Hæstiréttur íslands
Mál nr. 629/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. september 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. september 2016, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 16. september 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími og að honum verði ekki gert að sæta einangrun meðan á því stendur.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Fallist er á með sóknaraðila að fullnægt sé skilyrðum 2. mgr. 98. gr. laga nr. 88/2008 til að varnaraðili sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Með þessari athugasemd, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. september 2016
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess fyrir dóminum í dag að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 16. september 2016 kl. 16:00. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Kærði mótmælir kröfunni.
Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu segir að í gær, föstudaginn 9. september 2016, hafi lögregla haft afskipti af X þar sem hann hafi verið staddur við iðnaðarhúsnæði við [...]. Lögreglu hafi áður borist upplýsingar frá aðilum sem áður hafi gefið lögreglu trúverðugar upplýsingar og hún meti trúverðugt að þar innandyra færi fram umfangsmikil framleiðsla fíkniefna. Lögreglumenn sem hafi verið við húsnæðið hafi einnig fundið þar mikla kannabislykt þannig að ekki hafi verið um að villast hvað þar færi fram.
Umrætt iðnaðarbil sé í eigu [...], sem sé skammstöfun fyrir nöfn feðganna X, A og B. Samkvæmt fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra séu þeir X og A í stjórn þess.
Er lögreglumenn hafi gefið sig á tal við X hafi hann sagst vera að sækja rúmföt í geymsluhúsnæði. Hann hafi verið spurður út í hvaða starfsemi færi fram þarna í nágrenninu og hafi hann getað svarað því varðandi öll iðnaðarrýmin í kring, en sagðist ekkert vita um rýmið sem félag hans átti. Aðspurður hafi hann sagt eitthvað félag eiga það og að hann vissi ekki hvað þar færi fram. X hafi gengið með lögreglumönnum inn í rýmið þar sem hann hafi sagst vera að ná í rúmföt. Þar hafi mátt sjá geymslurými, salerni með sturtuaðstöðu, kaffistofu og skrifstofuherbergi og ein hurð sem hafi verið læst. Mikil óreiða hafi verið þarna, sjá mátti ræktunartengdan varning þarna og heyra mátti nið í viftum sem og finna megna kannabislykt.
X, sem hafi virst nokkuð stressaður í samskiptum sínum við lögreglu, hafi neitað að vera með lykla að hurðinni sem hafi verið læst og neitað í fyrstu að afhenda lögreglu lykla sem hann hafi haft meðferðis en afhent síðan lykla sem ekki hafi gengið að hurðinni en lögreglumenn hafi séð að það væru ekki sömu lyklar og hann hafi skömmu áður notað til að komast inn í húsnæðið. X hafi í kjölfarið verið handtekinn og á honum fundist lyklar að læstu hurðinni.
Þegar gengið hafi verið inn um hurðina hafi blasað við umtalsverð kannabisræktun sem hafi verið tilbúin til uppskeru, umtalsvert magn af búnaði og einnig umtalsvert magn af tilbúnu kannabisefni sem að miklum hluta hafi verið pakkað í sölueiningar. Inni í rýminu hafi þeir C og D verið sem báðir hafi verið að klippa niður laufblöð af plöntum þegar lögregla hafi komið að þeim. Þeir hafi báðir verið íklæddir hvítum heilgöllum og hafi mátti sjá að þeir hafi einungis verið í nærbuxum einum fata innanundir og einnota hanska á höndum sem búið hafi verið að líma með límbandi við gallanna. Hafi þeir einnig verið handteknir vegna málsins. Síðar um kvöldið hafi A, sonur X og einn eigenda [...] verið handtekinn og fyrr í dag hafi B, einnig sonur X verið handtekinn.
Búið sé að taka framburðarskýrslur af öllum handteknu. Í framburði þeirra hafi komið fram ósamræmi og meti lögregla framburð X ótrúverðugan. Framburður sumra aðila málsins um þátt X séu samhljóða. Rannsókn málsins sé enn á frumstigi og enn eigi eftir að taka frekari skýrslur af X sem og öðrum aðilum og bera undir hann framburð annarra aðila málsins sem og önnur sönnunargögn sem lögregla hafi lagt hald á og sum hver sem enn eigi eftir að rannsaka ránar og/eða afla. Eins telji lögregla að fleiri aðilar tengist þessu máli og að hafa þurfi upp á þeim og taka af þeim skýrslur. Að mati lögreglu megi ætla að ef kærði verði látinn laus muni hann eiga þess kost að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að ræða við samverkamenn og vitni og hafa áhrif á framburð þeirra eða koma undan munum. Rannsókn málsins sé á viðkvæmu stigi og afar brýnt að krafa lögreglustjóra verði tekin til greina,
Með vísan til framangreinds sem og framlagðra gagna krefst lögreglustjóri að framangreind krafa hans verði tekin til greina eins og hún er sett fram en lögreglustjóri telur X vera undir rökstuddum grun um að hafa gerst brotlegan við 2. gr., sbr. 4., 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 64/1974 og 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en brot gegn því ákvæði getur varðað allt að 12 ára fangelsi. Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Um heimild til einangrunar á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur er vísað til 2. mgr. 98. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga.
Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við. Rannsókn málsins er á frumstigi. Haldi kærði óskertu frelsi sínu gæti hann torveldað rannsókn málsins með því að hafa áhrif á samseka eða koma sönnunargögnum undan. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er því fallist á kröfur lögreglustjóra eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 16. september 2016 kl. 16:00.
Kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.