Hæstiréttur íslands
Mál nr. 21/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Nálgunarbann
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. janúar 2017 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. janúar 2017 þar sem staðfest var ákvörðun sóknaraðila 4. sama mánaðar um að varnaraðili skuli sæta nánar tilgreindu nálgunarbanni og brottvísun af heimili. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að nálgunarbann verði afmarkað við heimili brotaþola. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Fallist er á það með héraðsdómi að fullnægt sé skilyrðum a. liðar 4. gr. og a. liðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 85/2011 til að varnaraðila verði gert að sæta nálgunarbanni og brottvísun af heimili. Ekki eru hins vegar efni til að nálgunarbannið taki til heimilis foreldra brotaþola. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur á þann veg sem greinir í dómsorði.
Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.
Dómsorð:
Staðfest er ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 4. janúar 2017 um að varnaraðili, X, sæti nálgunarbanni og brottvísun af heimili í fjórar vikur þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili sitt og brotaþola, A, að [...] í [...], sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið. Jafnframt er lagt bann við því að varnaraðili veiti brotaþola eftirför, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana með öðrum hætti.
Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, Bjarna Haukssonar hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. janúar 2017.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti ákvörðun lögreglustjóra frá 4. janúar 2017 þess efnis að X, kt. [...], skuli sæta nálgunarbanni og brottvísun af heimili skv. a- og b-lið 4. gr. og a- og b-lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, í 4 vikur þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili hans og A, kt. [...], að [...] í [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið og á eða í námunda við heimili foreldra hennar að [...] og [...] í [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilin. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti A eftirför, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana með öðrum hætti.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá lögreglu liggi X nú undir sterkum grun um að hafa þann 3. janúar sl. veist að A á heimili þeirra að [...] í [...], meinað henni útgöngu úr íbúðinni og er hún hugðist yfirgefa íbúðina með 3 mánaða gamla dóttur þeirra í fanginu, tekið um mitti hennar og kastað henni og barninu í rúmið. Þá hafi hann öskrað og kastað til hlutum í íbúðinni og m.a. brotið sjónvarpið. Hann hafi einnig lagst yfir hana og barnið þar sem hún lá með það í rúminu. Um hálftíma síðar hafi hún náð að komast út úr íbúðinni og hlaupa í bakarí sem sé þar skammt frá og kalla eftir aðstoð lögreglu.
Lögreglustjóri byggi ákvörðun sína um nálgunarbann og brottvísun af heimili á því að X sé nú sterklega grunaður um refsiverða háttsemi þann 3. janúar sl. að [...] í [...] líkt og fyrr greini, en fram kemur að ætluð háttsemi sé talin varða við en 217. gr., 226. gr. og 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Einnig liggi til grundvallar ákvörðunar lögreglustjóra neðangreint mál úr kerfi lögreglunnar sem og dómur héraðsdóms Reykjavíkur frá [...] í máli nr. S-[...]/[...].
Mál lögreglu nr. 007-2016-[...]– frá 1. mars 2016
Þann 1. mars sl., hafi verið óskað eftir aðstoð lögreglu að [...] í [...] en þar hefði X hrint A, sem þá hafi verið barnshafandi, í rúm í íbúðinni og fleygt til og skemmt innanstokksmuni. Kvaðst hún einnig hafa fengið högg á vinstri vanga frá X.
Dómur héraðsdóms Reykjavíkur frá [...] í máli nr. S-[...]/[...]
Þann [...] hafi X verið dæmdur í 8 mánaða fangelsi, skilorðsbundið til 3 ára fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás gagnvart föður sínum. Hafi brotið verið heimfært undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Í ljósi ofangreinds telji lögreglustjóri að skilyrði 4. og 5. gr. laga nr. 85/2011 séu uppfyllt og þegar litið sé til fyrri sögu þá sé talin hætta á að hann muni halda háttsemi sinni áfram sé hann látinn afskiptalaus. Liggi fyrir rökstuddur grunur um að X hafi brotið gegn A með líkamlegu ofbeldi og að hætta sé á því að hann haldi áfram að raska friði hennar njóti hann fulls athafnafrelsis. Sé ekki talið sennilegt að friðhelgi hennar verði vernduð með öðrum og vægari hætti eins og sakir standi.
Með vísan til framangreinds og framlagðra gagna sé það mat lögreglustjóra að skilyrði 4. og 5. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili séu uppfyllt og ítrekað að krafan nái fram að ganga eins og hún sé sett fram.
Niðurstaða:
Í ljósi framlagðra gagna og þess sem rakið er í kröfugerð lögreglustjóra, sem og ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðisins, er á það fallist að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um að hafa beitt eiginkonu sína líkamlegu ofbeldi á heimili þeirra þann 3. janúar sl. Brotið er talið varða við 217. gr., 226. gr. og 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Fram kemur í kröfu lögreglu að varnaraðili eigu sögu um ofbeldisbrot og þá kemur fram að brotaþoli hafi þann 1. mars 2016 óskað eftir aðstoð lögreglu vegna þess að varnaraðili hafi þá hrint brotaþola sem var barnshafandi og slegið hana á vangann. Skilyrðum a-liðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 85/2011, um nálgunarbann og brottvísun af heimili, sem og a-liðar 4. gr. sömu laga, er því fullnægt. Þrátt fyrir að brotaþoli hafi ekki lagt fram kæru vegna framangreindrar háttsemi er krafa hennar um nálgunarbann og brottvísun af heimili skýr. Til að tryggja hagsmuni brotaþola þykir nauðsynlegt að varnaraðili sæti í senn nálgunarbanni og brottvísun af heimili sínu, en ekki þykir sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti. Þá telur dómurinn að meðalhófs sé gætt varðandi tímalengd og brotaþola gert kleift að endurskoða hagi sína en réttargæslumaður brotaþola gerði grein fyrir því að brotaþoli væri að undirbúa flutning í annað húsnæði. Í þessu ljósi verður ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 4. janúar sl. staðfest.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Bjarna Haukssonar hrl., 200.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011. Þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Arnars Kormáks Friðrikssonar hdl., 200.000 krónur greiðist einnig úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 48. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.
Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Staðfest er ákvörðun lögreglustjóra frá 4. janúar 2017 þess efnis að X, kt. [...], sæti nálgunarbanni og brottvísun af heimili skv. a. og b. lið 4. gr. og a. og b. lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, í fjórar vikur þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili hans og A, kt. [...], að [...] í [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið og á eða í námunda við heimili foreldra hennar að [...] og [...] í Reykjavík, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilin. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti A eftirför, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana með öðrum hætti.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Bjarna Haukssonar hrl., 200.000 krónur, og réttargæslumanns brotaþola, Arnars Kormáks Friðrikssonar hdl., 200.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.