Hæstiréttur íslands
Mál nr. 501/2006
Lykilorð
- Vátryggingarsamningur
- Bifreið
- Ölvunarakstur
- Húftrygging
|
|
Fimmtudaginn 15. mars 2007. |
|
Nr. 501/2006. |
Þorleifur Ingólfsson(Steingrímur Þormóðsson hrl.) gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf. (Ingvar Sveinbjörnsson hrl.) |
Vátryggingarsamningur. Bifreiðir. Ölvunarakstur. Húftrygging.
Þ krafðist viðurkenningar á rétti til greiðslu úr húftryggingu bifreiðar sinnar hjá vátryggingafélaginu S vegna tjóns sem varð á bifreiðinni þegar hún fór út af Hnífsdalsvegi við Eyrarhlíð. Á, bróðir Þ, ók bifreiðinni umrætt sinn ölvaður og af þeim sökum óhæfur til að stjórna ökutæki samkvæmt umferðarlögum. Í vátryggingarskilmálum S fyrir húftryggingu ökutækja var kveðið á um að félagið bætti ekki tjón á ökutæki sem yrði þegar svo háttaði til um ökumann. Með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í dómasafni réttarins 2003, bls. 2705, var talið að 18. gr., sbr. 20. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga stæði ekki í vegi slíku ákvæði í skilmálum. Yrði að líta svo á að S hefði með vátryggingarskilmálunum undanskilið sig ábyrgð með lögmætum hætti til fébótagreiðslu á grundvelli húftryggingar Þ hjá félaginu vegna þess tjóns sem varð á bifreið hans. Var S því sýknað af kröfu Þ í málinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 27. júlí 2006. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu 13. september 2006 og var áfrýjað öðru sinni 19. þess mánaðar. Áfrýjandi krefst viðurkenningar á rétti til greiðslu úr húftryggingu bifreiðar sinnar, SR 973, hjá stefnda vegna tjóns sem varð á bifreiðinni 12. febrúar 2005 þegar hún fór út af Hnífsdalsvegi við Eyrarhlíð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í málinu nr. 28/2003 í dómasafni réttarins 2003, bls. 2705, verður héraðsdómur staðfestur.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Þorleifur Ingólfsson, greiði stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur mánudaginn 15. maí 2006.
Mál þetta, sem dómtekið var 5. maí 2006, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Þorleifi Ingólfssyni, kt. 030751-2139, Hjallastræti 20, Bolungarvík, gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf., kt. 701288-1739, Kringlunni 5, Reykjavík, með stefnu sem birt var 18. október 2005.
Dómkröfur stefnanda eru að viðurkenndur verði með dómi réttur stefnanda til fébótagreiðslu hins stefnda félags á grundvelli kaskótryggingar stefnanda hjá stefnda á bifreiðinni SR-973, vegna altjóns bifreiðarinnar SR-973 í umferðarslysi, hinn 12. febrúar 2005, er bifreiðin fór út af veginum um Eyrarhlíð. Þá er þess krafist að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt málskostnaðaryfirliti lögmanns stefnanda.
Dómkröfur stefnda eru að félagið verði sýknað af kröfum stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.
Helstu málavextir eru að bifreið stefnanda, SR-973, Nissan Patrol GR, jeppabifreið, var ekið út af Hnífsdalsvegi við Kvígnabryggju skammt frá Ísafjarðarbæ að kvöldi dags 12. febrúar 2005. Stefnandi hafði fengið bróður sinn, Ásgeir Hinrik Ingólfsson, til að aka sér og konu sinni frá Bolungarvík til Ísafjarðar.
Í skýrslu sem lögreglan á Ísafirði tók af stefnanda vegna atviksins umrætt kvöld segir m.a.:
„Þorleifur segist nú í kvöld hafa hringt í Ásgeir um klukkan 18:00 og beðið Ásgeir að koma að heimili sína Hjallastræti 20 [Bolungarvík] um klukkan 18:45 til að aka sér og konu sinni, Láru Arnbjörnsdóttur, ..., til Ísafjarðar þar sem þau hafi ætlað á þorrablót. Hann segir Ásgeir hafa samþykkt það og hann hafi svo komið að heimili þeirra um klukkan 18:45. ...
Þorleifur segir að Ásgeir hafi svo ekið honum og konu hans í bifreið Þorleifs, SR-973, áleiðis til Ísafjarðar.
Þorleifur segist ekki hafa veitt því athygli hvort að Ásgeir hafi verið undir áhrifum áfengis og ekki fundið af honum áfengislykt og ekki tekið eftir neinu óeðlilegu við hann. Þorleifur segir að ekki hafi hvarflað að sér að Ásgeir væri undir áhrifum áfengis. Þorleifur segist ekki hafa tekið eftir öðru en að Ásgeir hafi verið eðlilegur í hreyfingum og háttum. ...
Þorleifur segist ekki hafa tekið eftir því að Ásgeir hafi ekið óeðlilega frá Bolungarvík til Ísafjarðar.
Þorleifur segir að Ásgeir hafi ekið „beinustu leið“ frá Hjallastræti 20 og niður Þjóðólfsveg og sem leið liggur eftir Óshlíð inn á Ísafjörð. Hann hafi ekið inn Túngötu og upp bæjarbrekku (sic.) og inn á Seljalandsveg. Þorleifur segir að Ásgeir hafi svo stöðvað bifreiðina við hús nr. 69 á Seljalandsveginum og skilið þau bæði eftir þar og svo ekið í burtu áleiðis inn Seljalandsveg. Þorleifur segir að ekkert áfengi hafi verið í bifreiðinni svo að hann viti til.“
Upplýst er að á leið sinni til baka áleiðis til Bolungarvíkur missti Ásgeir Hinrik stjórn á bifreiðinni á Hnífsdalsvegi, þegar hann kom úr beygju við vegrið sem þarna er, með þeim afleiðingum að bifreiðin rásaði, rann til og lenti á ljósastaur og síðan utan vegar. Neyðarlínu barst tilkynning klukkan 19:05 frá Rúnari Óla Karlssyni, er var vitni að atburðinum ásamt Eiríki Gíslasyni, en þeir höfðu komið akandi suður Hnífsdalsveg í átt að Ísafirði á þessum tíma.
Við skýrslutöku, sem lögreglan á Ísafirði tók af Ásgeiri Hinrik Ingólfssyni sama kvöld og þetta gerðist, var haft eftir Ásgeiri Hinriki að hann hefði verið að drekka áfengi á milli klukkan 19:00 og 20:00 kvöldið áður og lokið drykkju milli klukkan 03:00 og 04:00 um nóttina.
Haft er eftir Ásgeiri Hinriki að hann hafi ekki fundið fyrir áfengisáhrifum við aksturinn og ekki drukkið áfengi eftir að akstrinum lauk. Í stefnu er greint frá því að tekin hafi verið blóðsýni úr Ásgeiri Hinriki klukkan 19:44 og 21:15 og hafi áfengismagn í blóðsýni mælst 1,78 prómill.
Stefnandi leitaði bóta hjá stefnda, en umrædd jeppabifreið hans var kaskótryggð hjá stefnda. Var bótagreiðslu hafnað af hálfu stefnda með vísun til þess að félagið bætti ekki tjón sem verði á ökutæki samkvæmt vátryggingaskilmálum aðila við þær aðstæður sem hér hefðu verið að ræða.
Ágreiningur aðila var lagður fyrir Tjónanefnd vátryggingafélaganna og var umsögn hennar þessi:
„Af gögnum málsins verður ekki ráðið að ágreiningur sé um það að ökumaður bifreiðarinnar ST973 (sic.) hafi verið undir áhrifum áfengis þegar hann ók bifreiðinni á ljósastaur og olli tjóni á henni. Í kaskótryggingarskilmálum, gr. 2.6 og 2.8, kemur fram að félagið bætir ekki tjón sem verður þegar vátryggður eða ökumaður veldur tjóni af stórkostlegu gáleysi eða vegna neyslu áfengis. Í því ljósi að ekki er ágreiningur um ástand ökumanns þykir ljóst að fyrrnefndar greinar eiga við og bætist tjónið ekki úr kaskótryggingu. Ekki kemur annað fram í skýrslum en að ökumaður hafi haft heimild frá eiganda til að aka bifreiðinni. Ekki telst skipta máli þó eigandinn hafi ekki gert sér grein fyrir því að ökumaður var ölvaður þegar hann veitti þessa heimild, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 28/2003.“
Stefnandi byggir á því að stefndi hafi selt honum kaskótryggingu sem bæta eigi honum tjón er hér um ræðir. Verði ökumaður bifreiðarinnar talinn hafa verið ölvaður, þá skerði það ekki rétt stefnanda til vátryggingabóta, þar sem hann hafi engan þátt átt í þeirri háttsemi sem olli tjónsatburðinum. Skýra beri grein 2.6 og grein 2.8 í vátryggingar-skilmálunum í samræmi við 3. mgr. 2. gr., 18. og 20. gr. laga nr. 20/1954. Undanþáguákvæðin megi ekki ganga lengra en heimilað sé í 18. og 19. gr. laganna. Stefnandi glati ekki rétti til bóta úr kaskótryggingu vegna þess eins að ökumaður veldur vátryggingaratburði með því að aka undir áhrifum áfengis, sbr. Hrd. 1966:262.
Stefnandi vísar til þess að honum hafi ekki verið kunnugt um ástand ökumannsins. Hann hafi hringt í Ásgeir Hinrik um klukkan 18:00 og beðið hann um að aka sér. Ásgeir Hinrik hafi komið á tímabilinu milli klukkan 18:45 og 19:00, eða rétt fyrir brottför, og hafi hann þá hvorki séð að Ásgeir Hinrik væri undir áhrifum né fundið af honum áfengislykt - og heldur ekki síðar á leiðinni til Ísafjarðar.
Stefnandi bendir á að hann hafi verið mjög skamman tíma með Ásgeiri Hinriki þetta kvöld fyrir slysið, en tilkynnt hafi verið um slysið klukkan 19:05. Þá hafi vitni á vettvangi, sem töluðu við Ásgeir Hinrik, er hann sté út úr bifreiðinni eftir slysið, tjáð lögreglunni að þau hefðu hvorki merkt að ökumaðurinn væri ölvaður né fundið áfengislykt af honum.
Stefnandi byggir á því að ekki sé útilokað að Ásger Hinrik hafi drukkið áfengi á vettvangi eftir slysið þó að vitni hafi ekki tekið eftir því.
Stefnandi byggir á því að stefnda beri að sanna að stefnandi hafi vitað eða mátt vita að ökumaðurinn var undir áhrifum áfengis. Allan vafa í þeim efnum beri að skýra stefnanda til hagsbóta. Aðstæður á vettvangi, hálka, snjókoma og mikið kóf hafi verið meginorsök slyssins en ekki áfengisáhrif ökumannsins, hafi þau nokkur verið.
Stefndi byggir á því í fyrsta lagi að ákvæði skilmála um ölvun ökumanns, grein 2.8, feli í sér hlutlægt viðmið á gildissviði vátryggingarskilmála aðila. Hvort eigandi bifreiðarinnar vissi eða vissi ekki að ökumaðurinn var ölvaður ráði því ekki úrslitum í þessu máli.
Í öðru lagi er á því byggt að stefnandi hafi falið ölvuðum ökumanni stjórn bifreiðarinnar. Fari ekki hjá því - í ljósi hins mikla áfengismagns sem reyndist í blóði ökumanns við slysið - að stefnandi hafi orðið var við að ökumaðurinn, sem er bróðir stefnanda, var undir áhrifum áfengis, er haldið var í ferðina. Lögreglumenn, er komu á vettvang, hafi orðið varir við ölvun hans. Þá hafi niðurstaða blóðsýnis úr ökumanni bifreiðarinnar verið 1,78. Hann hafi því verið óhæfur til að stjórna bifreiðinni, sbr. 45. gr. umferðalaga nr. 50/1987.
Í þriðja lagi er á það bent að ökumaðurinn var ölvaður umrætt sinn og ekkert bendi til að hann hafi drukkið áfengi eftir að akstri lauk. Allar líkur séu til þess að rekja megi slysið til ölvunar ökumanns, en stefnandi hafi sönnunarbyrði fyrir því að rekja megi tjónið til einhverra annarra orsaka en þeirrar. Bifreiðin hafi verið vel búin til aksturs í hálku og af vegsummerkjum á vettvangi og tjóni á bifreiðinni megi ráða að henni hafi verið ekið of hratt miðað við aðstæður.
Stefnandi gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að hann hefði ekki fundið neina áfengislykt af Ásgeiri áður en haldið var af stað til Ísafjarðar umrætt sinn. Hann hafi heldur ekki tekið eftir neinu í fari Ásgeirs sem benti til þess að hann hefði neytt áfengis. Hann kvaðst hafa haft samband við Ásgeir seinni part þessa dags, u.þ.b. klukkutíma fyrir brottför, og beðið hann um að koma til að fara með þau [hann og konu sína] til Ísafjarðar. Sjálfur kvaðst stefnandi hvorki hafa neytt áfengra drykkja né verið undir áhrifum lyfja.
Á ferðinni til Ísafjarðar kvaðst stefnandi ekki hafa merkt af aksturslagi Ásgeirs á bifreiðinni að Ásgeir væri undir áhrifum áfengis, en hann hafi setið við hlið hans í bifreiðinni.
Stefnandi kvað Ásgeir ekki hafa komið inn til sín áður en lagt var af stað frá Bolungarvík. Hann hafi hitt hann á stéttinni við anddyrið og afhent honum lykilinn af bifreiðinni þar sem Ásgeir hefði ætlað að aka bifreiðinni með honum og konu hans til Ísafjarðar. Stefnandi sagði að ekkert áfengi hafi verið haft um hönd á ferðinni en akstur frá Bolungarvík til Ísafjarðar tæki tólf til fimmtán mínútur. Hálka hafi verið á veginum en ekki óeðlilega slæm færð.
Lagt var fyrir stefnanda dskj. nr. 4, sem er lögregluskýrsla sem tekin var af stefnanda sama kvöld og slysið varð. Áður en skýrslan var tekin kvað stefnandi viðkomandi lögreglumann hafa lagt fyrir hann að blása í mæli til að kanna, hvort hann hefði neytt áfengis og jafnframt tilkynnt honum að væri hann ölvaður mætti hann ekki gefa skýrslu. Kvaðst stefnandi hafa blásið í mælinn og við svo búið hafi skýrslan verið tekin.
Aðspurður kvað stefnandi Ásgeir nýlega hafa flust til Bolungarvíkur, eða í október [2004], en hann hefði áður verið búsettur á Patreksfirði. Þar hafi Ásgeir verið atvinnubílstjóri, ekið sjúkrabifreið og flutningabílum.
Lára Huld Arinbjörnsdóttir, eiginkona stefnanda, gaf skýrslu fyrir rétti. Hún sagði m.a. að hún hefði ekki fundið áfengislykt af Ásgeiri umrætt sinn og sjálf kvaðst hún ekki hafa verið undir áhrifum áfengis. Ekkert hefði verið að akstrinum til Ísafjarðar er gefið gæti til kynna að Ásgeir hefði neytt áfengis fyrir aksturinn.
Maron Pétursson, lögreglumaður, gaf símleiðis skýrslu á dómþingi. Hann sagði m.a. að þegar hann kom á vettvang slyssins hafi Ásgeir virst vankaður vegna slyssins, en ljóst hafi verið að um harðan árekstur hafði verið að ræða. Ásgeir hafi alltaf verið að fá sér „tyggjó“ og kvaðst Maron hafa beðið hann að koma inn í lögreglubifreiðina. Hafi hann rætt við Ásgeir þar, en Ásgeir fengið sér „tyggjó“ og verið þvoglumæltur. Hafi hann þá tekið þá ákvörðun að láta hann blása [í áfengismæli]. Hann kvaðst þó ekki hafa fundið áfengislykt af Ásgeiri.
Maron sagði aðspurður að hálka hafi verið á veginum umrætt sinn.
Ottó Þórðarson, lögregluvarðstjóri, gaf símleiðis skýrslu á dómþingi. Hann sagði m.a. að komið hefði verið með Ásgeir af vettvangi til sín á lögreglustöðina. Kvaðst hann ekki hafa merkt að Ásgeir væri undir áhrifum áfengis fyrr en hann hóf að tala við hann. Hafi Ásgeir verið þvoglumæltur og utan við sig, sem umferðarslysið eitt hefði þó getað valdið. Ekki hafi verið áfengislykt af Ásgeiri.
Aðspurður kvaðst Ottó einnig hafa tekið skýrslu af stefnanda. Kvaðst hann ekki hafa gert það hefði stefnandi verið ölvaður.
Rúnar Óli Karlsson gaf skýrslu fyrir rétti. Lagt var fyrir Rúnar dskj. nr. 5, sem er lögregluskýrsla sem tekin var af Rúnari kvöldið sem umferðarslysið varð. Hann staðfesti að hafa tjáð við skýrslutökuna að hann hefði ekki fundið áfengislykt af manninum [Ásgeiri Hinriki Ingólfssyni], ekki greint að hann væri ölvaður og ekki merkt að hann væri „þvoglumæltur eða valtur“.
Rúnar kvaðst hafa séð álengdar þegar slysið átti sér stað. Hann hafi ásamt Eiríki Gíslasyni komið akandi suður Hnífsdalsveg í átt að Ísafirði og tekið eftir bifreið í fjarska og tekið eftir að ljós hennar vísuðu óeðlilega, fyrst upp í fjall og svo út á sjó, og greinilegt að eitthvað mikið var að, bifreiðin hafi m.ö.o. rásað til á veginum. Bifreiðin hafi að lokum runnið til vinstri, tekið niður ljósastaur og henst út af veginum.
Rúnar kvaðst hafa hringt í neyðarlínuna og látið vita af umferðarslysinu. Rúnar kvað hálku hafa verið á veginum.
Ályktunarorð: Í tryggingarskilmálum stefnda fyrir kaskótryggingu (húftryggingu) ökutækja er mælt fyrir í grein 2.8 um það að félagið bæti ekki tjón sem verða kunni á ökutæki þegar ökumaður vegna undanfarandi neyslu áfengis telst ekki geta stjórnað ökutækinu eða vera óhæfur til þess skv. ákvæðum umferðarlaga. Í 3. mgr. 45. gr. umferðalaga segir að ökumaður teljist óhæfur til að stjórna ökutæki nemi vínandamagn í blóði hans 1,20 eða meira.
Í blóðsýni sem tekið var úr Ásgeiri Hinriki, ökumanni bifreiðarinnar umrætt sinn, 12. febrúar 2005, klukkan 19:44, reyndist vínandamagn í blóði hans 1,78. Í blóðsýni sem tekið var úr Ásgeiri Hinriki sama dag, klukkan 21:15, reyndist vínandamagn í blóði hans 1,52. Í þvagsýni sem Ásgeir Hinrik lét í té sama dag, klukkan 19:50, reyndist vínandamagn í þvagi hans 2,48.
Í lögregluskýrslu, er tekin var af Ásgeiri Hinriki klukkan 19:05 umrætt kvöld, kvaðst hann hafa hafið drykkju á milli klukkan 19:00 og 20:00 kvöldið áður og lokið drykkju á milli klukkan 03:00 og 04:00 um nóttina. Haft var eftir honum að hann hefði ekki drukkið áfengi eftir að akstri lauk á ferð hans frá Ísafirði [með umferðarslysi að kvöldi 12. febrúar 2005].
Af framangreindu verður ráðið að Ásgeir Hinrik hafi við akstur umrætt sinn verið óhæfur til að stjórna ökutæki samkvæmt 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga. Þykja ákvæði 18. gr., sbr. 20. gr. laga nr. 20/1954, ekki standa í vegi ákvæða greinar 2.8 gr. í tryggingarskilmálum stefnda fyrir kaskótryggingu. Verður að líta svo á að stefndi hafi með vátryggingarskilmálunum undanskilið sig ábyrgð með lögmætum hætti til fébótagreiðslu á grundvelli kaskótryggingar stefnanda hjá stefnda á bifreiðinni SR-973, vegna altjóns bifreiðarinnar SR-973 í umferðarslysi 12. febrúar 2005, er bifreiðin fór út af veginum um Eyrarhlíð.
Samkvæmt framansögðu ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu, en eftir atvikum er rétt að málskostnaður falli niður.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Þorleifs Ingólfssonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.