Hæstiréttur íslands

Mál nr. 340/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Barnavernd
  • Kæra
  • Vistun barns
  • Frávísun frá Hæstarétti


Miðvikudaginn 29. maí 2013.

Nr. 340/2013.

A og

B

(Kristján Stefánsson hrl.)

gegn

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur

(Kristbjörg Stephensen hrl.)

Kærumál. Barnavernd. Kæra. Vistun barns. Frávísun máls frá Hæstarétti.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfum A og B um að ógiltur yrði úrskurður barnaverndarnefndar um vistun barns þeirra utan heimilis. Kærunni var vísað frá Hæstarétti þar sem hún uppfyllti ekki skilyrði c. liðar 1. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Benedikt Bogason og Ólafur Börkur Þorvaldsson. 

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 15. maí 2013 sem barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. maí 2013, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðilans A um að ógiltur yrði úrskurður varnaraðila um vistun sonar beggja sóknaraðila á vegum varnaraðila í allt að tvo mánuði. Þá var hafnað kröfu beggja sóknaraðila um að framkvæmd úrskurðar varnaraðila yrði frestað meðan málið væri til meðferðar fyrir dómi en fallist á kröfu varnaraðila um að sonur sóknaraðila yrði vistaður á fósturheimili frá 5. maí 2013 til 6. september sama ár. Kæruheimild er í 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi að því er varðar kröfu varnaraðila um að sonur sóknaraðila verði vistaður á fósturheimili á vegum varnaraðila til 6. september 2013 og að varnaraðila verði gert að afhenda sóknaraðilum drenginn þegar í stað. Þá er krafist „málskostnaðar úr ríkissjóði, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.“

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Í sameiginlegri kæru sóknaraðila, sem rituð var af tveimur héraðsdómslögmönnum, var því lýst yfir að kærður væri úrskurður héraðsdóms í málinu og tiltekið heiti þess og ályktarorð úrskurðarins. Í framhaldinu var tilgreind kæruheimild en að öðru leyti er meginmál skjalsins svohljóðandi: „Fyrir Hæstarétti gera sóknaraðilar þá kröfu að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi að því er varðar kröfu varnaraðila, um vistun drengsins á fósturheimili á vegum varnaraðila til 6. september 2013 og að varnaraðila verði gert að afhenda sóknaraðilum drenginn þegar í stað. Sóknaraðilar munu senda Hæstarétti sameiginlega greinargerð sína þegar tilkynning hefur borist um að gögn málsins hafi verið send réttinum.“ Samkvæmt c. lið 1. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem gildir um meðferð þessa máls, sbr. 1. mgr. 64. gr. laga nr. 80/2002, skal í kæru meðal annars greina ástæður, sem hún er reist á. Þessa gættu sóknaraðilar í engu, en úr þeim annmarka verður ekki bætt þótt málsástæðum þeirra hafi verið gerð skil í greinargerð hér fyrir dómi. Samkvæmt þessu verður málinu vísað frá Hæstarétti.

Um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því sem greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, A og B, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, 100.000 krónur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. maí 2013.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 30. apríl 2013, barst dóminum 27. mars sama ár með kröfu sóknaraðila, A, [...],um að úrskurður varnaraðila, Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, frá 5. mars sl., um að sonur hennar og B, C, verði vistaður á heimili á vegum nefndarinnar í allt að tvo mánuði, verði ógiltur með úrskurði dómara. Þá krefst sóknaraðili, A, þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að drengurinn, C, kt. [...], verði vistaður á fósturheimili á vegum varnaraðila frá 5. maí 2013 til 6. september 2013. Jafnframt er krafist málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti samkvæmt síðar framlögðum reikningi, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál. Loks er þess krafist að framkvæmd úrskurðarins verði frestað meðan málið er til meðferðar fyrir dómi.

B, [...], faðir C, óskaði í þinghaldi 18. apríl sl. eftir að ganga inn í málið sem sóknaraðili og sætti það ekki mótbárum. Telst hann því vera sóknaraðili málsins ásamt A. Sóknaraðili B krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að drengurinn, C, kt. [...], verði vistaður á fósturheimili á vegum varnaraðila frá 5. maí 2013 til 6. september 2013.

Þá er krafist málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti samkvæmt síðar framlögðum reikningi eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Varnaraðili, Barnaverndarnefnd Reykjavíkur, krefst þess að staðfestur verði úrskurður varnaraðila frá 5. mars 2013 um að drengurinn C skuli vistaður á vegum varnaraðila í allt að tvo mánuði frá 5. mars 2013 að telja, sbr. b-liður 1. mgr. 27. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Jafnframt gerir varnaraðili kröfu um að Héraðsdómur Reykjavíkur hafni kröfu sóknaraðila um að framkvæmd úrskurðar varnaraðila, frá 5. mars 2013, verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir dómi.

Varnaraðili krefst ekki kærumálskostnaðar.

Loks krefst varnaraðili þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að drengurinn, C, sem lýtur forsjár beggja sóknaraðila, verði vistaður á fósturheimili á vegum varnaraðila frá 5. maí 2013 til 6. september 2013.

I.

Mál þetta varðar tveggja ára dreng, C, sem hefur lotið forsjár beggja sóknaraðila frá því í september 2012 en áður fór sóknaraðili, A, ein með forsjá hans. Sóknaraðili, A, á auk C tvo aðra syni, 10 og 7 ára, með öðrum manni og búa þeir hjá föður sínum. C á lögheimili hjá sóknaraðila, A, en sóknaraðilar búa nú saman að [...]. Drengurinn á 13 ára bróður samfeðra.

Af gögnum málsins verður ráðið að samband sóknaraðila hefur verið stormasamt og hafa þeir ýmist búið sundur eða saman frá fæðingu drengsins. Á haustmánuðum 2011 dvaldi sóknaraðili, A, ásamt sonum sínum í Kvennaathvarfinu vegna rifrildis við sóknaraðila B. Áhyggjur vöknuðu af fíkniefnaneyslu móður þegar hún gekk með son sóknaraðila án þess sannað væri að þær væru á rökum reistar. Eftir fæðingu drengsins hafa borist tilkynningar vegna gruns um vímuefnaneyslu foreldra, einkum móður, og aðstæðum á heimili drengsins. Þá hafa tilkynningar jafnframt lotið að heimilisofbeldi. Nema tilkynningarnar tæpum tveimur tugum alls.

Frá árinu 2010 hefur margoft verið gerð meðferðaráætlun samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og hafa þær verið undirritaðar af sóknaraðila, A, en í einu tilviki af sóknaraðilum báðum. Þá hefur sóknaraðili, A, á sama tímabili nokkrum sinnum notið úrræðis sem nefnist Greining og ráðgjöf heim. Í úrræðinu felst að gerð er greining á aðstæðum á heimili, styrkleika foreldra og veikleika og er vinna barnaverndar í kjölfarið byggð á þeirri rannsókn.

Af gögnum málsins verður ráðið að sóknaraðili, A, fór í vímuefnameðferð á Vogi vorið 2012 en útskrifaði sig þaðan sjálf, án samráðs við fagaðila, og fór í Hlaðgerðarkot til meðferðar. Lauk sex vikna meðferð þar um miðjan maí. Var drengurinn þá vistaður hjá móðurbróður sínum. Í júlí sama ár var tilkynnt um neyslu sóknaraðila, A, og var drengurinn þá vistaður á nýjan leik hjá móðurbróður sínum. Er óumdeilt að sóknaraðili var í neyslu fram í ágúst sama ár. Í lok ágúst fóru sóknaraðilar með drenginn í greiningar- og leiðbeiningarvistun á Vistheimili barna og stóð vistunin fram i byrjun nóvember sama ár. Á þeim tíma sótti sóknaraðili, A, sér fíkniefnameðferð. Í febrúarbyrjun á þessu ári barst barnavernd tilkynning um vímuefnaneyslu sóknaraðila, A, og þegar fulltrúar barnaverndar fóru á heimili sóknaraðila kvað sóknaraðili B að ekki hefði heyrst frá henni í þrjá daga. Á meðferðarfundi barnaverndar 14. febrúar sl. var bókað að eftirlit hefði verið með heimilinu og að sóknaraðili B hefði annast drenginn ágætlega og skilað neikvæðum fíkniefnaprófum. Þá var bókað um að gera skyldi kröfu um að móðir færi í langtímameðferð og að drengurinn yrði í umsjá föður í eitt ár. Hinn 15. febrúar lagðist sóknaraðili, A, inn á deild 33A á Landspítala en útskrifaði sig þaðan tveimur dögum síðar. Hinn 18. febrúar viðurkenndi sóknaraðili, A, neyslu sína og kvaðst ætla að reyna að komast í meðferð í Krýsuvík. Sama dag var tilkynnt um vímuefnaneyslu sóknaraðila B. Daginn eftir var drengurinn kyrrsettur á Vistheimili barna með neyðarráðstöfun gagnvart sóknaraðila, A, en með samþykki sóknaraðila B. Hinn 27. febrúar samþykkti sóknaraðili, A, vistun drengsins á Vistheimili barna til 5. mars sl. en þann dag kvað Barnaverndarnefnd Reykjavíkur upp úrskurð sinn um vistun drengsins á vegum nefndarinnar í allt að tvo mánuði, svo sem áður er rakið. Á fundi varnaraðila 5. mars sl. fól hann borgarlögmanni að gera þá kröfu fyrir héraðsdómi að drengurinn yrði vistaður utan heimilis í 6 mánuði. Var það niðurstaða varnaraðila að það væri sá tími, sem talinn væri nauðsynlegur lágmarkstími, að virtum aldri drengsins og gögnum málsins, til þess að unnt yrði að gera varanlegar breytingar á uppeldisaðstæðum og uppeldisfærni foreldra.

II.

Sóknaraðili, A, byggir kröfur sínar aðallega á því að ekki sé ástæða til þess að ákveða vistun drengsins utan heimilis án hennar samþykkis. Samkvæmt 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 skuli barnaverndaryfirvöld ávallt beita vægustu ráðstöfunum til að ná þeim, sem að sé stefnt, og því aðeins gera ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti. Sóknaraðili telur ljóst að vilji löggjafans með því að skipa málum svo, að úrskurður barnaverndarnefndar um vistun barns utan heimilis án samþykkis foreldra geti mest numið tveimur mánuðum, hafi verið sá að slík úrræði væru skoðuð sem vægari úrræði og að þeim bæri að beita og kanna áhrifin af þeim úrræðum áður en til þess kæmi að krefjast þess fyrir dómi að úrskurðað væri um lengri vistun barns utan heimilis. Telur sóknaraðili að með því að mæla fyrir um það að fela borgarlögmanni að gera kröfu um vistun drengsins utan heimilis í alls sex mánuði, samtímis úrskurði um vistun utan heimilis í tvo mánuði, hafi varnaraðili í raun þegar tekið afstöðu til þess að sóknaraðili sé ekki í þeirri aðstöðu eftir vistun samkvæmt úrskurðinum að geta tekið við umsjá drengsins aftur. Hafi varnaraðila borið að beita því úrræði og kanna áhrif þess áður en til þess kæmi að krefjast úrskurðar dómara um lengri vistun barns utan heimilis. Með þessum hætti telur sóknaraðili að meðalhófs hafi ekki verið gætt við málsmeðferðina.

Sóknaraðili kveðst ekki hafa verið í neyslu vímuefna frá þeim tíma er drengurinn var vistaður á Vistheimili barna hinn 19. febrúar 2013 en þá hafi hún skýrt frá því að hún væri hætt í neyslu. Sóknaraðili sæki daglega fundi á vegum AA samtakanna og United Reykjavík og fái góð meðmæli frá stuðningsaðilum sínum. Hún sé mjög staðföst og hafi tekist á við vímuefnavanda sinn. Telji hún sig því fullfæra um að annast drenginn og tryggja honum viðunandi aðstæður. Þá hafi hún nú flutt í nýtt húsnæði þar sem hún hafi útbúið heimili fyrir sig og syni sína. Hafi sóknaraðli jafnframt verið að öllu leyti til samstarfs við barnavernd og hafi það úrræði að vista drenginn utan heimilis í tvo mánuði skilað tilsettum árangri. Sé því ekki lengur grundvöllur fyrir því að vista drenginn áfram utan heimilis síns, ekki síst með tilliti til þeirrar röskunar sem þegar hafi orðið á högum hans. Sóknaraðili telur það úrræði að vista drenginn áfram utan heimilis síns skaðlegt drengnum og einungis til þess fallið að raska högum hans með tilliti til ungs aldurs hans. Í ljósi þessa sé þess krafist að hafnað verði kröfu varnaraðila um vistun drengsins utan heimilis til 6. september 2013.

Kröfur sóknaraðila eru reistar á ákvæðum barnaverndarlaga nr. 80/2002 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Krafa um málskostnað er reist á XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 en krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun við lög nr. 50/1988. Um gjafsókn er vísað til 60. gr. laga nr. 80/2002 um gjafsókn.

III.

                Sóknaraðili B byggir aðallega á því að ekki sé ástæða til þess að ákveða vistun drengsins utan heimilis án hans samþykkis. Samkvæmt 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 skuli barnaverndaryfirvöld ávallt beita vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum, sem að sé stefnt, og því aðeins gera ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti. Sóknaraðili telur ljóst að vilji löggjafans með því að skipa málum svo, að úrskurður Barnaverndarnefndar um vistun barns utan heimilis án samþykkis foreldra geti mest numið tveimur mánuðum, hafi verið sá að slík úrræði væru skoðuð sem vægari úrræði og bæri að beita þeim og kanna áhrifin af þeim úrræðum áður en til þess kæmi að krefjast þess fyrir dómi að úrskurðað væri um lengri vistun barns utan heimilis. Telur sóknaraðili að með því að mæla fyrir um það að fela borgarlögmanni að gera kröfu um vistun drengsins utan heimilis í alls sex mánuði, samtímis úrskurði um vistun utan heimilis í tvo mánuði, hafi varnaraðili í raun þegar tekið afstöðu til þess að sóknaraðili sé ekki í þeirri aðstöðu eftir vistun samkvæmt úrskurðinum að geta tekið við umsjá drengsins aftur. Hafi varnaraðila borið að kanna áhrif þess úrræðis áður en til þess kæmi að krefjast úrskurðar dómara um lengri vistun drengsins utan heimilis. Með þessum hætti telur sóknaraðili að meðalhófs hafi ekki verið gætt við málsmeðferðina.

Sóknaraðili vísar til þess að í málinu liggi fyrir að sóknaraðili hafi haldið vímuefnabindindi frá þeim tíma er drengurinn var vistaður á Vistheimili barna hinn 19. febrúar 2013 en fíkniefnapróf hafi mælst neikvæð. Hann hafi hafið vímuefnameðferð á Teigi 7. mars 2013 en auk þess hafi hann sótt samkomur á vegum United Reykjavík og AA-samtakanna. Hafi hann tekist á við vímuefnavanda sinn og telji sig hæfan til að annast drenginn og tryggja honum viðunandi aðstæður. Sóknaraðili hafi verið til samstarfs við barnavernd og telji hann að úrræði varnaraðila að vista drenginn utan heimilis í tvo mánuði hafi skilað tilsettum árangri. Sé því ekki lengur grundvöllur fyrir því að vista drenginn áfram utan heimilis síns, ekki síst með tilliti til þeirrar röskunar sem þegar hafi orðið á högum hans. Hafi líðan drengsins breyst til hins betra eftir að umgengi sóknaraðila var aukin. Í ljósi þessa sé þess krafist að hafnað verði kröfu varnaraðila um vistun drengsins utan heimilis til 6. september 2013.

Jafnframt byggir sóknaraðili á því að úrskurður varnaraðila frá 5. mars 2013 hafi ekki fengið lögformlega málsmeðferð. Drengurinn hafi verið tekinn af heimili sínu 19. febrúar 2013 og þá hafi strax komið til greina að vista drenginn hjá móðurbróður hans, enda séu þeir mjög nánir. Í stað þess hafi drengurinn verið vistaður á Vistheimili barna þar sem hann dvelji enn. Með þessum hætti telji sóknaraðili að barnavernd hafi brotið gegn 80. gr. barnaverndarlaga þar sem áskilið sé að velja eigi heimili af kostgæfni og með tilliti til þarfa og hagsmuna barnsins. Þar segi enn fremur að heimili, sem barn sé tengt tilfinningalegum tengslum, skuli ganga fyrir vistun uppfylli það skilyrði laganna að öðru leyti og talið sé barni fyrir bestu að vistast þar. Telur sóknaraðili jafnframt að barnavernd hafi með þessum hætti brotið gegn 1. mgr. 4. gr. laganna en þar sé að finna þá meginreglu að í barnaverndarstarfi skuli beita þeim ráðstöfunum sem ætla megi að séu barni fyrir bestu. Með hliðsjón af ungum aldri drengsins telji sóknaraðili að hagsmunir hans hafi mælt með vistun í öruggu umhverfi hjá móðurbróður sínum sem hann þekki mjög vel og sé hæfur til þess að fara með umsjá drengsins en ekki á Vistheimilinu. Barnaverndarstofa hafi ekki synjað um leyfi fyrir vistun drengsins hjá móðurbróður hans fyrr en 10. apríl 2013 eða rúmum sjö vikum eftir að drengurinn var tekinn af heimili sínu. Telji sóknaraðili að ákvörðun hafi ekki fengið lögformlega málsmeðferð, m.a. þar sem málið hafi ekki verið nægilega rannsakað.

Kröfur sóknaraðila eru reistar á ákvæðum barnaverndarlaga nr. 80/2002 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Krafa um málskostnað er reist á XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 en krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun við lög nr. 50/1988. Um gjafsókn er vísað til 60. gr. laga nr. 80/2002 um gjafsókn.

IV.

                Varnaraðili vísar kröfum sínum til stuðnings til þess að það teljist mannréttindi barna að njóta forsvaranlegra uppeldisskilyrða og að forsjárréttur foreldra takmarkist af þeim réttindum barna. Þegar hagsmunir foreldra og barna vegist á, séu hagsmunir barnanna þyngri á vogarskálunum. Síðastnefnd regla sé grundvallarregla í íslenskum barnarétti og komi einnig fram í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem Ísland sé aðili að. Hinu opinbera sé einnig skylt að veita börnum vernd svo sem mælt sé fyrir um í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. 3. mgr. 76. gr., barnaverndarlögum nr. 80/1992 og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Reglan eigi sér einnig stoð í 2. mgr. 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og í Alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem Ísland sé aðili að. Markmið barnaverndarlaga nr. 80/2002 sé að öll börn á Íslandi búi við viðunandi aðstæður og skuli leitast við að ná því markmiði með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Þá sé það meginregla barnaverndarstarfs að stuðla að stöðugleika í uppvexti barna, sbr. 3. mgr. 4. gr. sömu laga.

Varnaraðili styður kröfu sína um að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti úrskurð varnaraðila frá 5. mars 2013 um að drengurinn skuli vistaður á vegum varnaraðila í allt að tvo mánuði frá 5. mars 2013 að telja, sbr. b-liður 1. mgr. 27. barnaverndarlaga nr. 80/2002, fyrst og fremst með því að hinn kærði úrskurður hafi fengið lögformlega málsmeðferð og sé gildur að lögum. Ljóst sé að meðalhófs hafi verið gætt, enda séu vægari úrræði fullreynd án viðunandi árangurs.

Líkt og tiltekið sé í niðurstöðukafla hins kærða úrskurðar, séu aðstæður drengsins í umsjá sóknaraðila, A, óviðunandi vegna alvarlegs vímuefnavanda hennar. Að sama skapi hafi sóknaraðila B, þegar á hefur reynt, ekki auðnast að tryggja aðstæður drengsins. Auk þess hafi foreldrarnir ekki skapað drengnum stöðugleika í uppvexti. Óstöðugleikinn birtist í tíðum sambandsslitum foreldranna og langvarandi vistun drengsins utan heimilis foreldra. Aðstæður drengsins séu með framangreindum hætti, þrátt fyrir mikinn stuðning og eftirlit af hálfu barnaverndaryfirvalda á grundvelli barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sé nú svo komið að það þjóni ekki lengur hagsmunum drengsins að vera í umsjá foreldra. Svo stöðugleiki og aðstæður drengsins í umsjá sóknaraðila verði tryggðar, þurfi sóknaraðili, A, að undirgangast langtímameðferð til að taka á vímuefnavanda sínum og nauðsynlegt sé að hún haldi vímuefnabindindi í framhaldinu. Þá verði sóknaraðili B einnig að leita sér aðstoðar vegna vímuefnavanda síns til þess að hann geti tryggt aðstæður drengsins í sinni umsjá. Sökum þessa hafi varnaraðili, að virtum brýnum hagsmunum drengsins, falið borgarlögmanni að gera þá kröfu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur að drengurinn yrði vistaður utan heimilis í alls sex mánuði frá 5 mars sl. að telja. Sé það sá lágmarkstími sem þurfi, í ljósi aldurs drengsins og gagna málsins, svo unnt sé að gera varanlegar breytingar á uppeldisaðstæðum og uppeldisfærni foreldra. Hins vegar hafi foreldrar drengsins ekki samþykkt vistun drengsins utan heimilis án skilyrða og því hafi varnaraðili tekið málið til úrskurðar.

Þótt sóknaraðili, A, hafi staðið sig í vímuefnabindindi frá upphafi vistunar drengsins, telur varnaraðili það ekki raska grundvelli hins kærða úrskurðar, enda sé nauðsynlegt að sóknaraðili undirgangist langtímameðferð og haldi vímuefnabindindi í framhaldinu svo unnt verði að tryggja aðstæður og stöðugleika drengsins í umsjá sóknaraðila. Varnaraðili bendir einnig á að umgengni sóknaraðila við drenginn hafi verið regluleg á tímabili yfirstandandi dvalar drengsins á Vistheimili barna. Haldi sóknaraðili vímuefnabindindi sitt á vistunartíma muni varnaraðili, eftir sem áður, tryggja sóknaraðila umgengni við drenginn með það fyrir augum að viðhalda tengslum milli mæðginanna. Varnaraðili hafni því fullyrðingum sóknaraðila um að vistun drengsins utan heimilis sé skaðleg drengnum.

Röngum fullyrðingum sóknaraðila þess efnis að varnaraðili hafi brotið gegn ákvæðum 80. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 sé mótmælt. Hið rétta sé að Barnaverndarstofa hafi synjað Barnavernd Reykjavíkur um leyfi fyrir því að vista drenginn á heimili móðurbróður drengsins, D, sbr. 84. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Bendir varnaraðili á að jafnvel þótt fullyrðingar sóknaraðila að þessu leyti ættu við rök að styðjast, sé vandséð hvernig það væri til að undirbyggja síðastnefnda kröfugerð sóknaraðila. Með vísan til framanritaðs verði ekki hjá því komist að staðfesta úrskurð varnaraðila frá 5. mars 2013 um að drengurinn skuli vistaður á vegum varnaraðila í allt að tvo mánuði frá 5. mars 2013 að telja, sbr. b-liður 1. mgr. 27. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Varnaraðili bendir á að krafa sóknaraðila um að framkvæmd úrskurðarins verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir dómi með vísan til 2. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 fái ekki staðist því tilvitnuð lagagrein eigi ekki við í þessu máli. Í 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 sé kveðið á um heimild til að kæra úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar og heimild dómara til að kveða á um að slík kæra fresti framkvæmd úrskurðar. Líkt og sóknaraðili tiltaki í kæruskjali sínu sé lagaheimild fyrir framsettri kæru að finna í 2. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Í sama ákvæði og í beinu framhaldi af umfjöllun um kæruheimildina sé þess sérstaklega getið að málskot til dómstóla komi ekki í veg fyrir að úrskurður komi til framkvæmdar. Beri því að hafna kröfu sóknaraðila um frestun framkvæmdar hins kærða úrskurðar á meðan málið er til meðferðar fyrir dómi.

Varnaraðili byggir jafnframt á því að nauðsynlegt sé að vista drenginn utan heimilis foreldra til 6. september nk. Geri varnaraðili því kröfu um að drengurinn verði vistaður utan heimilis foreldra, á fósturheimili á vegum varnaraðila, til 6. september 2013 á grundvelli 1. mgr.  28. gr., sbr. b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Aðstæður drengsins í umsjá foreldra sinna séu óviðunandi, þrátt fyrir að úrræðum samkvæmt 24. og 25. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 hafi verið beitt. Sé nú fulljóst, svo sem atvik málsins beri með sér, að fyrrgreind úrræði séu ófullnægjandi í ljósi alvarlegs vímuefnavanda foreldranna. Aðstæður drengsins verði ekki viðunandi í umsjá foreldra án varanlegra breytinga á uppeldisaðstæðum og uppeldisfærni foreldra. Að brýnum hagsmunum drengsins virtum sé því nauðsynlegt að vistun hans utan heimilis foreldra vari lengur en þá tvo mánuði sem hinn kærði úrskurður kveði á um. Vegna framangreinds geri varnaraðili kröfu um að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að drengurinn verði vistaður á fósturheimili á vegum varnaraðila frá 5. maí 2013 til 6. september 2013.

V.

Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslur sóknaraðili, A, og E, félagsráðgjafi hjá Barnavernd Reykjavíkur.

Í 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 er kveðið á um heimildir barnaverndarnefndar til að úrskurða um vistun barns utan heimilis í tilvikum þar sem ekki liggur fyrir samþykki foreldris og/eða barns sem náð hefur 15 ára aldri.  Í b-lið 1. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að barnaverndarnefnd geti úrskurðað um töku barns af heimili í allt að tvo mánuði til að tryggja öryggi þess eða til að unnt sé að gera viðeigandi rannsókn á barninu og veita því nauðsynlega meðferð og aðhlynningu. Í greinargerð með frumvarpi til barnaverndarlaga segir um 27. gr. að tveir mánuðir þyki hæfilegur tími til að meta stöðu og þarfir barns, taka ákvörðun um hvort barn skuli snúa heim eða nauðsyn þess að grípa til annarra ráðstafana. Í 1. mgr. 28. gr. sömu laga er svo mælt fyrir um að barnaverndarnefnd skuli gera kröfu um það fyrir héraðsdómi að ráðstöfun samkvæmt ákvæðum 27. gr. standi lengur en tvo mánuði ef hún telur það nauðsynlegt. Getur héraðsdómur þá með úrskurði kveðið á um að vistun barns standi í allt að 12 mánuði í senn.   

Eins og áður hefur verið rakið, hafa barnaverndaryfirvöld þurft að hafa afskipti af högum sonar sóknaraðila frá ungum aldri drengsins vegna vímuefnaneyslu beggja sóknaraðila og erfiðra heimilisaðstæðna. Hefur drengnum vegna þessa ástands í nokkur skipti verið komið fyrir utan heimilis síns um tíma. Eins og áður er rakið hafa margoft borist tilkynningar vegna áhyggja af aðstæðum drengsins. 

Við meðferð barnaverndarmála ber að fylgja meginreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og sérreglum barnaverndarlaga nr. 80/2002 um málsmeðferð. Ein af grundvallarregl­um stjórnsýsluréttarins, meðalhófsreglan, er lögfest í 12. gr. stjórnsýslulaga og er hana jafnframt að finna í 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga þar sem segir að barnaverndar­yfirvöld skuli eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið sé til annarra úrræða. Þau skuli jafnframt ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt. Því aðeins skuli gert ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti. Þessi grundvallarregla felur meðal annars í sér að stjórnvaldi ber að velja það úrræði sem vægast er ef fleiri úrræða er völ sem þjónað geta því markmiði sem að er stefnt. Ákvæði 27. gr. barnaverndarlaga er í samræmi við þessa meginreglu. Samkvæmt því á barnaverndarnefnd að velja vægasta úrræði sem völ er á hverju sinni og telja má að gagni megi koma og ganga aldrei lengra í beitingu þess úrræðis en nauðsynlegt er. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga segir að í barnaverndarstarfi skuli beita þeim ráðstöfunum sem ætla má að barni séu fyrir bestu og að hagsmunir barna skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda. Af gögnum málsins má ráða að varnaraðili hefur gripið til ýmissa vægari úrræða í viðleitni sinni til að gæta hagsmuna sonar sóknaraðila og fjölskyldunnar allrar, m.a. með gerð meðferðaráætlana og úrræða á borð við Greiningu og ráðgjöf heim, auk fjárhagsaðstoðar. Allt að einu hefur í nokkrum tilvikum verið talið nauðsynlegt að taka drenginn tímabundið af heimilinu vegna vímuefnaneyslu foreldra. Að þessu virtu og með hliðsjón af öðrum gögnum málsins, m.a. greinargerð E, félagsráðgjafa hjá Barnavernd Reykjavíkur, frá því í byrjun mars sl. sem er í samræmi við vætti hennar hér fyrir dóminum um að sóknaraðilar þurfi að leita sér frekari aðstoðar vegna vímuefnavanda síns og sýna fram á langvarandi árangur í edrúmennsku, verður ekki annað séð en að málefnalegar ástæður hafi legið að baki þeirri ákvörðun, sem tekin var, og að meðalhófsreglunnar hafi verið gætt við meðferð málsins hjá varnaraðila. Verður því ekki fallist á það með sóknaraðilum að ekki hafi verið beitt vægari úrræðum samkvæmt 24. og 25. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 áður en gripið var til þeirrar vistunar utan heimilis sem mál þetta lýtur að.

Sóknaraðili B byggir jafnframt á því að úrskurður varnaraðila frá 5. mars 2013 hafi ekki fengið lögformlega málsmeðferð þar sem drengurinn hafi verið tekinn af heimili sínu 19. febrúar 2013 og þá hafi strax komið til greina að vista drenginn hjá móðurbróður hans, enda séu þeir mjög nánir. Með því að vista drenginn þess í stað á Vistheimili barna hafi barnavernd brotið gegn 80. gr. barnaverndarlaga þar sem áskilið sé að velja eigi heimili af kostgæfni og með tilliti til þarfa og hagsmuna barnsins. Telur sóknaraðili jafnframt að barnavernd hafi með þessum hætti brotið gegn 1. mgr. 4. gr. laganna. Ekki verður séð að þessi málsástæða varði ágreiningsefni máls þessa sem lýtur að vistun drengsins utan heimilis og verður því ekki úr þessu álitaefni skorið í málinu. Er málsástæðu þessari því hafnað.

Í skýrslu sinni hér fyrir dóminum kvaðst sóknaraðili, A, ekki hafa neytt vímuefna síðan 19. febrúar sl. Frá þeim tíma hafi hún leitað sér aðstoðar vegna vímuefnavanda síns, m.a. með því að hafa sótt meðferð á Landspítala og með þátttöku í starfi AA-samtakanna, í hjálparstarfi United Reykjavík fyrir fólk, sem berst gegn áfengis- og vímuefnavanda, sem og í kirkjunni. Hún kvað sér ganga vel og væri hún nú komin í 9. spor svonefnds 12 spora kerfis. Framlögð gögn styðja framburð sóknaraðila að þessu leyti. Samkvæmt staðfestingarvottorði áfengis- og vímuefnaráðgjafa á Landspítala, dagsettu 9. apríl sl., hefur sóknaraðili, A, mætt í meðferðarskyni í stuðningshóp á göngudeild fíknisviðs sjúkrahússins fjóra daga í viku í klukkustund í senn. Kemur fram að hún hafi mætt vel undanfarið og sýnt framfarir og einlægni. Þá liggur fyrir í gögnum málsins að sóknaraðili B hefur verið í meðferðarferli á göngudeild fíknisviðs Landspítala frá 7. mars sl. og þá var hann um miðjan síðasta mánuð byrjaður á Teigi.

E, félagsráðgjafi hjá Barnavernd Reykjavíkur, sagði í skýrslu sinni hér fyrir dóminum að sóknaraðili B hefði leitað sér meðferðar vegna vímuefna vanda síns en sóknaraðili, A, hefði ekki farið í meðferð heldur hefði hún eingöngu sótt aðstoð í stuðningsúrræði á Landspítala. Eins og hér að framan er rakið, taldi vitnið að báðir foreldrar þyrftu á frekari meðferð við vímuefnavanda sínum að halda og að í ljósi fyrri sögu um vímuefnaneyslu væri nauðsynlegt að þau sýndu fram á lengri tíma edrúmennsku og stöðugleika áður en þau fengju drenginn til sín. Aðalvandi sóknaraðila fælist í vímuefnafíkn þeirra.

Ljóst er að erfiðleikar drengsins eiga rætur að rekja til vímuefnaneyslu sóknaraðila og óöryggis á heimili drengsins árum saman vegna þess og eru afskipti varnaraðila af högum hans að mestu leyti þannig til komin. Bera fjölmörg gögn málsins það með sér. Í ljósi orsaka erfiðleika og aðstæðna drengsins, sem ekki sýnist ágreiningur um, verður ekki talið að einhvers konar sérstök rannsókn á heimilisaðstæðum sóknaraðila eða móðurbræðra drengsins umfram þá, sem gögn málsins sýna að farið hefur fram á umliðnum árum, hefði breytt nokkru sem máli skiptir um mat barnaverndaryfirvalda nú á nauðsyn vistunar drengsins utan heimilis. Að þessu virtu og gögnum málsins að öðru leyti er ekki fallist á með sóknaraðilum að varnaraðili hafi ekki séð til þess að málið væri nægjanlega upplýst áður en ákvörðun var tekin í því, sbr. rannsóknarreglu stjórnsýslulaga og ákvæði 1. mgr. 41. gr. barnaverndarlaga.

Markmið það, sem að er stefnt með vistun drengsins utan heimilis, er að tryggja að hann búi við öruggar og stöðugar aðstæður meðan unnið er að því að sóknaraðilar nái stöðugum bata að því er varðar fíknivanda þeirra og jafnframt meðan sóknaraðilar eflast í foreldrahlutverkinu og sambúð sinni. Í ljósi alls framangreinds er það mat dómsins að því markmiði hafi enn ekki verið náð. Að öllu framangreindu virtu er það því niðurstaða dómsins að skilyrði séu til þess samkvæmt b-lið 1. mgr. 27. gr., sbr. 1. mgr. 28. gr., barnaverndarlaga nr. 80/2002 að vista drenginn C utan heimilis sóknaraðila. Með sömu rökum er jafnframt fallist á það mat varnaraðila að sú vistun drengsins á fósturheimili á vegum varnaraðila standi til 6. september nk.

Í kröfu sóknaraðila, A, um að umræddur úrskurður varnaraðila verði ógiltur með úrskurði dómara, er þess jafnframt krafist að framkvæmd úrskurðarins verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir dómi. Er þeirri kröfu til stuðnings vísað til ákvæða 2. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga. Ákvæði 64. gr. lúta að málskoti úrskurðar héraðsdómara til Hæstaréttar Íslands og verður því að fallast á það með varnaraðila að ákvæðið eigi ekki við um kröfu sóknaraðila. Er enda málsókn sóknaraðila byggð á ákvæðum 2. mgr. 27. gr. laganna en þar er tekið fram að málskot til dómstóla komi ekki í veg fyrir að úrskurður barnaverndarnefndar komi til framkvæmda. Verður framangreindri kröfu um frestun því hafnað.

Varnaraðili gerir ekki kröfu um málskostnað. Rétt þykir að málskostnaður milli aðila falli niður. Sóknaraðilar krefjast í greinargerðum sínum málskostnaðar eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál og vísa til ákvæða 60. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 því til stuðnings. Í XI. kafla laganna segir í 61. gr. að um meðferð mála samkvæmt kaflanum, sem fjallar um málsmeðferð fyrir dómi samkvæmt 27. og 28. gr. laganna, gildi ákvæði X. kafla eftir því sem við geti átt. Í tilvitnuðu ákvæði 60. gr. í X. kafla segir að foreldrar skuli hafa gjafsókn fyrir héraðsdómi og Hæstarétti.

                Sóknaraðilar hafa lögbundna gjafsókn í málinu, sbr. ákvæði 61., sbr. 1. mgr. 60. gr., laga nr. 80/2002. Sóknaraðili, A, fékk gjafsókn í málinu með bréfi innanríkisráðuneytinu, dagsettu 2. maí 2013. Sóknaraðili B fékk gjafsókn í málinu með bréfi innanríkisráðuneytisins, dagsettu 2. maí 2013. Í málinu liggja frammi tímaskýrslur lögmanna sóknaraðila vegna málsins. Að þessu virtu telst málflutningsþóknun lögmanns sóknaraðila, A, Kristjönu Jónsdóttur hdl., hæfilega ákveðin 640.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og skal hún greidd úr ríkissjóði. Málflutningsþóknun lögmanns sóknaraðila B, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl, telst hæfilega ákveðin 410.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og skal hún greidd úr ríkissjóði.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. 

                                                               Ú R S K U R Ð A R O R Ð

          Hafnað er kröfu sóknaraðila, A, um að ógiltur verði úrskurður varnaraðila, Barna­verndar­nefndar Reykjavíkur, frá 5. mars 2013 um vistun C, sonar hennar og sóknaraðila, B, í allt að tvo mánuði.

          Hafnað er kröfu beggja sóknaraðila um að framkvæmd úrskurðar Barnverndarnefndar Reykjavíkur verði frestað meðan mál þetta er til meðferðar fyrir dómi.

          Fallist er á kröfu varnaraðila um að sonur sóknaraðila verði vistaður á fósturheimili á vegum varnaraðila frá 5. maí 2013 til 6. september 2013.

          Málskostnaður fellur niður.

          Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, A, sem er málflutningsþóknun lögmanns hennar, Kristjönu Jónsdóttur hdl., 640.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.    

          Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila B, sem er málflutningsþóknun lögmanns hans, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., 410.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.