Hæstiréttur íslands

Mál nr. 529/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarvistun


Fimmtudaginn 17

 

Fimmtudaginn 17. september 2009.

Nr. 529/2009.

A

(Erlendur Þór Gunnarsson hdl.)

gegn

B

(enginn)

 

Kærumál. Nauðungarvistun.

Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að hafna kröfu A, um að fella niður nauðungarvistun á sjúkrahúsi, sem ákveðin var af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 6. september 2009. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. september 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. september 2009, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði niður nauðungarvistun hans á sjúkrahúsi, sem samþykkt var af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 6. september 2009. Kæruheimild er í 4. mgr. 31. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind ákvörðun um nauðungarvistun verði felld úr gildi og kærumálskostnaður lagður á ríkissjóð.

Varnaraðili lætur ekki málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 4. mgr. 31. gr., sbr. 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Erlends Þórs Gunnarssonar héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 100.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. september 2009.

Með beiðni, dagsettri 6. september sl., hefur A, kt. [...], [...], Seltjarnarnesi, krafist þess að fellt verði úr gildi samþykki dómsmálaráðuneytisins, veitt sama dag, um nauðungarvistun hans á deild 33C á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Af hálfu varnaraðila, B, kt. [...], móður sóknaraðila, til heimilis á sama stað, var kröfunni mótmælt og þess krafist að nauðungarvistunin héldi gildi sínu.

Með beiðni, dagsettri 4. september sl., óskaði varnaraðili eftir því við dómsmálaráðuneytið að sóknaraðili yrði nauðungarvistaður með vísan til ákvæða 19. gr., sbr. 20. og 21. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Dómsmálaráðuneytið samþykkti nauðungarvistun sóknaraðila með bréfi dagsettu 6. september sl.

Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að ekki séu fyrir hendi skilyrði 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga til nauðungarvistunar hans.

Af hálfu varnaraðila er á því byggt að skilyrði nauðungarvistunar hafi verið og séu enn til staðar og er vísað til framlagðs læknisvottorðs C geðlæknis og vættis D yfirlæknis fyrir dómi.

Í læknisvottorði C geðlæknis, dagsettu 5. september sl., kemur fram að sóknaraðili hafi greinst með aðsóknargeðklofa. Hann hafi lagst inn á geðdeild sjúkrahúss í Vínarborg haustið 2008 og þá verið með alvarleg geðrofseinkenni. Í janúarmánuði síðastliðnum hafi hann verið lagður inn á bráðageðdeild Landspítala og þá haft ranghugmyndir og verið ógnandi á heimili sínu. Hafi hann verið vistaður nauðugur framan af, en náð ágætum bata og í framhaldi verið í tæpa 4 mánuði í endurhæfingu á Kleppsspítala. Eftir útskrift hafi hann unnið um tíma, en líðan hans síðan farið versnandi. Sóknaraðili hafi ekkert sjúkdómsinnsæi og hafi að sögn ættingja hætt lyfjameðferð. Undanfarnar vikur hafi borið á vaxandi sjúkdómseinkennum, félagslegri einangrun, undarlegri hegðun og hótunum í garð ættingja. Þá hafi sóknaraðili áformað að fara úr landi. Sóknaraðili sé mjög tortrygginn og var um sig þegar við hann sé rætt. Að mati læknisins er hann veikur og þarfnast meðferðar á sjúkrahúsi. Hann sé hins vegar mótfallinn innlögn og því óhjákvæmilegt að hann verði vistaður á sjúkrahúsi gegn vilja sínum.

D yfirlæknir kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið læknir sóknaraðila um nokkurt skeið. Hafi meðferð hans fyrr á árinu gefið góða raun. Síðla í ágúst hafi sóknaraðili hins vegar farið að hegða sér undarlega. Eftir að uppvíst varð að hann hefði pantað sér farmiða til útlanda hafi verið ákveðið að leggja hann inn á geðdeild á ný. Við innlögn hafi læknar talið hann vera með með bráðaeinkenni geðklofa. Vonast sé til þess að hann muni nú sem fyrr svara vel meðferð. Vandinn sé hins vegar sá að hann vilji ekki dvelja á sjúkrahúsinu.

Sóknaraðili kom fyrir dóminum og talaði máli sínu. Hann kvað móður sína hafa sagt læknum að hann væri veikur svo að hún gæti haft stjórn á honum. Hún hafi með þessu viljað koma í veg fyrir að hann kæmist úr landi til að hitta föður sinn. Hann kvaðst taka geðlyf sín. Hann kvaðst ekki hafa talið sig veikan þegar hann ræddi við geðlækni eftir innlögn á geðdeild. Honum hafi ekki liðið eins og hann væri veikur. Hins vegar verði hann að „taka það gilt“ ef læknir segi hann veikan.

Með læknisvottorði C geðlæknis og vætti D yfirlæknis hefur verið sýnt fram á að sóknaraðili er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi og að nauðsynlegt er að hann njóti viðeigandi læknismeðferðar. Af framburði sóknaraðila fyrir dóminum verður hins vegar ráðið að hann hefur takmarkað innsæi í ástand sitt og að vilji hans sjálfs til að leita lækninga við sjúkdómi sínum er ekki einbeittur. Er það niðurstaða dómsins að uppfyllt séu skilyrði 2. og 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga fyrir nauðungarvistun sóknaraðila. Er kröfu sóknaraðila því hafnað.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðra talsmanna sóknaraðila og varnaraðila úr ríkissjóði, 74.700 krónur til hvors um sig, að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ragnheiður Harðardóttir settur héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu A, kt. [...], um niðurfellingu nauðungarvistunar á sjúkrahúsi sem ákveðin var af dómsmálaráðuneyti þann 6. september 2009.

Þóknun skipaðra talsmanna sóknar- og varnaraðila, Erlendar Þórs Gunnarssonar hdl. og Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hrl., 74.700 krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði.