Hæstiréttur íslands
Mál nr. 213/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Endurupptaka
|
|
Mánudaginn 2. maí 2011. |
|
Nr. 213/2011. |
A (sjálfur) gegn B (Sigurbjörn Þorbergsson hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Endurupptaka.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu A um endurupptöku á máli, sem lauk með úrskurði um að bú hans væri tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu B. Talið var óumdeilt að beiðni A væri of seint fram komin. Kom því ekki til frekari málsmeðferðar fyrir dóminum um kröfu A. Var hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Páll Hreinsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. apríl 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 21. mars 2011, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um endurupptöku á máli, sem lauk með úrskurði 28. október 2010 um að bú hans væri tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að beiðni sín um endurupptöku verði tekin til greina.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 21. mars 2011.
Mál þetta sem tekið var til úrskurðar þann 17. þ.m. barst dómstólnum þann 28. janúar sl. með beiðni um endurupptöku og ógildingu á úrskurði Héraðsdóms Reykjaness frá 28. október 2010 um að bú sóknaraðila A, kt. [...]., skuli tekið til gjaldþrotaskipta. Í þinghaldi þann 17. þ.m. gekkst lögmaður sóknaraðila við því, og vísaði til framlagðra gagna, að sóknaraðili hafi verið boðaður til skýrslutöku hjá skiptastjóra búsins í nóvember 2010.
Varnaraðili hefur krafist þess að kröfu sóknaraðila um endurupptöku verði synjað.
Skilyrði endurupptöku samkvæmt 1. mgr. 137. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 sem sóknaraðili byggir kröfu sína um endurupptöku á er að beiðni þar um berist dómara innan mánaðar frá því að sóknaraðila urðu málsúrslit kunn. Í ljósi yfirlýsingar lögmanns sóknaraðila um boðun til skýrslutöku hjá skiptastjóra búsins í nóvember 2010 telur dómar í ljós leitt að óumdeilt sé að beiðnin sem barst til dómara þann 28. janúar sé of seint fram komin og verður þegar af þeirri ástæðu að hafna beiðni sóknaraðila. Kemur því ekki til frekari málsmeðferðar fyrir dóminum um kröfu sóknaraðila.
Varnaraðili hefur ekki krafist málskostnaðar og verður hann því ekki dæmdur.
Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Beiðni sóknaraðila, A, um endurupptöku og ógildingu á úrskurði Héraðsdóms Reykjaness frá 28. október 2010 um að bú hans skuli tekið til gjaldþrotaskipta er hafnað.