Hæstiréttur íslands

Mál nr. 510/2011


Lykilorð

  • Samningur


 

Fimmtudaginn 29. mars 2012.

Nr. 510/2011.

 

Hringrás hf.

(Indriði Þorkelsson hrl.)

gegn

Snæfellsbæ

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

 

Samningur.

H hf. og S gerðu með sér samning þar sem H hf. tók að sér gegn greiðslu að hreinsa, flytja og/eða fjarlægja tiltekin efni frá starfsstöð S. Í málinu var deilt um hvort tekist hefði með aðilum munnlegt samkomulag um að S myndi ekki greiða H hf. fyrir töku og/eða flutning brotajárns þrátt fyrir ákvæði samningsins. Þótti S hafa sýnt fram á að H hf. hefði skuldbundið sig munnlega gagnvart honum til að krefja hann ekki um greiðslu. Var staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu S af kröfu H hf.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Greta Baldursdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. september 2011. Hann krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 4.487.771 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. desember 2009 til greiðsludags en til vara 3.640.635 krónur með dráttarvöxtum eins og í aðalkröfu greinir. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann sýknu að svo stöddu en að því frágengnu að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og í báðum tilvikum málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Stefndi hefur ekki gagnáfrýjað héraðsdómi og verður því litið svo á að hann krefjist aðeins staðfestingar á málskostnaðarákvæði dómsins.

Af gögnum málsins verður ráðið að reikningar þeir sem áfrýjandi krefur stefnda um greiðslu á séu vegna töku og flutnings á brotajárni í nóvember og desember á árinu 2006 og  apríl og maí á árinu 2008. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti sem ákveðst eins og í dómsorði greinir.

Það athugast að við meðferð málsins í héraði var gætt ákvæðis 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Hringrás hf., greiði stefnda, Snæfellsbæ, 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júní 2011.

Stefnandi er Hringrás hf., kt. 420589-1319, Klettagörðum 9, Reykjavík. Stefndi er  Snæfellsbær, kt. 510694-2449, Snæfellsási 2, Hellissandi. Málið var höfðað 12. febrúar 2010 og dómtekið 11. maí sl.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru aðallega þær að stefnda verði gert að greiða stefnanda reikningskröfu að fjárhæð 4.736.771 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga, nr. 38/2001, af 249.000 krónum frá 12. mars 2009 til 1. desember 2009 og af 4.736.771 krónu frá 1. desember 2009 til greiðsludags. Til vara gerir stefnandi þá kröfu að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 3.804.635 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga, nr. 38/2001, af 200.000 krónum frá 12. mars 2009 til 1. desember 2009 og af 3.604.635 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Í báðum tilvikum krefst stefnandi að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi en ella að skaðlausu að mati dómsins.

Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda. Til vara er þess krafist að stefndi verði sýknaður að svo stöddu. Til þrautavara er þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Hvort sem fallist verður á aðal-, vara- eða þrautavarakröfu stefnda þá krefst stefndi þess að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað eftir mati dómsins.

Mál þetta var þingfest 16. febrúar 2010 en þá var stefnda veittur frestur til að skila greinargerð. Stefndi skilaði greinargerð 13. apríl s. á. og undirritaður dómari tók málið fyrir 7. júní 2010. Málinu var þá frestað til sáttaumleitana og frekari gagnaöflunar til 9. september 2010. Þann dag var málið tekið fyrir á ný og lýstu aðilar yfir að gagnaöflun og tilraunum til sáttaumleitana væri lokið. Aðalmeðferð var ákveðin 2. desember s. á. en var síðar frestað utan réttar til 11. maí sl. Við aðalmeðferð gerði stefnandi fyrrgreinda varakröfu. Að aðalmeðferð lokinni var málið dómtekið.

I. Um atvik og ágreining aðila

Stefnandi er félag sem einkum sérhæfir sig í endurvinnslu brotajárns og móttöku spilliefna. Stefnandi og stefndi gerðu með sér samkomulag dags. 6. mars 2006, þar sem stefnandi tók að sér að hreinsa, flytja og/eða fjarlægja tilgreint efni frá starfsstöð stefnda. Nánar tiltekið varðaði samkomulagið brotajárn, dekk, fernur, bylgjupappa, landbúnaðarplast, rafgeyma og spilliefni sem til féllu í sveitarfélaginu.

Samkvæmt 3. gr. samningsins tók stefndi að sér að flytja brotamálma til Reykjavíkur fyrir stefnanda og skyldi stefndi greiða 4,50 kr. p/kíló fyrir flutninginn. Í 4. gr. samningsins kemur m.a. fram að samningurinn gildi til þriggja ára og heimilt sé á samningstímanum að setja honum upp með þriggja mánaða fyrirvara. Þá er gert ráð fyrir í sömu grein samningsins að sé honum ekki sagt upp á samningstímanum framlengist hann sjálfkrafa um tvö ár í senn. Stefnandi reisir kröfu sína á því að hann hafi unnið í þágu stefnda í samræmi við ákvæði fyrrgreinds samkomulags aðila frá 6. mars 2006 á tímabilinu 2006 til 2008. Krafa hans byggir á þremur reikningum, nánar tiltekið:

Nr.:

Útgáfudagur:

Gjalddagi:

Fjárhæð:

Vsk.:

Samtals:

BR-05705

25.02.2009

12.03.2009

200.000

49.000

249.000

BR-06595

16.11.2009

01.12.2009

2.581.020

632.349

3.213.370

BR-06594

16.11.2009

01.12.2009

1.023.615

250.786

1.274.401

Stefndi heldur því hins vegar fram að á síðari hluta ársins 2006 hafi aðilar gert með sér munnlegt samkomulag um að ekkert yrði greitt fyrir töku og/eða flutning brotajárns. Um það snýst ágreiningur þessa máls, þ.e. hvort tekist hafi með aðilum munnlegt samkomulag um að stefndi myndi ekki greiða stefnanda fyrir töku brotajárns andstætt skriflegum samningi þeirra frá 6. mars 2006 og þar með lögmæti framangreindra reikninga frá 16. nóvember 2009. Enn fremur deila aðilar um hvort stefndi hafi skilað stefnanda fjórum spilliefnakörum og fjórum rafhlöðuílátum en með framangreindum reikningi frá 25. febrúar 2009 krafði stefnandi stefnda um greiðslu vegna þeirra.

Í greinargerð stefnda er því lýst að forsaga málsins hafi verið sú að aðilar hafi átt viðskipti í á annan áratug. Samstarfið hafi gengið vel þar til þessi ágreiningur hafi risið. Samstarfið hafi í upphafi verið óformlegt en árið 2002 hafi aðilar gert með sér munnlegt samkomulag um að stefnandi hreinsaði upp allt brotajárn hjá stefnda. Fyrir liggja nokkur tölvupóstsamskipti milli stefnda og stefnanda frá 30. maí 2005 til 12. september 2005 þar sem rætt er um að vinna að ganga frá málum og ljúka samningi. Aðilar undirrituðu síðan fyrrgreindan samning 6. mars 2006. Stefndi segir að með samningnum hafi aðilar í raun staðfest það samstarf sem þeir hafi átt um árabil. 

Andstætt ákvæðum skriflega samningsins frá 6. mars 2006 heldur stefndi því fram að á síðari hluta ársins 2006 hafi aðilar gert með sér munnlegt samkomulag um að ekkert yrði greitt fyrir töku og/eða flutning brotajárns. Ástæðan hafi verið sú að verðmæti brotajárns hafi tekið að hækka mikið vegna almennra verðhækkana á heimsmarkaði, auk þess sem verðmæti brotajárns hafi tekið að aukast verulega vegna gengisbreytinga. Svo hafi verið komið á þessum tíma að þeir sem söfnuðu brotajárni hafi almennt verið farnir að greiða fyrir það í stað þess að fá greitt fyrir að hirða það.  Forsvarsmenn stefnanda hafi væntanlega séð fram á það að samningi aðila yrði einfaldlega sagt upp ef krafist yrði greiðslna fyrir að hirða brotajárn þar sem að ljóst var að stefndi myndi eðli málsins samkvæmt ekki lengur vilja greiða fyrir að afhenda brotajárn á sama tíma og hann gat fengið greitt fyrir það.  Breytingin samkvæmt þessu hafi verið hagkvæm fyrir báða aðila, þ.e. stefndi losnaði við greiðslur samkvæmt samningnum en stefnandi þyrfti ekki að greiða fyrir brotajárnið eins og gerst hefði ef samningi hefði verið sagt upp með þriggja mánaða samningsbundnum fyrirvara og síðan samið á grundvelli markaðsverðs brotajárns. Það sama hafi gilt gagnvart fleiri sveitarfélögum sem  stefnandi hafði samið við, þ.e. að þrátt fyrir ákvæði skriflegra samning um rétt stefnanda til greiðslna frá þessum aðilum, þá hafi þeir um árabil ekki verið krafðir um greiðslur fyrir hirðingu eða flutning brotajárns.

Samkvæmt gögnum málsins sendi stefnandi stefnda reikning í lok árs 2006 vegna hirðu á brotajárni árið 2006 með gjalddaga 3. janúar 2007, að fjárhæð 2.581.020 krónur, sem var síðan ítrekaður 18. janúar 2007. Stefndi gerði athugasemdir við reikninginn með tölvupósti 19. janúar 2007. Með tölvupósti 22. janúar s.á. svaraði starfsmaður stefnanda, Helena Hákonardóttir, með svofelldum hætti:

„Sæll Smári, Helena heiti ég og vinn hjá Hringrás og Skandinvest. Ég hef fellt niður ítrekunina þar sem hún átti ekki rétt á sér. Ég biðst afsökunar á þessum mistökum“. Stefndi segir að reikningurinn hafi verið bakfærður í framhaldi af því. …“

Stefndi segir að samstarf aðila hafi síðan haldist óbreytt samkvæmt þessu. Stefnandi hafi annast úrgangshreinsun samkvæmt samningnum en án þess að krefjast greiðslu eins og hið munnlega samkomulag aðila kvað á um.  Stefndi segir að margoft hafi verið rætt um það að ganga frá nýjum samningi í samræmi við hið breytta fyrirkomulag. Fyrir liggur tölvupóstur frá  Einari Ásgeirssyni framkvæmdastjóra stefnanda, frá 15. maí 2008 þar sem segir:

„Með tilvísun til samtals okkar fyrr í dag óska ég eftir fundartíma í þarnæstu viku, þar sem við færum yfir framkvæmd samnings að lokinni upphreinsun með tilliti til þjónustu og þarfa og síðan endurupptöku samnings v/breyttra forsendna til betri vegar fyrir bæjarfélagið.“

Ekki varð af því að aðilar gengju frá nýjum skriflegum samningi. Stefndi segir enda að samstarf aðila hafi verið gott árum saman og lengst af byggt á munnlegum samningum fyrir gerð samningsins 2006. 18. nóvember 2008 sagði stefndi skriflega upp samningum við stefnanda. Stefndi segir að það hafi verið í kjölfar breytingar er átt hafi sér stað er nýr aðili, Gámaþjónusta Vesturlands ehf., hafi opnað eigin sorpmóttöku í Snæfellsbæ og móttöku brotajárns í gámastöð stefnda að Rifi verið hætt. Þá hafi verið gerður samningur við Gámaþjónustu Vesturlands. Stefndi segir að í febrúar 2009 hafi síðan borist þrír reikningar frá stefnanda, annars vegar vegna karanna, dagsettur 25. febrúar 2009 og stefnukrafan byggir á og hins vegar tveir reikningar vegna brotajárnsflutninga. Stefndi kveðst hafa endursent þá og stefnandi síðan bakfært þá. Í nóvember 2009 hafi stefndi síðan aftur sent út nýja reikninga vegna sömu krafna, þ.e. reikningana tvo sem stefnukrafan byggir á og dagsettir eru 16. nóvember 2009.

II. Málsástæður stefnanda

Stefnandi hafnar því að munnlega hafi verið samið um að breyta efnisatriðum samningsins á þann veg, að ekki skyldu koma greiðslur fyrir þá vinnu sem stefnandi hafi innt af hendi. Hafi það verið ætlun aðila að breyta samkomulaginu með þeim hætti sem haldið er fram af hálfu stefnda, hefði þeim verið í lófa lagið að gera slíkar breytingar með skriflegum hætti í samræmi við almenna viðskiptahætti og venjur. Þá hafnar stefnandi því að hann hafi gefið stefnda yfirlýsingar í þá veru, líkt og haldið hafi verið fram af hálfu stefnda, auk þess sem ekki verði séð að yfirlýsingar einstakra starfsmanna stefnanda verði lagðar til grundvallar í samskiptum aðila. Einfaldar yfirlýsingar starfsmanna, án aðkomu þar til bærra aðila, hafi þannig einar og sér ekki getað falið í sér breytingu á gildandi skriflegu samkomulagi aðila.

Stefnandi byggir á meginreglum samninga- og kauparéttar þess efnis, að greiða beri reikning fyrir sannanlega unnin störf, enda sé ekki sýnt fram á að reikningur sé ósanngjarn. Meginreglan eigi sérstaklega við þegar verk sé unnið í samræmi við og byggt á ákvæðum skriflegs samnings. Framangreindum sjónarmiðum stefnda þess efnis, að komist hafi á munnlegt samkomulag í andstöðu við ákvæði fyrrgreinds samnings, sé því alfarið hafnað. Stefndi beri fullkomna sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu sinni í samræmi við almenn sjónarmið.

Stefnandi vísar einnig til orðalags samningsins sem hann álítur vera skýrt og ótvírætt. Þar sé m.a. tilgreint í 4. gr. að samningurinn hafi verið til þriggja ára. Þó væri samningsaðilum heimilt að segja honum upp með þriggja mánaða fyrirvara, ella framlengdist hann sjálfkrafa um tvö ár í senn. Af þessu sjáist að aðilar hafi gert ráð fyrir að ákvæði samnings aðila skyldu gilda í samskiptum þeirra, enda væri honum ekki sagt sérstaklega upp. Samningnum hafi hins vegar ekki verið sagt upp fyrr en með bréfi stefnda, dagsettu 18. nóvember 2008, í samræmi við fyrrgreind ákvæði samkomulags aðila, auk þess sem í uppsagnarbréfi stefnda hafi sérstaklega verið vísað til samkomulagsins.

Hvað varðar sjónarmið stefnda, sem fram komi í bréfi lögmanns hans 26. janúar 2010, þess efnis að stefnanda hafi verið óheimilt að leggja virðisaukaskatt á reikningsfjárhæðir, vísar stefnandi einkum til ákvæða laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, sbr. einkum 3. gr. þeirra, þar sem mælt sé fyrir um skyldu til innheimtu virðisaukaskatts og skattskil. Þá sé þeim sjónarmiðum stefnda sem sett hafi verið fram í fyrrgreindum tölvupósti hafnað, þ.e. að ákvæði 10. gr. laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, feli í sér að stefnanda hafi verið óheimilt að leggja virðisaukaskatt á umræddar fjárhæðir. Stefnandi bendir á að umrætt ákvæði 10. gr. eigi við um auglýst verð vöru, en ekki reikning vegna vinnu sem innt hafi verið af hendi á grundvelli verksamnings.

Um lagarök vísar stefnandi einkum til meginreglna samninga- og kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga og túlkun samninga. Krafa um dráttarvexti styðst við 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001. Krafa um málskostnað styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, aðallega 129. og 130. gr. þeirra.

III. Málsástæður stefnda

Málsástæður fyrir aðalkröfu um sýknu

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að aðilar hafi eftir gerð samnings þeirra þann 6. mars 2006, þ.e. á seinni hluta þess árs, gert með sér munnlegt samkomulag um að stefndi þyrfti ekki að greiða fyrir flutning á brotajárni til Reykjavíkur þrátt fyrir ákvæði samnings aðila varðandi greiðslur fyrir slíka þjónustu. Á þessum tíma hafi legið fyrir að heimsmarkaðsverð á brotajárni hafði hækkað mikið, eða um 20% á árinu 2006, auk þess sem gengi evru hafi hækkað um 25% á sama ári. Af þessum sökum hafi brotajárnsmarkaður hér á landi gjörbreyst frá því að stefnandi hafi þann 16. desember 2005 sent stefnda þau samningsdrög sem síðar hafi óbreytt orðið að samningi aðila. Þannig hafi þeir sem hafi safnað brotajárni tekið að keppast um það og boðið gott verð fyrir það. Þess vegna hafi eðli málsins samkvæmt legið fyrir að stefndi myndi segja upp samningi aðila. Því hafi aðilar sammæst um að engar greiðslur yrðu greiddar fyrir hreinsun og flutning brotajárnsins. Til hafi staðið að gera breytingar á samningi aðila en það dregist, enda hafi stefndi enga knýjandi þörf talið á slíku þar sem aðilar hefðu unnið árum saman á grundvelli þeirra munnlegu samninga sem gerðir hafi verið á milli þeirra vandkvæðalaust. Aðilar hafi verið í sambandi sín á milli um væntanlega breytingu á samningnum þar sem staðfest hafi verið af forsvarsmanni stefnanda að hann hygðist bjóða samning með betri kjörum fyrir stefnda. Af þessu hafi síðan ekki orðið þar sem síðar hafi verið ákveðið að loka sorpmóttöku stefnda. Þegar sú ákvörðun hafi legið fyrir hafi stefnandi gert reikningana sem deilt sé um í málinu. Stefndi segir augljóst að gerð þeirra eigi rætur að rekja til óánægju stefnanda með það að samningi aðila hafði verið sagt upp. Útgáfa þeirra hafi hins vegar verið ólögmæt þar sem samið hafði verið um að ekki yrði greitt fyrir umrædda þjónustu og er henni mótmælt á þeim grundvelli.

Stefndi byggir á því að samkvæmt íslenskum rétti séu samningar óformbundnir. Munnlegir samningar séu því jafngildir skriflegum samningum séu slíkir samningar sannaðir. Það sem styðji fullyrðingu stefnda um að framangreind breyting hafi verið gerð á samningi aðila með munnlegu samkomulagi sé eftirfarandi:

Forsvarsmenn annarra sveitarfélaga séu tilbúnir til þess að staðfesta að það sama hafi gerst hjá þeim, þ.e. að þrátt fyrir að fyrir lægju skriflegir samningar um greiðslur fyrir brotajárnshreinsun hafi engar greiðslur verið inntar af hendi fyrir hirðingu og flutning á brotajárni fyrir viðkomandi sveitarfélög. Magnús B. Jónsson, sveitarstjóri á Skagaströnd, hafi staðfest að þrátt fyrir skriflegan samning Héraðsnefndar Austur-Húnvetninga við stefnanda frá 14. desember 2006, þar sem samið hafi verið um greiðslur fyrir flutning og umsýslu þá hafi aldrei verið greitt fyrir flutning á brotajárni. Jafnframt hafi Skúli Þórðarson, sveitarstjóri í Húnaþingi vestra, staðfest að þrátt fyrir skriflegan samning Húnaþings vestra við stefnanda, dags. 7. mars 2007, þar sem samið hafi verið um greiðslur fyrir flutning, þá hafi ekki verið greitt fyrir flutning á brotajárni. Aðilar í báðum þessum tilvikum hafi ekki vigtað gáma til að sannreyna greiðsluskyldu eins og áskilið sé til að slík skylda verði virk samkvæmt samningi, enda hafi skilningur aðila verið sá að ekki yrði greitt fyrir flutninginn, þar sem verð brotajárns hafi verið mjög gott.

Eins og lýst sé í málavaxtalýsingu hafi stefnandi gefið út reikning fyrir flutning á brotajárni í lok ársins 2006. Þeim reikningi hafi verið mótmælt með vísan til samkomulags aðila um að ekki yrði greitt fyrir flutning brotajárnsins þrátt fyrir samningsákvæði í upphaflegum samningi aðila þar um. Stefnandi hafi leiðrétt þessi mistök sín með afsökunarbeiðni og fellt umræddan reikning niður í upphafi árs 2007.  Ljóst sé að slíkt hefði stefnandi ekki gert athugasemdalaust ef ekki hefði legið fyrir því gildar ástæður, enda hafi um verulega fjárhæð verið að ræða.

Einnig styðji það staðhæfingu stefnda varðandi það að munnlegt samkomulag hafi verið gert milli aðila, sbr. hér að framan, að innheimta hafi ekki verið hafin á ný fyrr en tveimur árum og síðan aftur um þremur árum eftir að umrædd þjónusta hafi verið látin í té. Það hafi heldur ekki verið nein tilviljun að reikningarnir hafi verið gefnir út í beinu framhaldi af því að stefndi hafi sagt upp samningi sínum við stefnanda. Stefnandi hafi verið ósáttur við þá uppsögn og í framhaldinu tekið þá ákvörðun að virða ekki samkomulag aðila um að ekki yrði greitt fyrir umrædda þjónustu og gefið út reikningana. Þetta hafi hins vegar verið brot á munnlegu samkomulagi aðila og útgáfa reikninganna því ólögmæt.

Eðli málsins samkvæmt megi vera ljóst að fráleitt sé að ætla að stefndi hefði haldið áfram samstarfi á grundvelli samningsins frá 6. mars 2006 eftir að markaðsverð á brotajárni hafi hækkað. Þá hafi almennt verið unnt að fá greitt fyrir töku brotajárns í stað þess sem áður hafi verið þegar þurft hafi að greiða fyrir töku þess.

Ef ætlun aðila hefði verið sú að stefndi greiddi fyrir hreinsun og flutning umrædds brotajárns miðað við flutt kíló þá hefði þurft að liggja fyrir staðfesting beggja aðila á vigtun hvers farms með löggiltum vigtum, enda hafi hinn upphaflegi samningur aðila frá 6. mars 2006 byggt á því að greitt yrði fyrir hvert kíló sem flutt yrði. Stefnanda hafi því borið sem þjónustuaðila að tryggja sér sönnun fyrir því að umrædd þjónusta hefði verið veitt og í hvaða umfangi. Þá kröfu verði að gera að slíkt verði sannað með því að vigtun fari fram hjá hlutlausum þriðja aðila sem báðir aðilar hafi samþykkt eða að vigtun eigi sér stað með þátttöku beggja aðila þannig að þeir gætu báðir staðreynt umfang þjónustunnar. Engin slík vigtun hafi hins vegar verið gerð og stefnda sé reyndar ekki kunnugt um að nokkur vigtun hafi átt sér stað, enda hafi engar vigtunarstaðfestingar fylgt umræddum reikningum. Það eitt geri það að verkum að reikningsgerð sé ófullnægjandi þar sem ómögulegt sé að staðreyna réttmæti þeirra. Sú staðreynd að aðilar létu engar vigtanir fara fram sýni hins vegar glögglega að aðilar hafi ekki talið þörf á því. Það styðji aftur þær fullyrðingar stefnda um að samið hafi verið um að ekki yrði greitt fyrir þennan þátt þjónustunnar.

Sú fullyrðing stefnanda, sem fram hafi komið á fundum aðila um að breytingin á samningi aðila hafi verið háð því skilyrði að samningi yrði ekki sagt upp, sé fráleit. Ljóst sé að slíkt myndi stefnandi aldrei semja um þar sem að það þýddi að við uppsögn samnings síðar þá ætti stefndi á hættu að fá bakreikninga fyrir allt að fjögur undangengin ár. Ljóst megi vera að ef slíkt skilyrði hefði verið sett fram þá hefði samningnum þvert á móti verið sagt upp tafarlaust af hálfu stefnda á grundvelli heimildar í 4. gr. samningsins.

Hvað varðar reikning nr. BR-05705, dags. 25. febrúar 2009, um greiðslu fyrir spilliefnakör og rafhlöðuílát, þá mótmælir stefndi þeim jafnframt sem algerlega tilhæfulausum á eftirfarandi grundvelli. Í upphafi samstarfs aðila hafi stefnandi komið með umrædd kör og þegar þau hafi síðar verið sótt til tæmingar þá hafi þau verið tekin með þeim úrgangi sem í þeim hafi verið en ný kör verið skilin eftir til að sinna áframhaldandi þjónustu. Um hafi verið að ræða annars vegar kör og rafhlöðuílát sem sett hafi verið í áhaldahús stefnda og hins vegar samskonar kör og ílát sem hafi farið á sorpstöð stefnda. Staðfest hafi verið í tölvupóstsamskiptum á milli Smára Björnssonar, forstöðumanns tæknideildar stefnda, og Jóhanns Karls Sigurðssonar, rekstrarstjóra spilliefnadeildar stefnanda, á tímabilinu 18. febrúar til 23. mars 2009 þegar stefndi hafi mótmælt reikningi þessum, að kör og ílát sem farið hafi í áhaldahús hafi verið sótt af stefnanda í febrúar 2009. Þar hafi Jóhann hins vegar ekki viljað kannast við að kör og ílát sem farið hafi á sorpstöðina hefðu verið afhent til stefnanda. Þessu hefur stefndi mótmælt ítrekað enda hafi starfsmenn sem annast hafi sorpmóttökuna fullyrt að þessi kör og ílát hafi verið afhent. Þegar fyrir hafi legið að loka ætti móttökustöð stefnda 1. september 2008 hafi stefnandi verið upplýstur um það. Skömmu eftir lok hennar hafi stefnandi tekið allan þann úrgang sem fallið hafi undir samning aðila og til staðar hafi verið í stöðinni, þ.e. brotajárn, spilliefni og rafhlöður. Ljóst megi vera að umrædd spilliefni og rafhlöður hafi verið tekin með venjulegum hætti, þ.e. að körin hafi verið tekin með þeim efnum sem í þeim hafi verið. Samkvæmt þessu þá hafi öll kör stefnanda sem verið hafi í vörslu stefnda verið tekin af stefnanda sem vitað hafi að stöðinni hefði verið lokað og hafi þar af leiðandi engin tóm kör og ílát verið sett í stöðina í stað þeirra sem tekin hafi verið. Þetta geti starfsmenn stöðvarinnar staðfest. Auk þess hafi starfsmaður á lyftara verið fenginn frá Fiskmarkaði Íslands til að setja umrædd kör í flutningabíl stefnanda sem sótt hafi körin.

Vegna þess ágreinings sem nú sé uppi um það hvort stefnandi hafi tekið umrædd kör og ílát á þessum tíma, hafi það verið kannað hjá Úrvinnslusjóði hvort greiðslur hafi verið inntar af hendi vegna þessa úrgangs á þeim tíma sem um ræði. Það hafi nú verið staðfest af sjóðnum að 8. september 2008 hafi stefnandi sem þjónustuaðili skilað inn 114 kílóum af málningu frá stefnda sem úrgangshafa og þann 22. september 2008 hafi með sama hætti verið skilað inn 6.020 kílóum af rafgeymum. Með vísan til þess sem að framan greinir þá hafi verið sýnt fram á eftirfarandi staðreyndir varðandi þau kör sem reikningur nr. BR-05705 varði.

· Viðurkennt sé í tölvupósti frá stefnanda, dags. 23. mars 2009 að öll rafhlöðukör hafi skilað sér.

· Viðurkennt sé í tölvupósti frá stefnanda, dags. 18. febrúar 2009, og aftur í tölvupósti frá 23. mars sama ár, að stefnandi hafi sótt þau tvö spilliefnakör sem hafi verið í áhaldahúsi stefnda 17. febrúar 2009.

· Staðfest sé með vísan til þess sem að framan greinir og þá sérstaklega með vísan til upplýsinga sem fram komi í bréfi Úrvinnslusjóðs, að stefnandi hafi sótt spilliefnakör þau sem verið hafi í sorpstöð stefnanda við lokun hennar í september 2008. Venjulegt verklag við þá þjónustu hafi verið að kör á staðnum hafi verið tekin og úrgangur í þeim verið fluttur í þeim til Reykjavíkur. Stefndi mótmælir því að ný kör hafi þá verið skilin eftir, enda hafi öllum verið ljóst að starfsemi sorpstöðvarinnar hafði verið hætt og engin ástæða til þess að setja í hana ný kör. Öllum fullyrðingum stefnda í þá átt er mótmælt sem röngum og ósönnuðum, auk þess sem þau séu ótrúverðug í ljósi þess að stöðinni hafði verið lokað.

Með vísan til þessa megi ljóst vera að engin kör eða ílát í eigu stefnanda hafi verið í vörslum stefnda eftir 17. febrúar 2009. Ljóst sé að 25. febrúar 2009 hafði stefnandi fengið til sín öll þau kör sem reikningurinn varði og sé hann því bersýnilega gerður gegn betri vitund stefnanda.

Málsástæður fyrir varakröfu um sýknu að svo stöddu

Verði niðurstaða dómsins á þann veg að stefnda beri að greiða fyrir flutning og hreinsun á brotajárni samkvæmt samningi aðila þá beri samt sem áður að sýkna stefnda að svo stöddu af kröfu um greiðslu reikninga nr. BR-06594 og BR-06595, þar sem stefnandi hafi ekki á neinn hátt sýnt fram á það í hvaða umfangi umrædd þjónusta hafi verið veitt. Engin gögn um vigtun á brotajárni liggi fyrir en slík vigtun sé forsenda þess að unnt og heimilt sé að gera reikning á grundvelli samningsins, auk þess sem hvorki stefndi né dómari geti tekið afstöðu til réttmætis fjárhæðar slíks reiknings nema að fyrir liggi áreiðanleg gögn um vigtun úrgangs sem staðfestur hafi verið af fulltrúum beggja aðila. Hvað varði reikning nr. BR-05705 vegna kara og rafhlöðuíláta þá sé með sama hætti ekki unnt að taka afstöðu til réttmætis hans að svo stöddu þar sem ekkert liggi fyrir um aldur umræddra kara, hvert ástand þeirra eða raunverulegt verðmæti hafi verið, hvorki nýrra né notaðra, né hvort og þá hve mörg kör hafi verið skilin eftir í vörslu stefnda. Því beri að sýkna stefnda að svo stöddu, sbr. 2. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og 34. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup þar sem sá tími sé ókominn að unnt sé að krefja stefnda um greiðslu þeirra krafna sem deilt sé um í málinu.

Málsástæður fyrir þrautavarakröfu um lækkun krafna

Þrautavarakrafa stefnda byggist á því að verði aðal- og varakröfum hans hafnað þá beri að lækka kröfur stefnanda verulega. Þrautavarakrafa stefnda er í fyrsta lagi byggð á því að magntölur sem fram komi á reikningum nr. BR-06594 og BR-06595 séu ósannaðar. Miða verði við mun minna magn af brotajárni en miðað sé við í umræddum reikningum. Jafnframt er á því byggt að stefnanda hafi verið óheimilt að leggja virðisaukaskatt ofan á þær fjárhæðir sem samið hafi verið um í samningi aðila frá 6. mars 2006. Byggja verði á því að þegar samið sé um verð á þjónustu þá verði að gera ráð fyrir því að um heildarverð sé að ræða að virðisaukaskatti meðtöldum, sé ekki annað tekið fram í samningi aðila. Stefnandi sé virðisaukaskattskyldur aðili samkvæmt lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og hafi á grundvelli 1. mgr. 3. gr. þeirra laga borið að innheimta umræddan skatt af þeirri þjónustu sem félagið selji. Stefnanda hafi samkvæmt því borið að innheimta virðisaukaskatt af sölu umræddrar þjónustu og í samræmi við það að gæta þess að virðisaukaskattur væri lagður ofan á verð það sem boðið hafi verið til viðskiptavina, innheimta hann og skila til innheimtumanns ríkissjóðs. Samkvæmt þessu verði að ganga út frá því að uppgefið verð í samningi aðila sé verð með virðisaukaskatti þar sem ekkert hafi verið tekið fram um annað. Þessu til stuðnings vísar stefndi til laga nr. 42/2000 um þjónustukaup en í 32. gr. þeirra laga segir að í tilgreindu verði á þjónustu skuli öll opinber gjöld vera innifalin nema neytandi hafi sannanlega haft vitneskju um að þau væru það ekki. Samkvæmt því lagaákvæði verði að ganga út frá því að virðisaukaskattur hafi verið innifalinn í umsömdu verði, enda sé þar um opinber gjöld að ræða. Jafnframt vísar stefndi til laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, sem tekið hafi gildi 1. júlí 2005, nánar tiltekið 1., 2. og 5. tl. 3. gr., f. liðar 1. mgr. 10. gr. og 14. gr. laganna. Líta verði til þess að það hafi verið stefnandi sem hafi samið samningsdrög þau sem síðar hafi óbreytt orðið að samningi aðila. Í drögum þessum hafi komið fram tilboð stefnanda sem stefndi hafi síðar samþykkt óbreytt og hafi drögin síðar verið undirrituð af aðilum 6. mars 2006. Samkvæmt framangreindum lagaákvæðum laga um þjónustukaup og eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu verði að skoða það verð sem fram komi í tilboði stefnanda sem endanlegt verð með virðisaukaskatti og öðrum opinberum gjöldum, sbr. það sem rakið hafi verið hér að framan. Í samningum sem stefnandi hafi gert við önnur sveitarfélög þá hafi það verið tekið sérstaklega fram að virðisaukaskattur bættist við tiltekið verð og verði með hliðsjón af því að líta þannig á að þar sem stefnandi hafi engin slík ákvæði sett inn í samning aðila þá sé hann innifalinn í umsömdu verði. Eins byggir stefndi á því að þegar stefnandi hafi gefið út upphaflegan reikning vegna hreinsunar 2006, þá hafi sá reikningur verið í samræmi við þennan skilning stefnda, þ.e. að virðisaukaskattur væri innifalinn í verði. Sá reikningur hafi verið að fjárhæð 2.581.020 krónur með virðisaukaskatti og verið bakfærður eins og rakið sé hér að framan. Þegar sá reikningur hafi verið gefinn út að nýju, sbr. reikning nr. BR-06595, þá sé búið að bæta virðisaukaskatti ofan á samningsfjárhæðina með ólögmætum hætti þannig að sá reikningur sé að fjárhæð 2.581.020 krónur, auk virðisaukaskatts. Því beri að lækka kröfur stefnanda um fjárhæð þá sem nemi þeim virðisaukaskatti sem lagður sé ofan á samningsfjárhæðir í reikningum nr. BR-06594 og BR-06595.

Hvað varðar reikning nr. BR-05705 þá beri undir öllum kringumstæðum að lækka kröfu stefnanda um það sem nemi fjárhæð þess reiknings, enda liggi fyrir að sá reikningur hafi verið tilhæfulaus frá upphafi. Þá liggi enginn rökstuðningur fyrir um verðmat á hinum notuðu kerjum. Því er mótmælt sem fram kemur í stefnu og er í andstöðu við það sem fram kemur í greinargerð þessari. Sérstaklega er því mótmælt að yfirlýsingar starfsmanna stefnanda verði ekki lagðar til grundvallar í málinu. Þeir starfsmenn sem stefndi hafi átt samskipti við hafi annast þá  þjónustu sem samningur aðila hafi varðað og sem slíkir haft stöðuumboð stefnanda.

IV. Skýrslur fyrir dóminum

Framkvæmdastjóri stefnda Einar Ásgeirsson neitaði því fyrir dóminum að munnlegur samningur hefði komist á milli aðila. Hann bar að hann hefði boðið stefnda að breyta samningnum frá 2006 þannig að felld yrðu niður gjöld, sem þeir hefðu almennt tekið fyrir þjónustuna, að því „fengnu“að stefnandi fengi framlengdan samning. Aðspurður játaði hann því að hugmyndin hefði verið að sleppa kílóagjaldinu. Það næsta sem þeir hefðu heyrt var að stefndi væri búinn að semja við annan aðila án þess að þeim hefði verið gefinn kostur á að bjóða í. Þetta hefðu verið lyktir málsins, þ.a.l. hefði þeirra góða boð ekki verið þegið.

Framkvæmdastjórinn var einnig spurður um tölvupóstinn, sem starfsmaður stefnanda Helena Hákonardóttir sendi stefnda 22. janúar 2007. Fram kom hjá framkvæmdastjóranum að Helena hefði annast bókhald og innheimtur reikninga. Hann játaði því að hún hefði haft heimild til að setja reikninga í innheimtu, afturkalla þá úr innheimtu en raunverulega ekki haft heimild til að fella niður kröfur. Hún hefði væntanlega lesið þannig í stöðuna að verið væri að semja við þá en hún hefði ekki haft umboð. Miðað við dagsetningu skeytisins þá hefðu þeir þar lagt fram sitt tilboð. Aðspurður um eldri reikningana sem hefðu verið bakfærðir játaði framkvæmdastjórinn því að það væri væntanlega sama skýringin. Að hans frumkvæði hefðu þeir lagt til að endurnýja samninginn, laga og bæta kjör, í þeirri trú að þeir fengju endurgoldið traustið en boðið hefði ekki verið þekkst. Fram kom hjá framkvæmdastjóranum að hans skilningur hefði verið sá verið væri að taka reikning tilbaka enda búið að gera stefnda boð um að breyta og taka upp samning vegna breyttra forsendna til betri vegar fyrir bæjarfélagið. Það hefði gert það að verkum að reikningur ætti ekki rétt á sér. Það væri alveg skýrt að ef að boðið hefði verið þekkst af hálfu stefnda, þá ættu reikningarnir ekki rétt á sér. En þeir hefðu ekki tekið boðinu og því alveg skýr skilningur stefnanda að reikningarnir ættu rétt á sér samkvæmt gildandi samningi. Þessi póstur hefði verið ritaður vegna þess að starfsmaður stefnda, Smári Björnsson, hefði haft samband og spurt hvort tilboð þeirra stæði ekki en tilboðið hefði verið gert í þeirri von að þeir væru að ná samningum en þeir hefðu aldrei gert það. Þetta hefði því verið „niðurfelling í góðri trú, í góðri von.“

Framkvæmdastjórinn staðfesti enn fremur að breytingar hefðu orðið á verðlagi á brotajárni á samningstímanum og það hefði verið ástæðan fyrir því að hann hefði boðið stefnda að breyta gildandi samningi að því fengnu að stefnandi fengi framlengingu. Aðspurður um þann tíma sem liðið hefði þar til reikningarnir sem stefnukrafan er byggð á hefðu verið sendir, sagði framkvæmdastjórinn að boðið hefði ekki verið þekkst en það hefðu alltaf, að því er þeir töldu, verið jákvæðar undirtektir og „meiningin“ að ganga frá samningi þar um en það hefði aldrei orðið. Það næsta sem þeir hefðu frétt hefði verið að búið væri að semja við annan aðila án þess að þeim hefði verið boðið að bjóða og þrátt fyrir að þeir hefðu verið búnir að leggja sig svona fram fyrir stefnda. Samskiptin hefðu alla tíð verið góð þannig að þetta hefði komið mjög á óvart. Aðspurður hvort stefnda hefði verið gefinn kostur á að fylgjast með vigtun brotajárnsins svaraði framkvæmdastjórinn að stefndi hefði aldrei óskað eftir því.

Inntur eftir því hvort hann teldi enn að öll ílát hefðu ekki verið afhent til baka sagði framkvæmdastjóri stefnanda að samkvæmt upplýsingum frá sínum starfsmönnum væri það svo. En ef að það væru til gögn um afhendingu þeirra þá náttúrulega tækju þeir þau góð og gild. Hann hefði bara ekki séð þau ennþá og eftir því sem hann best vissi hefðu þeir hvorki fengið afhent þessi ílát né innihaldið sem í þeim hafi verið og hefði átt að standa undir því að hafa þau þarna úti.

Bæjarstjóri stefnda Kristinn Jónasson sagði samstarf stefnda og stefnanda hafa verið eins og kunningjasamstarf. Til að byrja með hefðu verið munnlegir samningar á milli þeirra en að frumkvæði stefnda hefðu þeir byrjað að vinna að skriflegum samningi árið 2004. Þeirri vinnu hefði síðan lokið með gerð samningsins árið 2006. Þegar þeir hefðu verið búnir að gera samninginn hefði heimsmarkaðsverð á hrájárni hækkað mjög mikið. Að fyrra bragði hefði stefnandi boðið að taka samninginn upp og í stað þess að stefndi borgaði flutninginn til Reykjavíkur myndi stefndi fá hann fríann. Stefndi hefði samþykkt þetta. Nánar aðspurður sagði forsvarsmaður stefnda að munnlegi samningurinn hefði verið gerður einhvern tímann í ágúst, september 2006. Stálverð hefði rokið upp um fleiri hundruð prósent og svo hráefnisverð. Markaðurinn hefði verið lítill og mikil samkeppni milli aðila. Stefnandi hefði náttúrulega viljað vera vakandi yfir því að þeir væru að veita sínum kúnnum bestu kjör. Þetta hefði verið að þeirra frumkvæði, ekki stefnda. Brotajárnshreinsunin hefði síðan byrjað í nóvember og lokið í desember.

Síðan hefði komið reikningur í desember frá Hringrás, upp á tvær og hálfa milljón, með virðisaukaskatti, vegna þessara verka sem voru unnin samkvæmt samningnum. Stefndi hefði strax gert athugasemd við það þar sem þetta hefði ekki verið samkvæmt því sem þeir hefðu samið um munnlega. Smári Björnsson, starfsmaður stefnda, hefði haft samband við Einar og nokkrum klukkutímum síðar, eða sama morgun, hefði Helena sent þeim tölvupóstinn og beðið þá afsökunar á þessu. Stefndi hefði endursent reikninginn en síðan hefði komið ítrekun frá Landsbankanum. Þá hafði stefnandi gleymt að láta Landsbankann vita að taka reikninginn úr innheimtu. Þau hefðu haft samband við Einar. Hann hefði beðist forláts á þessu og látið starfsmann sinn senda þeim tölvupóst og málið hefði verið búið. Ekkert hefði verið talað um að það væri byggt á neinum framtíðarviðskiptum. Síðan með tölvupósti 15. maí 2008 hefði Einar talað um að hittast og rætt um að formgera nýjan samning. En síðan eins og gerist, hefðu þeir Einar báðir verið uppteknir og ekkert sem hefði pressað á þá, enda hefðu samskiptin við stefnanda verið mjög góð og það hefði bara verið þessi munnlegi samningur. Síðar hefði það gerst að Gámaþjónusta Vesturlands hefði farið að reka gámastöð í Ólafsvík og m.a. tekið við því hlutverki að taka við brotajárni. Í lok árs 2008 hefði hann talið eðlilegt að segja upp samningnum við stefnanda þar sem allt hefði farið inn á gámastöðina. Uppsögnin hefði verið formsatriði. Þá hefðu borist reikningar frá stefnanda í mars 2009. Hann hefði endursent reikningana og síðan fundað með framkvæmdastjóra stefnanda og niðurstaðan verið sú að stefndi myndi reyna að semja um það við Gámaþjónustu Vesturlands að hún myndi aka járnaruslinu til stefnanda og þeir myndu borga gámaþjónustunni fyrir járnið. Gámaþjónustan hefði hins vegar ekki viljað það. Hann hefði látið framkvæmdastjóra stefnanda vita að ekkert yrði af þessu og þá hefði stefndi aftur fengið sömu reikningana í nóvember. Hann hefði síðan árangurslaust reynt að ná sáttum við framkvæmdastjóra stefnanda.

Forsvarsmaður stefnda sagði að hreinsunin og brotajárnið sem hefði verið hirt og reikningarnir sem kröfur málsins byggist á hefði farið fram eftir að tilboðið hefði komið frá stefnanda og munnlegt samkomulag hefði komist á. Það hefði verið fyrst á fundi með framkvæmdastjóra stefnanda árið 2009 að komið hefði fram hjá honum að forsenda þess að hann hefði boðið stefnda að fella niður reikningana væru framtíðarviðskipti.

Smári Björnsson yfirmaður tæknideildar stefnda og byggingarfulltrúi bar fyrir dóminum að munnlegur samningur um breytingu á skriflega samningnum frá 2006 hefði komist á fljótlega eftir gerð hans. Vitnið og framkvæmdastjóri stefnanda hefðu verið mikið í sambandi að ræða um þetta enda góðir kunningjar. Munnlegi samningurinn hefði verið þess efnis að það yrði bara hreinsað frítt, þ.e. ekki yrði borgað fyrir þetta kílóaverð. Munnlega samkomulagið hefði verið gert áður en hið eiginlega hreinsunarstarf hefði hafist. Vitnið staðfesti framangreind tölvupóstsamskipti við Helenu, starfsmann stefnanda. Vitnið hefði haft samband við framkvæmdastjóra stefnanda sem hefði sagt að þetta hefði bara farið inn í tölvukerfið hjá þeim einhverra hluta vegna og yrði tekið til baka. Síðan hefði borist pósturinn frá Helenu og þeir hjá stefnda ekkert hugsað meira út í það og litið svo á að þessir hlutir væru á hreinu, eins og um hafði verið rætt.

Varðandi reikninginn vegna greiðslu fyrir kör og spilliefnaílát sagði vitnið að stefnandi hefði verið búinn að koma með kör fyrir rafgeyma sem hann hefði tekið árið 2008 fyrir utan fjögur lítil rafílát sem þeir hefðu sent sérstaklega til hans. Þá bar vitnið að fyrir gerð samnings hefði verið fullt samráð milli aðila um að fylgjast með því magni sem að tekið hefði verið í Snæfellsbæ og flutt til Reykjavíkur. Vitnið bar að hann hefði staðfest með áritun framlagðan reikning sem stefnandi hefði gefið út á stefnda árið 2004, þ.e. fyrir fjórum trukkum og 260 tonnum af brotajárni. Eftir gerð munnlega samkomulagsins hefðu starfsmenn stefnanda ekkert látið vita af sér. Bara komið og tekið og verið sjálfir með mokstursgræjur. Eftir það hefði hann aldrei séð yfirlit eða upplýsingar frá stefnanda um tekið magn og brottflutt. Aðspurður hvers vegna ekki væri vísað í neinn munnlegan samning í uppsögninni á samningnum frá 6. mars 2006 sem hann hefði sent stefnanda f.h. stefnda 18. nóvember 2008 kvaðst vitnið ekki kunna neinar skýringar á því.

Anton Gísli Ingólfsson starfsmaður í áhaldahúsi stefnda gaf einnig skýrslu fyrir dóminum. Hann kvaðst hafa starfað við sorpmóttöku stefnda árin 2008 til 2009 sem hefði verið lokað í byrjun september 2008. Vitnið staðfesti að starfsmenn stefnanda hefðu komið um það leyti sem að stöðinni hefði verið lokað og tekið spilliefnakör og önnur kör sem þar voru staðsett og voru í þeirra eigu. Vitnið kvaðst hafa afgreitt þá sjálfur. Engin kör hefðu orðið eftir. Aðspurður um rafgeymaílátin, sem Smári Björnsson hefði borið að hefðu verið send til stefnanda, kvaðst hann ekki kannast við það. Hann hefði vitað að þau hefðu komið og farið í einhver fyrirtæki, en þau hefðu ábyggilega líka farið í burtu.

Þá var tekin símaskýrsla af Magnúsi Birni Jónssyni sveitastjóra á Skagaströnd. Hann staðfesti að héraðsnefnd Austur-Húnvetninga sem á sínum tíma starfaði, hefði gert samning um sorphirðu og flutning við stefnanda fyrir hönd sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu. Hann staðfesti að gert hefði verið ráð fyrir því á sínum tíma að þeir greiddu fyrir allt brotajárn. Seinna þegar að brotajárnsverð hækkaði þá hefði stefnandi hætt að innheimta slíkt gjald og gefið það eftir. Stefnandi hefði farið í sérstakt átak með þeim þar sem að menn hefðu getað skilað inn járni sem ekki yrði rukkað fyrir. Aðspurður svaraði hann að það hefði verið einhvern tímann á árabilinu 2006-2007 sem hefði verið hætt að innheimta fyrir hreinsun brotajárns. Skriflegum samningi milli aðila hafði þó ekki verið breytt með formlegum skriflegum hætti en hefði hann ekki verið „fullnustaður,“ þ.e. stefnandi hefði ekki  rukkað þá síðastliðin ár vegna flutninga brotamálma. Vitnið bar að hann minnti að það hefði verið um það leyti sem að markaðsverð hafi farið að hækka að boðið hafi verið átak í því að hreinsa og taka til án gjalds.

Loks gaf Skúli Þórðarson, sveitarstjóri í Húnaþingi-Vestra símaskýrslu fyrir dóminum. Hann staðfesti að Húnaþing-Vestra  væri með gildan samning við Hringrás um söfnun og förgun á brotamálmum og spilliefnum. Hann sagði að ekki hefði komið til þess að stefnandi hefði gert kröfu um greiðslu á grundvelli þessa samningsákvæðis slíka söfnun og förgun en hann gerði ráð fyrir að það væri sökum þess að þyngd þessara efna hefði ekki náð tilskilinni þyngd sem gámarnir þyrftu að innihalda.

V. Forsendur og niðurstöður

Eins og fram hefur komið stendur ágreiningur aðila í fyrsta lagi um það hvort tekist hafi munnlegt samkomulag með þeim eftir undirritun samningsins 6. mars 2006 um að stefndi þyrfti ekki að greiða fyrir flutning brotajárns ólíkt því sem beinlínis var kveðið á um í skriflega samningnum. Óumdeilt er í málinu að fljótlega eftir að aðilar gerðu með sér skriflega samninginn í mars 2006 hækkaði verð á brotajárni og framkvæmdastjóri stefnanda bar fyrir dóminum að það hefði verið ástæðan fyrir því að hann hefði boðið stefnda að breyta samningnum. Áður var rakið að starfsmaður stefnanda sendi stefnda skeyti 22. janúar 2007 í kjölfar athugasemda stefnda við reikninginn, sem stefnandi gerði honum í lok árs 2006, þar sem fram kemur að ítrekunin sé felld niður enda ætti hún ekki rétt á sér og beðist afsökunar á mistökunum. Framkvæmdastjóri stefnanda Einar Ágeirsson fékk afrit af skeytinu.

Þegar horft er til framangreindra atvika þykir stefnandi verða að bera hallann af því að hafa ekki sýnt fram á að hann hafi gert stefnda það ljóst að afturköllun reikningsins frá árinu 2006 væri háð þeirri forsendu að þeir næðu skriflegu samkomulagi um framlengingu eða endurnýjun samningsins. Þá er einnig horft til þess að reikningarnir sem stefnandi krefur stefnda um greiðslu á vegna umræddrar þjónustu, annars vegar vegna þjónustu í lok árs 2006 og hins vegar vegna þjónustu fyrri hluta ársins 2008, eru síðan fyrst gefnir út í nóvember 2009, ári eftir formlega uppsögn samningsins af hálfu stefnda þann 18. nóvember 2008. Stefndi þykir því hafa sýnt fram á að stefnandi hafi skuldbundið sig munnlega gagnvart stefnda til að krefja hann ekki um greiðslu fyrir töku og flutning á brotajárni áður en stefnandi hirti brotajárn hjá honum seinni hluta ársins 2006.

Í öðru lagi deila aðilar um hvort stefndi hafi skilað fjórum spilliefnakörum og rafhlöðuílátum til stefnanda en vegna þeirra krefst stefnandi 249.000 króna úr hendi stefnda með reikningnum frá 25. febrúar 2009. Smári Björnsson starfsmaður stefnanda bar að fjögur rafílát hefðu sérstaklega verið send til stefnanda. Anton Gísli Ingólfsson, starfsmaður í áhaldahúsi stefnda, bar einnig að starfsmenn stefnanda hefðu komið um það leyti sem að sorpmóttöku stefnanda hefði verið lokað, tekið öll kör sem þar voru staðsett og í eigu stefnanda og enn fremur að hann hefði afgreitt þá sjálfur. Þá hefur stefndi lagt fram skeyti frá starfsmanni stefnanda, Jóhanni Karli Sigurðssyni, dagsett 23. mars 2009, til Smára Björnssonar, þar sem Jóhann segir að rafhlöðukörin séu búin að skila sér og stefndi þurfi ekki lengur að greiða þau. Gegn afdráttarlausri neitun stefnda sem styðst við fyrrgreindan framburð starfsmanna hans og skeyti starfsmanns stefnda verður ekki talið að stefnandi hafi sýnt fram á að umrædd kör og ílát hafi ekki verið skilað af hálfu stefnda.

Samkvæmt öllu framanrituðu verður stefndi sýknaður. Í samræmi við niðurstöðu málsins og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað sem þykir eftir atvikum og umfangi málsins hæfilega ákveðinn 800.000 krónur.

Af hálfu stefnanda flutti málið Sveinn Jónatansson hdl. og af hálfu stefnda flutti málið Indriði Þorkelsson hrl.

Áslaug Björgvinsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð

Stefndi Snæfellsbær er sýknaður af kröfu stefnanda Hringrásar hf. Stefnandi greiði stefnda 800.000 krónur í málskostnað.