Hæstiréttur íslands

Mál nr. 417/2005


Lykilorð

  • Einkahlutafélag
  • Hlutafé


Fimmtudaginn 9

 

Fimmtudaginn 9. mars 2006.

Nr. 417/2005.

Ný-Fiskur ehf.

(Bjarni S. Ásgeirsson hrl.)

gegn

þrotabúi Fiskgæða ehf.

(Jóhannes Karl Sveinsson hrl.)

 

Einkahlutafélög. Hlutafjárhækkun.

Fyrirtækið N hélt því fram að áskrift þess að nýjum hlutum við hlutafjáraukningu í fyrirtækinu F árið 2002 hafi ekki verið skuldbindandi, meðal annars vegna þess að hún hafi verið bundin fyrirvara varðandi innborgun annars áskrifanda að nýju hlutafé, B, og að alls myndi safnast nýtt hlutafé að fjárhæð 60 milljónir krónur. Í gögnum málsins kom fram að B hafði greitt hlutafjáráskrift sína fyrir árslok 2002 og að á hlutafjárfundi í F í desember það ár hafði fengist áskrift fyrir allri hlutafjáraukningunni. Var þessari málsástæðu N því hafnað þegar af þessari ástæðu. Einnig var hafnað þeirri málsástæðu N fyrir sýknukröfu sinni, að rangar og villandi upplýsingar um rekstrarhorfur F skyldu leiða til þess að hlutafjárloforð hans væri ógilt. Þá taldi N sig óbundinn af hlutafjárloforði sínu þar sem það hafi tengst samningi N og F um fiskkaup og fallið niður að því marki sem hann hafi ekki verið efndur. Fullyrðingar forsvarsmanna N um vanefndir F voru ekki studdar gögnum. Þó var fallist á með N að formreglur V. kafla laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög hafi verið brotnar við hlutafjáraukninguna. Framkvæmdastjóri N hafði hins vegar átt þátt í þeirri framkvæmd sem stjórnarmaður í F. Talið var að hafi N talið rétti sínum hallað hafi félagið haft tök á því að bera málið undir dómstóla samkvæmt 6. mgr. 124. gr. laga um einkahlutafélög. Það hafi hann hins vegar ekki gert. Var N talinn bundinn við hlutafjáráskrift sína.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. september 2005. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Einkahlutafélagið Fiskgæði mun hafa verið stofnað 1997. Var stofnhlutafé félagsins 500.000 krónur og starfsemi þess einkum fiskverkun. Á hluthafafundi í október 2000 var tekin ákvörðun um hækkun á hlutafé félagsins í 980.392 krónur og var hún tilkynnt hlutafélagaskrá með bréfi stjórnar félagsins 24. apríl 2001. Mun gengi hluta við þá hækkun hafa verið ákveðið þannig að 5.600.000 krónur greiddust umfram nafnverð hinna nýju hluta, og var sú fjárhæð færð á yfirverðsreikning hlutafjár í ársreikningi félagsins 2001. Rekstur félagsins virðist hafa gengið fremur erfiðlega. Varð tap af rekstri þess 18.269.860 krónur árið 2000 en 6.034.243 króna hagnaður árið 2001. Í áritun endurskoðenda 24. júní 2002 á ársreikning félagsins fyrir árið 2001 kom fram ábending um að eigið fé þess væri neikvætt um 29,3 milljónir króna og „forsenda fyrir áframhaldandi rekstri byggir á því að unnt verði að bæta reksturinn og afla félaginu fjár með nýju hlutafé eða á annan hátt.“

 Samkvæmt gögnum málsins virðist undirbúningur að aukningu hlutafjár í félaginu hafa hafist síðsumars 2002. Gerð var rekstraráætlun til ársins 2005. Var hún samin af Einari Hafliða Einarssyni endurskoðanda hjá Deloitte & Touche hf. og dagsett 26. ágúst 2002. Í forsendum hennar kom fram að hún væri að miklu leyti reist á rekstrarniðurstöðum ársins 2001 „en nokkrar veigamiklar forsendur“ séu „teknar með í áætlunina vegna 2002-2005.“ Þá kemur fram að það sem mest áhrif hafi á niðurstöðu áætlunarinnar sé aðallega tvennt: „áætluð framleiðslutekjuaukning og innborgun nýs eigin fjár.“ Meðal forsendna er að við fjárhagslega endurskipulagningu félagsins verði haustið 2002 borgað inn nýtt hlutafé að fjárhæð 60 milljónir króna. Segir í áætluninni að helstu niðurstöður hennar séu að gangi forsendur eftir megi búast við hagnaði næstu árin og að veltufé frá rekstri verði hagstætt. Í töflu sem fylgir áætluninni komu meðal annars fram áðurgreindar rekstrarniðurstöður áranna 2000 og 2001 og áætlun um að hagnaður ársins 2002 yrði rúmar 17 milljónir króna, en árin 2003 til 2005 árlega á bilinu rúmlega 28 til rúmlega 34 milljónir króna.

Meðal gagna málsins er svokölluð áskriftarskrá að nýjum hlutum í Fiskgæðum ehf. Skráin er ódagsett en óumdeilt er að hún er frá haustinu 2002. Þar skráði Birgir Kristinsson framkvæmdastjóri áfrýjanda félagið fyrir 11.600.000 króna nýjum hlut. Í skránni er gert ráð fyrir áskrift að nýjum hlutum fyrir samtals 60.000.000 krónur, þar af 20.000.000 króna áskrift af hálfu Byggðastofnunar. Er áskrift staðfest fyrir aðra hluti en þá sem ætlaðir voru Byggðastofnun. Gerðu áskrifendur þá fyrirvara við áskrift sína að Byggðastofnun greiddi inn nýtt hlutafé að fjárhæð 20.000.000 krónur og að alls safnist nýtt hlutafé að fjárhæð 60.000.000 krónur. Þá er meðal gagna málsins „staðfesting vegna hlutafjáraukningar í Fiskgæðum ehf. árið 2002“ frá 25. september 2002. Þar lýstu þeir sem lagt höfðu fram hlutafjárloforð yfir „sameiginlegum skilningi“ á því hvernig greiðslu hlutafjár skyldi hagað af hálfu hvers og eins. Þar var meðal annars tiltekið að greiðsla hlutafjár tveggja þeirra skyldi að fullu fara fram með skuldajöfnuði og þess þriðja að hluta. Áfrýjandi skyldi greiða sinn hlut „auk vaxta, með því að greiða við hverja skilagrein til félagsins upphæð sem nemur 12 kr. pr. kg af afurðum sem þeir kaupa af félaginu.“ Skyldi hámarks greiðslutími þó vera 12 mánuðir. Þetta skjal undirritaði Birgir Kristinsson af hálfu áfrýjanda.

Áfrýjandi, sem einnig stundar fiskverkun, mun þegar hér var komið sögu hafa átt í viðskiptum við Fiskgæði ehf. um nokkurt skeið. Hinn 29. ágúst 2002 gerðu félögin með sér samning um fiskkaup. Skuldbundu Fiskgæði ehf. sig til aða selja áfram til áfrýjanda hluta þess hráefnis sem fyrrnefnda félagið keypti af bátum á Austurlandi. Væri um að ræða smáþorsk, karfa, steinbít og aðrar tegundir eftir samkomulagi. Skyldi samið um fiskverð á fjögurra mánaða fresti. Var samningurinn uppsegjanlegur með fjögurra mánaða fyrirvara frá 31. desember 2003. Hinn 27. september 2002 var undirritaður milli framangreindra tveggja félaga „samningur um greiðslu hlutafjár“. Samkvæmt honum „skuldaði“ áfrýjandi Fiskgæðum ehf. 11.600.000 krónur „fyrir hlutabréfakaup af sömu upphæð“. Skyldi svonefnd skuld greidd þannig að fyrir hvert kíló af þorski sem áfrýjandi keypti af Fiskgæðum ehf. yrðu greiddar 12 krónur og skyldi líta á þessa greiðslu samhliða fyrrgreindum samningi aðila um fiskkaup þannig að „skuldin“ hefði verið greidd þegar keypt hefðu verið 969 tonn af þorski. Skyldi „lánið ... hugsað sem jafngreiðslulán“ og að fullu greitt 12 mánuðum frá undirritun samningsins. Honum fylgdi áætlun um greiðslu hlutafjárins þar sem miðað var við 6% ársvexti af svonefndu láni og jafnar mánaðarlegar greiðslur frá október 2002 til september 2003.

Samkvæmt fundargerð hluthafafundar í Fiskgæðum ehf. 14. desember 2002 var samþykkt að hækka hlutafé félagsins með útgáfu jöfnunarhluta til eldri hluthafa að fjárhæð 5.600.000 krónur með ráðstöfun af framangreindum yfirverðsreikningi hlutafjár. Þá var samþykkt að hækka hlutafé félagsins með nýju hlutafé um 60.000.000 krónur. Var bókað að farið hefði fram söfnun á nýjum hluthöfum og að áskriftaskrá þeirra lægi fyrir og hefði áskrift fengist fyrir allri hlutafjáraukningunni en eldri hluthafar féllu frá forkaupsrétti. Í fundargerðina var skráð hlutaskrá félagsins eftir hækkun hlutafjárins, sundurliðuð eftir því hvort um væri að ræða nýtt hlutafé, nafnverð eldra hlutafjár eða jöfnunarhluti á eldra hlutafé. Var áfrýjandi þar skráður fyrir 11.600.000 krónum af nýju hlutafé, sem nam 17,4225% heildarhlutafjár. Staðfestar voru nýjar samþykktir fyrir félagið og kosin ný stjórn þess. Tók Birgir Kristinsson sæti í henni. Undir fundargerðina eru meðal annarra undirskrifta ritaðir upphafstafirnir BK. Í skýrslu fyrir héraðsdómi kannaðist Birgir Kristinsson við að þetta væri sín áritun. Hann kvaðst hins vegar ekki hafa setið fundinn en hafa með þessari áritun verið að kvitta fyrir móttöku á fundargerðinni. Nýjar samþykktir fyrir félagið, þar sem hlutafé þess er tilgreint 66.580.392 krónur í samræmi við framangreindar samþykktir hluthafafundarins, eru dagsettar sama dag fundurinn var haldinn. Eru þær meðal annars undirritaðar af Birgi Kristinssyni. Þær voru mótteknar af hlutafélagaskrá 25. mars 2003.

Með bréfi 30. desember 2002 tilkynnti stjórn Fiskgæða ehf. hlutafélagaskrá um hækkun hlutafjár og nýja stjórn. Þar voru tíundaðar fyrrgreindar samþykktir hluthafafundarins 14. sama mánaðar um hlutafjáraukningu, nýjar samþykktir og nýja stjórn. Um hlutafjáraukninguna sagði meðal annars: „Áskrift að nýjum hlutum fékkst að fjárhæð 60.000.000 kr. Umrædd hækkun hefur verið greidd inn til félagsins og óskast því skráð hjá hlutafélagskrá samkvæmt 28. gr. laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994.“ Meðal undirskrifta undir þetta bréf eru upphafsstafirnir BK. Fyrir héraðsdómi kannaðist Birgir Kristinsson við að hafa ritað þá, en framburður hans verður helst skilinn svo að með þessari áritun hafi hann ekki talið sig vera að undirrita bréfið sem stjórnarmaður í Fiskgæðum ehf. heldur staðfesta að hann hafi móttekið það. Hinn 30. desember 2002 undirritaði endurskoðandi félagsins umsögn til hlutafélagaskrár um hlutafjáraukninguna þar sem hann staðfesti að hún væri „samkvæmt lögmætri ákvörðun hluthafafundar og að öllu leyti tekin í samræmi við ákvæði laga um einkahlutafélög.“ Hlutafélagaskrá móttók bæði þessi bréf 25. mars 2003.

Samkvæmt bókhaldsgögnum Fiskgæða ehf. virðast rúmlega 45,7 milljónir króna af hlutafjáraukningunni hafa verið greiddar fyrir árslok 2002, þar á meðal hlutafé Byggðastofnunar. Óumdeilt er að áfrýjandi greiddi samtals 685.140 krónur af hlutafé sínu fyrir árslok 2002 og samtals 2.750.288 krónur í maí og júní 2003. Af fundargerð stjórnarfundar félagsins 17. mars 2003 verður ráðið að þá hafi öll hlutafjáraukningin verið greidd ef frá er talið það sem áfrýjandi átti þá vangreitt. Álitamál sýnist þó hafa verið hvort hlutafjáráskrift nafngreinds starfsmanns félagsins teldist hafa verið greidd með vinnuframlagi hans. Ekki sat Birgir Kristinsson þennan stjórnarfund en í hans stað var Gunnar Bragi Guðmundsson, aðstoðarframkvæmdastjóri áfrýjanda, viðstaddur fundinn. Sat hann einnig næstu stjórnarfundi félagsins þar sem hann gerði meðal annars athugasemd við þann mikla mun sem reyndist verða á framangreindri rekstaráætlun og afkomu ársins 2002 en þá nam tap félagsins rúmlega 73 milljónum króna.

Á aðalfundi félagsins 9. júlí 2003 var ársreikningur þess fyrir árið 2002 samþykktur einróma. Á þeim fundi var Gunnar Bragi Guðmundsson kosinn í stjórn félagsins í stað Birgis Kristinssonar. Gunnar Bragi og Albert Sveinsson, stjórnarformaður áfrýjanda, voru viðstaddir síðasta stjórnarfund félagsins 18. febrúar 2004. Þar afhenti Albert skýrslu „um stöðu Fiskgæða ehf. og ábendingar um leiðir til úrbóta á fjárhagsvanda félagsins“. Gerði hann jafnframt grein fyrir afstöðu áfrýjanda til greiðslu þess sem á vantaði af hlutafjáráskrift hans. Bú Fiskgæða ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Austurlands 5. mars 2004. Höfðaði skiptastjóri búsins mál þetta 16. september 2004 til heimtu eftirstöðva þess hlutafjár sem áfrýjandi skráði sig fyrir á hluthafafundinum 14. desember 2002.

II.

Áfrýjandi heldur því fram að áskrift hans að nýjum hlutum við hlutafjáraukninguna í Fiskgæðum ehf. hafi ekki verið skuldbindandi meðal annars vegna þess að hún hafi verið bundin fyrirvara varðandi innborgun Byggðastofnunar á 20.000.000 krónum vegna aukningarinnar og að alls myndi safnast nýtt hlutafé að fjárhæð 60.000.000 krónur. Fyrirvari þessi kom fram í ódagsettri áskriftaskrá sem útbúin var við undirbúning hlutafjáraukningarinnar. Eins og að framan er rakið kemur fram í gögnum málsins að Byggðastofnun greiddi hlutafjáráskrift sína fyrir árslok 2002 og að á hluthafafundinum 14. desember 2002 fékkst áskrift fyrir allri hlutafjáraukningunni. Áskrift áfrýjanda fyrir hlutafé að fjárhæð 11.600.000 krónur, sem gerðist með skráningu í fundargerð hluthafafundarins 14. desember 2002, var enda ekki háð neinum fyrirvörum. Verður þessari málsástæðu áfrýjanda því hafnað þegar af þessum ástæðum og er ekki þörf á að taka afstöðu til þess hvort 2. mgr. 27. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög eigi við.

Í annan stað reisir áfrýjandi sýknukröfu sína á því að rangar og villandi upplýsingar um rekstrarhorfur Fiskgæða ehf. leiði til þess að hlutafjárloforð hans sé ógilt. Vísar hann í þeim efnum til ákvæða í III. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð umboð og ógilda löggerninga með áorðnum breytingum, þar á meðal 30. gr. og 33. gr., og einnig til brostinna forsendna. Efni rekstraáætlunar þeirrar sem fyrir lá þegar áfrýjandi tók ákvörðun um hlutafjárframlag sitt er að nokkru rakið hér að framan. Kom þar skýrlega fram hver afkoma félagsins hafði verið síðustu tvö árin og á hvaða forsendum áætlunin væri reist. Þá hefur áfrýjandi ekki andmælt því að hann hafi getað kynnt sér ársreikning félagsins fyrir árið 2001 áður en hann tók ákvörðun sína. Áfrýjandi, sem sjálfur stundaði svipaðan rekstur og Fiskgæði ehf., hafði þannig allar forsendur til að meta það sjálfur hver áhætta kynni að fylgja hlutafjáráskriftinni og hefur hann engin gild rök fært fram fyrir því að hann hafi verið beittur blekkingum eða svikum eða sé af öðrum ástæðum óbundinn þótt rekstaráætlunin hafi ekki gengið eftir og afkoma félagsins orðið mun lakari en þar var gert ráð fyrir.

Áfrýjandi telur sig loks óbundinn af hlutafjárloforði sínu vegna þess að það hafi tengst fyrrgreindum samningi aðila um fiskkaup og fallið niður að því marki sem hann var ekki efndur. Þá telur hann að framkvæmd hlutafjáraukningarinnar hafi veið ábótavant í ýmsum greinum. Lítilla upplýsinga nýtur í málinu um fiskviðskipti áfrýjanda og Fiskgæða ehf. og eru fullyrðingar forsvarsmanns áfrýjanda um vanefndir síðarnefnda félagsins ekki studdar gögnum. Hins vegar má fallast á það með áfrýjanda að formreglur V. kafla laga nr. 138/1994 hafi verið brotnar á ýmsan hátt við hlutafjáraukninguna. Þannig var meðal annars ekkert bókað í fundargerð hluthafafundarins 14. desember 2002 um að gögn þau sem um er rætt í 2. mgr. 23. gr. laganna hafi verið lögð fram. Ekki verður heldur séð að reglum 26. gr. hafi verið fylgt, en fyrir liggur að sumir hinna nýju hluta voru greiddir með skuldajöfnuði. Þá gaf stjórn félagsins ranga yfirlýsingu um að hlutaféð hefði verið að fullu greitt og þverbraut ákvæði 28. gr. laganna er hún tilkynnti hlutafélagaskrá um hækkun hlutafjárins áður en það hafði verið gert. Framkvæmdastjóri áfrýjanda tók eins og að framan segir sæti í stjórn Fiskgæða ehf. á hluthafafundinum 14. desember 2002. Hann undirritaði sama dag nýjar samþykktir fyrir félagið sem tóku mið af þeirri hlutafjáraukningu er áfrýjandi ber nú brigður á. Voru þær tilkynntar hlutafélagaskrá. Þá stóð hann sem stjórnarmaður í félaginu að því að hækkun hlutafjár var skráð í hlutafélagaskrá á grundvelli rangra upplýsinga um að það hafi að fullu verið greitt. Teldi áfrýjandi rétti sínum hallað hafði hann tök á því að bera málið undir dómstóla samkvæmt 6. mgr. 124. gr. laga nr. 138/1994.  Það gerði hann ekki. Verður ekki annað séð en að forsvarsmenn áfrýjanda hafi tekið fullan þátt í störfum stjórnar Fiskgæða ehf. allt fram til þess að bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta í mars 2004. Með hliðsjón af framansögðu og þegar virtir eru hagmunir lánardrottna Fiskgæða ehf., er máttu treysta skráðri hlutafjáraukningu samkvæmt tilkynningu stjórnar félagsins, verður að telja áfrýjanda bundinn við hlutafjáráskrift sína.

Skuldajafnaðarkrafa áfrýjanda er vanreifuð og kemur þegar af þeirri ástæðu ekki til skoðunar.

Eins og að framan er rakið var gert ráð fyrir því í samningi áfrýjanda og Fiskgæða ehf. 27. september 2002 að greiðsla vegna hlutafjáráskriftar áfrýjanda tengdist fiskviðskiptum en yrði að fullu lokið á 12 mánuðum frá undirritun samningsins. Hliðstætt ákvæði um greiðslu að fullu á 12 mánuðum er í „staðfestingu vegna hlutafjáraukningar í Fiskgæðum ehf. árið 2002“  frá 25. september 2002. Verður því fallist á kröfu stefnda um dráttarvexti frá 27. september 2003. Ákvæði þessara samninga um greiðslu hlutafjáráskriftarinnar í áföngum fram að þeim tíma og um vexti á því tímabili þykja hins vegar svo óákveðin að ekki verður fallist á kröfu stefnda um vexti fram að því.

Samkvæmt öllu framanrituðu verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda 8.164.572 krónur með dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Ný-Fiskur ehf., greiði stefnda, þrotabúi Fiskgæða ehf., 8.164.572 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. september 2003 til greiðsludags.

Áfrýjandi greiði stefnda samtals 900.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 15. júlí 2005.

Stefnandi er Þrotabú Fiskgæða ehf., kt. 590897-2729, Tryggvagötu 11, Reykjavík, en stefndi er Ný-Fiskur ehf., kt. 510496-2489, Hafnargötu 1, Sandgerði.

Umboðsmaður stefnanda er Jóhannes Karl Sveinsson hrl. sem jafnframt er skiptastjóri þrotabúsins, en umboðsmaður stefnda er Ólafur Rafnsson hdl. og fyrirsvarsmaður stefnda er Albert Sveinsson, kt. 150354-7819, Vallarbarði 4, Hafnarfirði.

I.  Dómkröfur.

1.  Stefnandi krefst þess, að stefndi greiði honum kr. 8.164.572,- með 6% ársvöxtum frá 23. september 2002 af kr. 11.600.000,- til  18.10.2002 af kr. 11.100.000 frá þeim degi til 22.12.2002, af kr. 10.914.860,- frá þeim degi til 16. maí 2003, af kr. 10.115.463,- frá þeim degi til 23. maí 2003, af kr. 8.984.572,- frá þeim degi til 27.6.2003, af kr. 8.164.572,- frá þeim degi til 27.9.2003 og með dráttarvöxtum skv. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt framlögðum máls-kostnaðarreikningi.

2.  Stefndi krefst þess aðallega, að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda en til vara er krafist verulegrar lækkunar á kröfum stefnanda og að hann verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnaðar mati dómsins.

II.  Málavextir.

Einkahlutafélagið Fiskgæði var stofnað 16. ágúst 1997 af Ingvari Ágústssyni og Heiðu Sigurðardóttur og var stofnhlutaféð kr. 500.000,- sem sagt var allt greitt í peningum í tilkynningu til Hlutafélagaskrár.  Í tilkynningu stjórnar dags. 24. apríl 2001 kemur fram, að hlutafé félagsins hafi verið aukið úr 500.00 krónum í 980.392 krónur.  Einnig kemur þá fram í gögnum félagsins og ársreikningi að gengi hluta hafi verið þannig stillt að 5.600.000 krónur hafi greiðst umfram nafnverð hluta og verið færðar á yfirverðsreikning hjá félaginu og í tilkynningunni kemur fram að þessi hækkun hafi verið ákveðin á fundi í félaginu dagana 11.-12. október árið 2000.

Þann 14. desember 2002 var svo haldinn hluthafafundur í félaginu þar sem tekin var ákvörðun um frekari hækkun hlutafjár og var lögð þar fram áskriftaskrá fyrir nýju hlutafé að fjárhæð 60.000.000 krónur og hafði stefndi þar skráð sig m.a. fyrir 11.600.000 krónum.  Hlutirnir skyldu greiddir á nafnvirði, en jafnframt voru gefnir út jöfnunarhlutir til eldri hluthafa vegna innborgaðs yfirverðs á eldri hlutabréf. Í tilkynningu til Hlutafélagaskrár dags. 30. desember 2002, sem móttekin var 25. mars 2003 var svo heildarhlutafé félagsins tilgreint sem 66.580.392 krónur (500.000+480.392+5.600.000+60.000.000).

Með tilkynningunni fylgdi sérstök umsögn löggilts endurskoðanda, þar sem staðfest var að hlutafjáraukningin hefði átt sér stað samkvæmt lögmætri ákvörðun hluthafa fundar og hafi að öllu leyti verið tekin í samræmi við ákvæði hlutafélagalaga um einkahlutafélög samþykktum félagsins hafði svo verið breytt í samræmi við hækkunina.

Samkvæmt því, sem fram kemur hjá stefnda hafði í tengslum við hækkunina verið lögð fram gögn um rekstur og rekstraráætlun Fiskgæða ehf., sem unnin var af Einari Hafliða Einarssyni hjá Deloitte og Thouche og var þar gert ráð fyrir hagnaði næstu árin þ.m.t. 17 milljónum á árinu 2002, 28 milljónum á árinu 2003 og 34 milljónum á árinu 2004.  Stefndi hafði starfað við fiskvinnslu og fisksölu og hafði um nokkurt skeið átt í samskiptum við Fiskgæði ehf. um háefniskaup og hefðu fyrirsvarsmenn Fiskgæða ehf. komið að máli við fyrirsvarsmenn stefnda og farið þess á leit, að þeir kæmu með öflugri hætti að rekstri félagsins með því að leggja fram nýtt hlutabréf í félagið á grundvelli rekstraráætlunarinnar.  Svo sem fram kemur í dómskj. nr. 6 "staðfesting vegna hlutafjáraukningar í Fiskgæðum ehf. árið 2002" hafði stefndi lofað að leggja kr. 11.600.000 í hlutafé í Fiskgæði ehf. og skyldi það greiðast á 12 mánuðum í mesta lagi með því að stefndi við hverja skilagrein til Fiskgæða ehf. skyldu láta renna til Fiskgæða ehf. 12 krónur per kg af afurðunum sem þeir kaupa af því. Það voru í allt 8 aðilar sem stóðu að hlutafjáraukningunni, þar á meðal Byggðastofnun, sem  greiddi hlut sinn kr. 20.000.000 með peningum, tveir aðrir greiddu og hlut sinn með peningum kr. 6.000.000, svokallaður Melvíkurhópur greiddi kr. 2.400.000 að hluta með peningum og að hluta með skuldajöfnuði og með skuldajöfnuði greiddu tveir aðrir aðilar kr. 6.000.000,- og Ingvar Ágústsson, greiddi sinn hlut kr. 12.500.000 með innborgun á skuld félagsins við Sparisjóð Hornafjarðar. Það var svo gerður sérstakur samningur milli stefnmda og Fiskgæða ehf. um greiðslu stefnda vegna hlutabréfakaupa hans í Fiskgæðum ehf. að fjárhæð kr. 11.600.000 október 2002.  Þar kemur fram, svo sem áður er rakið að 12 krónur af hverju kílógrammi af þorski sem stefndi keypti af F.G. ehf. og bar að skoða samhliða samningi milli aðila um fiskkaup frá 29. ágúst 2002 og miðað við það að skuldin verði greidd þegar stefndi hafi keypt 969 tonn af þorski af Fiskgæðum ehf.  Lánið sé hugsað sem jafngreiðslulán og hráefniskaupin dreifist jafnt yfir árið og skal lánið að fullu greitt á 12 mánuðum frá undirritun samnings, en gert var ráð fyrir að mánaðargreiðsla með vöxtum væri kr. 998.371,-.

Vísað er til samnings milli stefnda og F.G. ehf., þar sem F.G. ehf. skuldbindur sig til að selja stefnda hluta af þeim fiski, sem félagið kaupir af bátum á Austurlandi þ.e. allan þorsk undir 5 kílóum, allan karfa, allan steinbít og aðrar tegundir eftir samkomulagi.

Samkvæmt því sem fram kom í bókhaldi Fiskgæða ehf. hafði samningur við stefnda um greiðslu hans á hlutafé vegna hlutafjáraukningar verið greiddar að hluta þannig:

18. október 2002

kr.500.000,-

22. október 2002

"    185.140,-

16. maí 2003

"     799.397,-

23. maí

"  1.130.891,-

27. júní 2003

"      820.000,-

                                           Samtals

kr. 3.435.428,-

 

Fram kom hjá stefnda, að endurskoðanda Fiskgæða ehf. hafi þann 1. júlí 2003 sent stjórn félagsins bréf þar sem staða þess hafi verið greind.  Þar komi m.a. fram, að eigið fé félagsins sé neikvætt um 42 milljónir króna og jafnframt að óinnheimt séu hlutafjárloforð í árslok hafi verið 3,3 milljónir króna sem staðfesti að ekki hafi verið gert ráð fyrir frekari innborgunum að hálfu stefnda.  Þá komi og fram í bréfinu að félagið hafi aflað sér hlutafjár, lánsfjár og skuldbreytinga m.a. á grundvelli upplýsinga sem ekki hafi staðist.

Þá vísaði stefndi til stjórnarfundar í félaginu 18. febrúar 2004, þar sem málefni varðandi innborgun hlutafjár var á dagskrá.  Umræður hafi orðið um misskilning um það hvernig þessum málum hafi verið háttað og hafi og komið fram að allar greiðslur af hálfu stefnda hafi verið stöðvaðar fyrsta hluta árs 2003 vegna brostinna forsenda, meðal annars vegna þess, að rekstraráætlun sem þær viðræður byggðu á milli aðila hafi sýnt hagnað upp á 18 milljónir, en þegar rekstraruppgjör hafi legið fyrir í maí hafi komið í ljós rekstrartap upp á 73 milljónir eða sveifla upp á u.þ.b. 90 milljónir króna sem sé 50% hærri en heildaraukning á hlutafé félagsins, sem ráðgerð hafi verið.

Að ósk stjórnar Fiskgæða ehf. var félagið með úrskurði Héraðsdóms Austurlands úrskurðað gjaldþrota 5. mars 2004.  Lýstar kröfur í búið námu u.þ.b. 250 milljónum króna, þar af voru veðkröfur 84 milljónir króna og forgangskröfur 22 milljónir króna.  Eignir búsins voru fullveðsett fasteign og rekstrartæki sem seld voru á 50 milljónir króna og peningakröfur og veðbréf námu 2-3 milljónir króna.

Þá kom í ljós samkvæmt bókhaldi félagsins að allt hlutafé þess skv. hlutafjáraukningunni hafi ekki verið greitt og var vangreitt hlutafé talið nema 8.164.572 krónur sem er stefnufjárhæðin í máli þessu.

III.  Málsástæður og lagarök.

1.  Stefnadi byggir málsókn sína aðallega á því að stefndi hafi gefið bindandi loforð um greiðslu hlutafjár sem hann hafi ekki staðið við.  Í fyrsta lagi skráði stefndi sig á áskriftaskrá sem útbúin var í tilefni af hlutafjárhækkun og í örðu lagi gerði hann sérstakan samning við hið gjaldþrota félag um það hvernig staðin yrðu skil á greiðslum.  Stefndi hafi ekki leitast við að fá sínu loforði hnekkt en hafi þvert á móti tekið talsverðan þátt í rekstri hins gjaldþrota félags með því að tilnefna þar framkvæmdastjóra sinn í stjórn.  Sjá megi af gögnum úr þrotabúinu að forsvarsmenn stefnda hafi frá árinu 1999 haft fulla vitneskju um fjárhagslega stöðu hins gjaldþrota félags og átt í miklum viðskiptum við félagið.  Þá hafi stefndi greitt innborganir á skuld sína.

Ekki sé annað upplýst en löglega hafi verið staðið að ákvörðun um hækkun hlutafjár og framkvæmd ákvörðunar hafi verið í samræmi við ákvæði V. kafla laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Framkvæmdastjóri stefnda hafi sjálfur staðið að tilkynningu um hlutafjárhækkunina sem stjórnarmaður í hinu gjaldþrota félagi og í samræmi við íslenska dómaframkvæmd geti hugsanlegir ágallar á formi hlutafjárhækkunar ekki leyst menn eða fyrirtæki undan hlutafjárloforðum. Sá hliðarsamningur sem gerður hafi verið um greiðsluhátt hlutafjárloforðanna geti ekki leyst stefnda undan loforði sínu enda samþykkti stefndi sjálfur þann samning.  Samningurinn sé í raun ítrekun á skuldbindingum stefnda við hið gjaldþrota félag.

Stefnandi byggir á því að stefndi hafi sýnt af sér tómlæti við að halda uppi mótmælum gegn gildi loforðs síns og þegar af þeim sökum sé ekki hægt að sinna slikum mótbárum.

Hlutafjárhækkunin hafi verið tilkynnt til Hlutafélagaskrár í samræmi við ákvæði V. kafla laga um einkahlutafélög og hafi framkvæmdastjóri stefnda m.a. staðið að þeirri tilkynningu. Stjórnarmenn í hlutafélagi beri ábyrgð á því að tilkynningar séu réttar.

Um leið og tilkynnt hafi verið um hlutafjárhækkun til Hlutafélagaskrár í samræmi við ákvæði laga geti aðili á borð við stefnda ekki borið fyrir sig hugsanlega ágalla á ákvörðun.  Megi í því sambandi í raun beita lögjöfnum frá ákvæðum 53. gr. laga um einkahlutafélög, að því er varðar tilnefningu stjórnarmanna og framkvæmdastjóra, enda svipaðir hagsmunir í húfi að því er varðar opinbera skráningu sem og stöðu þriðja manns og skuldheimtumanna gangvart félagi.  Öll skilyrði, sem m.a. hefur verið þriðja manns og skuldheimtumanna gagnvart félagi.  Öll skilyrði, sem m.a. hafi verið vísað til í bréfi lögmanns stefndu, falli niður við skráningu hlutafjárhækkunar hjá Hlutafélagaskrá.

Til viðbótar öllu framangreindu byggir stefnandi á því að stefndi hafi í raun viðurkennt kröfu stefnenda án skilyrða með margítrekuðum greiðslum upp í hana, eins og áður hafi verið getið um.

Verði ekki fallist á aðalmálsástæðu stefnanda um skuldbindandi hlutafjárloforð er byggt á því að stefndi beri ábyrgð á stefnukröfunni á grundvelli reglna skaðabótaréttar. Hlutafjárhækkunin hafi verið til þess fallin að vekja traust lánadrottna félagsins á því að hlutafé, sem svaraði til skráðrar hækkunar yrði greitt inn í félagið.

Sem mjög stór hluthafi í félaginu og með fyrirsvarsmann sinn í stjórn félagsins hljóti stefndi að bera skaðabótaábyrgð á því tjóni sem þrotabúið og kröfuhafar félagsins kynnu að verða fyrir ef stefndi yrði talinn vera ábyrgðarlaus af loforði sínu skv. formreglum laga um einkahlutafélög.  Öll mistök við tilkynningar og framkvæmd hlutafjáraukningar séu á ábyrgð stjórnar félags, þ. á m. starfsmanna stefnda.

Stefnadi byggi kröfu sína um greiðslu á vangreiddu hlutafé á ákvæðum V. kafla laga um einkahlutafélög um hækkun hlutafjár svo og almennum reglum kröfuréttarins um skuldbindinguargildi loforða.

Krafa um skaðabótaábyrgð sé reist á sakarreglunni, bæði innan og utan samninga, og reglunni um húsbóndaábyrgð, svo og ákvæðum 1. mgr. 108. gr. laga um einkahlutafélög.

Vaxtakrafa byggi á ákvæðum samnings aðila, dags. 27. september 2002, og svo ákvæðum 1. mgr. 5. sbr. 6. gr. laga um vexti, verðtryggingu o.fl. nr. 38/2001.

Málskostnaðarkrafa byggi á ákvæðum 129.-131. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

2.  Stefndi byggir sýknukröfur sínar í meginatriðum á fjórum málsástæðum.

a.  Ekki hafi verið um skuldbindingu að ræða af hálfu stefnda um innborgun hlutafjár og í því sambandi vísat til fyrirvara og tengingar við aðra löggerninga.

b.  Upplýsingar sem veittar hafi verið væru vísvitandi rangar og villandi sem leiði til ógildingar á þeim gerningum sem gerðir hafa verið.

c.  Hin formlega "hlutafjárhækkun", sé að formi til ómerk.

d.  Stefndi eigi gagnkröfur á hendur stefnanda, sem eigi að koma til skuldajafnaðar við kröfur stefnanda.

a.  Stefnandi byggir á því, að allar forsendur fyrir löggerningum sem hefðu getað skapað rétt fyrir stefnanda séu brostnar, vegna þess að þær upplýsingar og áætlanir sem legið hafi fyrir við gerð þeirra hafi ekki staðist, þannig að misræmi hafi verið milli þeirra og þeirra raunupplýsinga, sem komið hafi út úr endanlegri rekstrarniðurstöðu.  Þannig hafi engar skýringar komið á því hvernig áætlanir um 18 milljóna króna hagnað breyttist í 73 milljón króna tap á einungis fjórum mánuðum.  Engin ytri skilyrði höfðu breyst og engar grundvallarbreytingar hafa orðið á rekstri sem skýri slíkt.  Eftir standi því aðeins vísvitandi röng upplýsingagjöf stjórnendanna og í besta falli stórkostleg vanræksla og er vísað til yfirlýsingar kjörins endurskoðanda félagsins því til sönnunar en í henni komi fram, að félagið hafi aflað nýs hlutafjár og skuldbreytinga meðal annars á grundvelli upplýsinga, sem ekki hafi staðist.  Þá er vísað til orðnotkunar, sem bjóði upp á misskilning fyrir ólöglærða aðila, sem verði að meta stefnanda í óhag.  Þannig sé í dskj. nr. 5 talað um hlutabréfakaup, greiðslu hlutafjár og jafngreiðslulán um sömu lögskipti og beri að túlka slíkan vafa stefnda í hag sbr. t.d. 36. gr.c samningalaga nr. 7/1936 og beri að vísa löggerningnum til hliðar.skv.. 36. gr. laganna.

Þá er því mótmælt sem fram komi í stefnu að stefndi hafi í raun viðurkennt kröfu stefnanda án skilyrða með margítrekuðum greiðslum upp í hana og bent á að þarna sé verið að greiða á grundvelli fiskkaupsamnings aðila og að stefnandi geti ekki öðlast meiri rétt en Fiskgæði ehf.

Stefndi byggir og á því að dskj. nr. 5 áskriftaskrá að nýjum hlutum í Fiskgæðum ehf. sé ekki annað en skilyrt viljayfirlýsing sem ekki feli í sér skuldbindingu samkvæmt ákvæðum laga um einkahlutafélög.  Hér sé ruglað saman reglum um hlutafélög, þar sem gert sé ráð fyrir að hækkun hlutafjár fari fram með ákrift svo reglum um einkahlutafélög, þar sem slíkt gerist á hluthafafundi með skráningu í gerðabók, en þar sem það hafi ekki verið gert, hafi gerningurinn ekki gildi.  Þá séu á dskj. nr. 5 skýrir fyrirvarar fyrir hinni svokallaðri "áskrift", sem séu að Byggðastofnun greiði inn hlutafé að fjárhæð 20.000.000 krónur og svo að alls safnist nýtt hlutafé um 60 milljónir króna á innborgunargenginu.  Ekki sé að finna á dómskj. nr. 5 undirritun f.h. Byggðastofnunar né upplýsingar fyrir innborgun hlutafjárins.  Þá er vísað til fundargerða stjórnarfunda og skýrslu endurskoðanda um vangreitt hlutafé samkvæmt áskriftaskrá, en fyrirvari um greiðslu alls hlutafjár hafi því ekki verið uppfylltur.

Ennfremur er bent á að dskj. nr. 5 sé ódagsett og ljóst sé að við undirritun þess hafiekkert legið fyrir um að eldri hluthafa myndi auka hlut sinn í félaginu með ráðstöfun á varasjóði þess vegna innborgaðs yfirverðs á eldra hlutafé.  Deilt sé um lögmæti þessarar ráðstöfunar.  Þegar litið sé til þess að eiginfjárstaða félagsins hafi verið neikvæð um 30.000.000 króna er því haldið fram af stefnda, að það hafi verið forsenda fyrir undirritun áskriftar að nýju hlutafé í félaginu að innistæða væri fyrir þeirri hlutafjáraukningu sem leitt hafi af þessari ráðstöfun varasjóðsins og er  sé sú aðgerð að bæta hagsmuni fyrirliggjandi hluthafa um 5,6 milljónir króna með útgáfu jöfnunarhluta véfengd.

Þá hafi ekki legið fyrir við undirritun á dskj. nr. 5 og 13 að hlutaféð yrði að verulegu leyti greitt með skuldajöfnuði né að þáverandi hluthafar hygðust tryggja greiðslur eigin krafna á hendur félaginu, en þessar aðgerðir séu andstæðar grundvallarreglum, sem fram komi í 3. mgr. 11. gr. laga nr. 138/1994 if.

Loks er vísað til þess að skuldbinding stefnda skv. dskj. nr. 5 og 13 sé svo órjúfanlega tengd fiskkaupasamningi milli aðila dskj. nr. 21, sem ekki hafi verið efndur nema að litlu leyti af hálfu Fiskgæða ehf. og verði ekki séð hvernig stefnandi sé unnt að krefjast greiðslu í peningum á grundvelli samnings sem sé skilyrtur um hráefnissölu.  Þannig segi svo í dskj. nr. 13....."Greiðslu þessa skal skoða samhliða samning um fiskkaup frá 29. ágúst 2002.  Þannig hefur skuldin verið greidd þegar NF. hefur keypt 969 tonn af þorski frá F.G."  Þar sem viðskipti vegna þessara 969 tonna hafi ekki farið fram nema að litlu leyti, sé forsenda löggerningsins og greiðslna skv. honum því ekki til staðar.  Það hefði verið lykilatriði af hálfu stefnda með samningnum um greiðslu hlutafjár að tryggja sér hráefni og gangi það ekki upp, að stefndi sé krafinn um endurgjaldið án þess að fá hráefnið, en með því væri stefndi að öðlast betri rétt en Fiskgæði ehf., en ljóst sé að gagnvart því hefði stefndi getað haldið eftir umstefndum greiðslum vegna vanefnda um afhendingu hráefnisins.

Vísað er og til þess að í dskj. 5 komi ekki neitt fram um mögulegt gengi á kaupum hluta skv. skjalinu og sé það því marklaust.

b. Rangar og villandi upplýsingar.

Þann 26. ágúst 2002 - þremur dögum áður en samningur við stefnda um fiskkaup var undirritaður - hafi stjórn Fiskgæða ehf. fengið í hendur rekstraráætlun frá endurskoðanda félagsins þar sem gert sé ráð fyrir umtalsverðum hagnaði af rekstri félagsins næstu árin, eða frá 17,1 milljón árið 2002 upp í 34,3 milljónir árið 2004.

Á þeim tíma hafi einungis verið fjórir mánuðir eftir af rekstrarárinu 2002, sem vel að merkja feli í sér lágmarksstarfsemi félagsins, þ.e. lágmarskkostnaðaraukningu.  Ekkert hafi breyst í ytra rekstrarumhverfi félagsins og engin grundvallarbreyting orðið á innra skipulagi þess.  Það verði því að teljast með ólíkindum að þetta nái að breytast í 73 milljóna króna taprekstur ársins 2002 á þeim fjórum rólegu mánuðum sem eftir lifðu rekstrarársins.  Hér sé um að ræða sveiflu upp á tæplega þriðjung brúttóveltu félagsins.

Geti slíkt vart annað en falið í sér sviksamleg vinnubrögð af hálfu viðkomandi aðila, og ljóst að þáverandi stjórnendur félagsins hafi ekki getað annað en verið grandsamir um að svo væri.  Hafi réttum upplýsingum verið haldið leyndum á meðan viðræður við nýja "hluthafa" og viðskiptaaðila var haldið áfram, þar á meðal stefnda - og hin s.k. "hlutafjárhækkun" keyrð áfram í desembermánuði áður en hinn napri sannleikur hafi komið í ljós í lok þess mánaðar.

Meira að segja kjörnum endurskoðanda félagsins virðist ofbjóða, eins og fram komi í bréfi hans til stjórnar félagsins þann 1/7 2003, þar sem segi: "Félagið aflaði nýs hlutafjár, lánsfjár og skuldbreytinga meðal annars á grundvelli upplýsinga sem ekki hafa staðist."  Vart þurfi að færa fram frekari sönnunarfærslu fyrir stöðu mála.

Fulltrúi stefnda sem tekið hafi sæti í stjórn Fiskgæða ehf. á þessum tíma hafi þegar í stað gert ítrekaðar athugasemdir við þetta, og áskildið stefnda allan rétt í því sambandi, sbr. framlagðar fundargerðir. Ljóst megi vera að stefndi hafði þann rétt gagnvart Fiskgæðum ehf., og sé ítrekað að þrotabú félagsins geti ekki öðlast betri rétt. 

Mótmælt sé þeirri málsástæðu í stefnu að stefndi "hafi sýnt af sér tómlæti".  Engin ástæða hafi verið til frekari mótmæla/aðgerða af hálfu stefnda á þeim tíma, enda hafi engin andmæli verið við framlögðum mótmælum stefnda af hálfu annarra stjórnarmanna eða hluthafa.

Þessi ranga upplýsingagjöf fyrir undirritun löggerninga milli aðila eigi sjálfstætt að leiða til ógildingu þeirra á grundvelli t.d. 30.  og 33. gr. laga nr. 7/1936

c.  Formleg framkvæmd "hlutafjárhækkunar".

Jafnvel þótt ekki yrði falist á framangreind sjónarmið um skort á skuldbindingu, fyrirvara og ógildi þeirra löggerninga sem standa að baki kröfugerð stefnanda, þá megi þó engu að síður vera ljóst að aðgerðir þær sem hafa verið nefndar "hlutafjárhækkun" í Fiskgæðum ehf. á árinu 2002 standast engan veginn formreglur laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög.  Í bréfi lögmanns stefnda til skiptastjóra stefnanda dags. 1/9 2004, sem lagt hafi verið fram sem dskj. 17 séu reifaðir ýmsir formgallar á tilv. "hlutafjárhækkun" og er vísað til þeirra sem málsástæðna í máli þessu.  Nefna megi ýmis önnur atriði því til viðbótar.

 

Í samþykktum Fiskgæða ehf., sbr. framlagt dskj. stefnanda nr. 11, komi fram í 12. gr. að félagsstjórn skuli boða til hluthafafunda í ábyrgðarbréfi eða símskeyti eða á annan jafnsannanlegan hátt með minnst sjö daga fyrirvara, og skal geta fundarefnis í fundarboði.  Stefndi hafi aldrei fengið slíkt fundarboð.  Stefndi kannist ekki heldur við að hafa verið viðstaddur á hluthafafund skv. fundargerð á dskj. 7, þar sem þó virðist bókað að mætt sé fyrir "alla nýja hluthafa skv. þeim hluthafalista sem lagður hefur verið fram til staðfestingar eftir hækkun hlutafjárins".  Stefndi sé því ekki í þeim hópi sem Fiskgæði ehf. höfðu talið til "nýrra hluthafa" á þeim tíma.

Ekkert liggi fyrir um framlögð umboð þeirra aðila sem mætt hafi til fundarins f.h. lögaðila, en ófrávíkjanleg regla sé í 2. mgr. 56. gr. laga nr. 138/1994 um að hæfi aðila til þess að skuldbinda lögaðila skuli vera reist á skriflegu umboði.  Sé það sérstaklega mikilvægt í ljósi þess hversu mikilvægar ákvarðanir var verið að taka á umræddum fundi.  

Ekkert komi fram í gögnum málsins um að eldri hluthöfum félagsins hafi verið gefinn kostur á að neyta forgangsréttur síns til áskriftar að nýjum hlutum skv. 5. gr. samþykkta félagsins og ákvæða 24. gr. laga nr. 138/1994.  Út af fyrir sig megi einnig velta upp þeim hugleiðingum hvert gildi hinna s.k. "hlutafjárloforða" hefði talist vera ef einhver eldri hluthafa hefði - eða hyggist - nýta forgangsrétt sinn, einkum með vísan til þeirra fyrirvara um tengingu við fiskkaupasamning sem fram komi í löggerningum stefnda.  Undirstriki það einfaldlega ómöguleika málsins, og ósamræmi við ákvæði einkahlutafélagalaga.

Samkvæmt 27. gr. laga nr. 38/1994 um einkahlutafélög geti áskrift nýrra hluta í einkahlutafélagi á borð við Fiskgæði ehf. einungis átt sér stað með skráningu í gerðarbók.  Stefnandi virðist á hinn bóginn reisa kröfur sínar á hendur stefnda á óljósum og ruglingslega orðuðum yfirlýsingum sem háðar séu fjölmörgum fyrirvörum og skýrri, órjúfanlegri tengingu við hráefnisöflun stefnda.

Talsverður misskilningur virðist í málatilbúnaði stefnanda með hugtökum á borð við "hlutafjárloforð" og "áskriftarskrá" - jafnvel í stefnu.  Fyrra hugtakið sé ekki einu sinni að finna í lögum nr. 138/1994 um einkahlutafélög og hið síðara í raun ekki heldur þótt fjallað sé um áskriftarrétt eldri hluthafa á grundvelli forgangsréttar síns. 

Á hinn bóginn hafi þessum hugtökum verið beitt í hlutafélögum skv. lögum nr. 2/1995.  Hér kristallast því grundvallarmisskilningur í framkvæmd þess ferlis sem stefnandi - og fyrirsvarsmenn hins gjaldþrota félags - kjósa að kalla "hlutafjárhækkun".

Raunar sé það svo að þau gögn sem stefnandi vísi til að þessu leyti séu auk þess meingölluð og ófullkomin.  Þannig sé ósamræmi milli fjölda aðila sem taldir séu upp og þeirra sem undirrita skjal, (dskj. 6), undirskriftir aðila vanti (dskj. 5) og nöfn aðila er að finna sem ekki virðast hafa orðið hluthafar (t.d. "Melavíkurhópurinn"). 

Þá er á dskj. 13 vísað til stefnda sem "greiðanda" en Fiskgæða ehf. sem "útgefanda", og í fylgiskjali sem stefnandi hafi lagt fram með því dómsskjali sé um að ræða "áætlun" um greiðslu og í skilgreiningu andlagsins sé notað hugtakið "upphæð láns".  Hugtakanotkun felur fremur í sér að menn séu að undirrita kröfuréttarlega lánssamninga en ekki löggerninga er teljast skuldbindandi á sviði félagaréttar. Sé það í samræmi við raunveruleg viðskipti aðila um fiskkaup en boð stefnanda um að nefna greiðsluna hlutafé sé einungis ein leið afsláttarviðskipta.

Þá sé dskj. 5 ódagsett og talsverð óvissa um það hvenær aðilar hafi ritað undir skjalið og í hvaða röð þeir hafi skrifað undir það.  Megi í því sambandi geta þess að handskrifað sé við dálk stefnda um "á 12 mán. -820.000 pr. 27.6.03".  Óljóst sé hvað þessi áritun þýðir, þ.e.  hvort verið sé að vísa til lægri áskriftar, innborgun stefnda eða jafnvel eitthvað annað.  Þessu hljóti stefnandi að þurfa að bera hallann af geti hann eigi rökstutt málatilbúnað sinn með meira sannfærandi og skýrum hætti.

Það sé talsvert meginatriði í málatilbúnaði stefnda að þessu leyti að fyrir liggi sú ófrávíkjanlega regla í 28. gr. laga nr. 138/1994 að óheimilt sé að að tilkynna um hækkun hlutafjár fyrr en allt hlutafé hafi verið greitt inn til félagsins.  Geti slík tilkynning því ekki falið í sér annað en það að annaðhvort sé ferli hækkunarinnar ólögmætt, eða á hinn bóginn að hlutafé sé allt raunverulega greitt - þar með talið dómkröfur máls þessa.

Stefndi mótmælir þeirri málsástæðu í stefnu að unnt sé að nota lögjöfnun frá ákvæði 53. gr. laga nr. 138/1994.  Hér sé grundvallarmunur á ferðinni að því leyti að ekki sé verið að fjalla um mótbáru félagsins sjálfs við umræddri tilkynningu heldur þeim aðilum sem hún á að binda.  Þannig gæti t.d. 53. gr. ehfl. vart bundið stjórnarmann til setu í stjórn sem  hann hefur aldrei gefið kost á sér til setu í, og jafnvel ekki vitað af umræddu kjöri.  Vera megi að tilkynningar um hlutafjárhækkun bindi félagið sjálft með einhverjum hætti, en það hefur ekkert með dómkröfur máls þessa á hendur stefnda að gera.

d.  Skuldajöfnunarkröfur.

Fyrir liggi óumdeilt í máli þessu að stefndi átti óuppgerðar kröfur á hendur hinu gjaldþrota félagi, nú stefnanda.  Krefjist stefndi þess að verði með einhverjum hætti tekið tillit til krafna stefnanda þá komi umræddar gagnkröfur til lækkunar.

Stefnandi hafi lagt fram sem dskj. 14 yfirlit yfir greiðslur m.a. frá stefnda.  Sé þar um að ræða greiðslur samtals að fjárhæð kr. 3.435.428,- sem eru vegna fiskkaupasamnings aðila dags. 29. ágúst 2002, og séu þessar greiðslur vegna þess samnings.  Ummælum í stefnu þess efnis að greiðslur þessar séu innborganir á "skuld" stefnda sé mótmælt.

Stefnandi hafi lagt fram sem dskj. 15 tillögu til stjórnar Fiskgæða ehf.  Þetta skjal hafi stefndi að vísu aldrei samþykkt, og hafi því ekkert gildi gagnvart kröfugerð stefnanda.  Hinsvegar felst í því viðurkenning stefnanda á skuld vegna vinnuframlags Gunnars B. Guðmundssonar, og er á því byggt að sú yfirlýsing sé bindandi með vísan til 1. mgr. 50. gr. laga nr. 91/1991.  Hefur stefndi lagt fram sem dskj. 31 afrit reiknings vegna óumdeildrar og ógreiddrar vinnu Gunnars B. Guðmundssonar f.h. stefnda í þágu hins gjaldþrota félags, dags. 1/3 2004, að fjárhæð kr. 709.500,-.

Krafist sé dráttarvaxta af kröfuliðum gagnkröfu frá þeim degi er innborganir áttu sér stað skv. dskj. 14, en frá 1/4 2004 að því er varðar dskj. 31.

Skaðabótakröfur stefnanda.

Stefndi mótmæli varagrundvelli krafna stefnanda er felst í skaðabótasjónarmiðum.  Sé þar í fyrsta lagi um skýran aðildarskort að ræða, en að auki séu engin skilyrði íslensks réttar um skaðabótaskyldu innan eða utan samninga fyrir hendi.

IV.  Skýrslutaka.

Fyrirsvarsmaður og framkvæmdastjóri stefnda, Birgir Kristinsson, kt. 310555-3989, Oddnýjarbraut 1, Sandgerði gaf skýrslu hér fyrir dómi og kom fram hjá honum að aðdragandi að samningum stefnda við Fiskgæði ehf., hafi verið þau, að stefndi hafi verið búinn að vera í viðskiptum við Fiskgæði ehf. (F.G. ehf.) í 2 ár, en á þessum tímapunkti hafi verið erfitt að afla hráefnis fyrir stefnda.  Það hafði orðið minnkun á hráefni á fiskmörkuðum, en stefndi hafði keypt 5-6 þúsund tonn af fiski á ári.  Hann kvað samninga stefnda og F.G. ehf., hafa verið gerða á árinu 2002 til að tryggja hráefni fyrir stefnda.  Forsendur fyrir þátttöku í hlutafjáraukningu F.G. ehf. hafi verið löggerningurinn um fiskkaupin sem gerður var áður, en samhliða honum hafi verið samið um hlutabréfakaup sem miðuðust við að ákveðið magn af fiski gengi til kaupanna á einu ári.  Það hafi þó ekki staðist og stefnda fengið bara inn helminginn af þeim fiski, sem um var samið, þrátt fyrir beiðni um fiskkaup og þegar liðið hafi verið á samningstímann hafi F.G. ehf. verið farið að taka hluta af fiskinum sem það hafði lofað stefnda og var farið að verka hann í sínu húsi og senda út í flugi í samkeppni við stefnda.  Hann kvað hluta af þeirri pöntun sem F.G. ehf. hafði ekki sinnt myndi hafa gengið til greiðslu hlutafjárins samkv. samningnum.

Hann kvað það að leggja hlutafé í F.G. ehf. hafa verið lið í hráefnisöflun stefnda, en jafnframt hafi stefndi viljað styrkja félagið og gera það betra, en með þessu móti myndu þeir ná í ein 1000 tonn af fiski.

Það kvað það hafa verið forsenda af hálfu stefndu að þeir fengju framlegð af þeim fiski sem þeir áttu að fá.

Honum var sýnt dskj. nr. 38 og kvaðst hann ekki hafa verið á þargreindum fundi 14. desember né öðrum fundum hjá F.G. ehf.  Hann kannaðist við að hafa kvittað fyrir móttöku á bréfinu og áritun sinni á það, en kvað ekki allar undirskriftir hafa verið komnar er hann skrifaði undir.  Honum var sýnt dskj. nr. 9, tilkynning um hlutafjáraukningu hjá F.G. ehf. og nýja stjórn þess til Hlutafélagaskrár og kannaðist við að hafa skrifað skammstöfun á nafni sínu undir B.K. en annars skrifi hann alltaf með fullu nafni undir samninga.

Honum var sýnt dskj. nr. 11 um samþykktir fyrir Fiskgæði ehf. og kannaðist við undirskrift sína undir hana, en þða hafi ekki allir verið búnir að skrifa undir, heldur bara komin þau nöfn sem voru fyrir ofan hans.

V.  Niðurstaða.

Fram er komið í málinu að stefndi hafði verið í viðskiptum við Fiskgæði ehf. í um 2 ár í ágústlok 2002, er þeir gerðu með sér fiskkaupasamning, þar sem Fiskgæði ehf. skuldbindur sig til að selja stefnda 969 tonn af þeim fiski, sem þeir keyptu af bátum á Austurlandi til vinnslu sinnar, allan þorsk undir 5 kg, allan karfa, allan steinbít og svo aðrar tegundir eftir samkomulagi.  Á þessum tímapunkti var orðið erfitt að afla hráefnis fyrir stefnda og svo sem að framan er rakið taldi fyrirsvarsmaður stefnda að mikil hráefnisminnkun hafi orðið á fiskmörkuðum og hafi samningur verið gerður til að tryggja stefnda hráefni og hafi forsendan fyrir hlutabréfakaupunum í Fiskgæðum ehf. af hálfu stefnda verið að ákveðið magn af fiski gengi til stefnda á einu ári, sem ekki hafi staðist, en það að leggja hlutafé í F.G. ehf. hafi verið liður í hráefnisöflun stefnda, en jafnframt hafi stefndi viljað styrkja félagið og gera það betra en með þessu móti myndi stefndi ná í ein 1000 tonn af fiski.  Í ljósi þessa verður að meta þátttöku stefnda í hlutafjáraukningu Fiskgæða ehf.  Það liggur fyrir að á þessum tíma var fjárhagsstaða Fiskgæða ehf. slæm og rekstri þess yrði ekki haldið áfram án sérstakra ráðstafana og endurskipulagningar.  Því hafði verið gerð rekstraráætlun og rekstrarspá, sem unnin var af endurskoðanda félagsins og lögð hefur verið fram í málinu.  Ekki hefur verið sýnt fram á að rekstrarspá þessi hafi verið óraunhæf á þeim tíma sem hún var gerð og eftir þeim gögnum sem stuðust var við.  Liður í endurskipulagningu félagsins var að fá inn í félagið aukið fé í formi nýs hlutafjár og jafnframt lækkun á skuldum félagsins.

Á grundvelli þessarar rekstrarspár og hagsmuna stefnda af að halda áfram viðskiptum við Fiskgæði ehf. samkvæmt framangreindum fiskkaupasamningi milli aðila, ákvað stefndi að taka þátt í hlutafjáraukningunni og skrifaði hann sig fyrir 11.600.000 króna hlut sbr. dskj. nr. 6 með ákveðnum skilyrðum um hvernig greiðslu þess skyldi háttað sbr. dskj. nr. 13, en þar kemur fram að skulda stefnda vegna      hlutabréfakaupanna verði greidd,  þegar stefnda hafi keypt 969 tonn af þorski og að lánið skuli að fullu greitt 12 mánuðum frá undirritun samningsins, 27. september 2002.  Ekki hafa verið lögð fram í málinu bókhaldsgögn um kaup stefnda á hráefni á tímabilinu frá 27. september 2002 til 26. september 2003 eða þar til félagið var úrskurðað gjaldþrota 5. mars 2004, en þó að fyrirsvarsmaður stefnda haldi því fram, að Fiskgæði ehf. hafi ekki efnt samninginn nema að óverulegu leyti, eru engin gögn úr bókhaldi aðila þar um.  Á stjórnarfundi Fiskgæða ehf. 17. mars 2003 kemur fram að stefndi hafði þá ekki staðið við samning sinn um greiðslu þess og er þar haft eftir stefnda að hann haldi að sér höndum um greiðsluna, þar til stjórnarfundur hafi verið haldinn, þar sem línur yrðu gerðar skýrari hvað rekstur og horfur félagsins varðaði.  Þá er tekið fram að allir stjórnarmenn geri sér grein fyrir túlkun samningsins og hvernig hlutaféð skuli greiðast.  Engin kvörtun kom fram um að Gæðafiskur ehf. hafi vanefnt samninginn, með því að útvega ekki hráefni eins og um var samið.  Samkvæmt því sem rakið verður í bókhaldi Gæðafisks ehf. hafði stefndi á tímabilinu frá 18. október 2002 greitt hlutafjárloforðið með þessum hætti.

18.10.2002

kr.  500.000,-

22.10.2002

kr.  185.140,-

16.05.2003

kr.   799.397,-

23.05.2003

kr. 1.130.891,-

27.06.2003

kr.    820.000,-

                                                Samtals

kr.3.435.428,-

 

Samkvæmt áætlun sem fylgdi samningnum um greiðslu hlutafjár skyldi stefndi greiða með vöxtum kr. 998.371 á mánuði.  Hann hefði því átt að hafa greitt kr. 5.990.226,- er stjórnarfundur var haldinn 17. mars og hefur ekki verið sýnt fram á að samband sé á milli hráefniskaupa stefnda og greiðslu hans á hlutafé sbr. framangreindur samningur.  Á stjórnarfundi Fiskgæða ehf. 9. apríl 2003 kemur fram að rekstur ársins líti ekki vel út, en ef reksturinn verði í svipuðu horfi og fyrstu þrjá mánuði ársins 2003, þá sé fyrirtækið í góðum málum og í framhaldi af þessu fóru að berast frá stefnda aftur greiðslur inn á skuldina vegna hlutafjárkaupa.

Á stjórnarfundi 5. júní 2003 er ársreikningur fyrir árið 2002 yfirfarinn og er þar af hálfu stefnda komið á framfæri andmælum við rekstraráætlunina frá því í ágúst 2002.  Á þessum fundi er stefnt að milliuppgjöri fyrir fyrstu fimm mánuði ársins 2003 og að gera rekstraráætlun út árið og er gert ráð fyrir að breyta framleiðslunni út frá arðsemissjónarmiðum.  Af hálfu stefnda er tekið þátt í þessum stjórnarfundum og hann stendur að þeim ályktunum sem þar eru samþykktar.  Dagskrá aðalfundar félagsins sem haldinn var 9. júlí 2003 var kynnt á stjórnarfundi 8. júlí  s.á., og þar farið yfir birgða og fjárhagsstöðu fyrirtækisins, vísað í útistandandi kröfur og tekið fram að ógreitt hlutafé nemi kr. 3.300.000,- og þar ekkert talað um skuld stefnda vegna hlutafjárkaupa, en stjórnin ætlaði að leggja til að aflað yrði nýs hlutafjár og láni yrði breytt.  Í stjórnarfundi 3. nóvember 2003, kemur fram góð birgðastaða, en lélegt verð og taprekstur, sem félagið þoli ekki áfram og vísað til þess, að nauðsynlegt sé að stefndi greiði hlutafjárloforð sitt m/v 1000 tonn.  Þá eru vangaveltur um það, að Fiskgæði ehf.r hafi ekki nema kostnaðinn af því að senda stefnda fisk og einnig eru hugmyndir að vinna úr fiski afurðir og markaðssetja, sem hefðu samkvæmt kaupsamningi að einhverju leyti átt að ganga til stefnda.  Það er því ekki fyrr en síðla árs 2003, að Fiskgæði ehf.gæti hafa farið að vinna fisk sjálfur, sem stefndi kynni að hafa átt framleiðslurétt á og þá eftir að fyrir lá að stefndi efndi ekki nema að takmörkuðu leyti skyldu sína um að greiða inn í félagið skv. hlutafjárloforði.

Sú fullyrðing fyrirsvarsmanns stefnda um að Fiskgæði ehf. hafi ekki getað eða viljað efna fiskkaupasamninginn vegna þess, að félagið væri farið að verka og selja fiskinn sem stefndi ætti að fá, á því nánast við fyrsta árið og eru öll skilyrði til þess m/v að mikil hráefnisaukning varð hjá Fiskgæðum ehf. fyrri hluta árs 2003 að stefndu fengju 969 tonn af fiski og greiddu hlutaféð með þeim hætti sem um var samið.  Það þykir því alveg ljóst, að ástæður þess, að stefndi stóð ekki við að efna loforð sitt um greiðslu hlutafjár eru þau að hann taldi rekstraráætlunina ekki hafa staðist, og hefði ekki getað staðist m/v stöðu Fiskgæða ehf. þegar hún var gerð og hann hafi með svikum verið fenginn til að taka þátt í hlutafjáraukningunni.  Fallast verður á það með stefnanda, að stefnda hafi hlotið að vera ljóst, að staða Fiskgæða ehf. hafi verið slæm er hlutafjáraukningin fór fram og að legið hafi fyrir rekstrarstöðvun ef ekki kæmi til endurskipulagningar og hlutafjáraukningar.

Fram kemur í rekstraráætluninni að stuðst er við ársreikninginn fyrir árið 2001 og byggt á hlutafjáraukningu og að veltan yrði aukin, en með því að auka hráefnsikaupin þ.e. með því að kaupa fisk á fiskmörkuðum til vinnslu og auka þannig  afköstin m/v sama starfsfólk.  Ekki verður séð að þessi áætlun hafi verið óvarleg og hafi ekki átt að geta gengið eftir og hefði stefndi sem er á sama sviði að vera fullfær um að meta þessar aðstæður.

Það þykja því ekki sannanir fyrir forsendubresti og af hálfu stefnda né að honum hafi verið veittar vísvitandi rangar og villandi upplýsingar um stöðu Fiskgæða ehf. er skrifað var undir hlutafjáraukninguna af hans hálfu.  Þá þykir ekki hafa reynt að fullu á fiskkaupasamninginn og greiðslutilhögun hlutafjár, er stefndi íhugaði að falla frá þátttöku sinni í hlutafjáraukninguna og er ljóst að það er nokkru áður en hlutafjáraukningin var tilkynnt til Hlutafélagaskrár.

Fallast verður á það með stefnanda, að ef stefndi vildi gera gilda gagnvart lánadrottnum Fiskgæða ehf. skilmála um að greiðslur hlutafjárins væri háð efndum um það að hann fengi 969 tonn af þorski bar að láta það koma fram í tilkynningunni svo að lánadrottnar og verðandi lánadrottnar gætu gert sér grein fyrir að allt hlutaféð vegna hlutafjáraukningarinnar væri ekki greitt sbr. 11. gr. laga nr. 138/1994, þar sem fram kemur að allt hlutafé skuli greitt fyrir skráningu sbr. 26. gr og 28. gr. sömu laga.

Í þessu sambandi ber og að vísa til 124. gr. 6. mgr. laga nr. 138/1994, þar kemur fram ef einhver þ.á m. stefndi teldi á sig hallað við skráningu til Hlutafélagaskrár geti hann borið málið undir dómstóla innan sex mánaða frá birtingu tilkynningar í Lögbirtingablaði.  Stefndi höfðaði ekki slíkt mál, þó að hann teldi á sér brotið og má segja að hann hafi fyrirgert rétti sínum til málshöfðunar vegna rangrar skráningar t.d. um fyrirvara vegna greiðslu hlutafjár.

Ljóst er að hluthafafundur Fiskgæða ehf. 14. desember 2002 hefur samþykkt að stefndi fengi að greiða hlutafé sitt í sambandi við hlutafjáraukninguna á einu ári og afborganirnar tengdust greiðslum skv. fiskkaupasamningi sbr. 26. gr.  Hins vegar verður greiðsla með öðru en reiðufé skv. 5. gr. að hafa fjárhagslegt gildi svo sem skuldbinding stefnda um að greiða hlutaféð á 12 mánuðum skv. fyrirframgerðri áætlun hefur, enda var Fiskgæðum ehf. veitt yfirdráttarheimild í Sparisjóði Hafnarfjarðar sem samsvari fjárhæð greiðsluloforðsins.  Greiðslutilhögunin um að tengja greiðslurnar við fiskkaupasamninga hefur ekkert fjárhagslegt gildi nema síður sé og einungis gerð til hagræðis fyrir stefnda.  Tenging greiðslu hlutafjár við efndir fiskkaupasamningsins hefur ekki gildi sbr. 2. mgr. 11. gr. laganna.

Í tilkynningu til Hlutafélagaskrát dags. 30. desember 2002, sem send var 24. mars 2003 kemur fram hækkun hlutafjár Fiskgæða ehf. um kr. 60.000.000,- hafi verið greidd til félagsins og er tilkynningin undirrituð af stjórn Fiskgæða ehf., þ.á m. af fyrirsvarsmanni stefnda, en í þessu felst hið nýja hlutafé hafi verið greitt með reiðufé, skuldajöfnuði og lánsloforði sbr. 26. gr. laga nr. 138/1994.  Þegar þetta er virt og að stefndi stendur ásamt öðrum stjórnarmönnum Fiskgæða ehf. að samþykktum fyrir félagið eftir hlutafjárhækkunina, þykir sannað að hann gekkst undir að greiða kr. 11.600.000 í hlutafé til félagsins á einu ári án gildra skilyrða.

Þó að stefndi finni að því að ekki hafi verið formlega staðið rétt að hlutafjárhækkuninni, verður að miðað við að formlega hafi verið á réttan hátt boðað til aðalfundar 14. desember 2002, og fram er komið að af hálfu nýrra hluthafa var mætt á fund og hlutafjárhækkunin samþykkt eða staðfest á fullnægjandi hátt..  Þá stendur stefndi að breyttri samþykkt félagsins eftir hlutafjárhækkun, er kosinn í stjórn félagsins og tekur þátt í stjórnarstörfum þar.  Fyrir liggur í gögnum málsins að eldri hluthafar hafna forkaupsrétti að nýjum hlutum og er ósannað að þeim hafi ekki verið boðinn forkaupsréttur.  "Þó að fallast megi á, að ekki kunni í öllum tilvikum að hafa verið staðið rétt að fundarboðum, er ljóst að stefndi stendur að hlutafjárloforði og skrifar undir allar skuldbindingar varðandi það og verður loforðið ekki fellt úr gildi vegna formgalla.

Ekki þykja skilyrði fyrir að skuldajafna kröfu vegna vinnuframlags Gunnars B. Guðmundssonar við skuld stefnda vegna hlutafjárloforðs, en uppgjör á þessari skuld v/Gunnars var bundin við tillögu stjórnar Fiskgæða ehf. um frágang á hlutafjárloforði stefnda.  Úr því að þessi tillaga var ekki samþykkt, verður þessi krafa að flokkast með öðrum kröfum í þrotabúi Fiskgæða ehf.

Samkvæmt þessu er ljóst, að stefndi er í skuld vegna hlutafjárloforðs síns og þykir rétt að miða við svo sem fram kemur við athugun á bókhaldi félagsins að stefndi hafi greitt kr. 3.435.428,- inn á skuldina og vangreidd skuld skv. hlutafjárloforði hans nemi því stefnufjárhæðinni sem honum ber að greiða stefnda.  Þá er vaxtakrafa stefnanda tekin til greina, sem er í samræmi við skuldbindingu stefnda samkvæmt samningi um greiðslu hlutafjár sbr. dskj. nr. 13.

Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefndu til að greiða stefnanda kr. 637.500,- í málkostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.

Dóm þennan kveður upp Guðmundur L. Jóhannesson, héraðsdómari.

DÓMSORÐ

Stefndi, Ný-Fiskur ehf. greiði stefnanda, þrotabúi Fiskgæða ehf. kr. 8.164.572,- með 6% ársvöxtum af kr. 11.600.000 frá 23. september 2002 til 18. október 2002, af kr. 11.100.000 frá þeim degi til 22. október 2002, af kr. 10.914.860,- frá þeim degi til 16. maí 2003, af kr. 10.115.463,- frá þeim degi til 23. maí 2002, af kr. 8.984.572,- frá þeim degi til 27. júní 2003, af kr. 8.164.572,- frá þeim degi til 27. október 2003, en með dráttarvöxtum skv. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda kr. 637.500,- í málskostnað og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.