Hæstiréttur íslands

Mál nr. 23/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dánarbússkipti
  • Afsal arfs


Miðvikudaginn 25

 

Miðvikudaginn 25. febrúar 2004.

Nr. 23/2004.

X

(Magnús B. Brynjólfsson hdl.)

gegn

A

B

C

D

E

F

G

H og

I

(Þorsteinn Einarsson hrl.)

 

Kærumál. Dánarbússkipti. Afsal arfs.

X krafðist þess að yfirlýsing um gagnkvæmt erfðaafsal í kaupmála X og eiginkonu hans yrði talin ógild þannig að hann tæki lögarf úr öllu dánarbúi eiginkonunnar. Enn fremur krafðist hann að yfirlýsing um afsal búseturéttar samkvæmt ákvæðum kaupmálans, sem hann gaf eftir fráfall hennar, yrði talin ógild. Talið var að X hefði afsalað sér arftökurétti eftir eiginkonu sína með yfirlýsingu sinni í kaupmálanum í samræmi við 28. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Þá var talið að X hefði ekki tekist að sýna nægilega fram á þau atvik er valdið gætu ógildi síðari yfirlýsingarinnar um afsal búseturéttarins. Var kröfum X því hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. desember 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. janúar 2004. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. desember 2003, þar sem hafnað var kröfum sóknaraðila um tilkall til arfs úr dánarbúi Y og búseturétt í íbúð að Q. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að úrskurður héraðsdómara verði felldur úr gildi og fallist verði á að hann taki lögarf úr öllu dánarbúi Y, þar með töldu andvirði íbúðarinnar að Q, en til vara að yfirlýsing hans 24. maí 2002 um „afsal á arfsrétti og búseturétti“ að fyrrnefndri fasteign verði dæmd ógild. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir héraðsdómi og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og að þeim verði dæmdur kærumálskostnaður.

I.

          Samkvæmt gögnum málsins lést Y 12. maí 2002. Sóknaraðili er eftirlifandi eiginmaður hennar en þau munu hafa gengið í hjónaband á árinu 1992.

          Varnaraðilar eru börn og barnabörn Y. Sóknaraðili og Y gerðu með sér kaupmála 3. mars 1995, sem var skrásettur í kaupmálabók sama dag. Samkvæmt honum var íbúð að Q séreign Y, en trillubáturinn [...] séreign sóknaraðila. Í kaupmálanum var svohljóðandi ákvæði: „Undirrituð afsala sér öllum arfsrétti eftir hvort annað. Ef [X] lifir [Y] skal hann hafa búseturétt án leigugjalds í íbúðinni að [Q] svo lengi sem hann óskar eftir því. Skal hann þá svara til skatta og skyldna af íbúðinni auk minniháttar viðhaldskostnaðar (minna en kr. 100.000 á ári) sem kann að verða.“ Á kaupmálann var ritað vottorð lögbókanda í Reykjavík með þeim efnisatriðum, sem greinir í 80. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, sem og vottorð sýslumannsins í Reykjavík í samræmi við aðrar formkröfur XII. kafla sömu laga.

          Í málinu liggur fyrir yfirlýsing undirrituð af sóknaraðila 24. maí 2002 þar sem hann lýsir því yfir að hann afsali sér „öllum arfsrétti eftir [Y]“ og falli frá „ákvæðum kaupmála um búseturétt að [Q].“ Sóknaraðili krafðist 26. júní 2002 opinberra skipta á dánarbúi Y og var sú krafa tekin til greina með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 15. nóvember árs. Í bréfi til skiptastjóra 16. desember 2002 krafðist sóknaraðili meðal annars að sér yrði úthlutaður lögarfur úr dánarbúi Y. Skyldi íbúðin að Q einnig falla undir skiptin jafnframt því sem búseturéttur hans þar yrði virtur. Skiptafundir voru haldnir í dánarbúinu 8. maí og 2. september 2003 en ekki tókst að jafna þar ágreining aðila. Beindi skiptastjóri honum því til Héraðsdóms Reykjavíkur 22. september 2003 og var mál þetta þingfest af því tilefni 10. október sama árs. Í málinu liggur fyrir að skiptastjóri hafi með kaupsamningi 8. september 2003 gengið frá sölu á umræddri íbúð.

II.

Í máli þessu deila aðilar um gildi yfirlýsingar í kaupmála Y og sóknaraðila 3. mars 1995 um gagnkvæmt erfðaafsal þeirra sem og yfirlýsingu sóknaraðila 24. maí 2002 þar sem hann afsalaði sér „öllum arfsrétti“ eftir Y og féll jafnframt frá ákvæðum kaupmálans um búseturétt að Q.

Sóknaraðili heldur því fram að fyrrnefndur kaupmáli sé ekki gildur erfðagerningur þar sem afsal erfðaréttar skuli fara samkvæmt ákvæðum erfðalaga nr. 8/1962 um form erfðaskráa. Þá bendir hann jafnframt á að það sé grundvallarregla samkvæmt 28. gr. erfðalaga að erfingi geti einungis afsalað sér arfi í hendur arfleifanda. Hafi sóknaraðili því ekki getað afsalað arfshluta sínum gagnvart samörfum í fyrrnefndri yfirlýsingu 24. maí 2002. Þar sé heldur ekki getið um höfnun arfs og sé yfirlýsingin því ógild. Auk þessa heldur sóknaraðili því fram að yfirlýsingin sé ógild í ljósi þeirrar aðferðar, sem notuð var til að afla undirritunar hans. Hafi hann verið þvingaður til að skrifa undir yfirlýsinguna án þess að vera kynnt efni hennar. Máli sínu til stuðnings vísar sóknaraðili sérstaklega til læknisvottorðs, sem hann hefur lagt fyrir Hæstarétt.

Varnaraðilar benda á að sóknaraðili og Y hafi afsalað sér arfi eftir hvort annað í umræddum kaupmála, en erfðalög setji engin formskilyrði fyrir erfðaafsali. Hafi sóknaraðili áréttað erfðaafsalið í umræddri yfirlýsingu 24. maí 2002, þar sem hann hafi jafnframt afsalað sér búseturétti sem honum var tryggður í kaupmálanum. Hafna varnaraðilar því að sóknaraðili hafi á einhvern hátt verið neyddur til að rita undir yfirlýsinguna. Þá mótmæla varnaraðilar því að búseturéttur, sem tilgreindur er í fyrrnefndum kaupmála, teljist til arfs í skilningi erfðalaga. Um sé að ræða viljayfirlýsingu, enda skorti formskilyrði erfðalaga svo búseturétturinn geti talist arfur. Þá hafi búseturétturinn eingöngu verið ætlaður sóknaraðila og þannig hvorki ætlað að ganga til niðja hans né annarra síðar. Eigi ákvæði erfðalaga því hvorki við um ætlaðan búseturétt sóknaraðila né umrædda yfirlýsingu. Hafi sóknaraðili hvað sem öðru líður hafnað arfi, þar með talið búseturétti sínum, með yfirlýsingu sinni. Það hafi hann gert fjárráða og andlega heill heilsu, en fullyrðingar um annað séu rangar og ósannaðar. Benda varnaraðilar á að sóknaraðila hafi verið kunnugt um efni yfirlýsingarinnar löngu áður en hann undirritaði hana.

III.

Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. erfðalaga er erfingja heimilt að afsala sér arftökurétti í hendur þeim, sem hann á arfsvon að, hvort sem það er gert fyrir nokkuð eða ekkert. Sá, sem afsalar sér arfi, verður samkvæmt ákvæðinu að vera fjárráða. Í 2. mgr. sömu greinar er tekið fram að afsal skuldbindi niðja þess, er afsalar sér arfi, eins og hann sjálfan ef ekki er annars getið. Ekki er gerður neinn sérstakur áskilnaður um form erfðaafsals í erfðalögum.

Eins og áður var getið lýstu sóknaraðili og eiginkona hans, Y, því yfir í kaupmála sínum að þau afsöluðu sér öllum arfsrétti eftir hvort annað. Verður yfirlýsing þessi ekki skilin öðruvísi en svo að sóknaraðili hafi afsalað sér arftökurétti eftir eiginkonu sína í samræmi við ákvæði 28. gr. erfðalaga. Er ekkert komið fram í málinu, sem getur valdið því að þessi yfirlýsing verði talin ógild. Þá verður með vísan til ákvæða 40. gr. - 44. gr. erfðalaga um form erfðaskráa ekki heldur fallist á að yfirlýsing í kaupmálanum um búseturétt sóknaraðila í íbúðinni að Q hafi verið arfur í skilningi erfðalaga. Verður ekki annað séð en að um sé að ræða einhliða yfirlýsingu Y, eiginkonu sóknaraðila og eiganda fasteignarinnar samkvæmt efni kaupmálans, um rétt sóknaraðila til að búa í íbúðinni svo lengi sem hann óski þess. Loks verður ekki talið að sóknaraðila hafi tekist nægilega að sýna fram á þau atvik er valdið gætu ógildi yfirlýsingar þeirrar, sem hann gaf 24. maí 2002, um afsal fyrrnefnds búseturéttar í íbúðinni að Q. Með vísan til alls framangreinds verður ekki fallist á kröfur sóknaraðila í málinu. 

Rétt er að aðilarnir beri hvert sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hafnað er kröfum sóknaraðila, X, um að hann taki lögarf úr dánarbúi Y. Jafnframt er hafnað þeirri kröfu sóknaraðila að yfirlýsing hans 24. maí 2002 sé ógild.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur11. desember 2003.

Mál þetta var þingfest 10. október 2003 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 3. þ.m.

Sóknaraðili er X.

Varnaraðilar eru: A, B, C, D, E, F, og I, G og H.

 

Dómkröfur sóknaraðila er aðallega að hann taki lögarf úr öllu dánarbúi Y, eiginkonu sinnar, þ.m.t. af andvirði íbúðar að Q.  Til vara að yfirlýsing sóknaraðila um afsal á arfsrétti og búseturétti að Q, dags. 24.05.2002, verði dæmd ógild.  Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar að mati dómsins auk virðisaukaskatts.

 

Dómkröfur varnaraðila eru að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að staðfest verði með dómi ákvörðun skiptastjóra frá 2. september 2003 að sóknaraðili eigi hvorki tilkall til arfs úr dánarbúi Y, né búseturétt í Q.  Þá krefjast varnaraðilar að sóknaraðili verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að skaðlausu skv. mati dómsins.

 

Helstu málavextir eru að dánarbú Y, var tekið til opinberra skipta 15. nóvember 2002, en Y lést 12. maí 2002 og var þá búsett að Q þar sem hún átti íbúð.

                Á skiptafundum hjá skiptastjóra 8. maí og 2. september 2003 kom fram ágreiningur milli sóknaraðila annars vegar og varnaraðila hins vegar um það, hvort sóknaraðili ætti tilkall til arfs eftir hina látnu og rétt til að búa í Q með þeim skilyrðum sem tilteknir eru í kaupmála hjónanna 3. mars 1995.  Þá var og ágreiningur um fjárkröfu sóknaraðila vegna þess tíma sem hann hafi ekki haft umráð eignarinnar.

                Skiptastjóra tókst ekki að jafna ágreining aðila og var þá málinu vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur með bréfi skiptastjóra sem móttekið var þar 26. september sl.

 

Sóknaraðili byggir á því að kaupmáli milli hans og konu hans, Y, frá 3. mars 1995 gildi ekki sem erfðagerningur.  Ákvæði um afsal alls erfðaréttar eigi heima í erfðaskrá en ekki í kaupmála.  Kaupmálinn hafi ekki uppfyllt formreglur um erfðaskrá, sbr. 40. gr. - 43. gr. erfðalaga nr. 8/1962.  Kaupmálinn hafi verið gerður til mæla fyrir um hvaða eignir væru séreignir hvors um sig.  Ekki hafi verið ætlað með honum að ráðstafa arfi.  Þá verði ekki ráðið af hjúskaparlögum nr. 31/1993 varðandi kaupmála að heimilt sé með kaupmála að afsala sér arfi.  Afsal á öllum arfi milli aðila verði ekki gert nema með erfðaskrá.  Þessi meginregla fái stuðning í l. mgr. 77. gr. hjúskaparlaga, þar sem segir berum orðum að ákvarðanir um arf skulu vera í erfðaskrá. Í erfðalögum nr. 8/1962 sé einnig sérstaklega fjallað um arfsafsal og hvernig standa eigi að erfðaskrá með það í huga.

Af hálfu sóknaraðila er einnig vísað til þess að með kaupmála hafi ekki verið ráðstafað lausafé sóknaraðila og Y heitinnar.  Engin sérgreining eða listi hafi verið gerður um lausaféð.  Ekki verður séð af bókunum skiptastjóra að hann hafi látið fara fram uppskrift á innanstokksmunum en bókun liggur fyrir um að hún muni fara fram.  Þeir munir falla því allir undir hjúskapareignir sem komi til opinberra skipta.

Varakröfu sína byggir sóknaraðili á því að yfirlýsing hans 24. maí 2002, um að hann afsali sér öllum arfsrétti eftir Y og falli frá ákvæðum kaupmála um búseturétt að Q, sé ógildur gerningur.  C og J hafi þvingað hann til að rita undir yfirlýsinguna.  Þá er því haldið fram að samkvæmt 28. gr. erfðalaga nr. 8/1962 sé ekki heimilt að afsala sér arfi eftir látinn mann.  „Slíkt verður að eiga sér stað er báðir aðilar eru á lífi eða í inter vivos gerningi milli aðila.  Það var m.ö.o. óheimilt með öllu að afsala sér arfi eftir Y eftir lát hennar."

 

Af hálfu varnaraðila er á því byggt að sóknaraðili og Y heitin hafi fallið frá öllum arfsrétti eftir hvort annað með kaupmála sem þau staðfestu hjá lögbókanda Reykjavíkur þann 3. mars 1995.  Samkvæmt 28. gr. erfðalaga nr. 8/1962 sé erfingja heimilt að afsala sér arftökurétti á hendur þeim, sem hann á arfsvon að, hvort sem það er gert fyrir nokkuð eða ekkert.  Hvergi í lögum komi fram að hjón geti ekki, með þeim hætti sem Y og sóknaraðili gerðu, afsalað sér gagnkvæmum erfðarétti.  Þvert á móti sé eingöngu eitt skilyrði í erfðalögum fyrir erfðaafsali, þ.e. að sá sem afsalar sér arfi sé fjárráða.  Ekkert hafi annað komið fram en að sóknaraðili hafi verið fjárráða 3. mars 1995 og er raunar fjárræði beggja staðfest með undirskrift sýslumannsembættisins í Reykjavík.  Erfðalögin setji engin formskilyrði fyrir erfðaafsali þótt æskilegt sé talið að það sé skriflegt.  Erfðaafsal sóknaraðila sé að finna í áðurgreindum kaupmála og þannig nægilega sannað.

Þá er vísað til þess að sóknaraðili hafi ítrekað erfðaafsalið í yfirlýsingu sem hann undirritaði þann 24. maí 2002.  Í því sama skjali hafi hann afsalað sér búseturéttinum sem kaupmálinn tryggði honum.  Búseturéttinn hafði hann áður gefið frá sér munnlega við varnaraðila auk þess sem hann hafði sjálfur flutt úr íbúðinni að Q.  Umrædd yfirlýsing sóknaraðila 24. maí 2002 sé til stuðnings erfðaafsali sóknaraðili sem fram kom í kaupmálanum 3. mars 1995.  En hvað sem kaupmálanum líði liggi jafnframt fyrir að yfirlýsingin 24. maí 2002 standi jafnframt sem sjálfstæður gjörningur þar sem sóknaraðili afsalar sér arfi og búseturétti. 

Því er með öllu hafnað að sóknaraðili hafi á einhvern hátt verið neyddur til að rita undir yfirlýsinguna frá 24. maí 2002 enda hafi sóknaraðili fallist á þennan gjörning þann 14. sama mánaðar.  Háttsemi sóknaraðila um þetta leyti staðfesti að sóknaraðili hafi ekki verið beittur ólögmætri nauðung því m.a. hafi hann sjálfur  tilkynnt Hagstofu Íslands að hafa flutt 12. maí frá Q að Æ 20 þann 31. maí 2002.

 

Niðurstaða:  Ekkert haldbært kemur fram í málinu sem réttlætir ógildingu yfirlýsingar sóknaraðila og hinnar látnu, Y, um að þau afsali sér öllum arfsrétti eftir hvort annað, svo sem greinir í umræddum kaupmála þeirra.  Þá liggur heldur ekki fyrir óvefengjanleg ástæða til að ógilda yfirlýsingu sóknaraðila frá 24. maí 2002 um að hann falli frá ákvæðum kaupmálans um búseturétt að Q.

                Samkvæmt framangreindu, og að öðru leyti með vísun til rökstuðnings varnaraðila, verður kröfum sóknaraðila hafnað.  Jafnframt verður staðfest ákvörðun skiptastjóra á skiptafundi 2. september 2003 að sóknaraðili eigi hvorki tilkall til arfs úr dánarbúi Y né búseturétt í íbúð hinnar látnu að Q.

                Rétt er að sóknaraðili greiði varnaraðilum óskipt samtals 180.000 kr. í málskostnað.

                Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

                Hafnað er kröfum sóknaraðila, X.

                Staðfest er ákvörðun skiptastjóra dánarbús Y á skiptafundi 2. september 2003 að sóknaraðili eigi hvorki tilkall til arfs úr dánarbúinu né búseturétt í íbúð hinnar látnu að Q.

Sóknaraðili greiði varnaraðilum, A, B, C, D, E, F, I, G og H, óskipt samtals 180.000 kr. í málskostnað.