Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-110

Íslenskir aðalverktakar hf. (Hjördís Halldórsdóttir lögmaður)
gegn
Reykjavík Development ehf. (Bjarki Þór Sveinsson lögmaður), og til réttargæslu Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúsi ohf. (Baldvin Björn Haraldsson lögmaður), Landey ehf. (Óskar Sigurðsson lögmaður) og Situs ehf. (Lúðvík Örn Steinarsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Eignarréttur
  • Kröfuréttur
  • Verksamningur
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 22. mars 2019 leita Íslenskir aðalverktakar hf. eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 28. febrúar sama ár í málinu nr. 468/2018: Íslenskir aðalverktakar hf. gegn Reykjavík Development ehf. og gagnsök og til réttargæslu Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúsi ohf., Situs ehf. og Landey ehf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Reykjavík Development ehf. og Landey ehf. leggjast gegn beiðninni. Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús ohf. og Situs ehf. telja að verða eigi við umsókn um áfrýjunarleyfi.

Í málinu krefst leyfisbeiðandi þess að viðurkenndur verði réttur hans til skaðabóta úr hendi gagnaðilans Reykjavík Development ehf. þar sem félagið hafi ekki virt rétt hans til að annast byggingu bílakjallara á nánar tilgreindum byggingarreitum á lóðinni Austurbakka 2 í Reykjavík. Leyfisbeiðandi reisir kröfu sína aðallega á því að með tilteknum rammasamningi um rétt til verktöku hafi stofnast kvöð á lóðarréttindunum sem síðari eigendur þeirra hafi verið bundnir af og hafi fyrirsvarsmenn Reykjavík Development ehf. haft vitneskju um kvöðina þegar félagið keypti lóðirnar. Til vara byggir leyfisbeiðandi á því að með samningi um kaup á lóðarréttindunum hafi Reykjavík Development ehf. samþykkt að taka yfir þær skuldbindingar sem fyrri eigendur réttindanna höfðu undirgengist með samningi við leyfisbeiðanda. Héraðsdómur sýknaði Reykjavík Development ehf. af kröfu leyfisbeiðanda og staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu með framangreindum dómi. Vísað var til þess að í þeim samningi sem leyfisbeiðandi byggði á hafi hvorki verið kveðið á um að rétti hans fylgdi kvöð á lóðinni eða önnur óbein eignarréttindi né mælt fyrir um hvernig tryggja skyldi skuldbindinguna gagnvart þriðja manni. Gera yrði þá kröfu að slík óbein eignarréttindi væru skýrlega tilgreind í samningi þannig að þeim sem ættu síðar í viðskiptum með eignina og hefðu vitneskju um samningsskilmálana mætti vera ljóst að samningur mælti fyrir um slíka kvöð. Ekki þótti nægilegt að vísað hafi verið til þess í samningnum að viðsemjandi tæki á sig að tryggja skuldbindinguna þegar aðrir fengju yfirráð yfir byggingarreitunum. Loks var talið að ekki lægju fyrir í málinu gögn sem sönnuðu að Reykjavík Development ehf. hefði samþykkt að taka á sig umrædda skuldbindingu með samningi, en vitneskja kaupanda um réttindi gæti ein og sér ekki leitt til þess að skuldbinding af þessum toga teldist yfirtekin við kaup á lóðarréttindum.

Leyfisbeiðandi byggir á því að meðferð málsins fyrir Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant þar sem ekki hafi verið farið að lögum við skipun eins af dómurunum sem þar fóru með það. Af þeim sökum hafi málsmeðferðin ekki fullnægt því skilyrði 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, að skipan dómstóls skuli ákveðin með lögum, sbr. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu 12. mars 2019 í máli nr. 26374/18. Þá vísar hann til þess að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi á sviði eignar- og kröfuréttar þar sem ekki hafi reynt á sambærileg ágreiningsefni fyrir Hæstarétti. Loks varði málið mikilvæga fjárhagslega hagsmuni sína og sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur að efni til.

Að virtum fyrirliggjandi gögnum verður að líta svo á að dómur í máli þessu myndi hafa almennt gildi um fyrrgreind atriði á sviði eignar- og kröfuréttar. Er beiðni um áfrýjunarleyfi því tekin til greina.