Hæstiréttur íslands

Mál nr. 172/2008


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Skilorð
  • Miskabætur


                                     

Fimmtudaginn 23. október 2008.

Nr. 172/2008.

Ákæruvaldið

(Sigríður J.Friðjónsdóttir, settur vararíkissaksóknari)

gegn

Hlyni Hansen

(Jóhannes Albert Sævarsson hrl.)

Líkamsárás. Skilorð. Miskabætur.

H var sakfelldur fyrir líkamsárás með því að hafa ráðist á GP og GV með þeim afleiðingum að GP hlaut 1 cm langan skurð á fingri og GV rotaðist og hlaut 2 cm langan skurð á kinn, skurð á vör og langan skurð á höku. Var brot hans heimfært undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með því rauf hann skilorð sem hann hlaut með dómi 30. október 2006, og var það mál tekið upp og honum gerð refsing í einu lagi samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga. Refsing hans var ákveðin 5 mánuðir en frestað var fullnustu 4 mánaða af refsingunni. Þá var H gert að greiða miskabætur til handa GP og GV og bætur vegna kostnaðar af því að kröfunni var haldið fram.

  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 3. mars 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds sem krefst staðfestingar sakfellingar en þyngingar á refsingu ákærða. Þá krefst ákæruvaldið greiðslu bóta til handa Gabriel Enrique Pardo Pardo að fjárhæð 429.720 krónur með vöxtum og dráttarvöxtum eins og greinir í ákæru og til handa Gabriel Enrique Pardo Vera að fjárhæð 542.127 krónur með vöxtum og dráttarvöxtum eins og greinir í ákæru.

Ákærði krefst sýknu af refsikröfu ákæruvaldsins en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann frávísunar á bótakröfum en til vara að bætur verði lækkaðar.

Í hinum áfrýjaða dómi kemur fram það sönnunarmat á munnlegum framburði Sigurðar Gísla Sigurðssonar og ákærða að hann sé ekki trúverðugur. Niðurstaða hins áfrýjaða dóms er byggð á því að framburður kærenda um þau atriði sem sakfellt var fyrir sé trúverðugur, enda sé hann að verulegu leyti í samræmi við framlögð áverkavottorð og framburð annarra vitna að frátöldu vitninu Sigurði Gísla Sigurðssyni.

Samkvæmt 4. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála endurmetur Hæstiréttur ekki niðurstöðu héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar sem þar er gefinn fyrir dómi. Ekki eru fram komnar líkur fyrir því að niðurstaða hins áfrýjaða dóms kunni að vera röng svo að einhverju skipti þannig að fella beri hann úr gildi, sbr. 5. mgr. sama lagaákvæðis. Þegar virt eru þau sönnunargögn sem færð voru fram við meðferð málsins og rakin eru í hinum áfrýjaða dómi þykir hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem hann var sakfelldur fyrir að frátöldum þeim þætti ákærunnar er lýtur að því að ákærði hafi bitið í vísifingur vinstri handar Gabriel Enrique Pardo Pardo. Ákærði hefur staðfastlega neitað að hafa bitið brotaþola og engin vitni eru að því. Verður ákærði sýknaður af þessum þætti ákærunnar.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms og að teknu tilliti til 3. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 er fallist á ákvörðun héraðsdóms um refsingu ákærða.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er fallist á að ákærða beri að greiða tjónþolum miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Ákveðast þær 100.000 krónur til Gabriel Enrique Pardo Pardo og 300.000 krónur til Gabriel Enrique Pardo Vera. Þá verður héraðsdómur staðfestur um aðrar bætur þeim til handa sem og um vexti af tildæmdum bótafjárhæðum.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um málskostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Hlynur Hansen, sæti fangelsi í fimm mánuði, en frestað er fullnustu fjögurra mánaða af refsingunni og falli sá hluti hennar niður að liðnum þremur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði Gabriel Enrique Pardo Pardo 129.720 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. september 2006 til 8. júní 2007 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði Gabriel Enrique Pardo Vera 342.127 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. september 2006 til 8. júní 2007 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað og tildæmdar bætur við að halda fram fjárkröfum Gabriel Enrique Pardo Pardo og Gabriel Enrique Pardo Vera skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 277.047 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóhannesar Alberts Sævarssonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur. 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. febrúar 2008.

Mál þetta, sem dómtekið 11. janúar sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 10. september 2007 á hendur Hlyni Hansen, kt. [...], [...] , fyrir líkamsárás, með því að hafa föstudagskvöldið 1. september 2006, fyrir utan veitingastaðinn Kaffi Viktor í Hafnarstræti í Reykjavík, ráðist á feðgana Gabriel Enrique Pardo Pardo, kt. [...], og Gabriel Enrique Pardo Vera, kt. [...], þar sem þeir sátu við borð fyrir utan staðinn, hrist stól sem Gabriel Enrique Pardo Pardo sat í og tekið hann hálstaki þegar hann stóð á fætur og þá hent honum í gangstéttina og bitið í vísifingur vinstri handar hans, með þeim afleiðingum að Gabriel hlaut 1 cm langan skurð á fingrinum sem saumaður var tveimur sporum, og svo tekið Gabriel Enrique Pardo Vera hálstaki, kýlt hann hnefahöggi í andlit þannig að hann féll í götuna, með þeim afleiðingum að hann rotaðist, hlaut 2 cm langan skurð á vinstri kinn, skurð innan á vinstri vör og 1 cm langan skurð á höku.   

Þetta er talið varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981 og 110. gr. laga nr. 82/1998.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Af hálfu Gabriel Enrique Pardo Pardo er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða bætur að fjárhæð kr. 429.720 auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. september 2006 til greiðsludags og greiðslu kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar að mati dómara eða samkvæmt síðar framlögðum reikningi, auk virðisaukaskatts á málskostnað.

Af hálfu Gabriel Enrique Pardo Vera er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða bætur að fjárhæð kr. 542.127 auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. september 2006 til greiðsludags og greiðslu kostnaðar vegna lögmannskostnaðar að mati dómara eða samkvæmt síðar framlögðum reikningi, auk virðisaukaskatts á málskostnað.

Af hálfu ákærða er krafist sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá er þess krafist að skaðabótakröfum verði vísað frá dómi en til vara að þær verði lækkaðar verulega. Loks er krafist málsvarnarlauna að mati dómsins og að málskostnaður greiðist úr ríkissjóði.

Málsatvik.

Í frumskýrslu lögreglu, dags. 3. september 2006, kemur fram að síðla kvölds 1. september hafi verið óskað eftir aðstoð lögreglu við Kaffi Viktor í Hafnarstræti. Þegar lögregla kom á vettvang var æsingur í fólki og maður sat blóðugur á stól. Var hann færður á slysadeild. Lögregla ræddi við nokkur vitni á vettvangi. Er haft eftir Sigurði Gísla Sigurðssyni, dyraverði á skemmtistaðnum, að ákærði, sem væri dyravörður á sama stað, hefði komið til hans og sagt að menn fyrir utan staðinn hefðu ráðist á sig þegar hann var að taka þar saman borð og stóla. Hefðu þeir ákærði farið saman út og beðið mennina að fara en þeir ekki hlýtt og átök brotist út.

Eftir ákærða er haft að hann hafi verið að taka saman stóla fyrir utan veitingastaðinn. Hafi þá setið þar tveir útlenskir menn sem ekki hafi viljað fara og ýtt við honum. Hafi hann þá náð í Sigurð Gísla. Hafi útlendingarnir ráðist á hann. Hann viðurkenndi þó að hafa misst stjórn á skapi sínu og kýlt einhvern.

Þá kemur fram í skýrslunni að Gabriel Enrique Pardo Pardo, annar kærenda, hafi verið í sjokki og lítið getað tjáð sig en þó skýrt frá því að maður hefði ráðist á sig. Eiríkur Arnarson hafi sagt að hópur úr vinnunni hans hefði verið að skemmta sér þegar dyravörður hefði brjálast og ráðist á einn úr hópnum, Pardo Pardo. Hefði sonur mannsins, Gabriel Enrique Pardo Vera, komið föður sínum til aðstoðar. Hefðu allir viðstaddir reynt að stöðva dyravörðinn en hann hefði verið gjörsamlega stjórnlaus. Þá hefði einn dyravarðanna sömuleiðis reynt að halda ákærða og róa hann niður. Loks er haft eftir Arinbirni Bernharðssyni að dyravörður hefði misst stjórn á sér og ráðist á Pardo Pardo en Arinbjörn kvaðst vera samstarfsmaður hans. Kvað hann Pardo Pardo og son hans ekki hafa verið að gera neitt.   

Tekin var kæruskýrsla af Pardo Vera hjá lögreglu 5. september 2006. Kvað hann þá hafa verið fimm saman til að byrja með. Hann kvað ákærða hafa hrist föður hans sem hefði mótmælt. Ákærði hefði haldið áfram að hrista föður hans og faðir hans þá staðið upp. Hefði ákærði þá gripið föður hans hálstaki og rifið í skyrtu hans. Kvaðst Pardo Vera þá hafa tekið í skyrtu ákærða sem hefði þá sleppt föður hans og tekið hann hálstaki. Hefði hann svo sleppt takinu og farið inn en sjálfur hefði hann sest í stól. Hann sagðist síðan næst hafa vitað af sér í sjúkrabifreið.

Tekin var kæruskýrsla af Pardo Pardo hjá lögreglu 5. september 2006. Kvað hann þá hafa verið sex saman við borðið. Hefðu þeir setið þar, hann sjálfur, sonur hans Pardo Vera, Eiríkur, Arinbjörn og Valgeir. Tveir dyraverðir hefðu komið út og sagt þeim að fara inn. Eiríkur hefði farið inn til að biðja um að þeir fengju að klára bjórinn. Svo hefðu dyraverðirnir báðir komið út og kippt stólunum undan feðgunum báðum. Þeir hefðu hrist þá til í stólunum og látið öllum illum látum. Hefðu þeir tekið um háls feðganna við barkann. Sagði Pardo Pardo að ákærði hefði því næst hent honum á gangstéttina og haldið í hálsinn á honum samtímis. Hann hefði þá náð að taka í skyrtu dyravarðarins og pota í augu hans, en dyravörðurinn þá bitið hann í fingurinn. Kvaðst Pardo Pardo á þessu andartaki hafa verið að berjast fyrir sjálfum sér og því ekki séð hvað varð um son hans. Hefði hann verið alveg að missa meðvitund þegar lögreglan kom á staðinn. Hefði ákærði þá sleppt tökum á honum.

Þegar skýrsla var tekin af ákærða hjá lögreglu 8. maí 2007 neitaði hann að hafa ráðist á feðgana og sagði þá hafa ráðist á sig. Skýrði hann að öðru leyti frá á svipaðan hátt og hann gerði síðar fyrir dómi, meðal annars að Pardo Pardo hefði byrjað á því að kýla hann í bringuna og reynt að skalla hann og þegar hann kom út öðru sinni hefði Pardo Vera sparkað í punginn á honum. Hann hefði þá náð að ýta honum frá sér en náð að grípa í Pardo Pardo og með herkjum náð að setja hann í götuna og halda honum þar. Þegar það hefði tekist hefðu varirnar á Pardo Pardo  verið orðnar hvítar og farin að myndast froða í munnvikunum. Þegar þarna var komið hefði hann verið orðinn mjög æstur en Sigurður Gísli og einhverjir fleiri hefðu þá beðið hann um að fara inn og hefði hann þá orðið við því. 

Í málinu liggur frammi læknisvottorð Ásu E. Einarsdóttur, sérfræðings á slysa- og bráðadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss, vegna Pardo Vera. Samkvæmt vottorðinu var hann með tveggja cm langan skurð vinstra megin á kinn, rétt til hliðar við vörina, fimm mm skurð innan á vinstri vör og eins cm skurð hægra megin á höku. Var stærri skurðurinn saumaður með fimm sporum og sá minni með tveimur. Þá segir að samkvæmt vitnum hafi hann rotast í um það bil eina mínútu.

Í vottorði sama læknis, vegna Pardo Pardo, kemur fram að hann var með sár á vísifingri vinstri handar, sem var um einn cm að lengd, og för voru sitt báðum megin við sárið sem samrýmst gátu bitförum. Engin önnur áverkamerki voru á Pardo Pardo.

Framburðir fyrir dómi.

Ákærði skýrði frá því að hann hefði verið dyravörður á Kaffi Viktor og verið beðinn um að tína saman borð fyrir utan staðinn. Þrír menn hefðu setið þar við borð, feðgarnir sem um ræðir, Pardo Vera og Pardo Pardo, auk annars manns. Í kringum þá hefðu staðið félagar þeirra, 15 til 20 manns, ef til vill fleiri. Ákærði kvaðst hafa beðið mennina um að færa sig en haldið sjálfur áfram að taka saman borð. Þegar hann hefði komið að mönnunum aftur stuttu seinna hefðu þeir ekki verið búnir að færa sig. Hefði hann beðið þá aftur um að færa sig en þeir setið sem fastast. Ákærði kvaðst hafa talað íslensku við mennina. Kvaðst hann þá hafa komið við öxlina á þeim yngri, Pardo Vera, sem hefði þá staðið á fætur. Hann hefði svo snúið sér að þeim eldri, Pardo Pardo, gengið að honum að framanverðu og lagt höndina á öxl hans. Þá hefði sá strax „lagt í“ sig og reitt til höggs og kýlt sig í bringuna. Samtímis hefði hann tekið í sig, staðið upp snögglega og reynt í leiðinni að skalla sig upp á við. Ákærði kvaðst þó hafa náð að verjast því með því sveigja höfðinu frá. Maðurinn hefði þá tekið í hendur sínar og haldið sér föstum. Ákærði kvaðst þó hafa náð að rífa sig lausan og komast inn í hús. Hefði hann hlaupið upp og náð þar í Sigurð Gísla, sem einnig hefði verið þarna dyravörður. Hefði ætlan þeirra verið að halda mönnunum þar til lögreglan kæmi. Er út var komið hefðu mennirnir staðið þar allir saman í hóp. Hefði þeim sem þar voru greinilega verið eitthvað skemmt og þeir hvatt mennina tvo til frekari árása á ákærða. Hefðu mennirnir verið mjög æstir. Hefði sá eldri ráðist beint að sér en sá yngri strax komið honum til hjálpar. Eldri maðurinn hefði strax í upphafi náð að taka ákærða tökum. Sá yngri hefði komið á eftir og hefði sá náð að koma höggi á pung ákærða. Ákærði kvað sér þó hafa tekist að ýta honum frá með því ýta jarkanum í bringu mannsins. Hefði hann fallið við það í jörðina og kvaðst ákærði ekkert hafa meira af honum vitað. Þegar þetta gerðist hefði ákærði verið í tökum við eldri manninn. Hefði hann átt fullt í fangi með að reyna að ráða við hann þar sem sá hefði verið stór og mjög sterkur. Maðurinn hefði hins vegar verið drukkinn og af þeim sökum kvaðst ákærði hafa náð að rykkja honum eitthvað til, þrátt fyrir afl mannsins, og koma honum í jörðina. Maðurinn hefði þó dregið ákærða með sér í jörðina og ákærði lent ofan á honum. Tveir menn hefðu á meðan aftrað Sigurði Gísla að koma ákærða til hjálpar. Ákærði kvað viðskiptavini hafa komið sér til aðstoðar. Hefðu þeir beðið sig um að fara aftur inn enda hefði maðurinn augljóslega „ekki viljað róa sig niður“ á meðan ákærði var þarna og greinilega ætlað að ráðast aftur til atlögu. Kvaðst ákærði ekki vera til frásagnar um hvað gerðist eftir þetta og sagðist hafa verið farinn inn þegar lögreglan kom á staðinn. Hins vegar hefði lögreglumaður komið til sín þarna á eftir og haldið því fram að hann hefði stórlega skaddað mennina. Kvaðst ákærði ekki kannast við að neitt slíkt hefði gerst.

Ákærði kvaðst aðspurður ekki hafa ráðist á feðgana umrætt sinn eins og lýst er í ákæru. Þá hefði hann hvorki bitið né kýlt í andlit, tekið menn hálstaki eða hrist stóla. Aðspurður kvaðst hann ekki kannast við að hafa valdið áverkum á Pardo Vera og gæti hann ekkert um það sagt hvort maðurinn hefði fengið áverkana við fallið í götuna. Hann hefði ekki séð það gerast enda þurft að einbeita sér að átökunum við þann eldri. Ákærði kvaðst hafa orðið nokkuð æstur á meðan á þessu stóð en þó alveg vitað hvað hann var að gera. Hann kannaðist ekki við að hafa séð áverka á mönnunum en sagði að blóð hefði verið í fötum sínum á eftir án þess að vita hvaðan það hefði komið. Sjálfur kvaðst hann hafa fengið högg í pung, bak og bringu en ekkert hefði þó séð á sér eftir átökin.     

Er borið var undir ákærða það sem eftir honum er haft í frumskýrsla lögreglu, að ákærði hefði viðurkennt að hafa misst stjórn á skapi sínu og kýlt einhvern, sagði ákærði það ranglega eftir sér haft. Er borinn var undir hann sá framburður hans hjá lögreglu 8. maí 2007, um að varirnar á Pardo Vera hefðu verið orðnar hvítar og froða farin að myndast í munnvikunum þegar ákærði hélt honum í götunni, sagðist hann ekki kunna skýringu á þessari froðu og að hún hefði ekki tengst því að hann hefði haldið manninum í götunni. Er hann var loks spurður hvernig dyraverðirnir brygðust við erfiðum viðskiptavinum sagði hann þá hafa heimild til að taka menn með svokölluðum lás þannig að hönd væri þá færð aftur fyrir bak.  Hann kvaðst þó ekki hafa haft neinn styrk til að beita þessum tökum á móti Pardo eldri, sem væri frekar breiður en þó ekki stærri en ákærði. Sjálfur kvaðst ákærði vera 190 cm á hæð og 130 kg að þyngd, en á þeim tíma sem um ræðir hafi hann verið 110 kg.

Gabriel Enrique Pardo Vera sagði svo frá að hann hefði verið á samkomu með vinnufélögum sem unnið hefðu við húsbyggingu hjá Kaupþingi. Að henni lokinni hefðu þeir farið í vínbúð og þaðan á Kaffi Viktor. Hefðu þeir verið komnir á Kaffi Viktor milli klukkan níu og tíu. Auk þeirra feðganna hefðu verið þarna Arinbjörn Bernharðsson og maður sem væri rafvirki. Hefðu þeir sest við borð, næst innganginum, vinstra megin þegar gengið sé út, og neytt þar drykkja sem þeir hefðu keypt sér inni á veitingastaðnum. Kvaðst vitnið hafa setið þannig að bakið sneri að inngangi staðarins. Stuttu síðar hefðu fleiri vinnufélagar komið og hafi þeir verið 15 til 20 alls. Vitnið kvað ákærða hafa komið út og látið vita að hann þyrfti að fara inn með borð og stóla. Hefði virst sem hann væri ekki mjög ánægður með að hópurinn væri þarna. Þar sem hópurinn hefði verið nýbúinn að panta bjór hefðu Íslendingarnir í hópnum beðið um að hópurinn fengi smáfrest til að klára úr glösunum. Kvaðst vitnið ekki muna hvort ákærði hefði þá farið inn og komið út aftur. Hann hefði hins vegar stuttu síðar komið að sér aftan frá, gripið um handleggi sína, hrist sig til og tekið sig upp úr stólnum. Hefði þetta verið gert í þeim tilgangi að hann færi úr stólnum. Kvaðst hann hafa orðið svo hissa að hann hefði farið að hlæja, ásamt Arinbirni og rafvirkjanum. Þeir hefðu þó ekki meint hláturinn neitt illa. Í kjölfarið hefði það svo gerst að ákærði hefði ætlað að gera hið sama við föður hans, Pardo Pardo. Hefði faðir hans reynt að losa sig með því að setja hendurnar til hliðar, án þess að segja neitt. Þegar faðir hans hefði losað sig hefðu þeir staðið hvor fyrir framan annan, faðir hans og ákærði, og hefði ákærði þá gripið um hálsinn á föður hans. Hefði faðir hans þá reynt að losa sig og tekið í skyrtu ákærða. Kvaðst vitnið þá hafa reynt að snúa ákærða við til að hann myndi sleppa föður hans. Hefði ákærði þá sleppt honum en gripið þess í stað með hendinni um háls vitnisins. Kvaðst vitnið þá á móti hafa gripið í ákærða sem hefði þá sleppt takinu og farið aftur inn. Einn úr hópnum, Gulli, hefði séð aðfarir ákærða gagnvart föður vitnisins og ofboðið þær því Gulli hefði lengi þekkt hann og vitað að hann væri sómakær maður. Hefði Gulli þessi ætlað að rjúka í ákærða vegna þessa en vitnið kvaðst hafa komið í veg fyrir það. Kvaðst vitnið ekkert hafa séð ákærða eftir þetta. Hefði fólkið sem þarna var statt verið mjög hissa á þessum aðförum ákærða. Spurður hvort ákærði hefði virst æstur á meðan á þessu stóð svaraði vitnið að nær væri að lýsa því þannig að hann hefði virst „agressívur“. Spurður um þá lýsingu ákærða að þeir feðgar hefðu ráðist á ákærða kvaðst vitnið þann framburð vera fjarstæðu. Inntur eftir því hvort það hefði verið nauðsynlegt fyrir ákærða að hrista stólana til að fá þá til að hreyfa sig sagði vitnið að svo hefði ekki verið. Á þessum tíma hefði vitnið ekki skilið íslensku og Íslendingarnir í hópnum hefðu haft orð fyrir hópnum.

Þegar ákærði hefði verið farinn inn sagði vitnið föður sinn hafa rétt sér stól þannig að hann gæti sest á sama stað og áður. Hefði hann ekkert verið að fylgjast með dyrum veitingastaðarins og vissi því ekkert um hvort ákærði hefði komið aftur út. Hann kvaðst hins vegar ekki muna eftir atvikum eftir þetta fyrr en í sjúkrabíl á leið á spítalann. Gæti hann í raun ekki sagt neitt til um það sjálfur hvað leitt hefði til þess að hann missti meðvitund. Eina sem hann gæti sagt væri að hann hefði misst meðvitund og hlotið tvo skurði í andliti og að félagar hans hefðu sagt honum frá því að ákærði hefði verið valdur að því að svona fór. Aðspurður um áfengisneyslu umrætt kvöld kvaðst vitnið telja sig hafa drukkið fjóra stóra bjóra og tvo litla á um það bil fimm klukkustundum. Hefði hann ekki verið drukkinn þegar þeir sátu þarna umrætt sinn. Þá sagði hann að félagar þeirra fjögurra sem fyrstir komu á staðinn hefðu bæst við í þann mund sem ákærði hefði verið að veitast að föður hans.

Gabriel Enrique Pardo Pardo sagðist hafa farið með nokkrum vinnufélögum sínum á Kaffi Viktor, á milli kl. níu og hálftíu, eftir að hafa verið þar á undan í veislu hjá Kaupþingi sem haldin hefði verið vegna byggingarframkvæmda þar. Þeir hefðu komið saman á veitingastaðinn níu eða tíu manns. Hefðu þeir sest við borð fyrir utan, vinstra megin við innganginn þegar gengið sé út. Kvaðst vitnið hafa setið þannig að hann hefði snúið með bakið í tröppurnar en sonur hans hefði setið hægra megin við sig. Hefðu þeir keypt bjór inni og spurt í leiðinni hvort þeir mættu drekka bjórinn fyrir utan. Tveir eða þrír úr hópnum hefðu verið standandi. Þegar þeir hefðu setið og drukkið þarna í stutta stund hefði ákærði komið og sagt þeim að færa ætti borðin inn. Einn úr hópnum hefði þá farið inn til að spyrja hvort þeir mættu sitja áfram en ákærði hefði rekið áfram á eftir þeim. Hefði ákærði svo farið inn og komið út aftur þremur eða fjórum mínútum síðar. Hefði hann þá gengið til þeirra, tekið í eða kippt í stólinn sem vitnið sat á, tekið um hann með báðum höndum og snúið honum við. Hefði hann því næst gripið um háls vitnisins. Við þessar aðfarir hefði sonur vitnisins staðið upp. Hefði ákærði þá snúið sér að syni hans og slegið hann hnefahögg vinstra megin í andlitið. Við þetta hefði sonur hans fallið aftur fyrir sig á gangstéttina og legið þar meðvitundarlaus í fimm til sjö mínútur. Þá hefði ákærði tekið vitnið hálstaki í annað sinn og ýtt við honum þannig að hann hefði dottið aftur fyrir sig á stéttina. Hefði ákærði haldið honum niðri með því að halda föstu taki um háls hans og þrýsta jafnframt fæti sínum ofan á hann.  Kvaðst vitnið af þessum sökum hafa átt mjög erfitt með andardrátt og verið algjörlega varnarlaus. Hefði ákærði haldið svona í fjórar til fimm mínútur. Á meðan hefðu þeir sem með þeim voru ekki getað gert neitt því að ákærði hefði verið svo æstur og stjórnlaus. Vitnið sagðist þó hafa reynt að krafla frá sér og um það leyti þegar lögreglan kom á staðinn hefði honum tekist að reka fingur í augu ákærða og losna þannig úr tökunum. Áður en það tókst hefði ákærði þó bitið hann í fingurinn. Lögreglan hefði svo komið á staðinn. Hefði lögreglumenn fyrst talið að vitnið hefði átt sök á átökunum en hópurinn hefði útskýrt fyrir þeim hvað gerst hefði. Hefði þetta endað með því að sonur hans hefði verið fluttur af staðnum í sjúkrabíl og hefði hann orðið samferða.

Sérstaklega aðspurður kvaðst vitnið ekki kannast við að hann eða sonur hans hefðu með einhverjum hætti átt upptökin að umræddum átökum eða að hópurinn sem með þeim var hefði hvatt þá til að ráðast á ákærða. Sagðist vitnið ekki hafa neina skýringu á því hvers vegna ákærði hefði ráðist á þá, hópurinn hefði komið vel fram að öllu leyti. Spurður hvers vegna hann segðist nú hafa séð ákærða kýla son hans, Pardo Vera, í andlitið þegar hann hefði í skýrslu sinni hjá lögreglu sagst ekki hafa séð hvað gerst hefði að því leyti, sagðist vitnið nú muna þetta betur en hjá lögreglu. Vitnið kvaðst hafa verið búinn að drekka fjóra til fimm bjóra þetta kvöld. Vitnið kvaðst vera 182 cm á hæð og 78 kg að þyngd.

Vitnið Arinbjörn Bernharðsson lýsti atvikum svo að hann hefði setið við borð fyrir utan skemmtistaðinn Viktor, vinstra megin við innganginn þegar gengið sé út, ásamt Pardo Pardo og einum eða tveimur öðrum. Þeir hefðu verið að tala saman þegar dyravörður hefði komið til þeirra og sagt eitthvað sem vitnið heyrði ekki. Pardo Pardo hefði setið en staðið nokkuð snöggt upp til að hvá, þar sem hann skildi ekki vel íslensku. Hefði dyravörðurinn þá tekið hann hálstaki og snúið í götuna. Fljótlega þar á eftir hefðu fleiri dyraverðir verið komnir ofan á Pardo Pardo. Á sama tíma hefði sonur hans, Pardo Vera, verið að koma að borðinu. Hefði honum sýnilega verið brugðið og líklega ætlað að koma föður sínum til hjálpar. Það næsta sem vitnið hefði séð var að sonurinn lá rotaður. Vitnið kvaðst hafa séð einhvern mann veitast að syninum og slá til hans eða gera eitthvað sem leiddi til þess að sonurinn rotaðist. Kvaðst vitnið ekki hafa séð hver gerði þetta og gæti hann því ekki sagt til um hvort það hefði verið sami maðurinn og réðst á föðurinn. Hefði hann hvorki séð höggið sjálft né hver sló. Inntur eftir hugsanlegri ástæðu þessa kvaðst vitnið telja að einhver misskilningur hefði verið á ferð, hugsanlega vegna tungumálsins. Engin önnur samskipti hefðu átt sér stað við ákærða og hefði hann ekki tekið eftir að hann væri reiður. Kvaðst vitnið hafa þekkt Pardo Pardo í sjö ár og hann  vissi að hann væri mikið prúðmenni.

Aðspurður kvaðst hann ekki telja að það hefði verið neitt í fari Pardo Pardo sem hefði gefið tilefni til að hann yrði tekinn hálstaki. Þá kannaðist hann hvorki við að feðgarnir hefðu ráðist á dyravörðinn né að vinnufélagarnir hefðu hvatt þá áfram í því skyni. Ef um eitthvað slíkt hefði verið að ræða hefði hann veitt því eftirtekt. 

Vitnið Eiríkur Arnarson kvað nokkra vinnufélaga hafa verð saman í hóp á Kaffi Viktor. Hefðu feðgarnir og einhverjir fleiri verið komnir á undan og sest við borð fyrir utan staðinn. Hinn hluti hópsins hefði svo komið þar að. Kvaðst vitnið hafa farið inn á staðinn en þegar hann kom út hefði allt verið komið í háaloft. Þá hefði verið búið að rota soninn Pardo Vera en dyravörður hússins hefði haldið Pardo Pardo með haustaki í tröppunum, þannig að andlit hans hafi legið utan í þrepunum. Hefði dyravörðurinn verið ofan á manninum og haldið höndum hans einhvern veginn fyrir aftan bak. Kvaðst vitnið hafa reynt að fá dyravörðinn til að losa takið enda hefði hann haft áhyggjur af að þetta gæti farið illa. Hefði takið virst vera mjög fast, harkalegt og hættulegt. Vitnið kvað dyravörðinn hafa verið mjög æstan og ekki hefði verið unnt að tala hann til eða losa takið. Annar dyravörður hefði komið og sá virst rólegri. Sjálfur hefði Pardo Pardo virst alveg rólegur og ekki barist neitt á móti heldur fremur verið að reyna að róa dyravörðinn ásamt vitninu. Dyravörðurinn hefði loks fallist á að losa takið á Pardo Pardo sem hefði staðið á fætur. Um þetta leyti hefði lögreglan verið að koma á vettvang. Hefði Pardo Vera þá verið hjálpað á sjúkrahús.

Vitnið Valgeir Alexander Eyjólfsson skýrði frá því að Pardo Pardo hefði verið kominn á Kaffi Viktor þegar vitnið kom þangað ásamt syninum, Pardo Vera. Fljótlega hefði dyravörður komið og bannað hópnum að sitja lengur úti. Hópurinn hefði verið eitthvað á móti því að fara. Dyravörðurinn hefði þá tekið í axlirnar á Pardo Pardo sem á móti hefði þá tekið um hendur dyravarðarins. Í framhaldi af þessu hefði eitthvert tusk byrjað. Þetta hefði þó ekki virst neitt alvarlegt en hann gæti ekki munað nákvæmlega hvað gerðist, einhver tök hefðu verið tekin og hefði Pardo Vera farið til að hjálpa föður sínum. Svo hefðu fleiri dyraverðir komið út og málið sjatnað. Um fimm mínútum síðar hefði sami dyravörðurinn komið aftur út og slegið Pardo Vera hnefahögg í höfuðið. Hefði hann slegið frá hlið eða aftan frá. Pardo Vera hefði verið standandi og fallið í götuna. Vitnið kvaðst hafa staðið við húsið en Pardo Pardo  hefði staðið nær götunni. Hann kvaðst hafa séð þetta nánast beint fyrir framan sig. Þegar þetta gerðist hefði Pardo Pardo rokið á dyravörðinn og þeir svo legið í götunni, dyravörðurinn ofan á. Pardo Vera hefði legið rotaður á meðan. Fleiri dyraverðir hefðu komið út og haldið strákum sem voru þarna. Dyravörðurinn hefði legið lengi ofan á Pardo Pardo og einhver átök verið á milli þeirra. Hefði Pardo Pardo legið á bakinu og sagðist vitnið efast um að hann hefði getað hreyft sig. Aðrir dyraverðir hefðu svo að lokum tekið dyravörðinn eða fengið hann til að fara inn. Hefði það líklega verið stuttu áður en lögreglan kom á vettvang. Inntur eftir því hvort dyravörðurinn hefði haft tilefni til þessara afskipta af hópnum sagði hann ástæðuna hugsanlega þá að ekki hefði mátt sitja úti eftir kl. 11. Vitnið kvaðst hins vegar ekki sjá neina ástæðu fyrir því að dyravörðurinn hefði komið út í annað sinn. Það hefði eingöngu verið árás.

Vitnið Sigurður Gísli Sigurðsson kvaðst hafa verið dyravörður á Kaffi Viktor umrætt sinn. Sagði hann ákærða hafa komið til sín og beðið sig að koma vegna þess að hópur manna væri fyrir utan staðinn með læti og neitaði að yfirgefa borðin. Hefði ætlun þeirra verið að biðja fólkið um að færa sig en hringja í lögregluna ef það ekki hlýddi. Þegar þeir svo komu út hefðu mennirnir veist að ákærða og einn þeirra hefði náð að skella hnénu í punginn á honum. Hefði ákærði þá hrint manninum í burtu og hefði þá allt leyst upp í vitleysu og mennirnir allir, líklega fjórir eða fimm talsins, ráðist á þá. Hefði ákærði náð að hrinda einum þeirra frá sér en sjálfur hefði hann náð að taka mann, sem kom aftan að ákærða, tökum. Sá hefði verið útlendingur, maður á miðjum aldri, 25 til 30 ára. Ákærði hefði verið með tvo menn á sér. Einhverjir í kring hefðu gert hróp að þeim á þeim nótum að þeir væru ofbeldisfullir. Vitnið sagði ákærða hafa haldið manni og legið á honum í götunni í fimmtán til tuttugu mínútur enda slepptu þeir ekki mönnum meðan þeir væru æstir. Kvaðst hann sjálfur hafa haldið öðrum manni. Inntur eftir því hvaða tökum þeir beittu sagði hann það vera „fastatök lögreglunnar“. Vitnið kvaðst ekki hafa tekið sérstaklega eftir ástandi mannsins sem ákærði hélt. Hann hefði margoft séð menn froðufella og blána í vinnunni vegna taka sem þeir væru teknir en ekki vita af varanlegum skaða vegna þess. Ástæðan væri aðeins sú að þeir misstu loft. Menn væru oft dýrbrjálaðir og undir áhrifum fíkniefna. Vitnið sagði það ekki rétt að dyraverðirnir hefðu átt upptökin að þessum átökum, þeir hefðu engin högg slegið. Kvaðst hann heldur ekki vita til þess að einhver hefði rotast. Einhver hefði þó getað skollið í götuna þegar honum var ýtt í burtu, til dæmis þegar ráðist var á ákærða. Vitnið sagðist hafa séð ákærða hrinda manni í götuna og það sama hefði hann sjálfur gert. Hann sagði hins vegar að maðurinn sem hann hefði hrint hefði staðið upp aftur. Vitnið kvaðst vera 2 metrar á hæð og 150 kg að þyngd.

Vitnið Gunnlaugur Vilberg Snædal sagðist hafa komið með hópnum á Kaffi Viktor en þá hefði verið komið að lokun staðarins. Hefðu þeir ætlað inn en staðið fyrir utan og verið að ræða saman. Hefðu þeir þá skyndilega séð að Pardo Vera lá á götunni. Vitnið kvaðst hafa snúið baki í þetta og því ekki séð hvernig aðdragandi þessa var. Vegna þessa hefði fokið í föðurinn, Pardo Pardo. Hefði dyravörðurinn þá tekið hann niður, haldið honum og setið á honum til að halda honum þannig kyrrum. Einhverjar konur hefðu svo komið Pardo Pardo til aðstoðar. Hefði hann í fyrstu legið í smástund og svo verið færður upp á stól. Hefði hann sýnilega verið mjög vankaður og með sár á kinninni. Spurður hvort hann hefði orðið var við að einhver úr hópnum réðist að dyravörðunum sagðist hann ekki hafa orðið var við það. Þá hefði hann ekki orðið var við að Pardo Pardo væri óður þegar hann lá í götunni.

Vitnið Jón Kristinn Þórsson lögreglumaður staðfesti frumskýrslu sem hann ritaði vegna málsins. Kvaðst hann hafa verið fyrstur á vettvang. Hann minnti að þar hefðu verið mikil læti og að einhver hefði verið blóðugur en engin slagsmál hefðu þó verið í gangi. Vitnið var spurt á hverju eftirgreind athugasemd í frumskýrslu hefði byggst: „Samkvæmt nokkrum vitnum sem komu til lögreglumanna á vettvangi sögðu þau að dyraverðirnir hefðu byrjað slagsmálin.“ Kvaðst hann hafa haft þetta eftir hinum lögreglumönnunum, en fólk hefði komið til lögreglumannanna og tjáð sig án þess að nöfn þess hefðu verið tekin niður. Kvaðst hann hafa tekið niður framburð ákærða en sagðist ekki muna lengur hvað hann sagði.

Niðurstaða.

Ákærði neitar sök. Kannast hann ekki við að hafa ráðist á feðgana Pardo Pardo og Pardo Vera umrætt sinn. Þeir hafi ráðist á hann og nokkrir aðrir viðstaddir hvatt þá til dáða og jafnvel tekið þátt í árás feðganna. Staðhæfir ákærði að Pardo Vera hafi slegið sig í punginn en síðan fallið í jörðina eftir að ákærði náði að ýta honum frá sér. Hins vegar hafi Pardo Vera, sem sé stór og mjög sterkur, fyrst kýlt sig í bringuna og reynt að skalla sig upp á við en þegar ákærði kom út öðru sinni hafi hann ráðist beint að sér og tekið sig tökum. Hafi þau átök endað með því að ákærði hafi náð að rykkja manninum niður en dregið ákærða með sér í fallinu þannig að ákærði lenti ofan á honum.

Er vitnið Sigurður Gísli Sigurðsson, sem var við dyravörslu með ákærða umrætt kvöld, kom fyrir dóm lýsti hann atvikum, eftir að ákærði kom út seinna sinni, á svipaðan veg og ákærði. Þannig hefði hópur manna ráðist að ákærða þegar hann kom út og einn þeirra náð að skella hnénu í punginn á ákærða. Þá lýsti hann því að í framhaldi hefði allt farið úr böndum og árásarmennirnir, líklega fjórir eða fimm, ráðist á þá ákærða. Við skýrslutöku hjá lögreglu minntist vitnið hins vegar ekki á pungspark en lýsti, eins og fyrir dómi, á nokkuð ýkjukenndan hátt hvernig þeir félagarnir börðust við óróaseggi sem að þeim sóttu.

Vitnisburður annarra þeirra sem viðstaddir voru og skýrslu gáfu fyrir dómi var í megindráttum nokkuð á annan veg. Þannig bar þeim saman um það, Arinbirni Bernharðssyni, Eiríki Arnarsyni og Valgeiri Alexander Eyjólfssyni, sem er í samræmi við framburð feðganna, að ekkert í hegðun feðganna eða annarra þeirra sem þarna voru hafi kallað á líkamleg afskipti dyravarðanna með þeim hætti sem raunin virðist hafa orðið. Er það mat dómsins eftir að hafa hlýtt á framburði ákærða og vitna fyrir dómi, með hliðsjón af öðrum gögnum málsins, að framburðir ákærða og vitnisins Sigurðar Gísla séu ekki trúverðugir. Framburðir þeirra, Pardo Pardo og Pardo Vera, sýnast hins vegar að verulegu leyti vera í samræmi við framburði annarra vitna en Sigurðar Gísla, og önnur gögn málsins, og metur dómurinn þá trúverðuga. Verður það ekki talið draga úr trúverðugleika framburða þeirra að þeir báru ekki á einn veg varðandi aðdraganda þess að ákærði sló Pardo Vera þannig að hann rotaðist. Taldi Pardo Pardo það hafa gerst í beinu framhaldi af því þegar ákærði kom út öðru sinni og tók um stól hans og síðan háls en Pardo Vera taldi það hafa gerst fyrirvaralaust einhvern tímann eftir að dyravörðurinn fór inn. Verður slíkur mismunur ekki metinn óeðlilegur í ljósi þess að ákærði mun hafa misst meðvitund auk þess sem feðgarnir voru báðir drukknir umrætt sinn.

Þegar til þess er litið sem hér hefur verið rakið verður að telja sannað með vætti Arinbjörns, Pardo Pardo og Pardo Vera, að ákærði hafi tekið Pardo Pardo hálstaki og hent honum í gangstéttina. Þá þykir og hafið yfir skynsamlegan vafa, með hliðsjón af framburði Pardo Pardo sjálfs og áverkavottorði, þar sem fram kemur að för sitt hvorum megin við sár á vísifingri vinstri handar, geti samrýmst bitförum, að ákærði hafi og gerst sekur um að hafa bitið Pardo Pardo í þann fingur eins og nánar greinir í ákæru.  Þá telst og sannað með vætti Valgeirs Alexanders og Pardo Pardo, sem fær og stuðning í framburði Arinbjörns, að ákærði hafi kýlt Pardo Vera í andlitið þannig að hann féll í götuna og rotaðist. Hins vegar er framburður Pardo Vera sjálfs um að ákærði hafi tekið hann hálstaki hvorki studdur gögnum né framburði annarra vitna og verður ákærði því sýknaður af þeim hluta ákærunnar.

Ákvörðun refsingar, skaðabóta o.fl.

Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði var ákærði fundinn sekur um líkamsárás skv.  2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga og vopnalagabrot með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 30. október 2006. Kemur þar fram að refsing hans hafi verið ákveðin tveggja mánaða fangelsi, skilorðbundið í 3 ár. Við athugun á tilgreindum dómi kemur í ljós að refsing ákærða er ranglega tilgreind í vottorðinu. Hið rétta er að ákærða var með greindum dómi gert að sæta fangelsi í 6 mánuði og þar af voru 4 mánuðir bundnir skilorði til þriggja ára. Brot það sem ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir var framið fyrir uppkvaðningu ofangreinds dóms. Ber því að taka upp skilorðshluta þess dóms og ákvarða ákærða refsingu í einu lagi fyrir þau brot sem þar var fjallað um og það sem hér er til meðferðar samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 77. og 78. gr. sömu laga.  Að þessu virtu, og með hliðsjón af því að árás ákærða var tilefnislaus, þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 5 mánuði, en frestað er fullnustu 4 mánaða af refsingunni og falli sá hluti hennar niður að liðnum 3 árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Í málinu liggur frammi skaðabótakrafa Gabriels Enrique Pardo Pardo að fjárhæð 429.720 krónur auk vaxta og lögmannsþóknunar. Sundurliðast krafan með eftirgreindum hætti:

Miskabætur

kr.  400.000

Bætur fyrir útlagðan kostnað skv. nótum

kr.    29.720

Samtals                                                            

kr.  429.720

Pardo Pardo á rétt á miskabótum úr hendi ákærða með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og þykja þær hæfilega ákvarðaðar 80.000 krónur. Krafa vegna útlagðs kostnaðar er vegna læknisþjónustu og styðst hún við gögn. Er hún því tekin til greina. Samkvæmt þessu er ákærði dæmdur til að greiða brotaþolanum Pardo Pardo 109.720 krónur ásamt vöxtum sem nánar greinir í dómsorði. Þá verður ákærða og gert að greiða brotaþola 67.728 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti vegna lögmannskostnaðar við að halda kröfunni fram.

Í málinu liggur og frammi skaðabótakrafa Gabriels Enrique Pardo Vera að fjárhæð 550.407 krónur auk vaxta og lögmannsþóknunar. Sundurliðast krafan með eftirgreindum hætti:

Miskabætur                                                     

kr.  500.000

Bætur fyrir útlagðan kostnað skv. nótum

kr.    42.127

Samtals                                                            

kr.  542.127

Pardo Vera á rétt á miskabótum úr hendi ákærða með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og þykja þær hæfilega ákvarðaðar 100.000 krónur. Krafa vegna útlagðs kostnaðar er vegna læknisþjónustu og styðst hún við gögn. Er hún því tekin til greina. Samkvæmt þessu er ákærði dæmdur til að greiða brotaþolanum Pardo Vera 142.127 krónur ásamt vöxtum sem nánar greinir í dómsorði. Þá verður ákærða og gert að greiða brotaþola 67.728 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, vegna lögmannskostnaðar við að halda kröfunni fram.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóhannesar Alberts Sævarssonar hæstaréttarlögmanns, 261.450 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Sókn máls þessa annaðist Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir, fulltrúi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kvað upp dóm þennan en dómsuppsaga hefur dregist vegna embættisanna.

Dómsorð

Ákærði, Hlynur Hansen, sæti fangelsi í 5 mánuði, en frestað er fullnustu 4 mánaða af refsingunni og falli sá hluti hennar niður að liðnum 3 árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði Gabriel Enrique Pardo Pardo 109.720 krónur ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. september 2006 til 8. júní 2007 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Einnig greiði hann Pardo Pardo  67.728 krónur í kostnað við að halda kröfunni fram.

Ákærði greiði Gabriel Enrique Pardo Vera 142.127 krónur ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. september 2006 til 8. júní 2007 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Einnig greiði hann Pardo Vera  67.728 krónur í kostnað við að halda kröfunni fram.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóhannesar Alberts Sævarssonar hæstaréttarlögmanns, 261.450 krónur.