Hæstiréttur íslands
Mál nr. 156/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Þriðjudaginn 6. maí 2003. |
|
Nr. 156/2003. |
Sæsmíð ehf. (Haraldur Blöndal hrl.) gegn Stefju hf. (Sigmundur Hannesson hrl.) |
Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Deilt var um uppgjör vegna leigusamnings aðila. Fallist var á með héraðsdómara að slíkir annmarkar væru á reifun málsins af hendi sóknaraðila að óhjákvæmilegt væri að vísa því í heild frá dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. apríl 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. apríl 2003, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða kærumálskostnað.
Með vísan til þess, sem greinir í forsendum hins kærða úrskurðar, verður að fallast á með héraðsdómara að slíkir annmarkar séu á reifun málsins af hendi sóknaraðila að óhjákvæmilegt sé að vísa því í heild frá dómi. Samkvæmt því verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Sæsmíð ehf., greiði varnaraðila, Stefju hf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. apríl 2003.
I
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 20. mars 2003, var höfðað 13. janúar 2003. Stefnandi er Sæsmíði ehf. kt. 670300-2770, Mýrargötu 26, Reykjavík en stefndi er Stefja hf. kt. 610296-2979, Suðurlandsbraut 24, Reykjavík. Stefnandi höfðaði málið sem gagnsakarmál í máli nr. E-4339/2002, Stefja hf. gegn Sæsmíði ehf., sem þingfest var 4. apríl 2002, en við þingfestingu þessa máls voru stefna og fylgiskjöl hennar ekki lögð fram í því máli heldur sem framlögð gögn í þessu máli sem gefið var sjálfstætt númer.Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi: Að viðurkennt verði með dómi að leigusamningur milli aðila um húsnæði stefnanda í húsinu nr. 8 við Grandagarð, dagsettur 18. júlí 2000, sé í gildi ásamt samningi um kostnaðarskiptingu frá 4. desember 2000 og viðauka við þessa samninga frá 29. mars 2001.Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda vangoldna húsaleigu að fjárhæð 21.960.272 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 1. ágúst 2002 til greiðsludags.Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda bætur vegna missis húsaleigu að fjárhæð 44.240.067 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 1. janúar 2003 til greiðsludags.Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda útlagðan kostnað og lán að fjárhæð 1.017.592 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. maí 2001 til 1. júlí 2001 en samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá “1. maí 2001” til greiðsludags.Að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar vegna rafmagns og hita að fjárhæð 1.446.353 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 1. ágúst 2001 til greiðsludags auk þess sem stefnandi áskilur sér rétt til að auka á þessa kröfu.Þá gerir stefnandi kröfu um málskostnað. Þá krefst stefnandi þess að virðisaukaskattur leggist á tildæmdar fjárhæðir sbr. 2. gr. laga nr. 50/1988. Stefnandi krefst þess að mál þetta verði sameinað máli E-4339/2002 en ef ekki verði fallist á það geri hann kröfu um að málið verði rekið sjálfstætt og áskilnaður gerður um að málin verði rekin samhliða. Þá er gerður áskilnaður um að leggja fram í þessu máli öll þau skjöl sem lögð hafa verið fram í máli E-4339/2002. Að lokum áskilur stefnandi sér rétti til að lækka einn kröfulið og hækka annan undir rekstri málsins svo og til að framhaldsstefna til hækkunar kröfum.Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að öllum kröfum stefnanda verði vísað frá dómi í heild sinni. Til vara krefst hann sýknu af öllum kröfum stefnanda. Til þrautavara krefst hann þess að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar komi til skuldajafnaðar við kröfur hans í máli nr. E-4339/2001 og að stefnandi afhendi stefnda umráð yfir hinu leigða húsnæði. Í öllum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar.Hinn 20. mars 2003 fór fram munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu stefnda og er einungis sá þáttur málsins hér til úrlausnar. Dómkröfur stefnanda í þessum þætti málsins eru þær að frávísunarkröfunni verði hrundið og honum dæmdur málskostnaður úr hendi stefnda.Eins og rakið er að framan var tekin sú ákvörðun við þingfestingu máls þessa að skrá málið sem sérstakt mál í stað þess að sameina það máli E-4339/2002 sem rekið er milli sömu aðila. Ekki hefur verið tekin afstaða til þess hvort sameina eigi mál þetta hinu fyrra en rétt þykir að leysa fyrst úr þeim ágreiningi hvort vísa eigi málinu frá áður en ákvörðun verður tekin um sameiningu málanna.II
Aðilum ber ekki allskostar saman um málavexti. Með leigusamningi 18. júlí 2000 tók stefndi húsnæði stefnanda, að Grandagarði 8, Reykjavík, á leigu. Húsnæði þetta var á byggingarstigi þegar samningurinn var gerður en stefnandi var að taka húsnæðið til gagngerra endurbóta. Þá er í leigusamningi aðila rakið hvernig ástand húsnæðisins var og hvernig það skyldi afhendast til stefnda. Leigusamningurinn var tímabundinn og skyldi leigutími hefjast 1. október 2000 og ljúka 30. september 2003 en miðað var við að stefndi flytti inn í húsnæðið 1. nóvember 2000.
Stefndi heldur því fram að 1. nóvember 2000 hafi húsnæðið ekki verið tilbúið þar sem stefnandi hefði ekki lokið framkvæmdum sínum og hafi stefndi því ekki getað flutt inn í húsnæðið á tilsettum tíma. Stefnandi mótmælir því að ástæður þess að stefndi gat ekki flutt inn í húsnæðið á tilsettum tíma hafi alfarið verið á ábyrgð stefnanda.
Þann 3. desember 2000 gerðu aðilar með sér samning um kostnaðarskiptingu og kemur þar meðal annars fram að stefndi greiði leigu þann 1. janúar 2001 og að húsnæði skuli skila til stefnda þann 8. janúar 2001 að viðlögðum dagsektum 10.000 krónur. Dráttur varð á afhendingu húsnæðisins þann 8. janúar 2001 og greinir aðila á um hver hafi borið ábyrgð á þeim drætti. Stefndi kveður að þar sem hann hafi lagt út í mikinn kostnað við hið leigða húsnæði hafi hann ákveðið að bíða átekta. Loks hafi svo komið að því að flytja átti í húsnæðið 28. janúar 2001.
Þann 27. janúar 2001 kom upp eldsvoði í hinu leigða húsnæði þannig að verulegt tjón varð á húsnæðinu og innréttingum þess. Vegna brunans fékk stefndi bætur frá Tryggingamiðstöðinni vegna húsmuna, innréttinga, rekstrarbúnaðar og fleira. Í kjölfarið sendi lögmaður stefnda stefnanda bréf þar sem þeim sjónarmiðum var lýst að leigusamningur og samningur um kostnaðarskiptingu milli aðila væru fallnir úr gildi. Af hálfu stefnanda var þessu mótmælt í bréfi lögmanns hans. Varð að samkomulagi milli aðila að gera viðauka við leigusamning aðila frá 18. júlí 2000 og samning aðila um kostnaðarskiptingu 3. desember 2000 og er viðaukinn dagsettur 29. mars 2001. Í þeim samningi kemur fram að húsnæðið skyldi afhent 30. mars 2001 og leigutíminn framlengjast frá 30. september 2003 til 30. mars 2006.
Þann 2. apríl 2001 flutti stefndi inn í húsnæðið með starfsemi sína og kemur fram hjá honum að viðgerðir á húsnæðinu hafi verið komnar skemmra á veg en honum hafi verið lofað af stefnanda og óskaði hann eftir lækkun á leigu af þeim sökum. Leitaði hann til Húsnæðisstofu Reykjavíkur af þessu tilefni og kemur fram í matsgerð þeirrar stofnunar sem dagsett er 10. apríl 2001 að mikið vanti upp á að hið leigða húsnæði sé fullfrágengið og er það niðurstaða matsgerðarinnar að húsnæðið væri ekki hæft til útleigu í þáverandi ástandi. Þessari matsgerð hefur stefnandi mótmælt sem órökstuddri og telur hann að hún uppfylli ekki lágmarkskröfur um matsgerðir.
Í bréfi byggingarfulltrúans í Reykjavík 11. apríl 2001 kemur fram að ýmsar lágmarksframkvæmdir þurfi að gera til að réttlætanlegt sé að nota húsnæðið og mikið verk sé í að koma málum í lag í húsnæðinu. Hin leiðin sé að loka því. Í framhaldi þessa óskaði stefndi þess að stefnandi hæfi framkvæmdir við að koma hreinlætisaðstöðu í það horf að hún uppfylli lágmarkskröfur um aðbúnað og hollustuhætti og að húsnæðið væri lagfært þannig að lágmarkskröfum um brunavarnir og almennt öryggi væri fullnægt.
Stefnandi heldur því fram að erfiðlega hafi gengið fyrir hann að ljúka lagfæringum þar sem óskað hafi verið eftir því að lagfæringar færu fram á venjulegum vinnutíma frá 8 til kl. 17 en starfsmenn stefnda hafi hins vegar yfirleitt ekki mætt fyrr en milli hálf níu og níu og óskum um að fá að vinna um helgar hafi verið hafnað af stefnda. Stefndi mótmælir því að starfsmenn hans hafi á þennan hátt torfeldað stefnanda að vinna að lagfæringum.
Í tölvupósti frá TM-tryggingum, sem hafði skoðað leiguhúsnæðið að Grandagarði 8, með tilliti til vátryggingar á starfsemi stefnda, kemur fram að mjög brýnt sé að ganga frá nánar tilgreindum atriðum til að gera ástand húsnæðisins ásættanlegt.
Stefndi óskaði eftir kostnaðarmati frá verkfræðistofunni Ferli ehf. og er það dagsett 26. apríl 2001. Þar er lagt mat á kostnað vegna lagfæringa og fullnaðarfrágangs á leiguhúsnæðinu og kemur þar fram að áætlaður kostnaður við nauðsynlegar úrbætur sé 30.000.000 króna. Telur stefnandi þessa skoðunargerð haldlausa að lögum.
Lögmaður stefnda gerði aðfinnslur um ástand leiguhúsnæðisins í bréfi til stefnanda 27. apríl 2001. Voru þar gerðar kröfur um úrbætur á húsnæðinu og þess krafist að leiga væri lækkuð frá og með apríl 2001 á meðan stefnandi hefði ekki bætt úr annmörkum á húsnæðinu. Kemur fram í bréfinu að hafi stefnandi ekki gert ráðstafanir til að bæta úr öllum annmörkum á húsnæðinu innan eins mánaðar frá dagsetningu bréfsins áskilji stefndi sér rétti til að láta framkvæma fullnægjandi úrbætur á húsnæðinu á kostnað stefnanda samkvæmt heimild í 1. mgr. 17. gr. húsaleigulaga. Að lokum kemur fram í bréfinu að hafi stefnandi ekki sinnt kröfu stefnda innan tveggja mánaða frá því að bréfið bærist honum og stefndi ekki neytt réttar síns samkvæmt heimild í 1.mgr. 17. gr. húsaleigulaga áskilji stefndi sér rétti til að rifta leigusamningi aðila og viðauka við hann.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að þegar hér var komið sögu hafi stefndi verið kominn í vanskil með húsaleigugreiðslur. Þá hafi stefndi ekki gert nauðsynlegar lagfæringar og hafi starfsmenn hans amast við þeim starfsmönnum stefnanda sem unnið hafi við að ljúka frágangi. Þá hafi tillögum stefnanda til úrbóta sem stefndi hafi átt að bera ábyrgð á ekki verið sinnt. Telur stefnandi að hann hafi reynt eftir föngum að ljúka frágangi á hinu leigða húsnæði og tekið á sig kostnað umfram skyldu vegna þess. Þá hafi ýmis atvik er vörðuðu stefnda tafið endanlegan frágang. Þessu mótmælir stefndi sem röngu og ósönnuðu.
Stefndi fékk verkfræðiskrifstofuna Ferill til að framkvæma úttekt á ný þar sem farið skyldi yfir upptalningarlista samkvæmt fyrri úttekt Ferils frá 26. apríl 2001. Kemur fram hjá stefnda að þetta hafi verið gert í því skyni að sannreyna hvort stefnandi hefði bætt úr hinum verulegu annmörkum á húsnæðinu. Ferill gerði úttekt sína 2. júlí 2001 og samkvæmt henni var flestum atriðum á upptalningarlistanum ýmist sagt ólokið eða að ekkert hafi verið gert. Stefnandi telur þessa skýrslu Ferils jafn marklausa og þá fyrri enda hafi ekkert samráð verið haft við hann vegna hennar. Kemur fram hjá stefnda að rétt sé að ekki hafi verið haft samráð við stefnanda við þessa könnun enda hafi könnunin eingöngu verið framkvæmd til að sannreyna hvort bætt hafi verið úr aðfinnslum stefnda.
Um sumarið 2001 kveður stefndi sig hafa orðið verulega varan við deilur stefnanda við aðra húseigendur að Grandagarði 8 og kveðst hafa séð fram á það að vegna þeirra deilna yrði hið leigða húsnæði fljótt ónothæft eftir að aðrir húseigendur hefðu lokað á aðgang að tölvumiðstöð og rafmagnstöflu stefnda, fjarlægt skólplagnir undan salernum hans og fjarlægt loftræstibúnað sem sinnt hafi hinu leigða rými. Um þetta segir stefnandi að ágreiningur hans við aðra eigendur hússins hefðu aldrei orðið til að raska hagsmunum stefnda.
Stefndi óskaði eftir úttekt á húsnæðinu með bréfi til byggingardeildar Reykjavíkurborgar 30. júlí 2001. Mótmælti stefnandi því að Baldvin Einarsson annaðist úttektina þar sem hann hafi framkvæmt fyrri úttekt 10. apríl 2001 og væri því vanhæfur í málinu. Þá boðaði lögmaður stefnanda forföll á fyrirhugaðan úttektarfund.
Með bréfi 1. ágúst 2001 lýsti stefndi yfir riftun á leigusamningi aðila frá 18. júlí 2000, samningi um kostnaðarskiptingu 3. desember 2000 og viðauka við þá samninga 29. mars 2001. Af hálfu stefnanda var riftun mótmælt með skeyti 3. ágúst 2001. Stefndi fékk sama dag í hendur matsgerð Baldvins Einarssonar hjá Borgarverkfræðingnum í Reykjavík sem dagsett er 2. ágúst 2001 og er það niðurstaða hans að eðlilegt sé að leigjanda beri 50% lækkun húsaleigu meðan samningsbundnum framkvæmdum sé ólokið og húsnæðið ekki í því ástandi sem leigjandi hljóti að mega gera ráð fyrir. Telur stefnandi að matsgerð þessi sé jafnfjarri því að uppfylla lagaskilyrði og hin fyrri og sé hún órökstudd með öllu.
Stefndi flutti starfsemi sína út úr húsnæðinu þann 20. ágúst 2001. Með bréfi lögmanns stefnanda 30. ágúst 2001 var stefnda tilkynnt um athugasemdir stefnanda vegna skila á húsnæðinu. Lögmaður stefnda svaraði bréfi lögmanns stefnanda með tölvupósti 12. september 2001 og gerði athugasemdir og ítrekaði fyrri kröfur stefnda á hendur stefnanda. Stefnandi óskaði eftir úttekt á húsnæðinu og fór hún fram 18. september 2001 af Borgarverkfræðingnum í Reykjavík og er skýrsla hans dagsett 29. september 2001.
Þann 2. apríl 2002 höfðaði stefndi mál á hendur stefnanda, mál nr. 4339/2002 þar sem hann krefst þess aðallega að viðurkennd væri riftun hans frá 1. ágúst 2001 á leigusamningi um húsnæðið að Grandagarði 8, Reykjavík, sem dagsettur er 18. júlí 2000 og riftun á samningi um kostnaðarskiptingu 4. desember 2000 og viðauka við þá samninga sem dagsettur er 29. mars 2001. Þá krefst hann skaðabóta að fjárhæð 20.511.033 krónur. Stefnandi í þessu máli höfðaði gagnsakarmál 30. apríl 2002 í hinu fyrra máli þar sem hann krafðist þess að viðurkennt væri með dómi að gagnstefndi, stefndi þessa máls, væri bundinn við leigusamning þann sem fjallað er um í þessu máli til 30. mars 2006. Þá krafðist hann þess að gagnstefndi væri dæmdur til greiðslu 88.410.752 króna með dráttarvöxtum. Til vara gerði hann þær kröfur að gagnstefndi væri dæmdur til greiðslu 23.695.472 króna ásamt dráttarvöxtum. Þá krafðist hann viðurkenningar á því að gagnstefndi ætti að greiða honum 64.715.280 krónur í húsaleigu frá 1. maí 2000 til 30. mars 2006. Þá krafðist hann málskostnaðar. Aðalkrafa gagnstefnda í því máli var að gagnsökinni væri vísað frá dómi og með úrskurði uppkveðnum 13. desember 2002 var krafa gagnstefnda um frávísun gagnsakarinnar tekin til greina.
Með kaupsamningi 22. júlí 2002 seldi stefnandi leiguhúsnæði það sem fjallað er um í máli þessu til Sjónþings ehf. Þann 23. september 2002 krafðist stefndi kyrrsetningar hjá sýslumanninum í Reykjavík á eigum stefnanda til tryggingar meintum kröfum sínum að fjárhæð 20.511.033 krónur. Sýslumaðurinn í Reykjavík tók kyrrsetningarbeiðni stefnda fyrir 7. október 2002 og var lýst yfir kyrrsetningu í veðskuldabréfum að fjárhæð 3.500.000 sem voru í vörslum fasteignasölunnar Fasteignamarkaðsins og var kyrrsetningargerðinni lokið án árangurs að hluta. Með stefnu sem gefin var út af dómstjóranum í Reykjavík 11. október 2002 og birt var þann 14. október 2002 krafðist stefndi staðfestingar á framangreindri kyrrsetningargerð og var það mál sameinað fyrrgreindu máli nr. E-4339/2002.
III
Stefnandi telur, að ekki hafi verið skilyrði til riftunar á leigusamningum aðila, og sé stefndi því enn bundinn af þeim. Þar sem stefndi haldi því fram að skilyrði hafi verið til riftunar og hafi höfðað mál til staðfestingar riftunar sé stefnanda nauðsynlegt að fá sjálfstæðan dóm um að leigusamningarnir séu í gildi.
Telur stefnandi að formskilyrðum riftunar sé ekki fullnægt. Séu skoðunargerðir Baldvins Einarssonar ekki marktækar. Umræddur Baldvin sé ekki byggingarfulltrúi eins og lögskilið sé samkvæmt 4. mgr. 17. gr. laga nr. 36/1994 og hafi hann ekki haft umboð hans til að vinna verkið. Jafnvel þótt skoðun Baldvins Einarssonar hafi verið lögmæt, hafi réttaráhrif hennar horfið með því að aðilar hafi unnið saman að bæta það sem á hafi skort og hafi starfsemi stefnda verið í gangi allan tímann. Hafi verið bætt úr göllum á húsnæðinu.
Þá hafi skoðunarskýrslur Ferils ehf. hvorki verið samdar með hliðsjón af leigusamningum eða stefnanda gefist færi á að vera viðstaddur þegar starfsmenn stefnda fóru um hið leigða húsnæði. Á útmánuðum árið 2001 og þar til stefndi yfirgaf hið leigða hafi sífellt verið unnið að endurbótum og lagfæringum í samráði við forsvarsmenn stefnda. Hafi aðrir starfsmenn stefnda hins vegar reynt að torvelda slíka vinnu og hindrað hana.
Með því að undirrita viðbótarsamning áður en stefndi flutti inn í húsnæðið hafi verið fallið frá úttekt á húsnæðinu. Þótt stefndi hafi gert athugasemdir við húsnæðið hafi hann ekki gripið til þeirra úrræða sem honum hafi verið tæk samkvæmt lögum. Hann hafi því aðeins getað hætt að greiða leigu hefði hann ákveðið að nota leigugreiðslurnar til að bæta úr húsnæðinu sbr. 20. gr. laga nr. 36/1994 og þar sem hann hafi haldið eftir greiðslum án þess að nota þær til að bæta meinta galla sbr. 1. mgr. 17. gr. sömu laga hafi honum verið óheimil riftun sbr. 2. mgr. 17. gr.
Í upphaflegum leigusamningi milli aðila hafi legið til grundvallar tilteknar teikningar og hafi stefnda verið fullkunnugt um að þær væru í verulegum atriðum frábrugðnar endanlegum frágangi á hinu leigða. Hafi stefnda alltaf verið ljóst að ekki hafi verið hægt að fá samþykktar byggingarteikningar, þar sem ekki hafi verið búið að leysa tiltekin skipulagsvandamál milli Reykjavíkurhafnar og Reykjavíkurborgar, en yfirvöldum verið ljós væntanleg nýting húsnæðisins.
Telur stefnandi að athugasemdir sem gerðar voru um brunavarnir hafi aðallega verið stefnda sjálfum um að kenna þar sem hann hafi ekki gengið frá þeim hluta brunavarna sem hafi snert hann auk þess sem starfsmönnum stefnanda hafi verið meinað að ljúka eðlilegum frágangi við brunavarnarhurð. Þá hafi stefndi sjálfur átt að sjá um að setja upp gluggatjöld en hann hafi kosið að nota í staðinn svarta plastpoka, sem hafi orðið til þess að rúður ofhitnuðu og sprungu. Meint rykmyndun hafi verið vegna óþrifnaðar sem stafað hafi frá stefnda sjálfum. Þá hafi hávaðavarnir og hljóðmengun verið á ábyrgð stefnda sem hafi hunsað tillögur stefnanda um úrbætur. Þá hafi öll salerni nema eitt verið tengd og hafi það verið nægur fjöldi miðað við starfsmannafjölda stefnda. Þá telur stefnandi að hinar minniháttar deilur milli hans og annarra eiganda hússins hefðu aldrei orðið til þess að raska hagsmunum stefnanda.
Stefnandi telur rangt sem fram komi af hálfu stefnda um að hann hafi ekki mótmælt aðfinnslum stefnda. Þegar fyrri skýrsla Ferils ehf. hafi verið send honum hafi hann gert við hana skriflegar athugasemdir og hafi í kjölfarið verið gerð verkáætlun sem aðilar hafi sæst á. Hafi atvik sem að verulegu leyti megi rekja til stefnda orðið til þess að ekki hafi verið hægt að ganga frá nauðsynlegum lagfæringum á tilsettum tíma og skipti þar mestu útbygging á suðvesturhlið hússins.
Telur stefnandi að meginástæða þess að stefndi hafi kosið að rifta samningi aðila sé sú að starfsemi hans hafi dregist saman, hann hafi flutt í ódýrara húsnæði og nýtt sér að stefnandi hafi verið veikburða vegna brunans á húsnæðinu.
Um lagarök þeirrar kröfu sinnar að viðurkennt verði með dómi að leigusamningur aðila og fylgisamningar hans um húsnæði stefnanda sé í gildi vísar stefnandi til hinnar gömlu reglu að pacta sunt servanda. Þá vísar hann til samningalaga nr. 7/1936, þar sem engin ákvæða þeirra laga standi í vegi fyrir því að samningar aðila um húsnæðið séu í gildi. Þá vísar hann til húsaleigulaga nr. 36/1994 einkum 2. mgr. 2. gr. og III. og IV. kafla einkum 2. mgr. 17. gr. og 18. gr.
Stefnandi heldur því fram að stefndi hafi hætt að greiða húsaleigu frá og með 1. febrúar 2001 og ekki greitt hana síðan. Hann hafi svo krafist riftunar leigusamnings frá og með 1. ágúst 2001 og rýmt húsnæðið í þeim mánuði. Eigi stefnandi því kröfu á greiðslu á ógreiddri leigu frá 1. febrúar 2001, en þá hafi leigan verið 974.159 krónur, til 1. ágúst 2002, en þá hafi leigan verið 1.086.050 krónur, en húsnæðið hafi verið selt þriðja aðila í júlí það ár. Sé krafan reiknuð þannig að áföllnum dráttarvöxtum af vangoldinni leigu sé bætt við höfuðstól mánaðarlega og hann lagður við nýja gjaldfallna leigu sem breytist eftir vísitölu byggingakostnaðar og svo koll af kolli. Þannig sé ógreidd húsaleiga að viðbættum dráttarvöxtum samtals að fjárhæð 23.233.503 krónur.
Húsaleigukrafa stefnanda eigi sér stoð í húsaleigusamningum aðila, einkum 6. gr. samningsins. Sé því sérstaklega mótmælt að þess sjáist stað í leigusamningum aðila að sú fjögurra mánaða leiga sem greidd hafi verið eigi að koma til frádráttar svo sem stefndi haldi fram. Vaxta sé krafist á grundelli 17. gr. leigusamnings aðila og í samræmi við 4. mgr. 33. gr. laga nr. 36/1994 sbr. III. kafla laga nr. 38/2001 og áður laga nr. 25/1987. Um málsástæður og lagarök fyrir þessari kröfu að öðru leyti kveðst stefnandi vísa til grunnreglna íslenskra laga um löggerninga og samninga milli manna, lög um samninga, lög um húsaleigusamninga og önnur lög um fjármunaréttindi. Ennfremur vísar hann til laga um meðferð einkamála og vaxtalaga og greinargerðar sinnar í máli nr. E-4339/2002.
Kröfu sína um bætur fyrir missi húsaleigu kveðst stefnandi byggja á því að stefndi hafi hlaupist frá leigusamningi aðila með saknæmum og ólögmætum hætti sem hann beri bótaábyrgð á. Eigi stefnandi rétt á bótum vegna missis þess hagnaðar sem hann hefði fengið ef stefndi hefði staðið við sínar skyldur samkvæmt samningnum. Sé bótakrafan fyrir tapaðar leigutekjur reiknaðar til núvirðis miðað við fjárhæð leigunnar eins og hún hafi verið í janúarmánuði 2003, eða 1.087.614 krónur, og til loka leigutímans 30. mars 2006. Þá sé gert ráð fyrir 7,5% hækkun leigu 30.mars 2004 sbr. 5. gr. viðbótarsamnings og miðað við 5,5% ársávöxtun. Núvirði miðað við 1. ágúst 2002 sé 44.240.067 krónur. Stefnandi kveður að það breyti ekki grundvelli bótakröfunnar að hann hafi selt húsnæðið enda hafi hann verið þvingaður til þess vegna vanskila stefnda. Um lagarök fyrir þessari kröfu sinni kveðst stefnandi byggja á almennum reglum skaðabótaréttarins en ljóst sé að hann hafi orðið fyrir gífurlegum tekjumissi af völdum stefnda.
Kröfu sína um greiðslu vegna kostnaðar og láns kveðst stefnandi byggja á útlögðum fjármunum sem hann hafi greitt í þágu stefnda og greiða hafi átt með fimm greiðslum. Stefndi hafi greitt fyrstu greiðsluna en síðar hafi verið samið um að fresta greiðslu eftirstöðvanna, samtals að fjárhæð 1.017.592 krónur, til 1. maí 2001 og sé þessi skuld enn ógreidd. Þá kveður stefnandi að stefndi hafi aldrei greitt fyrir rafmagn og hita sem hann eigi að greiða samkvæmt 10. gr. leigusamningsins. Geri stefnandi áskilnað um að auka kröfuna ef í ljós komi síðar að skuldin sé hærri en samkvæmt útreikningi sé krafa vegna hita og rafmagns samtals 1.023.151 króna og að viðbættum kostnaði, sorphirðugjaldi og vaxta sé hún að fjárhæð 1.446.353 krónur.
Kröfu sína um virðisaukaskatt á allar tildæmdar fjárhæðir byggir stefnandi á 2. gr. laga nr. 50/1988 en honum beri að innheimta virðisaukaskatt af tildæmdum fjárhæðum þar sem að baki þeim sé virðisaukaskattskyld þjónusta.
Kröfu sína um málskostnað styður stefnandi við málskostnaðarkafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Um kröfu sína um að málið verði sameinað máli nr. E-4339/2002 vísar stefnandi til 28. gr. laga nr. 91/1991. Ekki séu ákvæði um það í lögunum hvernig fari ef aðalsök eða gagnsök sé vísað frá dómi en með lögjöfnun frá mánaðarfrestinum sem gefinn sé í 2. mgr. 28. gr. laganna hljóti nýr mánaðarfrestur að byrja að líða frá því að kærufrestur samkvæmt 144. gr. laganna hefjist. Sá frestur hafi byrjað að líða þegar stefnanda hafi verið kunnugt um úrskurð um frávísun gagnkröfu hans í máli E-4339/2002 eða þann 17. desember 2002 eða degi eftir uppkvaðningu úrskurðarins þann 14. desember 2002.
Verði ekki fallist á sameiningu sé stefnanda rétt að fá dóm fyrir kröfum sínum auk þess sem dómari geti eftir atvikum sameinað málin sbr. 30. gr. laga nr. 91/1991. Um málsástæður og lagarök að öðru leyti en að framan er rakið vísar stefnandi til grunnreglna íslenskra laga um löggerninga og samninga milli manna, lög um samninga, lög um húsaleigusamninga og önnur lög um fjármunaréttindi.
IV
Frávísunarkröfu sína byggir stefndi á því að kröfugerð stefnanda sé ódómhæf. Sé málatilbúnaður stefnanda svo vanreifaður að vísa beri málinu frá í heild sinni. Vegna óskýrleika í málatilbúnaði stefnanda sé stefnda ómögulegt að taka til efnislegra varna með skipulegum hætti. Kröfugerð stefnanda sé í fjölmörgum liðum en einungis sé um eina kröfu að ræða og ekki sé sett fram varakrafa.
Enda þótt það komi ekki skýrt fram í orðalagi þeirrar kröfugerðar stefnanda, að viðurkennt sé að leigusamningur milli aðila ásamt fylgisamningum hans séu í gildi, verði málatilbúnaður stefnanda ekki skilinn á annan veg en að hann sé að gera þá kröfu að leigusamningurinn, verði með dómi talinn vera í gildi til loka samningstímans eða til 30. mars 2006, sem og tengdir samningar. Samkvæmt því sé stefnandi að krefjast viðurkenningar á að réttindi og skyldur beggja aðila samkvæmt leigusamningnum séu óbreyttar og skuli haldast óbreyttar til 30. mars 2006.
Hafi stefnandi selt hið leigða húsnæði til Sjónþings ehf. með kaupsamningi 22. júlí 2002. Umráð húsnæðisins sé því ekki lengur í höndum stefnanda, enda hafi húsnæðið verið afhent kaupanda þann 22. júlí 2002 til eignar og umráða. Stefnandi geti þannig ekki sjálfur farið með skyldur sínar samkvæmt samningnum, fengi hann viðkennt með dómi að stefndi væri bundinn leigusamningi til 30. mars 2006.
Leiði það af eðli máls að leigusamning sem gilda skuli til mars 2006, sé stefnanda ekki mögulegt að efna in natura, þegar hann hafi selt og afhent umráð hins leigða húsnæðis til þriðja aðila, sem ekki sé aðili að leigusamningi aðila. Þá hafi stefnandi ekki sýnt fram á að hann hafi afnotarétt að hinu leigða húsnæði eftir að hann hafi seldi það og því ljóst að leiguandlagið sé ekki lengur til ráðstöfunar fyrir stefnanda.
Ef viðurkennt yrði með dómi að leigusamningur aðila væri í gildi til 30. mars 2006, ætti stefndi að fá umráð hins leigða og bæri honum þá að greiða umsamda húsaleigu út allt tímabilið með mánaðarlegu millibili til mars 2006, enda væri samningurinn þá í fullu gildi. Þá yrðu einnig virk önnur réttindi og skyldur stefnda samkvæmt leigusamningnum. Greiðsla húsaleigu út allt tímabilið væri því ekki fallin í gjalddaga. Þá myndi viðurkenning á gildi samninganna ekki veita stefnanda rétt til skaðabóta sem grundvallist á leigugreiðslum út allan gildistímann. Viðurkenningarkrafa stefnanda sé því berlega ódómhæf þar sem útfærsla hennar sé ekki framkvæmanleg sökum ómöguleika og varði það frávísun málsins í heild sinni.
Miðað við þá kröfugerð stefnanda að krefjast þess að leigusamningur aðila sé í gildi til 30. mars 2006, væri eðlilegt að hann krefðist vangreiddra leigugreiðslna alveg fram að þingfestingu málsins þann 21. janúar 2003, sem þá væru fallnar í gjalddaga miðað við forsendur í kröfugerð stefnanda. Sé stefnda óljóst af hverju krafa um vangoldnar leigugreiðslur og krafa um viðurkenningu á gildistíma fari ekki saman. Þá sé fjárhæð kröfu stefnanda í kröfugerð 21.960.272 krónur en í málsástæðum með sömu kröfu sé sett fram krafa að fjárhæð 23.233.503 krónur. Telur stefndi að þessi óskýrleiki einn og sér eigi að varða frávísun þessarar kröfu.
Hvað snertir kröfu stefnanda um tapaðar leigutekjur frá 1. ágúst 2002 til 30. mars 2006, sem stefnandi telji sig eiga vegna missis hagnaðar sem hann hafi orðið af vegna vanefnda stefnda, bendir stefndi á að fyrir liggi að stefnandi hafi selt hið leigða húsnæði þann 22. júlí 2002 og hafi hann ekki haft ráðstöfunarrétt yfir húsnæðinu síðan. Meint tjón sitt hafi stefnandi takmarkað með því að selja hið leigða til Sjónþings ehf. fyrir 101.704.739 krónur. Þá liggi fyrir að samhliða þessari kröfu sé krafa um viðurkenningu á gildi leigusamningsins til 30. mars 2006. Nái viðurkenningarkrafa stefnanda fram að ganga kveðst stefndi ekki sjá hvernig stefnandi geti hafa orðið fyrir fjártjóni vegna tapaðra leigutekna fyrir tímabilið frá 1. ágúst 2002 til 30. mars 2006, þegar leigutímabilinu ljúki ekki fyrr en að þremur árum liðnum. Hafi stefnandi því ekki orðið fyrir tjóni vegna ógjaldfallinna leigugreiðslna. Þegar staðan sé sú geti skaðabótaskylda ekki stofnast og því ekki bótakrafa heldur. Þá liggi ekki fyrir á hvaða grunni meint bótaskylda sé byggð, hvort það séu húsaleigulögin nr. 36/1994 eða almenna skaðabótareglan. Sé ljóst að viðurkenningarkrafa stefnanda og bótakrafa hans fari ekki saman og krafa þessi því ódómhæf.
Þessu til viðbótar séu útreikningar stefnanda á meintum bótum með ýmsum hætti. Þannig sé fjárhæðin í kröfugerð og málsástæðum með kröfunni sagt vera 44.420.067 krónur en í útreikningum með kröfu um skaðabætur sé fjárhæð bótakröfunnar sögð vera 45.078.135 krónur auk þess sem útreikningar með kröfunni séu óskiljanlegir. Þá sé dráttarvaxtakrafa með öllu órökstudd.
Kröfu stefnanda um útlagðan kostnað og lán fylgi engir reikningar sem sýni fram á að um útlagðan kostnað hafi verið að ræða og eru því engin gögn sem styðji að krafa þessi verði rakin til útlagðs kostnaðar. Þá sé mótmælt að stefndi hafi tekið lán það sem stefnandi haldi fram enda engin gögn lögð fram því til stuðnings. Verði því ekki lagður dómur á þá kröfu vegna vanreifunar.
Krafa stefnanda um að stefndi greiði skuld vegna rafmagns og hita kveður stefndi ósundurliðaða með öllu og fylgi henni engir reikningar. Hafi hann aldrei fengið senda reikninga fyrir notkun rafmagns eða vatns meðan hann dvaldi í hinu leigða húsnæði. Ástæðuna telur hann vera þá að stefnandi hafi aldrei látið setja inntaksmæla sem sýndu notkun á rafmagni og heitu vatni í hinu leigða húsnæði. Þá liggi ekkert fyrir að um skuld við stefnanda sé að ræða, enda ekki sýnt fram á það með gögnum að stefnandi hafi innt af hendi til þriðja aðila þær fjárhæðir, sem hann krefji stefnda um. Samkvæmt yfirlitsblaði yfir heildarnotkun rafmagns og hita í öllu húsinu að Grandagarði nr. 8 sé allri notkun hússins deilt niður í hlutfallstölu hins leigða húsnæðis. Þá fylgi annað yfirlit sem geri ráð fyrir að stefndi eigi að greiða fyrir notkun stefnanda á rafmagni á árinu 2002 og einnig fyrir rafmagnsnotkun hins nýja eiganda hins leigða húsnæðis í júlí og september 2002. Þá fylgi yfirliti yfir skuldastöðu Húsfélagsins Grandagarði nr. 8 vegna rafmagns, sem nái til tímabils fyrir upphaf leigusamningsins aðila, auk þess sem yfirlitið sýni að meirihluti allra reikninganna séu ógreiddir. Að lokum sé yfirlit yfir heita vatns reikninga Sparisjóðs Hafnarfjarðar frá febrúar 2002 til 2003 sem ekki verði séð að komi þessu máli við.
Þá bæti stefnandi við kröfuna um rafmagn og hita, kostnaði, sorphirðugjaldi og vöxtum sem hann sundurliði ekki. Séu ekki lagðir fram reikningar eða haldbær gögn til sýna tilvist slíkra krafna. Þá sé dráttarvaxtakrafa algerlega órökstudd. Byggir stefndi á því að krafa þessi sé svo vanreifuð að ekki verði dómur á hana lagður.
Krafa stefnanda um að dæmdur verði virðisaukaskattur ofan á allar tildæmdar fjárhæðir sé rökstudd með því að stefnanda beri að innheimta virðisaukaskatt að tildæmdum fjárhæðum, þar sem að baki öllum fjárhæðum sé virðisaukaskattskyld þjónusta. Stefndi byggir á því að kröfugerð stefnanda sjálfs beri það með sér að ekki sé um virðisaukaskattskylda þjónustu stefnanda að ræða nema að litlu leyti. Krafa um vangoldna húsaleigu sé sannanlega virðisaukaskattskyld þjónusta, enda liggi fyrir reikningar um húsaleigu sem taki af allan vafa um slíkt. Krafa um skaðabætur sé ekki krafa um greiðslu á reikningi fyrir vinnu eða þjónustu sem séu virðisaukaskattskyld viðskipti heldur sé þetta bótakrafa. Sé stefnanda ekki heimilt að krefjast virðisaukaskatts ofan á skaðabótakröfu. Aðrar fjárkröfur séu sambland af kröfum um endurgreiðslu útlagðs kostnaðar, skuld vegna rafmagns og hita og kröfur um greiðslu á ótilgreindum kostnaði. Allar kröfurnar eigi það sameiginlegt að reikningar séu ekki lagðir fram til að sýna fram á tilvist eða réttmæti þessara krafna eða að heimilt sé að krefjast virðisaukaskatts ofan á höfuðstól þeirra. Stefndi telur því að ljóst sé að krafa um virðisaukaskatt ofan á allar kröfur í kröfugerð stefnanda sé ekki dómtæk og því beri að vísa henni frá dómi.
Með hliðsjón af framangreindu byggi stefndi á því að kröfugerð stefnanda brjóti gegn d, e og g liðum 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Þá byggi stefndi á því að þar sem stefnandi geri ekki varakröfu í málinu og þar sem stefndi krefjist þess að málinu verði vísað í heild frá dómi hljóti frávísun á einum kröfulið í kröfugerð stefnanda að hafa í för með sér frávísun á málinu í heild sinni.
Málskostnaðarkröfu sína styður stefndi við 129. sbr. 130. gr. og a og c liði 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991.
V
Stefndi telur að kröfugerð stefnanda brjóti gegn d, e og g liðum 1. mar. 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Í d lið ákvæðisins segir að í stefnu skuli greina svo glöggt sem verða má, dómkröfur stefnanda, svo sem fjárhæð kröfu í krónum, bætur fyrir tiltekið skaðaverk án fjárhæðar ef enn er óvíst um hana, vexti ef því er að skipta, viðurkenningu á tilteknum réttindum, ákvörðun á eða lausn undan tiltekinni skyldu o.s.frv. Samkvæmt e lið skal greina málsástæður sem stefnandi byggir málsókn sína á, svo og önnur atvik sem þarf að greina til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst og skal þessi lýsing vera gagnorð og svo skýr að ekki fari milli mála hvert sakarefnið er. Samkvæmt g lið skal tilgreina helstu gögn sem stefnandi hefur til sönnunar og þau gögn sem hann telur að þurfi að afla.
Það er grundvallarregla íslensks réttar að sá sem krefst réttinda sér til handa í dómsmáli verði að gera skýra grein fyrir þeim rétti. Framsetning stefnanda á málsástæðum og atvikum máls verður ekki talin sett fram með glöggum og skýrum hætti í stefnu svo sem gert er ráð fyrir í fyrrgreindu ákvæði, en málsástæður eru fléttaðar inn í málavaxtalýsingu þannig að sakarefnið verður óljóst á köflum. Þá þykir verða að gera athugasemdir við þann málatilbúnað stefnanda þar sem hann vísar um lagarök til grunnreglna íslenskra laga um löggerninga og samninga milli manna, laga um samninga, laga um húsaleigusamninga og annarra laga um fjármunaréttindi svo og til laga um meðferð einkamála. Slíkt tilvísun til heilla lagabálka án þess að tilgreina nákvæmar hvaða lög og lagagreinar stefnandi styðji málatilbúnað sinn við er ekki í samræmi við f lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 þar sem segir að í stefnu skuli greina svo glöggt sem verða má tilvísun til helstu lagaákvæða sem stefnandi byggir málatilbúnað sinn á. Ekki er þörf á því að tæmandi lýsing á lagarökum komi fram í stefnu hins vegar verður að líta svo á að tilgangur áskilnaðar um að lagarök komi fram í stefnu sé sá að tilvísun til réttarreglna geti varpað ljósi á málsástæður stefnanda og gefið stefnda gleggri mynd af því máli sem að honum beinist. Framangreind tilgreining verður vart talin þjóna þessum tilgangi þótt ekki verði talið að það eitt út af fyrir sig leiði til frávísunar málsins.
Kröfugerð stefnanda er í mörgum liðum. Í fyrsta lagi krefst hann þess að leigusamningur aðila um húsnæðið að Grandagarði 8 og dagsettur var 18. júlí 2000 sé í gildi ásamt þeim samningum sem síðar voru gerðir 4. desember 2000 og 29. mars 2001. Verður málatilbúnaður stefnanda að þessu leyti ekki skilinn á annan veg en að verði krafa þessi tekin til greina haldist gagnkvæm réttindi aðila og skyldur samkvæmt þessum samningum enda er kröfugerð stefnanda að öðru leyti í samræmi við það. Ekki er ágreiningur um að samkvæmt leigusamningi aðila skyldi stefndi hafa afnot af hinu leigða húsnæði til 30. mars 2006. Í málinu liggur fyrir að stefnandi hefur selt umrætt húsnæði Sjónþingi ehf. og hefur sá kaupandi fengið húsnæðið afhent. Þykir því ljóst að stefnandi hefur ekki lengur umráð fasteignarinnar enda öðru ekki haldið fram í málinu. Er því ljóst að ekki verður leyst úr þessari kröfu stefnanda án þess að afstaða sé jafnframt tekin til þess hvern rétt núverandi eigandi húsnæðisins kunni að hafa til fasteignarinnar. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 skal þeim sem bera óskipta skyldu öllum veittur kostur á að svara til sakar að öðrum kosti skal vísa máli frá dómi. Núverandi eigandi fasteignarinnar er ekki aðili máls þessa og verður þegar af þeirri ástæðu ekki hjá því komist að vísa kröfu þessari frá dómi.
Í öðru lagi gerir stefnandi kröfu um greiðslu vegna vangoldinnar húsaleigu fyrir tímabilið 1. febrúar 2001 til 1. ágúst 2001. Ekki er samræmi í kröfugerð stefnanda varðandi kröfu hans um að húsaleigusamningur sé í gildi og þeirrar kröfu sem hann gerir vegna ógreiddrar húsaleigu. Krafa hans um greiðslu húsaleigu er vegna tímabilsins 1. febrúar 2001 fram til 1. ágúst 2002 er umrætt húsnæði var selt en ætla mætti að ef krafan um að húsaleigusamningur væri í gildi væri tekin til greina, hefði það í för með sér að stefnda bæri að greiða húsaleigu allan leigutímann en krafa þessi er ekki sett fram sem varakrafa og ætti því að vera í samræmi við fyrrgreinda kröfu um gildi húsaleigusamningsins.
Um stuðning fyrir kröfu um húsaleigu vísar stefnandi til húsaleigusamnings aðila og útreiknings hagfræðings sem gerður var að ósk lögmanns stefnanda og samkvæmt forsendum hans. Í þeim kafla sem í stefnu kallast dómkröfur er krafa þessi talin vera að fjárhæð 21.960.272 krónur en í kaflanum þar sem krafan er rökstudd er fjárhæðin sögð 23.133.503 krónur og munar þar 1.273.231 krónu. Framangreind framsetning kröfugerðar stefnanda er mjög óglögg og erfitt að henda reiður á hvar ofangreindar fjárhæðir eiga sér stoð í gögnum málsins. Þykir málatilbúnaður stefnanda að þessu leyti brjóta í bága við fyrrgreind ákvæði e og d liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 19/1991.
Í þriðja lagi telur stefnandi sig eiga kröfu á hendur stefnda um skaðabætur vegna tapaðra leigutekna. Hafi hann orðið fyrir tjóni sem rakið verði til vanskila stefnda sem með saknæmum og ólögmætum hætti hafi hlaupist burt frá leigusamningi aðila. Kröfu sína byggir stefnandi á útreikningi hagfræðings sem gerður er að beiðni lögmanns stefnanda og reikningar miðaðir við hans forsendur. Samkvæmt útreikningi hagfræðingsins nemur krafa þessi 45.078.135 krónum en í kröfugerð stefnanda er gert ráð fyrir að fjárhæðin sé 44.240.067 krónur án þess að mismunur þessi sé skýrður. Sýnist krafa þessi vera vegna meintra tapaðra leigutekna fyrir tímabilið janúar 2003 til 30. mars 2006. Með hliðsjón af því að stefnandi krefst þess að leigusamningur aðila sé í gildi er vandséð hvernig stefnandi getur einnig krafist bóta vegna tapaðra leigutekna í framtíðinni, þar sem ef leigusamningur telst í gildi lýkur leigutímabilinu ekki fyrr en eftir þrjú ár og því hefur stefnandi varla orðið fyrir tjóni vegna ógreiddra leigutekna í framtíðinni. Í málinu hefur stefnandi ekki lagt fram gögn eða leitt skýr rök að því að hann hafi orðið fyrir tjóni sem rakið verði til saknæmrar háttsemi stefnda. Verður því ekki dæmt um skaðabótaábyrgð af þeim sökum. Þykir því skorta mjög á skýran og ljósan málatilbúnað af hálfu stefnanda að þessu leyti.
Stefnandi krefst þess í fjórða lagi að stefndi verði dæmdur til að greiða honum skuld vegna útlagðs kostnaðar og láns samtals að fjárhæð 1.017.592 krónur. Engin grein er gerð fyrir því hvaða útlagða kostnað hér um ræðir eða hvenær stefnandi lagði hann út. Þá liggur ekki fyrir hvaða lán hér er átt við eða skilmála þess. Þá er óljóst hvernig fjárhæð kröfu þessarar er fengin og hún er ósundurliðuð. Er krafa þessi því svo verulega vanreifuð og skortir mjög á skýran og ljósan málatilbúnað stefnanda hvað hana snertir.
Í fimmta lagi er krafa stefnanda á hendur stefnda vegna skuldar á rafmagni og hita, kostnaði, sorphirðugjaldi og vöxtum. Þau gögn sem stefnandi leggur fram með þeirri kröfu renna ekki stoðum undir að hann eigi slíka kröfu á hendur stefnda heldur þvert á móti bera gögnin með sér að Orkuveita Reykjavíkur eigi kröfur á hendur Húsfélaginu Grandagarði 8 og Sparisjóði Hafnarfjarðar. Þá verður ekki séð hvernig yfirlit það sem stefnandi leggur fram um meintan hlut Hamra ehf. í sameiginlegu rafmagni og hita, þar sem orkureikningum virðist skipt eftir hlutfalli í lóð samkvæmt þinglýstum eignaskiptasamningi, styður kröfu stefnanda á hendur stefnda. Þá er engum gögnum til að dreifa varðandi þann hluta kröfunnar sem lýtur að kostnaði, sorphirðugjaldi og vöxtum.
Krafa stefnanda um virðisaukaskatt af tildæmdum fjárhæðum er byggð á því að stefnanda beri að innheimta virðisaukaskatt af tildæmdum fjárhæðum þar sem að baki þeim öllum sé virðisaukaskattskyld þjónusta. Af málatilbúnaði stefnanda verður ekkert ráðið hvort að baki öllum fjárkröfum hans eða hluta þeirra sé virðisaukaskattskyld þjónusta sem hann eigi rétt á að fá greitt frá stefnda og er krafa þessi því vanreifuð á sama hátt og þær kröfur sem krafa þessi byggir á.
Að því virtu sem nú hefur verið rakið hefur stefnandi ekki sýnt nægilega fram á grundvöll og fjárhæð meintra krafna sinna á hendur stefnda. Brestur mjög á að kröfur hans séu studdar viðhlítandi gögnum til þess að á þær verði lagður efnisdómur. Eins og málið er lagt fyrir dóminn verður að telja skýringar stefnanda á meintum kröfum sínum og röksemdum ófullnægjandi og til þess fallnar að takmarka varnir stefnda.
Þegar allt ofangreint er virt eru slíkir annmarkar á málatilbúnaði stefnanda að óhjákvæmilegt er að verða við kröfu stefnda um að vísa málinu frá dómi.
Eftir þessum úrslitum verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 100.000 krónur.
Af hálfu stefnanda flutti málið Haraldur Blöndal hrl. en af hálfu stefnda flutti málið Ægir G. Sigmundsson hdl.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Sæsmíð ehf., greiði stefnda, Stefju hf., 100.000 krónur í málskostnað.