aðalkröfu sína á því að aðaláfrýjandi beri sök á dauða hans, en varakröfu að um slys hafi verið að ræða, sem aðaláfrýjanda hafi borið að tryggja Gísla fyrir.

Gísli gegndi stjórnunarstöðu hjá aðaláfrýjanda. Staða aðalvarðstjóra fól meðal annars í sér að vera staðgengill varaslökkviliðsstjóra og slökkviliðsstjóra í einstaka tilvikum. Í starfslýsingu var þar að auki vísað í starfslýsingu varðstjóra varðandi hæfni, aðgæslu, álag og vinnuskilyrði. Í síðarnefndri starfslýsingu var tekið fram um líkamlegt álag að þar væri „mikill burður á fólki oft við misjafnar aðstæður ... vinna í eldsútköllum í miklum hita, eldi og reyk. Vinna með þungum verkfærum í stigum, rif á veggjum, þökum og fl. þ.h.“ Tekið var og fram að starfinu fylgdi oft mikið andlegt álag og margir óvissuþættir, samskipti við syrgjendur með andlegri streitu. Einnig reykköfun við erfiðar aðstæður einkum þegar mannslíf væri í hættu og slíkt ylli miklu andlegu álagi. Aðalverksvið Gísla síðasta áratuginn var stjórnun og skipulag mannahalds, vaktaskráning og tölfræði, auk kennslu og þjálfunar. Hann þótti styrkur og góður stjórnandi á slysa- og brunavettvangi. Hann var sviðsstjóri sjúkraflutninga og kennari í sjúkraflutningaskólanum, en sjúkraflutningar munu hafa verið 90% af starfsemi aðaláfrýjanda.

Læknisskoðanir voru liður í eftirliti með heilsufari starfsmanna aðaláfrýjanda, einkum varðandi áhættuþætti fyrir hjarta- og æðasjúkdóma. Jón Aðalsteinn Jóhannsson læknir við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja annaðist þessar skoðanir og rannsóknir í samráði við starfandi slökkviliðsstjóra allt frá október 1991 og gerðist trúnaðarlæknir aðaláfrýjanda með samningi 1. janúar 2005.  Samkvæmt bréfi læknisins 16. desember 2006 til lögmanns gagnáfrýjenda var Gísli fyrst skoðaður í þessu skyni 19. október 1991. Reyndust neðri mörk blóðþrýstings of há og var honum ráðlagt að láta fylgjast með blóðþrýstingnum. Hann var næst skoðaður 19. apríl 1995 og reyndist blóðþrýstingur enn í hærra lagi. Gísli fór 8. júní 1995 í ómskoðun hjá hjartalækni, sem sýndi vægt stækkað hjarta og var honum þá ráðlagt eftirlit með blóðþrýstingi. Hann var næst skoðaður 17. desember 2001. Blóðþrýstingur reyndist enn of hár og var honum bent á að hann þyrfti að vera í lyfjameðferð til þess að lækka blóðþrýstinginn og láta fylgjast með honum. Gísli var næst skoðaður 7. október 2003. Hann var þá ekki í lyfjameðferð til að lækka blóðþrýsting, en líðan hans var góð eins og venjulega og blóðþrýstingur hafði ekki áður mælst betri hjá lækninum.

Í ársbyrjun 2004 var ákveðið að senda alla starfsmenn aðaláfrýjanda 40 ára og eldri í eftirlitsskyni í hjartaáreynslupróf hjá lækni. Gísli fór í próf þetta 6. febrúar 2004. Þá kom í ljós óeðlileg hækkun á blóðþrýstingi hans undir álagi. Í vottorði læknisins segir: „Sjúklingur hefur þannig verulegan háþrýsting sem þarf að taka til rækilegrar athugunar.“ Læknirinn ráðlagði Gísla að leita til hjartasérfræðings. Jón Aðalsteinn læknir fór með Gísla yfir prófið og sagði honum að öll mikil áreynsla væri óæskileg og hann þyrfti að fara sem fyrst til hjartasérfræðings til frekari skoðunar. Til dæmis þyrfti að gera ómskoðun til að meta stærð hjartans og starfsemi hjartaloka. Þá var honum enn sagt að hann þyrfti að vera á lyfjum til að lækka blóðþrýsting og enn og aftur áminntur um að láta fylgjast með blóðþrýstingi sínum. Læknirinn fór einnig yfir málið með slökkviliðsstjóra aðaláfrýjanda og tjáði honum að rík áhersla væri lögð á að Gísli færi til hjartalæknis og að öll mikil líkamleg áreynsla væri óæskileg. Aðspurður um þetta fyrir héraðsdómi sagði læknirinn: „Ég á við með því að allt erfiði, slökkvistarf getur verið mjög erfitt og hann var fyrst og fremst stjórnandi, mér var sagt það, og slökkvistjóri sagði að hann ynni mikið skrifstofu- og stjórnunarstörf inni á stöðinni. Hann þyrfti ekki að útsetja sig fyrir líkamlegu erfiði.“ Læknirinn bætti við: „En ef um óbreyttan slökkviliðsmann hefði verið að ræða, að þá hefði ég úrskurðað hann óvinnufæran.“

Trúnaðarlæknir aðaláfrýjanda skoðaði Gísla næst 25. maí 2005. Læknirinn sagði í bréfi sínu að Gísli hafi þá látið vel af sér að venju en ekki verið á lyfjum og ekki undir neinu eftirliti. Hann hafi heldur ekki farið til hjartalæknis eins og afráðið hafði verið eftir hjartaáreynsluprófið 6. febrúar 2004. Kvað læknirinn Gísla hafa lofað sér að láta verða af því að fara til hjartalæknis, en sér hafi komið sannarlega í opna skjöldu að hann væri ekki búinn að því. Ekkert er fram komið um að niðurstöður þessarar skoðunar eða vitneskja læknisins í framhaldi af henni hafi verið kynnt aðaláfrýjanda.

Námskeið í reykköfun fyrir leiðbeinendur í brunavörnum var haldið í Svíþjóð 5.- 9. september 2005 á vegum Brunamálastofnunar. Gísli sótti námskeiðið á vegum aðaláfrýjanda og mun hafa tekið þátt í reykköfun og verklegum æfingum, sem voru líkamlega erfiðar. Hann lést sem fyrr segir 22. sama mánaðar, tíu dögum eftir heimkomuna.

II

Gagnáfrýjendur óskuðu eftir dómkvaðningu tveggja hjartalækna til þess að gefa álit sitt á andláti Gísla og svara tilgreindum spurningum. Þær voru sumar orðaðar að gefnum forsendum um starf Gísla, sem aðaláfrýjandi hefur andmælt og ágreiningur er um. Dómkvaddir voru tveir prófessorar við læknadeild Háskóla Íslands, þeir dr. Þórður Harðarson yfirlæknir við Landspítalann og dr. Guðmundur Þorgeirsson sviðsstjóri á lyflækningasviði spítalans. Matsmennirnir skiluðu mati sínu 14. maí 2007. Í því kom fram að þeir væru sammála niðurstöðu krufningarskýrslu, að dánarorsök hafi verið flysjun ósæðar með blæðingu í gollurshús. Gísli hafi haft þekktan háþrýsting en meðferð verið ófullnægjandi og stopul. Eftir álagsprófið 2004 hafi viðkomandi læknir talið að taka þyrfti háþrýstinginn til rækilegrar athugunar. Hann hafi einnig gert athugasemd við hjartahlustun og talið rétt að hjartalæknir skoðaði Gísla. Ekki hafi birst teikn um kransæðasjúkdóm við álagsprófið. Trúnaðarlæknir hjá aðaláfrýjanda hafi og eindregið ráðlagt Gísla að leita hjartalæknis og ráðlagt háþrýstingseftirlit og meðferð allt frá 1995. Gísli hafi látist af völdum ósæðaflysjunar, sem líklega tengist háþrýstingi og hugsanlega miklu álagi. Svo segir í matinu: „Vegna þess hve flysjun ósæðar er sjaldgæfur sjúkdómur hefði verið ógerningur að sjá þá atburðarás fyrir. Hins vegar var ljóst að Gísli hlaut að teljast í töluvert aukinni áhættu á hjartaáfalli eða skyndidauða vegna 1) starfs síns, 2) háþrýstings, 3) byrjandi þykknunar vinstra slegils, 4) óeðlilegs blóðþrýstingssvars við álagi, 5) líkamsþyngdar. Líklegt er, að þessi áhætta hefði minnkað umtalsvert með vandaðri læknismeðferð, einkum viðeigandi háþrýstingslyfjum.“ Í matsgerðinni segir einnig: „ ... er það hafið yfir vafa að markviss háþrýstingsmeðferð dregur úr fylgikvillum háþrýstings, þar á meðal hættu á ósæðarflysjun. ... Enda er blóðþrýstingslækkandi lyfjameðferð grundvallarþáttur í meðferð á flysjun ósæðar. Því teljum við líklegt að markviss háþrýstingsmeðferð allt frá upphafi greiningar á níunda áratugnum hefði verulega dregið úr hættu á flysjun og rofi ósæðar og þar með andláti Gísla heitins.“

Matsmennirnir komu fyrir héraðsdóm til skýrslugjafar. Dr. Guðmundur lýsti nánar dánarorsökinni, að við flysjun kæmi rof í vegg æðarinnar, eiginlega blæðing inn í vegg æðarinnar þannig að hann rofnar, alveg frá rótum hjartans niður í kviðarhol. En það sem skipt hafi sköpum hafi verið að blóðið hafi rifið sér leið niður í gollurshúsið og þar með hafi starfsemi hjartans útilokast. Þannig hafi það verið flysjun ósæðarinnar með blæðingu inn í gollurshúsið sem hafi óyggjandi verið dánarorsökin. Aðspurður um helstu áhættuþætti við að fá þennan sjúkdóm svaraði matsmaðurinn: „Áhættuþáttur númer eitt er öldrun, það er að segja þetta rís við hækkandi aldur og áhættuþáttur númer tvö er háþrýstingur og 70% af þeim sem að deyja úr þessum sjúkdómi hafa háþrýsting.“ Þeir hafi ályktað að mjög líklegt væri „að markviss blóðþrýstingsmeðferð og árangursrík hefði dregið úr líkum að þetta hefði getað gerst.“ Dr. Þórður útskýrði að ósæðarflysjunin hefði vafalaust átt sér mjög langan aðdraganda, jafnvel áratuga, æðin hafi smám saman gefið sig þangað til allt í einu stóra slysið hafi orðið, rifa hafi komist í æðarvegginn. Ósæðarflysjun væri fátíður sjúkdómur sem mjög erfitt væri að varast eða segja fyrir um. Rifan hefði getað komið í svefni en margfalt meiri líkur væru til að það gerðist við mikla kerfisbundna áreynslu.

III

Fram er komið að Gísli heitinn sinnti starfi sínu sem aðalvarðstjóri aðaláfrýjanda af alúð og samviskusemi og var virtur stjórnandi aðgerða á vettvangi. Honum hafði þegar árið 1981, þá 22 ára, verið ráðlagt að taka lyf gegn hækkuðum blóðþrýstingi, hreyfa sig reglubundið og takmarka sykur-, fitu- og saltneyslu. Eftir að hann gerðist slökkviliðsmaður 1988 var hann fyrst skoðaður í því starfi 1991. Reyndust neðri mörk blóðþrýstings of há og var honum ráðlagt að láta fylgjast með blóðþrýstingnum. Hann var næst skoðaður 19. apríl 1995 og reyndist blóðþrýstingur enn í hærra lagi. Gísli fór 8. júní 1995 í ómskoðun hjá hjartalækni, sem sýndi vægt stækkað hjarta og var honum þá ráðlagt eftirlit með blóðþrýstingi. Hann var næst skoðaður 17. desember 2001. Blóðþrýstingur reyndist enn of hár og var honum bent á að hann þyrfti að vera á lyfjum til þess að lækka blóðþrýstinginn og láta fylgjast með honum. Eftir hjartaáreynsluprófið í febrúar 2004 ráðlögðu honum bæði læknir sá sem það tók svo og læknir sá sem fylgdist með starfsmönnum aðaláfrýjanda að leita til hjartasérfræðings til rannsókna og hefja lyfjameðferð til þess að lækka blóðþrýsting. Slökkviliðsstjóra aðaláfrýjanda var gert kunnugt um þetta. Hann hefur borið að þeir Gísli hafi talað saman um þetta og hafi Gísli sagst vera á lyfjum og ætlað „að vinna í þessum málum“ og hann hafi hvatt Gísla til að forðast líkamlega áreynslu. Ekkert er í ljós leitt um að aðaláfrýjanda hafi fyrr en á þessum tíma verið kunnugt um háþrýstingsvanda Gísla. Þegar Gísli kom í næstu skoðun til læknis aðaláfrýjanda, sem nú var orðinn trúnaðarlæknir hans, í maí 2005, hafði hann hvorki leitað til hjartalæknis né hafið umrædda lyfjameðferð.

Störf Gísla voru ekki hefðbundin slökkvistörf með því líkamlega álagi sem þeim fylgir, heldur störf aðalvarðstjóra. Enda þótt í starfslýsingu hafi verið vísað til starfslýsingar varðstjóra, eins og að framan er lýst, heldur aðaláfrýjandi því fram að starf Gísla hafi að mestu falist „í umsýslu mannahalds, en ekki erfiðri reykköfun eða öðrum líkamlega erfiðum störfum slökkviliðsmanna við verstu aðstæður“. Hann hafi því verið kominn í stjórnunarstöðu með allt aðrar og líkamlega léttari starfsskyldur, þ.e. að stýra mannahaldi aðaláfrýjanda í erfiðum tilvikum en ekki vinna þau verk sjálfur. Gagnáfrýjendur hafa ekki hrakið þetta. Ekkert er fram komið um að aðaláfrýjandi hafi haft ástæðu eða heimild til að flytja hann til í starfi. Trúnaðarlæknir aðaláfrýjanda, sem fylgist reglulega með heilsufari starfsmanna, taldi Gísla vinnufæran en ráðlagði honum að forðast líkamlegt erfiði. Þetta var Gísla fært í starfi sínu, sem og að haga líkamsþjálfun sinni eftir því. Hann sótti sjálfur um að fara á námskeið fyrir leiðbeinendur í reykköfun í Svíþjóð snemma í september 2005, og gat þar sem endranær ráðið sinni líkamlegu áreynslu.

Gagnáfrýjendur báru fyrst við aðalmeðferð í héraði fyrir sig málsástæðu reista á skorti á áætlun um heilsuvernd og áhættumat samkvæmt ákvæðum laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sbr. lög nr. 68/2003. Þessarar málsástæðu var ekki getið í stefnu og var hún því of seint fram komin. Meginreglur nefndra laga koma þó til skoðunar eins og málatilbúnaður gagnáfrýjenda gefur tilefni til að öðru leyti.

Með bréfum og framburði trúnaðarlæknis aðaláfrýjanda, sem annast hefur skoðanir á starfsmönnum hans, þar á meðal Gísla, allt frá 1991, er í ljós leitt að Gísli hafi ekki gætt þess að taka reglulega lyf vegna síns háa blóðþrýstings, sem honum hafði eindregið verið ráðlagt allt frá 2001, og láta fylgjast með blóðþrýstingnum. Við hjartaáreynsluprófið í febrúar 2004 kom í ljós verulegur háþrýstingur tengdur miklu álagi. Honum var þá sagt að öll mikil áreynsla væri óæskileg og hann þyrfti að fara til hjartalæknis til frekari skoðunar og ítrekað, að hann þyrfti að vera á lyfjum til þess að lækka blóðþrýsting. Við skoðun hjá trúnaðarlækninum í maí 2005 kom í ljós að hann hafði hvorki farið til hjartalæknis né verið á lyfjunum og eftirliti. Aðaláfrýjanda var ekki tilkynnt um þetta. Ekki er ástæða til að draga í efa frásögn trúnaðarlæknisins um þessa sjúkrasögu Gísla.

Í ljós er leitt að regluleg lyfjameðferð við háum blóðþrýstingi var til þess fallin að draga úr líkum á því að heilsa Gísla versnaði og að skortur á lyfjameðferðinni hafi að líkindum átt stóran þátt í því hvernig fór. Hann hafði ekki leitað til hjartalæknis í maí 2005 eins og honum hafði eindregið verið ráðlagt í febrúar 2004. Hann hafði tök á að forðast líkamlega áreynslu. Ekkert er fram komið um að hann hafi í starfi sínu tekið þátt í reykköfun síðustu árin, enda þótt hann hafi stjórnað þeim sem öðrum aðgerðum á vettvangi. Ekki var á valdi aðaláfrýjanda að koma í veg fyrir að Gísli tæki þátt í reykköfunaræfingu á námskeiðinu í Svíþjóð í september 2005 og verður aðaláfrýjanda ekki um það kennt. Þegar allt þetta er virt verður að fallast á með aðaláfrýjanda að ekkert sé í ljós leitt um eiginleika starfs Gísla eða vanrækslu aðaláfrýjanda varðandi lyfjameðferð Gísla eða líkamlega áreynslu, þannig að aðaláfrýjandi verði talinn eiga sök á andláti hans. Verður því aðaláfrýjandi sýknaður af aðalkröfu gagnáfrýjenda og þar með kröfu um miskabætur.

Varakrafa gagnáfrýjenda er á því reist að slys hafi leitt til dauða Gísla. Svo sem fyrr er greint var dánarorsök rof á ósæð sem leiddi til blæðingar í hjarta. Var þar um að ræða sjúkdóm sem átti sér langan aðdraganda. Andlát Gísla varð því ekki af slysi og verður varakrafa gagnáfrýjenda því ekki tekin til greina. Verður aðaláfrýjandi því sýknaður af kröfum gagnáfrýjenda.

Rétt er að hver aðila beri sinn málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað skal vera óraskað. Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjendanna Vilborgar Reynisdóttur og Kristínar Óskar Gísladóttur fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, Brunavarnir Suðurnesja, er sýkn af kröfum gagnáfrýjenda, Vilborgar Reynisdóttur, Kristínar Óskar Gísladóttur og Reynis Arnar Gíslasonar.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað skal vera óraskað. Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjendanna Vilborgar Reynisdóttur og Kristínar Óskar Gísladóttur fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, 600.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 31. mars 2008.

Mál þetta var þingfest 23. maí 2007 og tekið til dóms 26. febrúar sl. Stefnandi er Vilborg Reynisdóttir, Óðinsvöllum 4, Reykjanesbæ, persónulega og fyrir hönd ófjárráða barna sinna, Reynis Arnar Gíslasonar og Kristínar Óskar Gísladóttur, bæði til heimilis á sama stað. Stefndi er Brunavarnir Suðurnesja, Hringbraut 125, Reykjanesbæ.

Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða skaðabætur að fjárhæð 9.520.126 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 22. september 2005 til þingfestingardags en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Til vara gerir stefnandi þá kröfu að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 9.347.190 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 22. október 2005 til greiðsludags. Í öðru lagi gerir stefnandi þá kröfu að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð 4.000.000 króna með 4,5% ársvöxtum frá 22. september 2005 til þingfestingardags en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Í þriðja lagi er gerð krafa um málskostnað eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Stefndi gerir þá dómkröfur aðallega að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hennar hendi að mati dómsins. Til vara er gerð krafa um að sök verði skipt í málinu, stefnukröfur stórlækkaðar og málskostnaður felldur niður.

I.

Þann 22. september 2005 lést eiginmaður stefnanda, Gísli Viðar Harðarson, eftir hlaup á þolbretti í líkamsræktarstöð. Gísli var slökkviliðsmaður hjá stefnda og hafði fengið aðvörun trúnaðarlæknis stefnda um að hann mætti ekki reyna líkamlega á sig fyrr en frekari rannsóknir og meðhöndlun á blóðþrýstingi hefði farið fram. Slökkviliðsstjóra hafði verið tilkynnt um þetta en engar sérstakar ráðstafanir voru gerðar af hálfu stefnda varðandi vinnufyrirkomulag Gísla þrátt fyrir þessa aðvörun. Aðalkrafa stefnanda er reist á þeim grunni að dauða eiginmanns stefnanda megi rekja til þess að ekkert hafi verið aðhafst af hálfu stefnda heldur hafi Gísli haldið áfram óbreyttu starfi sem hafi krafist líkamlegrar áreynslu.

Gísli heitinn var ráðinn sem slökkviliðsmaður í fullt starf við fastalið slökkviliðs stefnda 16. maí 2000. Hann hafði áður verið slökkviliðsmaður á Suðurnesjum frá árinu 1988. Hann varð varðstjóri 1995 og aðalvarðstjóri 1997. Um laun hans skyldi fara samkvæmt kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.

Að Brunavörnum Suðurnesja standa Reykjanesbær, Njarðvíkurhreppur, Gerðahreppur, Hafnahreppur og Vatnsleysustrandarhreppur.

Gísli sinnti bæði sjúkraflutningum og slökkviliðsstörfum. Reykköfun var hluti af æfingum í starfi hans enda skulu verklegar æfingar hjá slökkviliðum í reykköfun vera minnst 25 klukkustundir á ári. Gísli stóð vaktir með 12 tíma dag- og næturvöktum. Þá sinnti hann einnig bakvöktum. Hann hafði skírteini um reykköfun sem gefið var út árið 2002.

Í starfslýsingu sem gildir fyrir varðstjóra og aðalvarðstjóra er að finna lýsingu á starfi því sem Gísli gegndi. Segir þar m.a. að aðalvarðstjóri taki fullan þátt í daglegum störfum vaktarinnar, þ. á m. sjúkraflutningum og brunaútköllum. Sem sjúkraflutningamaður annist hann veikt og slasað fólk, bæði innan svæðis Brunavarna Suðurnesja og utan þess, þá oftast á leið til Reykjavíkur. Hann sinni einnig starfi sem slökkviliðsmaður, svo sem akstri slökkvibifreiða, slökkvistörfum á brunastað, dælingu, reykköfun og meðferð hinna ýmsu slökkviefna. Hann skuli hafa réttindi í reykköfun. Í starfslýsingu segir um líkamlegt álag að starfið geti verið fólgið í miklum burði á fólki við misjafnar aðstæður, t.d. í þröngum stigum. Þá þurfi að vinna við mikinn hita, eld og reyk í eldsútköllum. Einnig þurfi að vinna með þungum verkfærum í stigum, rífa veggi og þök. Um andlegt álag segir í starfslýsingu að starfinu fylgi oft mikið andlegt álag, einkum þegar börn og unglingar hafi slasast. Starfinu fylgi einnig samskipti við syrgjendur en því fylgi einnig andleg streita. Þá geti reykköfun við erfiðar aðstæður, einkum þegar mannslíf séu í hættu, valdið miklu andlegu álagi. Vinnuskilyrði geti verið þannig að unnið sé á vettvangi í misjöfnum veðrum þar sem allir hlutir séu úr lagi gengnir.

Fimmtudaginn 22. september 2005 var Gísli ásamt samstarfsmönnum sínum úr slökkviliði stefnda við æfingar í íþróttasal í líkamsræktarstöð í Reykjanesbæ. Hann var þá ekki á vakt. Um klukkan 10.00 þennan morgun hafði Gísli verið á hlaupabretti en starfsmaður sá að hann settist á stól en hneig svo niður á gólf. Starfsmaðurinn hljóp þegar til Gísla sem þá var með litla meðvitund. Vinnufélagar Gísla komu til aðstoðar og reyndu lífgunartilraunir en án árangurs. Læknir frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja kom á staðinn skömmu síðar. Um klukkan 11.00 var Gísli fluttur með sjúkrabifreið á Landspítala-háskólasjúkrahús og klukkan 12.01 þennan dag var hann úrskurðaður látinn. Sama dag fór fram sameiginleg líkskoðun lögreglumanns og læknis. Réttarkrufning fór fram 26. september 2005. Í krufningarvottorði kemur fram að Gísli hafi verið við góða heilsu og verið á hlaupabretti skömmu áður en hann hafi hnigið niður. Krufning leiddi í ljós að ósæðin hafði rifnað við hjartað og leitt til innvortis blæðinga. Enga kölkun eða þrengingar var að finna í kransæðum og yfirleitt var líkamsástand mjög gott. Þó kom fram stækkun á hjartavöðva.

Í málinu hafi verið lögð fram gögn um sjúkrasögu Gísla. Kemur þar m.a. fram að 9. desember 1981, en þá var Gísli 22ja ára, hafi hann komið til eftirlits á Heilsugæslustöð Suðurnesja vegna hækkaðs blóðþrýstings sem sé nokkuð algengt í ætt hans. Ástand hans hafi nú batnað áberandi eftir lyfjameðferð. Honum hafi verið ráðlagt að taka áfram sömu lyf, hreyfa sig reglubundið, takmarka sykur-, fitu- og saltneyslu. Eftir að Gísli hóf störf sem slökkviliðsmaður voru gerðar reglubundnar skoðanir á honum eins og öðrum slökkviliðsmönnum. Hann var fyrst skoðaður 19. október 1991 og er hann þá sagður feitlaginn og neðri mörk blóðþrýsting of há en efri mörk innan eðlilegra marka. Honum var ráðlagt að reyna að létta sig og láta fylgjast með blóðþrýstingi. Næst er Gísli skoðaður 19. apríl 1995 og er þá skráð að hann hafi létt sig nokkuð. Neðri mörk blóðþrýstings séu heldur of há og hann ekki að taka nein lyf. Sónarskoðun var framkvæmd 8. júní 1995 hjá hjartalækni sem sýndi vægt stækkað hjarta. Gísla var ráðlagt að fylgjast með blóðþrýstingi og vera undir eftirliti. Skoðun fór fram 17. desember 2001 og kemur þá fram að Gísli hafi tekið lyf við of háum blóðþrýstingi en þó ekki undanfarið. Hann hafi nú þyngst á ný og neðri mörk blóðþrýstings ennþá hækkuð. Honum er bent á að hann þurfi að vera í lyfjameðferð vegna of hás blóðþrýstings. Segir í þessari skýrslu að hann hafi fylgt sjálfur málum eftir og tekið eina töflu á dag en þó ekki nema í sex mánuði. Sagðist hann sjálfur mæla blóðþrýsting sinn og væri hann mun lægri en hann mældist hjá lækni. Næsta skoðun og rannsóknir fóru fram 7. október 2003. Þá er skráð að líðan Gísla hafi verið góð eins og venjulega. Hann var ekki á blóðþrýstingslyfjum. Hann hefði nú lést og blóðþrýstingur hafi ekki mælst jafngóður áður. Í eftirlitsskyni voru allir starfsmenn stefnda, 40 ára og eldri, sendir í hjartaáreynslupróf. Gísli fór í slíka rannsókn 6. febrúar 2004 hjá Stefáni Jónssyni lækni. Í skýrslu hans segir að Gísli hafi verulegan háþrýsting sem þurfi að taka til rækilegrar athugunar. Síðan segir að sjúklingur hafi haft háan þrýsting lengi og hafi við ómskoðun í júní 1995 sýnt væga stækkun á hjarta, bæði í slegli og gátt, sem Jón V. Högnason hjartalæknir hafi talið geta verið afleiðing of hás þrýstings. Síðan segir í skýrslu Stefáns Jónssonar læknis að sér finnist Gísli ekki hafa hreina hjartahlustun og væri æskilegt að skoða hann og rannsaka  frekar af þessum sökum. Við skoðun 25. maí 2005 lét Gísli vel af sér að venju. Hann var ekki á neinum lyfjum og ekki undir neinu sérstöku eftirliti. Blóðþrýstingur var mældur og reyndist vera 140/110. Við þessa skoðun tjáði Gísli lækninum að hann fylgdist sjálfur með blóðþrýstingi og væru neðri mörk lægri þegar hann mældi sig sjálfur. Fram kom við þessa skoðun að Gísli hafði ekki farið í rannsókn hjá hjartalækni eins og talað hafði verið um að hann gerði eftir áreynsluprófið 6. febrúar 2004.

Auk ofangreindra rannsókna og skoðana er getið um fjölmörg fleiri viðtöl og skoðanir í sjúkraskrá Gísla. Þannig kemur t.d. fram í viðtali 24. október 1997 að Gísli hafi ekki tekið nein blóðþrýstingslækkandi lyf í eitt ár en hafi létt sig talsvert og hreyfi sig reglulega. Í viðtali 26. janúar 1999 komi fram að Gísli hafi ekki tekið nein blóðþrýstingslyf undanfarið en ráðlagt að byrja á því. Í viðtali 14. október 2003 kemur fram að blóðþrýstingur sé eðlilegur og líkamlegt ástand hans mjög gott.

Hinn 14. júlí 2006 sendi lögmaður stefnanda Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum bréf þar sem farið var fram á greiðslu dánarbóta samkvæmt núgildandi kjarasamningi aðila. Þegar ekkert svar hafði borist 27. september 2006 var fyrirspurnin ítrekuð. Með bréfi 6. nóvember 2006 var kröfu stefnanda hafnað þar sem ekki væri um slys að ræða. Hinn 19. október 2006 var réttargæslustefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., krafið um greiðslu bóta á þeirri forsendu að stefndi hafi keypt tryggingar fyrir slökkviliðsmenn hjá því félagi. Með bréfi 25. október 2006 var kröfu um greiðslu á dánarslysabótum hafnað á þeirri forsendu að dánarorsök Gísla heitins hafi ekki verið slys í skilningi vátryggingaskilmála.

Með bréfi lögmanns stefnanda til trúnaðarlæknis Brunavarna Suðurnesja, Jóns A. Jóhannssonar, var óskað eftir nánari upplýsingum um skoðanir á Gísla heitnum og m.a. óskað svars við því hvort niðurstöðum úr prófum Stefáns Jónssonar læknis frá 6. febrúar 2004 hafi verið komið á framfæri við forsvarsmenn stefnda. Í svarbréfi trúnaðarlæknis 16. desember 2006 segir m.a.: ,,Farið var yfir niðurstöður áreynsluprófsins með Gísla Viðari strax og niðurstöður lágu fyrir. Honum var sagt að þegar rætt var um niðurstöður prófsins, að öll mikil áreynsla væri óæskileg og hann þyrfti að fara sem fyrst til hjartalæknis til frekari skoðunar. Talað um að gera þyrfti t.d. ómskoðun til að meta stærð hjartans og starfsemi hjartaloka. Sagt enn einu sinni að hann þyrfti að vera á BÞ lækkandi lyfjameðferð að mínu áliti og láta fylgjast reglubundið með blóðþrýstingi, og það væri ekki nóg að hann mældi sinn blóðþrýsting sjálfur. Gísli Viðar, sem var einn af bezt menntuðu sjúkraflutningamönnum landsins og þaulreyndur, skildi þetta allt vel. Ekki hvarflaði að neinum, að það gæti gerzt sem síðar gerðist. Það var farið vandlega yfir málið með slökkviliðsstjóra BS  eftir að niðurstöður höfðu verið ræddar við Gísla Viðar. Slökkviliðsstjóra var sagt að rík áhersla væri lögð á að Gísli Viðar færi til hjartalæknis eftir að honum hafi verið sagt frá niðurstöðum prófsins. Slökkviliðsstjóra var tjáð að öll mikil líkamleg áreynsla væri óæskileg, en það var sama og Gísla Viðari hafð verið sagt. Bíða skyldi svo niðurstöðu hjartalæknisins en Gísli Viðar virðist hafa af einhverjum ástæðum dregið það að fara til læknisins og því ekki farið að mínum ráðum. Gísli Viðar virti ekki mínar ráðleggingar. Við skoðun 25. maí 2005 lofaði Gísli Viðar mér að láta verða af því að fara til hjartalæknis, en það kom mér sannarlega í opna skjöldu að hann væri ekki búinn að fara til læknisins.”

Í svari stefnda frá 18. desember 2006 við fyrirspurn lögmanns stefnanda kemur fram að Gísli hafi farið til Svíþjóðar 5. september 2006 til þátttöku í námskeiði fyrir leiðbeinendur Brunamálaskólans. Fyrir liggur að á námskeiðinu stunduðu þátttakendur m.a. svokallaða heita reykköfun. M.a. var æfð reykköfun á bílaverkstæði, á 4. hæð húss, skriðgöngum og í verksmiðjuhúsi. Þá hafi einnig verið stunduð reykköfun um borð í skipi. Að sögn samferðamanns Gísla, Ingvars Georgssonar slökkviliðsmanns, voru æfingar töluvert erfiðar og taldi hann að Gísli hafi stundað reykköfun í u.þ.b. 10 klukkustundir meðan á námskeiðinu stóð. Þeir félagar komu til landsins 10. september 2006 og lést Gísli heitinn 12 dögum síðar. Hann var á launum hjá stefnda meðan á námskeiðinu stóð og fékk greidda dagpeninga frá stefnda.

Þann 28. mars 2007 voru dómkvaddir matsmenn til að svara eftirfarandi spurningum stefnanda:

,,1. Telja matsmenn að miðað við líkamlegt ástand Gísla Viðars Harðarsonar þá hafi hann mátt sinna hefðbundnum slökkvistörfum og eins taka þátt í námskeiði um reykköfun?

2. Miðað við líkamlegt ástand Gísla heitins, og aðvaranir trúnaðarlæknis, átti þá að setja hann í önnur störf þangað til líkamlegt ástand hans var orðið betra?

3. Telja matsmenn að koma hefði mátt í veg fyrir andlát Gísla heitins og þá hvernig?

4. Telja matsmenn líkur á að starf það sem Gísli heitinn sinnti á vegum Brunavarna Suðurnesja hafi átt þátt í andláti hans?

5. Eru matsmenn sammála niðurstöðu er fram kemur í krufningaskýrslu?

6. Eru matsmenn sammála aðvörun trúnaðarlæknis þess efnis að mikil líkamleg áreynsla væri óæskileg?”

 Í niðurstöðu matsmannanna Guðmundar Þorgeirssonar hjartalæknis og Þórðar Harðarsonar hjartalæknis og í framburði þeirra fyrir dómi kemur m.a. fram að óyggjandi sé að banamein Gísla hafi verið flysjun á ósæð með blæðingu inn í gollurshús sem átt hafi sér stað eftir mikla áreynslu. Hann hafi haft þekktan háþrýsting en meðferð verið ófullnægjandi og stopul. Lengi hafi verið vitað að mikil og skyndileg áreynsla geti valdið hjartaáfalli, einkum hjá þeim sem séu lítt þjálfaðir fyrir. Rannsóknir á slökkviliðsmönnum hafi sýnt að hjartsláttur þeirra verði oft mjög hraður við útkall og slökkvistörf og eykst þá blóðþrýstingur með svipuðum hætti. Hvort tveggja skapi mjög mikið álag á hjarta og æðakerfi. Tengsl séu milli háþrýstings og skyndidauða. Sömuleiðis séu tengsl milli þykknunar á hjartavöðva og skyndidauða. Þekkt séu tengsl milli ósæðarflysjunar og háþrýstings og fyrir utan hækkandi aldur teljist háþrýstingur megináhættuþáttur þess sjúkdóms. Um 70% þeirra sem fái ósæðarflysjun hafi sögu um háþrýsting. Áhætta Gísla hafi verið að hann var með háþrýsting og ofan kjörþyngdar. Stefán Jónsson læknir hafi sagt að taka þyrfti þetta vandamál til rækilegrar athugunar og taldi rétt að hjartalæknir skoðaði Gísla. Þá hafi Jón A. Jóhannsson trúnaðarlæknir hjá stefnda eindregið ráðlagt Gísla að leita hjartalæknis og ráðlagt honum háþrýstingseftirlit og meðferð allt frá 1995. Þessum ráðum hafi Gísli hins vegar fylgt stopult eða ekki. Gísli hafi látist af völdum ósæðarflysjunar sem tengist líklega háþrýstingi og hugsanlega miklu líkamlegu álagi og sé vert að rifja upp í því sambandi að hann hafi tekið þátt í erfiðu námskeiði nokkrum dögum fyrir andlát sitt. Vegna þess hve flysjun ósæðar sé sjaldgæfur sjúkdómur hafi verið ógerningur að sjá þá atburðarás fyrir. Hins vegar sé ljóst að Gísli hafi verið í töluvert aukinni áhættu á hjartaáfalli eða skyndidauða vegna starfs síns, háþrýstings, byrjandi þykknunar vinstra slegils, óeðlilegs blóðþrýstings við álag og líkamsþyngdar. Líklegt sé að áhættan hefði minnkað umtalsvert með vandaðri læknismeðferð, einkum varðandi háþrýsting. Það sé því niðurstaða matsmanna varðandi fyrstu spurningu að það hafi verið óráðlegt að Gísli sinnti hefðbundnum slökkvistörfum eða tæki þátt í námskeiðum um reykköfun fyrr en læknismeðferð hefði borið tilætlaðan árangur. Þetta svari einnig annarri spurningu um að æskilegt hefði verið að Gísla hefði boðist önnur verkefni eða annar starfsvettvangur þar til læknismeðferð hefði borið tilætlaðan árangur. Varðandi þriðju spurninguna um hvort koma hefði mátt í veg fyrir andlát Gísla svara matsmenn því til að þeir telji líklegt að með markvissri háþrýstingsmeðferð allt frá upphafi greiningar á 9. áratugnum hefði mátt draga úr áhættu á flysjun og rofi ósæðar og þar með andláti Gísla. Varðandi spurningu númer fjögur hvort líkur séu á því að starf Gísla hafi átt þátt í andláti hans telja matsmenn líklegt að álag sem fylgt hafi starfinu hafi átt þátt í flysjun ósæðar sem dró hann til dauða. Þetta verði þó ekki fullyrt með vissu. Matsmenn eru sammála niðurstöðu krufningarskýrslu um dánarorsök. Matsmenn eru einnig sammála aðvörun trúnaðarlæknis um að mikil líkamleg áreynsla væri óæskileg við ríkjandi aðstæður á þeim tíma sem aðvörun var gefin.

Í skýrslu matsmanna fyrir dómi kom m.a. fram að líkamleg áreynsla væri skilgreind þannig að hún væri til staðar þegar um verulega marktæka aukningu á hjartsláttarhraða og blóðþrýstingi væri að tefla. Ekki væri vafi um að reykköfun hefði veruleg áhrif á hjartsláttartíðnina og hækki blóðþrýsting. Þegar hvort tveggja fari saman verði samlegðaráhrif. Segja mætti að vinna í slökkviliði og æfingar og líkamsrækt sem henni tengjast hafi verið óæskileg fyrir Gísla. Vafalaust hafi ósæðarflysjunin átt sér áratuga aðdraganda. Æðin sé smám saman að gefa sig þangað til allt í einu komi rifa í æðavegginn. Þegar að lokum myndist rifa í æðina sé líklegt að það gerist í kjölfar mikillar áreynslu.

Aðalkröfu sína sundurliðar stefnandi þannig:

1.  Bætur fyrir 100% varanlega örorku skv. skaðabótalögum

44.805.153 kr.

2.  Örorkulífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins

-3.492.000 kr.

3.  40 % af 26.751.000 krónum

-10.700.400 kr.

4.  Krafa vegna ófjárráða barna

1.121.000 kr.

    Samtals

31.733.753 kr.

Aðalkrafan nemi 30% af þeirri kröfu eða 9.520.126 krónum.

II.

Af hálfu stefnda hefur þeirri málavaxtalýsingu stefnanda verið mótmælt að Gísli hafi stundað erfiðisvinnu og telur stefndi að matsmenn hafi haft rangar forsendur. Í bréfi Sigmundar Eyþórssonar slökkviliðsstjóra 6. júní 2007 segir m.a. að síðustu árin hafi starfsvettvangur Gísla breyst. Frá árinu 2000 hafi hann gegnt stöðu aðalvarðstjóra sem sé þriðja æðsta staða Brunavarna Suðurnesja. Starf hans hafi að mestu falist í umsýslu og mannahaldi en ekki erfiðri reykköfun eða öðrum líkamlegum erfiðum störfum. Hann hafi verið kominn í stjórnunarstöðu með mannaforráð og því hafi hann ekki þurft að reyna á sig sjálfur. Ein af meginverkskyldum Gísla hafi verið að tryggja að hæft starfslið væri tiltækt við erfiðar aðstæður. Við þjálfun hafi Gísli oftast verið í hlutverki stjórnanda en ekki sjálfur æft reykköfun við erfiðar aðstæður. Í umræddu reykköfunarnámskeiði í Svíþjóð á vegum Brunamálastofnunar hafi þátttakendum verið í sjálfsvald sett hvort þeir tækju fullan þátt í verklegum æfingum eða væru sem áhorfendur. Gísli hafi sjálfur sótt um þetta námskeið og farið á eigin vegum enda þótt hann hafi verið á launum meðan á námskeiðinu stóð. Gísli hafi unnið að mörgum sérverkefnum með slökkviliðsstjórastarfinu, eins og skipulagningu, kennslu og þjálfun, umsýslu ýmiss konar og úrvinnslu tölfræðilegra upplýsinga. Þá hafi hann unnið tímabundið í afleysingum í forvarnadeild við eldvarnaeftirlit og kennslu. Gísli hafi verið einn af menntuðustu og reyndustu sjúkraflutningamönnum landsins og einn af aðalkennurum Sjúkraflutningaskólans. Hann hafi verið mjög virtur og eftirsóttur sem slíkur. Hann hafi því haft meiri skilning en flestir á sínu heilsufari og mikilvægi þess að fara að læknisráði í hvívetna. Þá hafi Gísli verið sviðsstjóri sjúkraflutninga hjá stefnda og haft fullt og ótakmarkað umboð um ákvörðun um kaup tækja og sjúkrabúnaðar í sjúkrabíla. Þá hafi hann kennt skyndihjálp á Suðurnesjum í eigin nafni eða í umboði stefnda. Að lokum segir í bréfi slökkviliðsstjóra að störf Gísla hafi verið stjórnunarstörf sem hafi falist í skipulagningu, ákvarðanatöku og stjórnun frekar en líkamlegu erfiði. Álagið í starfi hans hafi miklu frekar verið andlegt en líkamlegt. Þá hafi Gísli að mestu leyti verið sinn eigin herra og því haft skyldur og ábyrgð í samræmi við það.

Í skýrslu Sigmundar hér fyrir dómi kom m.a. fram að eftir skoðun trúnaðarlæknis 25. maí 2005 hafi trúnaðarlæknir rætt  við hann og varað við því að Gísli reyndi á sig líkamlega og að hann þyrfti að fara í frekari rannsókn. Sigmundur kvaðst hafa rætt þetta við Gísla og hafi komið fram hjá honum að blóðþrýstingur væri langvarandi vandamál hjá sér og hann tæki lyf við því. Gísli hafi jafnframt sagt að hann mældi sig reglulega sjálfur og reyndist þá blóðþrýstingur lægri en við skoðun hjá læknum. Þeir hafi rætt um að starf hans nú hjá slökkviliðinu væri stjórnunarstörf og hann þyrfti ekki mikið að reyna á sig og því ekki ástæða til breytinga. Sigmundur kvaðst hafa hvatt hann til þess að fara að ráðum trúnaðarlæknis og fara til hjartalæknis til frekari skoðunar. Varðandi reykköfunarnámskeið í Svíþjóð sagði Sigmundur að Gísli hafi sótt um það námskeið á eigin vegum og hafi stefnda þótt sjálfsagt að Gísli færi þangað og væri á launum á meðan. Honum hafi hins vegar verið í sjálfsvald sett að hve miklu leyti hann tæki þátt í einstökum verkefnum á námskeiðinu.

Í bréfi skólastjóra Brunamálaskólans, Elísabetar Pálmadóttur, frá 11. janúar 2007 til lögmanns stefnanda, kemur m.a. fram að ekki séu gerðar sérstakar kröfur um líkamlegan styrk til þess að taka þátt í slíku námskeiði. Þegar um stjórnendur sé að ræða, sem hafi mikla þekkingu á starfinu, sé þeim látið eftir að meta hvort þeir geti tekið þátt í verkefnum að fullu eða að hluta. Í verklegum æfingum skiptist menn á hlutverkum og hafi það verið tekið skýrt fram við hópinn að þeir létu vita ef þeir gætu ekki af einhverjum ástæðum tekið að sér ákveðin hlutverk. Fullt tillit væri tekið til slíkra óska.

III.

Stefnandi byggir í fyrsta lagi á því að dánarorsök eiginmanns hennar megi rekja beint til þess starfs er hann hafi gegnt fyrir stefnda. Starfið sé í eðli sínu hættulegt starf sem reyni mjög á líkamlegt þol. Eiginmaður stefnanda hafi verið við reglubundnar æfingar á vegum stefnda og dánarorsök megi beinlínis rekja til þeirra. Þannig hafi hann látist við æfingar sem hann hafi stundað sem lið í þjálfun fyrir það starf sem hann hafi gegnt hjá stefnda.

Í annan stað byggir stefnandi á því að rannsókn hjartalæknis í febrúar 2004 hafi leitt í ljós verulega háan blóðþrýsting við álag og þannig galla í hjarta- og æðakerfi Gísla sem hafi átt að leiða til þess að breyting hefði orðið á starfi hans. Fram sé komið í málinu að forsvarsmönnum stefnda hafi verið um þetta kunnugt og hafi þeim verið sagt að öll líkamleg áreynsla væri óæskileg. Þrátt fyrir það hafi Gísli verið látinn sinna öllum almennum slökkviliðsstörfum og auk þess verið sendur á námskeið á vegum stefnda þar sem reykköfun hafi verið stór þáttur. Alkunna sé að reykköfun reyni mjög á hjarta og æðakerfi líkamans. Þannig hafi forsvarsmenn stefnda átt að sjá til þess að Gísli heitinn tæki ekki þátt í slíkum störfum eða erfiðum æfingum meðan hann uppfyllti ekki lágmarkskröfur um heilbrigði. Um þetta sé vísað til matsgerðar hjartalæknanna Þórðar Harðarsonar og Guðmundar Þorgeirssonar. Þannig hafi forsvarsmenn stefnda og trúnaðarlæknir stefnda átt að sjá til þess að Gísli tæki ekki þátt í slíku námskeiði meðan líkamlegt ástand hans hafi verið með þeim hætti sem raun bar vitni. Þetta hafi verið vanrækt og hafi það leitt til andláts hans. Á þessu beri stefndi skaðabótaskyldu.

Þá byggir stefnandi einnig á því að ekki hafi verið fylgt eftir ákvæði 1. mg. 7. gr. reglugerðar nr. 354/1984 um reykköfun og reykköfunarbúnað um árlegar rannsóknir á heilsu Gísla.

Aðalkrafa stefnanda er um bætur á grundvelli 12., 13. og 26. gr. laga nr. 50/1993. Byggt er á því að það hafi verið vítavert eftir skoðun hjartalæknis að láta Gísla vinna við slökkvistörf. Átt hafi að flytja hann til í starfi meðan rannsókn færi fram á heilsu hans. Rekja megi andlát eiginmanns stefnanda til þeirrar staðreyndar að hann hafi verið látinn vinna slökkvistörf þrátt fyrir að trúnaðarlæknir stefnda hafi skömmu áður fengið upplýsingar frá hjartalækni þess efnis að nauðsynlegt væri að grípa til róttækra ráðstafana varðandi heilsu Gísla. Þessum upplýsingum hafi verið komið til vitundar forsvarsmanna stefnda. Engu að síður hafi hann skömmu fyrir andlátið tekið þátt í mjög erfiðum æfingum með tilheyrandi reykköfun. Slökkvistörf og æfingar þeim tengdar séu þess eðlis að óverjandi sé að láta þá sem þjást af hjarta- og æðasjúkdómum starfa við þau.

Þá vísar stefnandi einnig til reglugerðar um reykköfun og reykköfunarbúnað o.fl. nr. 354/1984. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. hennar skuli þeir sem taki þátt í námskeiðum um reykköfun leggja fram læknisvottorð um heilbrigði sitt. Þá segi í 7. gr. sömu reglugerðar að reykkafarar skuli árlega fara í sérstaka læknisskoðun. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar skuli síðan endurnýja skírteini um reykköfun á fimm ára fresti og leggja fram tilskilin vottorð um heilbrigði og færni. Þá þurfi slökkviliðsmenn að uppfylla skilyrði um heilbrigði, sbr. 1. tl. 8. gr. reglugerðar um réttindi og skyldur slökkviliðsmanna nr. 792/2001. Fyrir liggi í málinu að Gísli hafi sótt námskeið í brunavörnum í Svíþjóð á vegum stefnda þremur vikum áður en hann lést. Á þessu námskeiði hafi þátttakendur verið látnir taka þátt í reykköfun og ýmsum æfingum. Á þessum tíma hafi Gísli ekki uppfyllt kröfur reglugerðar nr. 354/1984 um líkamlegt heilbrigði.

Sjúkdómar Gísla hafi beinlínis leitt til andláts hans. Ekki hafi mátt leyfa honum þátttöku í reykköfun eða æfingum við reykköfun né slökkvistörfum almennt. Það hafi hins vegar verið gert og beri stefndi skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda á grundvelli almennu sakarreglunnar og 13. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Það sé hlutverk stefnda sem vinnuveitanda að fylgja eftir þeim reglum sem settar séu um líkamlegt heilbrigði og það sé hlutverk hans að sjá til þess að starfsmenn séu ekki settir í þau störf sem þeir hafi ekki heilsu eða líkamlega burði til.

Varakrafa stefnanda um bætur á grundvelli slysatryggingar launþega og 18. gr. laga nr. 75/2000 byggist á þeirri staðreynd að stefnda hafi borið að tryggja Gísla samkvæmt 18. gr. laga nr. 75/2000 um brunavarnir og 6. kafla kjarasamnings Launanefndar sveitarfélaga og Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Hafi stefnda borið að tryggja hann við æfingar og að sú trygging hafi átt að ná til varanlegra afleiðinga slysa jafnt sem dauða. Tryggingin hafi átt að gilda allan sólarhringinn. Orsök slyssins megi rekja til þess að ósæð hafi rifnað sem aftur hafi leitt til innvortis blæðinga. Ósæðin hafi skyndilega rifnað vegna átaks við æfingar Gísla. Líkamlegt ástand hans hafi leitt til þess að hann hafi ekki þolað það álag sem fylgt hafi hefðbundnum störfum og æfingum slökkviliðsmanna. Þannig eigi stefnandi og börn hennar rétt á dánarslysabótum í skilningi 6. kafla framangreinds kjarasamnings en þar segi í grein 6.1.1 að starfsmenn skuli slysatryggðir fyrir dauða. Um fjárhæð bóta sé vísað til greinar 6.1.2.

Réttargæslustefndi hafi hafnað bótaskyldu í málinu. Því fái stefnandi tjón sitt ekki úr þeirri tryggingu. Hún eigi því með vísan til 3. málsliðs 18. gr. laga nr. 75/2000 um brunavarnir rétt á að stefndi, sem rekinn sé af Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, bæti henni tjón hennar. Í því ákvæði segi að þeir sem verði fyrir tjóni við störf samkvæmt lögum þessum eigi rétt á að fá tjón sitt bætt úr sveitarsjóði enda verði tjónið ekki bætt af vátryggingafélagi. Gísli heitinn hafi verið við störf í skilningi ákvæðisins. Stefnandi hafi eignast kröfu þá sem Gísli hafi átt vegna þessa. Sú trygging er stefndi hafi keypt hjá réttargæslustefnda sé lágmarkstrygging í skilningi 18. gr. laga nr. 75/2000. Ákvæði 3. málsliðs 18. gr. laga nr. 75/2000 um brunavarnir tryggi stefnanda sama rétt eða betri. Um fjárhæð bóta í skilningi 18. gr. miði stefnandi við sömu fjárhæð og dánarslysabætur samkvæmt kjarasamningi. Sveitarfélög þau er standi að baki stefnda beri ábyrgð í málinu með vísan til 11. og 14. gr. laga nr. 75/2000 um brunavarnir.

Miskabótakrafa sé reist á grundvelli 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Það hafi verið stórkostlegt gáleysi af hálfu vinnuveitanda og trúnaðarlæknis að sjá ekki til þess að Gísla væri bannað að stunda reykköfun og erfiðar æfingar.

Um dánarbætur vísar stefnandi til greinar 6.1.2 í kjarasamningi aðila. Krafið sé um dánarbætur vegna þess að hinn látni hafi verið í hjúskap. Krafið sé um bætur til handa tveimur börnum hans sem hafi verið undir 18 ára aldri hinn 22. september 2005.

Samkomulag sé milli aðila að miða við sömu fjárhæð og dánarslysabætur í kjarasamningi  varðandi kröfu samkvæmt 18. gr. laga um brunavarnir.

IV.

Sýknukrafa stefnda er á því byggð að stefnandi eigi enga lögvarða kröfu til bóta úr hendi stefnda vegna andláts Gísla heitins.

Aðalkrafa stefnanda sé reist á sakarreglunni, þ.e. almennu skaðabótareglunni utan samninga. Hvíli sönnunarbyrðin óskipt á stefnanda um það að stefndi eða starfsmenn hans hafi valdið andláti Gísla heitins og eigi sök á dauða hans. Meint sök og orsakatengsl séu með öllu ósönnuð. Það sé rangt hjá stefnanda að stefndi hafi látið Gísla sinna öllum almennum slökkviliðsstörfum og að stefndi hafi sent Gísla á reykköfunarnámskeið í Svíþjóð. Stefndi hafi hvorugt gert og engin fyrirmæli gefið í þessa átt. Gísli hafi gegnt stöðu aðalvarðstjóra, sem sé stjórnunarstarf, þar sem hann hafi ráðið því sjálfur og ákveðið að hvaða leyti hann sinnti auk stjórnunarstarfa almennum slökkvistörfum. Sama hafi gilt um þátttöku í verklegri þjálfun þ. á m. reykköfun, svo og líkamsæfingum. Gísli hafi farið að eigin frumkvæði á reykköfunarnámskeið í Svíþjóð og ráðið því sjálfur í hvaða verkefnum hann hafi tekið þar þátt.

Meginmálsástæða stefnanda sé sú að forsvarsmenn stefnda og trúnaðarlæknir hafi átt að sjá til þess að Gísli tæki ekki þátt í almennum slökkvistörfum eða erfiðum æfingum og reykköfun meðan líkamlegt ástand hans hafi verið þannig að öll veruleg áreynsla teldist óæskileg að mati lækna. Þessi málsástæða stefnanda fái ekki staðist. Gísli hafi verið í yfirmannsstöðu hjá stefnda, sjálfráður gerða sinna og vel upplýstur um heilsufarsástand sitt og háþrýstingssjúkdóm, þ. á m. að öll mikil áreynsla væri óæskileg þar til háþrýstingsmeðferð hefði borið árangur. Stefnda og trúnaðarlækni hans hafi því verið óskylt að taka ráðin af Gísla, færa hann til í starfi eða hindra hann í því að vinna þau störf sem hann vildi eða sækja þau námskeið er hann vildi. Gísli hafi heldur ekki þurft leyfi stefnda til að taka þátt í reykköfun eða almennum slökkvistörfum. Hann hafi ráðið því sjálfur.

Þá hafi störf Gísla hjá stefnda að mestu falist í umsjón mannahalds, skipulagningu, verkstjórn, kennslu og þjálfun en ekki almennum slökkvistörfum eða verkefnum sem mikil líkamsáreynsla hafi fylgt. Þá hafi Gísli einnig staðist öll þrekpróf og verið í góðu líkamlegu formi fyrir utan háþrýstinginn sem læknar hafi sagt honum að láta meðhöndla og fylgjast með. Samkvæmt læknisráði hafi Gísli átt að stunda líkamsrækt reglulega sem hann hafi gert. Þá hafi Gísli verið brýndur á því af trúnaðarlækni stefnda að fara til hjartalæknis til skoðunar. Í ljósi alls þessa hafi stefndi og trúnaðarlæknir hans ekkert tilefni haft til sérstakra afskipta af gerðum Gísla vegna heilsufars hans. Þá sé einnig til þess að líta að sjúkdómurinn sem hafi orðið Gísla að bana, þ.e. flysjun ósæðar, sé mjög sjaldgæfur sjúkdómur sem ekki hafi verið vitað um að Gísli væri haldinn. Hugsanleg tengsl milli rofs ósæðar Gísla og reykköfunar hans og líkamlegrar áreynslu fyrir andlátið hafi því verið óþekkt og ógerningur að sjá atburðarásina fyrir. Við stefnda og starfsmenn hans sé því ekkert að sakast. Jafnvel þó að kenna mætti trúnaðarlækni stefnda um andlát Gísla væri til þess að líta að læknirinn væri sjálfstæður verktaki en ekki starfsmaður stefnda.

Ósannað sé að starf Gísla, þátttaka hans í reykköfunarnámskeiði í Svíþjóð og líkamsáreynsla hans í æfingasal hafi orsakað ósæðarrofið sem hafi dregið hann til dauða. Matsgerðin sé ekki fullnægjandi sönnunargagn í því efni. Forsenda matsmanna um að Gísli hafi verið settur í líkamlega og andlega mjög krefjandi aðstæður sé beinlínis röng. Orsök ósæðarrofs Gísla megi rekja til hækkandi aldurs hans og háþrýstings með tilheyrandi meingerð á ósæð en flysjun á ósæð eða ósæðarrof eigi sér ekki stað án meingerðar á æðinni sjálfri. Hækkandi aldur sjúklings og háþrýstingur sé megin áhættuþáttur eins og fram komi í matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna.

Gísla sjálfum hafi staðið það næst að gæta heilsu sinnar. Hann hafi verið verulega upplýstur um háþrýstinginn og hafi verið varaður við af læknum að öll áreynsla væri óæskileg og verið ítrekað brýndur á því að láta meðhöndla háþrýstinginn. Þá hafi hann ennfremur átt að fara sem fyrst til hjartalæknis. Hins vegar hafi Gísli ráðið starfi sínu sjálfur og að hve miklu leyti hann færi að læknisráði. Hann hafi ekki hirt um að fara til hjartalæknis og ekki látið meðhöndla blóðþrýstinginn né fylgst reglubundið með honum. Því sé ekki við aðra að sakast en Gísla sjálfan. Að sama skapi, og sem yfirmanni hafi Gísla sjálfum borið að gæta þess að hann tæki ekki þátt í reykköfun án þess að uppfylla skilyrði reglugerðar nr. 354/1984 um líkamlegt heilbrigði. Að öllu framangreindu virtu sé ekki grundvöllur til skaðabótaábyrgðar stefnda.

 Varðandi varakröfu stefnanda bendir stefndi á að samkvæmt 18. gr. laga nr. 75/2000 hafi verið lögskylt að slysatryggja slökkviliðsmenn við æfingar og önnur störf í þágu brunavarna eða vegna mengunaróhappa og þá skyldi lágmarkstrygging þeirra vera í samræmi við slysatryggingar starfsmanna sveitarfélaga samkvæmt kjarasamningum. Samkvæmt ákvæðum greinar 6.1.1 og 6.1.6 í kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, sem gilt hafi um starfskjör Gísla hjá stefnda, hafi borið að slysatryggja Gísla fyrir dauða eða vegna varanlegrar örorku samkvæmt almennum skilmálum um atvinnu- og slysatryggingar launþega. Stefndi hafi uppfyllt framangreinda laga- og samningsskyldu sína gagnvart Gísla með kaupum á almennri slysatryggingu launþega hjá réttargæslustefnda. Stefnandi eigi því enga kröfu á hendur stefnda á grundvelli kjarasamnings eða slysatryggingarinnar.

Samkvæmt 1. gr. skilmála slysatryggingarinnar sé með orðinu slys átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem valdi meiðslum á líkama þess sem tryggður sé og gerist sannanlega án vilja hans. Um sé að ræða hefðbundna skilgreiningu á hugtakinu slys. Þá greiðist bætur því aðeins að slysið sé aðalorsök andláts eða starfsorkumissis tryggða. Gísli heitinn hafi hins vegar ekki látist af völdum slyss heldur af völdum æðasjúkdóms. Stofnist því enginn réttur til slysatryggingarbóta samkvæmt slysatryggingunni hjá réttargæslustefnda vegna andláts Gísla enda hafi tryggingarfélagið hafnað bótaskyldu úr tryggingunni.

Ekki stofnist heldur sérstakur bótaréttur á hendur stefnda á grundvelli 3. málsliðs 18. gr. laga nr. 75/2000 þótt réttargæslustefndi hafi hafnað bótaskyldu. Í 3. málslið segi að þeir sem verða fyrir tjóni við störf samkvæmt lögum þessum eigi rétt á að fá tjónið bætt úr sveitarsjóði enda verði tjónið ekki bætt af vátryggingafélagi. Fyrir það fyrsta sé stefndi ekki sveitarsjóður né hafi stefndi forræði á sveitarsjóði. Stefndi sé því ekki réttur aðili til varnar vegna málssóknar stefnanda á grundvelli meints bótaréttar úr sveitarsjóði samkvæmt 18. gr. laga nr. 75/2000 heldur aðeins viðkomandi sveitarfélag. Beri því að sýkna stefnda af varakröfu stefnanda sakir aðildarskorts.

Í annan stað hafi Gísli ekki látist við æfingar eða önnur störf í þágu brunavarna eða mengunaróhappa, eins og segi í ákvæðinu, heldur hafi hann látist við líkamsrækt á hlaupabretti í líkamsræktarstöð. Ákvæði 18. gr. laga nr. 75/2000 taki ekki til slíkra tilvika.

Í þriðja lagi sé skilyrði fyrir bótum úr sveitarsjóði samkvæmt 3. málslið 18. gr. laga nr. 75/2000 að tjónið hafi hlotist af slysi við þessi störf en það eitt að slökkviliðsmaður andist sé ekki nægilegt. Sé þetta ljóst af fyrirsögn ákvæða 18. gr. sem sé ,,slysatrygging slökkviliðsmanna”. Þar sem Gísli heitinn hafi ekki látist af slysi taki tilvitnað ákvæði ekki til andláts hans.

Loks verði 3. málsliður 18. gr. laga nr. 75/2000 ekki skilinn öðruvísi en svo að bótaréttur slökkviliðsmanns á hendur sveitarsjóði stofnist því aðeins að vanrækt hafi verið að kaupa slysatrygginguna. Það eitt að tjónið sé ekki bótaskylt úr slysatryggingunni sé ekki nægilegt.

Að framangreindu virtu sé ekki grundvöllur til að verða við varakröfu stefnanda.

Varakrafa stefnda um sakarskiptingu og lækkun stefnukrafna sé byggð á því að Gísli eigi sjálfur megin sökina á andláti sínu vegna stórfellds gáleysis um heilsu sína og ber að lækka stefnukröfu í hlutfalli við þá sök. Eigi það bæði við um aðalkröfu og varakröfu stefnanda. Einnig ber að stórlækka tölulega fjárhæð aðalkröfu stefnanda. Um fjárhæð varakröfu stefnanda, 9.347.109 krónur, sé hins vegar ekki tölulegur ágreiningur.

Fjárhæð kröfu um dánarbætur samkvæmt 13. gr. skaðabótalaga sé andmælt sem of hárri. Miskabótakröfu stefnanda sé alfarið mótmælt, bæði efnislega og tölulega. Skilyrði skorti til bóta samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga og því fari fjarri að stefndi eða trúnaðarlæknir stefnda hafi valdið andláti Gísla heitins af stórfelldu gáleysi. Stefnda og trúnaðarlækni hafi verið óskylt að lögum að taka ráðin af Gísla og banna honum að stunda reykköfun, erfiðar æfingar og önnur slökkviliðsstörf þar sem krafist hafi verið áreynslu.

V.

Fyrir dóminn komu og gáfu skýrslu stefnandi, Sigmundur Eyþórsson slökkviliðsstjóri, Jón Aðalsteinn Jóhannsson læknir, Ingvar Georgsson slökkviliðsmaður og matsmennirnir Þórður Harðarson læknir og Guðmundur Þorgeirsson læknir.

Eiginmaður stefnanda, Gísli Viðar Harðarson, lést 22. september 2005 eftir hlaup á þolbretti í líkamsræktarstöð. Hann var þá 46 ára gamall og hafði verið slökkviliðsmaður á Suðurnesjum frá 1988. Hann varð varðstjóri 1995 og aðalvarðstjóri 1997.

Sjúkrasaga Gísla heitins er rakin hér að framan. Hann var farinn að taka lyf vegna of hás blóðþrýstings 22ja ára gamall og var þá skráð í sjúkradagbók að háþrýstingsvandamál væri nokkuð algengt í ætt hans. Frá 1991 fór Gísli í reglubundið eftirlit og samkvæmt gögnum málsins var meðferð hans við of háum blóðþrýstingi stopul og virðist sem hann hafi verið án lyfja langtímum saman. Hefur komið fram í málinu að Gísli mældi blóðþrýsting sinn sjálfur og taldi að hann væri almennt lægri en mælingar lækna sýndu við skoðun. Þann 6. febrúar 2004 fór Gísli í skoðun hjá Stefáni Jónssyni lækni. Tilefnið var að stefndi hafði ákveðið að allir starfsmenn stefnda, 40 ára og eldri, færu í hjartaáreynslupróf í eftirlitsskyni. Í þessari skoðun fékk Gísli alvarlega aðvörun vegna þess að í ljós kom verulegur háþrýstingur sem læknirinn sagði að þyrfti að taka til rækilegrar athugunar og rannsaka þyrfti ennfremur hjarta- og æðakerfi Gísla. Þessari aðvörun kom Stefán jafnframt til Jóns Aðalsteins Jóhannssonar læknis sem þá annaðist almenna læknisfræðilega ráðgjöf fyrir stefnda og sá um skoðanir og rannsóknir á hans vegum en varð formlega trúnaðarlæknir stefnda 1. janúar 2005. Við skoðun hjá Jóni 25. maí 2005 kom í ljós að Gísli hafði ekki tekið lyf við of háum blóðþrýstingi frá því hann fór í áreynsluprófið 6. febrúar 2004 og hafði ekki farið til hjartalæknis til frekari rannsókna eins og honum hafði verið uppálagt. Eftir þessa skoðun fór trúnaðarlæknir vandlega yfir málin með Gísla og slökkviliðsstjóra og tjáði þeim að öll líkamleg áreynsla væri óæskileg. Gísla var ennfremur ráðlagt að fara til hjartalæknis en hann hafði ekki gert það er hann lést 22. september 2005. Af gögnum málsins verður ekki séð að Gísli hafi tekið lyf við of háum blóðþrýstingi eftir að hann fékk aðvörun frá Stefáni Jónssyni lækni 6. febrúar 2004.

Matsmenn, hjartalæknarnir Guðmundur Þorgeirsson og Þórður Harðarson, telja óyggjandi að banamein Gísla hafi verið svokölluð ósæðarflysjun eða rof á ósæð sem leiddi til blæðinga inn í gollurshús. Háþrýstingur til langs tíma og ófullnægjandi og stopul meðferð hafi verið orsakavaldur. Líklegt sé að álag tengt vinnu Gísla hafi átt þátt í flysjun ósæðar sem dró hann til dauða. Við ríkjandi aðstæður, á þeim tíma er aðvörun var gefin 6. febrúar 2004 og eftir það, hafi líkamleg áreynsla verið óæskileg.

Deilt er um hvort Gísli hafi sinnt líkamlega erfiðu starfi sem yfirmaður. Er því haldið fram af hálfu stefnda að svo hafi ekki verið og hafi honum sem yfirmanni verið í sjálfsvald sett hvort hann reyndi líkamlega á sig. Komið hefur fram í málinu að við slökkviliðsstörf stjórnaði Gísli aðgerðum á vettvangi. Jafnframt hefur komið fram í málinu að hann varð einnig að vera tiltækur og tilbúinn til að sinna almennum slökkviliðsstörfum og jafnvel reykköfun ef svo bar undir. Til þess að vera hæfur til slíkra starfa þurfti Gísli að stunda líkamsrækt og hafa gott þrek, ekki síst vegna samstarfsmanna sinna, t.d. ef þeir lentu í hættu við reykköfun. Líkamsrækt var hins vegar í andstöðu við það sem trúnaðarlæknir hafði ráðlagt. Fyrir liggur ennfremur að aðalvarðstjóri þarf samkvæmt starfslýsingu að hafa réttindi til reykköfunar. Til þess að viðhalda þeim réttindum verður viðkomandi slökkviliðsmaður að stunda árlega minnst 25 tíma reykköfun samkvæmt 8. gr. reglugerðar um reykköfun og reykköfunarbúnað nr. 354/1984. Vegna fámennis á vöktum þurfti Gísli að sinna erfiðum og alvarlegum sjúkraflutningaútköllum en þá fóru allir á vaktinni í útkall.

Telst því sannað í málinu að til þess að gegna starfi sínu áfram sem aðalvarðstjóri hjá stefnda varð Gísli að halda þoli og þreki í horfi með líkamsrækt þar sem hann gat alltaf átt von á að lenda í erfiðum aðstæðum, bæði líkamlegum og andlegum, en samkvæmt matsgerð veldur slík áreynsla hækkun á blóðþrýstingi sem var hættuleg heilsu Gísla eins og á stóð. Forsvarsmenn stefnda létu einnig óátalið að Gísli færi á erfitt reykköfunarnámskeið í Svíþjóð um þremur vikum fyrir andlát hans.

Samkvæmt 66. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum ber atvinnurekandi ábyrgð á að gerð sé áætlun um heilsuvernd sem byggð sé á áhættumati. Markmið slíkrar heilsuverndar skal m.a. vera að stuðla að því að vinnu sé hagað þannig að starfsmenn fái verkefni við hæfi. Samkvæmt 1. mgr. 65. gr. a skal atvinnurekandi bera ábyrgð á að gert sé sérstakt áhættumat þar sem metin sé áhætta í starfi með tilliti til öryggis og heilsu starfsmanna. Í 2. mgr. 65. gr. a segir að þegar áhættumat á vinnustað gefi til kynna að heilsu og öryggi starfsmanna sé hætta búin, skuli atvinnurekandi grípa til nauðsynlegra forvarna í þeim tilgangi að koma í veg fyrir hættuna eða, þar sem þess sé ekki kostur, að draga úr henni eins og frekast sé unnt.

Stefndi fylgdist sérstaklega með hjartasjúkdómum hjá starfsmönnum sínum, væntanlega vegna þeirrar áhættu sem forsvarsmenn stefnda töldu að fylgdi starfinu og þekkt er. Hafði stefndi á sínum snærum lækni sem fylgdist reglulega með heilsu starfsmanna. Stefndi hafði því gert áætlun um heilsuvernd í skilningi 1. mgr. 65. gr. og bar samkvæmt 2. mgr. að grípa til viðeigandi ráðstafana til að koma í veg fyrir þá hættu sem Gísla var bersýnilega búin.

 Samkvæmt framansögðu telur dómurinn að stefndi hafi  ekki gert viðhlítandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir tjón stefnanda og beri stefndi því skaðabótaábyrgð á því tjóni sem stefnandi hefur orðið fyrir. Tölulegur ágreiningur er ekki um aðalkröfu stefnanda, 9.520.126 krónur. Miski stefnanda er tilfinnanlegur og verða miskabætur hæfilegar taldar 2.000.000 króna

Á hinn bóginn er til þess að líta að Gísli sinnti ekki sem skyldi ráðleggingum lækna um meðferð og rannsóknir eins og að framan er rakið. Lyfjameðferð var stopul og hann fór ekki að ráði Stefáns Jónssonar læknis 6. febrúar 2004 um að  fara til hjartalæknis í hjarta- og æðakerfisskoðun. Þá fór Gísli á erfitt reykköfunarnámskeið í Svíþjóð þrátt fyrir aðvörun trúnaðarlæknis eftir skoðun 25. maí 2005. Verður því að telja að hann hafi að hluta átt sök á tjóni því sem varð. Þykir því eftir atvikum rétt að sök verði skipt til helminga með aðilum.

Niðurstaða málsins verður því sú að stefndi verður dæmdur til að greiða stefnanda samtals 5.760.063 krónur. Vaxtakrafa stefnanda er í samræmi við dómaframkvæmd og  IV. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Verður hún því tekin til greina eins og í dómsorði greinir.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður milli aðila. Stefnandi hefur gjafsókn í málinu. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, útlagður kostnaður að fjárhæð 460.663 krónur, lögmannskostnaður að fjárhæð 1.531.200 krónur og virðisaukaskattur að fjárhæð 375.144 krónur, samtals 2.367.007 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Stefndi, Brunavarnir Suðurnesja, greiði stefnanda, Vilborgu Reynisdóttur, persónulega og fyrir hönd ófjárráða barna hennar, Reynis Arnar Gíslasonar og Kristínar Óskar Gísladóttur, 5.760.063 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 22. september 2005 til 23. maí 2007 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 2.367.007 krónur, greiðist úr ríkissjóði.