Hæstiréttur íslands

Mál nr. 348/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                     

Fimmtudaginn 24. maí 2012.

Nr. 348/2012.

 

Sýslumaðurinn á Akureyri

(Eyþór Þorbergsson fulltrúi)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. maí 2012 sem barst héraðsdómi sama dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 16. maí 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 13. júní 2012 klukkan 12. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 16. maí 2012.

Lögreglustjórinn á Akureyri krefst þess að sakborningur, X, kt. [...], [...], [...], verði úrskurðaður í áframhaldandi gæzluvarðhald til miðvikudagsins 13. júní. Sakborningur krefst þess að kröfunni verði hafnað. Mál þetta var tekið til úrskurðar á dómþingi fyrr í dag.

Lögreglustjóri kveðst styðja kröfu sína við c lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Hinn 25. marz var sakborningur úrskurðaður í fjögurra vikna gæzluvarðhald á grundvelli a og c liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 214/2012, sem kveðinn var upp hinn 29. marz, var sá úrskurður staðfestur. Hinn 18. apríl 2012 var sakborningur að nýju úrskurðaður í fjögurra vikna gæzluvarðhald og með dómi sínum í máli nr. 283/2012, sem kveðinn var upp hinn 25. apríl, staðfesti Hæstiréttur Íslands úrskurðinn. Var staðfesting Hæstaréttar gerð á grundvelli c liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 en ekki var talin þörf á að taka afstöðu til kröfu um gæzluvarðhald á grundvelli 2. mgr., svo sem gert hafði verið í héraði.

Lögreglustjóri segist hafa verið undanfarnar átta vikur að ljúka rannsókn á um tíu málum er varði sakborning. Sé rannsókn þeirra allra nú komin á lokastig og verði ákæra eða ákærur gefnar út á næstu dögum í þeim flestum. Aðalmeðferð í tveimur málum sakbornings, þar sem hann sé ákærður, hafi farið fram í dag, en fyrir tveimur dögum hafi verið gefin út ný ákæra þar sem honum hafi verið gefinn að sök akstur undir áhrifum fíkniefna og án ökuréttar. Séu því þrjár ákærur til meðferðar fyrir héraðsdómi og standi til að ljúka aðalmeðferð þeirra í dag. Hafi sakborningur hlotið tuttugu og fjóra refsidóma frá árinu 1994 og séu nú til rannsóknar hjá lögreglu og dómstólum að minnsta kosti tíu mál þar sem sakborningur sé grunaður um aðild og fangelsisrefsing sé lögð við.

Lögreglustjóri segir rannsókn málanna nánast lokið og fari þau til ákærumeðferðar á næstu dögum. Séu sum málanna þess eðlis að ríkissaksóknari fari með ákæruvaldið í þeim en önnur megi afgreiða hjá lögreglustjóra. Sé nauðsynlegt að halda sakborningi í gæzluvarðhaldi þar til hann hefji afplánun fyrir þau brot sem hann hafi nú þegar verið ákærður fyrir, þannig að brotastarfsemi hans verði stöðvuð. Sé sakborningur undir rannsókn og grunaður um aðild að tveimur brotum á 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, fjárkúgun, hótunum, ráni, nokkrum fíkniefnalagabrotum og umferðarlagabrotum.

Sakborningur krefst þess að kröfu lögreglustjóra verði hafnað. Nauðsynlegt sé að hraða rannsókn mála þegar sakborningur sitji í gæzluvarðhaldi, en hér sé rannsókn mála á því sama lokastigi og þau hafi verið fyrir fjórum vikum þegar gæzluvarðhald hans hafi verið framlengt.

Fyrir liggur að sakborningur hefur hlotið tuttugu og fjóra refsidóma, þann fyrsta í nóvember 1994 en síðast í júní 2011. Þá hefur lögregla til rannsóknar tug mála þar sem sakborningur er undir rökstuddum grun um að eiga aðild að og lögð er fangelsisrefsing við. Þykir þetta og dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 283/2012 færa styrka stoð undir þá kröfu lögreglustjóra að sakborningi verði enn gert að sæta gæzluvarðhaldi með stoð í c lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Lögreglustjóri segir rannsókn málanna nánast lokið og fari þau til ákærumeðferðar á allra næstu dögum. Þykir ekki verða litið svo á að rannsókn málanna hafi dregizt úr hömlu eða að ekki hafi verið eðlilegur gangur á henni. Með vísan til framanritaðs verður orðið við kröfu lögreglustjóra svo sem í úrskurðarorði greinir.

Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Sakborningur, X, sæti áfram gæzluvarðhaldi, en þó ekki lengur en til miðvikudagsins 13. júní kl. 12:00.