Hæstiréttur íslands

Mál nr. 253/2001


Lykilorð

  • Hjón
  • Fjárskipti
  • Lífeyrisréttindi


Þriðjudaginn 18

 

Þriðjudaginn 18. desember 2001.

Nr. 253/2001.

Kristín J. H. Green

(Magnús Guðlaugsson hrl.)

gegn

Þorgrími A. Guðmannssyni

(Atli Gíslason hrl.)

 

Hjón. Fjárskipti. Lífeyrisréttindi.

K og Þ höfðu verið tæp 34 ár í hjúskap, er þau slitu samvistir. K, sem ekki hafði unnið utan heimilis, krafðist þess að fá andvirði helmings lífeyrissjóðseignar Þ í sinn hlut með vísan til 2. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. K og Þ höfðu ekki gert með sér samkomulag um skiptingu lífeyrisgreiðslna, svo sem þeim var heimilt samkvæmt 3. mgr. 14. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Að kröfu Þ voru réttindin ekki dregin undir skiptin, sbr. 2. tl. 1. mgr. 102. gr. laga nr. 31/1993, þar sem ekki þótti hafa verið sýnt fram á, að ósanngjarnt væri að halda þeim utan skipta, sbr. 2. mgr. 102. gr. laganna. Samkvæmt þessu var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu Þ.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 3. júlí 2001. Hún krefst þess aðallega, að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.471.579 krónur „með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. júlí 1998 til dómsuppsögudags“  en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst áfrýjandi annarrar og lægri fjárhæðar, sem dæmd verði að álitum með sömu vöxtum og í aðalkröfu. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

I.

Aðilar máls þessa gengu í hjónaband 6. september 1964 og höfðu verið tæp 34 ár í hjúskap, er þau slitu samvistir 14. júlí 1998, en lögskilnaðarleyfi milli þeirra var gefið út 21. janúar 1999. Áfrýjandi, sem fædd er 1943 og er 75% öryrki, vann ekki utan heimilis en annaðist það og uppeldi tveggja dætra þeirra hjóna. Stefndi, sem fæddur er 1930, vann  verka- og vélamannavinnu hjá Vegagerð ríkisins og greiddi sem almennur launþegi í Lífeyrissjóðinn Framsýn 4% af tekjum sínum og naut 6% mótframlaga launagreiðanda. Samkvæmt skilnaðarsamningi aðila var hjúskapareignum þeirra skipt til helminga milli þeirra.  Ágreiningur er um lífeyrisréttindi stefnda. Áfrýjandi krefst þess að fá andvirði helmings lífeyrissjóðsinneignar stefnda í sinn hlut með vísan til 2. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, en stefndi krefst þess, að lífeyrisréttindin verði ekki dregin undir skiptin á grundvelli 2. tl. 1. mgr. 102. gr. sömu laga.

II.

Samkvæmt 54. gr. laga nr. 31/1993 verður eign maka hjúskapareign hans og skiptist til helminga milli maka við slit hjúskapar, sbr. 103. gr. laganna.  Í 57. gr. er fjallað um persónubundin réttindi og kveðið á um það, að reglur um hjúskapareignir eigi við um þau réttindi að svo miklu leyti sem þær koma ekki í bága við sérreglur þær, sem um réttindin gilda, enda séu þau ekki séreign. Um fjárskipti þessara réttinda segir í 1. mgr. 102. gr. laganna, að maki geti krafist þess, að tiltekin verðmæti komi ekki undir skiptin, þar með talin réttindi í opinberum lífeyrissjóðum eða einkalífeyrissjóðum, sbr. 2. tl. ákvæðisins. Í 2. mgr. 102. gr. segir síðan, að þyki ósanngjarnt gagnvart hinum makanum að réttindum sé haldið utan skipta, sé heimilt að bæta honum það með fjárgreiðslum, sem eftir atvikum megi inna af hendi með nánar greindum afborgunum.

Lífeyrisréttindi eru persónubundin réttindi, sem ætluð eru til framfærslu sjóðfélaga. Lífeyrissjóðurinn Framsýn er samtryggingarsjóður og segir í grein 2.2 reglugerðar nr. 388/1998 fyrir sjóðinn, sem í gildi var á þeim tíma sem fjárskipti aðila eru miðuð við, 14. júlí 1998, sbr. nú grein 2.2 í samþykktum fyrir lífeyrissjóðinn, að sjóðurinn starfi samkvæmt lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Samkvæmt 3. mgr. 14. gr. þeirra laga getur sjóðfélagi og maki eða fyrrverandi maki hans gert með sér gagnkvæmt samkomulag um skiptingu ellilífeyrisgreiðslna. Slíkt samkomulag liggur ekki fyrir milli aðila þessa máls, og falla réttindin því utan skipta samkvæmt kröfu stefnda, sbr. 2. tl. 1. mgr. 102. gr. laga nr. 31/1993, verði það ekki talið ósanngjarnt gagnvart áfrýjanda, sbr. 2. mgr.

III.

Áfrýjandi byggir bæði aðalkröfu sína og varakröfu á því, að það sé ósanngjarnt að halda lífeyrisréttindum stefnda utan skipta, þar sem hún hafi jafnt og hann unnið að uppbyggingu inneignar hans í lífeyrissjóðnum með vinnu sinni á sameiginlegu heimili þeirra. Sé því óréttlátt, að stefndi einn fái að njóta framfærslu af inneigninni.

Stefndi hætti vinnu er hann varð sjötugur haustið 2000. Tekjur hans í dag eru ellilífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrisgreiðslur úr Lífeyrissjóðnum Framsýn, en þær leiða til þess, að hann nýtur ekki fullrar tekjutryggingar ellilífeyris. Samkvæmt gögnum, sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt, nema þessar greiðslur samtals 91.924 krónum á mánuði eftir skatta. Tekjur áfrýjanda eru örorkulífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins, sem að hennar sögn nemur um 74.000 krónum á mánuði. Báðir aðilar búa í eigin íbúðum, en eins og að framan er lýst fóru fram jöfn skipti á eignum þeirra við skilnaðinn. Við mat á því, hvort halda skuli lífeyrisréttindum utan skipta, sbr. 2. mgr. 102. gr. laga nr. 31/1993, verður að líta heildstætt á allar aðstæður aðila, eins og þær eru í raun. Í athugasemdum, sem fylgdu 2. mgr. 102. gr. frumvarps að lögunum er tekið fram, að í einstaka tilviki kunni að reynast ósanngjarnt að halda persónubundnum réttindum utan skipta. Verður að telja, að sérstakar aðstæður þurfi að vera fyrir hendi til þess, að þau komi undir skiptin. Þótt tekið sé undir það með héraðsdómi, að hlutur áfrýjanda í myndun lífeyrisréttinda stefnda hafi verið umtalsverður, þykir þó ekki, eins og þar greinir, hafa verið sýnt fram á, að það sé ósanngjarnt að halda þeim utan skipta. Samkvæmt þessu verður héraðsdómur staðfestur.

Rétt þykir að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður. Gjafsóknarkostnaður aðila greiðist úr ríkissjóði svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Kristínar J. H. Green, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 250.000 krónur.

Gjafsóknarkostnaður stefnda, Þorgríms A. Guðmannssonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 250.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. apríl 2001.

I

Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum málflutningi 14. mars 2001, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Kristínu H. J. Green, kt. 220443-4699, Hraunbæ 102, Reykjavík, á hendur Þorgrími A. Guðmannssyni, kt. 060930-4739, Hraunbæ 108, Reykjavík, með stefnu birtri 23. júní 2000.

Stefnandi gerir þær dómkröfur aðallega að stefnda verði gert að greiða sér hlutdeild í reiknaðri inneign stefnda í Lífeyrissjóðnum Framsýn við skilnað þeirra, að fjárhæð kr. 1.471.579 með vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 14. júlí 1998 til dómsuppsögu en með dráttarvöxtum frá dómsuppsögu til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi þess að dæmt verði að vextir leggist við höfuðstól 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxta samkvæmt 12. gr. vaxtalaga nr. 25/1987.

Til vara krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða sér aðra fjárhæð að áliti dómsins.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar að mati dómsins, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun, eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.

Stefndi gerir þær dómkröfur að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.  Þá krefst stefndi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda samkvæmt málskostnaðarreikningi auk virðisaukaskatts á málskostnað.

 

II

 

Aðilar málsins gengu í hjúskap 6. september 1964.  Með leyfisbréfi dagsettu 21. janúar 1999 var þeim veitt leyfi til lögskilnaðar en samvistarslit urðu þann 14. júlí 1998 og eru fjárskipti aðila miðuð við það tímamark í samningi þeirra um skilnaðarkjör.

Á meðan á hjúskap aðila stóð vann stefnandi heima við og sá um rekstur heimilis þeirra ásamt uppeldi tveggja dætra þeirra en stefndi vann utan heimilis, lengst af sem bílstjóri hjá Vegagerð ríkisins og síðan við almenna verka- og vélamannavinnu hjá Vegagerðinni.  Sem almennur launþegi greiddi stefndi í lífeyrissjóð en stefnandi átti þess hins vegar ekki kost að leggja fyrir í slíkan sjóð þar sem hún vann ekkert utan heimilis meðan á hjúskapnum stóð.

Þegar aðilar voru sammála um að leita skilnaðar, fór stefnandi fram á það við stefnda að hún nyti helmings af lífeyrissjóðsinneign stefnda en stefndi hafnaði kröfunni.

Við frágang á samningi um skilnaðarkjör voru aðilar sammála um að bera ágreining um innistæðu stefnda í lífeyrissjóði undir Héraðsdóm Reykjavíkur.  Stefnandi fékk gjafsóknarleyfi frá dómsmálaráðherra 2. júní 1999.

 

III

 

Stefnandi byggir aðalkröfu sína á því að hún eigi rétt til helmings inneignar stefnda í lífeyrissjóði vegna réttinda sem stefndi ávann sér meðan á hjúskap aðila stóð.  Hún hafi séð um rekstur sameiginlegs heimilis þeirra og því hafi stefndi getað einbeitt sér að því að starfa á hinum almenna vinnumarkaði og þar af leiðandi hefði hann notið allra þeirra launakjara, sem almennt gerist og gengur meðal almennra launamanna, þ.m.t. að safna upp inneign í lífeyrissjóð.

Miða beri við helmingaskipti á þeim verðmætum sem falin séu í inneign stefnda í lífeyrissjóði sbr. helmingaskiptareglu hjúskaparlaga nr. 31/1993 og því eigi stefnandi að njóta helmingshlutdeildar í inneigninni og beri stefnda að greiða henni þá fjárhæð.  Krefjist stefnandi að viðurkennt verði með dómi að henni beri fjárveðmæti helmings inneignar stefnda í lífeyrissjóði og sé sú krafa sett fram með vísan til 2. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga þar sem segi að heimilt sé að bæta aðila með fjárgreiðslum verðmæti eða réttindi sem þyki ósanngjarnt að halda utan skipta. 

Það væri ótvírætt ósanngjarnt ef inneign stefnda í lífeyrissjóði væri haldið utan skipta enda væru þá aðstæður málsaðila eftir fjárskipti verulega mismunandi þannig að bersýnilega hallaði á stefnanda.  Stefnandi krefjist þess að fá að njóta helmings hlutdeildar stefnda í lífeyrissjóðsinneign hans og að það sé sú réttmæta greiðsla sem stefnanda beri en hún eigi ekki að þurfa að sætta sig við að stefnda verði gert að greiða einhverja lægri fjárhæð.

Líta verði til hins langa hjúskapar aðila og þess að stefnandi eigi eftir hjúskapinn enga inneign í lífeyrissjóði.  Ótvírætt verði að telja ósanngjarnt gagnvart stefnanda ef stefnda væri heimilt að halda verðmætunum utan skipta þar sem stefnandi hefði skapað með vinnu sinni innan heimilis skilyrði fyrir stefnda til vinnu hans úti á hinum almenna vinnumarkaði.

Stefnufjárhæð aðalkröfu, kr. 1.471.579, sé helmingur inneignar stefnda í lífeyrissjóði, sem hann vann sér inn meðan á hjúskapi aðila stóð.  Alls hafi inneignin numið kr. 2.943.158 þegar samvistarslit urðu, sem var viðmiðunarmark í skiptingu eigna og skulda.  Fjárhæðin sé reiknuð út miðað við svo kölluð viðmiðunarlaun, þ.e.a.s. kauptaxti reiknar út stig í lífeyrissjóðsinneign.  Taxti þessi hafi verið kr. 51.845 þann 1. júlí 1998 en fjárhæð inneignar stefnda hjá Lífeyrissjóðnum Framsýn hafi við fjárslit numið kr. 51.845x12/10 en samkvæmt því sé kauptaxtinn kr. 62.214.  Áunnin stig á viðmiðunardegi hafi verið 47,307 stig og inneign stefnda því numið samtals 47,307x62.214 = 2.943.158 og því geri stefnandi tilkall til kr. 1.471.579 á grundvelli 2. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.

Varðandi varakröfu krefst stefnandi þess að fjárhæð sú, sem dómurinn ákveði, nemi fjárgreiðslu sem gera myndi málsaðila hliðsetta í fjárhagslegu tilliti vegna skilnaðar þeirra með tilliti til 2. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga.

Um lagarök vísi stefnandi til ákvæða hjúskaparlaga nr. 31/1993, sérstaklega 102. gr. og meginreglu laganna um helmingaskipti.  Um vexti sé vísað til vaxtalaga nr. 25/1987 og um málskostnað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Krafa um virðisaukaskatt sé reist á lögum nr. 50/1988 en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og sé honum því nauðsyn að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefnda.  Um varnarþing vísist til 32. gr. laga nr. 91/1991.

 

Stefndi kveðst byggja sýknukröfu sína á því að áunnin lífeyrisréttindi stefnda séu persónubundin réttindi, sem borið hafi að halda utan við fjárskipti aðila við skilnað þeirra að kröfu stefnda, sbr. meiginreglu 2. tl. 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.  Samkvæmt 54. gr. laganna sé gert ráð fyrir að eignir hjóna séu hjúskapareignir nema sérstakar heimildir standi til annars.  Sé þar átt við meðal annars persónuleg réttindi að svo miklu leyti sem það brjóti ekki í bága við þær sérreglur, sem um þau réttindi gildi, sbr. 57. gr. laganna.  Um fjárskipti þessara réttinda séu ákvæði í 102. gr. laganna og þar taldar þær hjúskapareignir sem geti fallið utan skipta að kröfu maka.  Samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 102. gr. falli áunnin lífeyrisréttindi utan skipta að kröfu þess sem unnið hafi til réttindanna. 

Frumvarp til breytinga á 2. tl. 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga í þá veru að áunnin lífeyrisréttindi kæmu til skipta sem hjúskapareignir við skilnað hjóna hafi alloft verið lagt fyrir Alþingi en aldrei náð fram að ganga.

Í lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða sé gert ráð fyrir því  í 1. tl. 3. mgr. 14. gr. að sjóðsfélagi og maki geti gert með sér gagnkvæmt samkomulag um skiptingu ellilífeyrisréttinda.  Í athugasemdum með ákvæðinu komi fram að slíkt samkomulag skuli ná til beggja aðila og fela í sér gagnkvæma og jafna skiptingu þeirra réttinda sem makarnir hafa áunnið sér á þeim tíma sem hjúskapur hafi staðið.  Ljóst sé að gagnkvæmt samkomulag hjóna þurfi að vera til staðar til að unnt sé að skipta ellilífeyrisréttindum milli hjóna. 

Stefndi sé sjóðfélagi í Lífeyrissjóðnum Framsýn og falli starfsemi sjóðsins undir lög nr. 129/1997.  Í grein 11.1. í samþykktum sjóðsins sé kveðið á um að hver sjófélagi, sem náð hafi 67 ára aldri, eigi rétt á ellilífeyri úr sjóðnum.  Samkvæmt grein 11.6. geti sjóðfélagi, á grundvelli samkomulags sjóðfélaga og maka hans, ákveðið að verðmæti uppsafnaðra ellilífeyrisréttinda hans skuli að hálfu renna til að mynda sjálfstæð ellilífeyrisréttindi fyrir maka hans eða fyrrverandi maka.  Meginreglan sé því að samkomulag hjóna þurfi til skiptingar ellilífeyrisréttinda sjóðfélaga og sé þetta í fullu samræmi við áðurnefndar meginreglur 1. tl. 3. mgr. 14. gr. laga nr. 129/1997 og 2. tl. 1. mgr. 102. gr. laga nr. 31/1993.

Verði hins vegar fallist á kröfu stefnanda um greiðslur krefjist stefndi þess að sú fjárhæð verði mun lægri en samkvæmt dómkröfu stefnanda. Greiðslur úr samtryggingarsjóði séu óvísar þar eð þær falli niður við andlát stefnda og séu miðaðar við ákveðnar lífslíkur en ellilífeyrisgreiðslurnar séu einu tekjur stefnda. 

Inneignamyndun stefnda sé einungis að 40 hundraðshlutum af afdregnum tekjum hans en 60 hundraðshlutar séu vegna framlags atvinnurekanda.  Þá beri að taka tillit til þess að stefnandi sé yngri en stefnandi og aflahæfi hennar því betra auk þess sem hún eigi eignir og þiggi bætur sem nægi til framfærslu. 

Um lagarök vísi stefndi til ákvæða hjúskaparlaga nr. 31/1993, einkum 57. gr. sbr. 54. gr. og 2.  tl. 1. mgr. 102. gr., laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997, einkum 3. mgr. 14. gr., svo og almennra reglna kröfuréttarins.

Kröfu um málskostnað byggi stefndi á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og kröfu um virðisaukaskatt á lögum nr. 50/1988 en stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur og honum sé því nauðsyn að fá dæmdan virðisaukaskatt á dæmdan málskostnað.

 

IV

 

Í VIII. kafla hjúskaparlaga nr. 31/1993 er fjallað um eignir hjóna.  Í 54. gr. kemur fram meginreglan um að eign maka verði hjúskapareign nema sérstakar heimildir standi til annars.  Samkvæmt 57. gr. eiga reglurnar um hjúskapareignir við um réttindi sem eigi má afhenda eða eru að öðru leyti persónulegs eðlis að svo miklu leyti sem þær koma ekki í bága við sérreglur þær sem um þau réttindi gilda, enda séu þessi réttindi ekki séreign samkvæmt lögum þessum eða öðrum lagaákvæðum.  Síðan segir að um fjárskipti varðandi þessi réttindi segi í 102. gr. laganna sem fjallar um verðmæti sem geta fallið utan skipta.  Þar kemur m.a. fram að maki geti krafist þess að réttindi í opinberum lífeyrissjóðum eða einkalífeyrissjóðum komi ekki undir fjárskipti við skilnað. 

Í 13. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997 kemur fram að með iðgjaldagreiðslum til öflunar lífeyrisréttinda í sameign ávinni sjóðfélagi sér og maka sínum og börnum rétt til ellilífeyris, örorkulífeyris og maka- og barnalífeyris.  Hlutverk lífeyrissjóða er þannig að tryggja mönnum lífeyri ef vinnutekjur bregðast vegna elli, örorku eða fráfalls fyrirvinnu og framfæranda barna. 

Samkvæmt 1. tl. 3. mgr. 14. gr. laga nr. 129/1997 getur ellilífeyrisþegi og maki eða fyrrverandi maki hans samið svo um að ellilífeyrisgreiðslur skuli að hálfu renna til fyrrverandi makans en þær greiðslur falla niður við andlát ellilífeyrisþegans.  Ákvæði greinar 11.6. í samþykktum Lífeyrissjóðsins Framsýnar, þar sem stefndi er sjóðfélagi, ganga í sömu átt þar sem segir að á grundvelli samkomulags sjóðfélaga og maka hans geti sjóðfélagi ákveðið að verðmæti uppsafnaðra ellilífeyrisréttinda skuli allt að hálfu renna til að mynda sjálfstæð ellilífeyrisréttindi fyrir maka eða fyrrverandi maka.  Hér kemur fram sú meginregla að það þurfi samninga sjóðfélaga og maka eða fyrrverandi maka hans svo unnt sé að skipta ellilífeyrisréttindum sjóðfélaga.  Er sú niðurstaða einnig í samræmi við áðurnefndar reglur hjúskaparlaga. Lífeyrisréttindi þau, sem hér er deilt um, eru verðmæti sem falla utan skipta samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 102. gr. laga nr. 31/1993, enda liggur ekki fyrir samkomulag aðila um ráðstöfun þeirra í þágu stefnanda á grundvelli 1.-3. tl. 3. mgr. 14. gr. laga nr. 129/1997. Að þessu virtu ber að hafna aðalkröfu stefnanda.

Kemur þá til álita varakrafa stefnanda sem byggir á sanngirnissjónarmiðum 2. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga.  Hjúskapur málsaðila stóð í tæp 35 ár og eignuðust þau saman tvær dætur.  Samkvæmt skilnaðarsamningi aðila, sem þau undirrituðu í nóvember 1998, var eignum búsins skipt þannig að í hlut stefnanda komu kr. 3.056.854 en í hlut stefnda komu kr. 3.350.833 en til jöfnunar á búshlut aðila og endanlegs uppgjörs á búi þeirra varð samkomulag um að stefndi greiddi stefnanda kr. 146.990 við undirritun samningsins.  Búið var skuldlaust við samningsgerðina.  Verður að telja fjárskipti aðila jöfn í ljósi þessa. 

Meðan á hjúskap aðila stóð var stefnandi heimavinnandi en stefndi var starfsmaður Vegagerðarinnar. Í skýrslu stefnda fyrir dómi kom fram að hann hefði lengstum verið lítið heima og heimilishaldið hvílt að mestu leyti á stefnanda þótt móðir stefnanda hefði búið í sama húsi og létt undir með henni.  Stefndi greiddi af launum sínum í Lífeyrissjóðinn Framsýn nánast allan hjúskapartímann en stefnandi eignaðist engin lífeyrisréttindi.  Fram kom við skýrslutökur að stefnandi fær nú greiddar örorkubætur vegna ótímabundinnar 75% örorku rúmar 70.000 kr. á mánuði en í skýrslu stefnda kom fram að hann hefði látið af störfum um mánaðamótin september-október 2000 og nyti nú lögbundins ellilífeyris og greiðslna úr Lífeyrissjóðnum Framsýn að fjárhæð um kr. 56.000. 

Fallast verður á það með stefnanda að hlutur hennar í myndun lífeyrisréttinda stefnda hafi verið talsverður með vinnu hennar á heimili aðila í rúmlega þrjátíu ára hjúskap þeirra.  Þegar litið er til framagreinds skilnaðarsamnings aðila og stöðu þeirra nú verður þó ekki talið að það sé ósanngjarnt í skilningi framangreindrar 102. gr. hjúskaparlaga að halda lífeyrisréttindum stefnda utan skipta.  Er því ekki fallist á varakröfu stefnda.

Eftir framansögðu er stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

Þrátt fyrir niðurstöðu málsins þykir rétt, eins og mál þetta er vaxið, að hvor aðili beri sinn kostnað af málarekstri þessum.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda kr. 300.000 greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun lögmanns hennar, Lúðvíks Arnar Steinarssonar hdl., kr. 300.000 og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts af lögmannsþóknun.

Arnfríður Einarsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Þorgrímur A. Guðmannsson, er sýkn af öllum kröfum stefnanda, Kristínar J. H. Green.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar á meðal laun lögmanns hennar, Lúðvíks Arnar Steinarssonar hdl., kr. 300.000.