Hæstiréttur íslands
Mál nr. 511/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Miðvikudaginn 9. september 2009. |
|
Nr. 511/2009. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (Jón Höskuldsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. september 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. september 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 2. október 2009 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að hann verði látinn sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds, en til þrautavara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 4. september 2009.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði X, kt. [...], [...], Kópavogi, til að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 2. október nk. kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að hinn 13. ágúst sl., um kl. 12:35, hafi kærði verið handtekinn, ásamt sambýliskonu sinni, A, við verslunina Y að [...] í Reykjavík. Í fórum A hafi fundist skartgripir sem stolnir voru í innbroti í íbúðarhúsnæði að Æ í Reykjavík þann 8. ágúst sl.
Í framhaldi hafi lögreglan framkvæmt húsleit á heimili kærða að Z í Kópavogi, þar sem hald var lagt á gífurlegt magn skartgripa, myndavéla og annarra muna sem í ljós hefur komið að séu illa fengnir.
Í þágu rannsóknar málsins hafi kærði sætt gæsluvarðhaldi frá 14. ágúst sl., nú síðast með dómi Hæstaréttar Íslands nr. 492/2009.
Það sem rannsókn málsins hafi leitt í ljós sé að kærði er nú sterklega grunaður um aðild að neðangreindum málum:
007-2009-15507
Fyrir hilmingu með því að hafa haft í vörslum sínum á heimili sínu að Z í Kópavogi fartölvu af gerðinni Apple Mac Book, en tölvunni var stolið í innbroti að Þ í Reykjavík þann 14 mars sl. Kærði kveðist hafa keypt umrædda tölvu og haft grun um að hún væri illa fengin.
007-2009-40726
Fyrir hilmingu með því að hafa haft í vörslum sínum á heimili sínu að Z í Kópavogi Ipod og útvarpssendi sem stolið var í innbroti í bifreið við Ö í Kópavogi 1. júlí 2009. Kærði kveðist hafa fengið umrædda muni hjá manni að nafni B. Hann kveðist hafa ekið B að umræddri bifreið og séð hann brjótast inn í hana og svo þegið þessa muni hjá honum endurgjaldslaust.
007-2009-41688
Fyrir hilmingu með því að hafa haft í fórum sínum á heimili sínu að Z í Kópavogi myndavélakort, sem stolið var úr bifreið, þar sem hún stóð við Hallgrímskirkju í Reykjavík 6. júlí 2009. Kærði kveðist hafa keypt myndavélar af manni að nafni C og hafi umrætt myndavélakort fylgt með í þeim kaupum. Hann kveðist hafa haft vitneskju um að myndavélarnar væru þýfi.
007-2009-44660
Fyrir hilmingu með því að hafa haft í fórum sínum á heimili sínu að Z í Kópavogi, kúbverska peningaseðla sem stolnir voru úr bifreið við Holtagerði í Kópavogi 21. júlí 2009. Kærði kveðist hafa fengið umrædda seðla hjá manni að nafni C.
007-2009-46033
Fyrir þjófnað, eða eftirfarandi þjófnað, með því að hafa föstudaginn 21. júlí 2009, brotist í félagi við tvo nafngreinda men inn í íbúðarhúsnæði að R í Hafnarfirði og stolið þaðan skartgripum, fartölvu, fatnaði og playstation tölvuleikjum.
Kærði hafi kannast við að hafa ekið tveimur mönnum að umræddu húsi, þar hafi allir farið út úr bifreiðinni, hann staðið fyrir utan á meðan mennirnir fóru inn húsnæðið og svo ekið þeim frá vettvangi og þegið skartgripi og tölvuleiki úr innbrotinu.
007-2009-46547
Fyrir hilmingu með því að hafa haft í fórum sínum á heimili sínu að Z í Kópavogi, skargripi sem stolnir voru í innbroti að S í Garðabæ 31. júlí 2009 og jafnframt selt nafngreindum aðila hluta af skartgripunum. Kærði hafi viðurkennt að hafa keypt þessa skartgripi af manni að nafni C, vitandi að um þjófstolna muni væri að ræða og selt hluta þeirra D.
007-2009-48965
Fyrir þjófnað, með því að hafa miðvikudaginn 12. ágúst 2009, brotist í félagi við nafngreindan aðila inn í íbúðarhúsnæðið að T í Reykjavík, stolið þaðan margvíslegum munum, s.s. skartgripum tölvubúnaði, áfengi, borðbúnaði o.fl.
Kærði hafi viðurkennt innbrotið.
007-2009-46994
Fyrir hilmingu með því að hafa haft í fórum sínum á heimili sínu að Z í Kópavogi, tvær fartölvur, myndavél, vasaljós og minnislykla, sem stolnir voru í innbrot að U í Kópavogi þann 3 ágúst 2009 og jafnframt selt aðra fartölvuna nafngreindum manni. Kærði kveðist kannast við að hafa haft vörslur umræddra muna. Hann kveðist hafa fengið munina hjá C, þ.e.a.s. keypt fartölvurnar á 45.000 krónur, minnislyklarnir, vasaljósið og myndavélin hafi fylgt með í kaupbæti. Hann kveðist hafa haft vitneskju um að munirnir væru illa fengnir. Þá hafi hann kannast við að hafa selt aðra tölvuna.
007-2009-47917
Fyrir hilmingu með því að hafa haft í fórum sínum á heimili sínu að Z í Kópavogi, fæðubótaefni, sem stolið var í innbroti í verslunina Ú að V í Reykjavík þann 7. ágúst 2009. Kærði kannist við málið. Hann hafi vitað um innbrotið í umrædda verslun og tekið við fæðubótaefninu vitandi að því hafi verið stolið.
007-2009-48170
Fyrir hilmingu með því að hafa haft í fórum sínum á heimili sínu að Z í Kópavogi, skartgripi sem stolið var í innbroti að Æ í Reykjavík 8. ágúst 2009 og jafnframt selt hluta þess til nafngreinds aðila. Kærði kveðist hafa móttekið umrædda skartgripi úr höndum C, vitandi að þeir væru illa fengnir og selt hluta þeirra D
007-2009-48511
Fyrir hilmingu með því að hafa haft í fórum sínum á heimili sínu að Z í Kópavogi, skartgripi, blandara og handtösku, sem stolið var í innbroti að M í Kópavogi 10. ágúst 2009. Kærði kveðist hafa keypt munina af C 12 .ágúst sl., vitandi að um þjófstolna muni væri að ræða.
007-2009-48739
Fyrir þjófnað, með því að hafa sunnudaginn 9. ágúst 2009, í félagi við nafngreindan aðila, brotist inn í íbúðarhúsnæði að N í Reykjavík, og stolið þaðan hörðum disk af gerðinni Apple Airport. Kærði hafi viðurkennt brotið.
Með vísan til gagna málsins og framburðar kærða hjá lögreglu sé ljóst að hann sé undir rökstuddum grun um að hafa framið fjölmörg afbrot, sem fangelsisrefsing sé lögð við. Þá verði að telja, í ljósi brotaferils hans, yfirgnæfandi líkur fyrir því að hann muni halda áfram afbrotum gangi hann frjáls ferða sinna.
Það sé mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að lagaskilyrðum síbrotagæslu séu fullnægt og því nauðsynlegt að kærða verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, svo unnt verði að ljúka málum hans hjá lögreglu og dómstólum.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Með vísan til þess sem að framan var rakið úr greinargerð lögreglustjóra og rannsóknargagna málsins er það mat dómsins að kærði sé undir rökstuddum grun um að eiga aðild að fjölmörgum auðgunarbrotum sem þar er gerð grein fyrir. Þegar litið er til þess telur dómurinn að uppfyllt séu skilyrði c liðar 1. mgr. 95. gr. 88/2008 til að verða við kröfu lögreglustjóra um gæsluvarðhald. Með hliðsjón af framangreindu þykja vægari úrræði ekki koma til greina og verður krafan tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, kt. [...], skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 2. október nk. kl. 16:00.