Hæstiréttur íslands

Mál nr. 94/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Matsgerð
  • Kröfugerð
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Föstudaginn 21

 

Föstudaginn 21. mars 2003.

Nr. 94/2003.

Sigríður Rósa Víðisdóttir

(Jón Magnússon hrl.)

gegn

Einari Óskarssyni

(Guðni Á. Haraldsson hrl.)

 

Kærumál. Vanreifun. Matsgerð. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli, sem S hafði höfðað á hendur E vegna galla á fasteign, var vísað frá dómi. Var talið að S væri í málinu bundin af upphaflegri kröfugerð sinni og gæti ekki undir rekstri þess breytt grundvelli kröfunnar og rökstuðningi fyrir henni stefnda í óhag, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga um meðferð einkamála. Annmarkar á matsgerðum þóttu slíkir að ekki yrði við þær stuðst til að ákveða afslátt samkvæmt upphaflegri kröfu S. Var málið svo vanreifað að þessu leyti og málatilbúnaður S í heild þannig úr garði gerður að ekki varð hjá því komist að vísa afsláttarkröfu hennar frá dómi án kröfu. Þar sem ekki var loku skotið fyrir það að S ætti kröfu á hendur E vegna galla á umræddri fasteign og þar með eftir atvikum skaðabótakröfu vegna tapaðra húsaleigutekna, þótti rétt að vísa einnig þeirri kröfu hennar frá dómi án kröfu vegna vanreifunar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. mars 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 28. febrúar 2003, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að úrskurði héraðsdóms verði hrundið og lagt fyrir hann að fella dóm á kröfu hennar.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Sigríður Rósa Víðisdóttir, greiði varnaraðila, Einari Óskarssyni, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 28. febrúar 2003.

                Ár 2003, föstudaginn, er dómþing Héraðsdóms Reykja­­ness háð í dóm­­húsinu í Hafnarfirði og upp kveðinn úrskurður um frávísun án kröfu í málinu nr. E-2427/2002: Sigríður Rósa Víðisdóttir gegn Einari Óskarssyni.

Málið var höfðað 26. júní 2002 og dómtekið 4. febrúar 2003.  Stefnandi er Sigríður Rósa Víðisdóttir, til heimilis að Kvistalandi 1, Reykjavík.  Stefndi er Einar Óskars­son, til heimilis að Skólagerði 49, Kópavogi. 

Málið er rekið sem gallamál á sviði fasteignakauparéttar.

                Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða henni krónur 8.845.405 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verð­tryggingu frá 26. júní 2002 til greiðsludags.  Jafnframt verði hann dæmdur til greiðslu málskostnaðar samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti.

                Til vara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til greiðslu lægri fjárhæðar að mati dómsins, sem einnig ákvarði hæfilegan málskostnað.

                Stefndi krefst aðallega sýknu af dómkröfum stefnanda, en til vara að dóm­kröfur verði lækkaðar verulega.  Í báðum tilvikum er gerð krafa um málskostnað úr hendi stefnanda.

I.

                Fasteignin Kvistaland 1 í Reykjavík, sem mál þetta er risið út af, er um það bil 440 m² steinsteypt einbýlishús, byggt 1973.  Húsið skiptist í 156 m² íbúð á aðalhæð, 56 m² bílskúr og tvær ósamþykktar íbúðir í kjallara ásamt óinnréttuðu rými, samtals um 229 m².  Stefnandi keypti húsið af stefnda með kaupsamningi 12. apríl 2000.  Kaup­verð var krónur 26.000.000.  Til grund­vallar kaupunum lá meðal annars sölu­yfir­lit frá fast­eigna­sölunni Borgum þar sem eigninni var svo lýst:

Glæsilegt einbýlishús neðst í Foss­vogi, með grónum, vel hirtum garði.  Ný­legt gler og endurnýjað þak.  Á aðalhæð er gott and­dyri, gestasalerni, stórar stofur með arni, hjónaherbergi, barna­herbergi og mjög stórt her­bergi, sem áður voru tvö her­bergi.  Eldhús er með nýrri innréttingu og góðum borð­krók.  Baðherbergi og þvotta­hús.  Á hæðinni eru vönduð gólfefni, að mestu parket og flísar.  Af aðal­hæðinni er stigi úr þvotta­húsi niður í kjallara.  Einnig sérinngangur frá vestur­hlið hússins.  Í kjallara eru gluggar um 40 cm. háir.  Mikið rými og allt með góðri lofthæð, meðal annars tvær íbúðir og um 100 m² óinnréttað rými sem hentar til ýmissa hluta. 

Áður en kaupin tókust skoðaði stefnandi fasteignina einu sinni í viður­­vist stefnda.  Er óumdeilt að aðalhæðin hafi staðist væntingar stefnanda og hafa ekki verið gerðar athugasemdir við ástand hennar.  Því er ekki að heilsa varðandi ástand kjallara og lagnakerfis.  Að því er varðar ástand kjallarans er óumdeilt að hið óinnréttaða rými var aðeins tilbúið undir tré­­verk og pússningu.  Stefnandi heldur því fram, gegn and­mælum stefnda, að skoðun í þeim hluta kjallarans hafi verið örðug vegna fjölda mál­verka við veggi.  Hún kannast við að rakalykt hafi lagt frá dælu­brunni í þeim hluta kjallarans og segir hún stefnda hafa svarað því aðspurður að brunnurinn hefði aldrei verið til vandræða.  Stefnandi heldur því og fram að erfitt hafi verið að átta sig á ástandi íbúðanna tveggja við lauslega skoðun vegna búslóðar leigjenda.  Hún hafi því spurt stefnda hvort íbúðirnar væru illa farnar og hefði hann sagt að þær væru „börn síns tíma“ og að þörf væri á að „taka þær í gegn“.  Stefndi mótmælir því að skoðun íbúðanna hafi verið vandkvæðum bundin og hafi þar mátt sjá greinileg ummerki eftir leka á gólfteppum og neðst á veggjum, en stefnanda hafi verið sagt frá því að lekið hefði inn í kjallarann.  Er óumdeilt að stefnanda hafi verið greint frá einum lekastað í suð-vestur horni hússins, sem búið hefði verið að lagfæra.  Hún segir að stefndi hafi svarað því neitandi að lekið hefði á fleiri stöðum í kjallaranum.  Að sögn stefnda keypti hann umrædda fasteign sumarið 1994 og bjó í húsinu í um sex ár.  Á þeim tíma hefði hann aldrei orðið var við neina ágalla á lagnakerfi hússins.  Þó hefði einu sinni flætt upp úr dælu­brunninum vorið 1995 vegna bilunar í dælunni, en skemmdir verið óveru­legar af þeim sökum.  Þá hefði í eitt skipti flætt upp úr vöskum í kjallara í úrhellis­rigningu veturinn 1996-1997.  Stefndi kveðst ekki minnast þess að hafa greint stefnanda sérstaklega frá þessum atvikum.  Loks hefði gætt smávægilegs leka við vaska í eitt skipti eftir áramót 1999-2000 í kjölfar mikillar snjósöfnunar á þaki, en að sögn stefnda hefði ekki fundist nein bilun í lögnum.  Hann hefði sagt stefnanda frá þessu atviki við nefnda skoðun og tengt það við niðurfallsrör frá þaki.  Er óumdeilt í málinu að stefndi greindi stefnanda frá því að hluti þakniðurfalls væri ónýtur og að senni­lega væri lögnin þar fyrir neðan stífluð eða brotin. 

Sem fyrr segir var gengið frá kaupsamningi aðila 12. apríl 2000.  Í honum er staðlað ákvæði þess efnis að fasteignin sé seld í því ástandi, sem stefnandi hafi kynnt sér með skoðun og sætt sig við að öllu leyti.  Við undirritun samningsins var tekið sérstaklega fram að stefndi hefði upplýst stefnanda um „að frárennslisrör í lóð leki og beri [stefndi] ekki ábyrgð á neinum kostnaði tengdum viðgerð á því.“

II.

Stefnandi fékk húsið afhent 1. júlí 2000 og skyldi afsal gefið út 15. sama mánaðar gegn lokagreiðslu samkvæmt kaupsamningi á krónum 1.453.000.  Stefnandi segir að skömmu eftir afhendingu hafi leigjendur í kjallaranum komið til hennar og spurt hvort hún vissi að þeir hefðu þurft að ganga um í stígvélum um vorið vegna leka í kjallaranum.  Í fram­­haldi hefði hún séð greinileg merki um leka á gólfteppum og neðst á veggjum leiguíbúðanna og strax haft samband við stefnda.  Síðan hefði það gerst í fyrstu rigningum í júlí að pollar hefðu myndast á tveimur stöðum í kjallaranum.  Að sögn stefnanda hefði hún tekið fjölda ljósmynda af aðstæðum.  Eru myndirnar meðal framlagðra gagna og er ómótmælt af hálfu stefnda að þær hafi verið teknar í júlí.  Einnig liggja fyrir tveir reikningar frá Stífluþjónustu Bjarna, dagsettir 10. og 26. júlí, samtals að fjárhæð krónur 44.447 vegna myndatöku á ótilgreindum rörum í húsinu.  Svo fór að stefnandi ákvað að halda eftir síðustu kaup­samnings­greiðslunni og lagði hinn 18. júlí sömu fjár­hæð inn á banka­reikning í eigin nafni. 

Stefnandi fékk Garðar Ingþórsson byggingatæknifræðing til að skoða ástand frá­­veitu­lagna og gera tillögur að viðgerð og kostnaðaráætlun.  Í umsögn Garðars frá 2. ágúst 2000 eru gerðar ýmsar athugasemdir við ástand þakniðurfalla, skólplagna, dren­lagna og dælubrunns og er viðgerðarkostnaður áætlaður krónur 3.470.000.  Kostnaður vegna úttektarinnar mun hafa verið krónur 78.186.

Þuríður Halldórsdóttir hdl., þáverandi lögmaður stefnanda, lýsti ábyrgð á hendur stefnda vegna galla á hinni seldu fasteign í bréfum 4. og 22. september 2000.  Jafnframt var krafist bóta vegna tekjutaps af útleigu íbúðanna tveggja, sem lög­maðurinn áætlaði krónur 120.000 á mánuði.  Bréfunum var ekki svarað af hálfu stefnda.  Í framhaldi fór lögmaðurinn fram á dómkvaðningu tveggja mats­manna í Héraðs­­dómi Reykja­víkur.  Í matsbeiðni, sem dagsett er 22. nóvember 2000, er óskað eftir „að metið verði ástand fráveitulagna að Kvistalandi 1 í Reykjavík en umbjóðandi minn [stefnandi] telur lagnir og dren ekki að öllu leyti í samræmi við teikningu hússins og í raun vera ónýtar þar sem í ljós hafa komið miklar rakaskemmdir í kjallara hússins.  Farið er fram á að skoðun verði framkvæmd eins ítarlega og unnt er, meðal annars með myndun lagna.  Óskað er álits matsmanna á hvort hér er um leynda galla að ræða og tillagna um endurbætur og kostnaðarmats við þær.“  Matsbeiðnin var tekin fyrir á dóm­þingi 8. desember að viðstöddum lögmanni stefnanda og Guðna Á. Haralds­syni hrl., lögmanni stefnda.  Til matsstarfa voru dómkvaddir Kristján Guðmundsson húsa­smíða­meistari og Sævar Stefánsson pípu­lagninga­meistari.  Var lagt fyrir þá að skila mats­gerð eigi síðar en 15. janúar 2001.

Stefndi höfðaði mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 9. janúar 2001 og krafði stefnanda um greiðslu á eftirstöðvum kaupverðs fyrir fasteignina, krónur 1.453.000 með áföllnum dráttarvöxtum og kostnaði, allt gegn útgáfu afsals fyrir eigninni.  Stefnandi gerði upp þá kröfu daginn eftir málshöfðun, án fyrirvara eða athuga­semda, með greiðslu á krónum 1.859.790.  Afsal var gefið út 15. sama mánaðar.          

                Dómkvaddir matsmenn skiluðu tveimur aðskildum matsgerðum til stefnanda; pípulagningameistarinn 1. mars 2001 og húsasmíðameistarinn 30. maí sama ár.  Mats­gerðirnar voru ekki unnar og samdar í samræmi við fyrirmæli IX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, svo sem nánar verður vikið að síðar, en samkvæmt „umfangs- og kostnaðarmati“ fyrrnefnds sérfræðings var heildarkostnaður vegna úrbóta áætlaður krónur 4.575.000.  Reikningur matsmanns nam krónum 31.125.  Niður­staða síðar­­nefnds matsmanns um kostnað vegna „úttekt á útveggjum, inn­veggjum í kjallara“ fast­eignarinnar nam krónum 2.840.405.  Samhliða því mati skilaði mats­maðurinn kostnaðarmati landslagsarkitekts vegna lóðaframkvæmda við fast­eignina, samtals að fjár­hæð krónur 1.102.350.  Reikningur matsmanns nam krónum 49.302.

                Lögmaður stefnanda krafði stefnda um framangreindar fjárhæðir samkvæmt mats­gerðum í bréfi 5. júlí 2001, auk 105.000 króna í bætur fyrir hvern mánuð vegna tapaðra leigutekna frá 1. júlí 2000 til 1. júní 2001.  Þeim kröfum var hafnað í bréfi lögmanns stefnda 23. júlí 2001 og meðal annars á það bent að umræddar matsgerðir væru stórlega gallaðar og hefði stefndi ekki verið boðaður á matsfund til að gæta hags­muna sinna.  Þá væri öllum fram­kvæmdum lokið á fasteigninni vegna ætlaðra galla og því ógerningur fyrir stefnda að gæta réttar síns.

                Í framhaldi af athugasemdum stefnda sendi lögmaður stefnanda Héraðsdómi Reykjavíkur bréf hinn 28. ágúst 2001 og óskaði eftir endurupptöku á umræddu mats­máli.  Með bréfi héraðsdóms 3. september 2001 til matsmanna var lagt fyrir þá að bæta úr nánar tilteknum ágöllum á matsgerðunum og leggja að nýju mat á þá matsliði, sem fyrri dómkvaðning mælti fyrir um.  Fyrir liggur samkvæmt vætti matsmanna fyrir dómi að þeir hafi ekki sinnt þessari beiðni.

                Auk framangreindra reikninga er rétt að nefna hér til sögunnar fjóra reikninga til viðbótar, sem málinu tengjast.  Sá fyrsti er frá Vélaleigu Arnars Kristjáns­sonar, dagsettur jan. 2002, að fjárhæð krónur 1.501.470.  Á hann er ritað „Ný dren­lögn skv. tilboði“.  Að sögn stefnanda mun þetta hafa verið raunkostnaður vegna lagningar nýrra drenlagna.  Þá eru tveir reikningar frá Dalsmíði ehf., dagsettir „1. mars“ og „7. apríl“, vegna smíðavinnu að Kvistalandi 1, samtals að fjárhæð krónur 1.079.122.  Stefnandi kveður reikningana vera frá árinu 2001 og varði þeir viðgerð á ónýtum inn­veggjum í kjallara hússins.  Loks ber að nefna ódagsettan reikning frá Verktökum Magna ehf. að fjárhæð krónur 100.000 vegna „Vinnu skv. tilboði“.  Ekki hefur fengist skýring á tilurð þessa reiknings. 

III.

Stefnandi og stefndi gáfu aðilaskýrslur fyrir dómi, en auk þeirra báru vitni Garðar Ingþórsson byggingatæknifræðingur og matsmennirnir Kristján Guðmundsson og Sævar Stefánsson.  Sjónar­miðum aðila er að mestu lýst í I. og II. kafla hér að framan.  Verður nú vikið að fram­­­burði þeirra og annarra skýrslugjafa fyrir dómi að svo miklu leyti, sem þýðingu getur haft fyrir málsúrslit.

Stefnandi sagði fyrir dómi að hún hefði að ráði lögmanns síns beðið með allar úrbætur á húsinu þar til dómkvaddir matsmenn hefðu lokið skoðun sinni.  Í framhaldi af því hefði hún ráðist í framkvæmdir og hefði þeim lokið um vorið 2001.  Íbúðirnar í kjallaranum hefðu síðan verið leigðar út að nýju frá 1. maí sama ár.

Stefndi stóð fastur á því fyrir dómi að honum hefði ekki verið kunnugt um þá annmarka, sem lýst er í ástandsskýrslu Garðars Ingþórssonar byggingatæknifræðings að frátöldum skemmdum á þakniðurfalli og meðfylgjandi vandamálum með vaska.  Hann kannaðist einnig við að jörð hefði sigið við bílskúrinn um allt að 30 cm. og minntist þess ekki að hafa greint stefnanda sérstaklega frá því.  Aðspurður um ástand drenlagna fyrir sölu fasteignarinnar sagði hann að búið væri að skipta um drenlagnir í flestum húsum í nágrenninu.  Hann kvaðst í eitt skipti hafa mætt á boðaðan matsfund ásamt lögmanni sínum, en þar sem enginn hefði mætt af hálfu stefnanda hefði ekki orðið af skoðun.  Hann hefði síðan ekki heyrt frekar af störfum dómkvaddra mats­manna fyrr en matsgerðir hefðu verið sendar honum í júlí 2001.  Þá hefði öllum fram­kvæmdum verið lokið við fasteignina.

Garðar Ingþórsson staðfesti ástandsskýrslu sína og kostnaðarmat fyrir dómi.  Hann bar að þær viðgerðir, sem lagðar væru til í skýrslunni, hefðu verið nauðsynlegar til úrbóta á þakniðurföllum, skólplögnum, dren­lögnum og dælubrunni.  Aðspurður sagði hann að samkvæmt teikningum væri gert ráð fyrir drenlögnum í kringum húsið, en hann hefði ekki staðreynt sjálfur hvort drenlagnir hefðu verið til staðar.  Hann hefði þó séð þar til gerða stúta liggja að dælubrunninum og tengjast honum.

Sævar Stefánsson pípulagninga­meistari staðfesti fyrir dómi matsgerð sína frá 1. mars 2001.  Hann sagði að augljóst hefði verið af skemmdum á innveggjum og öðrum innréttingum í kjallara hússins að þar hefði verið um langvarandi lekavanda­mál að ræða.  Taldi Sævar að skemmdirnar mætti rekja til lélegra og ófullnægjandi dren­­­lagna við húsið.  Hann tók fram að þegar hann hefði skoðað og metið ástand eignarinnar hefðu framkvæmdir verið byrjaðar og hefði verktaki sá er annaðist þær sagt honum frá því að drenlagnir hefðu ekki verið til staðar.  Aðspurður kvaðst Sævar ekki hafa staðreynt þá frásögn heldur byggt niðurstöðu matsgerðarinnar um þetta atriði á frásögn verktakans.  Hann kvaðst heldur ekki hafa myndað lagnakerfi hússins, svo sem beðið hafi verið um í matsbeiðni, heldur stuðst við fyrirliggjandi myndir.  Sævar sagði ástand dælubrunns hafa verið með ólíkindum og hefði þar þurft mikilla úrbóta við.  Frágangur á öðrum lögnum í kjallara hefði einnig verið mjög slæmur og ekki annað að sjá en að mikið fúsk hafi almennt verið viðhaft við allt lagnakerfið.  Sævar bar einnig að snjóbræðsla í bílaplani við bílskúrinn hefði mjög líklega verið skemmd eða ónýt vegna mikils jarðsigs, en kvaðst aðspurður ekki hafa skoðað þetta sérstaklega.  Hann vissi því ekki hvort snjóbræðslukerfi hefði verið til staðar við bíl­skúrinn.  Sævar bar enn fremur að sennilegt væri að vatns- og hitalagnir í einangrun útveggja á suðurhlið hússins hefðu verið illa farnar, en kvaðst heldur ekki hafa sann­reynt þetta atriði með skoðun.  Hann kvaðst ekki hafa skoðað neinar teikningar af lagna­kerfi hússins og ekki hafa reynt að afla slíkra teikninga.  Í matsgerð sinni lagði Sævar til ákveðnar úrbætur á framan­greindum atriðum og skilaði svohljóðandi kostnaðar­­áætlun:

1. Endurnýja vatns- og hitalagnir á suðurhlið                 kr.    275.000.

2. Endurnýja brunndælu, flytja og loka brunni                kr.    450.000.

3. Leggja drenlagnir                                                             kr. 2.900.000.

4. Endurnýja frárennsli frá húsi að brunni                        kr.    360.000.

5. Endurnýja frárennsli frá íbúðum og niðurföllum         kr.    470.000.

6. Endurnýja snjóbræðslu í bílaplani.                                kr.    120.000.

                                                Kostnaður með vsk.            kr. 4.575.000.

Sævar staðfesti fyrir dómi að hann vissi ekki til þess að stefndi hefði verið boðaður til matsfundar á fasteigninni þegar umrædd skoðun hefði farið fram.  Hann sagði Kristján Guðmundsson hafa séð alfarið um boðun til matsfundar.  Þá kvaðst Sævar ekki vita til þess að fundargerð hefði verið rituð vegna matsfundar.   Aðspurður af hverju matsmenn hefðu ekki skilað sameiginlegri matsgerð sagði Sævar að það hefði verið vegna ókunnugleika þeirra, en umrætt mat hefði verið hið fyrsta sem hann hefði tekið að sér.  Þeir hefðu hins vegar skoðað eignina í sameiningu, en skilað tveimur sjálfstæðum mötum varðandi ályktanir og niðurstöður.   

Kristján Guðmundsson húsasmíða­meistari staðfesti fyrir dómi matsgerð sína frá 30. maí 2001.  Matið, sem er í raun aðeins órökstudd kostnaðaráætlun á einni blaðsíðu, kvaðst Kristján hafa ritað eftir skoðun á vettvangi og hefði hann haft til hlið­sjónar þær úrbætur, sem hann hefði talið nauðsynlegar á eigninni.  Hann bar fyrir dómi að mikill raki hefði verið í útveggjum í kjallara og milliveggir verið skemmdir að innan­verðu.  Þá hefðu verið greinilegar rakaskemmdir í innréttingu í eldhúsi leigu­íbúðanna.  Taldi Kristján að skemmdirnar mætti að miklu leyti rekja til lélegra og ófull­nægjandi dren­­lagna við húsið.  Einangrun í útveggjum hefði og verið ónýt og því hefði verið nauðsynlegt að gera við þá.  Kristján kvaðst þó ekki hafa sannreynt síðast­greint atriði með skoðun.  Hann sagðist geta staðfest fyrir sitt leyti meðfylgjandi kostnaðar­mat lands­lags­arki­tekts vegna framkvæmda á lóð fasteignarinnar, sem hann sagði tengjast nauð­­synlegri endur­­nýjun drenlagna.  Nánar aðspurður um drenlagnir við húsið bar Kristján að komið hefði í ljós að drenlagnir hefðu ekki verið til staðar.  Hann kvaðst ekki hafa sann­reynt þetta sjálfur, en fengið þær upplýsingar frá Sævari Stefánssyni matsmanni.  Í matsgerð sinni lagði Kristján til ákveðnar úrbætur og skilaði svohljóðandi kostnaðar­áætlun:

1. Rif og hreinsun gamalla milliveggja                              kr.    148.500.

2. Uppsetning nýrra milliveggja                                         kr.    986.700.

                                                                Samtals                  kr. 1.135.200.

                                                                Alls með vsk.        kr. 1.413.324.

 

3. Rif og hreinsun á útveggjum                                          kr.    100.000.

4. Viðgerð og frágangur á útveggjum                               kr.    566.250.

                                                                Samtals                  kr.    666.250.

                                                                Alls með vsk.        kr.    829.481.

 

5. Nýr sólpallur í garði, með vsk.                                       kr.    597.600.

Aðspurður fyrir dómi kvaðst Kristján áætla að skipting kostnaðar milli efnis og vinnu varðandi matsliði 1-4 væri um það bil 40% í efni og 60% í vinnu, en varðandi sólpallinn væri skiptingin nokkurn vegin til helminga.  Kristján játaði rétt fyrir dómi að hann hefði látið undir höfuð leggjast að boða stefnda til matsfundar á fast­eigninni þegar umrædd skoðun hefði farið fram og bar fyrir sig kunnáttuleysi í þeim efnum.  Hann kvað þetta hafa verið í fyrsta skipti, sem hann hefði verið dóm­kvaddur til matsstarfa.  Aðspurður af hverju matsmenn hefðu ekki skilað sameigin­legri matsgerð sagði Kristján að ekki hefði verið farið fram á slíkt.  Hann hefði því metið atriði á sviði húsasmíði og Sævar atriði tengd pípu­lögnum hússins.  Kristjáni var kynnt fyrir dómi að í matsbeiðni væri ekki farið fram á skoðun og mat á ætluðum göllum tengdum veggjum í kjallara hússins og gerð sólpalls í garði.  Í framhaldi kvaðst hann hafa unnið sín matsstörf á grundvelli munnlegra fyrir­­mæla frá lögmanni stefnanda.       

IV.

Mál þetta telst höfðað við þingfestingu 26. júní 2002.  Í stefnu var þess krafist að stefndi yrði dæmdur til greiðslu afsláttar að fjárhæð krónur 8.668.052, til greiðslu skaðabóta að fjárhæð krónur 2.073.013 og til endurgreiðslu ofgreidds fjár er næmi krónum 632.304 eða samtals til greiðslu á krónum 11.374.369, allt að viðbættum dráttar­vöxtum og kostnaði. 

Í kjölfar framlagningar á greinargerð stefnda var málið tekið fyrir á dómþingi 3. október.  Lögmaður stefnda áréttaði í þinghaldinu fyrri mót­mæli við matsgerðum hinna dómkvöddu manna, sem hann sagði vera haldnar alvar­legum form- og efnisann­mörkum og því þýðingar­lausar fyrir úrslit málsins.  Í fram­haldi boðaði dómari að til álita kæmi að vísa málinu frá dómi án kröfu vegna óskýrleika í málatilbúnaði stefnanda og skírskotaði í því sambandi til 1. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einka­mála.  Að beiðni lögmanns stefnanda var meðferð málsins frestað til 1. nóvember.  Í þinghaldi þann dag mætti Jón Magnússon hrl. fyrir hönd stefnanda og tilkynnti að hann hefði tekið við málinu af Þuríði Halldórsdóttur hdl.  Lögmaðurinn lagði því næst fram breytta kröfugerð, gegn mót­mælum lögmanns stefnda, sem kvað breytinguna of seint fram komna og raskaði bæði grundvelli málsins í heild og fyrri kröfu­gerð stefnanda, sem reist hefði verið að meginstefnu til á rétti til afsláttar.             

Með hinni breyttu kröfugerð er stefndi í málinu krafinn um greiðslu afsláttar og/eða skaðabóta að fjárhæð krónur 8.845.405 auk dráttarvaxta og málskostnaðar, eins og greinir í upphafi dóms.  Krafan er sundurliðuð með svofelldum hætti:

Kostnaður samkvæmt matsgerð Sævars Stefánssonar                  kr. 4.575.000.

Kostnaður samkvæmt matsgerð Kristjáns Guðmundssonar         kr. 2.840.405.

Afnotamissir af 2ja herbergja íbúð frá 1.7.2000-1.6.2001                kr.    660.000 

Afnotamissir af 3ja herbergja íbúð frá 1.7.2000-1.6.2001                kr.    770.000 

                                                                                                Samtals  kr. 8.845.405.

Í kröfugerðinni segir að stefnandi byggi kröfu sína á matsgerðum hinna dóm­kvöddu manna, auk ætlaðs tjóns vegna afnotamissis tveggja íbúða í kjallara hússins nr. 1 við Kvistaland í Reykjavík.

Í þinghaldi 7. nóvember tilkynnti dómari að ekki þættu efni til að vísa málinu frá dómi á því stigi, þótt ýmislegt væri óljóst í kröfugerð og málatilbúnaði stefnanda, enda væri ekki loku skotið fyrir það að unnt væri að bæta úr þeim annmörkum undir rekstri málsins.  Aðalmeðferð var háð 4. febrúar síðastliðinn.  Verður næst gerð grein fyrir helstu málsástæðum og lagarökum stefnanda og í því sambandi einkum vísað til þeirra sjónarmiða, sem lögmaður hennar tefldi fram við munnlegan málflutning.  Þó verður ekki hjá því komist að víkja einnig að kröfugerð og málatilbúnaði stefnanda eins og hann birtist í stefnu.

V.

Í stefnu er á því byggt að umrædd fasteign hafi verið haldin verulegum göllum við kaupin, sem heimili stefnanda að krefja stefnda um afslátt og skaðabætur á grund­velli 42. gr. laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup.  Vísað er til þess að viðgerð hafi þegar farið fram á hluta þess, sem hefði verið ábótavant og því væri gerð krafa um afslátt fyrir þegar greiddar framkvæmdir, en að öðru leyti byggist afsláttarkrafan á kostnaðar­áætlunum.  Fjárhæð afsláttarkröfunnar er þannig fundin, að krafist er endur­greiðslu á reikningum frá Stífluþjónustu Bjarna, reikningi vegna ástandsskoðunar Garðars Ingþórssonar byggingatæknifræðings, reikningum frá matsmönnunum tveimur, reikningi vegna lagningar á nýrri drenlögn, reikningi frá Verktökum Magna ehf. og reikningum frá Dalsmíði ehf.  Er reikninganna nánar getið í II. kafla að framan, en fjárhæð þeirra nemur samtals krónum 3.315.421.  Jafnframt er krafist afsláttar vegna ógreiddrar vinnu við lagnir, smíða­vinnu og lagfæringar á lóð hússins samkvæmt matsgerðum, samtals krónur 4.303.044.  Loks er í formi afsláttar krafist dráttarvaxta af þegar greiddum kröfum, sem og málskostnaðar og virðisaukaskatts, sam­­tals krónur 1.049.587, eða alls krónur 8.668.052 í afslátt vegna galla á fast­eigninni.       

                Skaðabótakrafa stefnanda er studd þeim rökum í stefnu, að stefnandi hafi orðið af húsaleigutekjum frá 1. júlí 2000 til 1. júní 2001 vegna þess að leiguíbúðirnar tvær í kjallara hússins hafi verið óíbúðarhæfar, en stefnda hafi mátt vera ljóst að hún hyggðist leigja þær út.  Stefnandi áætlar tap sitt vegna minni íbúðarinnar krónur 60.000 á mánuði, en 70.000 á mánuði vegna stærri íbúðarinnar.  Er þannig krafist 1.430.000 króna í bætur vegna tapaðra húsaleigutekna.  Jafnframt er krafist dráttar­vaxta, málskostnaðar og virðisaukaskatts í formi skaðabóta vegna þessa kröfuliðar og nemur bótakrafan þannig samtals krónum 2.073.013.

                Loks er í stefnu krafist endurgreiðslu ofgreidds fjár í tengslum við uppgjör stefnanda á dómkröfu stefnda í máli því sem hann höfðaði á hendur henni 9. janúar 2001.  Nemur sú fjárhæð krónum 632.304.  Fallið var frá þessum kröfulið með breyttri kröfugerð stefnanda 1. nóvember 2002 og kemur krafan því ekki til frekari skoðunar í málinu. 

                Við munnlegan málflutning var á því byggt af hálfu stefnanda að umrædd fasteign hefði verið haldin verulegum göllum við kaupin.  Stefndi hefði hvorki upp­lýst stefnanda um gallana né heldur hefði þeirra verið getið í söluyfirliti frá fasteigna­sölunni Borgum, sem stefnandi hefði byggt ákvörðun sína á.  Stefndi verði að bera ábyrgð á þeirri lýsingu eignarinnar, en í henni felist í raun ábyrgð á áskildum kostum, sem eignin hafði ekki.  Viðurkennt var af hálfu stefnanda í málflutningi að upphafleg kröfugerð hennar væri í molum, en því jafnframt haldið fram að hin breytta kröfu­gerð rúmist innan heimilda 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einka­mála.  Samkvæmt því væri stefndi nú krafinn aðallega um greiðslu afsláttar og/eða skaða­bóta að fjárhæð krónur 8.845.405 auk dráttarvaxta og málskostnaðar, en til vara til greiðslu lægri fjárhæðar að mati dómsins. 

Lögmaður stefnanda benti á að engin gögn hefðu verið lögð fram um afnotamissi íbúðanna tveggja og tjón stefnanda vegna tapaðra húsaleigutekna, en stefndi hefði ekki mótmælt því að íbúðirnar hefðu verið óíbúðarhæfar á tímabilinu frá frá 1. júlí 2000 til 1. júní 2001 og því aðeins spurning um það hvort endanlegri fjár­hæð þessa kröfuliðar, krónur 1.430.000, væri mótmælt.

Lögmaðurinn féllst einnig fúslega á það að matsgerðir hinna dómkvöddu manna væru verulegum annmörkum háðar.  Samkvæmt hinni breyttu kröfugerð 1. nóvember 2002 byggði lögmaðurinn kröfur stefnanda engu að síður á matsgerðunum tveimur með svofelldum hætti:  

Kostnaður samkvæmt matsgerð Sævars Stefánssonar                  kr. 4.575.000.

Kostnaður samkvæmt matsgerð Kristjáns Guðmundssonar         kr. 2.840.405.

Við munnlegan málflutning gerði lögmaðurinn þann fyrirvara við kröfu­gerðina að kæmist dómur að þeirri niðurstöðu að hafna bæri sönnunargildi mats­gerðanna að einhverju leyti eða öllu þá væri af hálfu stefnanda stuðst við önnur gögn málsins, þar á meðal kostnaðaráætlun Garðars Ingþórssonar byggingatæknifræðings, framlagðar ljósmyndir af aðstæðum og skýrslur aðila og vitna, en dómendur hefðu frjálst sönnunarmat í málinu, sbr. 1. mgr. 44. gr. og 2. mgr. 66. gr. laga um meðferð einkamála.  Lögmaðurinn sagði leynda galla á fast­eigninni hafa verið þessa:

1.              Sannanlegur leki í kjallara, sbr. matsgerðir, ljós­myndir, fram­burður stefnda og önnur gögn málsins.

2.              Frárennsli frá þaki hefði verið rofið og hefði stefndi vitað um þetta atriði og leynt því fyrir stefnanda.

3.              Sannað væri að jarðsig hefði verið á bílaplani fyrir framan bílskúr hússins, sem stefndi viðurkenndi að hafa vitað um og ekki sagt stefnanda frá.

4.              Sannað væri að drenlagnir hefðu ekki verið til staðar í kringum húsið eða að minnsta kosti hefðu þær ekki verið fullnægjandi, en þar hefði verið um leyndan galla að ræða, sem stefndi bæri ábyrgð á.

Lögmaður stefnanda sagði það skoðun sína að meginvandamál dómsins væri að finna rétt kostnaðarverð endurbóta á fasteigninni.  Í því sambandi bæri að líta til matsgerðanna tveggja og leggja niðurstöður þeirra til grundvallar, en ellegar bæri sérfróðum meðdómendum að meta aðra lægri fjárhæð og styðjast í því sambandi meðal annars við kostnaðaráætlun Garðars Ingþórssonar og framlagða reikninga.

VI.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að fasteignin hafi hvorki verið haldin leyndum göllum né verið í verra ástandi en stefnandi hafi mátt búast við.  Þá hafi eignin ekki verið í verra ásigkomulagi en sambærilegar eignir byggðar í sama hverfi á árunum 1971-1973.  Stefnanda hafi og verið kynnt að lekið hefði inn í kjallara hússins og hafi víða mátt sjá augljós rakamerki, svo sem á gólfteppum og innveggjum, auk þess sem rakalykt hafi lagt frá dælubrunni.  Þá hafi verið vakin sérstök athygli á leka frá þakniðurföllum og að frárennslisrör væri þar í sundur á einum stað.  Þannig hafi stefnanda mátt vera ljóst að ástand kjallarans væri ekki gott og hafi framangreindar upp­lýsingar kallað á frekari skoðun af hennar hálfu, sem ekki hafi verið sinnt.  Á þessu verði stefnandi að bera ábyrgð og sömuleiðis á því að hafa látið lagfæra ætlaða galla án þess að gefa stefnda kost á að tjá sig um þá og gæta réttar síns við mats- og skoðunargerðir.  Stefndi mótmælir því alfarið sönnunargildi nefndra matsgerða, sem þýðingar­lausum fyrir úrslit málsins.  Hann færir fyrir því meðal annars þau rök, að mats­menn hafi ekki boðað hann til matsfundar á eigninni, þeir hafi ekki skilað sam­eigin­legri matsgerð, þeir hafi ekki metið það sem meta skyldi samkvæmt matsbeiðni og farið langt út fyrir efni hennar, þeir hafi ekki rökstutt niðurstöður sínar og nánast ekkert fjallað efnislega um einstaka matsliði eða lýst með skýrum hætti í hverju hinir ætluðu gallar hafi verið fólgnir.  Þá hafi fylgt annarri matsgerðinni kostnaðarmat lands­­lags­arki­tekts vegna lóðaframkvæmda, sem ekki hafi verið óskað eftir í mats­beiðni.  Umræddur arkitekt hafi hvorki verið dómkvaddur til sinna starfa né heldur komið fyrir dóm og borið vitni í málinu.  Þá sé sá annmarki á málatilbúnaði stefnanda að krafist sé afsláttar án þess að dómkvaddir matsmenn hafi verið beðnir um að meta umfang afsláttarkröfu og eðlilegan afslátt af fasteigninni miðað við sambærilegar eignir, byggðar og seldar á sama tíma.  Við munnlegan málflutning benti lögmaður stefnda á að ekki hefði verið bætt úr framangreindum annmörkum við meðferð málsins og því hlyti að koma aftur til álita að dómendur vísaðu málinu frá dómi án kröfu.  Í því sambandi var bent á og því haldið fram af hálfu stefnda að honum væri nú fyrirmunað að reyna að hnekkja skoðunar- og matsgerðum í málinu, en því væri sérstaklega mótmælt sem ósönnuðu að lagnakerfi hússins hafi ekki verið í samræmi við samþykktar teikningar.  Þá héldi stefndi því fram að leki sá er stefnandi hefði orðið vör við í júlí 2000 ætti rót sína að rekja til frárennslisröra frá þaki, sem verið hefðu í ólagi við kaupin og hún hefði verið upplýst um.   

Stefndi mótmælir skaðabótakröfu stefnanda með sömu rökum og að framan greinir, en kröfunni sé einnig mótmælt sérstaklega sem ósannaðri og vanreifaðri.  Þannig hafi stefnandi ýmist krafið hann um 105.000 eða 130.000 krónur á mánuði og byggt þær fjárhæðir á eigin mati, en ekki aflað matsgerðar eða annarra sönnunargagna fyrir grundvelli eða fjárhæð kröfunnar.

Í varakröfu sinni mótmælir stefndi sérstaklega vaxtakröfum stefnanda, en upphafsdagur dráttar­vaxta og annarra vaxta sé hvergi tilgreindur í stefnu og því sé einungis hægt að miða upphafstíma vaxtakrafna við dómsuppsögu í málinu, komi til greiðslu­skyldu stefnda á annað borð.  Þá er fjárhæð dómkröfu stefnanda mótmælt sem of hárri, vanreifaðri og óljósri og því mótmælt sérstaklega sem fyrr að stefnandi megi breyta grundvelli kröfugerðar sinnar undir rekstri málsins og þar með raska grundvelli málsins í heild, svo sem gert hafi verið í þinghaldi 1. nóvember 2002 og aftur við munn­legan málflutning.  Eigi þetta eitt sér að leiða til frávísunar málsins frá dómi án kröfu, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

VII.

Grundvöllur þessa máls var lagður í stefnu, en með henni krafði stefnandi stefnda um 8.668.052 króna afslátt af umræddri fasteign, auk 2.073.013 króna skaða­bóta og um 632.304 krónur vegna ofgreidds fjár eða samtals um krónur 11.374.369, allt að viðbættum dráttar­vöxtum og kostnaði.  Rökstuðningur stefnanda fyrir ein­stökum liðum kröfugerðarinnar er að mörgu leyti óljós og í andstöðu við meginreglur kröfu­réttar, þar á meðal um grundvöll afsláttar í fasteignakauparétti.  Nægir þar að nefna kröfu að fjár­hæð krónur 3.315.421 vegna fjölmargra reikninga, sem getið er í II. og V. kafla að framan, þar á meðal vegna útlagðs kostnaðar sérfræðinga.  Þá var í stefnu krafist afsláttar að fjárhæð krónur 1.049.587 vegna dráttarvaxta af útlögðum kostnaði stefnanda, máls­kostnaðar og virðisaukaskatts.  Fær slík afsláttarkrafa hvorki stoð í reglum kröfu­réttarins né heldur er að finna fyrir henni lagaheimild.  Loks er ekki að finna í stefnu haldbæran rökstuðning fyrir eftirstöðvum afsláttarkröfunnar, krónum 4.303.044, vegna þess sem nefnt er í stefnu ógreidd vinna við lagnir, smíði og lagfæringar á lóð hússins.  Skaðabótakrafa stefnanda var sama marki brennd að því er varðar kröfu um málskostnað og virðisaukaskatt í formi skaðabóta vegna tapaðra tekna af útleigu tveggja íbúða í kjallara hússins.  Þá var skaðabótakrafan ekki studd matsgerð eða öðrum sönnunargögnum um grundvöll hennar og fjárhæð.  Hefur ekki verið bætt úr þessu undir rekstri málsins.

Hinn 1. nóvember 2002 tók nýr lögmaður við málinu fyrir hönd stefnanda.  Sama dag var gerð sú breyting á kröfugerð stefnanda frá því sem greinir í stefnu að krafist var aðallega 8.845.405 króna í afslátt og/eða skaðabætur úr hendi stefnda en til vara annarrar lægri fjárhæðar að mati dómsins.  Sem fyrr var krafan fyrst og fremst byggð á matsgerðum hinna dómkvöddu matsmanna, en við munnlegan málflutning var einnig byggt á því að dómendur tækju mið af framlögðum reikningum vegna við­gerða á fasteigninni og kostnaðarmati Garðars Ingþórssonar byggingatækni­fræðings, kæmi til þess að matsgerðunum tveimur yrði vikið til hliðar að nokkru eða öllu leyti.

Það er álit dómsins, og er þar fallist á sjónarmið stefnda, að stefnandi sé í máli þessu bundinn af upphaflegri kröfugerð sinni í málinu og geti ekki undir rekstri málsins breytt grundvelli kröfunnar og rökstuðningi fyrir henni stefnda í óhag, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Að því er sérstaklega varðar kröfu stefnanda vegna ætlaðs tjóns vegna tapaðra húsaleigutekna er réttilega á því byggt í stefnu að um skaðabótakröfu sé að ræða.  Krafan er hins vegar ekki studd neinum sönnunar­gögnum.  Að því er varðar kröfu stefnanda um afslátt af fasteigninni er fallist á með stefnda að ekki megi leggja matsgerðir hinna dómkvöddu manna til grund­vallar þeirri kröfu, enda eru mats­gerðirnar háðar verulegum form- og efnisann­mörkum, sem ekki hefur verið bætt úr.  Nægir þar að nefna að matsmenn boðuðu ekki stefnda til matsfundar þegar skoðun fór fram, þeir skiluðu ekki sameiginlegri mats­gerð, þeir fóru í matsstörfum sínum ekki eftir matsbeiðni, meðal annars um álit sitt á leyndum göllum og fóru langt út fyrir efni matsbeiðninnar með því að meta ýmis atriði, sem ekki var formlega beðið um.  Stefndi átti því ekki kost á að gæta hagsmuna sinna og getur ekki lengur freistað þess að hnekkja matsgerðunum.  Þá eru báðar mats­gerðirnar haldnar verulegum efnisannmörkum, sem lýsa sér fyrst og fremst í því að umfjöllun um ætlaða galla, lýsing á orsökum þeirra og rökstuðningur fyrir niður­stöðum er lítill og ónógur í mats­gerð Sævars Stefánssonar pípulagningameistara og alls enginn í matsgerð Kristjáns Guðmundssonar húsasmíðameistara.  Hefur ekki tekist að bæta úr þessum ann­mörkum með vitnisburði matsmannanna fyrir dómi.  Við skýrslu­gjöf sína viður­kenndi matsmaðurinn Sævar einnig að hafa ekki skoðað sjálfur mikilvæg atriði, sem hann byggði niðurstöðu sína á og er þar sýnu alvarlegast að hann hafi látið undir höfuð leggjast að ganga úr skugga um ástand drenlagna og hvort þær hafi yfir höfuð verið til staðar, svo sem gert er ráð fyrir í teikningum af húsinu.  Var ætlaður galli á drenlögnum þó að áliti matsmannsins, sem og Kristjáns Guðmunds­sonar, meginorsök fyrir stórum hluta þeirra skemmda, sem matsmenn töldu vera á fast­eigninni. 

Framangreindir annmarkar á matsgerðunum eru slíkir að ekki verður við þær stuðst til að ákveða afslátt vegna ætlaðra galla á fasteigninni eða kveða upp úr með bóta­skyldu stefnda.  Þótt líkur hafi verið að því leiddar að eignin hafi verið haldin til­teknum göllum liggja ekki fyrir önnur haldbær gögn, sem dómurinn getur stuðst við til að meta umfang þeirra, orsakir og fjárhæð mögulegs tjóns.  Þannig voru vitni ekki leidd, sem unnu að framkvæmdum á eigninni og hefðu eftir atvikum til dæmis getað stað­reynt ástand drenlagna í kringum húsið.  Sérfróðum með­dómsmönnum er ekki að lögum ætlað að bæta úr annmörkum á gagnaöflun máls­aðila með því að leggja á grundvelli eigin þekkingar mat á atvik, sem viðhlítandi gögn skortir um, sbr. 1. mgr. 44. gr. og 1. mgr. 46. gr. laga um meðferð einkamála.  Því stoðar það stefnanda ekki að vísa í munnlegum málflutningi til kostnaðaráætlunar Garðars Ingþórssonar og fram­lagðra reikninga og fara þess á leit við dómendur að þeir ákvarði grundvöll og fjárhæð afsláttar.  Er málið því samkvæmt framansögðu svo van­reifað og mála­tilbúnaður stefnanda í heild þannig úr garði gerður að ekki verður hjá því komist að vísa afsláttarkröfu hennar frá dómi án kröfu, sbr. 4. mgr. 100. gr. og 1. mgr. 111. gr. laga um meðferð einkamála, enda verður ekki bætt úr þessum annmörkum nú, sbr. 104. gr. sömu laga.  Þar sem ekki er loku skotið fyrir það að stefnandi eigi kröfu á hendur stefnda vegna galla á fasteigninni og þar með eftir atvikum skaðabótakröfu vegna tapaðra húsaleigutekna þykir rétt að vísa einnig þeirri kröfu hennar frá dómi án kröfu vegna vanreifunar.       

                Með hliðsjón af framangreindum málsúrslitum og vísan til 2. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála ber að ákvarða stefnda málskostnað úr hendi stefnanda.  Við þá ákvörðun verður litið til þess að stefndi mótmælti kröfum stefnanda strax í júlí 2001 og vísaði meðal annars til hinna ófullnægjandi matsgerða.  Stefnandi höfðaði málið engu að síður á grundvelli matsgerðanna tveggja og var stefndi knúinn til að grípa til varna.  Vegna ófullnægjandi málatilbúnaðar stefnanda, sem einnig hefur tekið veru­legum breytingum undir rekstri málsins, hefur málið orðið þyngra í vöfum og erfiðara að halda uppi skynsamlegum vörnum en ella.  Með hliðsjón af þessu, umfangi málsins og fjölda þinghalda þykir því málskostnaður hæfilega ákveðinn krónur 500.000.

Úrskurðurinn er kveðinn upp af Jónasi Jóhannssyni héraðsdómara og Ásmundi Ingvarssyni og Helga S. Gunnarssyni byggingaverk­fræðingum.

ÚRSKURÐARORÐ:

                Máli þessu er vísað frá dómi án kröfu.

                Stefnandi, Sigríður Rósa Víðisdóttir, greiði stefnda, Einari Óskarssyni, krónur 500.000 í málskostnað.