Hæstiréttur íslands
Mál nr. 345/2012
Lykilorð
- Líkamsárás
|
|
Fimmtudaginn 25. október 2012. |
|
Nr. 345/2012. |
Ákæruvaldið (Hulda Elsa
Björgvinsdóttir saksóknari) gegn Friðriki Guðmundssyni (Erlendur Þór
Gunnarsson hrl.) |
Líkamsárás.
F var sakfelldur fyrir líkamsárás
samkvæmt 1.mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa slegið A einu
hnefahöggi í andlitið með þeim afleiðingum að hann nefbrotnaði. Við ákvörðun
refsingar var litið til þess að A hafði í aðdraganda brotsins ögrað F og var
refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga, en fullnustu refsingarinnar
var frestað skilorðsbundið. Þá var F gert að greiða A miskabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir
Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 12. desember
2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess
krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að honum
verði ekki gerð refsing en til vara að hún verði milduð. Þá krefst hann þess
aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, til vara sýknu af
kröfunni, en að því frágengnu að fjárhæð hennar verði lækkuð.
A hefur ekki látið málið til sín taka
fyrir Hæstarétti. Verður því litið svo á að hann krefjist þess að staðfest
verði ákvæði hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfu sína, sbr. 1. mgr. 208 gr.
laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Svo sem greinir í hinum áfrýjaða dómi
hefur ákærði játað að hafa slegið brotaþola einu hnefahöggi í andlitið með þeim
afleiðingum að hann nefbrotnaði. Er háttsemi ákærða réttilega heimfærð til 1.
mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Af hálfu ákæruvaldsins er
ekki vefengt að brotaþoli hafi í aðdraganda brotsins ögrað ákærða með því að
greina honum með grófum og niðrandi hætti frá nánum kynnum sem brotaþoli kvaðst
hafa haft af fyrrverandi unnustu ákærða. Að því gættu verður fallist á með
héraðsdómi að við ákvörðun refsingar megi líta til 3. mgr. 218. gr. b. almennra
hegningarlaga. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins
áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað
málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem
ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Friðrik Guðmundsson, greiði allan
áfrýjunarkostnað málsins, samtals 238.129 krónur, þar með talin málsvarnarlaun
verjanda síns, Erlendar Þórs Gunnarssonar hæstaréttarlögmanns, 225.900 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. október 2011
Málið
er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 16. ágúst
2011, á hendur:
,,Friðriki
Guðmundssyni, kt. [...],
[...],
Kópavogi,
fyrir
líkamsárás, með því að hafa, aðfaranótt miðvikudagsins 28. júlí 2010, utandyra
við skemmtistaðinn Bakkus við Tryggvagötu 22, Reykjavík, ráðist að A, kt. [...], og slegið hann einu hnefahöggi í nef, með þeim
afleiðingum að hann hlaut nefbrot og skekkju á nefbrjóski.
Telst þetta
varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr.
laga nr. 20/1981.
Þess er
krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls
sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa:
Þá gerir
Óðinn Elísson, hrl., f.h. A, kt. [...], kröfu um að
ákærði verði dæmdur til greiðslu skaða- og miskabóta samtals að fjárhæð kr.
704.591, með vöxtum skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá
28. júlí 2010, en síðan með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr.,
sömu laga, frá þeim tíma er sakborningi var kynnt krafan til greiðsludags.
Einnig er þess krafist af brotaþola að ákærða verði gert að greiða málskostnað
brotaþola að skaðlausu, samkvæmt síðar framlögðum reikningi, að viðbættum
virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.“
Undir
málsmeðferðinni féll ákæruvaldið frá orðalaginu ráðist að í ákærunni og
eftir stendur að ákærða er gefið að sök að hafa slegið A eitt hnefahögg í nef.
Verjandi
ákærða krefst vægustu refsingar sem lög leyfa. Aðallega er krafist sýknu af
skaðabótakröfu, utan kröfuliðinn um útlagðan kostnað sem ákærði samþykkir. Til
vara er krafist lækkunar á skaðabótakröfu.
Eftir
breytingu á ákærunni sem rakin var er sannað með skýlausri játningu ákærða
fyrir dómi og með öðrum gögnum málsins að hann hafi gerst sekur brot það sem
hann er ákærður fyrir og er brotið rétt fært til refsiákvæðis í ákærunni.
Skírskotað
er til ákærunnar um lýsingu málavaxta.
Ákærði
hefur ekki áður gerst brotlegur við almenn hegningarlög. Hann hefur játað brot
sitt hreinskilnislega og er það virt til refsilækkunar. Ákærði lýsti áreiti sem
hann varð fyrir af hálfu A á þeim tíma sem í ákæru greinir. Þá hafi A viðhaft
niðrandi ummæli um fyrrum unnustu ákærða. Ákærði reyndi árangurslaust að komast
frá A en að því kom að hann sló A eitt högg eins og lýst er í ákærunni. Er
litið til þessa við refsiákvörðun sbr. 3. mgr. 218. gr. b i.f. almennra
hegningarlaga. Að þessu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákvörðuð fangelsi í
30 daga en rétt þykir að fresta fullnustu refsingarinnar eins og í dómsorði
greinir.
Bótakrafa A
er þannig saman sett: Miskabætur 250.000 krónur, bætur vegna útlagðs kostnaðar
54.591 króna og 400.000 krónur vegna kostnaðar vegna aðgerðar á nefi. Síðasta
kröfuliðnum er andmælt en hann er byggður á áætluðum kostnaði. Þessi kröfuliður
er ódómtækur og er honum vísað fræá dómi.
Ákærði
hefur samþykkt kröfuliðinn vegna útlagðs kostnaðar og er hann dæmdur til að
greiða þá fjárhæð.
A á rétt á
miskabótum úr hendi ákærða á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og þykja
bæturnar hæfilega ákvarðaðar 200.000 krónur. Ákærði er þannig dæmdur til að
greiða A 254.591 krónu auk vaxta eins og í dómsorði greinir en dráttarvextir
reiknast frá 3. mars 2011 til greiðsludags. Auk ofanritaðs greiði ákærði Agnari
Þór Guðmundssyni héraðsdómslögmanni, skipuðum réttargæslumanni A, 87.850 krónur
í réttargæsluþóknun.
Ákærði
greiði Arnari Kormáki Friðrikssyni héraðsdómslögmanni 125.500 króna
málsvarnarlaun. Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun
þóknunar lögmanna.
Katrín Ólöf
Einarsdóttir, fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík, flutti málið fyrir
ákæruvaldið.
Guðjón St.
Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærði,
Friðrik Guðmundsson, sæti fangelsi í 30 daga en fresta skal fullnustu
refsingarinnar skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og falli
refsingin niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr.
almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði
greiði A 254.591 krónu í skaða- og miskabætur auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og
verðtryggingu nr. 38/2001 frá 28. júlí 2010, en síðan með dráttarvöxtum skv. 9.
gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga frá 3. mars 2011 til greiðsludags.
Ákærði
greiði Agnari Þór Guðmundssyni héraðsdómslögmanni 87.850 krónur í
réttargæsluþóknun.
Ákærði
greiði Arnari Kormáki Friðrikssyni héraðsdómslögmanni 125.500 króna
málsvarnarlaun. Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun
þóknunar lögmanna.