Hæstiréttur íslands
Mál nr. 824/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
|
|
Miðvikudaginn 6. janúar 2016. |
|
Nr. 824/2015.
|
Arkís arkitektar ehf. og Henning Larsen Architects AS (Jóhannes Karl Sveinsson hrl.) gegn Grunnstoðum ehf. (Sigurður S. Júlíusson hrl.) |
Kærumál. Dómkvaðning matsmanns.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem tekin var til greina krafa G ehf. um dómkvaðningu matsmanns til að leggja mat á nánar tilgreind atriði í máli sem G ehf. höfðaði á hendur A ehf. og H til greiðslu skaðabóta vegna ætlaðra galla á hönnun á loftræsti- og ofnakerfi fasteignar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 3. desember 2015, en kærumálsgögn bárust réttinum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. nóvember 2015, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um dómkvaðningu matsmanns. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að kröfu varnaraðila verði hafnað og þeim dæmdur kærumálskostnaður.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærðar úrskurðar og kærumálskostnaðar óskipt úr hendi sóknaraðila.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum höfðaði varnaraðili málið 9. febrúar 2015 og var það þingfest 5. mars sama ár. Sóknaraðilar tóku til varna í málinu með greinargerð sem lögð var fram á dómþingi 9. júní 2015, en varnaraðili lagði fram beiðni um dómkvaðningu matsmanns í næsta þinghaldi í málinu 18. september sama ár. Með þessum athugasemdum verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.
Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, Arkís arkitektar ehf. og Henning Larsen Architects AS, greiði óskipt varnaraðila, Grunnstoðum ehf., 400.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. nóvember 2015.
Á dómþingi þann 18. september sl. lagði stefnandi fram beiðni um dómkvaðningu matsmanna. Í þinghaldi sem fram fór 30.október sl., mótmæltu stefndu matsbeiðninni og kröfðust þess að henni yrði hafnað. Lögmenn reifuðu sjónarmið sín um þetta álitaefni í sama þinghaldi og var málið tekið til úrskurðar að því loknu.
Í máli þessu krefur stefnandi stefndu um greiðslu skaðabóta að fjárhæð 297.092.408 kr. ásamt tilgreindum vöxtum og dráttarvöxtum. Kröfu sína byggir stefnandi á því að loftræsti- og ofnakerfi fasteignarinnar að Menntavegi 1, sem hýsir Háskólann í Reykjavík, sé gallað og þá galla megi rekja til hönnunar þessara kerfa sem stefndu sáu um samkvæmt samningi við Eignarhaldsfélagið Fasteign ehf. sem gerður var 13. apríl 2007. Eignarhaldsfélagið Fasteign sem var upphaflega eigandi fasteignarinnar seldi stefnanda, sem áður hét EFF 4, eignina með kaupsamningi dagsettum 24. janúar 2013.
Stefnandi kveður að fljótlega eftir að byggingin var tekin í notkun hafi tekið að bera á annmörkum, m.a. í loftræsti-og ofnakerfi hússins. Stefnandi kveður rannsóknir hans og fyrri eiganda hafi leitt í ljós margvíslega hönnunargalla á kerfunum og hafi tilraunir til úrbóta á þeim ekki skilað fullnægjandi árangri.
Stefnandi byggir kröfur sínar í málinu á því að stefndu beri sameiginlega og óskipta skaðabótaábyrgð á þeim göllum sem komið hafi í ljós á loftræsti- og hitakerfi hússins en stefndi hafi fengið kröfu sína framselda frá öðrum kröfuhöfum fyrir málshöfðun þessa. Um sé að ræða vanefnd á framangreindum hönnunarsamningi sem veiti stefnanda rétt til skaðabóta, eða til vara afsláttar, og vísar hann í því sambandi til almennra reglna kröfuréttar um skaðabætur innan samninga og einnig fasteignakaupalaga nr. 40/2002. Þá styður hann fjárkröfu sína gögnum um kostnað sem hann kveður hafa verið lagt í til að bæta úr ágöllum og mat á frekari úrbótum sem hann kveður vera nauðsynlegar. Meðal gagna sem stefnandi byggir á er matsgerð VSB
verkfræðistofu frá 15. maí 2014. Þá áskilur stefnandi sér í stefnu að óska dómkvaðningar matsmanna gefi varnir stefndu tilefni til þess.
Stefndu krefjast sýknu í málinu. Byggja stefndu sýknukröfu sína m.a. á því að stefnandi hafi ekki lagt fram viðhlítandi sönnunargögn til stuðnings bótakröfu sinni, hvorki hvað varðar bótagrundvöll né fjárhæðir. Stefndu hafna því að matsgerð VSB verkfræðistofu, sem stefnandi hafi aflað einhliða og utan réttar, sé haldbært sönnunargagn auk þess sem gögn málsins séu innbyrðis ósamrýmanleg í grundvallaratriðum. Þá byggja stefndu sýknukröfu sína einnig á því að krafa stefnanda sé fyrnd eða fallin niður fyrir tómlæti. Auk þess er á því byggt að sýkna beri annan stefnda, Arkís arkitektar ehf., vegna aðildarskorts.
Með hinu umbeðna mati kveðst stefnandi ætla að afla staðfestingar á því að loftræsikerfi, hitakerfi og gólfum í fasteigninni að Menntavegi 1 í Reykjavík sé verulega ábótavant og að hönnun þeirra hafi verið ófullnægjandi. Jafnframt hyggst hann fá staðreynt hverjar séu orsakir þess að umræddum kerfum og gólfum er ábótavant, hvað þurfi til að bæta úr og hver kostnaðurinn við það sé. Í matsbeiðninni eru matsspurningar settar fram með eftirfarandi hætti:
A. Loftræsikerfi
Notendur hússins að Menntavegi 1 í Reykjavík hafa ítrekað kvartað yfir of miklum hita í fyrirlestrarsölum, kennslustofum og starfsmannaaðstöðu og hávaða frá loftræsikerfi. Við skoðun hafa komið í ljós annmarkar á kerfinu, m.a. að innihiti í fyrirlestrarsölum verður alltof hár, einkum þegar salir eru þéttsetnir og sól er úti, hljóð eða hávaði berist frá kerfinu og NaVentkerfi sem truflar kennslu, náttúruleg loftræsing kerfisins virkar ekki sem skyldi og afköst lofræsikerfisins og stýring loftmagns er ekki nægileg. Til að reyna að tryggja eðlilega loftræsingu og starfsemi í húsinu neyddist matsbeiðandi til að ráðast í nokkrar úrbætur, en m.a. var skipt um flæðinema, stýringum samstæða var breytt auk þess sem settur var kælibúnaður á þær. Þá voru settir mótorlokar á ofna í fyrirlestrarsölum, eftirhitarar á innblástur frá gólfi og opnanleg fög. Nánari lýsing á annmörkum kerfisins og úrbótum er að finna í stefnu málsins á dskj. 1 og gögnum málsins.
Með hliðsjón af þessu er óskað eftir að matsmenn meti eftirfarandi:
(a) Óskað er eftir því að matsmenn staðreyni að loftræsikerfið sé haldið annmörkum og að annmarka þessa sé að rekja til ófullnægjandi hönnunar. Jafnframt er óskað eftir því að matsmenn meti hvaða úrbóta sé þörf til að bæta úr annmörkunum og hver sé kostnaðurinn við þær úrbætur.
(b) Jafnframt er óskað eftir því að matsmenn meti hvort nauðsynlegt eða eðlilegt hafi verið að ráðast í þær rannsóknir og úrbætur sem þegar hefur verið ráðist í á kerfinu og hvort kostnaður við þær sé sanngjarn og eðlilegur.
Ef talið er að ekki hafi verið nauðsynlegt eða eðlilegt að ráðast í þær rannsóknir og úrbætur sem ráðist var í, eða að kostnaðurinn við þær sé ekki sanngjarn og eðlilegur, er óskað mats á því hvaða kostnað var nauðsynlegt og eðlilegt að ráðast í og hver sé sé sanngjarn og eðlilegur kostnaður vegna þess.
(c) Þá er óskað eftir því að matsmenn meti hver kostnaður við úrbæturnar skv. framangreindum liðum (a) og (b) sé að frádregnum þeim kostnaði, sem fallið hefði til, ef loftræsikerfið hefði verið hannað með fullnægjandi hætti fyrir eða samhliða byggingu hússins.
B. Ofnakerfi
Notendur hússins að Menntavegi 1 í Reykjavík hafa ítrekað kvartað yfir of miklum kulda í fyrirlestrarsölum, kennslustofum og starfsmannaaðstöðu. Við skoðun hafa komið í ljós annmarkar á hitakerfi hússins, m.a. stíflur í ofnum og ofnkrönum þannig að ofnar virkuðu ekki sem skyldi. Er þetta rakið til tæringar í kerfinu. Nauðsynlegt var að ráðast í úrbætur til að forða frekara tjóni á kerfinu og til þess að starfsemi í húsnæðinu gæti haldist óbreytt. Þannig var hitakerfinu breytt úr lokuðu hringrásarkerfi með frostlegi í gegnumstreymiskerfi eftir ítarlegar rannsóknir. Í því skyni var m.a. skipt út pakkdósum í panelofnum, börkum og tengingum. Nánari lýsing á annmörkum þessum og úrbótum er að finna í stefnu málsins á dskj. 1 og gögnum málsins.
Með hliðsjón af þessu er óskað eftir að matsmenn meti eftirfarandi:
(a) Óskað er eftir því að matsmenn staðreyni eftir því sem unnt er að hitakerfið í húsnæðinu að Menntavegi 1 í Reykjavík hafi verið haldið annmörkum og hvort annmarka þess megi rekja til ófullnægjandi hönnunar. Þá er óskað eftir því að matsmenn meti hvort nauðsynlegt eða eðlilegt hafi verið að ráðast í þær rannsóknir og úrbætur sem ráðist var í og hvort kostnaður við þær hafi verið sanngjarn og eðlilegur.
Ef talið er að ekki hafi verið nauðsynlegt eða eðlilegt að ráðast í þær rannsóknir og úrbætur sem ráðist var í, eða að kostnaðurinn við þær sé ekki sanngjarn og eðlilegur, er óskað mats á því hvaða kostnað var nauðsynlegt og eðlilegt að ráðast í og hver sé sé sanngjarn og eðlilegur kostnaður vegna þess.
(b) Jafnframt er óskað eftir því að matsmenn staðreyni hvort hitakerfið sé enn haldið annmörkum og að annmarka þessa megi rekja til ófullnægjandi hönnunar, hvaða úrbóta sé þörf til að bæta úr þeim og hver sé kostnaður við þær úrbætur.
(c) Jafnframt er óskað eftir því að matsmenn meti eðlilegan og sanngjarnan kostnað við úrbæturnar skv. framangreindum liðum (a) og (b) að frádregnum þeim kostnaði, sem fallið hefði til, ef hitakerfið hefði verið hannað með fullnægjandi hætti fyrir eða samhliða byggingu hússins.
C Gólf
Sprungur eru víðsvegar í húsnæðinu að Menntavegi 1 í Reykjavík, langt umfram það sem eðlilegt getur talist. Með hliðsjón af þessu er óskað eftir að matsmenn meti eftirfarandi:
(a) Óskað er eftir því að matsmaður staðreyni að sprungur séu í gólfum húsnæðisins og hvort annmarka þessa megi rekja til ófullnægjandi hönnunar. Jafnframt til hvaða úrbóta sé þörf til að bæta úr þeim og hver sé kostnaðurinn við þær úrbætur.
(b) Jafnframt er óskað eftir því að matsmenn meti eðlilegan og sanngjarnan kostnað við úrbæturnar að frádregnum þeim kostnaði, sem fallið hefði til, ef gólf hefðu verið hönnuð með fullnægjandi hætti fyrir eða samhliða byggingu hússins.
D. Annað
Þá er óskað eftir því að matsmenn meti kostnað vegna rasks og óþæginda vegna þeirra úrbóta sem nauðsynlegt kann að vera að ráðast í, auk kostnaðar vegna endurhönnunar sem kann að vera nauðsynlegt að láta fara fram í tengslum við allt framangreint.
Stefndu mótmæla því að matsbeiðnin nái fram að gagna. Byggja þeir á því að stefnandi hafi haft nægan tíma til að afla sönnunargagna á þeim fimm árum sem liðin eru frá verklokum. Dómkvaðning matsmanna á grundvelli fyrirliggjandi matsgerðar muni tefja málið verulega og sé það í andstöðu við meginreglu réttarfars sem fram kemur í 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991, um að aðilar skuli tefla fram kröfum og öðrum gögnum, þ.á.m. sönnunargögnum, svo fljótt sem kostur er. Þá séu möguleikar stefndu til að setja fram markvissar varnir skertar ef byggja eigi málið upp að nýju með því að meta þau atriði sem eru grundvöllur málsins í matsgerð á þessu stigi máls. Stefnanda hafi mátt vera ljóst á fyrri stigum málsins að sjónarmiðum hans yrði hafnað og honum hafi því borið að leggja fullnægjandi grunn að máli sínu þegar við þingfestingu þess.
Þá byggja stefndu á því að matsspurningar séu óljósar og mjög almenns eðlis og skorti á að viðhlítandi grein hafi verið gerð fyrir þýðingu þeirra fyrir sakarefni málsins sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991.
Forsendur og niðurstaða
Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 hafa málsaðilar forræði á sönnunarfærslu í einkamálum og ráða því þar með hvernig þeir færa fram sönnun fyrir atvikum sem deilt er um. Í samræmi við það hefur aðilum verið játaður víðtækur réttur til að afla matsgerða undir rekstri máls til að færa sönnur á staðhæfingar sínar, enda beri þeir áhættu af sönnunargildi matsgerðarinnar og standi straum af kostnaði við öflun hennar.
Í þessu máli hefur stefnandi lagt fram fjölda gagna sem hann kveður styðja málatilbúnað sinn, m.a. skýrslur matsmanna, sem aflað var einhliða af hans hálfu sem er ætlað að styðja kröfur hans hvað varðar bótagrundvöll og bótafjárhæð. Ekkert er því til fyrirstöðu að stefnandi afli frekari sönnunar með matsgerð dómkvaddra matsmanna undir rekstri málsins, m.a. með með hliðsjón af vörnum stefndu, enda er í réttarfarslögum beinlínis gert ráð fyrir því sem meginreglu að matsgerða sé aflað undir rekstri máls, sbr. IX. kafla laga nr. 91/1991. Breytir engu um þennan rétt þótt sýnt sé að mögulegt hafi verið að afla matsgerðar fyrir þingfestingu málsins eftir reglum IX. kafla laganna.
Stefnandi gerði grein fyrir því í stefnu að hann kynni að óska eftir dómkvaðningu matsmanna og lagði fram matsbeiðni við fyrstu fyrirtöku málsins eftir að því var úthlutað til dómara. Verður beiðni um dómkvaðningu því ekki hafnað á þeirri forsendu að hún tefji málarekstur umfram það sem óhjákvæmilegt er vegna þess tíma sem tekur að vinna matsgerðina.
Þá byggja stefndu á því að matspurningar séu óljósar, of almenns eðlis og ekki hafi verið gerð nægileg grein fyrir þýðingu þeirra fyrir sakarefni málsins. Matspurningar hafa þegar verið raktar hér að framan. Þær lúta að ætluðum göllum á loftræsti- og hitakerfi fasteignarinnar og orsökum þeirra, kostnaði við úrbætur og mati á því hvort þegar gerðar úrbætur hafi verið nauðsynlegar og kostnaður þeirra eðlilegur. Þá er óskað mats á ástandi gólfsins og hvort það megi rekja til ófullnægjandi hönnunar og kostnaði af úrbótum. Loks er óskað eftir mati á kostnaði vegna rasks og óþæginda og endurhönnunar, telji matsmenn það nauðsynlegt. Allt framangreint er í beinum tengslum við dómkröfur stefnanda sem byggir fjárkröfu sína á því að fasteignin sé haldin göllum á þessu sviði og jafnframt að þá megi rekja til galla í vinnu stefndu. Er því hvorki fallist á að matspurningarnar séu óljósar eða ótengdar úrslausn sakarefnisins. Þá verður ekki séð að matsgerð á grundvelli matsbeiðninnar raski grundvelli málsins svo sem stefndu halda fram enda lúta þær að sömu atriðum og byggt er á í stefnu og stefndi leitast við að sýna fram á í fyrirliggjandi skýrslum og matsgerðum.
Samkvæmt framansögðu er ekki fallist á mótmæli stefndu við umbeðnu mati og mun dómkvaðning matsmanna fara fram í samræmi við beiðni stefnanda.
Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Fallist er á beiðni stefnanda um dómkvaðningu matsmanna.