Hæstiréttur íslands
Mál nr. 711/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Þriðjudaginn 11. nóvember 2014. |
|
Nr. 711/2014. |
Ákæruvaldið (enginn) gegn X (enginn) (Steinunn Erla Kolbeinsdóttir hdl. f.h. brotaþola) |
Kærumál. Frávísun frá
Hæstarétti.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar
sem brotaþola í máli Á gegn X var synjað um skipan réttargæslumanns. Í dómi
Hæstaréttar í máli nr. 710/2014 var staðfestur úrskurður héraðsdóms um að vísa
máli Á gegn X frá héraðsdómi. Var því ekki lengur grundvöllur fyrir kröfu
brotaþola um skipan réttargæslumanns og var málinu þegar af þeirri ástæðu vísað
frá Hæstarétti.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.
Brotaþolar, A og B, skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 24. október
2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. nóvember sama ár. Kærður er
úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 23. október 2014 þar sem þeim var synjað um
skipan réttargæslumanns. Kæruheimild er í e. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr.
88/2008 um meðferð sakamála. Þess er
krafist að lagt verði fyrir héraðsdóm að skipa brotaþolum réttargæslumann. Þá
er krafist kærumálskostnaðar.
Hvorki sóknaraðili né
varnaraðili hafa látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með dómi Hæstaréttar í máli
nr. 710/2014, sem kveðinn var upp fyrr í dag, var staðfestur úrskurður
Héraðsdóms Suðurlands um að vísa máli sóknaraðila á hendur varnaraðila frá héraðsdómi.
Er því ekki lengur grundvöllur fyrir kröfu brotaþola um skipan
réttargæslumanns. Málinu verður þegar af þeirri ástæðu vísað frá Hæstarétti en
kærumálskostnaður dæmist ekki.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 23. október 2014.
Mál þetta, sem þingfest var 25. apríl
2014, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Selfossi dagsettri 24. mars 2014 á
hendur X, kt. [...], [...], [...].
„fyrir umboðssvik
með því að hafa á
tímabilinu [...] til 24. ágúst 2011 er ákærði sat í óskiptu búi eftir eiginkonu
sína C, kt. [...] er lést hinn [...], með óhæfilegri fjárstjórn í neðangreind
skipti rýrt efni hins óskipta bús á grófan og óforsvaranlegan hátt;
a. með því að millifæra á tímabilinu 2. apríl 2009 til 2.
júní 2009 samtals kr. 6.603.949,- inn á reikninga tveggja óþekktra kvenna í
Ghana.
b. með því að hafa 20. júní 2008 og 13. janúar 2009 móttekið
tjónabætur frá Vátryggingarfélagi Íslands og Viðlagatryggingu Íslands vegna
jarðskjálfta-skemmda samtals að fjárhæð kr 9.623.311, án þess að verja nema
óverulegum hluta skaðabótanna til viðgerða á því tjóni sem orðið hafði á
fasteign hins óskipta bús.
Ofangreindar ráðstafanir
ákærða leiddu m.a. til þess að allur arfshluti samerfingja ákærða úr dánarbúinu
reyndist glataður þar sem búið reyndist eignalaust er opinber skipti á því fóru
fram á síðari hluta ársins 2011.
Telst brot þetta varða
við 249. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19,1940, en til vara við 247. gr. sömu
laga.
Þess er krafist að ákærði
verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkröfur:
Í málinu gerir Grímur
Hergeirsson hdl. f.h. A, kt. [...] og B, kt. [...] kröfu um að ákærða verði með
dómi gert að greiða hvorum þeirra um sig skaðabætur að fjárhæð kr. 1.046.769
með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá 24.
ágúst 2011 til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu, en
dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og
verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Til vara er þess krafist að bótaskylda ákærða vegna óforsvaranlegrar
meðferðar á fjármunum í hinu óskipta búi verði viðurkennd með dómi. Ef bótakröfu verður vísað til meðferðar í
sérstöku einkamáli gera tjónþolar jafnframt kröfu um að ákærði verði dæmdur til
að greiða þeim málskostnað að skaðlausu að teknu tilliti til virðisaukaskatts
samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins.
Í málinu gerir Sigurður
Jónsson hrl. f.h. D, kt. [...], E, kt. [...] og F, kt. [...] kröfu um að ákærða
verði með dómi gert að þeim hverjum um sig skaðabætur að fjárhæð kr. 1.046.769
með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá 24.
ágúst 2011 til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu, en
dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og
verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Til vara er þess krafist að bótaskylda ákærða vegna óforsvaranlegrar
meðferðar á fjármunum í hinu óskipta búi verði viðurkennd með dómi. Ef bótakröfu verður vísað til meðferðar í
sérstöku einkamáli gera tjónþolar jafnframt kröfu um að ákærði verði dæmdur til
að greiða þeim málskostnað að skaðlausu að teknu tilliti til virðisaukaskatts
samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins.“
Ákærði neitar sök og
hafnar bótakröfum.
Af hálfu bótakrefjendanna
A og B er þess krafist að þeim verði skipaður réttargæslumaður. Af hálfu ákærða
er ekki tekin afstaða til kröfu bótakrefjenda um skipun réttargæslumanns, en af
hálfu sækjanda er litið svo á að lagaskilyrði séu til skipunar réttargæslumanns
sbr. 2. ml. 1. mgr. 41. gr. laga nr. 88/2008.
Í V. kafla laga um
meðferð sakamála nr. 88/2008 eru ákvæði um skipun réttargæslumanns.
Í 1. mgr. 41. gr. laganna
segir „Skylt er lögreglu að tilnefna
réttargæslumann ef rannsókn máls beinist að broti á XXII. kafla almennra
hegningarlaga og brotaþoli óskar þess. Þó skal ávallt tilnefna réttargæslumann
ef brotaþoli hefur ekki náð 18 ára aldri þegar rannsókn hefst.“
Í 2. mgr. 41. gr. laganna
segir „Skylt er lögreglu endranær eftir
ósk brotaþola að tilnefna honum réttargæslumann ef rannsókn beinist að broti á
XXIII. eða XXIV. kafla almennra hegningarlaga eða 251.253. gr. laganna og ætla
má að brotaþoli hafi orðið fyrir verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði
af völdum brotsins eða að brotið hafi verið gegn honum af einhverjum sem er
honum nákominn. Það er skilyrði fyrir tilnefningu réttargæslumanns samkvæmt
þessari málsgrein að brotaþoli hafi að mati lögreglu þörf fyrir sérstaka aðstoð
réttargæslumanns til þess að gæta hagsmuna sinna í málinu.“
Í 3. mgr. 41. gr. laganna
segir „Heimilt er lögreglu að tilnefna
brotaþola réttargæslumann þótt hann hafi ekki óskað þess ef skilyrðum 2. mgr.
er fullnægt og hann er ekki fær um að gæta hagsmuna sinna sem skyldi við
rannsókn máls.“
Í 1. mgr. 42. gr. laganna
kemur fram að þegar mál hefur verið höfðað og skilyrði eru til þess að tilnefna
réttargæslumann skv. framangreindum ákvæðum 1. mgr. 3. mgr. 41. gr. laganna
skipar dómari brotaþola réttargæslumann.
Ekki er af hálfu
bótakrefjenda vísað til 2. mgr. 41. gr. laga nr. 88/2008 vegna kröfu þeirra um
skipun réttargæslumanns, enda ljóst að mati dómsins að það ákvæði á ekki við,
enda ekki ákært í málinu fyrir brot gegn XXIII. eða XXIV. kafla almennra
hegningarlaga eða 251.253. gr. þeirra laga. Aðeins er uppfyllt það að ætlað
brot hafi verið framið af einhverjum nákomnum, en það eitt er ekki nægilegt
heldur þarf að uppfylla önnur skilyrði ákvæðisins til að heimilt eða skylt sé
að skipa réttargæslumann á grundvelli þess.
Ekki er heimilt að skipa
brotaþolum réttargæslumann á grundvelli 3. mgr. 41. gr. laga nr. 88/2008, enda
vísar það ákvæði til 2. mgr. 41. gr. laganna, sem á ekki við að mati dómsins
samkvæmt framansögðu.
Samkvæmt 1. ml. 1. mgr.
41. gr. laga nr. 88/2008 er skipun réttargæslumanns háð því að um sé að tefla
brot gegn XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þ.e. kynferðisbrot. Í
2. ml. 1. mgr. 41. gr. laganna segir að „Þó
skal ávallt tilnefna réttargæslumann ef brotaþoli hefur ekki náð 18 ára aldri
þegar rannsókn hefst“ en á þessum grundvelli er krafist skipunar
réttargæslumanns þar sem bótakrefjendurnir A og B voru yngri en 18 ára þegar
rannsókn hófst.
Í greinargerð með
frumvarpi því sem varð að lögum nr. 88/2008 sagði um ákvæði 41. gr. að greinin
væri efnislega eins og 44. gr. b þágildandi laga, þ.e. laga nr. 19/1991 um
meðferð opinberra mála með síðari breytingum. Ákvæði 44. gr. b laga nr. 19/1991
var lögfest með 14. gr. laga nr. 36/1999, sem breyttu lögum nr. 19/1991. Í
frumvarpi að lögum nr. 36/1999 var lagt til að ákvæði 1. mgr. 44. gr. b yrði
svohljóðandi: „Skylt er lögreglu að
tilnefna brotaþola réttargæslumann ef brotaþoli hefur ekki náð 18 ára aldri
þegar rannsókn máls hefst og hún beinist að broti á XXII. kafla almennra
hegningarlaga.“ Í greinargerð með frumvarpi að lögum nr. 36/1999 sagði um
ákvæðið: „Í 1. mgr. 44. gr. b er kveðið á
um fortakslausa skyldu lögreglu til að tilnefna brotaþola réttargæslumann ef í
hlut á barn sem er yngra en 18 ára þegar rannsókn hefst, enda leiki grunur á að
það hafi orðið fyrir kynferðisbroti, sbr. XXII. kafla almennra hegningarlaga,
nr. 19/1940.“
Í framsögu
dómsmálaráðherra á Alþingi 4. febrúar 1999 sagði m.a. um þetta „Ef um börn er að ræða, yngri en 18 ára
þegar rannsókn hefst, og grunur leikur á að þau hafi orðið fyrir kynferðisbroti
er gengið lengra og lagt til að skylt verði að skipa þeim réttargæslumann í
öllum tilvikum.“
Með breytingatillögu
Allsherjarnefndar Alþingis var lagt til að orðalag umrædds ákvæðis yrði svo sem
nú er í 1. mgr. 41. gr. laga nr. 88/2008, þ.e. „Skylt er lögreglu að tilnefna réttargæslumann ef rannsókn máls beinist
að broti á XXII. kafla almennra hegningarlaga og brotaþoli óskar þess. Þó skal
ávallt tilnefna réttargæslumann ef brotaþoli hefur ekki náð 18 ára aldri þegar
rannsókn hefst.“ Í nefndaráliti Allsherjarnefndar Alþingis sagði um þetta
m.a. „Þykir nefndinni rétt, til að taka
af öll tvímæli, að leggja til að það verði tekið sérstaklega fram í frumvarpinu
að lögreglu sé í öllum tilvikum skylt að tilnefna réttargæslumann ef rannsókn
beinist að broti á XXII. kafla almennra hegningarlaga og brotaþoli óskar þess.
Ef brotaþoli hefur ekki náð 18 ára aldri þegar rannsókn hefst skuli hins vegar
ávallt tilnefna réttargæslumann eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu.“ Í
framsögu þáverandi formanns Allsherjarnefndar Alþingis þegar hún mælti fyrir
áliti nefndarinnar 6. mars 1999 sagði m.a. um þetta: „Enn lengra er gengið ef um er að ræða börn yngri en 18 ára sem grunur
leikur á að hafi orðið fórnarlömb kynferðisbrota þar sem lagt er til að skylt
verði að skipa þeim réttargæslumann í öllum slíkum tilvikum.“
Að mati dómsins er það
vafalaust, að ofangreindu virtu, að óhjákvæmilegt er að skýra 1. og 2. ml. 1.
mgr. 41. gr. laga nr. 88/2008 saman, þannig að hin fortakslausa skylda til
tilnefningar réttargæslumanns brotaþola sem er yngri en 18 ára, eða skipunar
hans í dómi sbr. 1. mgr. 42. gr. laganna, er háð því að um sé að tefla brot
gegn XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Í þessu máli er ákærða
ekki gefið að sök brot gegn XXII. kafla almennra hegningarlaga og eru því að
mati dómsins ekki uppfyllt skilyrði til skipunar réttargæslumanns fyrir
framangreinda bótakrefjendur.
Verður kröfu um skipun
réttargæslumanns hafnað skv. framansögðu.
Sigurður
G. Gíslason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Hafnað er skipun
réttargæslumanns fyrir bótakrefjendurna A og B í máli þessu.