Hæstiréttur íslands

Mál nr. 84/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðför


Miðvikudaginn 9

 

Miðvikudaginn 9. mars 2005.

Nr. 84/2005.

Gunnar Ólafsson

(Gunnar Jóhannsson hdl.)

gegn

sýslumanninum í Hafnarfirði

(Bogi Hjálmtýsson fulltrúi)

 

Kærumál. Aðför.

Réttaráhrif sem tengdust árangurslausu fjárnámi hjá G féllu niður, er liðnir voru þrír mánuðir frá því það var gert, án þess að krafist væri gjaldþrotaskipta á búi hans. S gat gert fjárnám að nýju hjá G án þess að þörf væri á að endurupptaka eldra fjárnámið til þess að fella það úr gildi. Fallist var á að síðara fjárnámið hafi verið nýtt fjárnám en ekki endurupptaka á hinu eldra, en S taldi sig hafa ástæðu til að ætla að eignum væri til að dreifa í búi G og til þess að draga þær inn í búið þyrfti að rifta sölu G á íbúð sinni til sona sinna. Voru því ekki skilyrði til að fella úr gildi síðara fjárnámið líkt og krafa G laut að.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 18. febrúar 2005, sem barst réttinum 1. mars sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. febrúar 2005, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að ógilt yrði árangurslaus aðfarargerð hjá honum 19. febrúar 2004. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að framangreind aðfarargerð verði felld úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar úrskurðar héraðsdóms og kærumálskostnaðar.

Með vísun til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Gunnar Ólafsson, greiði varnaraðila, sýslumanninum í Hafnarfirði, 100.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. febrúar 2005.

Mál þetta var tekið til úrskurðar 15. desember s.l. að loknu munnlegum málflutningi.

Sóknaraðili er Gunnar Ólafsson, kt. 270646-6889, Skógarhlíð 2, Garðabæ, en varnaraðili er Sýslumaðurinn í Hafnarfirði, kt. 490169-5559, Bæjarhrauni 8, Hafnar­firði.

Sóknaraðili krefst þess að aðfarargerð nr. 036-2004-00352, sem fram fór án árangurs hjá sóknaðila 19. febrúar 2004 verði felld úr gildi.  Þá er jafnframt krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila að skaðlausu að mati réttarins.

Varnaraðili krefst þess að aðfarargerðin sem fram fór hjá sóknaraðila 19. febrúar 2004 verði staðfest og að sóknaraðili greiði varnaraðila málskostnað mat dómsins.

I.

Þann 21. maí 2003 var gert fjárnám hjá sóknaraðila vegna gjaldfallinna opinberra gjalda utan staðgreiðslu, sem höfðu verið endurákvörðuð fyrir árin 1996-1998. Gerðin var árangurslaus.

Þann 5. febrúar útbjó varnaraðili nýja aðfararbeiðni gegn sóknaraðila vegna sömu gjalda.  Gerðinni lauk þann 19. febrúar 2004 sem árangurslausri og var hún nr. 036-2004-00352. Gerðin fór fram að sóknaraðila viðstöddum, sem mótmælti framgangi hennar, þar sem lagaskilyrði væru ekki fyrir hendi til endurupptöku hinnar árangurslausu fjárnámsgerðar vegna sömu skattfjárhæðar, sem fram fór 21. maí 2003, en hann hefði tekið fram að hann væri eignalaus og gjaldþrota.

Fram kemur hjá varnaraðila að ástæða síðari gerðarinnar hafi verið grunur um að sóknaraðili hafi selt eignina Skógarhæð 2, Garðabæ í febrúar 2002 til sona sinna og væri þar hugsanlega um riftanlegan gerning að ræða, en sóknaraðili búi og hafi búið á eigninni a.m.k. síðustu 12 árin og er útgefandi og greiðandi veðskulda sem á eigninni hvíla.  Talið var nauðsynlegt að óska eftir gjaldþrotaskiptum á búi sóknaraðila svo að riftun gæti náð fram að ganga, en þar séu 3ja mánaða réttaráhrif fyrra fjárnámsins voru útrunnin, hafi ekki verið um annað að ræða en gera nýja aðfararbeiðni.

Frestdagur til riftunar var svo nýlega liðinn, er til þess skyldi taka að óska gjaldþrotaskipta á búi sóknaraðila og því horfið frá því.

II.

1. Kröfur sóknaraðila eru í fyrsta lagi á því byggðar að lagaskilyrði til framkvæmda fjárnámsins hafi ekki verið fyrir hendi.  Hin fyrri árangurslausa fjárnámsgerð stóð óhögguð, þegar síðari árangurslausa fjárnámsgerð var framkvæmd.  Enga heimild sé að finna í aðfararlögunum til að taka fyrri fjárnámsgerðina upp að nýju og halda henni áfram.eins og gert hafi verið 19. febrúar 2004.  Sé þess því krafist að síðari fjárnámsgerðin verði felld úr gildi af þeirri ástæðu.           

Á því sé byggt að engin ný gögn eða nýjar upplýsingar hafi komið fram, sem ekki lágu fyrir, þegar fyrri fjárnámsgerðin fór fram 21. maí 2003. M.a. hafi sóknaraðili verið gjaldþrota allan tímann og engar eignir komið síðar fram.  Þá liggi tilgangur með síðari aðfarargerðinni ekki fyrir og fyrri fjárnámsgerð sé neikvæðum réttaráhrifum.  Sama beiðni og áður hafi komið fram um valdbeitingarathöfn verði ekki að óbreyttu borin á ný undir sama valdhafa, sem þegar hafi tekið ákvörðun sína um hana.  Bent sé á að litið hafi verið svo á, að neikvæð réttaráhrif stjórnsýslu­ákvarðana og úrskurða séu veikari en neikvæð réttaráhrif, þar sem nýjar upplýsingar geti leitt til þess að hin neikvæðu réttaráhrif falli niður.  Með nýjum upplýsingum sé bæði átt við málsástæður, sem gerst hafa eftir að hin fyrri ákvörðun var tekin og málsástæður sem þá hefðu getað komið fram, en komu ekki fram.  Í því skilyrði fyrir niðurfalli neikvæðra réttaráhrifa, að nýjar upplýsingar þurfi að liggja fyrir, sé talið felast, að skoðanaskipti ákvörðunaraðila ein felli ekki réttaráhrifin niður.

Á það sé bent, að heimildir til endurupptöku fjárnáms séu tæmandi taldar upp í 65.-67. gr. aðfararlaganna nr. 90/1989.  Þær veiti enga heimild til þeirrar fjárnáms­gerðar, sem fram fór 19. febrúar 2004 og málið snýst um.  Aðrar lagareglur veiti ekki heldur heimild til þess.

Þannig sé á því byggt að sýslumaður hefði átt að stöðva framkvæmd síðara fjárnámsins, sbr. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 90/1989. um aðför, svo sem gerðarþoli þá krafðist.

Varðandi málskostnaðarkröfu sé vísað til ákvæða XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.  Gerðarþoli reki ekki virðisaukaskattskylda starfsemi.

2. Varnaraðili byggir á því að samkvæmt 9. tl. 1. gr. laga um aðför nr. 90/1989 megi gera fjárnám fyrir kröfum um skatta sem innheimtir séu samkvæmt lögum af innheimtumönnum ríkissjóðs.  Almenn greiðsluáskorun hafi m.a. verið birt í dag­blöðum þann 16. janúar 2004.  Krafan hafi því verið aðfararhæf. Boðunarbréf dags. 10. febrúar 2004 hafi verið birt fyrir sóknaraðila þann 11. febrúar 2004 og sóknaraðili hafi sjálfur verið mættur við gerðina þar sem hann hafi lýst eignaleysi.  Ljóst megi því vera að formlega hafi verið rétt að öllu staðið við framkvæmd fjárnámsins.

Í greinargerð sóknaraðila virðist helst vera byggt á þremur atriðum.  Í fyrsta lagi sé á því byggt að ekki sé lagaheimild fyrir því að endurupptaka árangurslaust fjárnám sem fram hafi farið þann 21.05.2002 og sérstaklega sé vitnað til 65.-67. gr. aðfararlaga nr. 90/1989.  Í örðu lagi að sóknaraðili hafi verið gjaldþrota allan tímann og engar eignir komið fram síðar.  Í þriðja lagi að um sé að ræða stjórnsýsluákvörðun þar sem valdbeitingarathöfn verði ekki að óbreyttu borin á ný undir sama valdhafa sem þegar hefur tekið ákvörðun sína.

Hvergi í gögnum málsins komi fram að um endurupptöku á fjárnámi nr. 036-2002-05767 hafi verið að ræða og virðist þar gæta einhvers misskilnings hjá sóknaraðila.  Sé óskað eftir endurupptöku á fjárnámi þurfi að óska eftir því sérstaklega með skriflegum hætti þar sem getið er um á hvaða forsendum skv. 9. kafla aðfararlaga er óskað endurupptöku.  Málið sé þá endurupptekið undir sama málsnúmeri og ekki sé greitt aðfarargjald að nýju.  Í þessu máli hafi aldrei verið óskað eftir endurupptöku á eldra fjárnámi heldur verið gerð ný aðfararbeiðni, greitt fyrir að nýju og málinu gefið nýtt málsnúmer nr. 036-2004-00352 í þeim tilgangi sem í málavaxtalýsingu greini.

Rangar upplýsingar komi fram í greinargerð sóknaraðila um að gerðarþoli hafi verið gjaldþrota "allan tímann".  Samkvæmt upplýsingum frá héraðsdómi Reykjaness hafi sóknaraðili aldrei verið úrskurðaður gjaldþrota.

Aðfarargerðir fylgja sérstökum stjórnvalds- og réttarfarsreglum sem fram komi í aðfararlögum nr. 90/1989.  Þeim reglum verði á engan hátt jafnað við almennra stjórnsýslureglur hvorki skráðar né óskráðar.  Þannig eru stjórnsýslulög nr. 37/1993 ekki við um aðfarargerðir sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna.

Hvorki í aðfararlögum né öðrum lögum sé að finna heimildir sem banni kröfuhöfum að óska að nýju eftir aðför fyrir kröfu sem áður hefur verið gert árangurs­laust fjárnám fyrir.  Krafan þurfi að sjálfsögðu enn að vera aðfararhæf og uppfylla öll skilyrði aðfararlaga en tilgangur aðfararinnar þurfi ekki að vera annar en  að rjúfa fyrningu kröfunnar.

III.

Fjárnám það, sem gert var án árangurs hjá sóknaraðila 21. maí 2003 leiddi ekki til kröfugerðar um að bú sóknaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta og hefur enn ekki verið gerð krafa um það við Héraðsdóm Reykjaness. Telja verður að þau réttaráhrif, sem gátu tengst hinu árangurslausa fjárnámi hafi fallið niður, er liðnir voru þrír mánuðir frá því að það væri gert án þess að krafist væri gjaldþrotaskipta á búi sóknaraðila. Varnaraðili gat eftir það gert fjárnám að nýju hjá sóknaraðila án þess að þörf væri á að endurupptaka fjárnámið frá 21. maí 2003 til að fella það úr gildi.  Fallist er á það með varnaraðila að fjárnámið sem gert var hjá sóknaraðila 19. febrúar 2004, hafi verið nýtt fjárnám, óháð hinu eldra og ekki endurupptaka á því.  Varnaraðili taldi sig hafa ástæðu til að ætla að eignum væri til að dreifa í búi sóknaraðila, en til þess að draga þær inn í búið þyrfti að rifta sölu sóknaraðila á íbúð sinni til sona sinna.  Á grundvelli þess að hið fyrra fjárnám var árangurslaust þykja hafa verið skilyrði til að gera hið yngra fjárnám án þess að fella hið eldra úr gildi og breytir engu þar um, þó að grunni til sé um sömu skattkröfurnar að ræða.  Svo sem fram kemur í greinargerð varnaraðila var í alla staði staðið rétt að fjárnáminu og tilvitnun sóknaraðila í stjórnsýslulög á ekki við um þetta efni sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 37/1993.

Það þykja því ekki skilyrði til að fella úr gildi aðfarargerðina sem fram fór hjá sóknaraðila 19. febrúar 2004 og er kröfu sóknaraðila þar um hrundið.

Eftir þessum úrslitum er sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðila 100.000 krónur í málskostnað.

Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari kvað upp dóminn.

ÚRSKURÐARORÐ

Kröfu sóknaraðila um að aðfarargerð sem gerð var hjá honum án árangurs 19. febrúar 2004 verði ógilt er hafnað og gerðin staðfest.

Sóknaraðili, Gunnar Ólafsson, greiði varnaraðila, Sýslumanninum í Hafnarfirði 100.000 krónur í málskostnað.