Hæstiréttur íslands

Mál nr. 646/2009


Lykilorð

  • Líkamstjón
  • Skaðabætur
  • Álag á miskabætur
  • Eigin sök
  • Dráttarvextir


                                                        

Fimmtudaginn 10. júní 2010.

Nr. 646/2009.

Vátryggingafélag Íslands hf.

(Hákon Árnason hrl.)

gegn

A

(Ólafur Örn Svansson hrl.)

og gagnsök

Líkamstjón. Skaðabætur. Álag á miskabætur. Eigin sök. Dráttarvextir.

A varð fyrir slysi þegar hann stakk sér til sunds frá grynnri enda sundlaugarinnar í Laugardal, með þeim afleiðingum að hann rak höfuðið í botn laugarinnar og hlaut alvarlegan skaða af. Samkvæmt matsgerð lækna var varanlegur miski A talinn 90 stig en varanleg örorka hans 100%. A krafði R, eiganda  laugarinnar um skaðabætur vegna slyssins en V hf., tryggingafélag sem veitt hafði R ábyrgðartryggingu, hafnaði bótaskyldu. Taldi félagið að slysið yrði ekki rakið til saknæmrar háttsemi starfsmanna R, heldur til óaðgæslu A sjálfs. A höfðaði í kjölfarið mál gegn V hf. en hvorki var deilt um með hvaða hætti slysið bar að, né um afleiðingar þess. Ágreininglaust var, að ef skaðabótaskylda væri fyrir hendi, skyldi hækka  miskabætur A um 30% með stoð í 3. mgr. 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að  merkingar um dýpi og um að dýfingar væru bannaðar hefðu  ekki verið greinilegar og því væri ekki fullnægt fyrirmælum 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 457/1998 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum. Fram kemur að sérstaklega væri brýnt að merkingar væru skýrar og ótvíræðar þar sem mikill fjöldi fólks af ólíku þjóðerni sækti sundlaugina. Fallist var á skaðabótaskyldu R á tjóni A. Þá var fallist á að A hefði sýnt af sér óvarkárni í aðdraganda slyssins og þannig orðið meðvaldur að tjóni sínu, samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar og ætti að bera hluta þess sjálfur. A hélt fram þeirri málsástæðu að líta bæri framhjá meðábyrgð hans þar sem skilyrði 2. mgr. 24. gr. skaðabótalaga væru fyrir hendi. Talið var að óvarkárni A hefði verið óveruleg. Líkamstjón hans væri mjög alvarlegt og afleiðingar þess honum sérlega þungbærar. Þá var litið til þess að R væri sveitarfélag, sem ekki hefði farið að skráðum reglum um merkingar við laugina. V hf. hefði, gegn gjaldi, tekið að sér að veita R vátryggingu vegna tjóns eins og hér um ræðir. Með vísan til framangreinds og atvika að öðru leyti var fallist á kröfu hans um að líta bæri fram hjá því að hann hefði verið meðábyrgur á tjóni sínu. Voru A því dæmdar fullar bætur vegna slysins.  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómarnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. nóvember 2009. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara að kröfur gagnáfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður. 

Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 16. desember 2009. Hann krefst þess aðallega að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 93.386.835 krónur, til vara 92.477.938 krónur, en að því frágengnu 66.119.920 krónur, í öllum tilvikum með 4,5 % ársvöxtum af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 13. apríl 2007 til 17. febrúar 2009 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti úr hendi aðaláfrýjanda, án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Dómendur ásamt lögmönnum málsaðila gengu á vettvang 3. júní 2010.

Fallist er á með héraðsdómi að merkingar um dýpi og plötur með myndmerki um að dýfingar væru bannaðar frá bakka vesturenda þess hluta Laugardalslaugar, sem sérstaklega er afmarkaður með brautum fyrir sund, hafi ekki verið greinilegar. Fullnægðu þær því ekki fyrirmælum 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 457/1998 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum. Var sérstaklega brýnt að merkingar væru skýrar og ótvíræðar þar sem mikill fjöldi fólks af ólíku þjóðerni sækir laugina. Leiðir þetta til þess að Reykjavíkurborg ber skaðabótaábyrgð á slysi gagnáfrýjanda er varð 13. apríl 2007, en aðaláfrýjandi hefur veitt ábyrgðartryggingu vegna slíkrar skaðabótaábyrgðar. Byggist aðild hans á 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga.

Ekki er um það deilt að gagnáfrýjandi kom hlaupandi frá setlaug sunnan við útgöngudyr frá búningsklefum og stakk sér óhikað til sunds af vesturbakka laugarinnar. Þótt ekki sé upplýst nákvæmlega hvaðan hann stakk sér, er ljóst að það hefur verið í námunda við merki á laugarbakka ,,D-0,9m.“. Er fallist á þær forsendur héraðsdóms að gagnáfrýjandi hafi sýnt af sér óvarkárni í aðdraganda slyssins. Hann hafi því orðið meðvaldur að tjóni sínu og eigi samkvæmt því eftir almennum reglum skaðabótaréttar að bera hluta tjóns síns sjálfur.

Gagnáfrýjandi hefur krafist þess að litið verði fram hjá meðábyrgð sinni og vísar um það til heimildar í 2. mgr. 24. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Rökstyður hann þessa kröfu einkum með því að afleiðingar slyssins séu alvarlegar fyrir hann, hvers eðlis líkamstjón hans sé og hve það hafi þungbærar afleiðingar. Þá bendir hann á að hagsmunir þeir, sem krafa hans beinist gegn, séu vátryggðir. Leiði þetta til þess að sanngirnisástæður, sem framangreind regla miðar við, séu fyrir hendi. Beri honum því óskertar bætur.

Eins og rakið er í héraðsdómi er líkamstjón gagnáfrýjanda mjög alvarlegt. Ekki er um það deilt að afleiðingar slyssins felast meðal annars í algerri starfsorkuskerðingu hans og að varanlegur miski sé 90 stig. Eru málsaðilar sammála um að bæta þann miska að auki með hækkun miskabóta um 30%, sbr. 3. mgr. 4. gr. skaðabótalaga. Í matsgerð tveggja lækna, sem málsaðilar öfluðu sameiginlega, kemur fram að afleiðingar mænuskaða gagnáfrýjanda séu ,,mjög alvarlegar, það er lömun á þvagblöðru og þarf að tappa þvagi af blöðru reglulega með þvaglegg. Hægðalosun fer fram með aðstoð lyfja og gerist ekki á annan hátt. Engin hreyfigeta er í ganglimum og verulega skert hreyfigeta í efri útlimum. [Gagnáfrýjandi] er ekki sjálfbjarga að koma sér í og úr hjólastól. Að öllum líkindum verður hann upp á aðra kominn um alla ævi hvað þetta varðar vegna skertrar starfsemi í handleggjum og höndum.“ Gagnáfrýjandi hefur notið hjálpar bróður síns og vinar þeirra, en óvíst er hve lengi það getur orðið. Aðstæður hans eru mjög óvenjulegar þar sem hann á ekki aðra að hér á landi.

Óvarkárni sú, er gagnáfrýjandi sýndi í aðdraganda slyssins og leiðir til þess eftir almennum reglum skaðabótaréttar að hann er meðábyrgur að tjóni sínu, telst óveruleg.

Saknæmi Reykjavíkurborgar, eiganda laugarinnar, felst í því að ekki var farið eftir fyrirmælum í reglugerð um greinilegar merkingar, sem þó átti að vera auðvelt án mikils kostnaðar.

Reykjavíkurborg er sveitarfélag, sem hefur vátryggt þá hagsmuni sem hér eru í húfi og hefur aðaláfrýjandi, gegn gjaldi, tekið að sér að bæta tjón eins og það sem hér um ræðir.

Með hliðsjón af framangreindum atriðum og atvikum að öðru leyti er fallist á, með vísan til 2. mgr. 24. gr. skaðabótalaga, að líta beri fram hjá því að gagnáfrýjandi var meðábyrgur að tjóni sínu og verða honum dæmdar fullar bætur vegna slyssins.

Fallist er á með héraðsdómi að skilyrði séu til að ákveða árslaun gagnáfrýjanda sérstaklega, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, og að sú árslaunaviðmiðun sem lögð er til grundvallar í dóminum sé líklegur mælikvarði á framtíðartekjur hans. Verður sú niðurstaða staðfest.

Matsgerð um afleiðingar slyssins lá fyrir 15. desember 2008. Málið var þingfest í héraði 17. febrúar 2009. Verður fallist á kröfu gagnáfrýjanda að dæmdar skaðabætur beri dráttarvexti frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.

Samkvæmt framansögðu verður aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda 49.872.845 krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði. Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verður staðfest.

Aðaláfrýjandi verður dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði segir.

Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði gagnáfrýjanda, A, 49.872.845 krónur með 4.5% ársvöxtum af 10.838.847 krónum frá 13. apríl 2007 til 9. september 2008, en af 49.872.845 krónum frá þeim degi til 17. febrúar 2009 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð.

Aðaláfrýjandi greiði í ríkissjóð málskostnað fyrir Hæstarétti 1.125.000 krónur.

Allur gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 1.100.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. október2009.

Mál þetta , sem upphaflega var dómtekið 1. október sl., en endurupptekið 16. október sl. og þá dómtekið á ný, er höfðað með stefnu, áritaðri um birtingu 10. febrúar sl.

Stefnandi er A, [...], Reykjavík, en stefndi er Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3, einnig í Reykjavík.

Endanlegar kröfur stefnanda eru þessar:

Aðallega er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 93.386.835 krónur, með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, af 10.838.847 krónum frá 13. apríl 2007 til 9. september 2008, en af 93.386.835 krónum frá þeim degi til þingfestingardags, 17. febrúar 2009, og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Til vara að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 92.477.938 krónur, með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, af 10.838.847 krónum frá 13. apríl 2007 til 9. september 2008, en af 92.477.938 krónum frá þeim degi til þingfestingardags, 17. febrúar 2009, og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Til þrautavara krefst stefnandi þess að stefndi greiði honum 66.119.920 krónur, með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, af 10.838.847 krónum frá 13. apríl 2007 til 9. september 2008, en af 66.119.920 krónum frá þeim degi til þingfestingardags, 17. febrúar 2009, og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi að mati dómsins, en til vara lækkunar á dómkröfum og að málskostnaður verði þá felldur niður.

Málsatvik og ágreiningsefni                                        

Að kvöldi 13. apríl 2007 stakk stefnandi sér til sunds frá grynnri enda sundlaugarinnar í Laugardal, en rak þá höfuðið í botn laugarinnar með þeim afleiðingum að hann missti meðvitund og hlaut alvarlegan skaða af. Lögreglunni var tilkynnt um slysið kl. 20:39 og hljóðaði tilkynningin um að maður hefði slasast á höfði og væri meðvitundarlaus við sundlaugina. Þegar lögregla kom á vettvang var stefnandi ofan í lauginni og var honum haldið á floti af laugargestum og starfsmanni. Um sama leyti komu sjúkraflutningamenn á vettvang og fluttu þeir stefnanda á slysadeild. Í skýrslu lögreglunnar kemur fram að tveir laugargesta voru vitni að slysinu, báðir Pólverjar, og var annar þeirra bróðir stefnanda. Tekið er fram að hinn slasaði sé einnig Pólverji.

Í vottorði Ingvars H. Ólafssonar, heila- og taugaskurðlæknis á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi, sem dagsett er 8. maí 2008, kemur fram að stefnandi hafi við slysið rekið hvirfilinn í botn Laugardalslaugarinnar og flotið upp lamaður. Var hann talinn hafa þverlömunareinkenni vegna mænuáverka fyrir neðan sjöttu hálstaug. Tölvusneiðmynd af hálshrygg sýndi að liðbolur í fimmta hálshryggjarlið hafði klofnað í miðju og hafði afturpartur liðsins klofnað frá og gengið aftur í mænuganginn og skaðað mænuna. Liðboginn þar fyrir aftan hafði einnig brotnað af beggja vegna. Var stefnandi svæfður og settur í öndunarvél, en að því búnu gekkst hann undir aðgerð þar sem gert var við brotið með plötu og skrúfum, ásamt því að bein frá mjöðm var sett til að fá brotið til að gróa vel í hálshryggnum. Tekið er fram í vottorðinu að stefnandi hafi legið á heilaskurðdeild til 22. júní 2007. Á þeim tíma hafi engin batamerki lömunar sést, en á sama tíma hafi stefnandi búið við lungnavandamál, vandamál í kringum öndunarveginn, næringarvandamál og þjálfunarvandamál, auk alvarlegs þunglyndis og vansældar. Ljóst sé að hann muni aldrei hafa sömu færni og áður.

Við útskrift af heilaskurðdeild var stefnandi lagður inn á endurhæfingardeild LSH (Grensásdeild), þar sem hann dvaldi til 9. september 2008. Í læknabréfi þaðan segir að endurhæfingarferli stefnanda hafi verið mun lengra en áætlað hafi verið vegna ýmissa fylgikvilla sem rekja megi til hálsmænuskaðans, en einnig vegna andlegs ástands og félagslegra aðstæðna hans. Tekið er fram að stefnandi þurfi aðstoð við allar athafnir daglegs lífs.

Samkomulag varð með aðilum um að fá læknana Ragnar Jónsson og Atla Þór Ólason til þess að leggja mat á afleiðingar slyssins fyrir stefnanda með tilliti til skaðabótalaga nr. 50/1993. Samkvæmt matsgerð læknanna frá 15. desember 2008 er stefnandi með fjórlömun, þ.e. algjöra lömun í ganglimum, blöðru og endaþarmslömun, og að hluta í handleggjum. Lömunin er neðan við sjöttu hálstaugarót í mænu og telja matsmenn engar líkur á bata frá núverandi ástandi. Að öllum líkindum muni stefnandi alla ævi verða upp á aðra kominn. Þá segja matsmenn að stefnandi hafi undirgengist margar aðgerðir vegna sýkingar og húðskemmda í vinstri handlegg, og að yfirgnæfandi líkur séu á því að hann þurfi í framtíðinni að undirgangast enn fleiri aðgerðir vegna ýmiss konar fylgikvilla sem fylgi lömun, s.s. sáramyndana og sýkinga. Niðurstöður matsmanna eru þær að stöðugleikapunktur telst vera 9. september 2008 og tímabundin örorka frá slysdegi til sama dags. Þjáningatími er metinn á sama tíma, þ.e. frá slysdegi til 9. september 2008. Loks telja matsmenn að varanlegur miski stefnanda sé 90 stig, en varanleg örorka hans 100%.

Rekstraraðili Laugardalslaugar, Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkurborgar, fyrir hönd Reykjavíkurborgar, hafði á slysdegi frjálsa ábyrgðartryggingu hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf. Með vísan til niðurstaðna í matsgerð matsmanna var stefnda sent kröfubréf 14. janúar 2009, en stefndi hafnaði kröfunni 28. sama mánaðar. Stefndi hafði áður, nánar tiltekið í mars 2008, hafnað bótaábyrgð með almennum hætti. Stefnandi höfðaði því mál þetta 10. febrúar 2009.

Við aðalmeðferð gaf stefnandi skýrslu fyrir dóminum, ásamt Loga Sigurfinnssyni, forstöðumanni Laugardalslaugar.

Í máli stefnanda kom fram að hann hefði í umrætt sinn farið í sund, ásamt tveimur félögum sínum. Í fyrstu hefðu þeir félagar farið í litla og kringlótta vaðlaug, nærri útgöngudyrum, en ákváðu síðan að fara í laugina sjálfa. Þar sem kalt var í veðri hefði hann hlaupið að lauginni og stungið sér til sunds af vesturbakka hennar, ca 2–3 metra frá suð-vestur horni hennar. Á leið sinni sagðist hann ekki hafa séð neinar varúðarmerkingar, hvorki um dýpi laugarinnar né að þarna væru dýfingar bannaðar. Sagði hann að laugin hefði litið út „eins og venjuleg sundlaug sem mætti stökkva út í og synda í“.

Aðspurður sagðist stefnandi aðeins einu sinni áður hafa komið í Laugardalslaug, án þess þó að hafa farið í sjálfa sundlaugina. Sagðist hann vera syndur, en hefði ekki áður farið í sundlaug hér á landi. Hins vegar hefði hann oft synt í stöðuvötnum í heimalandi sínu, Póllandi.

Logi Sigurfinnsson sagði að varúðarmerkingar í sundlauginni væru í samræmi við fyrirmæli í reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum, og hefðu eftirlitsaðilar engar athugasemdir gert við þær merkingar.  Í reglugerðinni væri ekki lagt bann við dýfingum frá grynnri enda sundlaugar, hins vegar yrði að vera þar merki sem sýndi dýpt laugarinnar. Í Laugardalslauginni væri hins vegar gengið lengra en ákvæði reglugerðarinnar segði fyrir um, þar sem bannað væri að stinga sér frá grynnri enda hennar. Bannið væri sýnt með myndrænum hætti á merkjum á laugarbakkanum.

Aðspurður sagði Logi að laugarbakkinn í vesturenda laugarinnar væri 25 metra langur. Þar væru tvö skilti sem sýndu að dýfingar væru bannaðar og tvær merkingar gæfu til kynna dýpi laugarinnar. Ekki kvaðst hann geta sagt til um nákvæma stærð á þeim skiltum sem sýndu bann við dýfingum.  

Dómari og lögmenn aðila gengu á vettvang 16. október sl. 

Málsástæður stefnanda og lagarök

Bótakrafa stefnanda byggist á því að honum hafi ekki mátt vera ljóst að hættulegt gæti verið að stinga sér til sunds af vesturbakka laugarinnar og að merkingar á laugarbökkum hafi verið ófullnægjandi og óforsvaranlegar. Þannig hafi engar greinilegar merkingar eða skilti gefið til kynna að dýfingar væru þar óheimilar og/eða að sá endi laugarinnar væri grunnur og hætta stafaði þar af dýfingum. Reyndar virðist stefnanda samkvæmt almennum reglum laugarinnar, sem ritaðar eru bæði á ensku og íslensku, að dýfingar af vesturbakka hennar séu ekki bannaðar, þótt dýpi sé þar takmarkað og allar dýfingar því hættulegar. Til stuðnings sjónarmiðum sínum vísar stefnandi til almennra reglna skaðabótaréttarins, en sérstaklega þó til 9. gr. reglugerðar nr. 457/1998, um hollustuhætti á sund- og baðstöðum, sem og hátternisreglna. Í 2. mgr. 9. gr. tilvitnaðrar reglugerðar er mælt fyrir um að merkja skuli greinilega þætti varðandi öryggi og slysahættu, svo sem dýpi lauga og hættu við dýfingar.

Stefnandi bendir á að hann hafi á slysdegi verið ungur að árum og hvorki mæltur á íslensku né ensku. Þá hafi hann heldur ekki verið kunnugur staðháttum. Slysið hafi orðið að kvöldlagi, þegar byrjað var að rökkva, og hafi þær litlu merkingar á flís sem þó voru til staðar, ekki verið nægilega skýrar og áberandi og því ekki í samræmi við fyrirmæli reglugerðarinnar. Er á því byggt að skortur á greinilegum merkingum, og að ekki hafi verið lagt bann við dýfingum frá vesturenda laugarinnar, hafi falið í sér gáleysi af hálfu rekstraraðila, og verði að telja það meginorsök slyssins. Jafnframt byggir stefnandi á því að rík ástæða sé til að gera strangar kröfur til aðila sem reki sundlaugar og/eða skemmtigarða fyrir almenning um öryggi og leiðbeiningar til gesta sinna. Sérstaklega eigi þetta við þegar verulegur fjöldi fólks af ólíku þjóðerni kaupi sér aðgang frá því snemma morguns og fram í myrkur. Við slíkar aðstæður telur stefnandi að gera verði kröfur um áberandi myndrænar leiðbeiningar og texta á algengustu tungumálum gesta laugarinnar. Þá bendir hann á að ekki hafi á neinn hátt verið reynt að koma í veg fyrir dýfingar af vesturbakka laugarinnar, eins og nú hafi verið gert, en eftir slysið hafi rekstraraðili gert ráðstafanir til að koma í veg fyrir dýfingar af skammhlið laugarinnar, m.a. með nýjum merkingum og með því að koma fyrir grindverki á laugarbakkanum.

Af hálfu stefnanda er því haldið fram að rétt sé að líta fram hjá því að nokkru eða öllu leyti, verði talið að stefnandi hafi að einhverju leyti verið meðvaldur að tjóni sínu vegna einfalds gáleysis. Því til stuðnings vísar stefnandi til 2. mgr. 24. gr. skaðabótalaga og leggur áherslu á hinar alvarlegu afleiðingar slyssins og hve verulega þungbærar þær séu fyrir stefnanda. Gæti slíkt leitt til fullra bóta á grundvelli sanngirnissjónarmiða.  

Dómkröfur stefnanda taka mið af fyrrgreindri matsgerð læknanna Ragnars Jónssonar og Atla Þórs Ólasonar frá 15. desember 2008. Mismunandi fjárhæð krafna skýrist af mismunandi tekjuviðmiðun vegna varanlegrar örorku. Þar sem stefnandi var nýkominn til Íslands, og skorti því tekjuviðmiðun í vinnu hérlendis, telur hann að ákveða verði tekjur hans sérstaklega samkvæmt fyrirmælum skaðabótalaga. Aðalkrafa hans byggist á því að miðað verði við meðaltekjur iðnaðarmanna við útreikning varanlegrar örorku, varakrafa hans byggist á því að miðað verði við meðaltekjur karlmanna við byggingastarfsemi og mannvirkjagerð, en þrautavarakrafan við meðaltekjur verkamanna. Telur stefnandi að eðlilegast sé að miða hér við meðaltekjur iðnaðarmanna, enda sé hann menntaður iðnaðarmaður. Viðmiðunarlaun eru framreiknuð miðað við meðallaunavísitölu 2007 til stöðugleikapunkts í september 2008. Kröfurnar sundurliðast þannig:

Aðalkrafa

1. Bætur skv. 2. gr. skaðabótalaga vegna tímabundinnar örorku

kr.

283.422,-

2. Þjáningabætur skv. 3. gr. skbl.: 516 x 2.565,-

kr.

1.323.540,-

3. Miskabætur skv. 4. gr. skbl.: 90 stig af kr. 7.890.500,-

    30% álag skv. 3. mgr. 4. gr. skbl.

kr.

kr.

7.101.450,-

2.130.435,-

4. Bætur vegna varanlegrar örorku skv. 5.-7. gr. skbl.:

12 x 457.000,- x 352,2/319,1 x1,08 x 15,885 x 100%

kr.

103.841.504,-

kr.

114.680.351,-

Eingreiðsluverðmæti greiðslna frá almannatryggingum

(kr.

21.293.515,-)

Samtals:

kr.

93.386.856,-

Varakrafa

1. Bætur skv. 2. gr. skaðabótalaga vegna tímabundinnar örorku

kr.

283.422,-

2. Þjáningabætur skv. 3. gr. skbl.: 516 x 2.565,-

kr.

1.323.540,-

3. Miskabætur skv. 4. gr. skbl.: 90 stig af kr. 7.890.500,-

kr.

7.101.450,-

    30% álag skv. 3. mgr. 4. gr. skbl.

kr.

2.130.435,-

4. Bætur vegna varanlegrar örorku skv. 5.-7. gr. skbl.:

12 x 453.000,- x 352,2/319,1 x1,08 x 15,885 x 100%

kr.

102.932.606,-

kr.

113.771.453,-

Eingreiðsluverðmæti greiðslna frá almannatryggingum

(kr.

21.293.515,-)

Samtals:

kr.

92.477.938,-

Þrautavarakrafa

1. Bætur skv. 2. gr. skaðabótalaga vegna tímabundinnar örorku:

kr.

283.422,-

2. Þjáningabætur skv. 3. gr. skbl.: 516 x 2.565,-

kr.

1.323.540,-

3. Miskabætur skv. 4. gr. skbl.: 90 stig af kr. 7.890.500,-

kr.

7.101.450,-

30% álag skv. 3. mgr. 4. gr. skbl.

kr.

2.130.435,-

4. Bætur vegna varanlegrar örorku skv. 5.-7. gr. skbl.:

12 x 337.000,- x 352,2/319,1 x1,08 x 15,885 x 100%

kr.

76.574.588,-

kr.

87.413.435,-

Eingreiðsluverðmæti greiðslna frá almannatryggingum

(kr.

21.293.515,-)

Samtals:

kr.

66.119.920,-

Að auki er krafist 4,5% vaxta samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af tímabundinni örorku, þjáningabótum og miskabótum frá slysdegi, en varanlegri örorku frá stöðugleikapunkti, og dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þingfestingardegi, 17. febrúar 2009, til greiðsludags.

Um lagarök vísar stefnandi til skaðabótalaga nr. 50/1993 og almennra reglna íslensks skaðabótaréttar um ábyrgð eigenda á fasteignum sínum og vanbúnaði þeirra í víðum skilningi, en einnig til hátternisreglna og almennra reglna um sakarmat, ásamt því að kröfur reglugerðar nr. 457/1998 um merkingar hafi augljóslega ekki verið uppfylltar. Vaxtakrafan styðst við 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, en dráttarvaxtakrafan við 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Krafa hans um málskostnað styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra. Varðandi aðild í málinu vísar stefnandi til 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Stefndi hafi ekki gert kröfu um að málinu yrði einnig beint að vátryggingartaka og því sé aðeins Vátryggingafélagi Íslands hf. stefnt.

Málsástæður stefnda og lagarök

Aðalkrafa stefnda er á því reist að ekki séu uppfyllt skilyrði til þess að fella skaðabótaábyrgð á Reykjavíkurborg vegna þess slyss sem stefnandi varð fyrir 13. apríl 2007. Slysið verði alls ekki rakið til saknæmrar háttsemi rekstraraðila sundlaugarinnar, heldur fyrst og fremst til óaðgæslu stefnanda sjálfs. Um leið er mótmælt þeirri fullyrðingu stefnanda að aðstæður í sundlauginni hafi ekki verið í samræmi við þær kröfur sem gerðar séu til sundstaða. Því til stuðnings vísar stefndi  til 1. og 2. málsliðar 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 457/1998, um hollustuhætti á sund- og baðstöðum.

Stefndi tekur fram að árið 1994 hafi Menntamálaráðuneytið gefið út reglur um öryggi á sundstöðum og við kennslulaugar. Í framhaldi af setningu reglugerðar nr. 457/1998 hafi reglur þessar verið endurskoðaðar í janúar 1999. Í 1. málslið greinar 6.14 í reglunum segi svo: „Merkja skal laugarbakka þann hluta laugar sérstaklega sem er grynnri en 1.20 m vegna hættu við dýfingar.“ Telur hann að öryggismerkingar í Laugardalslaug hafi uppfyllt þessar kröfur. Þannig hafi tvö skilti verið á laugarbakkanum, sem gefið hafi til kynna að þar væri bannað að stinga sér til sunds. Á þeim skiltum, og á tveimur öðrum stöðum á sama laugarbakka, komi einnig fram að dýpi sé þar 0,9 m. Skiltin hafi verið sett upp árið 2005. Sérstaklega bendir stefndi á að í áðurnefndri reglugerð og reglum sé einungis farið fram á að sundlaugargestir séu varaðir við hættum við dýfingar. Í Laugardalslaug hafi þó verið gengið skrefinu lengra og dýfingar algerlega bannaðar frá grynnri enda laugarinnar. Telur stefndi ljóst að þar hafi frekari öryggisráðstafanir verið gerðar en reglur mæli fyrir um.

Stefndi byggir einnig á því að hefði stefnandi í umrætt sinn sýnt næga athygli, þá hefði ekki átt að fara fram hjá honum að dýfingar af bakkanum væru bannaðar, enda dýpi þar aðeins 0,9 metrar, og því hættulegt að stinga sér þar. Telur hann að merkin fjögur á laugarbakkanum séu mjög greinileg og bendir í því sambandi á ljósmyndir, sem teknar hafi verið af þeim 10. febrúar 2008, og finna megi í gögnum málsins. Því breyti engu þó aðeins sé tekið fram í almennum umgengnisreglum sundstaða, sem var að finna í sundlauginni í Laugardal, að dýfingar séu bannaðar af langhliðum laugarinnar og af bökkum barnalaugar.

Stefndi mótmælir því að öryggismerkingarnar hafi talist ófullnægjandi þar sem stefnandi sé pólskur, og hugsanlega hvorki mæltur á ensku eða íslensku. Verði fallist á slíka röksemdafærslu telur hann erfitt að sjá fyrir hvenær merkingar geti talist fullnægjandi. Einnig mótmælir hann þeirri fullyrðingu stefnanda að veður og birtuskilyrði hafi getað leitt til þess að öryggismerkingar teldust ófullnægjandi. Þess í stað heldur stefndi því fram að mjög góð lýsing sé við Laugardalslaug og skipti veður og birtuskilyrði engu máli þegar litið sé til öryggismerkinga.

Stefndi viðurkennir að blómaker hafi verið sett upp við vesturenda aðallaugarinnar eftir umrætt slys, en fullyrðir hins vegar að slysið hafi ekki verið ástæða þess. Hafi það staðið til um nokkurn tíma og sé ástæðan sú að stéttin milli búningsklefa og sundlaugarinnar geti orðið hál. Því hafi verið talið nauðsynlegt að draga úr því að sundlaugargestir hlypu úr búningsklefa og út í laugina og rynnu til á sundlaugarbakkanum. Stefndi tekur fram að á blómakerunum sé að finna merkingar um að dýfingar séu bannaðar frá vesturbakka laugarinnar, en mótmælir því að það verði túlkað þannig að fyrri merkingar hafi talist ófullnægjandi. Hið sama eigi við um þá ráðstöfun að sett hafi verið upp handrið með langhlið laugarinnar, við vestari enda hennar, en þau hafi einnig verið sett upp eftir slysið. Tekur stefndi fram að hvorki blómakerin né handriðið komi í veg fyrir að sundlaugargestir geti farið ofan í laugina frá vesturbakka hennar.

Stefndi byggir auk þessa á því að eftirlit með Laugardalslaug sé í fullu samræmi við þær reglur sem gildi um eftirlit með sundstöðum. Því til staðfestingar vísar hann til úttekta Vinnueftirlits ríkisins og umhverfissviðs Reykjavíkurborgar skömmu fyrir slysið, en þá hafi engar athugasemdir verið gerðar við öryggismerkingar. Af því verði sú ályktun dregin að merkingar hafi verið í fullkomnu lagi. Loks tekur stefndi fram að slys stefnanda sé fyrsta slys sinnar tegundar í Laugardalslauginni.

Varakrafa stefnda, um verulega lækkun stefnukrafna, byggist á því að stefnandi hafi sjálfur sýnt af sér sök í umrætt sinn. Telur hann sannað að slysið megi fyrst og fremst rekja til gáleysis stefnanda sjálfs, og vísar í því sambandi til umfjöllunar um aðalkröfu sína. Þá mótmælir hann að í málinu séu uppfyllt skilyrði 2. mgr. 24. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 til þess að horfa fram hjá því að stefnandi hafi verið meðvaldur að tjóninu, þannig að saknæm háttsemi hans eigi ekki að leiða til lækkunar bóta. Bendir hann á að umrætt ákvæði feli í sér þrönga undantekningarreglu frá þeirri meginreglu að almennt gáleysi tjónþola geti orðið til þess að hann verði sjálfur að bera hluta tjóns síns.

Að því er varðar útreikning á bótakröfu stefnanda mótmælir stefndi því að þau árslaun, sem fram komi í aðal-, vara- og þrautavarakröfu stefnanda, verði lögð til grundvallar. Því til stuðnings bendir stefndi á að stefnandi hafi aðeins starfað hér á landi sem verkamaður í um 8 mánuði, er hann slasaðist. Ekki liggi fyrir hvort fyrir honum hafi vakað að búa og starfa á Íslandi út starfsævina, hefði hann ekki slasast. Hins vegar liggi fyrir að margir þeirra sem hingað hafi komið í svipuðum erindagjörðum, hafi flutt aftur af landi brott. Stefnandi hafi af þeim sökum ekki sýnt fram á að framtíðarárslaun hans hefðu orðið hærri en þau lágmarkslaun sem miðað sé við í 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Af þeirri ástæðu telur stefndi eðlilegt að þau laun verði lögð til grundvallar ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku, að teknu tilliti til breytinga samkvæmt lánskjaravísitölu frá 1. júlí 1993 til stöðugleikapunkts, í þessu tilviki 9. september 2008. Samkvæmt því reiknist árslaun stefnanda 2.238.000 krónur.

Fallist dómurinn ekki á að leggja eigi ofangreind lágmarkslaun til grundvallar, fellst stefndi til vara á að fyrir hendi séu forsendur til að ákvarða launin á grundvelli 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Verði niðurstaðan sú, telur stefndi það í samræmi við skaðabótalög að ákvörðun árslauna taki mið af raunverulegri launastöðu stefnanda á slysdegi, þ.e. sömu launum og stefnandi byggi á við útreikning bótakröfu fyrir tímabundið atvinnutjón, eða 181.975 krónur á mánuði og 2.183.700 krónur á ári. Telur stefndi ekki forsendur til að ætla að stefnandi hefði mátt vænta hærri launa til framtíðar, hefði hann ekki slasast. Þó telur hann eðlilegt að við útreikning kröfunnar verði þessi laun hækkuð, annars vegar sem nemi 8% framlagi vinnuveitanda í lífeyrissjóð, en hins vegar til samræmis við framreiknaða meðallaunavísitölu 2007 til 9. september 2008. Samkvæmt því yrðu árslaun stefnanda 2.603.031 króna.

Til þrautavara telur stefndi rétt að ákvarða árslaun stefnanda út frá þeim launum sem hann hafði þann tíma sem hann vann hér á landi fyrir slysið. Annars vegar sé þar um að ræða laun í 245 daga vegna verkamannastarfa hjá [...], samtals 1.823.648 krónur, en uppreiknuð til 365 daga 2.716.863 krónur. Hins vegar hafi stefnandi haft laun fyrir tímabundin störf hjá [...], samtals 469.109 krónur. Telur stefndi ekki forsendur til að uppreikna þær tekjur til árslauna, þar sem þær virðist bundnar við ákveðinn árstíma. Samkvæmt því hafi heildarlaun stefnanda, miðað við 12 mánuði, verið 3.185.972 krónur, en 3.797.766 krónur, að teknu tilliti til 8% framlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð og framreiknings meðallaunavísitölu.

Með vísan til ofanritaðs telur stefndi að ekkert bendi til þess að stefnandi hefði mátt reikna með þeim launum til frambúðar, sem aðal-, vara- og þrautavarakrafa hans byggist á, ef slysið hefði ekki komið til. Fyrir liggi hins vegar að stefnandi vann almenn verkamannastörf hjá [...], og því engar forsendur til að miða við meðalheildarlaun fullvinnandi iðnaðarmanna, starfsmanna við byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, né verkamanna. Þá telur stefndi engin rök standa til þess að miða útreikning við meðallaun viðkomandi starfsstéttar. Nær væri að miða við miðgildi launa.

Þessu til viðbótar bendir stefndi á að þegar laun tjónþola eru ákvörðuð á grundvelli 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga þurfi, í þeim tilvikum þegar tjónþoli er yngri en 30 ára á stöðugleikapunkti, að horfa til þeirra forsendna sem liggi að baki margfeldisstuðli 6. gr. sömu laga. Þannig komi fram í greinargerð með frumvarpi til breytinga á skaðabótalögum, sem síðar varð að lögum nr. 37/1999, að við ákvörðun margfeldisstuðuls sé gert ráð fyrir því að laun þess sem slasast ungur séu almennt undir meðalárslaunum á viðkomandi sviði. Til þess að vega upp á móti því sé álag reiknað á margfeldisstuðulinn. Í tilvikum fólks undir 30 ára aldri sé því óeðlilegt að miða við meðaltekjur viðkomandi starfsstéttar, þegar árslaun eru ákvörðuð á grundvelli 2. mgr. 7. gr. laganna. Í tilviki stefnanda reiknist álagið 13,6%, sem jafnframt leiði til þess að sá  margfeldisstuðull sem lagður sé til grundvallar útreikningi á bótakröfu hans, valdi því að árslaun hans verði 13,6% hærri en virðist við fyrstu sýn. Telur stefndi þau laun í engu samræmi við launastöðu stefnanda á slysdegi og geti um leið ekki gefið vísbendingu um framtíðarlaun hans, hefði slysið ekki komið til. Þannig eigi að lækka þau meðallaun sem stefnandi krefjist um 13,6%, telji dómurinn forsendu til þess að leggja þau til grundvallar. Árslaunaviðmiðun í aðalkröfu ætti þá að vera 5.648.036 krónur, í varakröfu 5.598.601 króna og 4.164.964 krónur í þrautavarakröfu.

Stefndi mótmælir loks dráttarvaxtakröfu stefnanda og telur, með vísan til 9. gr. laga nr. 38/2001, að ekki eigi að reikna dráttarvexti fyrr en frá dómsuppsögu. Bendir hann á að við þingfestingu málsins hafi verulega skort á gögn svo unnt væri að taka afstöðu til útreiknings bótakröfunnar.

Til stuðnings kröfu sinni um málskostnað vísar stefndi til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Í málinu er hvorki ágreiningur um að slys stefnanda hafi borið að með þeim hætti sem að framan er lýst, né um afleiðingar þess. Stefnandi byggir á því að rekstraraðili sundlaugarinnar í Laugardal beri skaðabótaábyrgð á slysinu, þar sem varúðarmerkingum hafi verið ábótavant, en sýknukrafa stefnda er á því reist að slysið verði fyrst og fremst rakið til óaðgæslu stefnanda sjálfs. Um leið mótmælir stefndi því að slysið megi rekja til saknæmrar háttsemi rekstraraðila sundlaugarinnar.

Í 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 457/1998, um hollustuhætti á sund- og baðstöðum, segir svo: „Merkja skal greinilega hitastig í setlaugum og aðra þætti varðandi öryggi og slysahættu, s.s. dýpi lauga, hættu við dýfingar, hálku á laugarbökkum og annað það sem nauðsynlegt þykir vegna öryggis sundgesta. Merkingar skulu vera greinilegar.“ Um öryggi á sundstöðum er einnig fjallað í reglum um öryggi á sundstöðum og við kennslulaugar, sem settar voru af menntamálaráðuneytinu í janúar 1999, með heimild í 14. gr. íþróttalaga nr. 64/1998. Þar segir eftirfarandi í grein 6.14: „Merkja skal á laugarbakka þann hluta laugar sérstaklega sem er grynnri en 1.20 m vegna hættu við dýfingar.“  Samkvæmt áðurnefndu ákvæði reglugerðar nr. 457/1998 er aðeins gerð krafa um að sundlaugargestir séu varaðir við dýpi laugar og þeim hættum sem fylgt geti dýfingum. Í fyrrnefndum reglum er hins vegar hnykkt á þessari hættu með því að mæla fyrir um að merkja skuli á laugarbakka sérstaklega þann hluta laugar sem er grynnri en 1.20 metrar. Hvorki í reglugerðinni né reglunum er þó lagt bann við dýfingum á ákveðnum stöðum.

Af framlögðum gögnum, m.a. ljósmyndum sem teknar voru fjórum dögum eftir slysið, má sjá að á dúklögðum laugarbakka vesturhliðar laugarinnar eru varúðarmerkingar, annars vegar tvær málaðar áletranir: „D-0,9 m“, sem ætlað er að sýna dýpt laugarinnar, en hins vegar tvö málmskilti, þar sem letrað er á íslensku og ensku að dýfingar séu bannaðar. Á skiltunum er bannið einnig táknað á myndrænan hátt og sýnd dýpt laugarinnar, 0,9 metrar. Í málinu hafa einnig verið lagðar fram umgengnisreglur sundstaða, en í gögnum málsins kemur fram að þær hafi hangið uppi í búningsklefum sundlaugarinnar í Laugardal. Texti er þar bæði á íslensku og ensku og kemur þar m.a. fram að dýfingar séu ekki leyfðar af langhliðum laugarinnar né af bökkum barnalaugar. Er bannið táknað með myndrænum hætti. Ekkert er þar þó að finna um að hætta geti stafað af dýfingum frá grynnri enda laugarinnar. Engu að síður er ljóst að rekstraraðili sundlaugarinnar í Laugardal gekk lengra en fyrrnefnd reglugerð og áðurnefndar reglur kváðu á um, þegar hann bannaði dýfingar frá vesturbakka laugarinnar.

Hvorki í fyrrnefndri reglugerð nr. 457/1998, né í reglum um öryggi á sundstöðum og við kennslulaugar, er að finna fyrirmæli um stærð, fjölda eða staðsetningu þeirra varúðarmerkinga sem þar er fjallað um. Hins vegar er skýrt tekið fram, og endurtekið, í 2. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar, að merkingar skuli vera greinilegar. Í skýrslu forstöðumanns sundlaugarinnar fyrir dómi kom fram að lengd laugarbakkans við grynnri enda laugarinnar væri 25 metrar. Ekki gat forstöðumaðurinn sagt með vissu um stærð málmskiltanna, né þeirra áletrana sem sýna dýpi laugarinnar á laugarbakkanum. Við vettvangsgöngu dómara og lögmanna málsaðila var stærð málmskiltanna áætluð um 30 x 30 cm, en dýptaráletranir nokkuð lengri. Dýptaráletrun var um 3 metra frá suðvestur horni laugarinnar, en annað málmskiltið nálægt 8 metrum frá sama horni. Töldu lögmenn að lengd laugarbakkans væri nær 20 metrum, en ekki 25 metrar. Við sama tækifæri mátti sjá að varúðarmerkingum hafði verið fjölgað og þeim komið fyrir, bæði á stóru skilti og nokkrum blómakerum, sem stóðu á vesturbakka laugarinnar.  

Í skýrslu stefnanda fyrir dómi kom fram að hann hefði fyrst farið í litla vaðlaug nálægt útgöngudyrum og setið þar um stund með félögum sínum. Þaðan hefði hann síðan hlaupið að lauginni, þar sem kalt var í veðri, og stungið sér til sunds, ca 2-3 metra frá suðvestur horni laugarinnar. Á leið stefnanda frá vaðlauginni að sundlauginni voru engar varúðarmerkingar um dýpt laugarinnar, né að hættulegt gæti verið að stinga sér til sunds af laugarbakkanum. Á laugarbakkanum, næst þeim stað þar sem stefnandi mun hafa stungið sér til sunds, var hins vegar dýptaráletrun, ca 3 metra frá suðvestur horni laugarinnar, sem stefnandi kvaðst þó ekki hafa séð.

Þegar til þess er horft að mikill fjöldi fólks, á öllum aldri og ólíku þjóðerni, sækir sundlaugarnar í Laugardal á ári hverju, og ekki allir staðkunnugir, telur dómurinn að umræddar varúðarmerkingar, eins og þeim er lýst hér að ofan, geti ekki hafa talist nægilega greinilegar til þess að vara fólk við slysahættu við að stinga sér til sunds frá grynnri enda laugarinnar. Til þess voru þær bæði of fáar og smáar í sniðum. Því síður geta þær talist nægilega áberandi á láréttum laugarbakkanum þegar birtu er farið að bregða, og allra síst fyrir þann sem hleypur að bakkanum á öðrum stað en þar sem þeim var komið fyrir, eins og hér háttaði til. Er það því álit dómsins að merkingarnar hafi ekki fullnægt kröfum 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 457/1998 um að varúðarmerkingar skuli vera greinilegar. Ber rekstraraðili sundlaugarinnar, Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkurborgar, ábyrgð á því. Firrir það stefnda ekki bótaábyrgð þótt engar athugasemdir hafi verið gerðar við merkingarnar frá eftirlitsaðilum, Vinnueftirliti ríkisins og umhverfissviði Reykjavíkurborgar, við reglulegar úttektir þessara aðila. Engu breytir heldur þótt umrætt slys sé fyrsta sinnar tegundar í sundlauginni. Ekki verður hins vegar fallist á þau sjónarmið stefnanda, þegar lagt er á það mat hvort merkingarnar teljist greinilegar, að vegna þess að hann sé pólskur skilji hann þær ekki.

Þrátt fyrir að ofangreindar merkingar hafi ekki talist nægilega greinilegar til þess að vara við hættum við dýfingar frá laugarbakkanum, er það einnig mat dómsins að stefnandi hafi ekki sýnt næga varkárni þegar hann í umrætt sinn hljóp að sundlaugarbakkanum og stakk sér til sunds, án þess að ganga áður úr skugga um dýpi laugarinnar og staðhætti að öðru leyti. Styður það enn frekar mat dómsins um óvarkárni stefnanda að hann hafði ekki áður komið í aðallaug sundlaugarinnar, og reyndar ekki synt í sundlaug hér á landi. Hins vegar kvaðst hann fyrir dómi vera syndur, en hefði þó aðallega synt í stöðuvötnum í heimalandi sínu, Póllandi. Telur dómurinn að gáleysi stefnanda sé þess eðlis að hann þurfi sjálfur að bera þriðjung tjóns síns vegna eigin sakar. Með hliðsjón af atvikum þykja ekki skilyrði til þess að líta fram hjá eigin sök stefnanda, sbr. 2. mgr. 24. gr. skaðabótalaga.

Við upphaf aðalmeðferðar málsins lagði stefnandi fram leiðréttingu á upphaflegri kröfugerð sinni. Fólst hún í því að stefnandi féllst á útreikning stefnda á ógreiddri tímabundinni örorku, að margfeldisstuðull ætti að vera 15,885, að eingreiðslureiknaðar greiðslur frá almannatryggingum, 21.293.515 krónur, kæmu til frádráttar miðað við 100% bótaskyldu og að eðlilegt álag á miska væri 30%. Kröfur stefnanda, eins og þær eru sundurliðaðar hér að framan, eru í samræmi við hina breyttu kröfugerð og síðari breytingar á útreikningi varanlegrar örorku, sem stefnandi gerði við endurupptöku málsins 16. október sl.

Aðila greinir á um tekjuviðmiðun stefnanda til útreiknings varanlegar örorku. Telur stefnandi að aðallega beri að miða við meðaltekjur iðnaðarmanna, til vara meðaltekjur karlmanna við byggingastarfsemi og mannvirkjagerð, en til þrautavara við meðaltekjur verkamanna. Stefndi telur hins vegar ekki forsendur til að miða við þær tekjur. Þess í stað beri að leggja lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga til grundvallar, en til vara þau laun sem stefnandi byggi á útreikning sinn fyrir tímabundið atvinnutjón. Til þrautavara telur stefndi að rétt sé að ákvarða árslaun út frá þeim launum sem stefnandi hafði þann tíma sem hann vann hér á landi fyrir slysið. 

Á slysdegi var stefnandi 22 ára gamall og hafði dvalið hér á landi í um átta mánuði. Þann tíma hafði hann starfað hjá [...], en einnig tímabundið hjá [...]. Í skýrslu sinni fyrir dómi kvaðst hann hafa lokið prófi í bifvélavirkjun frá tækniskóla í Póllandi, en ekki hafa verið lögð fram gögn því til stuðnings. Við sama tækifæri kvaðst stefnandi hafa kunnað vel við sig hjá [...] og hefði hann hugsað sér að starfa þar áfram, ef slysið hefði ekki komið til. Með vísan til þessa, og sérstaklega þegar til þess er litið hve skamman tíma stefnandi hafði dvalið hér á landi og því með öllu óljóst um framtíðartekjur hans og áform að öðru leyti, verður fallist á það með stefnda að ekki séu forsendur til þess að leggja þau árslaun til grundvallar, sem krafist er í aðal-, vara- og þrautavarakröfu stefnanda. Þess í stað verður að meta árslaunin sérstaklega, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þykir þá eðlilegast að ákvarða árslaun stefnanda út frá þeim tekjum sem hann hafði þann tíma sem hann starfaði hér á landi fyrir slysið, enda engum öðrum gögnum til að dreifa sem geta gefið vísbendingu um annan og réttari mælikvarða á framtíðartekjur hans. Annars vegar er þá um að ræða laun hans í 245 daga hjá [...], samtals 1.823.648 krónur, en 2.716.863 krónur, þegar þau laun hafa verið uppreiknuð til 365 daga. Hins vegar eru laun hans fyrir tímabundin störf hjá [...], samtals 469.109 krónur. Fallist er á rök stefnda um að ekki sé rétt að uppreikna þær tekjur til árslauna, þar sem þær virðast aðeins bundnar við ákveðinn árstíma. Samkvæmt því voru heildarlaun stefnanda miðað við 12 mánuði 3.185.972 krónur, en 3.797.766 krónur að teknu tilliti til 8% framlags vinnuveitanda í lífeyrissjóð og framreiknings meðallaunavísitölu. Með margfeldisstuðlinum 15,885 verður því heildarfjárhæð kröfu stefnanda vegna varanlegrar örorku hans 60.327.513 krónur. Ekki er ágreiningur með aðilum um að til frádráttar þeirri fjárhæð komi eingreiðslureiknaðar greiðslur frá almannatryggingum að fjárhæð 21.293.515 krónur. Samkvæmt því nemur krafa stefnanda vegna varanlegrar örorku hans 39.033.998 krónum. Til viðbótar þeirri fjárhæð koma bætur fyrir tímabundið atvinnutjón, þjáningabætur og miskabætur, sem ekki er deilt um í málinu, samtals 10.838.847 krónur. Alls er því krafa stefnanda að fjárhæð 49.872.845 krónur. Að teknu tilliti til þriðjungs sakar stefnanda sjálfs, sbr. ofangreint, nemur fjárhæðin 33.248.563 krónum. Verður stefndi dæmdur til greiðslu þeirrar fjárhæðar. 

Gögn málsins bera þess vitni að stefnandi lét stefnda ekki í té nauðsynleg gögn, svo honum væri unnt að taka afstöðu til útreiknings bótakröfunnar, fyrr en löngu eftir þingfestingu málsins og raunar aðeins nokkru áður en stefndi lagði fram greinargerð sína. Verða dráttarvextir því ekki dæmdir frá þingfestingardegi, eins og stefnandi krefst. Þess í stað reiknast þeir frá dómsuppsögu. Enginn ágreiningur er hins vegar um vaxtakröfu stefnanda.

Með hliðsjón af úrslitum málsins, sbr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað, 1.129.000 krónur, og greiðist hann í ríkissjóð.

Stefnandi nýtur gjafsóknar í máli þessu samkvæmt gjafsóknarleyfi 24. júní 2008. Þóknun lögmanns hans, Halldórs Þ. Birgissonar hrl., sem ákveðst hæfileg 900.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði, en útlagður kostnaður að fjárhæð 229.000 krónur, hefur þegar verið greiddur úr ríkissjóði. Við ákvörðun lögmannsþóknunar hefur verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnanda, A, 33.248.563 krónur, ásamt 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, af 10.838.847 krónum frá 13. apríl 2007 til 9. september 2008, en af 33.248.563 krónum frá þeim degi til dómsuppsögudags, 21. október 2009, og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 1.129.000 krónur í málskostnað, sem rennur í ríkissjóð.

Þóknun lögmanns stefnanda, 900.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.