Hæstiréttur íslands
Mál nr. 8/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. janúar 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. janúar 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 1. febrúar 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Ákæra í máli þessu var gefin út 6. desember 2016 og fyrirhugað er að þingfesta málið 23. janúar 2017. Varnaraðili hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 14. september 2016. Í því ljósi er sérstök ástæða til að hraða þingfestingu málsins, sbr. 1. mgr. 155. gr. laga nr. 88/2008, en ekki liggur fyrir skýring á því hverju það sæti að málið verði ekki þingfest fyrr en ráðgert er. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. janúar 2017.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 1. febrúar 2017 kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að ákærði hafi verið handtekinn 14. september en tilkynnt hafði verið um mann sem hafi gengið um [...] og hafi verið að reyna að komast inn í hús á leið sinni með því að taka í hurðarhúna. Lögreglumenn hafi hitt ákærða þar sem hann hafi komið gangandi frá [...] og samsvaraði lýsingin á manninum við ákærða. Ákærði hafi haldið á tösku þegar lögregla hafði afskipti af honum en það hafi síðan komið í ljós að taskan hafði verið tekin úr bifreið sem stóð við [...]. Þá hafi einnig fundist bíllyklar og lyklaveski með nokkrum húslyklum á kærða en aðspurður sagðist ákærði hafa stolið þeim úr bifreið við [...]. Þá hafi fundist um eitt gramm af ætluðu kannabisefni í fórum kærða.
Ákærði hafi játað sök í skýrslutöku hjá lögreglu.
Þá sé ákærði undir sterkum grun um að hafa framið eftirfarandi brot:
Mál 007-2016-53937
Um klukkan 13:00 þann 12. september sl. hafi lögreglu borist tilkynning um að tveir einstaklingar hafi komið inn á A á [...], tekið veski starfsmanns staðarins og hlaupið síðan út með veskið. Atvikið hafi náðst á myndbandsupptöku en lögreglumenn hafi borið kennsl á ákærða sem annan af gerendum en ákærði og samverkamaður hans höfðu þá skömmu áður verið látnir lausir úr haldi lögreglu vegna rannsóknar á máli nr. 007-2016-53803. En af myndbandsupptökum að dæma sé það ákærði sem taki veskið og þeir hlaupi síðan saman út.
Mál 007-2016-53938
Skömmu síðar eða klukkan 13:06, hafi lögreglu borist tilkynning um innbrot í kjallaraíbúð að [...]. Farið hefði verið inn um glugga á jarðhæð/kjallara hússins en sjá hafi mátt skófar á gluggakistunni og fingraför fundist á gluggakarmi en það sé mat lögreglu að skófarið sé eftir ákærða. Í fljótu bragði hafi húsráðandi tekið eftir því að búið hafi verið að taka tvær fartölvur og tvær fartölvutöskur. Á vettvangi hafi fundist veskið sem tekið hefði verið frá starfsmanni á A skömmu áður. Þá hafi fundist hluti þýfisins hjá þeim aðila sem hafi verið með ákærða í A þegar hann hafi verið handtekinn.
Mál 007-2016-46425 – Innbrot og þjófnaður
10. ágúst sl. Innbrot í íbúð við [...] en munirnir hafi fundist heima hjá ákærða að [...]. Ákærði sagðist hafa verið að geyma þessa muni fyrir vin sinn.
Ákærði hafi fyrst verið úrskurðaður í gæsluvarðhald þann 14. september sl. og hafi sá úrskurður verið staðfestur með dómi Hæstaréttar í máli nr. [...]. Farið hafi verið fram á áframhaldandi gæslu yfir ákærða þann 12. október og hafi henni verið hafnað með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur sama dag. Hæstiréttur hafi snúið þeim úrskurði við með dómi í máli nr. [...]. Gæsluvarðhaldið hafi svo verið framlengt til 9. nóv. sl. Þann 7. desember sl. hafi gæslan aftur verið framlengd og var sá úrskurður staðfestur með dómi Hæstaréttar frá [...]í máli nr. [...].
Ákæra hafi verið gefin út vegna ofangreindra mála þann 6. desember sl. og verði mál hans þingfest þann 23. janúar nk.
Ákærði eigi að baki langan sakarferil og hafi hlotið fjölmarga dóma fyrir auðgunarbrot, sjá meðfylgjandi sakavottorð. Við rannsókn mála ákærða hjá lögreglu hafi komið í ljós að hann sé í neyslu fíkniefna og megi ætla að hann fjármagni fíkniefnaneyslu sína með afbrotum. Þann 3. ágúst sl. hafi ákærði lokið afplánun á 2 mánaða fangelsisrefsingu Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. 674 frá 17. desember 2015.
Með vísan til brotaferils ákærða á undanförnum vikum og mánuðum sé það mat lögreglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu á því að ákærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna en nauðsynlegt sé að ljúka þeim málum sem eru til meðferðar hjá dómstólum og lögreglu sem fyrst.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Niðurstaða:
Ákærði sætti gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 frá 14. september sl. til 12. október sl., sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 640/2016. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 12. október sl. var hafnað kröfu lögreglustjóra um áframhaldandi gæslu á þeim grunni. Með dómi Hæstaréttar 14. sama mánaðar, í málinu nr. 704/2016, var úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi og ákærða gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi til 9. nóvember sl.. Þann dag var ákærða með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur gert að sæta gæsluvarðhaldi til 7. desember 2016 kl. 16.00. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 7. desember sl. var gæsluvarðhald aftur verið framlengt og var sá úrskurður staðfestur með dómi Hæstaréttar frá [...].
Í kröfugerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að þann 6. desember sl. hafi ákæra verið gefin út vegna fjögurra auðgunarbrota sem sterkur grunur eru um að ákærði hafi framið á tímabilinu frá 10. ágúst til 13. september 2016 og fangelsisrefsing liggur við, en þau eru talin eru varða við 57. gr., 233. gr., 231. gr., 244. gr. og eftir atvikum 245 gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ofl. Þá kemur og fram að mál ákærða verða þingfest þann 23. janúar n.k. Aðstoðarsaksóknari gerði grein fyrir ástæðum tafa á rekstri málsins.
Samkvæmt þessu og með vísan til sakferils ákærða, sem rakinn er í kröfugerð lögreglustjórans og í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. [...], og með hliðsjón af sakavottorði ákærða, er fallist á það með lögreglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu á því að ákærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna en nauðsynlegt sé að ljúka þeim málum sem séu til meðferðar hjá dómstólum.
Samkvæmt framangreindu er fallist á það með lögreglustjóra að skilyrðum c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála séu uppfyllt.
Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákærði, x, kt. [...], skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 1. febrúar 2017, kl. 16:00.